Leita í fréttum mbl.is

Steingrímur lætur ekki bágan hag heimilanna trufla sig

Fyrir rúmum tveimur árum varð hér hrun.  Það hafði áhrif á allt í þessu landi og ekki minnst á stöðu ríkissjóðs annars vegar og heimilanna í landinu hins vegar.  Ólíkt heimilunum þá hefur ríkissjóður þann möguleika að skattleggja allt og alla til að koma sér út úr vandanum, hann hefur möguleika á útgáfu ríkisskuldabréfa, á lántöku frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og erlendum ríkjum og ekki síst hefur hann möguleika á niðurskurði.  Sem fjármálaráðherra hefur Steingrímur J. Sigfússon nýtt sér alla þessa möguleika.  Skattheimtan hefur þyngst svo um munar og er fyrir löngu komin upp fyrir þolmörk hins vinnandi manns.  Niðurskurðurinn hefur verið heiftarlegur þegar kemur að þeim sem minnst mega sín, þ.e. þeim sem þiggja lífeyri úr almannatryggingakerfinu, og velferðarkerfið hefur tekið á sig mikinn skell.  Ef það er að velta steinum í götu ríkisstjórnarinnar, að andmæla skattahækkunum á þegar skattpíndan almenning og niðurskurði í velferðarkerfinu, þá bið ég um fleiri slíka steina.

Hafi einhverjum steinum verið velt í götu ríkisstjórnarinnar, þá eru þeir í formi tregðu fjármálafyrirtækja að veita afslætti sem þau fengu frá eldri kennitölum sínum til þeirra sem tóku lánin.  Þá er það í form tregðu lífeyrissjóðanna að slá af vaxtakröfu sinni og leiðrétta lán sjóðfélaga.  Þá er það í skilningsleysi þeirrar sömu ríkisstjórnar að bæta þarf stöðu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.  Þá er það í getuleysi ríkisstjórnarinnar til að hugsa út fyrir kassann í leit að lausnum.

Mér finnst það ómaklegt af Steingrími J. Sigfússyni að kenna þeim um sem vilja hugsa í öðrum lausnum en hann.  Við skulum ekki gleyma því að fyrir rétt um 99 vikum sat hann við hlið Jóhönnu Sigurðardóttur á blaðamannafundi í Iðnó, þar sem hann lýsti því yfir að slá ætti skjaldborg um heimilin í landinu.  Við vitum öll hvernig fór fyrir þeirri skjaldborg.  Hún var slegin um fjármálafyrirtækin.

Því miður hefur margt í starfi núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem á undan henni fór einkennst af því að verja þá sem keyrðu allt í kaf og sjá til þess að fórnarlömb hrunsins tækju á sig nær allar byrðarnar.  Um 40.000 fjölskyldur hafa tapað öllu eiginfé sínu í húsnæði og aðrar 32.000 hafa orðið fyrir mikilli skerðingu.  Um 50.000 heimili í landinu hafa tekið út sparnað sem átti að gera þeim lífið léttbærara á efri árum til að greiða í botnlausa hít bankanna eða til að mæta tekju missi og/eða skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.  Svo ótrúlegt sem það er, þá finnst Steingrími J. hið besta mál að skattleggja séreignarsparnað sem tekinn er út, en vill frekar loka nærþjónustu í heilbrigðiskerfinu en að skattleggja þann séreignarsparnað sem ekki hefur verið tekinn út. 

Ég hef ekki heyrt önnur rök fyrir því að ekki megi skattleggja séreignarsparnað, en að Sjálfstæðismenn hafi átt hugmyndina og fyrr detti Steingrímur J. dauður niður en að nýta hugmynd frá þeim.  Vissulega hafa lífeyrissjóðirnir eitthvað maldað í móinn, en málið er að þeir eiga ekki peninginn.  Þetta heitir séreignarsparnaður vegna þess að hann er séreign hvers og eins.  Þeir hafa því ekkert með það að segja hvort þetta sé gert eða ekki.

Frá hruni hefur verið ljóst að eina leiðin út úr hruninu væri í formi atvinnuuppbyggingar.  Á þeim vettvangi hefur ríkisstjórnin frekar unnið að því að gera fyrirtækjum lífið leitt.  Rekstrarumhverfi flestra fyrirtækja er mun lakara í dag, en það var fyrir réttum tveimur árum.  Vissulega hafa vextir loksins náðst ofan úr himna hæðum, en fyrir marga er það um seinan.  Fyrirtæki hafa þess fyrir utan mátt búa við innheimtuaðgerðir frá fjármálafyrirtækjum sem brutu lög fram og til baka í lánveitingum sínum.  Ekki í eitt einasta skipti tóku stjórnvöld stöðu með fórnarlömbum fjármálafyrirtækjanna.  Nei, þau flykktu sér í hvert einasta skipti í lið með gerendunum.  Nýleg lög um gengisbundin lán er ein birtingarmynd þess.

Ekki ætla ég að gera lítið úr því verkefni sem Steingrímur J. hefur þurft að takast á við.  Ég held aftur að hann hafi oft gert sér verkið erfiðara en nauðsynlegt var með því að hlusta ekki á og leita liðsinnis félaga sinna innan VG.  Framtíðin á ein eftir að leiða í ljós hvorir voru í raun og veru að velta steinum, Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar og Atli Gíslason eða þá hinir sem ekki töldu sig þurfa að hlusta.


mbl.is „Mikil ábyrgð að velta steinum í götuna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir mína parta er þetta allt rétt. Hér er ein af mörgum hárréttum staðreyndum Marinó

"Við skulum ekki gleyma því að fyrir rétt um 99 vikum sat hann við hlið Jóhönnu Sigurðardóttur á blaðamannafundi í Iðnó, þar sem hann lýsti því yfir að slá ætti skjaldborg um heimilin í landinu.  Við vitum öll hvernig fór fyrir þeirri skjaldborg.  Hún var slegin um fjármálafyrirtækin."

En hvað gerum við ? Jú við tuðum í sitthvoru horninu, eða bloggum og pýrum við tölvuskerminn, meðan hreinlega er valtað yfir okkur.

Hvað gerir tæplega 5000 manna samtök HH ? Jú; það á að halda almennan félagsfund um loka tillögur stjórnarinnar  frá í byrjun des, sem hafði verið beðið eftir frá byrjun okt. nú einhvertíma eftir áramótinn og ekkert meira er auglýst hjá HH.

Hvernig væri nú að fara að standa upp frá skrifborðinu, og hætta að tuða og suða. Nú þarf að velta þessum skelfilegu stjórnvöldum frá með góðu eða illu.

Er ekki komin tími núna ? Komum saman, skipuleggjum alvöru byltingu, komum á fólksins utanþingsstjórn, veltum burt þessum afskræmdu sjálftöku-pólitíkusum og lygurum áður en þau skattpína okkur í hel.

Kristinn M Jonsson (IP-tala skráð) 23.12.2010 kl. 17:43

2 Smámynd: Örn Gunnlaugsson

Í hvaða landi skyldi Steingrímur búa? Hvorki ég né þeir fjölmörgu sem ég hitti og umgengst dags daglega sjáum að þessi stjórnvöld séu að leiða þjóðina út úr hremmingunum. Þvert á móti þá er ástandið að versna til muna og framundan er fimbulkuldi efnahagslega sem heimilin koma til með að finna fyrir af alvöru á næstu mánuðum. Allir vita hvernig fór um skjaldborgina. Skjaldborg var slegin um fjármálafyrirtækin og Steingrímur og félagar gæta vandlega upp á að skúrkarnir í fjármögnunarfyrirtækjunum sem voru uppvísir af því að brjóta lög um gengistryggingu sleppi ekki einungis við ákærur heldur verði ívilnað þar sem þeim tókst ekki fullkomlega að fremja glæpi sína. Ætli það sé skipun frá ríkisstjórninni til ákæruvaldsins að snerta ekki á þessum skúrkum og sinna einungis smákrimmunum? Nú er þessi stjórn búin að smíða lög til að koma í veg fyrir að fórnarlömb fjármögnunnarfyrirtækjanna geti náð vopnum sínum. Allt stefnir í að fjöldi fólks hér velji að láta keyra sig í gjaldþrot. Það fólk fer um leið út af fjárfestingamarkaði og geymir sína fjármuni annars staðar en í bankakerfinu. Þá hefur vegna óhóflegrar skattlagningar fjöldi fólks valið að vinna svart þar sem það telur enga sanngirni í að bera þær byrðar sem þessi stjórnvöld ætla þeim að bera. Þessi hópur er heldur ekki á fjárfestingamarkaði og kýs að geyma sitt fé annars staðar en í bankakerfinu. Báðir hóparnir fara hratt stækkandi en í raun er um að ræða að þetta fólk hefur kosið að standa utan þess kerfis sem Steingrímur og félagar eru að búa til. Að endingu leiðir þetta til allsherjarhruns þjóðfélagsins. Þá skulu menn minnast þess hve mikil velferðar og jafnræðiskennd býr innra með því fólki sem nú er við stýrið.

Örn Gunnlaugsson, 23.12.2010 kl. 17:43

3 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Steingrímur hefði getað leyst fátæktar, byggða og atvinnuvanda

Íslendinga í einu lagi er hann var sjávarútvegsráðherra og leyft

frjálsar handfæraveiðar!

Aðalsteinn Agnarsson, 23.12.2010 kl. 17:51

4 Smámynd: Einar Guðjónsson

Hann hefur verið að bjarga heimilum VG félaga og hefur t.d. ráðið þá alla í vinnu hjá ríkinu. Í staðinn safnar ríkið skuldum en félagar hans í VG hafa trygga afkomu. Þá hefur hann hjálpað strákunum í Verðbréfastofubankanum og Saga Kapítal. Þá er sonur Jóns Bjarnasonar enn í greiningardeildinni hjá Kaupthingi. Þetta er allt á réttri leið í sjálftökunni.

Einar Guðjónsson, 23.12.2010 kl. 19:18

5 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Ekkert hefur breist við að skifta út sjálftökuliði Sjálfstæðisflokks- nú er bara sjálftökulið vinstrimanna tekið við- eg skammast mín fyrir að tilheyra þessu bananalýðveldi- sem er búið að setja fólk í fátækragildru og hneppa í ánauð skatta til æfiloka !!!!!!!!!

Mannrettindi eru fótumtroðin.

Erla Magna

Erla Magna Alexandersdóttir, 23.12.2010 kl. 19:52

6 identicon

sæll Marinó

maður veltir fyrir sér hvort það sé ekki auðveldar fyrir bankanna að senda fólk í læknis skoðun áður en lengt er í lánum til að meta  hvort fólk sem er 46 ára í dag verður ennþá hæft til að greiða af lánum sínum eftir 40ár,  þetta er einn stór brandari, hvað tekur maður til bragðs ? hættir að borga eða gerir LANDSBANKANN að áskrifanda af launum manns ég held að fyrri kosturinn sé betri.

Georg (IP-tala skráð) 23.12.2010 kl. 21:01

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein hjá þér Marinó, að vanda.

Það sorglegasta er þó að skattlagning séreignasparnaðar, sem Steingrímur fæst ekki til að gjóa augum að vegna þess að hann heldur að hugmyndin sé komin frá Sjálfstæðisflokki, kemur upphaflega frá formanni eins stéttarfélags. Sjálfstæðismenn gripu hugmyndina strax, enda góð. Mjög fljótlega fór Lilja Mósesdóttir að tala fyrir þessari hugmynd, eftir að hafa skoðað hana og áttað sig á hversu góð hún væri.

Þar sem Steingrímur hélt að hugmyndin væri komin frá Sjálfstæðismönnum var Lilja nánast útskúfuð úr flokknum. Ekki mátti hlusta á nein rök frá henni, væntanlega af hræðslu við að Sjálfstæðisflokkurinn gæti átt einhvern þátt í hugmyndum Lilju.

Það er hættulegt þegar menn eru svo hatri búnir, að ekki er hægt að skoða mál frá málefnalegum grunni, einfaldlega vegna þess að það gæti hugsanlega verið hægt að tengja flokk andstæðingana við hugmyndina. Slíkir menn eiga ekkert erindi á þing og því síður í ríkisstjórn!!

Gunnar Heiðarsson, 23.12.2010 kl. 21:10

8 Smámynd: Elle_

Ég vildi bara segja að ég er sammála öllu sem kemur fram að ofan. 

Elle_, 23.12.2010 kl. 23:49

9 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Marinó, flott færsla og

Mér finnst það ómaklegt af Steingrími J. Sigfússyni að kenna þeim um sem vilja hugsa í öðrum lausnum en hann. 

þessi setning er algjört gull og mun sjálfsagt verða langlíf.

Gleðileg Jól. 

Gunnar Skúli Ármannsson, 24.12.2010 kl. 01:17

10 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.  Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.12.2010 kl. 01:22

11 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Steingrímur er sjálfur steinn í sinni eigin göt þræl sinnar eigin heimsku.

Steingrímur og Jóhanna stimpluðu sig út sem fábjánar þegar þau samþykktu Icesave I. Við vitum öll í dag að þau skildu ekki samniginn og höfðu í reynd aldrei hugmynd um hvað þau voru að gera í því máli.

Í dag er vandi okkar íslendinga er aðallega fólgin í því að við kusum heimskingja til að stjórna landinu í síðustu kosningum, ástandið mun ekki lagast fyrri en við kjósum aftur.

Guðmundur Jónsson, 24.12.2010 kl. 10:30

12 Smámynd: Haraldur Baldursson

Flott færsla Marinó.

LIlja og kattarvinafélagið mun bera Steingrím ofurliði áður en yfir lýkur....eina spourningin er hversu mikinn skaða munu Steingrímur og Jóhanna ná að innleiða þangað til ?

Haraldur Baldursson, 24.12.2010 kl. 11:05

13 Smámynd: Björn Heiðdal

Tuð og suð skilar engu, sjáið bara Lilju Mós.  Nýr stjórnmálaflokkur með skýr stefnumál og frambærilega forystumenn sem meina það sem þeir segja er eina lausnin. 

Pabbastrákar og erfðaprinsessur í fjórflokknum eiga aldrei eftir að bjarga þjóðinni frá þeirri glötun sem stefnir í.  Þvert á móti er líklegra að spítt verði bara í lófanna. 

Björn Heiðdal, 25.12.2010 kl. 10:22

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já. Sorglegt að málefnaleg umræða, skynsamleg gagnrýnin hugsun og umhyggja séu ekki höfuðatriði fyrir ALLA stjórnmálamenn.

Það að forystan sé innantóm frasaklisja getur því miður ekkert annað en skaðað íslenska þjóð. 

Vonandi lærum við eitthvað af reynslunni, þó að sagan segi okkur að staðreyndin sé sú að við lærum ekkert af henni.

Hrannar Baldursson, 25.12.2010 kl. 15:37

15 Smámynd: Tryggvi Helgason

Menn skrifa mikið um skuldavanda heimila og fyrirtækja, sem er auðvitað vel þekktur og allir virðast vita og skilja.

En ég sé hvergi minnst á það; hvað það er sem er höfuð orsök skuldanna, en það er augljóslega vísitölubindingin, eða það sem ég vildi kalla "vísitöluglæpurinn".

Hvers vegna minnist enginn á þetta ? Það er þó grundvallaratriði að sett verði lög til þess að afnema vísitöluhækkanirnar og jafnframt að lánafyrirtækjum verði fyrirskipað að endurreikna öll lán frá 1. jan. 2008, - án vísitölu, - og endurgreiða lánþegum það sem ofgreitt er.

Hvaða vit er í því að lánastofnun geti hækkað skuldir á lántakendum, - bara svona út í loftið, eftir einhverri galdraformúlu, - og heimtað að lánþegar borgi þeim peninga sem lánþeginn hefur aldrei tekið að láni og aldrei fengið í sínar hendur. Slík hegðun flokkast undir okur og glæpastarfsemi, - að mínu mati.

En menn tala og tala, og skrifa og skrifa, en enginn minnist á það að afnema vísitöluruglið. Hvað veldur,... hvað er í veginum,... ? Ég vildi gjarnan fá útskíringar á því.

Tryggvi Helgason, 25.12.2010 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 1678162

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband