Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Einmitt, sendum börnunum reikninginn

Ýmsir aðilar hafa setið í næstum fjögur ár, að því segir í frétt á ruv.is, við að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að samræma lífeyrissjóðakerfið.  Ég veit ekki alveg hvað menn sjá svona aðdáunarvert við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, en það er annað mál.  Eftir fjögurra ára vinnu, þá eru menn búnir að komast því að hugmyndir sem birtar voru í skýrslu gefinni út af Samtökum atvinnulífsins fyrir 7 árum eru bara það besta sem til er.  Nú þær hugmyndir komu frá ASÍ í undirbúningsvinnu vegna kjarasamninga einhverjum árum áður.

Gott. Menn eru sammála um að næstum því áratugar gamlar hugmyndir séu svo afbragðs góðar að þeim eigi að hrinda í framkvæmd.  En þessar hugmyndir urðu til löngu fyrir hrun og eiga ekki við í dag.

1.  Þegar hugmyndirnar urðu til, þá voru lífeyrissjóðirnir ekki þetta ógnarafl á fjármálamarkaði sem þeir eru í dag.

2.  Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var ekki stór hluti auðmanna landsins búinn að tapa peningunum sínum í rúllettuspili og missa verðmætar eignir til erlendra kröfuhafa.

3.  Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var ennþá opin leið fyrir lífeyrissjóði að fjárfesta erlendis.

4.  Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var gatið í lífeyrissjóðakerfinu ekki 700 milljarðar, heldur líklegast innan við 20% af þeirri upphæð.

5.  Þegar hugmyndirnar urðu til, þá voru eignir lífeyrissjóðanna líklegast innan við 1.000 ma.kr., en slaga í 3.000 milljarða núna (2.505 ma.kr. nákvæmlega).  (Eignir lífeyrissjóðanna fóru fyrst yfir 1.000 ma.kr. í janúar 2005.)

6.  Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var ágætlega öflugur hlutabréfa- og verðbréfamarkaður (sem að vísu var nánast ein froða).

Margt breytist á tæpum áratug og eru lífeyrissjóðirnir gott dæmi um það.

Ekki allt í steik

Ekki er endilega allt í steik í lífeyrissjóðakerfinu.  Nokkrir sjóðir eru í þokkalegri stöðu og jafnvel með jákvæða tryggingafræðilega stöðu.  Þeim þarf ekki að bjarga og þeim þarf ekki einu sinni að breyta, svo ástandið haldist gott.  En þetta er spurningin um alla eða engan.  Ekki er hægt að leiðrétta stöðu skussanna nema hinir sem stóðu sig vel fylgi með.

Mig fýsir þó að vita eitt:

Stór hluti lífeyrissjóða landsins á í miklum erfiðleikum með að koma þeim peningum sem þeim er treyst fyrir í góða ávöxtun. Ekki að fjárfestingakostir séu endilega fáir, heldur vegna ástar þeirra á pappír.  Lífeyrissjóðir fjárfesta nefnilega nánast eingöngu í einhvers konar verðbréfum.  En nú er skortur á þessum pappírum og það hefur sett lífeyrissjóðina í vanda.  Hvers vegna halda menn að það leysi vanda lífeyrissjóðanna hækka framlögin sem í þá eiga að renna?  Ef lífeyrissjóður er í vanda með að fá góða ávöxtun af þeim 12 prósentum sem honum er treyst fyrir í dag, hvernig halda menn að sjóðnum gangi að fá góða ávöxtun af 15,5 prósentum?

Því miður sé ég það ekki alveg ganga upp.

Hverjir standa undir ávöxtun lífeyrissjóðanna?

Þegar upplýsingar um eignir lífeyrissjóðanna eru skoðaðar, þá kemur marg forvitnilegt í ljós.  Hafa skal í huga að um heildartölur er að ræða og endurspegla þær því ekki hlutföll hjá einstökum sjóðum.

Í lok maí voru hreinar eignir lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris 2.505 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum af vef Seðlabanka Íslands.  (Samkvæmt nýlegri skýrslu FME um stöðu lífeyrissjóðanna, þá er þetta 674 milljörðum minna en þyrfti að vera!)  Af þessum 2.505 ma.kr. eru 1.480 ma.kr. í verðbréfum með föstum vöxtum, þ.e. verðtryggðum bréfum.  Og þau skiptast sem hér segir:

Verðbréf með föstum tekjum1.479.947 
        Ríkissjóður Íslands298.02720,1%
        Bæjar- og sveitarfélög80.6905,5%
        Innlánsstofnanir22.3531,5%
        Ýmis lánafyrirtæki718.29248,5%
        Fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðir22.5001,5%
        Fyrirtæki155.71210,5%
        Einstaklingar (sjóðfélagalán)176.79711,9%
        Erlend skuldabréf 5.5770,4%

Alls er 85,9% verðtryggðra eigna lífeyrissjóðanna skuldir opinberra aðila eða sjóðfélaga.  Þetta eru jafnframt 50,75% heildareigna lífeyrissjóðanna í lok maí á þessu ári.  Sem sagt sjóðfélagarnir sjálfir eru að standa undir ávöxtun á ríflega helmingnum af eignum sjóðanna.  Þetta er bilun.  Til þess að ég geti fengið greiddan út lífeyri, þegar að því kemur, þá vilja menn fyrst að ég borgi og borgað sé fyrir mig 15,5% af laununum mínum, ríki og sveitarfélög noti einhver prósent af sköttunum mínum og síðan að ég noti 10% til viðbótar af tekjunum á hverju ári í einhverja áratugi í að borga af lánum sem fara í að ávaxta pund sjóðanna.  Með fullri virðingu, þetta er arfavitlaust!

Ég er ekki að segja að hugmyndin með lífeyrissjóðum sé vitlaus, heldur framkvæmdin.  Mér sýnist nefnilega, að hver einstaklingur sem á réttindi í lífeyrissjóðum borgi í dag andvirði hátt í 25% af launum sínum í að halda þessu kerfi gangandi.  25% af 500.000 kr. mánaðarlaunum er 125.000 kr. eða 1,5 m.kr. á ári eða 60 m.kr. á 40 ára starfsævi, ef 500.000 kr. eru meðalmánaðarlaun.  Gefum okkur nú að launin hafi byrjað í 200.000 kr. og endað í 800.000 kr. að tekist hefði að halda raunvirði hennar án vaxta í öll þessi ár, þá dugar hún fyrir 56% af lokalaunum í 11,1 ár.  Með 1% árlegri raunávöxtun dygði upphæði í 13,4 ár og í 16 ár ef ávöxtunin væri 2%.  (Tekið fram að sama útkoma kemur hvort sem launin fara úr 200 í 800 þúsund eða 100 í 400 þúsund, 150 í 600 þúsund, 200 til 800 var eingöngu notað vegna þess að tölurnar eru þægilegar til útreiknings.)

En á hinn bóginn, fyrst ég er á annað borð að borga einhverjum vexti af íbúðaláni, er þá ekki alveg eins gott að greiða sjálfum mér?  Þetta er spurning sem á alveg rétt á sér, en spurningin hvort ekki ætti að koma frekar á sparnaðarkerfi sem auðveldar fólki að eignast húsnæði og dregur úr skuldsetningu kaupa.  Með núverandi fyrirkomulag, þá sé ég stundum ekki muninn á því að lífeyrissjóðirnir hreinlega eigi húsnæðið og íbúinn greiði þeim hreinlega bara leigu.

Hvað skilaboð er verið að senda með fyrirhuguðum breytingum?

Ljóst hefur verið í mörg ár, að:

a) of lág iðgjöld,

b) of hár rekstrarkostnaður,

c) sveiflukennd ávöxtun,

d) lengri ævi,

e) hærri örorkutíðni,

f) breytt launamunstur og

g) verðbólguskot, (svo nokkur atriði séu nefnd)

hafa skekkt tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna.  Stundum hafa einstök atriði valdið jákvæðum sveiflum, en almennt eru áhrifin til hins verra.  Þetta hefur leitt til þess að í reynd var sjóðfélögum lofað meiri réttindum en ávöxtun inngreiddra iðgjalda hefur staðið undir.  Eðlilegast er við slíkar aðstæður að leiðrétta réttindi fólks í sjóðunum, en það á ekki að gera og hefur ekki verið gert í því mæli sem þyrfti.

Leiðin sem á að fara (og hefur að hluta verið farin), er að sópa mistökum fortíðarinnar undir teppi og láta iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar borga brúsann.  Nú hefur t.d. verið lagður 2% "iðgjaldaskattur" á alla sem greiða í almenna lífeyrissjóði.  Þegar iðgjöld voru hækkuð úr 10% í 12% jukust ekki réttindi inngreiðenda í samræmi við það.  Nei, þessi 2% viðbót er eingöngu hugsuð til að leiðrétta fortíðarskekkju.  Í þessu tilfelli eru atvinnurekendur látnir greiða viðbótarskatt nema hann rennur ekki til ríkissjóðs heldur lífeyrissjóðanna.  Til langs tíma, þá koma þessi auka 2% þeim sem þau greiða (eða er greitt fyrir) einnig til góða, en ekki fyrr en búið er að rétta af reikniskekkjuna.  Og enn er langt í það.  Raunar svo langt, að menn ætla að hækka þennan skatt upp í 5,5%.

Skilaboðin eru að iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar (og raunar alveg frá ársbyrjun 2005) eiga að fórna möguleika á launahækkunum upp á allt að 5,5% svo iðgjaldagreiðendur fortíðarinnar þurfi ekki að sætta sig við að þeir eigi ekki í reynd þann pening inni hjá lífeyrissjóðunum, sem þeim voru gefin fyrirheit um.

Gungur og frekjur

Allir sem komnir eru yfir ákveðinn aldur (sem er breytilegur eftir lífeyrissjóði) eiga minni réttindi inni hjá sjóðnum sínum, en þeim var lofað.  Öllu heldur að ávöxtun iðgjaldanna, sem greidd hafa verið  fyrir þeirra hönd inn í lífeyrissjóðina, er lægri en þörf var á til að standa undir þeim loforðum sem þeim voru gefin.  Þetta á við um mig eins og flesta sem eru á aldri við mig og þaðan af eldri.

Á þessum vanda eru nokkrar lausnir:

a) skerða réttindi,

b) leitast við að auka ávöxtun,

c) lækka rekstrarkostnað,

d) hækka lífeyrisaldur,

e) hækka iðgjöld,

f) skapa sjóðunum nýjan tekjustofn og

g) láta ríkissjóð hlaupa undir bagga.

Lausnirnar eru örugglega fleiri.

Mér sýnist nánast vera hægt að skipta þessum lausnum í þrjá flokka:  frekju- og gungulausnir, heiðvirðar lausnir og "að hugsa út fyrir kassann"-lausnir.

Heiðvirðu lausnirnar: 1) að láta réttindi hvers og eins endurspegla hvernig lífeyrissjóði viðkomandi hefur gengið að ávaxta pundið; 2) að hækka lífeyristökualdur; 3) lækka rekstrarkostnað með frekari sameiningu sjóða; 4) leitast við að auka ávöxtun sjóðanna.

Að hugsa út fyrir kassann:  1) leita nýrra leiða við að auka ávöxtun sjóðanna; 2) skapa sjóðunum nýja tekjustofna (láta hluta auðlindarentu renna til þeirra, nýsköpun, þáttataka í opinberum verkefnum, byggingu leiguhúsnæðis, o.s.frv.).

Frekju og gungulausnirnar:  1) hækka iðgjöld; 2) láta ríkissjóð hlaupa undir bagga.

Já, í mínum huga er það ótrúleg frekja af þeim sem greitt hafa of lítið í lífeyrissjóði til að eiga fyrir þeim réttindum, sem þeim var lofað, að ætlast til þess að iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar eða skattgreiðendur standi undir þeim halla sem er á sjóðunum.  Það er ekki einu sinni svo að um forsendubrest sé að ræða.  Menn ýmist kunnu ekki að reikna, voru ekki með réttar breytur í líkönunum sínum eða að þeim sem treyst var fyrir að ávaxta pund sjóðfélaga tókst ekki eins vel til og vonast hafði verið eftir.  Stundum var það einfaldlega vegna þess að ekki var úr miklu að moða.  Stundum var það vegna þess að mönnum sást ekki fyrir í ákafanum.

Heiðvirða leiðin

Heiðvirðasta leiðin af öllum væri sú sem ég hef ítrekað nefnt:

Loka öllum núverandi deildum lífeyrissjóðanna fyrir nýjum greiðendum.  Stofna nýja deild í hverjum einasta sjóði, sem nýir greiðendur greiða í.  Leyfa núverandi greiðendum að velja hvort þeir haldi áfram að greiða þangað sem þeir greiða núna eða í nýju deildina.  Hætta við að hækka iðgjöld og láta hækkun iðgjaldanna frekar renna beint til launþega í formi kauphækkunar.  (Hugsanlega þarf að stilla iðgjald eitthvað af svo nýja deildin standi tryggingafræðilega undir sér, en alls ekki má láta neinn hluta iðgjalda frá nýju deildinni renna til þeirrar gömlu.)

Fengnir væru færustu sérfræðingar til að aðstoða fjárfestingastjóra lífeyrissjóðanna til þess að laga sem frekast er hægt tryggingafræðilega stöðu gömlu deildanna og þeim yrði veittur forgangur umfram nýju deildirnar til fjárfestinga í ætluðum arðsömum verkefnum.  Þeir sem eiga réttindi í gömlu deildunum ættu bara þau réttindi sem þær, hver og ein, standa undir hverju sinni tryggingafræðilega, þannig að þýddi slíkt skerðingu réttinda til að byrja með yrði svo að vera, jafnframt gætu réttindi aukist, tækist vel til með að rétta tryggingafræðilega stöðu deildanna af.  Hugsa mætti mildandi aðgerðir fyrir þá sem þegar hafa hafið töku lífeyris eða jafnvel að þeim yrði sleppt við skerðingu, en að sama skapi nytu þeir þá ekki bættrar tryggingafræðilegrar stöðu fyrr en skerðing annarra hefur öll unnist til baka.

Fólki stæði til boða, eins og áður, að fresta töku lífeyris til að vinna upp þá skerðingu sem það hefur orðið fyrir, en ætti val.  Áfram væri haldið að hagræða í rekstri sjóðanna með sameiningu þeirra.

Ef stefnir í það, að gamla deildin nái ekki að rétta sig nægilega af eða hún verði fyrir nýjum áföllum, þá er mun eðlilegra að lagður sé sérstakur (vonandi) tímabundinn skattur á alla landsmenn sem renni til þess að leiðrétta tryggingafræðilega stöðu sjóðanna og þá bara þeirra sem þess þurfa. Bent hefur verið á, að nota mætti hluta auðlindagjalds í slíkum tilfellum.

Ég vona innilega að þeir sem vinna að endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins búi yfir þeim heiðarleika að ætla ekki börnunum sínum og barnabörnum að borga fyrir mistök okkar sem eldri erum.  Fátt er aumkunarlegra, en að sitja flotta veislu og ætla börnunum að hreinsa til á eftir.  Ég er meiri maður en svo, að ég ætlist til að börnin mín borgi fyrir mistökin sem gerð voru hjá lífeyrissjóðunum mínum.  Vona að fleiri séu sama sinnis.


Gengislán dæmd ólögmæt í Króatíu á grundvelli laga um neytendavernd!

Ég fékk í kvöld eftirfarandi tölvupóst frá Guðmundi Ásgeirssyni hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.  Ég tel mér vera skylt að koma efni hans á framfæri og birti ég hann hér orðréttan:

"Síðastliðinn fimmtudag féll dómur í Króatíu á grundvelli laga um neytendalán. Eftir því sem hægt er að komast næst að svo stöddu byggist hann á svipuðum forsendum og málatilbúnaður HH um neytendalán með óréttmæta skilmála og óuppgefinn lánskostnað. Málið sem um ræðir var svokölluð hópmálsókn og var höfðað gegn átta stórum bönkum á króatískum neytendalánamarkaði, en samtökin sem stóðu að málssókninni, Udruga Franak, eru sambærileg samtök við HH og hluti af tengslaneti okkar við "systursamtök" erlendis.

Lánin voru með þeim hætti að fjárhæð þeirra í króatískum *kuna* tók mið af gengi svissneska frankans (CHF). Niðurstaða dómsins felur í sér ógildingu gengisviðmiðs á þeirri forsendu að fjárhagsleg áhætta neytanda við lántöku hafi ekki komið fram með nógu skýrum hætti í samningi, og ekki kemur fram að tekist hafi verið á um hver raunverulegur gjaldmiðill lánanna hafi verið heldur aðeins um lánskostnaðinn. Dómurinn hefur þá afleiðingu að lánveitendur gætu þurft að *endurreikna lánin miðað við upphaflega fjárhæð í kuna, án tillits til hækkana á gengisvísitölu CHF*.

Einnig voru *ákvæði um einhliða ákvarðaða breytilega vexti dæmd ógild*, á grundvelli þess að ekki kæmi fram með hvaða hætti breytingar á vöxtum væru ákvarðaðar, eða neitt um þær reikniaðferðir sem vextirnir tækju mið af. Þar af leiðandi skyldu *upphaflegir samningsvextir gilda út lánstímann*, með öðrum orðum þá *standa fastir samningsvextir óbreyttir* án tillits til ógildingar annara ákvæða. 

Búist er við að dómnum verði áfrýjað og er því endanleg niðurstaða enn háð útkomu fyrir hæstarétti.

Sjá fréttatilkynningu Udruga Franak.

http://www.udrugafranak.hr/index.php/stavovi-udruge/item/562-historical-verdict-and-citizens%E2%80%99-victory-against-the-banks"

 

--

Það sem vekur mesta athygli í þessum dómi, sem er dómur í undirrétti, að samningsvextir eru dæmdir til að haldast líkt og þeir voru við lántöku.

Að öðru leiti ætla ég ekki að tjá mig um dóminn í bili. 


Hvað er orðið að rökhugsun landans?

Við hrun bankakerfisins haustið 2008 þá glataðist ýmislegt.  Við viðurkennum líklegast öll að traustið hvarf og tortryggni kom í staðinn.  Mannúð vék fyrir hörku.  Mannorðsmorð voru framin hægri vinstri.  En ekki síst þá varð til ný tegund misréttis, þ.e. þeirra sem fengu skuldir lækkaðar og þeirra sem fengu þær ekki lækkaðar.

Eitt sýnist mér hafa líka farið í glatkistuna.  Rökhugsun og færni mann til að tengja saman orsök og afleiðingu.  Finnst mér svo langt ganga í sumum málum, að fólk sé ekki með fullum sönsum, þegar það ryðst fram á ritvöllinn og lýsir yfir hneykslan sinni á hinu og þessu.

Skýrslan um Íbúðalánasjóð hefur t.d. truflað rökhugsun manna meira en nokkuð sem ég hef séð nema þegar rætt er um ýmsa útrásarvíking.  Bæði virðist samhengi hluta ruglast hjá skýrsluhöfundum og síðan ekki síður hjá hinum óteljandi álitsgjöfum.  Margir þeirra ættu t.d. að vita betur, en af einhverri ástæðu finnst þeim sannleikurinn ekki eins bitastæður og rökleysan.

Q.E.D.

Ég hef alltaf viljað geta sett q.e.d. á eftir rökfærslum, þ.e. quod erat demonstrandum, sem yfirfæra má sem og staðfestist þar með.  Kenning er sett fram, fyrir henni færð rök og síðan sannreynt að rökin staðfesti/sanni að kenningin sé rétt.  Um hornsummu þríhyrnings gildir a + b + c = 180, þar a, b og c lýsa stærð hornanna.  Lengd langhliðar í rétthyrndum þríhyrningi má finna út frá jöfnunni a² + b² = c² þar sem a og b eru skammhliðarnar og c langhliðin.  (Ætla ekki að fara í gegn um sannanirnar.)

Þetta þykir ekki parfínt hjá helstu álitsgjöfum þjóðarinnar, hvort heldur þeir eru blaðamenn, fræðimenn, þingmenn eða bara á facebook.  Hjá flestum tíðkast hin breiðu spjót og sannleikurinn eða rökhyggja er bara eitthvað sem þvælist fyrir.

Ég hef reynt, eins og mér er framast unnt, að virða sannleikann framar öllu.  Ef mér hefur orðið á í messunni, þá er ég óhræddur við að viðurkenna það, koma leiðréttingu á framfæri og biðjast afsökunar, ef ég tel efni til.  Þegar ég fjalla um málefni, þá legg ég mig fram við að segja sannleikann hver sem á í hlut.  Þannig hef ég á einhverjum tímapunkti varði alla stjórnmálaflokka sem átt hafa mann á þingi undanfarin ár, nema ég held að Björt framtíð hafi ekki enn gefið mér slíkt tilefni.  Fyrir þetta hef ég oft uppskorið skeytadrífu  þeirra sem ekki sætta sig við að ég verji Jóhönnu, Sigmund Davíð, Bjarna Ben, Steingrím eða hverjir það hafa nú verið sem ég tók upp hanskann fyrir í það sinnið og það er alveg bannað að taka upp hanskann fyrir útrásarvíkinga eða stóreignarfólk.  Þegar ég setti inn pistil um afstöðu mína til Icesave, þá var ég sakaður um að vera "þjóðhættulegur" og átti greinilega að hafa svo mikil áhrif í samfélaginu að skoðun mín hafi snúið þjóðinni.  Ef ég tek upp hanskann fyrir einhvern af útrásarvíkingunum, þá hef ég verið úthúðaður sem landráðamaður.  Ekki má svo gleyma persónulegum árásum á mig vegna umfjöllunar um skuldamálin.  Allt þetta hefur maður mátt þola bara vegna þess, að ég tel sannleikann vera ofar öllu og að sannleikanum megi ekki víkja til hliðar sama hvað.

Rökleiðsla - Rökyrðingar

Í mínu námi, þá lærði ég stærðfræðilega rökleiðslu og yrðingareikning.  Kom þetta bæði fyrir í stærðfræðihluta náms míns og í tölvuhluta námsins við Háskóla Íslands og Stanford háskóla.  Yrðingar eru nefnilega mikilvægur þáttur í röklægri forritun (logical programming).  Einnig eru þær mikið notaðar í verkfræðiútreikningum og fjármálaútreikningum og þeim fræðum sem ég sérmenntaði mig í, þ.e. aðgerðarannsóknum.  If-setningar í töflureiknum eru gott dæmi um rökyrðingar.

Einföl yrðing er A -> B (lesist A þá B).  Þ.e. sé atriði A til staðar, þá leiðir það af sér að atriði B er líka til staðar.  Aftur á móti gildir ekki, ef B þá A.  Yrðinguna er bara hægt að lesa í eina átt.  Ef allir íbúar Breiðholts eru Reykvíkingar, þá gildir ekki að allir íbúar Reykjavíkur búi í Breiðholti.

Flóknari yrðing er, ef A -> B og B -> C, þá gildir A -> C, þ.e. er fyrir öll A þá gildir B og fyrir öll B þá gildir C, þá þýðir það jafnframt að fyrir öll A gildir C.  Ef allir íbúar Breiðholts eru búsettir í Reykjavík og allir íbúar Reykjavíkur eru búsettir á Íslandi, þá leiðir það af sé að allir íbúar Breiðholts búa á Íslandi.

Önnur svona yrðing með ólíka merkingu er A -> B og A -> C, en um hana gildir ekki B -> C.  Allir sjómenn á Bátnum búa á Grenivík og allir sjómenn á bátnum eru Íslendingar, þá er ekki hægt að draga þá ályktun að allir Grenvíkingar séu Íslendingar.

Síðan er hægt að nota "ekki" táknið ¬ til að gefa neikvæða merkingu A -> ¬B eða ¬A -> B og raunar er listi yfir þau tákn sem hægt er að nota nokkuð langur.  Hægt er að nálgast dæmi um slíka lista hér og hér.

Frjálslegar rökleiðslur

Tilefni þessa pistils núna eru ansi frjálslega með farnar rökleiðslur í tilefni skýrslu um ÍLS, en ég hef lengi gengið með hann í maganum.

Ein er sú fullyrðing að 90% lán ÍLS hafi orðið þjóðinni dýrkeypt í þeirri merkingu að þau hafi hreinlega orsakað efnahagshrunið.  Nú veit ég ekkert hvort það hafi verið ætlun skýrsluhöfunda að þetta kæmi svona út, en þannig hafa bloggheimar og facebook notendur því miður skilið sneiðina.

Ef við setjum þetta upp í rökyrðingu, þá skulum við skilgreina þessa tvo viðburði sem hér segir:

A - ÍLS ákveður að bjóða 90% lán

B - Hagkerfið hrundi

og staðhæfingin er:

A -> B (þ.e. A orsakaði B og ekki bara það, heldur að með því að halda áfram að bjóða 90% lán, þá mun hagkerfið fara aftur á hliðina).

Vandinn við þessa yrðingu er að hana er ekki hægt að sanna með neinu móti.  Ástæðan er sú að óteljandi önnur atriði höfðu áhrif og leiddu til efnahagshrunsins.  Réttara er að segja:

A -> C þar sem C er ótilgreindur hlutur, en líklegast eitthvað í þá áttina að fjármálafyrirtækin sáu tækifæri til að fara út á húsnæðislánamarkaðinn.  C getur líka verið að fleiri höfðu möguleika á hærri lánsfjárhæð, að stífla hafi rofnað sem var á húsnæðismarkaði og margt, margt fleira.  En hvorki A né C leiddu beint, ein og óstudd til B.  Því er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að þessi rökyrðing, hvort sem hún er skrifuð A->B eða C->B, er röng.  A.m.k. eru engar sannanir fyrir því að hagkerfið hefði hrunið, hefði ekki allt hitt gerst líka.  Þá er ég að tala um atriði eins og lága vexti bankanna á húsnæðislánum (D), ótakmörkuð lánsfjárhæð (E), 100% lán bankanna (F), breytingar á bindiskyldu (G), breyting á áhættustuðli og þar með eiginfjárkröfu (H), útrás bankanna (I), aðgangur bankanna að ódýru lánsfé (J), áhættusækni bankanna (K), aukin útlánageta fjármálafyrirtækja (L), sveiflur á gengi krónunnar (M) vegna m.a. Kárahnjúka (N), vaxtaskiptasamningar (O) o.s.frv.

Líklegri yrðingin er því: A -> C og síðan A (eða C) ∧ D ∧ E ∧ F ∧ G ∧ H ∧ I ∧ J ∧ K ∧ L ∧ M ∧ N ∧ O ∧.. -> B  (∧ þýðir "og" meðan + þýðir "eða").  Vissulega er það svo að í einhverjum tilfellum gæti verið "eða" á milli ólíkra atriða, þannig að G eða H (G + H) hefði dugað en ekki þurft bæði. Við vitum að G og H var hvorutveggja komið í framkvæmd áður en A kom til framkvæmdar.  Þannig væri hægt að brjóta yrðinguna upp og segja G -> L (lægri bindiskylda jók útlánagetu) og H -> L (lægri áhættustuðull varð til þess að hægt var að lána meira út fyrir sama eigið fé).  Hvort yrðingin er G∧H -> L eða G+H-> veit ég ekki og skiptir ekki öllu.  Höfum í huga að ÍLS telst til fjármálafyrirtækja, en er ekki háð þáttum G og H á sama hátt og bankarnir.  Svo er líka rétt að benda á að atvik L, þ.e. lækkun eiginfjárkröfunnar gerðist bæði 2003 og 2007.

Þá lítur yrðingin allt í einu svona út:

(H+G)-> L  og

A ∧ L -> X þar sem X er áhugi fjármálafyrirtækja til að auka markaðshlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði.

Til þess að auka hlutdeildina, sem má kalla Y, þá þarf X ∧ (D ∧/+ E ∧/+ F) -> Y. (Veit ekki hvort eitt af D, E og F hefði dugað eða fleiri saman.)

Til að halda úti vegferðinni, Y1, þá þarf J:  J->Y1; Y1->Y

Ég get alveg haldið áfram með þessa rökleiðslu, en hún leiðir okkur langt frá upprunalegu yrðingunni A->B. Við vitum ekki hvað C hefði orðið, þar sem það módel var aldrei keyrt. Ég er hins vegar fullviss um að það hefði ekki tekið okkur neins staðar nálægt B, hruni hagkerfisins.

Þá er það menntun og reynsla

Önnur frjálsleg rökleiðsla er að menntun stjórnarmanna hafi skipt öllu máli.  Munurinn á þessari staðhæfingu og þeirri fyrri er að hún getur verið sönn, en þarf ekki að vera.

Hér gildir að menntun (A) leiðir til þekkingar (B1), en einnig gildir að ekki þurfa að vera tengsl á milli menntunar (A) og hagnýtingar þekkingar (C) eða þekkingar og hagnýtingar hennar.  Við getum sem sagt ekki fullyrt að A->C eða að B1->C.  Hér gildir líka að aldur og reynsla (D) leiðir til þekkingar (B2), þ.e. annars konar þekkingar en menntun gefur.  Aftur tryggja hvorki D né B2 að við fáum C.  Við erum því einfaldlega í þeirri aðstöðu að geta hvorki sannað né hrakið fullyrðinguna um að stig prófgráðu viðkomandi hafi gert viðkomandi hæfan eða vanhæfan til stjórnarsetu.  Ástæðan er einfaldlega sú að engin óyggjandi rökræn tenging er milli A, B1, B2 og D annars vegar og D hins vegar.  Við getum ekki einu sinni fullyrt að B1 sé betri og hagnýtari þekking en B2 vegna þess að við vitum ekki hvað lífið hefur kennt mönnum.  Vel menntaður einstaklingur getur verið gjörsamlega ófær um að sitja í stjórn, meðan flugfreyjan getur verið mjög góður félagsmálaráðherra.

Eina sem við getum dregið af þessu eru líkur, en þær hljóta að vera einstaklingsbundnar. Svo má ekki gleyma að bankarnir fóru á hliðina með allt þetta sprenglærða fólk innanborðs.

Mergur málsins við þessar ráðningar er, að ekki var verið að velja einstaklinga til stjórnarstarfa hjá ÍLS til að vera snillingar í málefnum ÍLS.  Nei, það var verið að ráða þá til að fylgja stefnu stjórnvalda hverju sinni.  Við það er ekkert að athuga.  Því er rangt að einblína á stjórnarmennina heldur á að einblína á ráðgjafana sem stjórnvöld notuðu fyrir ákvarðanir varðandi málefni ÍLS, fólkið innan ráðuneytisins sem mótaði stefnuna í samráði við stjórnendur ÍLS og síðan ráðherrana sem höfðu forgöngu um að móta stefnuna.  Það er mikil einfeldni að halda, að stjórn ÍLS hafi haft raunverulegt vald, þó vissulega hafi hún haft tillögurétt.

Lokaorð

Ég er alveg sannfærður um, að við værum lengra komin með uppgjörið við hrunið, ef upphrópanir og breið spjót væru ekki það fyrsta sem gripið væri til, þegar eitthvað kemur upp.  Stjórnarandstaða á þingi (hvort heldur núverandi eða fyrrverandi) hafa gert það að skyldu að eða listgrein að tapa rökhyggjunni, þegar ráðherrar segja eitthvað.  Helmingur tíma fyrri ríkisstjórnar fór í súginn vegna þess að óteljandi hagsmunaaðilar heltu yfir hana stórlega menguðu talnaflóði.  Grátkór útgerðamanna er búið að festa sig í sessi sem hugtak í íslenska tungu og nú er nánast sama hvað kemur frá þeim mikilvæga hópi.  Það er allt stimplað sem grátur og barlómur.

Núverandi ríkisstjórn hefnist fyrir framkomu sína síðustu árin og fæst við sama svæsna útúrsnúninginn og þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks notuðu áður.  Fjölmiðlar eru síðan engu skárri.  Þeir láta mata sig af gögnum og fréttum sem standast ekki rökhugsun.  Eitt er sagt í dag og annað á morgun og menn láta það engu skipta þó mótsagnirnar séu hrópandi.  Ef ekki væri fyrir hana Láru Hönnu Einarsdóttur, sem er líklegast vandaðasti fjölmiðlamaður landsins, þá kæmust fjölmiðlar og stjórnmálamenn upp með þetta rugl.

Mikið væri gott, ef fjölmiðlar og stjórnmálamenn temdu sér vandaðri vinnubrögð.  Mikið væri gott, ef sannleikurinn fengi að ráða för en ekki furðulegur hráskinnaleikur.  Eina sem hefst upp úr því að hrópa 270 ma.kr. tap ÍLS er að hann mun ekki líta eins illa út þegar í ljós kemur að talan er 41 ma..kr. eða 64 ma.kr.  Búið er að gengisfella skaðann með því að fara rangt með tölur.  Að kenna síðan 90% lánu ÍLS um hrun efnahagskerfisins er síðan bara til að skemmta skrattanum.


Verðtryggingin er stærsti vandi ÍLS ekki 90% lán

(Ég tek það strax fram að ég er ekki búinn að lesa alla skýrsluna um Íbúðalánasjóð.  Hef bara gluggað í einstaka kafla.  Því getur verið að í því efni sem ég hef ekki lesið, sé tekið á þeim atriðum sem ég nefni hér fyrir neðan.)

Já, hún er kominn skýrslan um Íbúðalánasjóð.  Á fréttamannafundi, þar sem skýrslan var kynnt, voru höfð stór orð um ýmsa hluti.  Ekkert fer á milli mála að mörg mistök voru gerð og staða sjóðsins er grafalvarleg.  Mér finnst aftur ekki hjálpa mikið ef litið er framhjá mikilvægum efnisatriðum og farið rangt með önnur.  Langar mig að fjalla hér um nokkur atriði sem mér sýnist ýmist lítið vera fjallað um, ekkert eða farið rangt með.

90% lánin kostuðu þjóðin stórfé

Sú yfirlýsing skýrsluhöfunda að 90% lán Íbúðalánasjóðs hafi kostað þjóðina stórfé, er líklegast innistæðulaus með öllu.  Í fyrsta lagi, þá voru 90% lán þegar í boði hjá Íbúðalánasjóði áður en kerfisbreytingar voru gerðar á útlánastefnu sjóðsins 2004.  Í öðru lagi, þá fækkaði þeim lánþegum sem fengu 90% lán við þessa breytingu.  Í þriðja lagi, þá voru 90% lánin miðuð við fasteignamat eigna og voru því alls engin 90% lán fyrir þorra landsmanna.  Í fjórða lagi, var þak á  hámarkslánsfjárhæð, þannig að 90% lánin dugðu eingöngu fyrir frekari hóflegri íbúð á höfuðborgarsvæðinu, þegar þau voru fyrst veitt í desember 2004 og niður í að duga vart fyrir tveggja herbergja íbúð á haustmánuðum 2007.

En mig langar samt að prófa að finna rök fyrir þessari staðhæfingu skýrsluhöfunda.  Þau einu sem ég sé eru að með þessu hafi bankarnir "neyðst" til að fara í stríð við ÍLS. 

Málið er að bankarnir voru búnir að reyna ýmislegt til að klekkja á ÍLS áður en sjóðurinn bauð 90% lánin.  Þeir voru t.d. búnir að fara með erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (eins og fram kemur í skýrslu RNA í III. grein viðauka 6) og farið þar sneypuför.  Grunnur kvörtunar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (eins og Samtök fjármálafyrirtækja hét þá) var að við einkavæðingu bankanna hafi orðið breyting á húsnæðislánamarkaði á Íslandi.

ESA komst að þeirri niðurstöðu að ÍLS nyti ríkisaðstoðar, en jafnframt að sú aðstoð væri í samræmi við ákvæða EES samningsins (2. mgr. 59. gr.).  Því væri ekkert við það að athuga að ÍLS hefði ákveðna sérstöðu.

SBV/SFF voru ekki sátt við niðurstöðu ESA og fóru með málið fyrir EFTA dómstólinn.  Það var ekki fyrr en síðari hluta árs 2004 og því skiptir sá málatilbúnaður ekki megin máli varðandi 90% lánin.  (Þó svo að EFTA dómstóllinn mælti svo fyrir að ESA skyldi framkvæma formlega rannsókn, þá breytti það ekki fyrri niðurstöðu stofnunarinnar.)  Á þeim tíma höfðu bankarnir þegar hafið sína útrás á húsnæðislánamarkaðinn.

90% lán voru óverulegur hluti útlána Íbúðalánasjóðs og helgast það af því að bankarnir buðu betur.  Þeir buðu:

  1. Lága vexti, lægri en ÍLS
  2. Hærra lánshlutfall, þ.e. miðað var við kaupverð
  3. Ekkert hámark var á fjárhæð samanborið við 18 m.kr. hjá ÍLS
  4. Loks buðu bankarnir viðskiptavinum sínum alls konar sérkjör samhliða húsnæðislánunum.

ÍLS gat ekki keppt við þetta, nema á þeim svæðum, þar sem lán bankanna stóðu ekki til boða.  Kaupþing bauð sín lán a.m.k. til að byrja með ekki á öðrum stöðum, en á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.  Vextir þessara lána voru svo fáránlega lágir, að mati Sigurjóns Þ. Árnasonar bankastjóra Landsbanka Íslands hf., að hann taldi þá algjört rugl, eins og haft er eftir honum í skýrslu RNA vegna bankahrunsins.  Taldi hann sig ekki geta keppt við þessa vexti en gerði það samt!

Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, flutti erindi um áhættustýringu ÍLS á ráðstefnu í október 2010 og birtist það í Þjóðarspeglinum 2010 gefnum út af Félagsvísindadeild Háskóla Íslands.  Þar segir Vilhjálmur m.a.:

Þar sem lán Íbúðalánasjóðs voru án uppgreiðslugjalds var hagur af því fyrir lánþega Íbúðalánasjóðs að greiða upp lán hjá sjóðnum og endurfjármagna eldri lán og önnur óhagkvæm lán með nýjum lánum frá bönkum og sparisjóðum. Á síðari hluta árs 2004 námu uppgreiðslur að frádregnum nýjum lánum hjá Íbúðalánasjóði 68,8 milljörðum (Íbúðalánasjóður, 2004, 2005a). Ný lán banka og sparisjóða til íbúðalána námu á sama tíma 140 milljörðum króna.

Þó ég sé ekki alveg sammála öllu sem Vilhjálmur segir, þá er þarna kominn hluti af skýringunni fyrir því áfalli sem ÍLS varð fyrir.  Bankarnir undirbuðu ÍLS á íbúðalánamarkaðinum og að auki veittu þeir nánast ótakmörkuð lán til að endurfjármagna lán hjá sjálfum sér eða samkeppnisaðilum á markaðnum.  Þetta kom 90% lánunum ekkert við.  Ástæðan var einfaldlega að bankana vantaði að stækka sinn skerf á húsnæðislánamarkaðinum og til þess höfðu þeir fengið tæki frá Seðlabankanum og Fjármálaeftirliti í formi breytinga á útreikningi eiginfjárhlutfalls.  Þetta er sama ástæða og olli, að mínu mati, húsnæðisbólunni um allan heim, Basel II reglurnar.

Verðtryggingarvandinn

Í mínum huga er verðtryggingin einn stærsti, ef ekki stærsti, áhrifavaldurinn á stöðu Íbúðalánasjóðs.  Ástæðan er tvíþætt:  1. Skuldir sjóðsins eru verðtryggðar; 2. Eignir sjóðsins eru að mestu óverðtryggðar.

Líklegast eru allir mér sammála um fyrri liðinn, en líklegast fáir um það síðari.  Ætla ég því að sleppa því að skýra út þann fyrri í bili, en einhelda mér í þetta með eignirnar.

Hverjar eru eignir ÍLS? Þær eru fyrst og fremst útlán og síðan einhver innlán.  Innlánin ætla ég ekki að fjalla um.  Þá eru það útlánin.  Þau skiptast í útlán til einstaklinga og útlán til lögaðila.  Skiptingin milli þessara lánategunda er á bilinu 70-80% eru til einstaklinga og 20-30% til lögaðila (að sveitafélögum meðtöldum).  Útlánin eru vissulega verðtryggð, en það eru tryggingarnar að baki lánunum ekki.  Og þegar illa árar, þá skipta þær höfuðmáli.

Samkvæmt reglum sjóðsins, þá yfirtekur hann eignir til sín á fasteignaverði.  Það sem útaf stendur fer á biðlán til 5 ára (eða eru það 3 ár).  Eðli þessa biðláns er að greiði skuldarinn 1.000 kr. inn á lánið, þá lækkar það um 2.000 kr. og það sem ógreitt er í lok biðtímans fellur niður.  ÍLS þarf hins vegar að greiða lánadrottnum sínum það sem fellt er niður.

Þetta er allt í lagi meðan verðbólga er lítil og vanskil einnig.  Þannig má lesa það í erindi Vilhjálms Bjarnasonar að virðisrýrnun eigna ÍLS hafi verið á bilinu 0,02-0,20% á árunum 2002 til 2007, en 1,20% og 0,63% árin 2008 og 2009.  Líklegast var virðisrýrnun 2008 og 2009 vanmetin vegna frystinga og skilmálabreytinga á lánum.  Síðan má búast við að áhrif efnahagshrunsins hafi ekki verið að fullu komið fram í fjárhag einstaklinga og skuldastöðu þeirra við sjóðinn í árslok 2009.  Menn voru enn að vonast til að hægt væri að bjarga málum, en reyndin hefur oft orðið önnur.

Ef verðbólga hækkar eftirstöðvar lána umfram hækkun fasteignamats, þá lendir ÍLS í þeirri stöðu, að sá lánshluti sem gæti orðið að biðláni hækkar stöðugt.  Sjóðurinn lendir líka í því að hluti lána hans er á síðari veðréttum og til að verja hlut sinn, þá er hann að taka eignir yfir á hærra verði, en hann hefði gert annars og þarf því oft að greiða út aðra veðhafa við yfirtöku eigna.  Þær kröfur hafa einnig hækkað vegna verðbólgu sem minnkar því trygginguna að baki lánum fyrir aftan í veðröð.

Tökum dæmi:

Húsnæði er með lán frá kröfuhafa A upp á kr. 10 m.kr. og ÍLS að upphæð 5 m.kr.  Bæði lánin eru verðtryggð.  Við lántöku var veðsetning 75%, þ.e. fasteignamat 20 m.kr.  Frá lántöku hafa eftirstöðvar fyrra lánsins hækkað í 17 m.kr. sem er umfram verðbólgu og greiðsluáætlun vegna frystinga og að vöxtum var bætt á höfuðstólinn.  Eftirstöðvar láns ÍLS eru 8 m.kr. og eru skýringarnar hinar sömu.  Við hrun lækkaði fasteignarmatið um 15% fram til ársbyrjunar 2011, en hefur hækkað samtals um 10% síðan.  Fasteignamatið stendur því í 18,7 m.kr.  Veðstaða ÍLS hefur því farið úr því að vera trygg í það að einungis 1,7 m.kr. af 8 m.kr. eftirstöðvum er innan marka fasteignamats.

Velji skuldarinn að hætta afborgun lána og láta ÍLS hirða eignina, þá hefur myndast 6,3 m.kr. tap hjá ÍLS.  Þetta tap er eingöngu tilkomið vegna verðtryggingar lánanna.  Ef lánin hefðu ekki verið verðtryggð, þá væri staða ÍLS líklegast sú, að full trygging væri að baki láni sjóðsins.

Kaldhæðnin í þessu fælist í því að kröfuhafi A væri lífeyrissjóður sem auk þess ætti Íbúðabréf frá ÍLS.  Þannig hefðu verðbæturnar sem lífeyrissjóðurinn fær á sinn lánshluta rýrt getu ÍLS til að endurgreiða lífeyrissjóðnum Íbúðabréfið!

Verðbólga frá ársbyrjun 2007 til júní á þessu ári er 54,9%.  Á sama tíma hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu farið úr 306,1 stigi í desember 2006 í 358,4 stig í maí 2013 (nýrri upplýsingar eru ekki til á vef Þjóðskrár).  Hækkunin nemur því 17,1%.  Ég fann ekki nógu góðar upplýsingar um breytingu á fasteignamati til að geta notað þær.

Uppgreiðsluvandi eða verðtryggingarvandi

Hvor vandinn er verri, uppgreiðsluvandinn eða verðtryggingarvandinn?  Uppgreiðsluvanda ÍLS var lýst í skýrslu IFS fyrir fjármálaráðuneytið í nóvember á síðasta ári.  Þar kemur fram að á árunum 2004-6 hafi lán að upphæð 236 ma.kr. verði greidd upp fyrir gjalddaga og án uppgreiðsluþóknunar.  Þetta hafi verið um helmingur af útlánum sjóðsins á þeim tíma.  Samkvæmt upplýsingum á vef ÍLS var staða útlána til einstaklinga um 660 ma.kr. í lok maí.  Færa má rök fyrir því að hefði ekki komið til uppgreiðslu lána, þá næmu útlánin hátt í 1.000 ma.kr.

Uppgreiðsluvandinn felst í því að meira hefur verið greitt upp af lánum, en sjóðurinn hefur annars vegar geta endurgreitt af sínum lánum og hins vegar lánað út aftur.  Í skýrslu RNA er þessi vandi metin á um 150 ma.kr.  Þetta eru þá 150 ma.kr. sem eru í ávöxtun, en hún er lakari en sú ávöxtun sem sjóðurinn greiðir af skuldabréfum sem hann hefur gefið út.

Samkvæmt frétt á vef ÍLS frá 13.6.2013, þá á sjóðurinn 2.509 fullnustu eignir, lán að fjárhæð 84,5 ma.kr. voru í vanskilum (vanskilaupphæðin var 4,8 ma.kr. og heimilin 4.519) og lán lögaðila að fjárhæð 31,5 ma.kr. voru í vanskilum upp á 3,0 ma.kr. Í skýrslu IFS kemur síðan fram að af 827,3 ma.kr. útlánum sjóðsins (bæði til einstaklinga og lögaðila), þá standa 207,5 ma.kr. umfram 70% af fasteignamati.  Þetta þýðir að önnur lán eða lánshlutar hvíla á fyrstu 70%-unum.  Þar af eru 107,4 ma.kr. umfram 90% af veðrými og um 80 ma.kr. utan veðrýmis.  Nú skulum við gera ráð fyrir að við útlán hafi öll lán verið a.m.k. innan 90% veðrýmis og er ekki óvarlegt að áætla það þessi mörk hafi verið neðar.  En miðum hér við 90%.  Það þýðir að verðbólga (og lækkun fasteignamats) hafa breytt 107,4 ma.kr. af tryggðri lánsfjárhæð í það að vera ótryggð.  Uppgreiðsluvandinn gerir það hins vegar að verkum að um 150 ma.kr. eru á um 1,3% lakari ávöxtun en ÍLS þarf að greiða af skuldabréfum sínum.  (1,3% reiknuð útfrá tölum í skýrslu IFS og notuð með fyrirvara um að réttar ályktanir séu dregnar af þeim tölum.)

Munurinn á uppgreiðsluvandanum og verðbólguvandanum er að ÍLS getur sett peningana sem hann á í vinnu með útlánum og dregið á meðan úr skuldabréfaútgáfu sinni.  Það tekur líklegast nokkur ár og tjón hans mun hlaupa á 10-20 ma.kr.  Vitleysan var að sjóðurinn hafi ekki gert þetta strax og eru skýringar hans á því að það var ekki gert heldur ótrúverðugar.  Þetta eru aftur smámunir miðað við verðbólguvanda sjóðsins.

Nú þegar liggja 107,4 ma.kr. af útlánum sjóðsins umfram það útlánaþak sem gildir, þ.e. 90%.  Auk þess má gera ráð fyrir að einhverjir milljarða tugir séu komnir verulega umfram hámark lánsfjárhæðar sem notað var við greiðslumat.  Það stefnir því sífellt í meira óefni hjá sjóðnum vegna verðtryggingarinnar.  Til viðbótar við þá um 80 ma.kr. sem eru utan veðrýmis, verður að taka tillit til 2.509 fullnustuíbúða, en þær voru varla teknar yfir á bestu kjörum.

Kaldhæðnin í þessu öllu, er að sjóðurinn væri í betri stöðu í dag hefðu öll lán hans verið greidd upp 2004-6, en hann er núna með aðeins hluta lánanna greidd upp.  Ástæðan er einföld.  Ef við tökum meðalvísitölu húsnæðisverðs yfir þetta tíma bil, þ.e. frá september 2004 til ársloka 2006 þá er það eitthvað um 260 stig.  Húsnæðisverð hefur því hækkað um 100 stig til loka maí 2013 eða 38,5%.  Verðbólga frá miðju ári 2005 er hins vegar 70,4%.  Tjón ÍLS af uppgreiðslunum er því líklegast umtalsvert minna en af samspili verðtryggingar og fasteignaverðs.  1,3% árlegur kostnaður af 236 ma.kr. (svo öll talan sé tekin til að vera í hærri kantinum) er um 25 ma.kr. en ef sama hlutfall þessara 236 ma.kr. hefðu lent utan veðrýmis og annarra lána, þá væri sú upphæð líklegast ekki undir 35 ma.kr. (uppgreiðslur voru sagðar um helmingur af útlánum).  (70% ofan á 236 ma.kr. gera 401 ma.kr. og 9,7% (80/827) af þeirri tölu gerir 38,8 ma.kr.)  Nú þar sem uppgreiðsluvandinn var lægri tala en 236 ma.kr., þá virðist vera sem það hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, reynst ódýrara fyrir sjóðinn að fá þessi lán greidd upp, en að hafa þau í sömu stöðu og önnur lán sjóðsins.

Vandi Íbúðalánasjóðs ærinn

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um vanda Íbúðalánasjóðs, enda hefur það lengi blasað við að hann væri ærinn.  Sá munur er á vanda sjóðsins og ýmissa annarra, að hann getur unnið sig út úr honum einfaldlega með því að bíða.  Þá verður þó þrennt að ganga upp:  Verðbólgan verður að hafa hægt um sig, íbúðaverð verður að hækka stöðugt umfram verðbólgu og lántakar verða að hafa greiðslugetu til að standa undir afborgunum lána.

Ég hef mestar áhyggjur af þessu síðasta.  Flest bendir til þess að greiðslugeta lántaka fari versnandi.  Því er það svo að til einhverra aðgerða verður að grípa. Hef ég áður bent á, að svo fáránlegt sem það er, þá er leiðrétting verðtryggðra lána heimilanna ein öflugasta aðgerðin.  Slík aðgerð yrði þó að verða ÍLS að tjónlausu. 

Um 660 ma.kr. af útlánum ÍLS eru til einstaklinga.  Auk þess eru líklega um 60-80 ma.kr. lán sem eru vegna fullnustu eigna, hvort heldur ÍLS hefur tekið þær yfir eða aðrir kröfuhafar.

Samkvæmt tölum IFS eru aðeins 131 ma.kr. af útlánum sjóðsins alfarið innan 50% veðrýmis meðan 372 ma.kr. eru lán sem ná að hluta eða öllu leiti út fyrir veðrýmið og þar af eru 80 ma.kr. utan veðrýmis.  Verði eftirstöðvar verðtryggðra lána að jafnaði lækkaðar um 22,5% (sem er leiðrétting miðað við að árlegar verðbætur séu aldrei hærri en 2,5%), þá hverfur öll upphæðin sem er umfram veðrými af lánunum! (372 * 22,5% = 83,7 ma.kr.)  Höfum þó í huga að hluti upphæðarinnar er vegna lögaðila og þar sem ég hef ekki þá skiptingu, þá er fyrirvari hafður á því hvort öll lán heimilanna verði innan veðrýmis.  Næst sem vonandi gerist, er að lán þeirra sem misst hafa íbúðir sínar munu vonandi lækka það mikið, að fólk getur "keypt" þær aftur.  Nú varðandi hópinn sem er innan veðrýmis samkvæmt tölum IFS, þá verður hann enn betur innan veðrýmis og þar verður komin borð fyrir báru.  Ekki fyrir lántaka, heldur fyrir Íbúðalánasjóð.

Þessi aðgerð leysir ekki ein og sér vanda sjóðsins.  Uppgreiðsluvandinn er enn til staðar og vandi lögaðila er þarna líka. Síðan verður verðtryggingarvandinn áfram til staðar meðan verðtrygging er á skuldabréfum sjóðsins en tryggingar hans eru óverðtryggðar.

Svona í lokin vil ég ítreka það sem fram hefur komið, að 90% lánin höfðu ekkert með vanda Íbúðalánasjóðs að gera og þjóðin er ekki að bera neinn alvarlegan kostnað af þeim, kannski 4 ma.kr. en varla mikið meira.  Tvennt skipti mestu máli: Verðbólga vegna efnahagshrunsins og glæfraakstur Kaupþings, Landsbanka Íslands, Glitnis, SPRON og fleiri fjármálafyrirtækja á fasteignalánamarkaðinum.   Kaupþing hóf þá glæfraför og hinir fylgdu á eftir í einhverju karlmennskuflippi þar sem þeir gátu ekki verið minni menn en Sigurður og Hreiðar.  Og Landsbanki Íslands tók þátt í þessu rugli, þrátt fyrir að Sigurjón Þ. teldi þetta fásinnu.  Svo voru þessir menn kallaðir snillingar!


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband