Leita í fréttum mbl.is

Jóhanna: Allt einkavæðingunni að kenna - Er það alveg rétt?

Jóhanna Sigurðardóttir leitar logandi ljósi af ástæðu til að varpa sökinni af hruninu á eitthvert atvik í fortíðinni.  Eins og við vitum er hún gjörn á að finna möntrur til að fara með og núna hefur hún fundið nýja.  Hrunið er einkavæðingunni að kenna.  Ég ætla sem sem ekki að mótmæla því að einkavæðing bankanna hefur talsvert með það að gera að bankarnir hrundu.  En þetta er eins og að segja að bílslys sé því að kenna að hér eru seldir bílar.

Það er alveg öruggt að þar sem eru bílar og götur verða bílslys, en eftir því sem þeir eru færri, göturnar betri, reglurnar stífari og eftirlitið meira minnka líkurnar.  Með tilkomu bílbelta og öruggari bíla hefur slysum á fólki fækkað, að ég tali nú ekki um banaslysum.  Væri umferðaeftirlit aukið til muna, dregið úr hámarkshraða, götur breikkaðar, kennsla og fræðsla efld, þá er ég sannfærður um að þeim fækkað enn frekar.

Sama er með einkavæðing bankanna.  Einkavæðingin ein og sér er ekki ástæðan fyrir hruni hagkerfisins.  Einkavæðingin hefði getað heppnast bara mjög vel, ef allt annað sem þurfti að vera til staðar, hefði verið í lagi.  Ég hef á nokkrum sinnum nefnt hér þau atriði sem ég tel hafa skipt mestu máli og langar að rifja þau upp hér (birt fyrst 9. október 2008 og aftur nokkrum sinnum eftir það með breytingum):

  1. Mistök í peningamálastjórnun Seðlabanka Íslands allt frá því áður en krónan var sett á flot í mars 2001.
  2. Mistök við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands.
  3. Meingallað regluverk fjármálakerfisins, þ.m.t. fyrirkomulag eftirlits með fjármálafyrirtækjum
  4. Basel II regluverkið um eiginfjárhlutfall og áhættustjórnun fjármálafyrirtækja, röng innleiðing þess og framkvæmd bæði hér á landi og erlendis
  5. Alvarlegar brotalamir í starfsemi matsfyrirtækjanna
  6. Mistök í áhættustjórnun erlendra fjármálafyrirtækja sem veittu íslensku bönkunum aðgang að lánsfé
  7. Mistök eða vanmat í áhættustjórnun íslensku fjármálafyrirtækjanna
  8. Vöntun á verklagi við stjórnun rekstrarsamfellu hjá fjármálafyrirtækjum, fyrir utan kannski hjá upplýsingatæknisviðum fyrirtækjanna.
  9. Djörfung og fífldirfska stjórnenda og eigenda (tengist 7 og 8)
  10. Hrein og klár fjársvik eigenda bankanna vegna þess að þeir voru jafnframt stærstu lántakendur
  11. Vanhæfni íslenskra stjórnmálamanna (og embættismanna, þ.m.t. SÍ og FME) til að takast á við og halda utan um sístækkandi bankakerfi
  12. Afneitun allra sem nefndir eru að ofan

Að kenna einkavæðingunni um allt, er að stinga hausnum í sandinn og kemur í veg fyrir að farið verður í nauðsynlegar breytingar á stjórn- og eftirlitskerfinu.

Annar endaði ég færsluna 9. október 2008 með eftirfarandi orðum:

En hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur?  Þegar stórt er spurt er ekki alltaf mikið um svör.  Ég vil þó leggja til nokkrar tillögur: 

  • Það þarf að breyta lögum og reglum og veita FME, Seðlabanka og ríkisstjórn mun meiri heimildir í að stoppa menn af. 
  • Það þarf að breyta reglum um eiginfjárhlutfall fjármálastofnana, þannig að 8% séu lágmark sama hvaða lán á við til annarra en opinberra aðila.  Einnig mætti hækka eiginfjárhlutfallið í 12 eða 16% og halda áhættustuðlum Basel II óbreyttum.  Þó er kannski betra að færa stuðlana aftur til þess sem gilti fyrir 2. mars 2007. 
  • Innleiða þarf eins og skot nýjar reglur Basel nefndarinnar hjá BIS um stjórnun greiðsluhæfisáhættu/lausafjáráhættu.  Setja þarf það skilyrði að allar fjármálastofnanir uppfylli þær reglur frá og með áramótum. 
  • Endurskoða þarf lög um Seðlabanka Íslands, fækka bankastjórum í einn og setja það skilyrði að hann hafi sérþekkingu á málum peningamálastjórnunar, auk þess að vera með mikla reynslu úr fjármálaheiminum.  Helst einhverja alþjóðlega reynslu.
  • FME þarf að breyta eftirliti sínu úr því að menn sendi inn skýrslur á netinu yfir í að skýrslum sé skilað á formlegum fundum, þar sem menn þurfa að sýna fram á hlutina.  Ég er ekki að gefa í skyn að menn séu ekki að greina rétt frá, en menn verða nákvæmari þegar skýra þarf svörin út jafnóðum.  Fyrir vikið þarf að efla og styrkja FME.
  • Banna þarf að stofna til reikninga eins og Icesave út frá Íslandi.  Vilji menn gera það, skal það gert í erlendum dótturfélögum/systurfélögum. 
  • Það er ekki hægt að banna útrás, en hún verður að fylgja réttum leikreglum.

Og svo fyrir okkur sem engu ráðum: 

  • Af nema verðtryggingu lána.  Við erum búin að borga þessa verðtryggingu dýrum dómi og nú er tími til kominn að hún hverfi.  Án verðtryggingar bíta stýrivextir strax og á stærri hluta útlána.  Það má meira að segja gera þá kröfu að stýrivextir hafi vægi inn í vexti erlendra lána, ef menn vilja.

Mér sýnist sem ég hafi óaðvitandi gert tillögu að því að ráða Má Guðmundsson sem Seðlabankastjóra!

En aftur að einkavæðingunni.  Höfum í huga, að tveir bankanna þriggja voru bara að hluta einkavæddir af Halldóri og Davíð.  Kaupþing var í einkaeigu og sama gilti um Íslandsbanka II., þ.e. þann sem stofnaður var með sameiningu Verzlunarbanka, Útvegsbanka, Alþýðubanka og Iðnaðarbanka.  Þó svo að ríkið hafi átt hlut í Íslandsbanka II., þá taldist hann einkabanki.  Um það leiti sem Kaupþing sameinaðist Búnaðarbankanum, þá var Kaupþing orðið öflugri banki en Búnaðarbankinn og hefði kollsteypt þjóðfélaginu, þó sameining við Búnaðarbankann hefðu ekki komið til.  Mér finnst því Jóhanna (og raunar margir aðrir) leggja full mikla áherslu á að einkavæðingin sé höfuð sökudólgur.  Einkavæðingin er áhrifavaldur, en bara einn af mörgum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst afar sérkennilegt hvað þú gerir lítið úr einkavæðingunni.(Bílslys af því að seldir eru bílar?!). Einkavæðingin hér á landi var afar sérstakrar tegundar. Pólitískir ráðamenn útdeila ríkiseignum til einkavina og lána pening úr ríkisbönkum til kaupa. Einkavinirnir hafa litla eða enga reynslu af bankarekstri. Flestum myndi detta orð eins og mafía í hug þegar þessu ferli er lýst. Einkavæðing bankanna er hluti af stærra ferli þar sem pólitísk öfl færa vildarvinum ríkiseignir á vildarkjörum. Listi yfir þær eignir er langur. Skelfilegasta dæmið er kvótakerfið og það að útgerðarmenn hafa í reynd slegið eign sinni á fiskistofnana sem eru lögum samkvæmt þjóðareign. Að sjálfsögðu útskýrir einkavæðingin ekki allt,,,. Ég get tekið undir með þér varðandi atriðin 12 sem þú nefnir.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 12:33

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hrafn, ég er ekki að gera lítið úr einkavæðingu Búnaðarbanka og Landsbanka.  Ég vil bara að það sé á hreinu að stór hluti þeirra sem settu hér allt annan endann tóku ekki þátt í einkavæðingu þessara banka.  Þá á ég við Sigurð Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Bakkavararbræður, Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason, Pálma Haraldsson og ýmsa viðskiptafélaga þessara manna.  Það er því ekki hægt að skella allri sökinni á einkavæðinguna, þó menn vilji finna auðveldan sökudólg.  Ég er líka að benda á að hluti bankakerfisins var og hefur alltaf verið í höndum einkaaðila, sbr. allt sparisjóðakerfið, Alþýðubankinn, Verzlunarbankinn og Kaupþing.

Marinó G. Njálsson, 15.9.2010 kl. 12:57

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Svo þykir mér afar furðuleg duld hjá vinstri mönnum, að líta framhjá regluverki EES sem allir dásömuðu svo mjög og ef einhverjum datt í hug, að hallmæla Fjórfrelsinu, var hinn sami óðar stimplaður afturhaldsseggur og þjóðlegt lopaíhald.

Man ekki betur en að fyrrum Viðskiptaráðherra hefði haldið innblásnar ræður um, að hið opinbera ætti að láta af afskiptum af Markaðinum og setja Íbúðalánasjóð í hendur þeirra sem með kynnu að fara.  Þetta var þegar hann gegndi fyrri störfum fyrir Samkeppnisráð.

Svo er athyglivert, að lesa ræður þingmanna af vinstri vængnum um frelsi mann að fara milli landa í atvinnuleit og að fyrirtækin ættu að njóta frelsis um skráningu starfsmanna og að erlendir aðilar ættu að fá að bjóða í verk hérlendis.

Aldrei skilið, hvernig menn ætla 300 þúsund manna þjóð, að standast ásælni stórþjóða í vanda, samanber þegar atvinnulausir fóru hingað í atvinnuleit frá A Evrópu og Portúgal.  Eða að innlendir gróðapungar munu ekki senda fé sitt úr landi í ,,öruggt skjól" fyrir Skattmann en afbrigði af þeim er oft að vænta í Fjármálaráðuneytið.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 15.9.2010 kl. 15:47

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Margt rétt sem þú segir hér, auðvita er einkavæðingin ekki eina ástæðan, þetta er eins og flugslys, margir þættir þurfa að gerast á sama tíma.  Einkavæðingin er eins og byssa, ef þú setur hana í hendur ábyrgra aðila eru miklar líkur að allt fari vel, en í höndum óábyrgra aðila er voðinn vís.

Það sem þú mátt samt ekki gleyma við Basel II og III er að meta þarf áhættu við sérhvern viðskiptavin, þ.e. við þurfum að fara í "credit scoring" umhverfi eins og í öðrum löndum, þannig er betur hægt að meta "risk weighted assets"  og stilla eiginfjárþörfina betur.  Þetta mun þýða að vaxtakjör einstaklinga og fyrirtækja mun fara eftir lánshæfni hvers og eins, og þar með fá þeir fjársterkustu bestu kjörin, og bestu kúnnarnir eru ekki að niðurgreiða lán til þeirra verstu eins og yfirleitt hefur gerst á Íslandi.  Spurningin er hvort samfélag eins og Ísland er tilbúið í mismunun eins og þessa?  Þetta er eitt af þessum tabú málum sem fáir vilja ræða. 

Mistök í áhættumati einstakra kúnna, mætti bæta við þinn lista. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 15.9.2010 kl. 21:58

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Andri Geir, ég myndi nú segja að ég hafi dekkað þetta ágætlega í listanum mínum.  Basel III var náttúrulega ekki til á þessum tímapunkti, en klúðrið í áhættustjórnun íslenskra og erlendra fjármálafyrirtækja má að ótrúlega miklu leiti skrifa á Basel II, þar sem fyrirtækin bjuggu til pappírshagnað og eignabólur til að geta lánað meira.

Mistök í áhættumati einstakra hlunna fellur líka undir mistök í áhættustjórnun íslenskra fjármálafyrirtækja.  Raunar er spurning hvort hægt sé að tala um þetta sem mistök, þar sem fyrirtækin voru augljóslega að spila rúllettu með því að veðja alltaf á svart.  Það gekk vel nokkur skipti í röð, en svo bara kom rautt og allt var tapað.

Marinó G. Njálsson, 15.9.2010 kl. 22:28

6 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Í framtíðinni mun þetta breytast.  Þjóðverjar hafa lært sína lexíu, þeir munu ekki aftur vanmeta áhættuna af því að lána til Íslands eða annarra jaðarríkja í Evrópu og bankar á Íslandi verða að fara að setja áhættumat í fyrsta sæti.  Lán í erlendum gjaldeyri verða rétt verðlögð í framtíðinni og kannski sveiflast pendúllinn í hina áttina, betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og smyrja á Íslandsálagið.  Verkefni á Íslandi þurfa að sýna ansi háa ávaxtakröfu til að komast á koppinn í framtíðinni.  Frumkvöðlar sem hafa góðar hugmyndir en ekki uppfylla ávöxtunarkröfu og áhættumat á Íslandi verða að fara til annarra landa þar sem fjármagn er ódýrara.

Það má því búsat við góðri uppsveiflu í Þýskalandi í framtíðinni og sparifé Þjóðverja mun því í minna mæli þurfa að fara úr landi til ávöxtunar.

Andri Geir Arinbjarnarson, 15.9.2010 kl. 23:31

7 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég held að einkavæðingin hafi verið herfilega illa útfærð, en hún ein var ekki ástæða bankahrunsins, hún var upphafið að því.  Á svipaðan hátt og bannaárin voru upphafið að stórefldum ítökum mafíunnar hér í Bandaríkjunum.  Það er ekki hægt að segja að sölubann á áfengi hafi verið aðalorsökin, heldur einbeittur brotavilji þeirra sem sáu sér leik á borði að græða óhemju fé á ólöglegri starfsemi.  Einkavæðingin, eins og áfengisbannið, voru hörmulega illa útfærðar, stjórnlausar og hvorug gat endað vel. 

Hvað rúllettuna varðar þá vann ég einu sinni tuttugu þúsund pund í rúllettu með því að veðja alltaf á rautt;)  Því miður vorum við að spila með gerfi-peninga en ég nældi í eina viskýflösku í vinning

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 16.9.2010 kl. 01:42

8 Smámynd: Kristinn Pétursson

Marinó - afsakaðu kaldhæðnina í mér.... í tilefni nýlegrar umræðu

.... en hafið þið nokkuð velt fyrir ykkur að ráða bara handrukkara til að innheimta ólöglega vörslusviptar bifreiðar og fá til baka heimili semfólk hefur verið svipt - eða borið út af  - og þetta voru þá  ólögleg lána....   

... manni virðist hugsanlega lítið að gera hjá  handrukkurum þessa dagana og þetta er svona spurning - með  kaldhæðni í tilefni dagsins...

 eða eins og maðurinn sagði........ smá djók....

Kristinn Pétursson, 16.9.2010 kl. 03:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband