29.6.2010 | 00:30
Húsfyllir á borgarafundi í Iðnó
Í kvöld fór fram borgarafundur í Iðnó um dóm Hæstaréttar um gengistrygginguna. Húsfyllir var og fjöldi fólk fylgdist auk þess með umræðunni utandyra. Frummælendur voru fjórir: Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, alþingismennirnir Pétur Blöndal og Lilja Mósesdóttir og loks Guðmundur Andir Skúlason frá Samtökum lánþega. Auk þeirra sátu við pallborðið Ragnar Baldursson lögmaður og síðan ég sjálfur fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna.
Ýmislegt áhugavert kom fram á fundinum, þó ekki væri alltaf farið með rétt mál að mínu mati. Gylfi Magnússon hóf framsögu sína með því að segja að hann ætlaði ekki út í lögfræðina, enda kannski skynsamlegt, þar sem honum hefur nokkrum sinnum upp á síðkastið tekist að lesa lagagreinar í vitlausan hátt. Hann viðurkenndi að gengistryggðu lánin væru búin að vera til vandræða frá 2008. Því væri gott að Hæstiréttur hafi tekið af skarið, en varaði við að áhrifin væru ýmisleg. Óumdeilt væri að höfuðstóll lánanna lækkaði mikið, en svo fór hann að túlka dóminn (og fór út í lögfræði). Hans túlkun var að Hæstiréttur hafi ekki kveðið úr um til hvaða lána dómurinn næði né um vextina. Ragnar Baldursson kom með aðra skoðun á þessu síðar. Gylfi setti fram þá skoðun sína að vextirnir ættu að bera sömu vexti og óverðtryggð ógengistryggð lán frá svipuðum tíma. Honum var tíðrætt um sviðsmyndir (sem er líklegast þýðing á enska orðinu scenario) og sagði að Seðlabankinn hafi teiknað um ýmsar sviðmyndir eftir að dómurinn féll. Í þeirri svartsýnustu, þar sem miðað er við að öll lán beri óbreytta vexti, gæti afleiðingin verið sú að ríkið þyrfti ekki bara að leggja Landsbankanum eigið fé heldur einnig Arion banka og Íslandsbanka og gætu þau fjárútlát numið 100 milljörðum. En þá þyrfti líka allt að fara á versta veg. Það er íhugunarefni, að stjórnvöld og Seðlabanki teikna núna upp svartsýnar sviðsmyndir, en það var ekki gert áður en lánasöfnin voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Ekki ætla ég að kvarta yfir því að menn geri það núna, en hvers vegna var það ekki gert fyrir ári. Það er ekki eins og stjórnvöld hafi ekki verið vöruð við.
Guðmundur Andri sagði að raunar hafi allt verið sagt sem þarf að segja. Þá átti hann við að dómur Hæstaréttar sé skýr og vextirnir standi. Honum fannst furðulegt að stilla hlutunum þannig upp, að eina leiðin til að koma í veg fyrir að bankarnir fari á hliðina sé að annað hvort borgi fólk meira fyrir lánin sín eða borgi það í sköttunum. Það gæti bara ekki verið rétt að almenningur eigi að borga fyrir fjárfesta. Hann vildi að Gylfi stæði við stóru orðin frá því í haust, þ.e. að menn fari að sjálfsögðu eftir dómi Hæstaréttar. Guðmundur taldi það glapræðisleg mistök hafi færsla lánanna ekki verið rétt gerð. hann vildi líka vita hverjir ættu bankana og hverjir væru kröfuhafar þeirra. Loks sagði hann að áhrif dómsins væru líka þau, að nú gæti fólk lifað mannsæmandi lífi.
Pétur Blöndal byrjaði að koma því að hversu fórnfús hann hafi verið að mæta, þar sem í dag átti að vera fyrsti frídagurinn hans í 2 ár. Hann sagði ýmislegt óljóst varðandi dóminn, t.d. hvort endurgreiðslur komi til lækkunar á höfuðstóli eða til útgreiðslu (mér finnst þetta ekki koma dómnum sjálfum við heldur frekar tæknilegri útfærslu á framkvæmd hans). Hann velti líka fyrir sér hvaða vextir ættu að vera og hvaða lán ættu að falla undir dóminn. Sagði hann að fjármálakerfið ætti í vanda, þar sem það gæti vart talist traustvekjandi fjármálakerfi sem hefði boðið upp á ólögleg lán í 9 ár. Þá fór hann út í aðra hluti, enda getur Pétur ekki talað um fjármál nema nefna sparifjáreigendur og sagði að forsendubrestur hafi orðið víðar. Hann benti á að fjármagn kæmi frá sparifjáreigendum og taldi að vandinn á Íslandi væri að sparnaður væri ekki nógu mikill. Ég mótmælti því síðar.
Lilja Mósesdóttir fagnaði því að almenningur væri búinn að rísa tvisvar upp og hafna skuldum. Í fyrra skiptið væri það vegna Icesave og svo núna. Hún hefði viljað almennar aðgerðir strax í fyrra, en nú væri það um seinan. Hún hefði haft áhyggjur af íslenskum heimilum og hefði kosið að strax hefði verið farið í almennar aðgerðir. Var alltaf ósammála því að bara lántakar en ekki lánveitendur bæru ábyrgðina. Hún sagði að dýrasta leiðin hafi verið valin og enn eigi að halda áfram þá leið. Hún væri líka mjög seinfarin og auki ósætti. Hún benti á að endurreisn bankanna hafi ekki gert ráð fyrir að gengistryggingin væri ólögleg, bara að fólk færi í gjaldþrot (og bankarnir hirtu eignirnar). Hún vildi fá að vita hvað AGS hefði ráðlagt, hver beri ábyrgðina á því að endurreist var of dýrt bankakerfi, hvers vegna FME hafi ekki bannað lánin og hvers vegna Seðlabankinn hafi fært gengistryggðu lánin inn í gjaldeyrisjöfnuð bankanna? Ekki væri hægt að taka framfyrir hendur á dómskerfinu þar sem það ferli væri komið í gang, en aðstoða þyrfti þá sem eru með verðtryggð lán. Sagðist hún taka undir hugmyndir Þórs Saari að nota endurgreiddar vaxtabætur til þess.
Nú tóku við fyrirspurnir úr sala. Flestum fyrirspurnum var beint til Gylfa Magnússonar og svaraði hann þeim af stakri prýði. Aðeins í einu tilfelli var fyrirspyrjandi með leiðindi við ráðherra og tel ég að fólk hafi virt það við hann að koma og svara hans hafi ekki fallið í kramið.
Ég fékk að koma að athugsemdum við framsöguræður og benti ég á nokkur atriði sem mér fannst orka tvímælist eða hreinlega vera rangt. Fyrst spurði ég hvers vegna ekki hefðu verið teiknuð upp sú sviðsmynd að gengistryggingin yrði dæmd ólögleg. Stjórnvöld hefðu voru vöruð við og því ekki eins og þessi möguleiki hafi ekki verið fyrir hendi. Ég mótmælti þeirri staðhæfingu Péturs Blöndal að sparnaður væri lítill hér á landi. Mér telst til að hann nemi 4.400 milljörðum sem væru sko alls ekki litlar tölur. 2.200 milljarðar væru í innstæðum, 1.900 milljarðar í skyldusparnaði lífeyris og 3-400 milljarðar í séreignasparnaði. Þetta væru sko ekki lágar tölur. Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna ekki var farin sú leið við að bjarga sparnaðinum, sem þýskir sparifjáreigendur á KaupthingEdge fengu að reyna, en þar var höfuðstólinn endurgreiddur, en vextina þurfi að sækja sem almenna kröfu í þrotabúið. Ég benti þá á AGS vilji að meira sé gert í skuldamálum heimilanna. Það hljóti að vera furðulegt að einhver hægrisinnaðasta alþjóðastofnun í heiminum vilji ganga lengra ríkisstjórn sósíalista og sósíaldemókrata. Loks benti ég á að við þurfum ekki fleiri dóma heldur samninga. Nást þarf breið sátt um niðurstöðuna í skuldamálum heimilanna.
Ragnar Baldursson. lögmaður, fór yfir þann dóm Hæstaréttar sem hann flutti. Hann telur dóminn skýran. Tekist var um þrjú atriði: 1) lán eða leiga og var niðurstaðan lán; 2) lán í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli og niðurstaðan var lán í íslenskum krónum; og 3) er gengistrygging lögleg eða ólögleg verðtrygging og niðurstaðan er að hún er ólögleg verðtrygging. En Ragnar segir að meira felist í dómnum. Eitt af því er að vextirnir skuli standa óbreyttir. Rétturinn dæmdi vextina gilda.
Ég náði að ræða við Ragnar betur um þetta og var niðurstaðan af því, að því sem ekki var breytt það stendur. Tel ég það ákaflega skýra og einfalda niðurstöðu.
Gylfa var tíðrætt um ósanngirni þess að vextirnir stæðu. Ég svaraði því í lokaorðum mínum. Fyrst benti ég á að Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til ákveðna málsmeðferð (og fylgir hún með fyrir neðan í meðfylgjandi skjali). Síðan ræddi ég um annað tjón sem lántakar hafa haft af hruninu og fjárglæfrum fyrrum stjórnenda bankanna og eigenda þeirra. Sagði ég að margir mældu tap sitt í milljónum ef ekki milljóna tugum (eins og ég geri). Þá sagði ég:
Það getur vel verið að vextirnir séu lágir, en miðað við það sem á undan er gengið, þá á ég það skilið.
Uppskar ég mikið lófaklapp fundargesta fyrir vikið.
Fundargestir verða að fyrirgefa að ég er ekki að fjalla um fyrirspurnir sem bornar voru upp. Bæði var að þær heyrðust ekki allar vel og eins væri hreinlega of langt mál að fjalla um þær allar. Því er betra að sleppa þeim öllum en að koma bara með sumar.
Ég þakka að lokum góðan fund og vona að framhald verði á í náinni framtíð.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 1681248
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Gylfi er sérstakur verndari fjármagnseigenda enda var hann í vinnu hjá þeim áður en hann varð ráðherra.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.6.2010 kl. 00:33
Var eitthvað fjallað um peningamálastjórn landsins til framtíðar td. eða þar til að íslendingar þurfum að kjósa um ESB eða ekki? Var einhver spurður um þetta?
Þetta er veigamesta spurningin um framtíð okkar íslendinga að mínu mati. Þetta er einnig veigamikil spurnig í baráttu samtakanna í jöfnuði á ábyrgð.
Ríkisstjórn Íslands hefur ávallt sýnt "enga ábyrgð" og Þeir segja í hljóði "þegnarnir greiða fyrir aulaskap okkar".Gengisfellingar og síðan verðtryggingar!!!!!!!!!!og fyrir hvern og hverja? (sérstakt dæmi að skoða)
Hugsaðu þér Marinó. Íslengingar hafa látið þetta viðgangast í áratugi.
Á að láta þessa menn stjórna öllu lengur.
Eggert Guðmundsson, 29.6.2010 kl. 00:52
Eggert, umræðan var nær eingöngu um dóma Hæstaréttar og síðan aðalhugðarefni Péturs, þ.e. sparnað.
Marinó G. Njálsson, 29.6.2010 kl. 01:02
Þakka Marinó fyrir greinsgóða færslu um þennan magnaða fund. Sá aðeins af honum í seinni fréttum RUV sjónvarps og það eina sem þar var bitastætt var að FULLT VAR ÚT ÚR DYRUM.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.6.2010 kl. 01:06
Var þessi fundur tekinn upp og ef svo er, væri möguleiki að fá þá upptöku á netið (hljóðupptaka væri gott mál)
Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.6.2010 kl. 01:07
Tek undir með Hólmfríði Bjarnadóttur og þakka þér kærlega fyrir þessa samantekt. Hef verið að leita að fréttum af þessum fundi en lítið fundið nema þetta brot í Rúv fréttunum og síðan þitt innlegg.
Takk kærlega fyrir.
Ásta B (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 01:14
Ég var á fundinum og það var tvennt sem situr í mér eftir hann:
Í fyrsta lagi að dómur Hæstaréttar er ákaflega skýr. Sé höfuðstóllinn skilgreindur í íslenskum krónum er gengistrygging ólögleg og aðrir skilmálar sem eru í lánasamningnum standa óbreyttir.
Í öðru lagi hvað yfirvöld eru treg til að huga að rétti sinna þegna sem neytenda.
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 08:06
Þakka þér fyrir þessa samnantekt (fundargerð) Marinó. Það er annars frekar undarlegt að þurfa að fara inn á bloggsíðu til að fá fréttir af fundinum. Það er undarlegt hvað fréttamiðlar fjalla lítið um þennan fund, sem skiptir þúsundir heimila miklu máli.
Gunnar Heiðarsson, 29.6.2010 kl. 08:20
Já ég er sammála, það er mjög skrýtið að fréttamiðlarnir fjalli ekki meira um þennan athyglisverða fund.
Bjarni (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 09:07
Takk fyrir þessa frétt og fréttaskýringu. Magnað að bloggin skýra orðið betur frá því sem er að gerast en fjölmiðlar.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 29.6.2010 kl. 09:07
Sæll Marinó
Takk kærlega fyrir þessa færslu og ég tek undir með þeim sem
furða sig á að fjölmiðlar skuli ekki sinna þessu. Bara ótrúlegt.
VJ (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 09:38
Það er alger skömm af fréttum RÚV um þennan fund. Einhliða vitleysa.
Einnig er gott að hafa ekki mætt, því það hefði verið erfitt að sitja á sér að skamma Gylfa.
Billi bilaði, 29.6.2010 kl. 10:13
Sæll,
Ég var ein af þeim sem var á fundinum í gær. Ég tek fram að ég er ein af þeim lánsömu og er með mín lán í skilum enda erum við hjónin líka lánsöm að hafa bæði haldið störfunum okkar. Ég tek einnig fram að ég er bæði með verðtryggð lán og gengistryggð lán og ég tel að ég geti með góðri samvisku sagt að ég geti ekki talist til áhættufíkla :)
Fundurinn var í alla staði mjög fróðlegur og í raun stend ég agndofa yfir því að dómnum sé ekki hlýtt miðað við þær upplýsingar sem komu fram á honum og þú ferð vel yfir í þínu bloggi. Það er með öllu óásættanlegt að halda fólki í frekari óvissu í þessu máli og í raun stórmóðgun við þjóðina sem hefur sýnt eindæma stillingu á meðan gengið hefur verið yfir hana á skítugum skónum, ekki einu sinni heldur mörgum sinnum. Við sem þjóð verðum að standa saman í þessu máli og hætta að láta valta yfir okkur eins og gert hefur verið.
Margrét (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.