Leita í fréttum mbl.is

Misskilningur eða útúrsnúningur fyrrum bankamanns

Erlendur Magnússon, framkvæmdastjóri, skrifar grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann kemst að þeirri furðulegu niðurstöðu að lántakar gengistryggðra lána hafi samþykkt allt að 21% vexti á lánum sínum.  Þetta er nú svo mikil vitleysa að henni verður að svara.  Skoðum fyrst hvað Erlendur Magnússon segir:

Ekkert þak á vöxtum

Lögmaður lántaka í vaxtamáli Lýsingar segir fyrir Hæstarétti að lántaki hefði aldrei keypt bíl á láni sem bar 16-21% vexti. Það er undarleg fullyrðing, því með því að taka lán bundið LIBOR-vöxtum skuldbatt lántaki sig til þess að greiða breytilega vexti sama hverjir þeir yrðu á lánstímanum, þar með ef þeir færu upp í 21% á lánstímanum eða jafnvel hærra. Þegar menn taka lán sem bera LIBOR-vexti eða aðra millibankavexti, að viðbættu álagi, þá skuldbinda þeir sig til þess að greiða viðkomandi vexti sama hvernig sem millibankavextir þróast á lánstímanum. Það er aðeins álagið sem er fast í umsaminn tíma; millibankavextirnir breytast frá einu vaxtatímabili til annars. Hversu háir millibankavextirnir geta orðið á samningstímanum veit enginn fyrirfram.

Sem dæmi þá hafa LIBOR-vextir í dollurum hæst farið yfir 19% og LIBOR-vextir í pundum voru um langt skeið 15% fyrir um tveimur áratugum. Það er ekkert sem segir að þeir geti ekki orðið hærri í framtíðinni. Millibankavextir undir 1% í evrum, pundum og dollurum þekktust ekki fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2008 og áttu rætur að tekja til viðbragða seðlabanka um heim allan til að koma í veg fyrir hrun alþjóðahagkerfisins.

Millibankavextir miðast ávallt við tiltekinn gjaldmiðil

Það er viðskiptaregla um heim allan þegar menn breyta höfuðstól láns sem ber millibankavexti úr einum gjaldmiðli í annan þá eru vextir ávallt reiknaðir miðað við millibankavexti nýs gjaldmiðils. Vextir í einum gjaldmiðli bera aldrei millibankavexti annars gjaldmiðils. Komist íslenskur dómstóll að niðurstöðu um að lán í íslenskum krónum skuli bera millibankavexti í öðrum gjaldmiðli, þá dæmir hann íslensk lög og íslenska dómstóla úr leik í öllum alþjóðaviðskiptum næstu áratugina.

Fyrst smá inngangur áður en ég svara einstökum atriðum í grein Erlends.

Lántakar sem kusu að taka gengistryggð lán völdu þá leið, þar sem þeir töldu hana alltaf verða hagstæðari en önnur lánaform sem voru í gangi, þ.e. lán verðtryggð miðað við vísitölu neysluverð  og óverðtryggð lán, sem í boði voru hjá íslenskum fjármálastofnunum.  Sögulega höfðu vextir LIBOR vextir allra þeirra gjaldmiðla, sem lántaka sóttu í, verið vel undir þeim vöxtum sem buðust á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum hér á landi.  Lántakar gerðu líka ráð fyrir að gengið héldist sæmilega stöðugt og þó það sveiflaðist, þá færu slíkar sveiflur frekar hratt yfir og yrðu ekki mjög öfgakenndar, sbr. sveifluna árið 2006.  30% hækkun á erlendum gjaldmiðlum, sem gengi yfir á 6 mánuðum, var eitthvað sem flestir lántaka, sem ég hef verið í sambandi við, töldu sig þola.  Loks gerðu lántakar ráð fyrir að lánaformið sem notað var, stæðist íslensk lög.  Að Hæstiréttur hafi dæmt gengistrygginguna ólögleg breytir ekkert forsendum lántökunnar, þ.e. að heildarlántökukostnaður yrði umtalsvert lægri, en ef tekin væru hefðbundin verðtryggð eða óverðtryggð lán.

Erlendur byrjar á því að segja að lántaki hafi með því að samþykkja LIBOR vexti samþykkt að borga þá sama hve háir þeir yrðu.  Það er vissulega alveg rétt, en enginn lántaki gekk út frá því að vextir þeirra mynta sem þeir tengdu lán sitt við, færu ofar en saga síðustu 10 - 15 ára kenndi okkur. Það eru vissulega dæmi um að vextir á bresku pundi og bandarískum dölum hafi farið upp fyrir 6%, en að þessir vextir hafi eitthvað nálgast 21% er fráleitt.  Nú þó svo að vextir þessara mynta hefðu farið í slíkar hæðir, þá er það ekki það sem lántakinn gekk út frá og hann hefði því ekki tekið lán í viðkomandi mynt vitandi að þeir gætu orðið svona háir.  Erlendur ruglar hér saman fræðilegum möguleika á vaxtastöðu og væntingum lántaka til þróunar vaxtanna.  Þetta á ekkert skylt hvort við annað.  Það er því hreinn útúrsnúningur hjá Erlendi þar sem hann segir:

Þegar menn taka lán sem bera LIBOR-vexti eða aðra millibankavexti, að viðbættu álagi, þá skuldbinda þeir sig til þess að greiða viðkomandi vexti sama hvernig sem millibankavextir þróast á lánstímanum.

að með því hefði lántaki hagað lántöku sinni á þann hátt sem hann gerði, ef hann hefði vitað og gert ráð fyrir að LIBOR vextir myndu fara upp í 21% og vera vel yfir 15% í langan tíma.  Það er eitt að vextir geti hækkað mikið og annað að lántaki hefði gert það sem hann gerði vitandi að vextirnir myndu fara upp úr öllu valdi.

Það er rétt að fyrir óralöngu voru vextir á breskum pundum mjög háir.  Það var í allt öðru efnahagsumhverfi.  Ég skil bara ekkert í Erlendi að leita ekki aftur til þess tíma þegar vextir voru jafnvel ennþá hærri á tímum heimskreppunnar miklu.  Hann hefði líka getað bent á hrun þýska marksins á tímum Weimarlýðveldisins og fleiri svona öfgakennd dæmi, sem eingöngu eru til í sögubókum dagsins í dag.  Og þó svo að þetta sé eitthvað sem hafði gerst, þá skiptir það ekki máli.  Það eina sem hér skiptir máli eru væntingar lántaka til vaxta- og gengisþróunar.

Erlendur talar um að millibankavextir undir 1% í evrum, pundum og dollurum hafi ekki þekkst fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2008.  Þetta er einmitt mjög góður punktur.  Lántakar sem tengdu lán sín við þessar myntir bjuggust við því að vextir á þessar myntir væru á bilinu 4,5 - 6,0%.  Það er það sem tímaraðir þessara vaxta gefa til kynna.  Það ástand, sem er núna, er óeðlilegt og því rangt af fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka og FME að reikna tap sitt af því að samningsvextir gildi út frá því að LIBOR vextir allra erlendra gjaldmiðla séu undir 1%.

Erlendur lýkur máli sínum með atriði sem kemur því ekkert við hvaða vexti lántakar gátu búist við að borga eða voru tilbúnir að borga.  Þegar lántaki reiknar með því í upphafi að greiða LIBOR vexti í jenum, hvaða máli skiptir þá það að eðlilegt sé að greiða íslenska millibankavexti, ef dómstóll dæmir að gengistrygging sé ólögleg.  Megin málið hér er hvaða kostnað lántakinn reiknaði með að hafa af lántökunni í upphafi.  Þar sem þetta virðist ennþá vefjast fyrir sprenglærðum bankamanni sem plægt hefur sinn akur hjá fínustu bönkum heims, þá vil ég skýra þetta út í eins skýru og einföldu máli og hægt er: 

Lántakinn reiknaði með því að lánaformið sem hann skrifaði upp á í upphafi væri í samræmi við íslensk lög.  Að svo hafi ekki verið er ekki lántakanum að kenna og honum ber ekki að refsa fyrir það.

Lántakinn sóttist eftir lágum vöxtum erlendra mynta.  Að þessir vextir hafi lækkað ennþá frekar og að vaxtamunur millibankavaxta verðtryggðra og óverðtryggðra krónulán annars vegar og erlendra mynta hins vegar hafi aukist er ekki lántaka að kenna og honum ber ekki að refsa fyrir það.

Lántakinn sóttist eftir því að sjá höfuðstól lána sinna lækka með hverri afborgun, en ekki eins og með verðtryggð lán, þar sem höfuðstóllinn virðist aldrei lækka.

Lántakinn sóttist eftir láni, þar sem heildarkostnaður hans af lántökunni væri umtalsvert lægri en með hefðbundnum verðtryggðum og óverðtryggðum lánum sem voru í boði á markaðnum.

Allt þetta hefði gengið eftir, ef fjármálafyrirtæki hefðu notað löglegt lánaform og ef stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækjanna hefðu staðið af ábyrgð og heiðarleika að rekstri fjármálafyrritækjanna.  Þeir gerðu það ekki og það er út í hött að refsa lántökum fyrir það.

Lántakar báðu ekki um dóma Hæstaréttar.  Þeir báðu um sanngjarna leiðréttingu á forsendubresti lána sinna.  Þeir báðu um að það stæðist sem þeir gengu út frá við lántökuna og voru meira að segja tilbúnir að bæta við eðlilegu álagi.  Útúrsnúningar Erlends Magnússonar breyta því ekki neitt og þeir koma þessu máli ekkert við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Erlendur byrjar á því að segja að lántaki hafi með því að samþykkja LIBOR vexti samþykkt að borga þá sama hve háir þeir yrðu.  Það er vissulega alveg rétt". Hvernig getur þú þá túlkað teksta Erlendar sem útúrsnúning?  Væntingar til gylliboða eru ekki traust dómforsenda.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 14:30

2 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Setti inn stutt svar til hans líka.

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 9.9.2010 kl. 14:35

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Stefán, af hverju klipptir þú á seinni hluta setningarinnar.  Var það til þess að réttlæta bullið í Erlendi?  Lántakar tóku gengistryggð lán með LIBOR vöxtum vegna þess að LIBOR vextir þeirra mynta sem voru í boði höfðu undanfarin 10 - 15 ár verið mun lægri en íslenskir vextir.  Erlendur getur alveg eins fullyrt að þar sem húsnæðislántakar árið 1980 - 82 tóku verðtryggð lán, þá hafi þeir samþykkt að greiða 80 - 100% verðbætur ofan á lánin sín.  Þetta er svo mikill útúrsnúningur að ég óttast um fjármálakerfi sem er með svona menn innanborðs.  Þó svo að eitthvað hafi farið á versta veg, þá er ekki þar með sagt að lántaki hafi með undirskrift sinni samþykkt að sætta sig við að allt fari á versta veg.  Venjulega væri svona málflutningur ekki svaraverður, en þar sem hann er settur fram á meðan Hæstiréttur er að fjalla um vaxtamálið, þá verður að svara honum.

Marinó G. Njálsson, 9.9.2010 kl. 16:24

4 identicon

Umræðan hér að framan einkennist af undarlegu sambandsleysi allra hluta.  Bæði Marinó og Erlendur líta svo á að lántakendur hafi rannsakað hagsögu heimsins og gengi mynnta fram og aftur.  Í fjölmörgum rannsóknum í stærsta hagkerfi heimsins er niðurstaðan sú að almenningur sé ólæs á fjármálastærðir.  Því er það að hinn almenni borgari leitar ráðgjafar hjá fjármálafyrirtæki sínu áður en ráðist er í lántöku.  Fjármálaráðgjöfin var röng í einni meginforsendu.  Fjármálafræðingar ekki endilega hagfræðingar veita þá ráðgjöf að taka lán í þeirri mynt sem tekna er aflað.  Svo einfalt er það.  Allt annað er fjárhættuspil.  Almenningur hefur enn minna skynbragð á hreyfingar á gengi gjaldmiðla en hersveitir svokallaðra sérfræðinga fjármálastofnanna.  Því er það út í hött hjá Marinó að vísa til þess að lántakendur hafi rannsakað allt þetta.  Ég hef séð hagfræðing halda því fram að almenningur ætti að vita þetta allt.  En auðvitað veit almenningur enn minna um  þetta en hagfræðingurinn sem ekkert vissi sjálfur um hver þróun yrði.  Hér í stærsta hagkerfi heimsins Guðseiginlandi Gnata eða Bandaríkjum Norður Ameríku er lögð rík áhersla á það að fjárfestir einkum einstaklingar skilji að sögulegt ferli vaxta og gengis á hlutabréfum hafi ekkert forsagnargildi um framtíðarþróun.

Í viðbót við þetta heldur svo Erlendur að víða í heimi standi einstaklingum til boða að taka lán í myntkörfum.  Hér vestra hef ég val um að taka lán í bandarískum dölum.  Valið stendur um lánstíma og þar með vexti.  Fjármálafyrirtæki taka áhættu.  Verðtrygging er af ýmsum talin ólögleg og óraunverulegur þáttur í fjármálastarfssemi.

Því þarf nú í eitt skipti fyrir öll að komast að niðurstöðu í vandræðagangi sem stjórnvöld bera ábyrgð á og þar með þarf almenningur að greiða.  Í  þessu máli verða skattborgarar að greiða fyrir mistökin, hvort heldur þeir tóku lán eða töpuðu sparifé með fjárfestinum í tryggum fjármálafyrirtækjum eins og bankaræningjarnir ráðlögðu almenningi.  Sennilega er stutt í að sjálf verðtryggingin verði dæmd ólögleg.  Enginn sér þróun á verði mjólkur eða bensíns ár fram í tíman, hvað þá áratugi.

Í stuttu máli hættið að halda því fram að almennur lántakandi hafi kynnt sér vexti, verðbreytingar og hagsögu áður en lán, oft það eina lán sem fjármálastofnun ráðlagið honum að taka.  Ábyrgðin er öll fjármálafyrirtækjanna.

Emil (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 16:34

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Emil, ég segi hvergi að allir lántakar hafi kynnt sér vexti aftur í tímann.  Það voru margir sem gerðu það, bankarnir voru duglegir við að auglýsa þessa þróun og síðan var mikið fjallað um það.  Það var því engin þörf fyrir alla að skoða vaxtaþróunina.  Nóg var fyrir fólk að vita, að vextirnir voru lágir og að höfuðstóll lánsins lækkaði í hvert sinn sem greitt var af honum.

Ég er algjörlega sammála þér að almenningur á aldrei að vera settur í þá stöðu að vera áhættuvog fyrir fjármálafyrirtæki.  Bankarnir eiga einmitt að verja almenning fyrir of mikilli áhættu og ættu því hvorki að bjóða almenningi verðtryggð lán né lán tengd gengi gjaldmiðla.  Vandinn er að við búum hér á landi við fjármálakerfi sem hefur ekki hvorki getu né vilja til að verja almenning.  Auk þess höfum við verklýðshreyfingu og lífeyrissjóði, sem halda að meira máli skipti að verja ávöxtun lífeyrissjóðanna en afkomu sjóðfélagans.

Marinó G. Njálsson, 9.9.2010 kl. 18:03

6 Smámynd: Karl Ólafsson

Marinó, ef ég mætti koma að hér öðru máli, sem þú hefur talað mikið fyrir, en það er afnmám verðtryggingarinnar.

Last þú grein Sighvats Björgvinssonar í Fréttablaðinu, í gær? Þar fer hann yfir sögu verðtryggingarinnar og réttlætingu fyrir að viðhalda henni með rökum sem ég get engan veginn fellt mig við.  Enn er þar hoggið í sama knérunn með þá bábilju að fólk sem kalli eftir afnámi verðtryggingarinnar vilji snúa aftur til þess fjármálaumhverfis sem hér ríkti á sjöunda og áttunda áratugnum.

Manni fallast pínulítið hendur, en því miður er allt of algengt að fólk af kynslóð Sighvats haldi að það sé akkúrat það sem muni gerast ef verðtryggingin er afnumin. Það er eins og þau geri sér ekki grein fyrir hvernig fjármálaumhverfi og aðstæður markaðarins, að maður tali ekki um markaðsvitund, hafa breyst hér síðustu 30 árin.

Nennir þú að svara grein Sighvats? Þú gerir það svo miklu betur en ég gæti gert :-)

Karl Ólafsson, 9.9.2010 kl. 22:15

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Karl, ég þarf greinilega að lesa grein Sighvats.

Marinó G. Njálsson, 9.9.2010 kl. 22:56

8 identicon

Það sem að ég held að flestir lántakendur gengistryggðra lána hafi horft mest til var greiðslubyrði lánanna.  Og hvað hafði fólk fyrir sér varðandi greiðslubyrði?  Jú, útprentaða greiðsluáætlun lánveitanda þar sem kom fram afborgunarupphæð mánuð fyrir mánuð, allan lánstímann.  Og þar sem fólk hélt að það væri að eiga viðskipti við ábyrga fjármálastofnun þá trúði fólk einfaldlega því sem því var sagt.

Aðalsteinn Stefánssson (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 1681250

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband