Leita í fréttum mbl.is

Búið að vara við þessari leið frá því í júlí 2009

Í störfum mínum fyrir Hagsmunasamtök heimilanna hef ég rekist á alls konar dæmi sem sýna það og sanna, að hin svo kallaða 110% leið bankanna er óréttlát.  Hún skilur hina sem varlega fóru eftir með tjón sitt, en þá sem tóku líklegast mestu áhættuna eftir í betri málum en þeir voru í fyrir sín íbúðarkaup. 

Nú er ekki svo að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki varðað við þessu fyrr.  Nei, það er öðru nær.  Þegar Nýja Kaupþing kynnti svona hugmynd fyrir stjórnarmönnum HH 24. júní 2009, þá sendu samtökin frá sér greinargerð um aðferðina.  Ég læt greinargerðina fylgja með þessari færslu svo fólk geti séð gagnrýni samtakanna í heild.  Helstu niðurstöður eru þó sem hér segir:

Almennt má gera ráð fyrir því að þeir sem áttu hlutfallslega lítið eigið fé til íbúðakaupa við lántöku séu flestir yngri lántakendur sem hafi verið að festa kaup á sinni fyrstu eign og eru jafnvel nýkomnir út á vinnumarkaðinn.  Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að fjölskyldur sem áttu meira eigið fé hafi verið búnar að vinna fyrir því á lengri tíma þar sem fyrirvinnur þeirra heimila hafi verið lengur á vinnumarkaði en fyrstu kaupendur. Tap þeirra (heimili A) vegna efnahagshrunsins er því í raun mun meira en fyrstu kaupenda (heimili B).  Þar sem þessi  lausn nýtist fyrst og fremst yngra fólki, sem við lántöku var með lítið eigið fé til íbúðakaupa og með verðtryggð lán en alls ekki þeim sem tóku gengistryggð lán, eða þeim sem áttu meira eigið fé við lántöku, má spyrja hvaða úrræði verða í boði fyrir þau heimili.  Ef þessi leið er ætluð til að skapa friðþægingu fyrir stjórnvöld til að gera ekki neitt varðandi leiðréttingu á lánum heimilanna, þá er að lokum mikilvægt að komi fram að þetta úrræði felur ekki í sér neina leiðréttingu, og enn síður afskrift,  og skapar jafnvel óásættanlegt ójafnræði milli lántakenda.

Hagsmunasamtök heimilin telja að þessi úrræði Nýja Kaupþing nýtist fyrst og fremst þeim sem tóku lán með háum upphaflegu lánshlutfalli (70-100%), hvort heldur verðtengd eða gengisbundin.  Fyrir þá eru þessi úrræði ásættanleg skammtímalausn uns í ljós kemur hvað gerist með biðlánin eftir 2-3 ár.  Samtökin geta ekki mælt með þessari lausn fyrir þá sem eru með gengisbundin og lægra upphaflegt lánshlutfall.  Þá sjá samtökin ekki að þetta úrræði nýtist mörgum með undir 70% lánshlutfall við lántöku og tóku verðtryggt lán.

(Með heimili A er átt við heimili með háu eiginfjárhlutfalli meðan heimili B átti nánast ekkert eigið fé.)

Í meðfylgjandi grein er miðað við að lán hafi verið færð niður í 80% af markaðsverði eignar, en upp á það hljóðaði upphaflega hugmynd Nýja Kaupþings.  Að þetta hlutfall sé 110% gerir ekkert annað en að skekkja myndina enn frekar.  Niðurstaðan er einfaldlega sú að verið er gera upptækan stóran hluta þess eiginfjár sem fólk lagði í fasteignir sínar.  Verst fer út úr þessu fólk sem er komið yfir fertugt og má segja að það lendi í stórfelldri eignaupptöku.  Get ég ekki annað en velt fyrir mér hvort ekki sé verið að brjóta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar á þessu fólki.

Það er staðreynd, að þau úrræði sem kynnt voru í dag sniðganga gjörsamlega vanda stórs hóps húsnæðiseigenda.  Þetta fólk keypti á þeim tíma, þegar ekki var hægt að fá 100% lán og geyma peningana sína annars staðar vegna þess að það gaf betri ávöxtun.  Nei, það varð að leggja fram 30 - 40% eigið fé við fasteignakaup.  Það fór heldur ekki í bankann til að skuldsetja húsnæðið sitt upp í topp, þegar peningarnir flutu út úr bönkunum.  Nú er verið að refsa því fyrir ráðdeildina.

Það er mjög ánægjulegt, að bankarnir ætli að staðfesta að sokkinn kostnaður er tapað fé, en ég er ekki svo viss um að öll yfirskuldsetning sé tapað fé.  Nú er fasteignaverð í lágmarki og því er skuldsetning sem hlutfall af íbúðaverð almennt mjög hátt.  Það á bæði við um þá sem skuldsettu sig hátt í upphafi og líka hina sem sýndu ráðdeild.  Þegar fasteignaverð hækkar aftur, þá mun eiginfjárhlutfall beggja hópa aukast.  Þrátt fyrir að báðir hópar hafi orðið fyrir viðlíka tjóni við hrun hagkerfisins, þá er það svo að annar hópurinn á að fá tjón sitt bætt, en hinn á að sitja uppi með það.  Ég tek það skýrt fram, að ég hef alltaf talað fyrir því að hækkun lánanna skipti meira máli en lækkun fasteignaverðs.  Raunar tel ég lækkun fasteignaverðs ekki skipta máli nema skuldsetning hamli fasteignaviðskipti.  Þess vegna hef ég alltaf talað fyrir því að almenn lækkun lána skipti meira máli, en að koma stöðu láni niður í eitthvað hlutfall af fasteignaverði.  Ég var vændur um að það væri vegna þess að það kæmi mér svo vel, en ástæðan er sú að mér finnst almenn lækkun lánanna hin réttláta niðurstaða.

Nú er sem sagt búið að ákveða að sniðganga vanda fólks á miðjum aldri, hvar sem það er í stétt.  Verkamaður á miðjum aldri er líklegast búinn að tapa stærri hluta af ævisparnaði sínum en háskólamenntaði maðurinn á sama aldri.   Það getur vel verið að greiðslugetan sé fyrir hendi, en tíu ár af afborgun lána hefur verið þurrkuð út, ef ekki meira.  Varla telst það sanngjarnt.  Eina sem bankarnir og stjórnvöld segja er:  Þeir skulu borga sem geta borgað!  Meira að segja formaður Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn hefur sótt mest fylgi sitt til þessa hóps, hann er glaður með niðurstöðuna.  Ástæðan er líklegast, að hann sér að ríkisstjórnin er að grafa sína eigin gröf og það styttist í að hrunverjar Sjálfstæðisflokksins eygja það að komast til valda á ný.  Ég sé ekki fyrir mér að fólk sem er búið að tapa milljóna tugum á efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi geð í að kjósa flokkinn aftur til valda.  Ég ofmet kannski pólitískt minni kjósenda og síðan má ekki gleyma að þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur.

Ekki vil ég gera lítið úr þeim úrræðum sem kynnt voru í dag, en ég óttast að þau hafi skilið mjög margar fjölskyldur frammi fyrir ókleifum hamrinum.  Þessi úrræði er a.m.k. ekki þau tækifæri til þjóðarsáttar sem stjórnvöld og bankarnir gátu gripið.


mbl.is Hinir ráðdeildarsömu tapa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Flott grein og samantekt að vanda Marinó.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 3.12.2010 kl. 23:59

2 Smámynd: GAZZI11

Þetta hefur alltaf snúist um eignarupptöku .. ekkert annað .. nú er komið að því að mjólka þá sem eiga einhverja smáaura í séreignarsparnaði og síðan verður haldið áfram að mjólka út það sem eftir er í íbúðinni.

Síðan verður farið í það að mjólka lífeyrissjóðina okkar.

Almenningur sem á einhverja peninga í bönkunum verður einnig mjólkaður með lágum vöxtum og skattheimtu.

Eignaskattur verður pottþétt hækkaður.

Erfðaskattur verðu pottþétt hækkaður.

Öll þjónusta við börn, gamalmenni og sjúklinga verður skert.

Haleluja og fyrirgef oss vorar skuldir sem bara allt í einu duttu ofan af himnum .. 

GAZZI11, 4.12.2010 kl. 00:20

3 identicon

Já mjög góð grein, og vel komist að orði.

Vil enn og aftur taka sjálfa mig sem dæmi. Fæ enga leiðréttingu skv. leiðinni sem var kynnt í dag. Er með greiðslugetu í að stækka við mig en eigið fé er urið upp vegn a forsendubrests. Er í miðjum barneignum en tíminn er naumur er að nálgast fertugt. Er háskóla menntuð og byrjaði því barneignir eftir þrítugt. Nú sit ég föst í of lítilli fasteign.

Ef ég legg fyrir 34 þús á mán þá mun það taka mig 16 ár að safna mér 6 mkr fyrir´20% útborgun í 30 mkr eign (án tillits til ávöxtunar á sparireikn og fjármtekjuskatts!!! Börn mín verða þá uppkomin og engin þörf fyrir mig að stækka við mig þá!

Hins vegar ef ég legg fyrir 100,000 kr á mán þá mun það taka mig 5 ár að safna mér (án tillits til ávöxtunar og fjármtskatts)! Nenni ég því! Eða er kanski betra að hætta barneignum, hef ekki aldur eða þolinmæði í þetta. EÐA flytja erlendis og gefa skít í þetta allt saman! Þetta þýðir að við sem GETUM borgað munum ekki hreyfa okkur amk næstu 5 árin, hvað gerir það fyrir samfélagið? Geri ráð fyrir að þeir sem fái leiðréttingu séu þeir sem hoppuðu STRAX í endanlega eign og munu hvorki stækka né minnka við sig næstu árin (þ.e. ef viðkomandi er af minni kynslóð).

Það jaðar við að manni finnist þetta mannréttindabrot. Ég er skuldaþræll í pínulítilli kompu sem get borgað til samfélagsins en ég mun ekki geta notið ávöxtunar af minni vinnu, hún fer öll til fjármagnseigenda og ríkisins.

Það versta er að ég hef enga trú á almenningi að fólk fari að stíga upp úr sófanum og gera eitthvað í málnum. Hef enga trú á því, því miður.

DD (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 00:24

4 Smámynd: Guðmundur Friðrik Matthíasson

Þetta er lélegasta ríkistjórn sem við völd hefur verið frá upphafi svo ætlar hún að útríma millistétt ....ætlar fólk ekki að fara gera eitthvað standa saman hanski

Guðmundur Friðrik Matthíasson, 4.12.2010 kl. 00:36

5 Smámynd: Guðmundur Ingi Kristinsson

Eftir áratugslangar tilraunir við að tala við vinstri menn um fjármagn gafst ég upp fyrir margt löngu. Eina sem þeir höfðu vit á í því samhengi var hvernig hægt væri að taka það frá öðrum. Enginn sköpun ekkert frumkvæði og sumir þeirra jafnvel ráðherrar vita ekki að hagvöxtur er mælieining en ekki gerandi í hagkerfinu. Og engan vinstrimann hef ég hitt sem hefur lesið Das Capital eftir Karl Max sem sýnir á einfaldan hátt hvernig skattar rýra kjör allra.

Guðmundur Ingi Kristinsson, 4.12.2010 kl. 00:57

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

DD, stundum get ég reitt hár mitt af reiði en það tjóar víst ekki.

Marinó G. Njálsson, 4.12.2010 kl. 01:00

7 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Góð grein og akkúrat,sem hægt er að segja,því þetta er sannleikurinn í málinu.

 Unga fólkið sem keyptu fyrir með 100% lánum nýtur breytinga,en miðaldra og eldra fólk,sem áttu fyrir 5o% í eigninni,,sem var komin niður í 20-30% og standa í skilum, fá enga leiðréttingu.

Ef fasteignamatið hækkar aftur,hækka allar fasteignir,verður hlutur þeirra,sem skulduðu mest orðin hærri,en þeir sem skulduðu minna.

Ingvi Rúnar Einarsson, 4.12.2010 kl. 01:07

8 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Það er ekkert orðið annað í stöðunni en að fólk taki sig saman og taki slaginn hvort sem það vill eða vill ekki og sameinist um að breyta þessu annað hvort undir merkjum HH eða öðruvísi það þarf að koma hér srjórnarfari og þjóðfélagi sem boðlegt er að skilja eftir handa börnunum þega maður verður burt kallaður og Marinó ég myndi líka reita hár mitt ef það væri eitthvað eftir

Jón Aðalsteinn Jónsson, 4.12.2010 kl. 01:14

9 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta undir neinum kringumstæðum. Munum 7 des. Hreinsum út innistæður úr bankakerfinu. Ef ég ætti þess nokkurn kost þá tæki út allan minn lífeyrissparnað.

Fín grein að vanda hjá þér Marinó.

Sigurður Sigurðsson, 4.12.2010 kl. 01:28

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Við horfum auðvitað uppá afleiðingar torgreindu peningastefnunnar. Þær eru gengisfellingar, verðbólga og eignabruni. Ríkisstjórnin er ekki að breyta neinu sem máli skiptir, nema hugsanlega að róa yngsta fólkið, sem líklegast er til að kasta grjóti í Alþingishúsið.

 

http://altice.blogcentral.is/blog/2010/12/2/stjornarskrain-og-peningastefna-a-islandi/

 

Fasteignaverð á ennþá eftir að lækka mikið og þeim sem eru með veðsetningar umfram eignaverð mun fjölga. Er þá ætlunin að afskrifa meira af skuldum þannig að þær verði aldreigi hærri en 110% af fasteignamatinu ?

 

Vandamálið er ekki eignastaða fólks í dag eða á morgun, heldur þegar það selur íbúðina sína. Í dag og á morgun er það greiðslugetan sem skiptir máli. Er verið að bæta greiðslugetuna með hærri sköttum, atvinnuleysi og skertum elli- og örorkubótum ?

 

Síðan er það þessi hrikalega mismunun, sem allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúast um. Hvers vegna var ekki gengi Krónunnar styrkt og vísitalan keyrð til baka ? Hvers vegna voru vextir ekki lækkaðir til að lækka greiðslubyrði fólks ? Hvort tveggja átti að gera strax eftir hrunið.

 

Frá hruni eru bankarnir búnir að róta saman milljörðum Króna. Það er ekki vegna meðgjafar með yfirteknum íbúðalánum, heldur vegna innlána þeirra hjá Seðlabankanum. Hvers vegna voru nýgju bankarnir tveir látnir í hendur erlendra kröfuhafa ? Hvers vegna var sjálfstæði landsins vanvirt með eftirgjöf fyrir kröfum AGS ? Hvers vegna ætlar ríkissjóður Íslands að fara sömu leið og ríkissjóðu Írlands ?

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 4.12.2010 kl. 01:57

11 Smámynd: Hörður Þórðarson

Hvers vegna hefur þú lokað síðunni þinni, Loftur?

Hörður Þórðarson, 4.12.2010 kl. 03:39

12 identicon

Jólalögin í ár, og öll í boði Svikastjórnar Jóhönnu og Steingríms.

Að sjálfsögðu "TUNNUSLÁTTUR"

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 06:37

13 Smámynd: Hafþór Baldvinsson

Er ekki hægt að stofna svona "Landic property" sem kaupir upp allar/margar eignir á landinu og leigir síðan út með möguleika á kaupum þegar markaðurinn jafnar sig?

Það er ljóst að fjármagnseigendur vilja ekki samninga sem hentar fólki. Er þá ekki best að notfæra sér Gamla Ísland því Nýja Ísland verður ekki endurreist úr þessu, nota sömu aðferðir og áður voru notaðar?

Mér verður óglatt við þessar eintómu viljayfirlýsingar og þarf sennilega að leita læknis vegna ofnæmis fyrir þeim.

Hafþór Baldvinsson, 4.12.2010 kl. 06:52

14 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Mjög góður pistill eins og og alltaf hjá þér Marinó. Það er líka svo gott, að pistlarnir þínir eru skrifaðir á mannamáli sem flestir skilja,  en ekki á "getið í eyðurnar máli" eins og stjórnmála menn nota.

            " Loftur!!

 Ég segi eins og Hörður, hvers vegna opnar þú ekki síðuna þína með alla þína góðu pistla

Eyjólfur G Svavarsson, 4.12.2010 kl. 13:51

15 identicon

Frábært, það er verið að hegna mér fyrir að hafa ekki tekið þátt í neinu sukki.. er ísland ekki frábært

doctore (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 16:32

16 Smámynd: Elle_

Núna hefur fjöldi manns eytt ævisparnaðinum í okur- og rán-vexti og eina sem ríkisstjórn banka gerir er að leiðrétta gjaldþrota skuldir og gróflega mismuna.  Og bankarnir þurfa enn ekki að skila þýfinu. Við hin sem erum að eyða ævisparnaðinum í ránin ættum að hætta að borga núna strax. 

Elle_, 4.12.2010 kl. 16:49

17 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Marinó og þína baráttu.  Þessi niðurstaða ríkisstjórnarinnar er ekkert annað en aukið rugl og flækjustig í málunum án nokkurra raunverulegra úrræða. Af hverju á fólk að fara að endurkaupa íbúðirnar sínar á yfirverði?  Hvernig stendur á því að skattgreiðendur eiga að niðurgreiða vexti fyrir fjármagnseigendur.

Það þurfti að fara í almenna skuldaniðurfærslu þannig að alla vega ránsfeng verðtryggingarinnar frá hruni yrði skilað til skuldara. Það var lágmarkið.  En nú vitum við að það á ekki að afskrifa innheimtanlegar kröfur.  Hvað er þá verið að gera. Hvaða hjálp er verið að rétta. Aukna skattheimtu til að hækka vaxtabætur. Hvaða hjálp er í því fyrir aðra en lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki?

Jón Magnússon, 4.12.2010 kl. 23:29

18 identicon

Góður pistill Marinó og fín umræða hér líka.

En hvað skyldi þurfa til að Íslendingar átti sig á samtakamætti sínum? Eignaupptakan er í fullum gangi en flestir yppa öxlum og hafa enga trú á að þeir geti haft nokkur áhrif...furðulegt!

Valgerður (IP-tala skráð) 5.12.2010 kl. 11:09

19 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Almenn skuldaniðurfelling tekur ekki á nema hluta vandans og skapar önnur vandamál.  Á meðan við erum með tvo gjaldmiðla, verðtryggða krónu í fjármagnsgjörningum og gjaldfellda krónu í launaumslagið verður þetta kerfi ekki leiðrétt.

 Verðtryggingin fjármagnsmegin nýtur verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, en skuldarar hafa enga hliðstæð vernd.  Þetta skiptir miklu máli og er ekki hægt að horfa fram hjá.

Þetta er mjög flókið mál til úrlausnar, alla eignaupptöku þarf að bæta segir stjórnarskráin, þannig að allar aðgerðir til að leiðrétta skuldastöðuna lendir á eigendum fjármálastofnanna og þar er ríkið stærst.  Hér er Ísland í nokkurri sérstöðu þar sem önnur lönd hafa sama gjaldmiðil fyrir skuldir og eignir þannig að auðveldara er að lækka skuldabyrði með því að lækka vexti báðum megin um sömu upphæð. 

 Þannig geta önnur lönd hjálpað sínum skuldurum án þess að setja fjármálakerfið á annan endann.

Andri Geir Arinbjarnarson, 5.12.2010 kl. 15:51

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Andri Geir, sem varamaður í bankaráði þá hlýtur þú að skilja eðli þeirra hugmynda sem settar hafa verið fram.  Þú hlýtur líka að skilja að ekki er um eignaupptöku að ræða þegar eignin var fengin með afslætti.  Staðreyndin er sú, að allir bankarnir fengu öll lán heimilanna með afslætti, ekki bara sum, eins látið hefur verið í veður vaka.  Tillögurnar á föstudaginn eru að gera ráð fyrir stór hluti lán, sem fengust með afslætti, eigi að greiða fyrir önnur lán sem ekki fengust með þeim afslætti sem verið er að veita þeim.  Þetta er röng nálgun.

En þetta veist þú allt sem varamaður í bankaráði.  Er það ekki annars?

Marinó G. Njálsson, 5.12.2010 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 1681235

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband