Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Verðtryggingin verður að fara

Mikið er ég orðinn óendanlega þreyttur á þeim kór sem heldur því fram að verðtrygging sé góð. Fyrst hún er svona góð, af hverju er hún ekki notuð á neytendalán út um allan heim? Af hverju vara húsnæðislánafyrirtæki í Ísrael lántakendur við því að taka verðtryggð lán og mæla frekar með óverðtryggðum? (Ísrael er eina landið í heiminum, fyrir utan Ísland, þar sem verðtrygging lán er með sama hætti og á Íslandi.)
 
Heilaþvottur
 
Í nokkra áratugi er búið að heilaþvo þjóðina með því, að fái maður lánaðar 10 m.kr. þá eigi maður að greiða raunvirði þessara 10 m.kr. til baka á lánstímanum. Það er kjaftæði. Lánsfé er alveg eins og hver annar varningur. Lánveitandinn verðleggur hvað hann vill fá fyrir fé sitt. Vegna þess að um peninga er að ræða, þá er ekkert sem segir að kaupmáttur samkvæmt vísitölu neysluverð sé einhvert ófrávíkjanlegt viðmið. Í fyrsta lagi, þá er vísitala neysluverðs ekki gott viðmið fyrir virði lánsfjár. Í öðru lagi er vísitölu neysluverðs ekki ætlað að vera slíkt viðmið, til þess er hún allt of ófullkomin. Í þriðja lagi, þá er líklegt að verðmæti lánsfjár ráðist af allt öðrum þáttum, en þeim sem vísitala neysluverðs mælir. Loks þá hafa verðbætur bein áhrif á vísitölu neysluverðs og margvísleg óbein. Þetta hefur Jacky Mallett sýnt fram á með líkani sínu, sem hún getur skýrt betur út.
 
Heimur án verðtryggingar
 
Ég hef búið með rúmlega annan fótinn í Danmörku síðustu 3 ár. Þar er engin verðtrygging á lánum og ekki heldur á húsaleigu. Verðbólga hér hefur ekki verið fjarri verðbólgu á Íslandi, þó hún hafi vissulega verið ívið meiri á klakanum. En ætli hún hafi ekki verið um 3% í það heila á þessum þremur árum. Þrátt fyrir það hefur leigufjárhæðin sem ég borga staðið í stað. Hér æpir enginn: "Ó, ég verð að hækka leiguna, vegna þess að annars lækkar raunvirði þess sem ég fæ! Hjálp, hjálp, leigjandinn er að snuða mig!" Það sem meira er, að vextir húsnæðislána fóru um tíma niður í neikvæða vexti í 0,8% verðbólgu, þ.e. bankarnir borguðu um 1% með láninu, svo maður noti íslenska raunvirðiskjaftæðið. Ég hef ekki heyrt neinn banka kvarta og ástæðan er einföld: Bankarnir verðleggja lánsféð í samræmi við það sem þeir telja sig þurfa að fá fyrir það, en ekki í samræmi við það sem þeir hugsanlega gætu fengið fyrir það, eins og mér virðist tíðkast á Íslandi.
 
Nú áður en einhver fer að væla yfir því að íslenska krónan sé svo lélegur gjaldmiðill, þá var 1 DKK = 23 IKR fyrir þremur árum eða svo, en er 19 IKR í dag. Þannig að húsleigan hefur lækkað um heilan helling í íslenskum krónum. Og það er stóra málið. Íslenska krónan er (einn) sterkasti gjaldmiðill í heimi um þessar mundir. Leitun er af gjaldmiðli sem styrkst hefur meira síðustu 5 ár.
 
Breytt vaxtaumhverfi
 
Núna er tækifærið til að afnema verðtrygginguna og breyta vaxtaumhverfinu. Taka þarf mörg skref til að það geti orðið, en það fyrsta er eitt pennastrik: "Verðtrygging á neytendalánum er bönnuð." Meðan verðtrygging á neytendalánum er við lýði, þá munu verðtryggðir vextir mynda gólf fyrir útlánavexti. Næsta skref er að færa verðlagningu lánsfjár til þess sem er á Norðurlöndunum. Um leið og verðtrygging verður bönnuð, þá munu stýrivextir Seðlabankans bíta betur. Það þýðir hins vegar að þá þarf að lækka verulega, vegna þess að bit þeirra verður hlutfallslega meira eftir því sem hækkunin er frá lægra gildi. Hækkun stýrivaxta frá 0,5% í 1,0% er 100% hækkun, meðan hækkun frá 5,0% í 5,5% er "aðeins" 10% hækkun. Já, til að byrja með munu menn líta á 3% vexti sem lága vexti, en það er bara vegna þess að þeir eru vanir okrinu. Eftir nokkur ár verða 3% vextir hins vegar vonandi háir vextir alveg eins og okkur þykir sem betur fer 4% verðbólga vera óásættanleg núna, en hún var algjört himnaríki í kringum 1990.  Munið vælið í þeim eldri, þegar yngra fólkið sagði að verðbólga yfir 4% væri forsendubrestur. Þetta fólk hefði örugglega fussað og sveiað, þegar næsta kynslóð á undan sagði undið viðargólfið vera lúxus af því að sjálft ólst það upp á moldargólfi!
 
Við þurfum að breyta sýn fólks á raunveruleikanum og fá það til að skilja að vextir yfir 5% eru háir vextir, þó þeir séu lágir miðað við gamla Ísland, þegar verðbólgan var yfir 100%.
 
Verðtryggingardalur verðtryggingarþjóðar
 
Ég heyri fyrir mér heilaþvottarliðið segja:  "Marinó, það er rökvilla í þessu hjá þér.  Þegar verðtryggingin verður bönnuð,hækka bara vextirnir!"  Nei, það er engin rökvilla í þessu.  Þeir sem halda að hún sé til staðar eru einfaldlega lokaðir í verðtryggingardalnum, hafa bara verðtryggingarorðaforða og hugsa allt í verðtryggingu.  Þeir hafa aldrei farið út fyrir dalinn sinn og átta sig ekki á því, að í öðrum dölum eru engar verðtryggingarrollur, -hestar eða -kýr.  Í öðrum dölum ganga menn ekki með verðtryggingarkeðjur um öklana sem festar eru í verðtryggingarkúlur eða með hjálma á hausunum sem banna þeim að huga um eitthvað annað en verðtryggingu.  Hugsanlega er einhver annar heilaþvottur í gangi þar, eins og að maður geti eignast skuldlaust húsnæði án þess að vera alla ævi að borga af því.  Þurfi bara að vera í einni vinnu til að eiga fyrir nauðsynjum.  Eiga tíma á hverjum degi til að eyða með fjölskyldunni  Hver veit?
 
Einföld efnafræði
 
Þetta er einföld efnafræði.  Taki maður eitt frumefni út úr annarri hlið efnaformúlu, þá hlýtur hin hliðin óhjákvæmilega að breyta sér.  Já, óverðtryggðir vextir munu hugsanlega hækka, en það verður tímabundið.  Síðan munu þeir lækka skarpt, alveg eins og verðbólgan lækkaði, þegar við breyttum formúlunni í kringum 1991. 
 
En það eru þrjú frumefni, sem þarf að fjarlægja.  Eitt er verðtryggingin, annað er ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna (fjalla nánar um hana á eftir) og það þriðja ofurvextir ríkisskuldabréfa.
 
Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna hefur gríðarleg áhrif á verðmyndun lánsfjár.  Ástæðan er að lífeyrissjóðirnir leggja fjármálamarkaðinum til svo mikið fé.  Þeir eiga stærstan hluta húsnæðislána, ýmist beint með sjóðfélagalánum eða óbeint sem eigandi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs og bankanna, þeir eiga háar upphæðir í ríkisskuldabréfum og loks lána þeir mikið til fyrirtækja landsins.  Einhverra hluta vegna hefur enginn séð hag sinn í því að veita lífeyrissjóðunum raunverulega samkeppni, enda hvers vegna að toga vaxtastigið niður, þegar nánast er hægt að tryggja sér 3,5% vexti auk verðbótanna. 
 
Ofurvextir ríkisskuldabréfa er eiginlega furðulegasti hlutinn í þessu.  Nærri skuldlaus ríkissjóður var á árunum fyrir hrun að gefa út ríkisskuldabréf með svo háum vöxtum að jaðraði við geðveiki.  Málið er nefnilega, að vextir ríkisskuldabréfa er gólfið á vöxtum þeirra sem leita eftir lánsfé.  Til hvers að bjóða lánsfé á 4% vöxtum, þegar ríkissjóður býðst til að láta þig hafa 8%?
 
Lúxusveröld fjárfesta
 
Já, fjárfestar á Íslandi eru klæddir í svamp og bómull milli þess sem þeim er skenkt úrvalsvín í kristalglös og boðinn gæðakavíar frá Rússlandi.
 
Þessari lúxusveröld fjárfestanna verður að loka ekki seinna en strax.  Þeir verða að óhreinka sig og hafa fyrir hlutunum. Fá verður fjárfesta til að verðleggja fjármagn sitt á samkeppnisverði.  Hvorki ríkið né lífeyrissjóðir mega vera verðmyndandi.  Breyta verður efnaformúlunni til að búa til nýtt efnajafnvægi með lægri vöxtum.  Gera þarf 2% óverðtryggða vexti að sjálfsögðum langtímavöxtum íbúðalána, þannig að hækkun stýrivaxta Seðlabankans um 0,5% slái í raun á eftirspurn eftir lánsfé, en sé ekki hlegið af sem eitthvað sem skiptir ekki máli.
 
Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna
 
Ég átta mig á því, að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna er útreiknuð stærð, afleidd af þeirri kröfu 4.gr. laga nr. 129/1997 að launamenn eigi að fá 56% greitt í ellilífeyri af þeim mánaðarlaunum sem þeir hafa greitt af á 40 árum.  Hvernig þessi 56% tala er fengin, hef ég ekki hugmynd um.  Hef ég leitað hátt og lágt á internetinu eftir því, en ekki fundið.  En hvaðan sem þessi tala er fengin og hvernig hún er fengin, skiptir ekki megin máli.  Það sem skiptir meginmáli er (og ætla ég að vitna í Ólaf Margeirsson):
..sjóðirnir..ÞURFA 3,5% raunávöxtun til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Og slíka ávöxtun ræður hagkerfið ekki við að borga þeim.
Til að setja það í samhengi, þá eru eignir lífeyrissjóðanna um 3.000 ma.kr. og landsframleiðslan um 2.000 ma.kr.  Til að 3.000 ma.kr. fái 3,5% raunvexti, þá þarf hagvöxtur að vera vel rúmlega það, auk þess sem hann þarf að greiða ávöxtunarkröfu allra annarra fjárfesta að ógleymdum bönkunum.  Þetta er reiknisdæmi sem ekki gengur upp, þrátt fyrir að hluti eigna lífeyrissjóðanna sé í ávöxtun í útlöndum.
 
Á meðan ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna er jafn há og raun ber vitni, þá verður óstöðugleiki í íslenska hagkerfinu.  Það verður bólumyndun og það verða kollsteypur með verðbólguskotum, því þannig ná lífeyrissjóðirnir sinni ávöxtun.  "Já, en lífeyririnn er verðtryggður", segir örugglega einhver.  Þetta er bæði rétt og rangt, að mestu rangt.  Miðað er við að lífeyrir sé verðtryggður, en lífeyrissjóðir eru skyldugir til að hækka eða skerða réttindi í samræmi við afkomu mældri yfir ákveðið tímabil. Í 39.gr. laga nr. 129/1997 segir nefnilega:
Leiði tryggingafræðileg athugun skv. 24. gr. í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga skv. 1. mgr. er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.
Sem sagt lífeyrir er vissulega verðtryggður, en með skilyrðum.  Og skilyrt verðtrygging er ekki sönn verðtrygging.  Lífeyrissjóðirnir eru með belti og axlabönd!
 
Hóflegir óverðtryggðir vextir leiða til stöðugleika
 
Ég hef svo sem ekki gert neina úttekt á því hvar er mestur stöðugleiki í heiminum, en hér í Danmörku hefur verið nokkuð góður stöðugleiki í ansi langan tíma.  Vissulega hefur efnahagur þjóðarinnar gengið í bylgju, en á íslenskan mælikvarða eru þær ekki mælanlegar.  Danskir bankar og húsnæðislánasjóðir tóku upp á því á 10. áratug síðustu aldar að breyta húsnæðislánavöxtum sínum.  Þeir höfðu gjarnan verið um og yfir 10% sem leitt hafði af sér talsverð vanskil.  Með nánast einu pennastriki, þá ákváðu bankarnir að lækka vextina og bjóða upp á vaxtaþak.  Við þetta (miðað við mína athugun) þá gerðist tvennt:  1) Verðbólga lækkaði og 2) vanskil minnkuðu (hurfu ekki, en minnkuðu).  Síðan hafa vissulega komið lánaform, sem ekki eru til eftirbreytni og er verið að loka fyrir þau núna 1. nóvember nk.
 
En ég þarf svo sem ekki að leita til Danmerkur til að finna svona dæmi.  Á árunum frá 1993 til 2007 var verðbólga nokkuð hófleg á Íslandi miðað við árin á undan og því fylgdi um leið minni vanskil.  Vegna lægri verðbólgu (þó hún hafi verið há miðað við núna), þá lækkuðu vextir og verðbólgan hélst lág vegna þess að ekki þurfti að hækka laun til að elta verðbólguna.
 
Einn er þó fylgifiskur lágra vaxta og það er hækkun húsnæðisverðs, a.m.k. var það reyndin á árunum 2004-2007.  Koma þarf einhvern veginn í veg fyrir það.  Fólk er nefnilega verr sett að borga 3% vexti af 20 m.kr. láni en að borga 6% vexti af 10 m.kr. láni.  Ég segi verr sett, vegna þess að hærri greiðslubyrði afborgana mun skerða þær ráðstöfunartekjur sem eftir standa.
 
Lokaorð
 
Þetta er orðið löng færsla, en vonandi hefur einhver nennt að lesa hana til enda.
 
Alveg er á hreinu, að við þurfum að losna við verðtryggingu af neytendalánum.  Samhliða því þarf: 
1) að ná óverðtryggðum vöxtum niður í hámark 3,5-5,0% miðað við núverandi verðbólgustig,
2) breyta ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna
3) lækka vexti nýrra ríkisskuldabréfa
4) lækka stýrivexti Seðlabanka Íslands
5) auka framboð af íbúðahúsnæði til að koma í veg fyrir að verð á húsnæði éti upp ávinning af lækkun vaxta.

Erla Stefánsdóttir 1935-2015

Horfin er til annars heims Erla Stefánsdóttir.  Fáir sjá heiminn með hennar augum eða hafa boðað kærleikann eins hreinan og tæran og hún hefur gert.

Ég er einn af nemendum Erlu.  Kynntist henni fyrir um aldarfjórðungi, þegar ég sótti námskeið hjá henni.  Yndislegri manneskja er vandfundin.  Þessi óskilyrti skilningur og vinátta sem hún sýndi okkur, nemendum sínum, var eitthvað sem ég hafði aldrei kynnst áður.  Ekki bara það, heldur að vera nálægt henni, var eins og vera hleypt inn í heilagt rými, slík var orka hennar og orkuhjúpur.

Erla er vissulega þekkt meðal almennings, sem mikill sjáandi, "álfadrottningin" var hún stundum kölluð, vegna þess að hún sá meira en fólk flest.  Þeir hæfileika voru henni bæði blessun og byrði.  Samt vildi hún aldrei gera mikið úr þessum hæfileikum sínum.  Hún stærði sig aldrei af þeim í mín eyru eða taldi sig á nokkurn hátt betri en aðrir vegna þess.  Eitt sinn vorum við að ræða saman og ég segi svona, að ég verði bara að láta mér nægja í bili að sjá ljósið skína í gegn um skráargatið á hurðinni, en hún sé örugglega þar fyrir innan.  Svaraði hún mér hlæjandi:  "Nei, ég er bara nær skráargatinu!"  Var þetta lýsandi fyrir þá hógværð og virðingu sem hún bar fyrir hæfileikum sínum.  Hún bar þessa byrði og deildi reynslu sinni og upplifun með okkur, eins og hún þorði, því hún taldi ekki allt, sem hún sá, eiga erindi við okkur.

Fyrir okkur sem kynntumst Erlu og tókum þátt í starfi Lífssýnar, þá var margt meira og mikilvægara í fari hennar, en að geta séð meira en við hin.  Það var fyrst og fremst sá hæfileiki hennar að geta miðlað þekkingu sinni áfram til okkar.  Að geta kveikt ljós kærleika í huga okkar og hjörtum. Að geta fengið okkur til að leita inn á við og upp á við að ljósinu í lífi okkar.  Að finna stoð og stuðning í æðri verum þessa heims óháð trúarbrögðum.

Kæra Erla, það voru mikil forréttindi að kynnast þér og mun ég alltaf búa að þeim kynnum.  Engin manneskja (utan minna nánustu) hefur haft jafn mikil áhrif á mig eða á jafn stóran hlut í mótun minni sem einstaklings.  Þú ert og verður um ókomna tíð merkasti kennarinn minn vegna þess að þú kenndi mér skilyrðislausa ást, að lifa án fordóma, að láta af dómhörku, að heimurinn er fullur af endalausri orku og ást og það væri mitt (og allra annarra) að nýta þetta til góðs fyrir alla.  Þú hvattir mig (sem og aðra nemendur þína) til að leggja alúð við störf okkar, að hlúa að blómi sálar okkar, að vera heilstæð persóna í eigin rými, því þá liði okkur vel og útgeislun okkar ykist.  Kannski verðum við einhvern tímann að því leiðarljósi fyrir aðra, sem þú varst fyrir okkur!

Ég þakka þér fyrir einstaklega áhugavert ferðalag.

Marinó


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband