27.3.2013 | 01:23
Að þreyta laxinn - Fólk og fyrirtæki farið að þrjóta örendið
Af erindum sem ég hef fengið nýlega má lesa að fjármálafyrirtækin eru farin að ná árangri við að "þreyta laxinn". Bæði fólk og fyrirtæki hefur þrotið örendið og eru komin í þá stöðu, að betra er að taka einhverjum samningi en réttum samningi. Betra er að fá strax aðgang að hluta fjármunanna en að bíða eftir Hæstaréttardómum og fá það sem fjármálafyrirtækjunum mun þá detta í hug að túlka viðkomandi dómar þýði. Fólk og fyrirtæki eru til í að afsala hluta krafna sinna en losna í staðinn úr gíslingu fjármálafyrirtækjanna.
Já, hvað þýða þessir dómar sem hafa gengið? Hve margir ætli viti það? Er einhver sem hefur eftirlit með því hvort fjármálafyrirtækin reikni rétt eða reikni eins í tilfelli sambærilegra lána? Ég fékk í dag póst frá aðila sem hefur það að atvinnu að fást við svona mál og viðkomandi sagði í póstinum hafa heyrt af málum, þar sem tvö nákvæmlega eins lán, tekin á sama tíma hjá sama fjármálafyrirtæki, svipuð upphæð og alltaf greitt af á réttum tíma, hafi fengið ólíka meðferð hjá nýju kennitölunni. Ef satt er, þá er þetta grafalvarlegt mál.
Í öðru tilfelli, þá fékk viðskiptavinur þau skilaboð, að honum væri hollast að sætta sig við útreikninginn, því annars gæti biðin orðið löng.
Endalaust er notuð sú afsökun að ekki sé komið dómafordæmi, þó svo að búið sé að dæma um stutt lán og löng lán, búið er að dæma um að veð eða tilgangur skiptir ekki máli, búið er að kveða úr um að ekki megi breyta vöxtum afturvirkt og ekki má yfirhöfuð breyta vöxtum fyrr en eftir að ljóst var um hinn ranga lagaskilning.
Hér eru nokkrir dómar sem hafa gengið í Hæstarétti:
- 92/2010 og 153/2010: Bílalán (stuttur lánstími) - gengistrygging dæmd ólögleg
- 471/2010: Bílalán (stuttur lánstími) - vextir taldir hluti af skilmálum - Seðlabankavextir dæmdir á lánin
- 603/2010: Fyrirtækislán (40 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir langt fyrirtækislán, veð og tilgangur skiptir ekki máli
- 604/2010: Fasteignalán (20, 25 og 30 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir fasteignalán
- 30/2011, 31/2011 og 155/2011: Fyrirtækislán (5 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir stutt fyrirtækislán
- 386/2012: Fyrirtækjalán (8 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir meðallöng fyrirtækislán
- 600/2011: Fasteignalán (20, 25 og 30 ára lán) - afturvirkni vaxtabreytingar hafnað, fullnaðarkvittun skerðir rétt kröfuhafa, ekki hægt að breyta vöxtum afturvirkt með lögum, röng lagatúlkun aðeins leiðrétt til framtíðar.
- 464/2012: Fyrirtækislán (20 ára lán) - afturvirkni vaxtabreytingar hafnað, fullnaðarkvittun skerðir rétt kröfuhafa, ekki hægt að breyta vöxtum afturvirkt með lögum, röng lagatúlkun aðeins leiðrétt til framtíðar.
Samkvæmt þessu er búið að dæma um alls konar lán hvað varðar lögmæti gengistryggingarinnar. Vissulega er slatti af málum, þar sem gengistryggingin hefur verið dæmd lögleg, en hér er ekki deilt um þau lán heldur lánin sem hafa verið dæmd vera með ólöglega gengistryggingu. Hvers vegna sum fjármálafyrirtæki telja sig þurfa frekari dóma til að endurreikna lán, þegar önnur telja sig ekki þurfa það, skil ég ekki út frá niðurstöðum í málum 600/2011 og 464/2012. Ég sé bara tvær ástæður koma til greina. Önnur er að fjárhagsstaða þessara fyrirtækja er svo bágborin, að þau fari á hausinn endurreikni þau lánin strax. (Úps, eitt þeirra er í slitameðferð, þannig að það fer ekki aftur á hausinn.) Hin er að starfsmenn viðkomandi fyrirtækja séu á árangurstengdum launum og því fleiri laxa sem það þreytir til uppgjafar, því hærri verða bónusarnir.
Eitt er það trix sem fjármálastofnanir hafa ítrekað notað. Það er að semja utan dómsala áður en niðurstaða Hæstaréttar (og/eða héraðsdóma) fæst. Veit ég um nokkur slík mál, þar sem fjármálafyrirtækið sá sína sæng út breidda og í staðinn fyrir að fá fordæmisgefandi dóm frá Hæstarétti var samið á elleftu stundu. Þannig hefur tekist að tefja mál úr hófi. Oft er lántaka þá greitt ríflega fyrir þögnina. Ein útfærslan á þessu trixi er að semja við fólk án málaferla, en jafnframt tiltaka að uppgjörið sé trúnaðarmál. Hef ég hitt nokkra sem hafa sagt mér slíka sögu af sínum viðskiptum við kröfuhafa sína. Allir voru þeir hæstánægðir með niðurstöðuna og sögðu hana mun betri en þeir áttu von á.
Ljóst er að málum vegna gengistryggðra lána er langt frá því að vera lokið. Ég tel t.d. að neytendaverndarákvæði samningalaga nr. 7/1936, þ.e. 36.gr. og liður c alveg sérstaklega, eigi líklegast eftir að gefa neytendum meiri rétt en þegar er. Veltur það á þeim skilningi mínum annars vegar að ólöglegur skilmáli teljist vera ósanngjarn og hins vegar að Hæstiréttur dæmdi ekki vextina ólöglega í máli 471/2010. Rétturinn sagði vextina samofna hinum ólöglega skilmála. En ekkert í íslenskum lögum leyfir Hæstarétti að skipta á einni tegund vaxta fyrir aðra. Það var hræðilega hallærisleg skítaredding til að "bjarga" fjármálastöðugleikanum í landinu, nokkuð sem er ekki í verkahring Hæstaréttar að sinna. Það er heldur ekki hlutverk neytenda að "bjarga" fjármálastöðugleikanum, sérstaklega þegar haft er í huga að Seðlabanki og Fjármálaeftirlit lugu upp í opið geðið á alþjóð þegar tilmæli þeirra til fjármálafyrirtækja voru kynnt í lok júní 2010. Þá töldu þessir aðilar að tjón fjármálafyrirtækjanna myndi hlaupa á hundruðum milljarða, ef samningsvextir myndu gilda, en eftir að Hæstiréttur sagði að samningsvextir yrðu að gilda fram að dómsuppkvaðningu, þá var komið allt annað hljóð í strokkinn. Nei, þá nam tjónið í hæsta lagi 50 milljörðum!
Lánamál | Breytt 5.12.2013 kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2013 | 12:29
Allt byggt á blekkingum og endurbirtur pistill
Nú hefur sérstakur saksóknari birt ákærur á hendur fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum tveggja hrunbanka, þ.e. Landsbanka Íslands og Kaupþings. Hef ég þegar lesið að mestu í gegn um helming ákærunnar gegn Landsbankamönnum og verður ekki sagt annað en að hugkvæmnin í svikunum er ekki mikil. Er hún raunar ákaflega aulaleg, svo ekki sé meira sagt. Menn héldu í raun og veru að það væri í lagi, að bankinn seldi eignalausu eignahaldsfélagi hlutabréf og lánaði fyrir kaupunum og þar með væri bankinn laus við bréfin úr bókum sínum. Sigurjón Þ. Árnason lét meira að segja hafa eftir sér, að þetta hafi verið hluti af því að Landsbankinn var viðskiptavaki yfir sjálfum sér!
Ekki var nú þekking manna á lögum mikil, hafi þeir haldið þetta í lagi. Ég hélt að það ætti að vera öllum ljóst að hlutverk viðskiptavaka er ekki að svindla með viðskipti, í annan stað þá er enginn viðskiptavaki yfir sjálfum sér og í þriðja lagi þá er það hlutverk viðskiptavaka að kaupa og selja á markaði, en ekki auka eftirspurn með kauptilboðum á markaði en selja síðan allt sem keypt er utan markaðar í sölum sem ekki eru tilkynningarskyldar. Ég hef heyrt margt aulalegt koma frá fyrrverandi stjórnendum bankanna, en þessi skýring Sigurjóns er með þeim aulalegustu. Eigum við að trúa, að bankastjóri viti ekki hvað má og hvað ekki, sérstaklega þegar maðurinn fór fyrir verðbréfasviði bankans og ætti því að vera með þekkingu á atriðum eins og viðskiptavaka. Ég verð að viðurkenna, að ég hef alltaf litið svo á, að Sigurjón Þ. Árnason væri bráðgreindur maður. Með skýringunni sem hann gaf í viðtali á Stöð 2 um daginn, þá fannst mér hann gera lítið úr sjálfum sér. Er það kennt við háskóla á Íslandi og úti í hinum stóra heimi, að menn megi vaka yfir sjálfum sér?
Endurbirt grein
Fyrir rúmum þremur árum (11.2.2010) birti ég pistil hér örlítið breyttan, sem mér finnst fullt tilefni til að endurbirta. Þar lýsi ég sambærilegum hlutum og nú hefur verið ákært fyrir:
Tikk-takk-tikk, tímasprengjan tifar, almenningur er að springa
Ég hef aldrei upplifað eins ástand og núna er í þjóðfélaginu. Hver afhjúpunin á fætur annarri veltur yfir landsmenn um viðskipti svo kallaðra auðmanna, þar sem í ljós kemur að þeir áttu ekkert nema að nafninu til. "Auðmaður" A átti ekki einn aur í því sem notað var til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki. "Auðmaður" B átti ekki einn aur í því sem notað til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki. Framleiðslufyrirtæki keypti sölufyrirtæki og átti ekki einn aur af þeim peningum sem notaðir voru við kaup á félaginu. Hinir svo kölluðu auðmenn voru upp til hópa menn án peninga eða að þeir hættu aldrei sínu eigin aur í þær fjárfestingar sem þeir tóku þátt í. Veldi þeirra var loftbóla byggð á afleiðum og skuldsettum yfirtökum.
Hér á landi byggðust eignir "auðmanna" á hlutabréfum sem þeir höfðu "keypt" í bönkunum. Kaupverðið hafði nánast alltaf verið að fullu tekið að láni hjá bönkunum sjálfum beint eða í gegn um eitthvað leppfélag. Peningurinn kom úr bankanum, tók í versta falli tvo, þrjú hopp og skiluðu sér svo aftur inn í bankann, þar sem hlutabréfin voru oftast keypt af aðila sem notaði peninginn til að gera upp skuld við bankann. Nú hlutabréfin í bönkunum voru svo notuð sem trygging fyrir lánum sem notuð voru til að kaupa önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir nýjum lánum, sem notuð voru til að kaup enn önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir enn öðrum lánum, o.s.frv. Hvergi í allri keðjunni er lögð til ein króna af eigin fé. Eins og allir vita, þá er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn og fall bankanna haustið 2008 varð til þess að keðja brast. Málið er að nær öll hlutabréfaeign "auðmanna" hékk saman í svona keðju sem er að leysast upp, eins og þegar lykkjufall verður. Allir sem þekkja til prjónamennsku vita að nóg er að ein lykkja falli til að allar lykkjur fyrir ofan missa festingu sína og ef ekki er gripið í snarhasti til heklunálarinnar, þá getur flíkin eyðilagst.
"Auður" íslenskra "auðmanna" lítur núna út eins og peysa alsett lykkjuföllum. Hann er að engu orðinn. Hann var líklegast enginn allan tímann. Það var allt fengið að láni. Dapurleg staðreynd, sem margir af þessum mönnum munu þurfa að lifa við sem eftir er ævi sinnar. Þeir skreyttu sig með stolnum fjöðrum og gengu um í nýju fötum keisarans.
Þetta var hin opinbera eignahlið á "viðskiptaveldi" þeirra, en hvað með hina óopinberu hlið. Það runnu jú stórar fjárhæðir til þeirra út úr félögum "viðskiptaveldisins". Þessar fjárhæðir virðast vera týndar nema þær hafi bara horfið í hítina. Satt best að segja, þá held ég að stór hluti af þessum peningum séu löngu búnir í eyðslufylleríi "auðmannanna" og þegar sjóðirnir tæmdust, þá var eina leiðin til að tryggja meira aðgang að peningum að kaupa banka.
Ég sagði að ástandið í þjóðfélaginu væri viðkvæmt. Það er allt við að springa. Almenningur sér flett ofan af hverri svikamyllunni á fætur annarri. Við þurfum að horfa upp á bankana leysa til sín hvert fyrirtækið á fætur öðru. Fyrirtæki sem "auðmennirnir" og leppar þeirra áttu að nafninu til, en bankarnir áttu í raun og veru. "Auðmenn" og leppar sem hafa lifað hátt á okkar kostnað og við eigum að borga reikninginn. "Auðmenn" og leppar þeirra eru að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þeir kunnu á kerfið og höfðu her lögmanna á sínum snærum, en í almenning er kastað brauðmolum. Jón Ásgeir fær meiri afskrift í einni færslu hjá einu af svo kölluðu fyrirtækjum hans, en öll heimili landsins fá af húsnæðislánum sínum! Þess vegna er almenningur að springa. Og eins og einn bankamaður komst svo snilldarlega að í dag, þá verður fólk "að sætta sig við það". Ég viðurkenni það fúslega, að það sauð á mér við þessi orð sem viðhöfð voru í hópi fólks sem er að fást við vanda almennings alla daga, hver á sinn hátt. Málið er að við þurfum ekki að sætta okkur við það og við eigum ekki að sætta okkur við það. Það verður bankinn að sætta sig við.
En það var ekki bara viðskiptaveldi "auðmannanna" sem var svikamylla. Eignasafn gömlu bankanna sem tengdist viðskiptum við "auðmennina" var ekki byggt á neinu. Viðskiptalíkan gömlu bankanna byggði á afleiðuviðskiptum, þ.e. loftbólu eða sápukúlu. Eða á ég að nota kunnuglega samlíkingu við lauk úr bíómynd. Hvað er inni í lauk? Maður flettir hverju laginu á fætur öðru af og innst er ekkert. Það er enginn kjarni í lauk og þannig var það með kröfur bankanna á "auðmennina". Það var ekkert þar að baki. Ekkert. Þrátt fyrir það mokuðu bankarnir peningum í "auðmennina", sem eru núna að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þessir sömu bankar hjálpuðu "auðmönnunum" að komast hjá því að taka ábyrgð. Það sem meira er, verið er að aðstoða þessa sömu "auðmenn" við að eignast aftur fyrirtækin sem þeir stjórnuðu en áttu raunar aldrei neitt í. Svo virðist sem "auðmennirnir" munu "eiga" meira eftir uppgjörið, en þeir áttu nokkru sinni áður. Þess vegna er almenningur að springa.
Tikk, takk, tikk, takk - búmm!
![]() |
Stórfelld og ólögmæt íhlutun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
HRUNIÐ | Breytt 5.12.2013 kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fjármálaeftirlitið er að greina "vanskil" fólks og fyrirtækja. Ætli Fjármálaeftirlitið tali um vanskil, þegar neitað er að greiða af rangt reiknuðum lánum? Ég veit um ansi marga sem hafa ekki fengið rétta greiðsluseðla frá ársbyrjun 2008. Ég reikna með að þeir sem hafa nýtt rétt sinn og neitað að greiða ólöglega reiknaðar kröfur, teljist í bókum fjármálafyrirtækjanna og Fjármálaeftirlitsins hafa verið í vanskilum. Í mínum huga getur viðskiptavinur aðeins verið í vanskilum hafi hann neitað að greiða löglega kröfu.
Ég hef séð kröfur frá fjármálafyrirtæki til einstaklings, sem ég endurreiknaði lán fyrir, þar sem eftirstöðvar á 20 milljóna króna láni, þ.e. upphaflegur höfuðstóll, voru reiknaðar vera 52 m.kr. Viðkomandi neitaði að greiða afborganir nema að hann fengi rétt reiknaðan greiðsluseðil í hendur. Fyrir mér er þetta algjörlega eðlileg ósk af hendi viðskiptavinarins. Nei, engu tauti var við fjármálafyrirtækið komandi og það vildi margfalda höfuðstólsafborgun þrátt fyrir Hæstaréttardóma um hið gagnstæða. Miðað við niðurstöðu Hæstaréttar í málum 600/2011 og 464/2012, þá eru eftirstöðvar lánsins innan við 18 m.kr. og sé síðan tekið tillit til úrskurðar Evrópudómstólsins í máli C-618/10, þá lækka eftirstöðvarnar enn frekar.
Hrægammastofnanir
Svo má við þetta bæta, að Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, eins og þessar stofnanir heita í dag, hafa hagað sér eins og ósvifnustu hrægammasjóðir, keypt kröfur á miklu undirverði og ætlast til að fá fullt verð fyrir eða að minnsta kosti gott álag á kaupveðið. Þetta heitir víst á Íslandi að vera heiðvirð fjármálaviðskipti, en ég kann önnur orð yfir svona háttsemi. Á þessari háttsemi er mörg hundruð milljarða hagnaður bankanna byggður. Að mergsjúga fólk og fyrirtæki sem var nánast hrint fram af bjargbrúninni af lögbrotum bankanna í undanfara hrunsins og vegna afleiðinga þess. Og í staðinn fyrir að leiðrétta misgjörðir fyrirrennara sinna, þá ákváðu þeir að græða á þeim! Huggulegir viðskiptabankar eða hitt þó heldur sem fólk er neytt til að eiga viðskipti við. Svo er starfsfólki þeirra greiddur bónus fyrir að ganga lengra að fyrirtækjum en ástæða var til bara svo þjóðarbúið skuldi kröfuhöfum aðeins meiri gjaldeyri.
Því miður hefur endurreisn bankakerfisins verið á kostnað viðskiptavina sem lentu í svikamyllu þeirra aumkunarverðu fyrirtækja, sem hétu Landsbanki Íslands, Kaupþing og Glitnir. Fyrirtækja sem almenningur á Íslandi treysti að væru að vinna að hagsmunum allra viðskiptavina sinna, en ekki bara eigenda og valinna eftirlætisviðskiptavina og að ógleymdum sérvöldum starfsmönnum sem áttu, að því virðist greiðan aðgang að fjárhirslum bankanna.
Blóðsjúgandi vampírur
Dæmi um hvers konar blóðsjúgandi vampírum fjármálafyrirtækin eru orðin, sést best í þeim fjölda íbúða sem þær hafa séð sig "tilneydda" að leysa til sín eftir að hafa krafist nauðungarsölu. Hátt í 10% þjóðarinnar hefur þannig misst húsnæðið sitt til hrægammanna. Flest málin eru tilkomin vegna lögbrota aumkunarverðra fyrirrennara bankanna þriggja. Ég held að bankarnir þrír og fleiri endurreistar og yfirteknar fjármálastofnanir hafi gleymt, að þegar lánin viðskiptavinanna voru færð yfir til nýrra fjármálafyrirtækja, þá fylgdu ekki bara réttindi heldur líka skyldur.
Hrunið var ekki óheppni
Ef menn halda að hrunið hafi bara orðið af ansans óheppni, þá held ég að rétt sé að menn hugsi sig um. Nei, það varð vegna þess, að þeir sem stjórnuðu hrunbönkunum virtust uppteknari við að græða en að reka banka. Það varð vegna þess að menn sniðgengu lög, áhættustýringu og heilbrigða skynsemi. Um þetta er fjallað ítarlega á um 1.400 blaðsíðu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þannig að þetta er ekki bara mín ályktun.
Lágmark að skila því sem ekki var greitt fyrir
Ég hef sagt það áður og endurtek það núna. Mér finnst alveg lágmark, að bankarnir þrír skili til viðskiptavina sinna þeim afslætti sem þeir fengu af lánasöfnum við yfirtöku þeirra frá hrunbönkunum og öðrum aumum fjármálastofnunum. Þá er ég að tala um að viðskiptavinir bankanna þriggja fái, sem leiðréttingu á skuldum sínum, bróðurpartinn af hagnaði bankanna vegna endurmats á yfirteknum eignasöfnum. Verði það ekki gert, þá krefst ég þess að settur verði hvalrekaskattur á þessi fyrirtæki, þannig að hagnaður af vogunarsjóðsstarfsemi bankanna verði látinn standa undir þó ekki væri nema hluta af kostnaði ríkissjóðs vegna hrunsins. Mér finnst það gjörsamlega fáránlegt, að viðskiptabankarnir þrír eigi taka til sín nokkur hundruð milljarða hagnað, hirða húsnæði af fólki í stórum stíl og síðan eiga almennir skattgreiðendur að standa undir kostnaðinum af því tjóni sem fyrirrennarar þeirra ollu.
Að gera upp hrunið kallar á sanngirni
Ef menn halda að hrunið verði gert upp með því að bankarnir fái sitt, þá er það mikill misskilningur. Það verður heldur ekki gert upp með því að valdir viðskiptavinir og starfsmenn fái hundruð milljóna, milljarða eða jafnvel tugi milljarða fellda niður af skuldum sínum meðan almennir viðskiptavinir eru meðhöndlaðir eins mjólkandi kýr sem í lagi er að blóðmjólk og svo senda í sláturhúsið, þegar nytin fellur. Þetta er því miður sú aðferð sem mér virðist helst notuð.
Vilji menn gera upp hrunið, þá verður að gera það af sanngirni. Sú sanngirni felur í sér að nýju bankarnir þrír taki ekki til sín krónu í endurmati á yfirteknum lánasöfnun, heldur fari það allt í að leiðrétt lánin. Að almennir viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna taki allir á sig sama hlutfall af skaðanum, sem þá verður eftir. Þetta á líka við um innstæðueigendur og litla hluthafa, enda var þetta sparnaðarleið, en ekki fjárfesting. Fyrir marga var það þjóðrækni að eiga hlutabréf í Landsbanka Íslands (sjálfur var ég ekki það þjóðrækinn). Það felur í sér að fólki verði gert kleift að halda húsnæði sínu með því að færa skuldir að greiðslugetu, en ekki 110% af eignarstöðu, og að sjálfsögðu að leiðrétta forsendubrest lánanna.
Mesta sanngirnin felst í því, að viðskiptavinir bankanna þriggja fái njóta hagnaðarins með eigendum þeirra eða að hagnaðurinn verði notaður í að greiða hluta þess tjóns sem skattgreiðendur hafa þurft að standa undir. Ég skil vel þörf fyrir gott eigið fé hjá þessum stofnunum, en það eru fleiri en þeir sem þurfa eigið fé.
![]() |
Minni vanskil fólks og fyrirtækja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 5.12.2013 kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.3.2013 | 21:43
Ver verðtrygging sparnað landsmanna?
Efnahagsmál | Breytt 5.12.2013 kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
5.3.2013 | 20:07
Ósanngjarna skilmála í neytendasamningi ber að fella niður óbætta
Neytendavernd | Breytt 6.12.2013 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 17
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 33
- Frá upphafi: 1681897
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 32
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði