Leita í fréttum mbl.is

Ekkert einsdæmi - Ársreikningar byggja mikið á mati en ekki hreinum staðreyndum

Ég er sannfærður um að séu ársreikningar allra stærstu fyrirtækja landsins skoðaðir á sama hátt í baksýnisspegli og bankanna þriggja, þá kæmi önnur niðurstaða en birtist í reikningunum.  Sama á við um fyrirtæki út um allan heim.

Eftirfarandi fyrirtæki hafa öll komist að því, með góðu eða illu, að ársreikningar þeirra gáfu ekki rétta mynd af rekstrinum:

  • UBS
  • Bear Stearns
  • GM
  • Ford
  • Lehman Brothers
  • HBOS
  • RBS
  • AIG
  • Glitnir
  • Landsbankinn
  • Kaupþing
  • Enron
  • WorldCom
  • Tyco
  • Computer Associates
  • Global Crossing
  • ImClone Systems Incorporated
  • Parmalat
  • Cirio

Ég gæti haldið svona áfram endalaust, en læt þetta duga.  Mörg þeirra hreinlega fölsuðu bókhald sitt, eins og sannast hefur á Enron, WorldCom og Parmalat, meðan önnur fegruðu það verulega, misfærðu, túlkuðu vafaatriði þannig að ekkert væri að óttast eða greindu ekki frá atriðum sem hefðu orðið til þess að fjárfestar og hlutafjáreigendur hefðu flúið fyrirtækin eins og heitan eldinn.  Síðan má ekki gleyma afneitun, hóphugsun og meðvirkni.  Allt var þetta gert til að verja stöðu stjórnenda fyrirtækjanna og oft aðaleigenda.  Það er sorglegt til þess að hugsa, að hagsmunir einstaklinga ráði ferð, en ekki hagsmunir fyrirtækjanna.  Halda menn virkilega að svindlið komist ekki upp að lokum?

Mikilvægast í starfsemi hvers fyrirtækis er að tryggja samfeldni rekstrarins.  Margir myndu halda að hagnaður skipti öllu máli, en svo er ekki.  Hagnaður eins árs skiptir engu máli, ef fyrirtækið lifir ekki næsta ár af.  Betra er fyrir fyrirtæki að viðurkenna það sem er að í rekstrinum, sýna tap og bæta úr því sem afvega fór, en að spinna blekkingarvefi.  Málið er að það er betra fyrir stjórnendur fyrirtækjanna að afkoman sé góð.  Þeir fá yfirleitt afkomutengd laun þannig að það er mikilvægt fyrir stjórnendur fyrirtækjanna, að ársreikningarnir sýni eins jákvæða niðurstöðu og hægt er.  Hefur einhver heyrt af stjórnanda sem hefur þurft að skila bónus byggðum á fölskum forsendum?  Meira að segja forstjórar sem hafa verið reknir frá fyrirtækjum eftir að svikamyllan hefur komist upp, hafa gengið út með himinháar starfslokagreiðslur.

Hlutverk endurskoðenda er ekki öfundsvert.  Þeim er ætlað að koma inn og fara yfir bókhald sem er oftar en ekki yfirfullt af alls konar einkennilegum færslum.  Margar eru alveg 100% réttar samkvæmt lögum og reglum, en væru ekki jafnflóknar og þær eru, ef ekki væri að eitthvað væri bogið við þær.  Í öðrum tilfellum, og það er algengast, byggja færslurnar á túlkun eða mati á aðstæðum.  Hvenær eru birgðir ofmetna?  Hvernig er best að meta virði hlutafjár?  Hefur verið fært nægilega mikið á afskriftarreikning lána, er varúðarfærslan of lág?  Erfitt er fyrir endurskoðanda að segja að eitthvað sé hreint út sagt rangt, en mikilvægt er að hann hafi kjark til að andmæla staðhæfingum sem eru í besta falli vafasamar.  Svo eru það náttúrulega tilfellin, þar sem endurskoðandann brestur kjarkur til að gera athugasemd eða tekur hreinlega þátt í vitleysunni.  Hvaða hlutverki endurskoðendur PwC gegndu ætla ég ekki að kveða úr um, en þetta lítur ekki vel út.

Enron og WorldCom voru tvö fyrirtæki, sem fölsuðu bókhald sitt með aðstoð endurskoðenda sinna.  Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á svikin, þá hefur ótrúlega lítið gerst.  Athur Andersen, eitt stærsta endurskoðunarfyrirtæki í heimi á sínum tíma, fór vissulega á hausinn, en nánast enginn af starfsmönnum fyrirtækisins fékk mikið meira en skömm í hattinn.  Starfsmennirnir sem tóku þátt í rangfærslu bókhalds og fölsun ársreikninga sluppu nánast allir eða fengu í mesta lagi mjög væga dóma.  Líklegast eru allir komnir í gott starf hjá einhverju öðru endurskoðunarfyrirtæki, þó einhverjir hafi vissulega misst starfsleyfi sitt.  Þeir sem fengu þyngstu dómana, voru þeir sem sáu um að tæta bókhaldsgögnin.  Bernie Maddox fékk 150 ára fangelsi fyrir fjársvik, en forráðamenn Enron, WorldCom og Athur Andersen náðu ekki einu sinni þeim árafjölda samanlagt.

Líklegast stefnir í svipað hér á landi.  Einstaklingur í litlu fyrirtæki, sem er í persónulegum ábyrgðum fyrir rekstur sinn er að fá himinháar sektir og fangelsisdóm fyrir að skila ekki vörslusköttum á réttum tíma, en ég efast um að mennirnir sem settur hagkerfið á hliðina geri annað en að tapa hluta af vafasömum og innistæðulausum tekjum sínum.  Lögmaður var um daginn að furða sig á því að ganga ætti að fyrrverandi bankastjóra.  Það hefði ekkert annað upp á sig en að bankastjórinn fyrrverandi yrði gjaldþrota.  Samkvæmt þessu má ekki snerta við yfirstéttinni, þar sem það er óréttlátt að meðlimir hennar verði gjaldþrota!

Færsla bókhalds og gerð ársreikninga á að vera mjög einfalt ferli.  Þegar ég lærði bókfærslu fyrst í 9. bekk og síðan í HÍ, þá var notast við dagbækur með mörgum settum af debet og kredit dálkum.  Á þeim árum tók mörg ár að búa til ársreikninga og nánast ómögulegt var að sannreyna nokkurn skapaðan hlut.  Með nútíma bókhaldskerfum, þá vita stjórnendur stöðu fyrirtækja sinna um leið og skjal hefur verið skráð í tölvuna.  Þeir vita því líka hverju þarf að breyta svo niðurstaðan verði hagstæð.  Flestir leika sér líklegast með tölurnar sem enginn getur sagt til hvort eru réttar eða rangar, þ.e. verðmæti eigna, afskriftir eða varúðarfærslur vegna lána/útistandandi skulda, birgðir og viðskiptavild.  Með því að fikta í þessum liðum er hægt að láta hagnað hverfa eða fara upp úr þakinu.  Ef marka má skýrslur norsku og frönsku endurskoðendanna, þá voru þessir liðir einmitt stilltir þannig af, að hagnaður yrði sem mestur.  Afskriftir Glitnis og Landsbanka voru langt fyrir neðan öll viðmið, verðmati eigna var haldið háu, bankarnir héldu verði hlutabréfa sinna uppi og áhættur vegna útlána voru hreinlega falsaðar.  Og hverju skilaði þetta?  Hagkerfið hrundi og Ísland er tæknilega gjaldþrota.

Til að botna þetta má að lokum spyrja:  Spiluðu endurskoðendur með eða var spilað með þá?


mbl.is Reikningar bankanna þriggja rannsakaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Marinó,

Er búin að liggja töluvert í þessum fræðum um væntingargapið stóra milli endurskoðenda og almennings.

Rannsókn endurskoðenda á ársreikningum skv. þeirra stöðlum, er ekki hönnuð til að uppgötva fjársvik.  Þeir eru alltof fastir í hvort viðkomandi óregla sem upp kemur hefur efnisleg áhrif á niðurstöðu reikninga eða ekki. Þessi aðferð virðist taka meira tillit til að afgreiða hvert tilvik(tré) fyrir sig og hvort það eitt sér hafi efnisleg áhrif, í stað þess að safna óreglunni saman og taka afstöðu út frá "skógarsýn".

Annars var það innri endurskoðandi World Com sem kom upp um fjársvik þeirra, sem fólust í því að eignfæra kostnað sem sannarlega átti að gjaldfæra, og fegruðu því rekstrarútkomuna sem því nam.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.12.2010 kl. 02:12

2 identicon

Síðustu spurninguna má umorða ; voru endurskoðendur skúrkar eða aular? Í mínum huga er svarið augljóst. Þeir eru skúrkar. Ef þeir geta bjargað sér með því að leika aula þá gera þeir það. W Black segir það skipta miklu máli að ákæra endurskoðendurna. Þeir hafa lykilinn að upplýsingum í höndum sér. Í Landsbankanum gamla voru aðstæður þær að nokkrir millistjórnendur höfðu varað endurskoðendur við og upplýst að reikningsskil gæfu ranga mynd af raunverulegri afkomu.Endurskoðendur kusu að horfa framhjá því!!

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 08:10

3 identicon

Hér er linkur á fyrirlestra sem Black hélt hér á landi :http://www.hi.is/frettir/upptokur_af_fyrirlestrum_william_k_black_i_oskju

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 08:17

4 identicon

Endurskoðunarfirmað Arthur Anderson var sýknað af ákærum í Enron málinu. En fyrirtækið var farið á hausinn þegar til þess kom vegna þess að orðspor fyrirtækisins hafði beðið það mikinn hnekki að ekki var aftur snúið. Margt hefur hins vegar breyst eftir Enron í umhverfi endurskoðenda sem gaman væri fyrir þig að kynna þér og segja þessum kommenturum þínum frá. Ástæðan fyrir sýknunni var sú að samband endurskoðenda og viðskiptavinar var það líkt sambandi verjanda og sakamanns, að því leyti að ef endurskoðunarfélagið væri dæmt væri réttarstaða verjanda sakamanns orðin vafasöm.

Svarið við spurningunni þinni er trúlega já, með þeirri útskýrinu að íslenskt viðskiptalíf var í eigu þriggja aðila að mestu, þeirra sömu og áttu bankana. Yfir ruglinu vofði síðan hótunin "Skrifaðu undir, ef þú ætlar að vera í business áfram". Það er sjálfsagt auðveldara um að tala en í að komast að hafna þriðjungi íslensks viðskiptalífs um þjónustu. Og auðvelt núna að benda á þann sem lét undan.

Verst að það stefnir í sömu vitleysuna aftur, aftur verða myndaðar risastórar viðskiptablokkir eins og sannast að Hagar verða seldir í einu lagi.

Grétar (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 09:59

5 identicon

Það er ekki af ástæðulausu að settar hafa verið lög og reglur um endurskoðendur og einnig um tengda aðila í rekstri og eiginfjárhlutfall banka um allann heim.  Ef að menn fara framhjá þessum reglum eru þeir lögbrjótar!.  Grétar er ekki alltaf einhver ástæða fyrir því að menn brjóta lög?

itg (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 12:29

6 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Aðalfundir hlutafélaga eru skrautsýningar þar sem mikið er af blómum og þar borða menn mikið af kökum og vínarbrauði.

Litlir hluthafar haf lítil áhrif vegna þess að atkvæðisrétturinn fylgir hlutafjármagninu en ekki persónum á fundi.

Ég er alinn upp í bændasamfélagi þar sem er rótgróin félagshefð. Var reyndar eitt sinn formaður elsta búnaðarfélags landsins stofnað 1842

Þar var alltaf opin og kjarkmikill umræða um hvað eina. 

Fundir bæði á aðalfundum búnaðarsamtaka og samvinnufélaga var alltaf skipt upp í nefndir og þannig fékkst all þróttmikil umræða um málefni.

Ég þekki tilfelli, þar sem einstaklingur hélt upp málatilbúnaði sem leiddi til þess að stjórn varð að breyta uppsetningu ársreiknings. Og var það allt gert á endanum í sátt og var til hagsbóta fyrir félagið.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 12.12.2010 kl. 13:36

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gretar, AA var sýknað, en einstaklingarnir sem tættu skjölin voru dæmdir fyrir að hindra framgang réttvísinnar, eins og það heitir. 

Í framhaldi af Enron og WorldCom málunum voru sett hin Sarbaines-Oxley-lög í Bandaríkjunum eða SOX eins og þau heita í daglegu tali.  Sem ráðgjafi á sviði upplýsingaöryggismála, þá hef ég þurft að kynna mér nokkrar greinar SOX og nota í mínu starfi.  Einn stærsti liðurinn í lögunum var sú krafa að fyrirtæki skiptu um ytri endurskoðanda með nokkurra ára millibili.  Reynt var að setja evrópsk SOX og áttu þau að koma fyrst út 2005 og árlega síðan.  Íslensk fjármálafyrirtæki voru meira að segja byrjuð að vinna með hliðsjón af Euro-SOX, en því miður hefur breyting á fyrirtækjatilskipun ESB ekki verið nándar nærri nógu mikil miðað við tilefnið.  Ekki það að SOX hefur sína galla og menn hjá ESB hafa reynt að lagfæra þá.

Annars voru menn fljótir að finna út hvernig ætti að leika á SOX.  Vissulega var skipt um ytri endurskoðanda, en starfsfólkið fylgdi með!  Um þetta var talað mjög frjálslega á námskeiði sem ég fór á um SOX og Basel II í New York fyrir fjórum eða fimm árum.

Marinó G. Njálsson, 12.12.2010 kl. 14:00

8 identicon

Alþjóðlegir staðlar um endurskoðun, siðareglur og fleira hafa einnig verið settar frá Enron af alþjóðlegum fagfélögum endurskoðenda auk þess sem breytingar þessar hafa fengið sína meðgöngu hjá EU og endað m.a. með lagabreytingum í íslenskum lögum árið 2008. Breytingar á tilhögun endurskoðunar í kjölfar kreppunnar síðustu eru einnig hafnar og hefur verið gefið út svonefnt "Green paper" verið gefið út af evrópusambandinu og nú leitað umsagnar um það. Við skulum vona allt þetta hafarí hér sem nú er uppi á Íslandi um endurskoðun endi ekki með því að mis(ó)vitrir þingmenn fari að setja stéttinni lög eftir umsögn frá þeim íslenskufræðingum og sjálfmenntuðum besserviserum sem helst hafa tjáð sig um fagið.

Varðandi það sem þú kallar að leika á SOX að útskipting endurskoðenda eigi ekki við alla þá sem koma að endurskoðuninni þá má hafa það í huga að endurskoðun og "rétt" niðurstaða hennar byggir að miklu leyti á þekkingu á því fyrirtæki sem verið er að endurskoða. Með algerri útskiptingu þeirra sem koma að endurskoðun, tala nú ekki um útskiptingu endurskoðunarfélaga, hverfur þessi þekking og þeir sem hefja störf eru á byrjunarreit.

Grétar (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 14:50

9 identicon

skoðaðu Ársreikning LÍ fyrir 2009.

stjórnin kemur inn á það í skýrslu sinni að skv. 53. skýringu ársreikningsins geti hugsanlegar breytingar á kvótakerfinu haft neikvæð áhrif á lánabók bankans. Það sé ómögulegt að meta slík áhrif.

Áritun endurskoðenda er án fyrirvara, samt sem áður sjá þeir sig nauðbeygða að koma með ábendingu sem vísar í skýringu 2 en í henni er þess getið að Gengistryggð lán geti komið illa niður á rekstrarhæfi bankans. N.B. endurskoðendur telja sig ekki knúna til að benda á skýringu 53 sem snýr að kvótakerfinu eins og stjórnin gerir.

Endurskoðendurnir meta ekki rekstrarhæfi bankans í áritun sinni sérstaklega en tiltaka að stjórn bankans telja hann rekstrarhæfann sem er mjög undarlegt þar sem áritunin er fyrirvaralaus!!! Það er partur af vinnu Endurskoðena að meta rekstrarhæfi fyrirtækja sem þeir árita ársreikning hjá fyrirvaralaust.

Nú kemur að lagahlutanum:

Í lögum um ársreikninga segir skv. 30. gr. að það skuli færa áhættufjármuni og langtímakröfur niður ef markaðsverð þessara eigna er lægra en bókfært verð þeirra, vegna hættu á að kröfur muni ekki innheimtast eða af öðrum ástæðum.

Skv. 8. gr. reglna nr. 834/2004

Mat á einstökum liðum ársreiknings skal vera í samræmi við eftirfarandi reglur:

Þegar óvissa ríkir, velja þann kost sem er líklegastur til að leiða ekki til ofmats eigna og hreinna tekna.

Skv. skýringum 2 og 53 eru taldar líkur á að um ofmat eigna sé að ræða!!! N.B. myndi einhver vilja kaupa skuldabréf útgefið af sjávarútvegsfyrirtæki í erlendri mynt með veði í kvóta?????

Skv. þessum tveimur ábendingum - N.B. ekki fyrirvari - þá setur maður spurningu við mat á rekstrarhæfi og mat á eignum. Er verið að fara að lögum við gerð þessa ársreiknings?

Einnig spyr maður sig hvort NBI sé loftbólubanki og hvort hann sé ástæða þess að ríkisstjórnin sjái sér ekki fært að fara ofan í kvótamálið? því þá fer banki "sumra" landsmanna á hausinn.

Að lokum er rétt að benda á það að FME skoðar ekki sérstaklega hvort ársreikningar bankanna séu gerðir skv. lögum. Þ.e.a.s. það er enginn í vinnu hjá þeim með þetta verksvið en þeir skoða ábendingar ef þær koma.

Dæmi nú hver fyrir sig.

Ég kalla þetta Déjávu með ábendingum :-)

Annað mál, sem er kannski síður alvarlegra til lengri tíma litið:

Uppbygging eigna og skulda banka!!!

Í rekstri er það ekki talið æskilegt að skammtímaskuldir séu hærri en skammtímaeignir því rekstrurinn þarf að getað staðið undir greiðslum af skammtímaskuldum, hjá bönkum er þessu snúið á hvolf.

Banki á mikið af langtímaeignum frá 5 ára skbr. til allt að 40 ára. Hinsvegar eru skuldir bankans alltaf til skammstíma, þ.e. frá því að þurfa að borga í dag ef kúnninn æskir þess upp í það að þurfa að borga í seinasta lagi eftir 5 eða 7 ár með klásúlum í lánasamningum um gjaldfellingu strax að undangengnum ákveðnum skilyrðum.

Hvert er vandamálið við þessa uppsetningu?

Þessi uppsetning á efnahag bankanna gerir það að verkum að komi upp vandamál í rekstrinum eins og neðanmálslánin frá USA þá gæti bankinn ekki séð sér fært að greina frá tapinu (sjá Black sunshine fléttuna hjá Kaupþing) því ef hann gerði það þá gæti hann ekki fjármagnað sig og ætti á hættu að fara á hausinn. Þetta módel er til þess fallið að bregðast á endanum!

Það undarlega við þetta allt saman er að OR - Landsvirkjun o.fl. fyrirtæki eru einnig rekin á sama hátt, þetta er ein aðal ástæðan fyrir vandamálum þessara félaga, ef Landsvirkjun væri t.d. með 40 ára fjármögnun á Kárahnjúkavirkjun og öðrum langtímafjárfestingum þá þyrfti Landsvirkjun ekki endalaust að vera að endurfjármagna sig!! Það sama á við OR o.fl.

Siggi S. (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband