10.9.2010 | 11:29
Fundur um fátækt - 700 - 1000 manns væntanlega borin út vegna skulda á næstu vikum og mánuðum
Hagsmunasamtök heimilanna voru beðin um að senda fulltrúa til að vera í pallborði á fundi BÓT um fátækt sem haldinn var sl. miðvikudagskvöld í Ráðhúsi Reykjavíkur. Tók ég það hlutverk að mér og sé ég ekki eftir því. Fyrst nokkrar tölur sem birtar voru á glærum sem varpað var upp á tjald:
- Atvinnuleysisbætur eftir skatta, stéttafélagsgjöld og lífeyrissjóð kr. 137.104
- Ellilífeyrir eftir skatta u.þ.b. kr. 150.000
- Fjárhagsaðstoð Reykjavíkur eftir skatta og lífeyrissjóð kr. 123.019
- Örorkulífeyrir eftir skatta u.þ.b. kr. 157.000
- Árið 2009 gátu 36.900 heimili ekki mætt óvæntum útgjöldum. 48.500 heimili eiga í erfiðleikum.
- 15.747 einstaklingar þiggja örorkulífeyri
- 13.412 eru á atvinnuleysisbótum
Einnig var varpað upp hugleiðingu ráðgjafa hjá líklegast Rauða krossinum (náði ekki að punkta það hjá mér):
Starf ráðgjafa hefur á undanförnum árum breyst frá því að hjálpa fólki að takast á við greiðsluerfiðleika í það að fá fólk til að horfast í augu við greiðsluþrot.
Fundurinn var þannig skipulagður að fyrst töluðu 5 frummælendur, en auk þeirra sátu fyrir svörum tveir hópar. Annar hópurinn sat við háborð og hann skipuðu Þorleifur Gunnlaugsson, Ásta Sigrún umboðsmaður skuldara, Elín Björk formaður BSRB, Ögmundur Jónasson ráðherra, Gylfi forseti ASÍ, Guðbjartur Hannesson ráðherra, Vilhjálmur Birgisson Verkalýðsfélagi Akraness og Björk Vilhelmsdóttir frá Reykjavíkurborg. Í hinn hópurinn sat ríflega skör lægra og þar voru nokkrir þingmenn (þar af allir úr þinghópi Hreyfingarinnar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Lilja Mósesdóttir), fólk úr velferðarþjónustunni, Margrét María umboðsmaður barna, Hannes G. Sigurðsson frá atvinnurekendum, Gísli Tryggvason talsmaður neytenda og síðan ég fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna (vona að ég gleymi engum). Fjölmennur hópur og missti það nokkuð marks að hafa hann svona fjölmennan.
Guðmundur Ingi Kristinsson, titlaður talsmaður öryrkja, tók fyrstur til máls. Byrjaði hann á því að benda á að 10 þúsund börn búa við fátækt. Já, 10.000 börn. Hann vill að tryggðar séu 220 þús. kr. eftir skatta til framfærslu og það strax.
Þeir sem fylgst hafa með baráttur Guðmundar Inga í gegnum árin vita að fáir einstaklingar hafa verið eins lúbarðir af íslenska "velferðarkerfinu"og hann. Sem maður í blóma lífsins lenti hann í bílslysi sem orsakaði að hann varð 75% öryrki. Vegna ótrúlegra galla á íslenskum lögum, sem tryggingafélögin fengu í gegn á sínum tíma, þá voru allar bætur vegna slyssins teknar af honum vegna framtíðarbóta frá almannatryggingakerfinu. Hann lenti síðan aftur í slysi nokkrum árum síðar og varð við það 100% öryrki, en komst þá að því að öryrki fær ekki bætur fyrir líkamstjón eftir umferðaslys! Saga Guðmundar er einn af mörgum ljótum blettum á íslenska velferðarkerfinu og ennþá verri er sú staðreynd að mörgum þingmönnum fannst í gegn um tíðina eðlilegt og sjálfsagt að löggjöf verndaði tryggingafélög fyrir því að greiða út þær bætur sem fólki var talið trú um að fælust í þeim tryggingum sem það greiddi fyrir. Guðmundur lenti í fyrra slysi sínu 1991 eða þar um bil og þessi fásinna var ekki afnumin úr íslenskum lögum fyrr en á síðasta ári og var þá búið að svæfa frumvarpið í nefndum Alþingis af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í líklegast 10 ár.
Jæja, aftur að fundinum. Ekki það að Guðmundur Ingi rifjaði upp þessa sögu sína (sem ég hef fylgst vel með á annan áratug). Hann benti líka á þann fáránleika að lífeyrisþegar og makar þeirra búa við tvöfalt skattkerfi. Fyrst greiða viðkomandi sömu skatta og allir aðrir, síðan borga þeir skatt sem fellst í því að bætur skerðast. Fái öryrki t.d. fjármagnstekjur, þá greiðir hann fyrst fjármagnstekjuskatt og síðan fara 25% af fjármagnstekjunum (fyrir skatt) í að lækka lífeyristekjur. Ekki bara það, fái maki öryrkja fjármagnstekjur, þá gerist það sama! Þetta er svo heimskulegt, að það nær engu tali. Ég tek það fram að ég þekki þetta á eigin skinni og hef ítrekað sent erindi og kvartanir út af þessu til stjórnvalda. Meira að segja voru örorkubætur eiginkonu minnar einu sinni skertar vegna starfstengdra tekna minna vegna þess að þær flokkuðust hjá skattinum sem fjármagnstekjur!
En Guðmundur gerði meira en að kvarta. Hann kom líka með ábendingar um lausnir. Leggur hann til að gefinn verði út viðbótarkvóti sem seldur verið á markaði. Söluvirðið færi síðan í að bæta kjör þeirra verst settu.
Næstur talaði Alvar Óskarsson, titlaður talsmaður ellilífeyrisþega. Hann var harðorður í garð panelista. Sagði þetta vont þjóðfélag og að stjórnmálamenn hafi gert það verra. Taldi hann núverandi þing vera vont og spillt og á Alþingi væru kannski 4-6 þingmenn sem þjóðin geti treyst. "Og þarna er einn þeirra", sagði hann og benti á Lilju Mósesdóttur. Sagði hann þingheim og verklýðshreyfingu undir sömu sökina selda. Furðaði hann sig á því að setja ætti milljarða tugi í nýtt sjúkrahús og ekki væri peningunum betur varið sem færu í tónlistahúsið, meðan engir aurar væru til fyrir það sem héti almanna heill. Alvari var mikið niðri fyrir og var reiði hans réttlát að mínu mati.
María Jónsdóttir, var titluð talsmaður félagsbóta(þega). Hún varpaði fram þeirri spurningu hvort hún væri sníkjudýr á borgina af því að hún þiggur bætur fyrir sig og börnin sín. Hún sagðist tilheyra lægstu stétt samfélagsins, þ.e. bótaþegum. Hún þyrfti að lifa á 123 þús. kr. á mánuði og þakkaði fyrir hvern dag sem hún lifi af. Hún lýsti reynslu sinni af glímunni við bankakerfið, sem komið hefði öllu í kaldakol og krefðist nú aleigu hennar fyrir vikið. Ljóst væri að skjaldborg heimilanna fælist í því að heimilin takið allt hrunið beint á sig. Hvatti hún stjórnvöld til að hætta að framleiða fátækt og stoppa eignaupptökuna. Enginn væri óhultur og enginn vissi hver yrði næstur.
Sveinbjörn Fjölnir Pétursson, var titlaður talsmaður atvinnulausra. Hann sagðist vera búinn að vera atvinnulaus í 24 mánuði og vildi gjarnan skipta við einhvern sem hefði vinnu. Bæturnar hans væru 130 þúsund kr. á mánuði og þar af 11 þ.kr. með tveimur börnum undir 18 ára. Kostulegast fannst honum þó að af þessu greiddi hann 11 þ.kr. í skatt! Hann lýsti, eins og raunar aðrir frummælendur, eftir nýju og einföldu kerfi með lágmarks framfærsluviðmið. Hann vill einnig að kerfið sjái um að einstaklingurinn fái það hann á rétt á.
Helga Þórðardóttir frá Sumarhjálpinni talaði síðust frummælenda. Hún sagði mikla neyð hafa skapast þegar hjálparsamtökin tóku sér sumarfrí, þar sem fátæktin hefði ekki gert það. Hún sagði erfitt að tala um fátækt áhorfandi, verra að vera fátækur en verst að tala um fátækt sem fátæklingur (ekki orðrétt eftir henni haft). Öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafa lengi glímt við fátækt og einnig atvinnulausir, en núna hefur bæst við nýr hópur: skuldarar. Hún nefndi að framundan væru 700 útburðir! Hvert ætti þetta fólk að fara? Sagði hún mikilvægt að ráðamenn viðurkenni fátækt og sameinist um lágmarksframfærslu sem alls ekki megi skerða.
Eftir framsögu var spurningum beint til pallborðsins. Ég ætla ekki að fara mikið út í þá umræðu, en mér fannst ekki vera trúverðugar varnarræður allra sem þar voru. Merkilegast var að hlusta á forseta ASÍ lýsa því sem hann hefur sagt og gert, eins og það sé honum að þakka að ástandið sé ekki verra. Fyrirgefðu, ágæti forseti ASÍ, það er ASÍ og verklýðshreyfingunni að kenna að ástandið sé eins og það er vegna þess að þið eruð sífellt með undirlægjuhátt við atvinnurekendur og stjórnvöld og setjið hnefann aldrei í borðið. Ástæðan er einfaldlega að hagsmunir ykkar liggja beggja vegna borðsins. Ekki er hægt að taka afstöðu með sjálfsögðum réttindum almennings vegna þess að þið eruð varðhunda fjármagnsins í gegnum lífeyrissjóðina. Afkoma lífeyrissjóðanna skiptir ykkur meira máli, en afkoma umbjóðenda ykkar. Það er ykkar hlutverk að gæta hagsmuna hinna starfandi stétta. Launamaðurinn sem á vart til hnífs og skeiðar er engu bættari í dag þó lífeyrisréttindin verði feikigóð eftir 20 ár, enda er það fugl í skógi. Hættið að dvelja í framtíðinni og komið inn í nútímann. Ekki bara heimta réttlæti fyrir heimili landsins, látið lífeyrissjóðina fara á undan með því að fella niður allar verðbætur á lánum sjóðfélaga og skuldabréfum Íbúðalánasjóðs frá 1.1.2008. Það yrðu mestu kjarabætur sem umbjóðendur þínir, herra forseti ASÍ, gætu mögulega fengið. Það er líka fordæmi sem aðrar fjármálastofnanir gætu ekki hunsað. Veltu því fyrir þér að frá aldamótum hafa lífeyrissjóðirnir haft um 300 milljarða í tekjur af verðtryggingunni, en hún er búin að hækka lán heimilanna um 700 milljarða. Hvar liggja hagsmunir umbjóðenda þinna? Það er líka tími til kominn, að verkalýðshreyfingin verði einmitt það, þ.e. verkalýðshreyfing. Kljúfi sig frá öðrum aðilum vinnumarkaðarins, þannig að enginn velkist í vafa um að aðilar vinnumarkaðarins séu í fleirtölu en ekki eintölu eins og núna virðist helst.
Ég get ekki horfið frá fundinum án þess að minnast á Sigrúnu Reynisdóttur. Hún talaði utan úr sal og sagðist vera formaður Samtaka gegn fátækt sem stofnuð voru fyrir rúmum 10 árum. Þá voru biðraðirnar langar og hafa lengst, þar sem ekkert hefði verið gert síðustu 10 ár. "Verður þetta svona næstu 10 ár?", spurði hún. Ég held að stjórnvöld ættu að ræða við þessa konu. Hún þekkir þetta greinilega betur en margir aðrir.
---
Vegna ádeilu minnar á forseta ASÍ, þá vil ég taka fram, að ég er sjálfstætt starfandi einstaklingur og er því ekki í neinu verklýðsfélagi. Ég hef því ekki neina aðkomu að kjarabaráttu launafólks í dag. Ég var aftur í fararbroddi í kjarabaráttu aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum við samningsgerð 1996 - 1997. Þar sem ég er sjóðfélagi í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, þá hamla lög því að ég eigi nokkurn möguleika á því að setjast í stjórn sjóðsins nema að ég komist fyrir ársbyrjun 2012 í náðina hjá þeim fjármálaráðherra sem þá mun sitja. Sjóðfélagar í Söfnunarsjóðnum eru nefnilega algjörlega áhrifa- og valdalausir þegar kemur að vali stjórnarmanna. Fjármálaráðherra sér um það fyrir okkar hönd!
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 1681248
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Dabbi sagði á sínum tíma að fátækt væri ekki til á Íslandi og Íslendingar væru alltaf ginnkeyptir fyrir því sem er fríkeypis. Allt sem Dabbi hefur sagt um alla tíð er satt. Dabba aftur í Flokkinn.
Dabbamaður (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 11:56
Held að Sigrún sé nú kannski ekki rétta konan til að ræða við. Hef hlustað á hana nær daglega suma mánuði í Útvarpi Sögu og skv. því sem mér skilst er hún að mestu ein með þessi "Samtök" og engar biðraðir eða úthlutun hjá henni.
Magnús Helgi Björgvinsson, 10.9.2010 kl. 12:01
Ömurlegt ástand - tryggingakerfið Marínó er búið að vera alvarlega klikkað lengi.
Ég kynntist þessu rugli líka þegar ég var að glíma við það vegna Alzheimer veiks föður míns.
Þ.e. enginn öfundsverður af því að eiga við þetta kerfi.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.9.2010 kl. 12:15
Þessi málefni eru ekki ný af nálinni. Ég benti á slæm kjör einstæðra foreldra, eldri borgara og öryrkja fyrir einum tólf árum síðan. Aðstæður fátækra á Íslandi eru landi og þjóð til skammar. Hér er engum einum að kenna.
Ásgerður Jóna Flosadóttir (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 13:57
Einu sinni mældist engin spilling á Íslandi.
Nú telst hún svipuð eða meiri en á Ítalíu.
Óskar Guðmundsson, 10.9.2010 kl. 15:05
Takk Marínó.
Enn og aftur er maður svo miklu fróðari eftir innlit hjá þér.
Síðustu daga hefur þú átt hvert þungavigtarbloggið á fætur öðru, sem sannar að ennþá er von hjá þessari þjóð. Að ennþá þrífist vitræn umræða.
En sorgin í þessum pistli er sú að ég er að lesa um 10.000 börn sem búa við fátækt á bloggi einstaklings sem er í sjálfstæðum rekstri. Fyrir um tveimur árum síðan þá las ég menn eins og Jakobstvíbura eða Stefán fótboltaáhugamann með meiru, svo ég minnist á helstu pennana. Og hann Einar Kára, og allir hinir rithöfundana, eða þeir Jökulssynir, þeir höfðu þetta allt á hreinu.
En í dag, í dag er minning þeirra að hverfa í húm gleymskunnar, en fátækum börnum fjölgar með hverjum deginum.
Og þúsundir munu missa heimili sín á næstu vikum og mánuðum.
Þess vegna les ég svona pistla með athygli og von í hjarta.
Hafðu þökk fyrir Marínó.
Og keep on running.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.9.2010 kl. 18:28
Athugasemd með Örorkubætur.
Við hvaða aðstæður ná Öryrkjar 157þ eftir skatta? Ég spyrr þar sem ég persónulega hef aldrei séð hærri greiðslur en 142þ eftir skatta og á að heita með hæstu mögulegar greiðslur sem hægt er að fá.
ES: Samt þurfti ég að greiða 67þ í eftir skatta í ár!
Óska Nafnleyndar (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 19:18
Tölurnar eru ekki frá mér komnar heldur hafði einhver tekið þær saman á þessar glærur sem varpað var upp á tjald. Ég hef því engar upplýsingar um það hvernig þær voru fengnar.
Marinó G. Njálsson, 10.9.2010 kl. 20:03
Sæll Marinó
Fróðlegur pistill um magnaðan fund.
Varðandi athugsemd Óska Nafnleyndar, þá færð þú trúlega örorkubætur frá þínum lífeyrissjóði með örorkubótum frá TR. Örorkubætur lífeyrissjóða eru framreiknaðar til 67 ára aldurs miðað við vinnuframlag/greiðslur til sjóðanna í tiltekinn tíman fyrir orkutap. Það getur skýrt mun á bótum.
En að réttindum lífeyrisþega þá eru þau léleg og þar er tekjutengingin svartasti bletturinn. Sögur af fólki sem hefur orðið fyrir miklu óréttlæti vegna tekjutenginga eru óteljandi og margar mjög svartar.
Saga Guðmundar Inga er ein af þeim svörtustu og maður skammast sín fyrir að svona óréttlæti skulu gerast í okkar ríka samfélagi.
Um forseta ASÍ er það að segja að ég hitt hann nýlega á fundi og þar barst talið að forsendubresti vegna verðtryggingar. Hann sagðist ekki skilja hvernig hægt væri að tala um forsendubrest gagnvart verðtryggingu. Það væri hreinlega gert ráð fyrir verðbólguskotum og þannig væti það bara. Í mínum huga er heilt bankahrun ekki bara verðbólguskot. Hann talaði hinsvegar um réttlæti þess að samningsvextir giltu á gengistryggðu lánunum.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.9.2010 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.