Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015
23.1.2015 | 18:16
Upplýsingar í gögnum Víglundar
Í tæp 6 ár hef ég haldið því fram og lagt fram gögn því til sönnunar, að nýju bankarnir hafi fengið lánasöfn sín á mjög miklu afslætti. Þetta er svo sem eitthvað sem allir vita. En jafnframt hef ég bent á að samið hafi verið við slitastjórnirnar um að þessi afsláttur ætti að færast til kröfuhafa í formi arðs. Vegna Landsbankans var reyndar gengið lengra og starfsmönnum umbunað fyrir að vera harðir í innheimtu á skuldum lítilla og meðalstórra fyrirtækja með því að "gefa" þeim hlutabréf sem voru í eigu slitastjórnar bankans.
Fyrir tæpum tveimur árum, þá sneri sér til mín aðili með þau gögn sem mér sýnist Víglundur Þorsteinsson nú hafa gert opinber. Ekki eru þau gögn sem ég skoðaði að öllu leiti þau sömu og Víglundur er að birta, bæði er að Víglundur birtir í einhverjum tilfellum meira en það sem ég hef undir höndum og stundum ekki eins mikið. Bað viðkomandi mig um að greina gögnin og bera saman við upplýsingar sem ég þegar hafði undir höndum.
Niðurstaða greiningar minnar var mjög einföld. Í grunninn staðfestu gögnin það sem ég og Hagsmunasamtök heimilanna höfum verið að halda fram um að nýju bankarnir væru að taka til sín gríðarlegar upphæðir í virðisaukningu lána sem þeir fengu til sína með miklum afslætti. Þessar upplýsingar komu fyrst fram í stofnefnahagsreikningum bankanna, næst mátti lesa um þetta í skýrslum til kröfuhafa hrunbankanna, þá kjaftaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn af sér í októberskýrslu sinn hausitð 2009 (var birt í byrjun nóvember), skýrsla Steingríms J. Sigfússonar um endurreisn viðskiptabankanna í mars 2011 var mjög upplýsandi, ráðherrar hafa nokkrum sinnum verið spurðir um málið á þingi og loks hafa nýju bankarnir verið að birta þessar upplýsingar (eftir dúk og disk) í uppgjörum sínum.
Víglundur nefnir í sínu bréfi að 3-400 ma.kr. hafi verið sviknir af lántökum. Ég held að upphæðin sé hærri, en látum það liggja á milli hluta. Skoðum frekar afleiðingarnar af þessari háttsemi og ákvörðunum (sem Steingrímur J hlýtur að bera ábyrgð á):
- Yfirskuldsetning heimila og fyrirtækja
- Hægari endurreisn hagkerfisins
- Fólk og fyrirtæki hafa misst eignir og/eða verið sett í þrott
- Úrvinnsla skuldamála hefur dregist á langinn
- Atvinnuleysi hefur haldist hærri en þörf var á
- Lausn fjármagnshafta hefur dregist
Það er nánast kaldhæðni, að miðað við þær hugmyndir sem nýlega komu fram, um að ríkið eignaðist Íslandsbanka og Arionbanka, að bankarnir hafi verið svona harðir í virðisaukningu sinni á lánum viðskiptavina sinna. Hagnaðurinn sem þannig hefur myndast mun miðað við það renna til ríkisins. En um leið var þetta ljótur leikur, því hann bjó til samningsstöðu fyrir slitastjórnirnar. Harkan í innheimtunni bjó til innlendar eignir sem hægt var að nota í pókerspili slitastjórnanna við stjórnvöld. Enn þá fáránlegra er að Steingrímur J lagði slitastjórnunum til spilin.
Í meðfylgjandi skjali er úttekt mín á öllum þeim gögnum sem ég nefni að ofan. Það var upprunalega samið fyrir þann sem bað mig um að skoða "leyniskjölin", en er birt hér í örlítið styttri útgáfu. Ég sé engan tilgang með því að nefna fyrirtæki á nafn, enda gæti það varðað við lög að gera slíkar upplýsingar opinberar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.1.2015 | 22:45
Stefnumótun fyrir Ísland
Eftir hrun bankanna í október 2008, vonuðust margir eftir breytingum. Þær hafa að mestu látið bíða eftir sér og margt sem farið var af stað með endaði í sviknum loforðum. Núna ríflega 6 árum síðar er stjórnarskráin óbreytt, fiskveiðikerfið er óbreytt, ofríki fjármálakerfisins meira en nokkru sinni fyrr, heilbrigðiskerfið er í molum, möguleikar fólks til menntunar hafa verið skertir, aldrei hafa fleiri búið við langtímaatvinnuleysi, bið hefur verið á fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu. Ekki dettur mér í hug að segja að ekkert hafi verið gert, en árangurinn er minni en fyrirheitin gáfu til kynna.
Ef Ísland væri fyrirtæki á markaði, þá hefðu hlutabréf þess fallið allskarpt á undanförnum árum. Raunar má velta fyrir sér hvort búið væri að fara fram á gjaldþrotaskipti, því fyrirtækinu Íslandi hefur gengið frekar illa að standa við skuldbindingar sínar. Hvort heldur gagnvart viðskiptavinum sínum, þ.e. þjóðinni, eða lánadrottnum.
Ef Ísland væri fyrirtæki, væri fyrir löngu búið að kalla til lærða sérfræðinga til að endurskipuleggja reksturinn. Búið væri að fara í stefnumótunarvinnu, endurgerð verkferla, greiningu á tekjustreymi, leggja pening í vöruþróun og endurskoða öll útgjöld. Málið er bara, að Ísland er ekki fyrirtæki og því er ekki búið að gera neitt af þessu. (Eða í mjög takmörkuðu mæli.)
Hver er stefna Íslands í menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum eða náttúruvernd? Hver utanríkisstefna Íslands, stefna í þróunarmálum, mannúðarmálum eða málefnum innflytjenda? Hvernig atvinnulíf viljum við hafa, hvað má kosta að örva atvinnulífið? Hvernig viljum við nýta auðlindir þjóðarinnar? Hvernig fáum við sem mest út úr auðlindum þjóðarinnar? Vissulega er hægt að lesa eitt og annað út úr stefnulýsingu ríkisstjórna hverju sinni, en málið er að fæstar ríkisstjórnir ná að fylgja slíkum skjölum. Og fljótt skipast veður í loft á pólitískum vettvangi.
Hluthafar fyrirtækisins Íslands kusu vorið 2013 nýja stjórn vegna fyrirheita um breytingar. Það sem við höfum hins vegar séð lofar enn ekki nógu góðu. Sama fátið og skipulagsleysið blasir við og áður. Stjórnarformanninum gengur illa að skilja ábendingar sem til hans er beint og áttar sig alls ekki á þeim tækifærum sem felast í gagnrýni á störf hans og annarri í stjórninni. Væri Ísland fyrirtæki, þá myndu menn skilja að kvartanir og gagnrýni er besta uppspretta hugmynda fyrir endurbótavinnu sem hægt er að hugsa sér.
Ég held að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verði að fara að líta á störf sín sem einmitt stjórnarstörf fyrir fyrirtækið Ísland. Fyrirtæki, sem varð fyrir áfalli, og nú þurfum við samhentan hóp allra til ljúka endurreisninni. Góða, hæfa leiðtoga til að leiða starfið, fjölbreyttan hóp í hugmyndavinnuna. Móta þarf skýra stefnu til framtíðar, stefnu sem þjóðin velur, en síðan verður það ríkisstjórnar, þings og embættismanna að framfylgja stefnunni. Þetta þýðir að stefna getur ekki verið til nokkurra ára, heldur langs tíma. Stefnan má ekki markast af stjórnmálaskoðunum, heldur á hún að vera skilgreining á því Íslandi sem við viljum hafa til framtíðar. Hver ríkisstjórn hefur síðan svigrúm til að ákveða leiðir til að fylgja stefnunni, en hún má því aðeins víkja frá markmiðum hennar að um það sé víðtæk sátt og ný markmið hafi verið skilgreind og samþykkt.
Svona stefna gæti haft svipað vægi og stjórnarskráin. Ég tel hana þó ekki eiga að vera hluti af stjórnarskránni. Stjórnarskráin er grunnlög samfélagsins og henni á aðeins að breyta í undantekningartilfellum. Stefnuskrá Íslands verður hins vegar að taka reglulegum breytingum, því þannig og aðeins þannig verður fyrirtækið Ísland samkeppnishæft, eftirsóknarvert til búsetu og skilar eigendum sínum þeim ávinningi sem nauðsynlegur er til frekari uppbyggingar.
Ég ætla ekki að leggja aðrar línur hér um hver þessi stefna ætti að vera en að segja að ég tel æskilegt að tekið sé mið af norræna velferðarlíkaninu, eins og það hefur verið útfært í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Ekki eru allar þjóðirnar með nákvæmlega sömu útfærslu, en áherslurnar eru mjög líkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði