Leita í fréttum mbl.is

Gísla Tryggvason í 1. sæti

Þegar Gísli Tryggvason hringdi í mig fyrir nokkrum vikum og bar undir mig þá hugmynd sína að bjóða sig fram til 1. sætis í prófkjör Framsóknarflokksins í Kópavogi, þá ákvað ég að hvetja hann til verksins.  Ekki að ég væri flokksbundinn framsóknarmaður, en sem Kópavogsbúi til rúmlega 10 ára er ég búinn að fá leið á því stjórnarfari sem ríkt hefur í bænum undanfarin ár.  Taldi ég og tel enn að vissa siðbót vanti í bæjarmálapólitíkina.  Hvað eftir annað hafa á síðustu fjórum árum, og raunar líka á árunum þar á undan, komið upp atvik sem hafa valdið því að maður efast um heilindi þeirra sem hafa verið við stjórnvölin.

Það var í októberbyrjun 2008, að ég fékk símtal.  Sá sem hringdi kynnti sig sem Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.  Hann hafði lesið bloggfærslu eftir mig með tillögu um úrbætur fyrir lántaka og óskaði eftir að fá að nota hana í tillögupakka sem hann vildi senda félagsmálaráðherra.  Ég veitti honum leyfi til þess og fóru tillögurnar inn 7. október eða daginn eftir "Guð blessi Ísland" ávarp forsætisráðherra.  Eftir þetta voru við Gísli í talsverðum samskiptum og hófst þá fyrst óformlegt og sem þróaðist yfir í formlegt samstarf okkar og síðar fleiri aðila um úrbætur í lánamálum heimilanna og réttarbætur.  M.a. hittust á fundi hjá talsmanni neytenda á fullveldisdaginn 1. desember 2008 við tveir, Þórður Björn Sigurðsson (síðar formaður Hagsmunasamtaka heimilanna), Friðrik Ó Friðriksson (núverandi formaður HH) og Arney Einarsdóttir (gjaldkeri HH) ásamt fleiri aðilum.  Hvort það er þessum fundi að þakka eða af annarri ástæðu, þá urðu Hagsmunasamtök heimilanna til um miðjan janúar 2009.  Ég hef oft hugsað til þeirrar tilviljunar, að Gísli skyldi hafa boðið okkur, hvert úr sinni áttinni, á þennan fund.

Þessi fundur varð líka upphaf af samstarfi talsmanns neytenda við HH og hefur ekki borið skugga á það samstarf.  Hefur verið alveg ómetanlegt að geta leitað til Gísla (og annarra líka) um ýmis álitaefni.  Hann hefur komið á félagsfundi og alltaf verið tilbúinn.  Saman mynduðum við síðan með Neytendasamtökunum, Húseigendafélaginu, Félagi fasteignasala, Búseta á Norðurlandi og Birni Þorra Viktorssyni svo kallaðan Ákallshóp, sem stóð fyrir ákalli til stjórnvalda um úrbætur fyrir heimilin.  Þó ekki hafi tekist að ná öllum málum hópsins í gegn, þá erum við langt komin niður listann og dropinn holar steininn.

Það er sem sagt í gegn um þetta samstarf, sem ég þekki Gísla.  Hefur hann á þessum tæpum 18 mánuðum sýnt mér og sannað, að hann tekur á málum af festu og mikilli skipulagningu.  Stundum finnst mér hann fara hægar yfir en ég hefði kosið, en líklegast lýsir það betur mér en honum.

Sem áhorfandi að bæjarmálapólitíkinni hér í Kópavogi undanfarin 10 ár eða svo, þá hef ég tekið eftir þessum leiðigjörnum flokkadráttum sem myndast hafa um íþróttafélögin í bænum.  Sérstaklega innan Framsóknarflokksins.  Nú sækjast þrír aðilar um 1. sæti hjá Framsókn, Ómar Stefánsson yfirlýstur HK-ingur sem hefur ekkert farið leynt með það, forstöðumaður íþróttamannvirkja og hataður af ákveðnum hópi Blika, Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks sem virðist vera svo illa liðinn af ákveðnum hópi HK-inga að talað er um klofning í flokknum nái hann fyrsta sæti, og loks Gísli Tryggvason sem hefur haldið sig gjörsamlega fyrir utan þennan ríg á milli félaganna.  Þegar Gísli hringdi í mig á sínum tíma, þá bað ég hann að gæta þess vel, að fara ekki í skotgrafir íþróttafélaganna.  Fólk væri búið að fá leið á því.  Undanfarna daga hafa menn greinilega dregið fram stórskotaliðið, því sprengjurnar hafa flogið á milli herbúða Einars og Ómars.  Hefur það sannfært mig enn frekar að Gísli er rétti maðurinn til að leiða lista Framsóknarflokksins í vor. 

Ég vona að Gísli hljóti 1. sætið, ekki vegna pólitískrar stöðu Framsóknar í Kópavogi, heldur fyrir bæjarbúa.  Kópavogur þarf fólk í bæjarmálin sem getur tekið á málum bæjarfélagsins af hlutleysi, réttsýni og festu.  Einkavinavæðing undanfarinna ára er á enda.  Pot og prettir til að koma höggi á embættismenn bæjarins í vitlausum flokki eru á enda.  Það á ekki að skipta máli hvort skólastjórinn er sjálfstæðismaður eða krati, allir skólar eiga að fá það sem þeim ber.  Allir verktakar eiga að sitja við sama borð um framkvæmdir, hvort sem þær snúast um malbik, eftirlit, auglýsingar eða eitthvað allt annað.  Ákvörðunartaka á að byggja á gegnsæi, réttsýni og að besti kosturinn sé valinn með hagsmuni bæjarins í huga.  Ég treysti Gísla til að standa vörð um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ef ég byggi í Kópavogi þá hefði ég ekki hikað við að ganga úr mín flokki og í Framsóknar flokkinn til að styðja Gísla í 1. sætið. Það hefði ég gert fyrir Kópavogsbúa í heild sinni. Ég er almennt séð á móti slíku en þarna stendur bara svo sérstaklega á.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.2.2010 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 1681577

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband