Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Undanfari hrunsins

17. september voru 6 ár frá falli Lehman Brothers.  Sumir fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, Glitnis og  Landsbanka Íslands hafa kennt falli Lehman Brothers um hrunið á Íslandi.  Ég held hins vegar að engum öðru dettur í hug að líta til útlanda eftir höfuðástæðu falls íslensku bankanna.

Fyrir þá sem eru búnir að gleyma, eru mögulega búnir að gleyma, enda langt um liðið (eða þannig), þá langar mig að rifja upp nokkra hluti sem koma fram á einhverjum af þeim 1400 blaðsíðum sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis varð að lokum í prentuðu formi.  Mín skoðun hefur alltaf verið, að megin sökin á hruninu liggi hjá vanhæfum stjórnendum og eigendum bankanna.  Einstaklingum sem héldu að rekstur banka snerist um að vera "snilli", taka áhættu, leika sér með fé annarra, blekkja, svindla, sniðganga lög, segja rangt frá, fegra bókhald og víkja sér undan ábyrgð.  (Bætið við ef ég hef gleymt einhverju.)  Ýmsar ástæður liggja hjá öðrum, en endanleg ábyrgð á rekstri bankanna og falli þeirra liggur hjá hópi innan við 30 einstaklinga.

Tökum þetta lið fyrir lið:

"Snillarnir": Ja, þeir voru svo miklir snillingar að á fimm árum byggðu þeir upp banka sem óx þeim upp yfir höfuð og féll með braki og brestum.  Á þessum tíma tókst þeim að einkavæða hagnað þessara banka og þjóðnýta tapið.  Bakreikningurinn sem almenningur fékk er ekki undir 1.500 milljörðum króna.  Hagnaðurinn sem þeim tókst að koma undan var óhugnanlegur, þó enginn viti það með vissu.

Áhætta:  Allir æðstu menn bankanna hafa viðurkennt að bankarnir hafi verið áhættusæknir, en það sem meira var, að þeir voru nánast gjörsamlega fyrirhyggjulausir. Ég ætla að gefa Kaupþingi og Glitni prik fyrir að hafa innlánssöfnun sína í erlendum dótturfélögum og Landsbankanum fyrir að hafa farið að stað með innlánssöfnunina í Englandi.  En þar með eru upptalin þau atriði sem ég get talið til fyrirhyggju.  Landsbankamenn vissu hins vegar ekki hvenær átti að hætta og það vegur margfalt á mínushliðina. Allir bankarnir tóku fordæmalausa og glæpsamlega áhættu í útlánum til eignalausra eignarhaldsfélaga, flestra í eigu stærstu eigenda bankanna (þó mörg hafi ekki haft neinn skilgreindan eiganda eða nánast áttu sig sjálf).  Sama hvert er litið, allt gekk út á að taka óafsakanlega áhættu, eins og einstaklingur sem setur allt undir á einn lit í rúllettu.  Stundum unnu þeir, en ansi oft fór illa.  Þegar illa fór, þá var lagt tvöfalt undir næst, í staðinn fyrir að taka nokkur skref til baka.  Útlán bankanna til eignarlausra (og að því virtist, eigendalausra) eignarhaldsfélaga er náttúrulega kapiltuli útaf fyrir sig, þar sem peningum var dælt út, eins og enginn væri morgundagurinn, til fjárfestinga í gegn um svo kölluð SPV án þess að nokkru staðar kæmi fram hver ætti félagið, að það ætti einhverjar aðrar eignir, stæðist áhættumat (sem var víst lagaskylda) eða bara einhverjar líkur væru á að stæði undir greiðslu lánanna.  Stór hluti útlána var kúlulán með einum gjalddaga í framtíðinni og ekki einu sinni vaxtagreiðslu á lánstímanum.  Lán sem ekki var vitað hvort nokkru sinni yrðu greidd og oftar en ekki framlengd með öðru kúluláni.  Af hverju menn höfðu fyrir því að færa þessar gjafir inn í bækur sem lán, skil ég ekki.  Þetta voru jú ekkert annað en gjafir.

Leika sér með fé annarra:  Landsbankamenn fá náttúrulega 10 í einkunn fyrir þennan þátt.  Þegar lánsfjármarkaðir lokuðust á bankann, þá var keyrt á fullt að safna innlánum ábyrgð Íslendinga.  Þeir margfölduðu innlán sín í Bretlandi og létu ekki þar við sitja, heldur hófu innlán í Hollandi vorið 2008.  Þá máttu þeir vita að mikla líkur voru á falli bankans.  Svo má ekki gleyma skuldabréf sem gefin voru út um allan heim.  Eigendur þeirra sitja uppi með gríðarlegt tap, sem þeir aldrei bætt.  Mér finnst ótrúlegt, að þessi aðilar hafi ekki dregið stjórnendur bankanna fyrir dómstóla, en það er þeirra mál.

Blekkingar:  Listinn yfir blekkingarnar er ansi langur í skýrslu RNA.  Ég veit eiginlega ekki hvar á að byrja.  Seðlabanki Íslands var blekktur með útgáfu "ástarbréfa" sem bankarnir "keyptu" hver af öðrum og lögðu sem tryggingar.  Auðvitað átti SÍ ekki að falla fyrir þessu, en hann gerði það og það rannsóknarefni út af fyrir sig.  Seðlabanki Evrópu var blekktur með sama trixi og einnig Seðlabanki Lúxemborgar.  Ársreikningar bankanna greindu rangt frá stórum áhættum, tengslum stórra lántaka, eiginfjárstöðu (vegna lána við kaup á hlutabréfum í bönkunum), krosseignatengslum, vanskilum og ekki var gerð grein fyrir líklegum greiðslum kúlulána, þó flest benti til þess að engin greiðslugeta var bak við þau.

Svindl:  Miðað við skýrslu RNA, þá reyndu menn allt til að svindla á kerfinu.  Hef ég áður bent á nokkur af þeim atriðum.  "Ástarbréfin" voru ein svæsnasta aðferðin til þess.  Kaupþing gaf út veðlaus skuldabréf og "seldi" Landsbanka og Glitni.  Landsbanki gaf út veðlaus skuldabréf og "seldi" Kaupþingi og Glitni.  Glitnir gaf út veðlaus skuldabréf og "seldi" Kaupþingi og Landsbanka.  Þegar þetta var stoppað, þá "keypti" Icebank bréfin og notaði í viðskiptum við Seðlabankann, Landsbankinn í Luxemborg "keypti" bréfin og notaði í viðskiptum við Seðlabankann í Luxemborg og bankarnir notuðu "ástarbréf" hvers annars í viðskiptum við Seðlabanka Evrópu.  Menn misnotuðu illilega traust á milli fjármálastofnana, burtu óskrifaðar reglur, fóru á svig við lög, vegna þess að þeir gerðu ekki það eina rétta, sem var að ganga að veðum sem eigendur þeirra höfðu sett fyrir úttektum úr sparibaukunum sínum.

Lagasniðganga:  Íslensk lög um fjármálamarkað voru/eru holótt eins og svissnesku ostur.  Þetta hafa fjármálafyrirtæki nýtt sér út í ystu æsar.  Menn drógu lögin sundur og saman, vefengdu allt sem í þeim stóð, komu með frjálslegar túlkanir, sendu hersveitir lögfræðinga á eftirlitsaðila og svona mætti lengi telja.  Allt í þeim tilgangi að getafarið sínu fram.  Ég skil t.d. ekki hvernig tveir menn, sem eiga saman 48,5% hlut í Landsbanka Íslands hf. geta talist óskyldir aðilar.  Látum vera að þeir séu feðgar og eru því blóðskyldir.  Eða að með því að færa Haga út úr Baugi inn í 1998 ehf. sem síðan er fært undir Gaum, sem á Baug, þá verði Hagar og Baugur óskyld félög.  Mér er alveg sama þó túlka hafi mátt íslensk lög, þannig að svona leikfimiæfing hafi þýtt að félögin voru óskyld, þá var aðgerðin sem slík lagasniðganga og ekki bara lagasniðganga, heldur var verið að svindla á kröfuhöfum Baugs.  Tilgangurinn með ákvæðinu um stórar áhættur var að koma í veg fyrir að of stór hluti útlána banka færi í sömu körfuna, sömu stóru körfuna.  

Annað stórt atriði í lagasniðgöngu var að "selja" eigin bréf til leppfélaga, sbr. Stím.  Þetta er ólögleg leið til að komast framhjá takmörkun á stærð eignarhlutar sem fyrirtæki má eiga í sjálfu sér.

Segja rangt frá: Ekki þarf að fletta mörgum blaðagreinum frá því 2006-8 til að sjá, að stjórnendur bankanna áttu einstaklega erfitt með að segja sannleikann.  Þeir voru svo sem ekki einir um það og féllu nánast allir stjórnmálamenn þjóðarinnar í þá gryfju og seðlabankastjórar.

Fegra bókhald:  Allar slitastjórnir hafa fengið endurskoðunarfyrirtæki til að fara yfir ársreikninga hrunbankanna aftur í tímann.  Í þessum skýrslum um ársreikningana gefur að líta alvarlegar ávirðingar um fölsun bókhalds.  Gengur svo langt að einum af endurskoðendum bankanna þriggja var stefnt til að greiða 100 milljarða í skaðabætur vegna rangs uppgjörs.

Ekki þarf nema brot af þessum atriðum að sannast, til að hægt væri að stefna stjórnendum og þar með stjórnarmönnum hrunbankanna fyrir alvarleg glöp í starfi.  Það sem ég furða mig mest á, að ekki hafi verið kært fyrir fleiri atriði, en reyndin er.  Það getur ekki verið, að löglegt sé að blekkja þrjá seðlabanka með þeim hætti sem gert var.  Í mínum huga var hér ekkert um neitt annað en fjársvik að ræða.  Niðurstaðan var mörg hundruð milljarðar fengust að láni, sem aldrei hefði átt að veita að láni og seðlabankarnir þrír töpuðu háum upphæðum.  Nei, menn eru svottan aumingjar, að þeir láta þetta gott heita, því málsókn myndi að sjálfsögðu afhjúpa fúskið hjá þessum seðlabönkum við lánveitinguna.

Lokaorð

Það getur vel verið að fall Lehman Brothers hafi verið síðasti naglinn í líkkistu Kaupþings, Glitnis og Landsbanka Íslands, en höfum í huga að áður voru bankarnir sjálfir búnir að negla alla hina.  Skýrsla RNA opinberar vanhæfni stjórnenda bankanna þriggja til að vera í sínum störfum, græðgina sem reið þar húsum, spillinguna sem viðgekkst þegar stórir eigendur litu á bankana sem sína prívat sparibauka, blekkinguna sem viðhöfð var til að fela vonda stöðu og lögbrotin sem framin voru þegar menn reyndu að bjarga andlitinu.

Það versta við uppgjörið á hruninu er að það hefur ekki átt sér stað.  Í Bandaríkjunum eru bankar sektaðir um háar fjárhæðir.  Á Íslandi borgar launafólk fyrir tjónið.  Á Íslandi er húsnæðið tekið af fólki, þrátt fyrir að bankarnir hafi brotið lög.  Á Íslandi er kröfurétturinn hærri neytendarétti.  Ísland er eina landið í heiminum, þar sem neytendur verða að stefna fjármálafyrirtækjum til að ná fram réttlætinu.  Annars staðar eru það stjórnvöld sem taka af skarið.  Það er vegna þess, að á Íslandi eru stjórnvöld handbendi fjármálavaldsins og voga sér ekki að skerða hár á höfði þess.


Rafræn skilríki og öryggi snjallsíma

Einhvern veginn hefur það atvikast að ákveðið hefur verið að krefjast notkunar rafrænna skilríkja vegna leiðréttingar ríkisstjórnarinnar á verðtryggðum lánum heimilanna.  Mér finnst það svo sem ekki vitlaus hugmynd, enda kom ég að stofnun Auðkennis haustið 2000 sem ráðgjafi á undirbúningstíma og eftir að fyrirtækið var stofnað.

Kostir rafrænna skilríkja við auðkenningu eru miklir, en þau eiga sér líka takmarkanir.  Eins og öll önnur skilríki, þá er ekki öruggt að sá sem notar skilríkið sé sá sem hann segist vera.  Það eru bara meiri líkur á að svo sé en á við varðandi ýmsar aðrar aðferðir.

Lög 28/2001 um rafrænar undirskriftir

Um rafrænar undirskriftir voru sett lög nr. 28/2001. Valgerður Sverrisdóttir, þá verandi viðskiptaráðherra, hafði forgöngu um setningu þeirra laga.  Í lögunum er í 2. gr. ýmsar skilgreiningar á hugtökum.  Eitt þeirra er hugtakið "fullgild rafræn undirskrift".  Það er skilgreint á eftirfarandi hátt:

Fullgild rafræn undirskrift: Útfærð rafræn undirskrift sem er studd fullgildu vottorði og gerð með öruggum undirskriftarbúnaði.

Til að undirskrift sé fullgild, þá verður hún að uppfylla tvö skilyrði.  Annað er að hún sé studd fullgildu vottorði og hitt að hún sé framkvæmd með öruggum undirskriftarbúnaði.

Í IV. kafla laganna er fjallað um öruggan undirskriftarbúnað.  Kröfur til hans eru nokkuð stífar, þ.e.:

Öruggur undirskriftarbúnaður skal tryggja að undirskriftargögnin.

a. geti eingöngu komið einu sinni fram,

b. verði með hliðsjón af eðlilegum öryggiskröfum ekki brotin upp og

c. séu varin með fullnægjandi hætti gegn notkun annarra en undirritanda.

Eru snjallsímar öruggur undirskriftarbúnaður?

Nú hefur verið lagt til að fólk noti rafræn skilríki á SIM-kortum snjallsíma til að veita rafrænt samþykki sitt á ráðstöfun hárra fjárhæða.  Því er haldið fram að veflykill Ríkisskattstjóra eða svo nefndur Íslykill tryggi ekki ýmsa öryggisþætti, sem rafræn undirskrift gerð með notkun rafræns skilríkis veitir.  Um þetta hef ég tvennt að segja:

1. Rafræn skilríki þar sem notaður er öruggur undirritunarbúnaður eru besta aðferðin við auðkenningu, þar sem krafist er óhrekjanleika, rekjanleika, eins mikla fullvissu og hægt er að viðkomandi sé sá sem hann er án þess að viðkomandi sé viðstaddur í eigin persónu.  Notkun rafrænna skilríkja hefur því ótvíræða yfirburði fram yfir veflykil Ríkisskattstjóra og Íslykil, þegar notkunin er gerð með öruggum undirskriftarbúnaði.

2. Snjallsímar uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru til öruggs undirskriftarbúnaðar.  A.m.k. ekki eins og velflestir snjallsímar eru uppsettir.  Sími er í eðli sínu galopið tæki, sem allir geta sett sig í samband við.  Munurinn á snjallsíma og gamaldagssíma, jafnvel gamaldags farsíma, er að á eldri gerð síma, þá gerðist lítið sem ekkert nema handhafi símatækisins aðhafðist eitthvað líka.  Svo er ekki með snjallsíma.  Snjallsímar eru tölvur með mikla virkni án vitundar handhafa símtækisins.  Í snjallsíma eru stöðugt í gangi smáforrit (apps) sem eru hreinlega að njósna um ferðir og gerðir þess sem ber símann, skoða innihald skráa sem geymdar eru á símanum og óteljandi aðra hluti, sem ég er ekki viss um að fólk kæri sig um að vita af.  Fæstir snjallsímar eru búnir dulkóðun, vírusvörn eða eldveggjum sem gera þá galopna fyrir hnýsni hvers sem dettur í hug að tengjast símanum í gegn um hnýsniforrit.  Nýlega birtist frétt um gervifarsímasenda á víð og dreif í Bandaríkjunum og er giskað á að þessir sendar séu notaðir til að fylgjast með notkun farsíma og ferðum  handhafa þeirra.  Fram kom í fréttinni, að þetta hafi uppgötvast eftir að á markað komu snjallsímar sem vöruðu við ef símarnir væru skannaðir. 

Snjallsímar vs tölvur

Mikill munur er á notkun rafrænna skilríkja á einmenningstölvu og snjallsíma.  Tölvan myndi í flestum tilfellum teljast öruggur undirskriftarbúnaður, meðan snjallsíminn uppfyllir þau skilyrði sjaldnast.  Vissulega eru til tölvur sem ekki eru öruggur undirskriftarbúnaður og á sama hátt eru til snjallsímar sem eru öruggur undirskriftarbúnaður.  Einn megin munurinn á tölvu, þó hún væri ekki öruggur undirskriftarbúnaður og snjallsíma sem slíkt á við, er að snjallsímann er stöðugt verið að skanna meðan það á ekki við um tölvuna.  Hver einasti farsímasendir á svæði, þar sem snjallsíminn fer um, hann skannar símann.  Hann skannar ekki innihald hans, en á í samskiptum við símann.  Þessu til viðbótar, þá eru margir símar með opið þráðlaust nettengi (wi-fi) eða Blue-tooth tengi.  Ekki þarf því mikið að gerast til þess, að óprúttnir aðilar geti dreift óværum til stórs hóps snjallsímanotenda.

Þá kemur að öðrum mun á notkun rafrænna skilríkja í snjallsímum og tölvum.  Rafræna skilríkið er geymt á SIM-korti snjallsímans, en á kort sem sérstaklega er tengt við tölvuna fyrir notkun.  Óværa á snjallsíma hefði því aðgang að skilríkinu (væri það tilgangur hennar) á meðan síminn er í notkun.  Hún gæti fylgst með notkun skilríkisins og þess vegna hermt eftir henni.  Rafræna skilríkið á tölvunni er hins vegar bara tengt í stutta stund í einu (miðað við að það sé á örgjörva greiðslukorts).  Eftir það er það tekið úr sambandi og því getur óværa á tölvunni ekki notað sér það.

Aðrar aðferðir við undirritun

Ég get alveg tekið undir það að veflykill Ríkisskattstjóri eða Íslykillinn eru ekki öruggustu aðferðirnar við að auðkenna rafrænt einstakling.  Ég sé hins vegar ekki að þessar aðferðir séu neitt veikari, en að nota rafræn skilríki á snjallsíma.  Auðvelt væri að bæta inn viðbótar staðfestingarlið, svo sem að senda kóta í sms-skeyti, í tölvupósti eða í vefbanka viðkomandi.  Vissulega mætti líka gera það til að auka á öryggi rafrænna skilríkja í snjallsímum.  Með slíkri viðbót myndi ég leggja að jöfnu að nota rafræn skilríki í gegn um snjallsíma og að nota veflykil skattastjóra eða Íslykilinn.

Rafræn skilríki framtíðin

Svo ekkert fari á milli mála, þá tel ég rafræn skilríki framtíðaraðferð til þess að efla rafræna stjórnsýslu.  Kostir þeirra eru ótvíræðir fyrir þá sem vilja einfalda og auðvelda samskipti.  Ég er líka sannfærður um, að í framtíðinni munu snjallsímar upp til hópa uppfylla kröfur til öruggs undirskriftarbúnaðar.  Sá tími er ekki kominn nema fyrir brotabrot af snjallsímum sem eru í notkun.  Eða ætti ég að segja fyrir nema brotabrot af snjallsímaeigendum.  Ég held nefnilega að mun fleiri snjallsímar hafa möguleika á stillingum og uppsetningu búnaðar, sem gerðu þá að öruggum undirskriftarbúnaði, en þeir sem nýta þessa eiginleika.

Já, ég er paranoid þegar kemur að öryggismálum

Bara svona í lokinn.  Mér myndi ALDREI detta í hug að nota snjallsíma til að framkvæma millifærslur á bankareikningi.  Ég nota snjallsímann minn yfirhöfuð ALDREI til að opna vefbankaaðgang.  Ég efast ekki um að þetta er ofsalega handhægt, en líka stórvarasamt.  Ég er  öryggissérfræðingur og mér er borgað fyrir að vera paranoid þegar kemur að öryggismálum, svo þið hin getið verið aðeins öruggari í því sem þið gerið í hinum nettengda heimi fjarskiptanna.

Viðbót:

Mér finnst það umhugsunarvert og mögulega varhugavert, að stefna eigi 69.000 einstaklingum út í það að nota rafrænar undirskriftir vegna leiðréttingu lánanna.  Ástæðan er einföld:

Er komið tryggt dómafordæmi fyrir því að slík undirskrift sé tekin gild?  Nú verð ég að lýsa yfir vanþekkingu minni hvað þetta varðar.  Ég tel því nauðsynlegt að fá úr því skorið að slíkt dómafórdæmi sé fyrir hendi.  Sé það ekki til staðar, þá getur það haf alvarlegar afleiðingar, ef Hæstiréttur kæmist að því að einhverjir annmarkar séu á framkvæmdinni.


Það sem ekki er sagt við lántöku

Frá því álit EFTA-dómstólsins kom fimmtudaginn 28. ágúst, hefur loksins komist af stað alvöru umræða um blekkinguna og ruglið sem er samfara verðtryggðum húsnæðislánum.  Ég hef svo sem reynt að gaspra um þetta mál í nokkur ár.  Hef mætt á fund þingnefndar, þar sem verðtryggingin var til umræðu, flutti erindi um álit meirihluta verðtryggingarnefndar sem Alþingi setti á fót 2010, fjallað um áhrif verðtryggingarinnar á opnum borgarafundi í Háskólabíói, flutt erindi hjá Rótarý-klúbbum, Lions-klúbbum, nokkrum félögum Sjálfstæðismanna, Reykjavíkurfélagi VG og loks á miðstjórnarfundi Framsóknar, fyrir utan nokkurn slatta af bloggfærslum. 

Sagt er að dropinn holi steininn og segja má að steininn sé farinn að leka illilega.  Fyrst voru sett ný neytendalánalög, þar sem gerð er skýrari krafa en áður um framsetningu greiðsluáætlunar.  Næst vaknaði Neytendastofa af værum blundi og úrskurðaði að greiðsluáætlun Íslandsbanka uppfyllti ekki skilyrði.  Síðan komu umsagnir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og framkvæmdastjórnar ESB um spurningarnar sem vísað var til EFTA-dómstólsins.  Og á fimmtudaginn skilaði EFTA-dómstóllinn af sér áliti byggt á tilskipun 93/13/EBE.  Niðurstaða mín er einföld:  Kerfið er hrunið!

Verðtrygging er í eðli sínu óréttmætur skilmáli

Í 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE segir:

1. Samningsskilmáli sem hefur ekki verið samið um sérstaklega telst óréttmætur ef hann, þrátt fyrir skilyrðið um „góða trú“, veldur umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns.

Spurningin, sem við þurfum að velta fyrir okkur, er einföld:  Er eða getur verðtrygging verið ósanngjarn/óréttmætur samningsskilmáli?

Þegar meta á hvort skilmáli er óréttmætur, þá þarf að skoða hvernig hann virkar.  Verðtryggingin er lúmskur andskoti.  Hún virkar þannig, að á meðan verðbólga er yfir 2,5% fyrir 40 ára lán, þá hækka eftirstöðvar lánsins við hverja afborgun þar til langt er liðið á lánstímann.  Ef miðað er við fasta 2,5% verðbólgu, þá ná eftirstöðvarnar hæsta punkti eftir 289 mánuðina og fara ekki undir upprunalega lánsfjárhæð fyrr en við greiðslu númer 440, þ.e. þegar nærri því 92% af lánstímanum er að baki.  Miðað við 10 m.kr. lán í upphafi og 5,1% vexti (sem algengir voru á 10. áratugnum) og 2,5% verðbólgu fyrir þá mánuði sem verðbólga er ekki þekkt fyrir, væri búið að greiða 68,7 m.kr. áður en byrjað er að greiða upprunalegan höfuðstól lánsins niður!!!  Þar sem mjög sjaldgæft er, að lántakar greiði af 40 ára láni allan lánstímann, þá er líklegast að upprunalegi lántakinn greiði aldrei neitt af upprunalega höfuðstól lánsins.  Hann er alltaf bara að greiða vexti af upprunalega höfuðstólnum, uppsafnaðar verðbætur af höfuðstólnum og viðbættum verðbótum (þ.e. verðbætur á verðbætur á verðbætur á verðbætur...) og vexti af þessum verðbótum.

Mynd 1 sýnir þróun 10 m.kr. 40 ára láns sem tekið var í júní 1988 og greitt hefur verið af í samræmi við ákvæði skuldabréfs allan tímann.  Verðbólgutölur eru raunverulegar frá lántökudegi og fram til síðasta gjalddaga í ágúst 2014.  Eftir síðustu gjalddagagreiðslu voru eftirstöðvar lánsins 24,6 m.kr. þrátt fyrir að þegar væri búið að greiða 36,6 m.kr.!  (Vinstri ás sýnir upphæð eftirstöðva, en sá hægri upphæð afborgunar og vaxta.)

Spyrja má sig hvort það teljist réttmætur skilmáli, þegar það tekur lántaka um 2/3 lánstímans að komast á þann punkt að eftirstöðvar lánsins fara að lækka.  Hvað þá að 92% lánstímans líði áður en eftirstöðvar eru komnar niður fyrir lánsfjárhæðina.

Í mínum huga eru verðtryggð lán ekkert annað en svikamylla, en hér er spurningin hvort verðtryggingarákvæði lánanna geti talist óréttmætur skilmáli.  Til þess að svara því, þarf að bera saman virkni breytilegra vaxta og verðtryggingar.  Munurinn er mjög einfaldur.  Verðtrygging bætir sjálfkrafa kostnaði á lántaka án þess að hann geti neitt varið sig.  Lánin eru þannig, að lántaki er fastur með ákveðna, óumbreytanlega skilmála og þegar óstöðugleiki gerir vart við sig, þá leggst kostnaðurinn af óstöðugleikanum, þ.e. hækkun viðmiðunarvísitölunnar, sjálfkrafa á eftirstöðvar lánsins.  Þegar vextir eru breytilegir, þá breytast þeir eftir á og samkvæmt neytendalánatilskipun ESB, þá ber að tilkynna lántökum um slíka hækkun og gefa þeim færi á að endurfjármagna lán sem verða fyrir áhrifum á vaxtabreytingum.  Það er því mun flóknari aðgerð fyrir lánveitanda, að skila hækkun breytilegra vaxta inn í lánskostnað, en hækkun sem verður vegna verðtryggingar.  Þegar vextir eru breytilegir bera því báðir samningsaðilar áhættu af óstöðugleika, en bara annar þegar verðtrygging er annars vegar.  Það er því mitt mat, að verðtrygging sé óréttmætur skilmáli í óstöðugleika, en á tímum stöðugleika, þá sé hún ekki óréttmæt.  Og þá kemur að áliti EFTA-dómstólsins:

87 Meginreglur um mat á því hvort tiltekinn samningsskilmáli teljist óréttmætur er að finna í 3., 4. og 5. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt tilskipuninni telst samningsskilmáli óréttmætur ef ekki hefur verið samið sérstaklega um hann og skilmálinn veldur þrátt fyrir skilyrðið um ,,góða trú“, umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns.

Að lántaki, sem tók 10 m.kr. lán árið 1988, skuli þurfa að greiða 68,7 m.kr. áður en hann byrjar að greiða niður lánið sjálft, ber vott um mikið ójafnvægi milli samningsaðila.  Hefði þetta lán verið með 10% föstum, óverðtryggðum vöxtum, þá hefði heildarlántökukostnaður orðið 40,8 m.kr.  Heildarkostnaður verðtryggða lánsins miðað við 2,5% verðbólgu fyrir þann tíma sem verðbólga er ekki þekkt, er aftur 77,4 m.kr.  Í mínum huga er verðtryggingin neytandanum nánast alltaf til tjóns og þess vegna verður hún að teljast óréttmætur skilmáli í skilningi 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE.

40_ara_ver_tryggt_lan_-_raunthroun_1244992.jpg

 

Greiðsluáætlun fegrar myndina og uppfyllir ekki kröfur tilskipunar ESB

Myndin að ofan er hins vegar ekki sú sem dregin er upp við lántöku.  Hún lítur allt öðruvísi út.  Samkvæmt henni ættu eftirstöðvar lánsins eftir ágúst gjalddagann að vera 5,8 m.kr. eða 18,8 m.kr. lægri og uppsafnaðar greiðslur 5,8 m.kr.  Mismunur upp á 30,8 m.kr.  Greiðsluáætlunin er því blekking.  Hún er ekki einu sinni glansmynd.  Hún er hrein lygi.

Mynd 2 sýnir sama lán, en núna er búið að bæta við greiðslum samkvæmt greiðsluáætlun, eins og hún hefði birst lántaka árið 1988, ef gerð hefði verið greiðsluáætlun miðað við 0% verðbólgu.

40_ara_ver_tryggt_lan_-_raunthroun_mv_grei_sluaaetlun.jpg Brúna lína og sú lillabláa sýna báðar þróun eftirstöðva, græna og ljós bláa sýna þróun afborgana og síðustu tvær sýna þróun vaxta.  (Línur sem sýna sama hlut byrja í sama punkti.) Ásarnir skiptast eins og á mynd 1 með eftirstöðvarnar vinstra megin og afborganir og vexti hægra megin.

Ljóst er af mynd 2, að greiðsluáætlun er ekki marktæk.  Hún gerir ekki tilraun til að spá fyrir um þróun afborgana, enda gæti þetta alveg eins verið óverðtryggt jafngreiðslulán, eins og verðtryggt jafngreiðslulán.

EFTA-dómstóllinn sagði aftur í svari við spurningu nr. 3:

124 Hvað spurninguna sjálfa varðar verður í fyrsta lagi að hafa í huga að það eitt að tekið sé fram í skuldabréfinu að skuldbindingin sé verðtryggð og tilgreint sé við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast þýðir ekki að telja þurfi samningsskilmála sérstaklega umsaminn. Í öðru lagi verður með sama hætti að leggja mat á þýðingu þess að skuldabréfinu hafi fylgt yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins. Tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins. Í þriðja lagi getur það ekki breytt því mati sem verður að fara fram samkvæmt 2. mgr. 3. gr. að báðir aðilar hafi undirritað greiðsluyfirlitið. Nánar tiltekið er efni greiðsluáætlunarinnar ekki umsemjanlegt þar sem hún byggir á spá um væntanlegar afborganir samkvæmt skuldabréfinu sem ræðst af mánaðarlegum útreikningi vísitölu neysluverðs. (Feitletrun höfundar)

Dómstóllinn fylgir þessu með greiðsluáætlunina eftir í svari við 4. spurningu:

Þegar afborganir láns eru verðtryggðar má, eðli málsins samkvæmt, finna spá um væntanlegar afborganir í greiðsluáætlun. Slík spá getur aðeins í undantekningartilvikum og fyrir tilviljun samsvarað hinum raunverulegu afborgunum sem krafist er.

Þarna ítrekar dómstóllinn að greiðsluáætlun með verðtryggðu láni eigi að fela í sér spá um væntanlegar afborganir.  Alveg er ljóst að greiðsluáætlun sem miðar við 0% verðbólgu inniheldur ekki spá.  Hún inniheldur flótta frá því að gera hlutina rétt.

Nú á EFTA-dómstóllinn eftir að svara því hvort krefja megi lántaka um greiðslur umfram það sem nefnt er í greiðsluáætlun.  Hann er hins vegar búinn að segja að greiðsluáætlun verðtryggðs láns eigi að innihalda spá um væntanlegar afborganir.  Hann er ekki búinn að segja hvort spá upp á 0% verðbólgu sé fullnægjandi, en það er Neytendastofa búin að gera og það er Alþingi búið að gera með nýjum neytendalánalögum.  Svarið er, að það er ekki fullnægjandi.  Mitt mat er að eina rökrétta ályktunin af tilvitnuðum texta að ofan, sé að EFTA-dómstóllinn muni taka undir með Neytendastofu. 

Þá er næsta spurning: Hvað verður um þegar greiddar og álagðar verðbætur?  Ljóst er að úrlausn þess mun enda hjá íslenskum dómstólum.  Síðast þegar svona atriði kom til Hæstaréttar til úrlausnar, þá tók rétturinn mjög eindregna afstöðu með fjármálafyrirtækjunum.  Hann hreinlega bætti þeim upp að gengistryggingin var dæmd ólögmæt með því að setja okurvexti á lán fleiri ár aftur í tímann.  Því má alveg eins búast við, að Hæstiréttur endurtaki þann óskunda og refsi lántökum fyrir að fjármálafyrirtæki geti ekki farið að lögum.  Við getum því átt von á, að allt að 21% vextir komi í staðinn fyrir verðbætur og verðtryggða vexti.  Að mínu mati væri slík niðurstaða algjörlega á skjön við neytendavernd, en hún var hvort eð er jörðuð 16. september, 2010, með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.  Þó tekist hafi með mikilli vinnu og fyrirhöfn að leiðrétta stærstu vitleysuna, þá sitja lántaka ennþá uppi með tugi milljarða sem afleiðingu af þessum dómi.  Og til framtíðar má búast við að á þá leggist nokkur hundruð milljarðar.  Sést það bara á því að vextir óverðtryggðra húsnæðislána eru núna ríflega 5% yfir verðbólgu meðan sambærileg lán í nágrannalöndum okkar bera vexti sem eru 0,5-1,0% ofan á verðbólgustig.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband