Leita í fréttum mbl.is

Gengistrygging dæmd ólögleg!

Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, kvað upp þann úrskurð í dag að

GENGISTYRGGING LÁNA ER ÓLÖGLEG

Dóminn má sjá hér.

Úrskurður Áslaugar er mun betur rökstudd en fyrri héraðsdómur, þar sem gengistrygging var dæmd lögleg.  Þar segir:

Samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, náði „verðtrygging“ einnig til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Núgildandi vaxtalögum var ekki ætlað að þrengja það hugtak og auka heimildir til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Lögunum var þvert á móti ætlað að útiloka að skuldbindingar í íslenskum krónum væru tengdar erlendum gjaldmiðlum. Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna. Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild. Skiptir þá hvorki máli hvort eftirlitsaðilar, eins og Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, hafi vitað af samningunum og ekki gert athugasemdir né lögbundin úrræði eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki til létta greiðslubyrði fólks í svipaðri stöðu og stefndi, eins og stefnandi byggir á. Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram.

Þessum dómi verður alveg örugglega áfrýjað.  Á því leikur enginn vafi.  Hann er samt gríðarleg viðurkenning á baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna og allra annarra sem tekið hafa þátt í baráttunni með okkur.

Ég get ekki annað en bent á að á morgun er nákvæmlega eitt ár síðan ég vakti fyrst athygli á því, í athugasemd við færsluna Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?, að hugsanlega væru gengistryggð lán ólögleg.  Í athugasemdinni segi ég:

Svo má bæta við þetta eftirfarandi úr lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

Mér sýnist hugsanlega verið að segja þarna að verðtrygging við gengisvísitölu, sé hreinlega ekki heimil.  Það er heimilt að miða við hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalan en ekki viðmið við gengi gjaldmiðla.   Ég finn hvergi lagatilvísun í gengistryggð lán, þannig að spurningin er hvort allt sé leyft sem ekki er sérstaklega bannað eða allt bannað sem er ekki sérstaklega leyft.

Marinó G. Njálsson, 13.2.2009 kl. 23:22

Þá vakti þetta enga athygli.  Ég tók því þráðinn aftur upp í apríl, nánar tiltekið 17. apríl, í færslunni Eru gengistryggð lán ólögleg?.  Þar bendi ég á greinargerðina, sem Áslaug notar sem forsendu fyrir ákvörðun sinni.

Þessi dómur er frábær, þó hafa skal þann vara á að endanleg niðurstaða er ekki komin.  Eða eins og segir:  Kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

skrítið að finna enga frétt um þennann dóm, hef farið á flesta fréttavefi og ekki orð....

Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 21:32

2 identicon

Það er unaðslegt að bera þennan dóm saman við SP dóminn. Dómarinn tekur afstöðu til málsins sem hann gerði ekki í SP málinu. 

Öll eðlileg rök virðast meðtekin svo sem þau að það geti ekki verið mál lántakandans hvort eða hvernig lánveitandi aflar gjaldeyris.  Öll framkvæmd lánasamningsins er í engu frábrugðin því sem hún væri ef að lánaðar hefðu verið íslenskar krónur. Eini munurinn er gengistrygginging upphæðarinnar sem er ólögleg samkvæmt 38/2001.  Í þessu samhengi er traustvekjandi að sjá hvernig Áslaug fer í gegnum sögulegt samhengi laganna til þess að styðja niðurstöðu sína.

Upphæðirnar sem stefnan snýst um eru dásamlega lágar samanborið við heildarhagsmuni neytenda.  Þetta er auðvitað ekki búið og sjálfsagt eiga margir dómar eftir að falla áður en yfir lýkur. En oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 21:33

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst það merkilegt í þessu máli, að sami lögmaður, Sigurmar Kristján Albertsson, er fyrir Lýsingu og var fyrir SP-fjármögnun í málinu sem dómur var kveðinn upp í í desember.  Það gerir þennan sigur ennþá sætari, þar sem alveg er öruggt að hann hefur notað sömu rök í báðum málum.

Það er líkla merkilegt að sjá, að Sigurmar reynir að bera fyrir sig vaxtalögin frá 1995, sem féllu úr gildi þegar lög nr. 38/2001 tóku gildi.

Hvað þýðir þessi dómur fyrir önnur gengistryggð lán?  Sem stendur ekki neitt.  Dómurinn er um uppgjör við lok samnings.  Hann segir ekkert til hvað á að koma í staðinn fyrir gengistrygginguna.  Kröfu stefnanda er einfaldlega hafnað og stefnda er dæmdur málskostnaður.  Til þess að dómurinn sé fordæmisgefandi fyrir lán sem er verið að greiða af, þarf því að falla nýr dómur, þar sem tilgreint er hvað á að koma í staðinn fyrir gengistrygginguna.  Þess vegna verður enn bið eftir því að lántakar fái leiðréttingu sinna mála.

Marinó G. Njálsson, 12.2.2010 kl. 21:51

4 identicon

Loksins!!

Erlingur (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 21:55

5 identicon

Ég las það út úr dómsorðunum um þetta atriði Marínó að það væri verið að beina framtíðar málum af líkum toga inn á einhvers konar meðalhófsleið.

Það má vera að það sé rangt hjá mér en dómarinn minnti hins vegar stefnanda á að hann hefði ekki gert grein fyrir kröfum sínum um hvað ætti að koma í staðinn ef dæmt yrði honum í óhag. Á sama tíma minnti hún stefnda á að samningurinn sé ekki ógildur í heild sinni, bara að fullnaðaruppgjör teljist hafa farið fram án þess að til komi frekari greiðslur af hálfu stefnda.

M.ö.o. menn þurfi að borga lánin til baka, en bara ekki samkvæmt þeim kjörum sem lántaveitendur vilja. Það er nú svo sem ekkert undarlegt við það en það er svo spurning hver þessi kjör eiga að vera eins og þú kemur inn á.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 22:27

6 identicon

Þetta er áfangasigur í baráttu lántakenda á Íslandi. Nú þarf að ganga alla leið og láta reyna á dómstólaleiðina með alla verðtryggða lánasamninga.

Margrét (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 23:11

7 identicon

Það er þó alveg ljóst að þessi dómur hefur gífuleg áhrif á baráttu okkar allra.

Með dóminn að vopni getum við hikstalaust arkað inn í okkar fjármögnunarfyrirtæki og tilkynnt að héðan í frá munum við túlka samninginn í samræmi við nýfallin dóm héraðsdóms og vilji fjármögnunarfyrirtæki ekki una því... þá vesskú.. farið í mál.

Þessi fyrirtæki verða öll komin í þrot áður en hæstiréttur nær að fjalla um málið og því SÉRLEGA MIKILVÆGT að lánþegar standi vörð um kúgun fjármögnunarfyrirtækja í innheimtuaðferðum.

Munið að rétturinn er lánþeganna og með réttinn að vopni er vonlaust að vörslusvipta án undangengins dóms og vonlaust að rukka stökkbreyttar fjárhæðir ef við sættum okkur ekki við það.

Svo.

Ekki sætta ykkur við það.

Baráttukveðjur og til hamingju öll

Guðmundur Andri Skúlason (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 23:20

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég velti því fyrir mér, ef Hæstiréttur dæmir á sama veg, hvort fjármálafyrirtæki hafi skapað sér skaðabótakröfu.  T.d. húsbyggjandi sem hefur lent í því að framkvæmdalán hækkuðu milli útgreiðslu vegna lækkunar á gengi krónunnar.  Til að mæta því, þá er tekið lán annars staðar, t.d. yfirdráttarlán á háum vöxtum.  Gæti viðkomandi krafið bankann um bætur vegna vaxta af yfirdrættinum?

Marinó G. Njálsson, 12.2.2010 kl. 23:55

9 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Nú erum við með tvo héraðsdóma sem taka á nákvæmlega sama lagaákvæði og dæma í kross. Hæstiréttur verður að skera úr um túlkun þessara laga. Ég er á þeirri skoðun að þessi seinni dómur sé nær endanlegri niðurstöðu (ekki alveg hlutlaus :)

Hins vegar vill ég vekja athygli á því að hvorugur dómurinn tekur á kröfu um lækkun, þ.e. reikna höfuðstól með LIBOR vöxtum og gengisviðmiðið dæmt frá. Spurning hvernig tekið verður á því.

Axel Pétur Axelsson, 13.2.2010 kl. 00:42

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta eru tímamót! Til hamingju HH og allt duglegt baráttufólk.

Axel Pétur: væri ekki bara sanngjarnast að sá hluti sem er í myntkörfu verði umreiknaður frá lántökudegi yfir í sambærilegt lán tekið hjá sama fjármálafyrirtæki í krónum á sama tíma, og mismunurinn til dagsins í dag ásamt dráttarvöxtum skuldajafnaður við núverandi höfuðstól? Þannig fæst lánið greitt eins og það hefði verið löglegt, án þess að fara þurfi í sértækar aðgerðir eins og afskriftir sem bjóða upp á mismunun.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.2.2010 kl. 05:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 213
  • Frá upphafi: 1679946

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 194
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband