Leita í fréttum mbl.is

Hvort er mikilvægara: Völdin eða samviskan?

Ég get ekki annað en furðað mig á þeirri umræðu sem upphófst í síðustu viku við það að þrír þingmenn VG gátu ekki samvisku sinnar vegna stutt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.  Þessir þrír þingmenn hafa, ásamt þremur öðrum, verið mjög opinskáir í gagnrýni sinni á mjög margt í stefnu núverandi stjórnar.  Maður hefði haldið að flokkssystkini þeirri hefðu gripið það fegins hendi að reynt væri að koma í veg fyrir að stjórnarsamstarfið litaðist um of af sjónarmiðum hins stjórnarflokksins, en það er öðru nær.

Ég hef fylgst með störfum Lilju Mósesdóttur undanfarna 18 mánuði eða svo.  Er hún einn fárra þingmanna sem ég hef átt í samskiptum við, sem ég veit að breytir ekki málflutningi sínum um leið og snúið er baki við manni.  (Tekið skal fram að ég hef svo sem ekki verið í samskiptum við nema svona 20 - 30 þingmenn vegna starfa minna fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, þannig að fjölmarga þingmenn þekki ég lítið eða ekki neitt.)  Í samræðum við hana getur maður alltaf gengið að málefnalegir umræðu og málefnalegir hugsun.  Hennar rök hafa vissulega tekið breytingum, en það er fyrst og fremst vegna þess að ný sjónarhorn hafa komið fram og nýjar upplýsingar verið opinberaðar.

En hvers vegna eru viðbrögð einstakra stjórnarliða jafn ofsafengin og raun ber vitni? Hvað fær formann þingflokks VG, formann fjárlaganefndar og fleiri stjórnarþingmenn til að stíga fram með blammeringar og hótanir í garð þess fólks sem vill að stjórnarflokkarnir standi vörð um heimilin í landinu, velferðarkerfið og ekki síst fylgi stjórnarsáttmálanum?  Af öllum stjórnarþingmönnum, sem stigið hafa fram, furða ég mig mest á orðum Björns Vals Gíslasonar.  Hann lætur eins og enginn megi hafa aðra skoðun en hann.  Það sem veldur mér samt mestum áhyggjum varðandi yfirlýsingar hans, er að hann er almennt talinn segja það sem Steingrímur J. getur ekki sagt stöðu sinnar vegna.  Að Björn Valur segi að þremenningarnir eigi sér ekki framtíð innan VG verður því að túlkast sem svo að Steingrímu J. telji svo vera og á meðan hann stígur ekki fram og andmælir þessum orð Björns Vals, þá lít ég svo á, að Björn Valur hafi látið þessi orð flakka með samþykki og að beiðni Steingríms.

Þingmönnum Samfylkingarinnar er viss vorkunn.  Margir þeirra munu ekki halda þingsætum sínum verði efnt til kosninga á næstu mánuðum.  Þeir horfa því upp á að skoðanafrelsi þremenninganna sé að stefna þingmennsku þeirra í voða.  Ég held að þessir þingmenn geti helst dregið þann lærdóm af þessu, að betra væri fyrir þá að standa með almenningi í landinu og verja velferðarkerfið, en að keyra allt hér gjörsamlega á kaf.

Mér sýnist sem tvær framtíðarsýnir mínar frá því í fyrra sé að verða að veruleika.  Önnur var sú, að Samfylkingin ætlaði að keyra þjóðfélagið svo í gólfið, að fólk hrópaði eftir afskiptum ESB.  Hin var að Steingrímur J. myndi nota aðstöðu sína til að refsa landsmönnum fyrir að hafa ekki hleypt honum fyrr að kjötkötlunum.

Nú eru að verða þrjú ár síðan að krónan féll og þar með spilaborg fjármálafyrirtækjanna.  Á þessum þremur árum, og sérstaklega síðustu tveimur, hafa tveir hópar þurft að taka út ógurlega refsingu afglapa fjármálafyrirtækjanna, stjórnvalda og embættismanna.  Annar er heimili landsins og hinn samanstendur af fyrirtækjum sem á engan hátt tengdust stjórnendum eða eigendum fjármálafyrirtækjanna.  Eignir heimilanna og fyrirtækjanna hafa runnið óbættar til fjármálafyrirtækja, sem stofnuð voru á rústum bankanna þriggja.  Sýndarmennskuafskriftir hafa átt sér stað, en að nær engu leiti hafa bankarnir gefið eftir annað en það sem hvort eð er var tapað.  Krafa AGS um viðeigandi skuldaniðurfellingu til lífvænlegra lántaka hefur verið nær algjörlega hunsuð.  Eina sem gert hefur verið, er að afskrifa það sem var óinnheimtanlegt.

Ríkissjóður hefur þegar borið ríflega 1.300 milljarða kostnað vegna bankahrunsins.  Þessi kostnaður verður greiddur af komandi kynslóðum, þó eitthvað komi til baka með sölu eigna.  Hvað eftir annað hafa stjórnvöld geta farið vægari leiðir í skattheimtu eða innleitt úrræði sem nýttust fjöldanum.  Nei, almenningur skal taka eins stóran skell eins og hægt er.  Húsnæðiseigendur skulu tapa eignum sínum.  Lífeyrisþegar skulu búa við skertar bætur.  Þjónusta við landsbyggðarfólk skal skorin við trog.  Það er eins og ekki megi hugsa út fyrir kassann og þeir sem voga sér að gera það, eins og Lilja Mósesdóttir, þeir eru sagðir andfélagslegir.

Ég hef fylgst með störfum nokkurra nefnda Alþingis og verð því miður að segja, að fátt er um sjálfstæð vinnubrögð.  Röksemdir eiga alls ekki upp á pallborð hjá þeim og komi fyrirmælin ekki beint úr ráðuneytinu, þá þorir engin að hreyfa við breytingum.  Kostulegast fannst mér símtalið, sem ég fékk á laugardagsmorgni frá nefndarmanni í efnahags- og skattanefnd, en sú nefnd fjallaði um gengislánafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra.  Spurningin sem ég fékk var:  Skilur þú hvernig þetta er reiknað?  Önnur umræða var afstaðin og þingmaðurinn var ekki viss hvort hann skildi innhald frumvarpsins!  Ekki skal taka þessu þannig, að ég sé að gagnrýna þingmanninn.  Spurningin var skiljanleg, þar sem frumvarpið er óskiljanlegt og þar með lögin.  Stjórnarliðar voru að þjösna frumvarpinu í gegn án þess að vinna verk sitt.  Og ekki í fyrsta skiptið.  Í fyrra voru samþykkt lög nr. 107/2009 um aðgerðir fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldeyrishruns.  Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna vöruðum ákaft við því frumvarpi.  Ári síðar hafði allt komið fram sem við vöruðum við.  Þetta er því miður veruleikinn á Alþingi.  Menn eru svo uppteknir við að þóknast ríkisstjórninni og fjármálafyrirtækjunum að menn gleyma réttsýni og rökhyggju.  Kannski hafa menn ekki tíma til vinna verk sín af kostgæfni.  Kannski skortir þá áhuga eða getu.

Það er inn í þetta umhverfi sem Lilja Mósesdóttir og nokkrir aðrir þingmenn hafa stigið með þá fáránlegu kröfu, að mati fjölda annarra þingmanna, að þingmenn hugsi sjálfstætt og í samræmi við sannfæringu sína.  Þessi eðlilega krafa hefur reynst mörgum þingmönnum ofviða.  Það er öruggara að samþykkja ruglið, en að rugga bátnum.  Þeir sem rugga bátnum fá nefnilega fyrir ferðina.

Lilja, Ásmundur og Atli, við ykkur vil ég segja: 

Þið eruð menn að meiru að standa á sannfæringu ykkar.  Þið eigið heiður skilinn fyrir þann kjark og þor sem þið sýnduð.


mbl.is Lilja lögð í pólitískt einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo ótrúlegt fimbulfamb að það er eiginlega ekki hægt að svara því nema í mjög löngu máli, sem ég nenni engan veginn að gera.  En svo rakst ég á þetta:

 

“Lífeyrisþegar skulu búa við skertar bætur...”

 

Bíddu nú við.  Ertu í alvöru að saka ríkisstjórnina um að grípa til aðgerða sem skerða bætur lífeyrisþega?  Var það ekki meginkrafa Hagsmunasamtaka heimilanna, og sem Lilja Mósesdóttir tók heilshugar undir, að færa tugi, ef ekki hundruði, milljarða frá lífeyrissjóðunum til skuldugra húseigenda?  Sem hefði sannarlega skert bætur lífeyrisþega.  Ertu ekki aðeins að snúa hlutunum við núna?

 

Auk þess hefur helsta baráttumál Lilju verið að skattleggja innborganir í lífeyrissjóði og þannig ræna komandi kynslóðir skatttekjum sínum.

 

Það hefur lengi legið fyrir að þú ert í herferð gegn VG og Samfylkingu, en er ekki lágmarkskrafa að þú byggir gagnrýni þína á staðreyndum?  Þú hlýtur að geta fundið gagnrýnisverð atriði án þess að ljúga þeim upp.

 

“Þremenningarnir” í VG virðast alls ekki þola málefnalega gagnrýni.  Þeir væla stöðugt um einelti og níð.  En hafa ekki enn getað komið með neitt konkret dæmi um slíkt.  Agnes Bragadóttir og ýmsir bloggarar, eins og þú til dæmis, hafa tekið undir þennan söng, en enginn getur bent á dæmi um þetta níð.  Allir hafa “heyrt” um tölvupósta en enginn hefur séð þá.  Þetta er ekki boðlegur málflutningur.

 

Gísli (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 02:44

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Marínó.

Takk fyrir mjög góða færslu sem greinir ástandið svo vel.  Og er svo sorglega sönn, jafnvel Hugleikur gæti ekki í absúrd sköpunarheimi sínum skapað eitthvað sem slær raunveruleikanum við.

Ég veit að þú átt eftir að útskýra í rólegheitum fyrir Gísla hér að ofan, að efnahagsstefna sem gengur frá heimilum og fyrirtækjum landsins, að hún gengur einnig frá eignagrunni lífeyrissjóðanna, og mun hafa hrun framtíðarlífeyrissjóðsgreiðslna í för með sér.

Það er verið að éta útsæðið í boði fjármálafyrirtækjanna.

En það sem mig langar til að fá frá þér er þitt mat á af hverju er stuðningur verklýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda svona afgerandi við alla vitleysuna.

Þú minnist á frumvarpið sem ekkert gerði, forseti ASÍ marglofaði það og Villi vinnuveitandi var mjög ánægður.  Þeir voru líka ánægðir með aðgerðapakka fyrri ríkisstjórnar, og hafa í raun alltaf verið ánægðir.

Gefið þannig gagnslausum aðgerðum þá vigt að öfgar ráði för hjá þeim sem gagnrýna.  Samt hefur alltaf þurft nýjar og nýjar aðgerðir, allt sem gagnrýnendur segja, kemur fram, og þeir Villi og Gylfi enda alltaf mjög óánægðir.

En eru svo fyrstir manna til að styðja nýjar aðgerðir sem eru að grunni með sama inntaki og þær gömlu, sem ekkert gerðu.  Jafnvel síðustu aðgerðir í þágu heimilanna, sem fólu það eina nýja í sér, að lofa 6 milljörðum í vaxtabætur, án þess að fjármögnun þeirra væri tryggð, og enginn hefur minnst á síðan, þó að 9 dagar séu í nýtt ár, hlutu einróma lof og uppklapp.

Er enginn farinn að efast um dómgreind þeirra félaga???

Og þar sem þetta eru báðir vel gefnir menn, hvað veldur???

Það gæti verið gaman að fá meitlaðan pistil frá þér Marínó um hvað veldur.  Af hverju fórna þessir menn hag umbjóðenda sinna vegna hagsmuna fjármálafyrirtækjanna??  Ég skil Samfylkinguna, þú heggur ekki höndina sem fæðir, og VG vill stjórna, sama um hvað sú stjórn snýst, en af hverju vill Vilhjálmur Egilsson stefnu sem hugsanlega gagnast stórfyrirtækjum í endurfámögnun þeirra en er stefna gjaldþrota og eignupptöku gagnvart þorra umbjóðenda hans???

Var svona að spá í þetta.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2010 kl. 07:39

3 identicon

Þremenningarnir hafa staðið sig með einstakri prýði inni á Alþingi og eiga þau mikla þökk fyrir. Ég tek þó reyndar fram að ég er svo sannarlega ekki alltaf sammál þeim.

Það er bara orðið svo ótrúlega sjaldgæft að sjá fólk inni á alþingi virkilega berjast fyrir sinni sannfæringu í stað þess að láta völd og græðgi stjórna ferðinni.

Svo eru aftur á móti aðrir sem þola ekki að sannleikurinn sé sagður ef það kemur þeim illa, sumir ganga jafnvel svo langt að berjast fyrir eigin fátækt og annarra bara til að koma höggi á andstæðinginn og koma þá "sínum" flokki að völdum. Þannig fólk er einfaldlega stórhættulegt fyrir framtíð þessa lands, við sjáum hvernig fortíð það skilur eftir sig.

Þremenningarnir eru boðberar nýrra tíma og þess vegna styð ég þau þó ég sé ekki alltaf sammál þeim. Þau tala fyrir heiðarleika og sjálfstæðum skoðunum þingmanna, þar sem þjóðfélagið eru númer eitt og "flokkurinn" er aftar í röðinni. Meira af svona fólki!

Halldór (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 07:51

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Mjög góð færsla Marinó.

Gunnar Skúli Ármannsson, 22.12.2010 kl. 08:00

5 identicon

Talandi um fimbulfamb Gísli, maður líttu þér nær. það mætti halda að annað hvort sértu stjórnarþingmaður eða gengur með þingmennskuna í maganum.

Það er BÚIÐ að ræna komandi kynslóðum hluta af skattekjum sínum með því að vera ekki að byggja upp atvinnu,setja fjölskyldur landsins á kaldan klakann greiða út séreignasparnað núna sem væri skattstofn í framtíðinni, flæma fólk úr landi og og og.... Að ekki sé talað um að rétt tókst að forða því að komandi kynslóðir yrðu bundnar á þrælaklafa fyrir breta og hollendinga í áratugi en sú barátta er enn yfirstandandi. Ef allir þingmenn stjórnarliðsins jarma ekki allir eins skv. skipun, þá er refsivöndur Jóhönnu á lofti og svipan skellur á bakhlutum þeirra.

Flest allir þessir nýju þingmenn kunna litlu meira en menntskælingar í hagfræði og stjórnmálum, apa allt eftir grábökunum sem eru með reynsluna í vitleysunni á bakinu og þora ekki að taka sjálfstæða afstöðu og berjast fyrir henni innan síns flokks. Ef einhver leyfir sér að hafa sjálfstæða afstöðu þá flóðlýsir hann þekkingarleysi og þrælslund hinna stjórnarþingmannana og það er ekki hægt að leyfa.

Sveinn (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 08:04

6 identicon

  • Mér sýnist sem tvær framtíðarsýnir mínar frá því í fyrra sé að verða að veruleika.  Önnur var sú, að Samfylkingin ætlaði að keyra þjóðfélagið svo í gólfið, að fólk hrópaði eftir afskiptum ESB.  Hin var að Steingrímur J. myndi nota aðstöðu sína til að refsa landsmönnum fyrir að hafa ekki hleypt honum fyrr að kjötkötlunum.

-Málefnalegt.  

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 09:22

7 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Vel mælt Sveinn.

Það þarf að kveikja á fleiri "lömpum"  til að upplýsa alþýðu þessa lands fyrir hverja þessir stjórnarliðar eru að vinna fyrir.

Eggert Guðmundsson, 22.12.2010 kl. 09:33

8 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ég tek undir með Teiti hér að ofan:

Mér sýnist sem tvær framtíðarsýnir mínar frá því í fyrra sé að verða að veruleika.  Önnur var sú, að Samfylkingin ætlaði að keyra þjóðfélagið svo í gólfið, að fólk hrópaði eftir afskiptum ESB.  Hin var að Steingrímur J. myndi nota aðstöðu sína til að refsa landsmönnum fyrir að hafa ekki hleypt honum fyrr að kjötkötlunum.

Þessi kafli í þessum pistli er náttúrulega út í hött. Hvað eiga menn við þegar þeir segja:

 að Steingrímur J. myndi nota aðstöðu sína til að refsa landsmönnum fyrir að hafa ekki hleypt honum fyrr að kjötkötlunum.

Er Marinó að segja að Steingrimur siti og hugsi út aðferðir til að pína þjóðina og það sé markmið hans með því að vera í stjórn.

Og eins þetta með að Samfylkingin sé að keyra þjóðina niður til að koma henni í ESB. Þetta er náttúrulega svo mikið bull að það nær engur tali.

Magnús Helgi Björgvinsson, 22.12.2010 kl. 09:49

9 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Gísli - nenni varla að svara þér - EN - skattlagning innborgananna - þær skerða ekki eitt eða neitt - ríkið fær þetta fé strax í stað þess að taka óhagstæð lán - það er til hagsbóta bæði núna og til framtíðar þar sem skuldabyrðin minnkar með því að gera þetta svona - það veit Lilja - það vita allir sem vilja vita,

EN

- ef VG fælir Lilju út - þá fer hún bara ekkert "út". Þau 3 geta sem hægast stofnað eigin flokk og spurning hvort Jón - Ögmundur og Guðfríður Lilja fylgi ekki með.

Það er ekkert sem bannar þetta - hversu ósanngjarnt sem það hljómar -

Ögmundur - Lilja - Guðfríður Lilja - Atli - Ásmundur Daði - Jón Bjarnason - og hver veit hver eða hverjir færu með þeim.

Alveg þokkalegur þingflokkur þetta sem gæti haft úrslitaáhrif á það hverjir sætu í ríkisstjórn.

Stjórnin er enn að bíða eftir því að fá að vita hvert Íslandsmetið í golfi er - þangað til það upplýsist verður engin skjaldborg heimilanna.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 22.12.2010 kl. 10:07

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vel mælt og orð í tíma töluð.  Takk fyrir þessa færslu Marínó. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.12.2010 kl. 10:17

11 identicon

Teitur bendir hér ofar á að tvennt af því sem Marinó talar um sé "málefnalegt" þ.e. sem sagt ómálefnalegt. Þetta eru getgátur hjá Marinó, það er rétt en hann tekur ábyrgð á þessu sem skoðunum sínum. Ég hef hinsvegar verið með honum á einum og einum fund með þingflokkum og skil því hvað hann á við með því að SF kunni að vera að reyna að svelta þjóðina inn í ESB.

Einn af ráðherrum ríkissjórnarinnar fyrtist við okkur fulltrúa HH á einum slíkum fundi vegna þess að við höfum ekki stutt inngöngu í ESB og þar með gjaldmiðlaskipti. HH hefur einfaldlega enga skoðun á inngöngu í ESB, það hefur hvorki verið tekið fyrir sameiginlega af félagsmönnum né stjórn. Þetta er umdeilt mál og flókið og HH hefur haft nóg annað á sinni könnu og alls ekki víst að HH eigi að taka nokkra afstöðu í málinu. Það er eiginlega hvort eð er varla hægt eins og er þar sem lítið liggur fyrir um hvað sé í þeim pakka sem landsmönnum stendur til boða.

Það algengasta sem við sjáum í fjölmiðlum og á vefnum eru upphrópanir í allar áttir. Þeir fáu sem tala málefnalega segja að það sé ekki tímabært að ákveða sig. Það er mjög erfitt að kynna sér þetta mál með hlutlausum hætti. Hagsmunssamtök heimilanna vilja að við tökum til hérna heima algjörlega óháð því hvort gengið verði í ESB eða ekki. Það er ekki hægt að bíða eftir einhverjum töfralausnum sem eiga að fylgja ESB aðild. Við höfum bent á leiðirnar en það hefur ekki verið farið að okkar tillögum. Þess í stað hefur fjármálaaðall vaðið uppi og ráðið því sem þeim sýnist.

Við fáum ekki betur séð en stjórnvöld séu strengjabrúður hagsmuna í fjármálakerfinu sem fara saman við hagsmuni hóps erlendra kröfuhafa og AGS (AGS eru innheimtuvél þessara aðila og ekkert annað, það höfum við fengið staðfest á fundum með þeim). SF er svo upptekið af ESB að þau virðast ætla að láta hvað sem er yfir okkur ganga. Þ.á.m. botnlausa þvælu Icesave og stórfellda eignaupptöku á heimilum og í fyrirtækjum landsmanna. Ef fram fer sem horfir verður allt hér í rjúkandi rúst innan fárra missera. Stefnan er svo galin að það eina sem stendur venjulegu fólki til boða í reynd er að flytja úr landinu á meðan vitleysan gengur yfir.

Endurreysn 3 stórra banka er viðurkennd vitleysa og samt er göslast í því eins og enginn væri morgundagurinn. Það er ekki heil brú í því sem verið er að gera. Vitleysan er svo yfirgengileg að maður veit vart hvar maður á að byrja. Ætli sé ekki best að skreppa úr landinu rétt á meðan þetta lið spilar rassinn úr buxunum enn einu sinni.

Þeir munu hafa 3 banka og þúsundir örmagna viðskiptavina. Þeir sem halda enn að hægt sé að byggja íslenskt efnahagslíf á bönkum rétti upp hönd. Það þarf nefnilega traust til þess að byggja upp og reka fjármálaþjónustu. Það er mikilvægasta efnið í kökuna og það vantar algjörlega. Þetta verður kaka gerð úr sagi og úrgangi. Það mun ekki nokkur maður vilja bragða á þessu, hvað þá kaupa.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 14:59

12 Smámynd: Maelstrom

Þetta þykir mér verulega skrýtin færsla.  Þú hrósar þeim fyrir að velja samviskuna fram yfir völdin en það er nákvæmlega það sem þau eru ekki að gera.

 Með því að styðja ekki fjárlagafrumvarpið eru þau að segja að þau styðji ekki hvernig stjórna á landinu næsta árið.  Þeim er þá ekki stætt á neinu öðru en að styðja vantrauststillögu ef slík yrði lögð fram.

 Allt annað kallast að velja völdin fram yfir samviskuna.

Maelstrom, 22.12.2010 kl. 16:31

13 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Duga engin þöggunarráð á þig Marinó. Ef þú heldur svona áfram, þá endar þú með því að vera kjörinn maður ársins.

Óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegrar jólahátíðar. 

Sigurður Þorsteinsson, 22.12.2010 kl. 22:30

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gísli, varðandi lífeyrinn, þá eru almannatryggingar stærsti greiðandi lífeyris hér á landi.  Þeirra greiðslur hafa verið frystar frá miðju ári 2009.  Það kalla ég skertan lífeyri.  Skattar hafa auk þess hækkað mikið á þessum tíma og þar sem ýmis skerðingarmörk vegna lífeyrishafa breyst, þá hafa skattgreiðslur lífeyrisþega hækkað meira en annarra.

Að skattur sé tekinn strax af iðgjöldum í staðinn fyrir að gera það í við úttöku lífeyris úr lífeyrissjóðum mun lækka skattgreiðslur, þar sem greiddur verður fjármagnstekjuskattur af ávöxtun iðgjalda í staðinn fyrir tekjuskatt og útsvar.

Hafi lífeyrissjóðirnir tapað háum upphæðum, eins og m.a. hagfræðingar hafa nefnt, þá hafa þeir í leiðinni verið að tapa framtíðarskatttekjum ríkissjóðs og sveitarfélaga.  Talað er um að tap lífeyrissjóðanna geti numið 5-800 milljörðum.  Séu skattar um þriðjungur af upphæðinni, þá eru tapaðir skattar 133 - 267 milljarðar.

Ég gef nú ekki mikið í að Teiti Atlasyni finnist eitthvað ekki vera málefnalegt, þar sem hann er þekktur fyrir allt annað í sínum pistlum.  Annars hef ég skýrt þessi orð mín út áður og bendi viðkomandi bara að fletta þeim upp.  Auk þess hef ég borið þessa kenningu um Steingrím upp við fólk sem vinnur með honum og það tekur undir hana.  Þá er ég ekki að tala um þremenningana eða Ögmund.

Ég hef ekki tjáð mig um fjárlögin sem samþykkt voru um daginn og ætla minnst lítið að gera það.  Þau eru sama marki brennd og síðustu fjárlög og raunar flestar tillögur þriggja ríkisstjórna í ríkisfjármálum frá hruni.  Fækka á vinnandi fólki eins og hægt er og flytja það frekar yfir á atvinnuleysisbætur.  Atvinnuuppbygging er framandi hugtak.  Menn virðast ekki skilja að skilvirkasta leiðin til að afla ríkinu tekna er að fjölga þeim sem hafa vinnu.

Sigurður, ég hef aldrei kunnað að þegja og það hefur oft komið mér um koll.  Nú verður ekki aftur snúið.  Ekki er ég að sækjast eftir vegtyllum heldur betra lífi fyrir börnin mín.  Takk fyrir kveðju og sömuleiðis.

Marinó G. Njálsson, 22.12.2010 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband