Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Leiðrétting lána lagar stöðu ÍLS

Í nokkur ár hef ég talað fyrir daufum eyrum um að leiðrétting verðtryggðra lána væri árangurrík aðferð til að laga stöðu Íbúðalánasjóðs.  Loksins gerist það, að einhver sér þetta sömu augum og ég, þ.e. matsfyrirtækið Moody's af öllum.

Rök mín hafa verið einföld:  Tiltekinn hluti útlána ÍLS til einstaklinga situr utan veðs á húseignunum sem lánin voru þinglýst á.  Með því að lækka eftirstöðvar lánanna, þá minnkar sá hluti þeirra sem ekki er veðtrygging fyrir.  Niðurstaðan er að gæði lánasafna ÍLS batnar og það sem meira máli skiptir, vanskil ættu að minnka.

ils_daemi_1223772.jpg

Myndinni er ætlað að lýsa á einfaldan hátt hvernig það sem ég fjalla um virkar.  Veðsetningarhlutfall eykst sem ofar dregur.  Þríhyrningurinn sýnir lán innan og utan veðrýmis sem hlutfall af heildinni fyrir og eftir leiðréttingar verðtryggðra húsnæði lána ÍLS í aðeins ýktri mynd. 

Gefum okkur að lán umfram veð séu að fjárhæð 50 ma.kr. (markað af rauðu línunni að ofan).  Án aðgerða ríkisstjórnarinnar, þá myndar þessi fjárhæð tap hjá sjóðnum og lækkar eiginfjárstöðu hans um 50 ma.kr.  Ef ríkisstjórnin vill halda eiginfjárhlutfalli ÍLS óbreyttu, þá þarf að ríkissjóður að leggja ÍLS til aukið eigið fé.  Sú upphæð væri 92% af þessum 50 ma.kr. eða 46 ma.kr.  (Ástæðan fyrir því að ekki þarf að leggja fram alla 50 ma.kr. er að viðmiðið lækkaði um 50 ma.kr.)

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar um allt að 13% lækkun verðtryggðra lána mun ekki eyða öllum lánum án veðs.  Gefum okkur þó að lækkun eftirstöðvanna verði til þess að 40 ma.kr. af þeim hluta lánanna, sem voru án veðs, leiðréttist með þessum hætti (svæðið milli rauðu og grænu línanna), en 10 ma.kr. verði ennþá án veðs (svæðið ofan grænu línunnar).  Þá lækkar þörf ÍLS fyrir eiginfjárframlag um 92% af þessum 40 ma.kr. eða 36,8 ma.kr.  Aðgerðin sparar því ríkissjóði að leggja ÍLS til 36,8 ma.kr.

Þessu til viðbótar aukast gæði lánasafns ÍLS vegna útlána til heimilanna.  Vissulega verður einhver hluti lánanna ennþá á ýmist full- eða yfirveðsettum eignum, en hlutfall slíkra lána af heildarlánasafni sjóðsins hefur minnkað verulega (svæðið ofan grænu línunnar).  Lán sem voru áður á fullveðsettum eignum (100% veðsetning) mun fara niður í 87% veðsetningu (miðað við að lántakar fái fulla leiðréttingu), lán sem voru með 105% veðsetningu fara niður í  91,35% o.s.frv. (lán sem eru á milli línanna).  Þetta gerir það að verkum að borð er fyrir báru á þessum eignum, þó svo að verðbólga yrði meiri en hækkun fasteignamats í einhvern tíma.

Ef ekki kæmi til leiðréttingarinnar, þá hefðu öll lán að baki þeim 50 ma.kr. sem voru umfram veðrými að sjálfsögðu verið að fullnýta veðrými eignanna (lán ofan rauðu línunnar), auk þess sem einhver hluti lána sjóðsins hefði verið ískyggilega nálægt því að fullnýta veðrými eignarinnar á bakvið lánin (lán milli mjóu línunnar rétt undir rauðu línunni og rauðu línunnar).  Eftir aðgerðina fækkar slæmum lánum (lán yfir grænu línunni) og þeim sem eru á hættusvæði fækkar líka (lán milli mjóu línunnar rétt undir grænu línunni og grænu línunnar). 

Stærð svæðanna segir í öllum tilfellum til um hve stór hluti lánanna eru annað hvort slæm eða á hættusvæði.  Greinilegt er að hættusvæðið er mun stærra við rauðu línuna, en það sem er við grænu línuna. Verði þróun verðbólgu og fasteignamats óhagstætt fyrir ÍLS og ríkissjóður þyrfti að leggja ÍLS til pening, þá er ljóst að framlag ríkissjóðs þyrfti líklegast alltaf að vera minna eftir leiðréttingu lánanna, en fyrir. Eina ástæða fyrir því að þörf væri á meira framlagi gæti verið ef leiðréttingin leiðir til umtalsvert meiri verðbólgu en annars yrði og fasteignamat hækkaði sem því næmi.

Eitt þarf í viðbót

Til þess að leiðréttingin gangi alveg upp og dragi úr áhættu bæði ÍLS og ríkissjóðs, þá þarf ÍLS að greitt niður lánin sín.  Nú verandi skuldabréfaflokkar eru þannig, að ÍLS getur ekki greitt inn á þá.  Spurningin er hvort ÍLS geti og megi kaupa upp eigin bréf.  Ef sjóðurinn má það ekki í dag, þá verður að breyta lögum, þannig að hann fá leyfi til slíks.  Hafi hann þegar það leyfi, þá verður hann að hefja slík uppkaup án þess að raska um of gengi bréfanna á markaði.

Niðurstaðan

Frá ÍLS séð er niðurstaðan:  Eiginfjáráhætta ÍLS minnkar við aðgerð ríkisstjórnarinnar og eiginfjárstaða styrkist, vanskil minnka umtalsvert, hluti tapaðra skulda fæst greiddur, gæði útlánasafna til heimilanna batnar mikið, fleiri heimili geta staðið undir greiðslubyrði lánanna og allt þetta ætti að leiða til þess að lánshæfismat Íbúðalánasjóðs ætti fara upp á við. Skuldir ÍLS minnka við það að hann hefur uppkaup eigin bréfa.

Frá ríkissjóði er niðurstaðan:  Verulega dregur úr þörf fyrir framlagi út ríkissjóði til ÍLS, heildaráhætta ríkisins vegna ÍLS minnkar, skuldbindingar sem gætu lent á ríkinu minnka við það að ÍLS byrjar uppkaup á eigin bréfum á markað, hugsanleg framtíðarframlög ríkissjóðs til ÍLS verða líklegast alltaf lægri, þar sem skuldir ÍLS minnka, þá lækka einnig heildarskuldbindingar ríkisins sem ætti að styrkja lánshæfismat ríkissjóðs.

Síðan eru alls konar önnur áhrif, eins og á lántaka og hagkerfið, en þau eru ekki efni þessarar færslu.


mbl.is Hefur jákvæð áhrif á lánshæfi ÍLS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingaöryggi/netöryggi

Innbrotið á vef Vodafone hefur heldur betur hrist upp í þjóðfélaginu.  Veitti svo sem ekki af.  Upplýsingaöryggismál hafa ekki beint verið í brennideplinum undanfarin ár fyrir utan góða umfjöllun Kastljóss fyrir um tveimur árum.  Nú var sem sagt þjóðin vakin upp af værum blundi, vegna þess að SMS-skilaboð komust í rangar hendur og hnýsni landans gekk út yfir allan þjófabálk.

Ef menn halda að þetta sé fyrsta stóra innbrotið sem framið hefur verið í íslensk upplýsingakerfi, þá verð ég að hryggja þá með að svo er ekki.  Fyrir ansi mörgum árum var t.d. komið fyrir njósnabúnaði í upplýsingakerfi verslunarfyrirtækis á landsbyggðinni sem varð þess valdandi að einhverjum þúsundum, ef ekki tugþúsunda greiðslukorta upplýsinga var stolið.  Minna varð úr því máli, en efni voru til án þess að verslunarfyrirtækið gæti þakkað sér þær endalyktir.  Fjallaði ég um þetta mál hér á blogginu á sínum tíma.

Þetta er heldur ekki alvarlegasta brotið, að minnsta kosti ekki að mínu mati.  Brotið sem ég vísa til að ofan var alvarlegra.  En þetta er kannski það sem vekur mesta athygli og óöryggi, vegna þess að fjarskiptafyrirtæki átti í hlut.

Ástæðan fyrir því að ég hóf að blogga í febrúar 2007 var að ég vildi fjalla um upplýsingaöryggismál.  Það er mitt sérsvið sem ég hef unnið við sem ábyrgðaraðili upplýsingakerfis, öryggisstjóri og nú síðustu 13 ár sem ráðgjafi.  Samhliða ráðgjöfinni hef ég flutt erindi um upplýsingaöryggismál, verði leiðbeinandi Staðlaráðs Íslands og með námskeið á eigin vegum.  Má því segja að ég hafi marga fjöruna sopið í þessum efnum.  Öryggisbloggin hafa þó aldrei vakið neina sérstaka athygli.  Vonandi verður breyting á því.

Er upplýsingaöryggi gott á Íslandi?

Fyrirtækjum og stofnunum má nánast skipta í tvo hópa hvað stöðu upplýsingaöryggis varðar.  Annar hópurinn er nokkuð vel settur varðandi upplýsingaöryggi/netöryggi, en hinn hópurinn er ekki í góðum málum.  Í fyrri hópnum eru bankarnir, stórir skólar, sum bæjarfélög, mörg stórfyrirtæki, lífeyrissjóðirnir og fjarskiptafyrirtækin.  (Við megum ekki segja allt í klessu hjá Vodafone, þó þetta innbrot hafi heppnast.  Það var einn angi öryggisins sem brást, en ekkert bendir til þess að veikleikar séu í öðrum þáttum öryggismála hjá fyrirtækinu.)

Þó þessi fyrri hópur sé alveg þokkalega settur, þá er ekki þar með sagt, að ekki sé hægt að brjóta varnir hans á bak aftur.  Allar varnir er hægt að rjúfa, spurningin er bara hvernig það verður gert, hvenær og hve mikill skaðinn verður þegar þar að kemur. 

Vandinn er að fæst íslensk fyrirtæki hafa burði í að halda aftur af óþokkunum.  Þeir eru mun fleiri en allir Íslendingar og eru með mjög fullkomið net sín á milli, þar sem þeir deila upplýsingum.  Ég er t.d. hissa á því hve fáir tóku þátt í árásinni á Vodafone, þó mér skilst á fréttum að eitthvað hafi fjölgað í hópnum, þegar á leið morguninn.  Þetta er einmitt einkenni netöryggisbresta, að fyrst finnur einn opnar dyr, montar sig af því í samskiptasvæði óþokkanna og svo fylgja allir á eftir.  Ég er t.d. alveg viss um, að hefði sá fyrsti komist í einhverjar feitari upplýsingar, en raunin varð (fyrir hann voru þetta einskis verðar upplýsingar), þá hefði hann í fyrsta lagi ekki montað sig af glæpnum og í öðru lagi hefði tjónið orðið mun dýrara.  Ekki það, að mig grunar að Vodafone sé ekki búið að bíta úr nálinni hvað fjárhagslegt tjón varðar.

Hvað er til ráða?

Nú starfa ég í Danmörku, er ráðgjafi Hewlett Packard um upplýsinga- og netöryggismál, auk þess að bera ábyrgð á þeirri þjónustu sem HP veitir stærsta fyrirtæki Danmerkur, A.P. Møller & Mærsk, á þessu sviði.  Án þess að ég tjái mig nokkuð um viðskiptavininn, þá fæ ég ekki betur séð en dönsk fyrirtæki eigi fullt í fangi með að halda óboðnum gestum úti.  Bara nýverið var stórum hluta kennitalna Dana stolið af upplýsingakerfi fyrirtækis.  (Í Danmörku eru kennitölur leyndarmál og því var þetta mjög alvarlegt.)

En til að sporna við svona glæpum og auka öryggi í netviðskiptum, þá nota Danir NemID kerfið.  Þetta kerfi er opið öllum til notkunar sem uppfylla skilyrði til að nota það.  Kerfið gerir einstaklingum og fyrirtækjum kleift að tengjast við sinn þjónustuaðila í gegn um öruggt samskiptaviðmót.  Skiptir þá ekki máli hvort það er skatturinn, sveitarfélagið, bankinn, símafélagið eða eitthvað annað, maður tengist í gegn um NemID viðmótið sem er þá hluti af innskráningarsíðu viðkomandi fyrirtækis.  Smellið hér til að sjá hverjir bjóða viðskiptavinum að skrá sig inn með NemID.

Hvers vegna ætli þetta hafi orðið niðurstaðan?  Líklegast vegna þess, að menn vildu hámarka öryggi innskráninga og þeirra upplýsinga sem liggja hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem viðkomandi á í samskiptum við.  Á Íslandi var angi af þessu kerfi, þar til Samkeppniseftirlitið ákvað að þetta mætti ekki.  (Íslendingar þurfa alltaf að vera kaþólskari en páfinn.)  Þá er ég að tala um innskráningarkerfi bankanna, þar sem fólk gat (og getur sums staðar enn) notað auðkennislykil til að skrá sig inn.  Því er málum þannig fyrir komið, að hver og einn er að baksa í sínu horni við að þróa hina fullkomnu lausn.  Innskráningarferlið hjá Vodafone varðandi Mínar síður er dæmi um árangurinn af því.

Hvernig ætlum við, 320.000 manna þjóð, að hanna óteljandi fullkomnar lausnir svo Samkeppniseftirlitið verði ánægt?  Það er ekki hægt.  Fyrst Danir fara þá leið sem þeir völdu, 25 sinnum fleiri, hvers vegna ættum við ekki að gera slíkt hið sama.  Ég er svo sem ekki að mæla með því að allir hendi sínu innskráningarferli og hópist um nýtt, en víða eru öryggisgallar við innskráningu svo miklir að mikilvægt er að gera betrumbætur.

Staða netöryggis

Ég skipti þessu almennt ekki upp í þessa tvo flokka, netöryggi og upplýsingaöryggi, en þar sem sú hefði virðist hafa skapast á Íslandi, þá held ég mig við hana.

Ég vil leyfa mér að fullyrða, að aðeins örfá fyrirtæki á Íslandi hafa starfsmenn sem búa yfir þeirri tækniþekkingu að geta tryggt öryggi netkerfa.  Hlutfallslega held ég þó að þeir séu fleiri á Íslandi sem búa yfir slíkri þekkingu, en í flestum öðrum löndum heims.   Ég held líka að íslensk fyrirtæki búa almennt mjög vel hvað varðar netöryggisbúnað, þ.e. eldveggi, gáttir, vírusvarnir, innbrotavarnahugbúnað og þess háttar.  Fyrir þá sem skilja ekki þetta á okkar ástkæra, ylhýra, þá er ég að tala um Firewalls, Proxy Servers, Internet Browsing Gateways, IDS, IPS og þess háttar dót. (Tek það fram að ég er ekki tæknigaur og læt aðra um daglegan rekstur þessa búnaðar, þó ég beri ábyrgð.)

En til að búnaðurinn flotti virki við að halda leiðindagaurunum úti þarf gott skipulag, góða verkferla, góða verkþekkingu og gott eftirlit með þessum búnaði.  Það er hér sem potturinn er brotinn. Ekki er á valdi allra að standa í slíku.  Það er ekki nóg að skella bara upp eldvegg með IDS einingunni virkjaðri við hliðina á netþjóninum og halda að þá sé maður í fínu lagi.  Nei, það þarf sérfræðing sem fylgist með upplýsingastreymi á netinu um þekkta veikleika og veit því hvenær þarf að blástra búnaðinn, uppfæra hann, breyta reglum, skipta honum út og síðast en ekki síst kunna að bregðast við atvikum.  Síðan þarf ekki bara að vakta jaðarbúnaðinn, heldur þarf líka að vakta, blástra, uppfæra, skipta út og hafa eftirlit með ÖLLUM notendahugbúnaði. 

Vegna netkerfisins, sem ég ber ábyrgð á öryggismálum fyrir, þá berast okkur allt frá nokkur hundruð upp í fleiri þúsund ábendingar um veikleika í hverri viku! Það er kannski ekki svo svakalegt, þegar fleiri hundruð manns vinna við að vinna úr veikleikunum og geta síðan nýtt sér stuðning frá þeim aðilum innan HP sem eru sérhæfðir í að skanna í gegn um allan bunkann.  (Tekið skal fram að mér vitanlega ætlar HP ekki inn á Íslandsmarkað með þessa þjónustu, þannig að þetta er ekki sölukynning, hvað sem síðar kynni að gerast.) Aftur á móti getur þetta verið kerfisstjóra ofviða sem auk þess þarf að sjá um notendaþjónustu, uppsetningu búnaðar, tengingu kapla og hvað það nú er sem leggst á herðar viðkomandi.

Ég sá á visir.is bent á að útskrifaðir sérfræðingar í netöryggismálum væru "bara" nokkur hundruð meðan íslensk fyrirtæki væru 63.000 talsins.  Í mínum huga duga þessir nokkur hundruð alveg ágætlega, ef skipulagið, verkferlarnir, verkþekkingin og eftirlitið er í lagi.  Engin ástæða er til þess að vera með mörg þúsund sérfræðinga til að sjá um þessi mál.  (Öryggisdeildin sem ég stjórna vegna APMM telur innan við 30 manns fyrir netkerfi með 56.000 notendur í 180 löndum.  Síðan eru netstjórar, kerfisstjórar, gagnagrunnsstjórar, o.s.frv. sem sjá sín kerfi eftir ábendingu starfsmanna minna, sbr. að ofan.)  Nei, engin ástæða er til að mennta ofgnótt af fólki á þessu sviði.  Það þarf bara að nýta mannskapinn rétt.  Þeir sem eiga að tryggja netöryggið verða að hafa tíma til að sinna því starfi á sem bestan hátt eða hafa aðgang að sérfræðingi sem getur aðstoðað.

Við breytum ekki því liðna

Gagnvart Vodafone er skaðinn skeður og það sem þar gerðist ekki tekið til baka.  Fyrirtækið mun vonandi læra af þeim mistökum sem þar voru gerð, en mikilvægast er að AÐRIR læri líka af þeim.  Hingað til hef ég mest talað um tæknilega þætti, en vandinn liggur ekki síður í skipulagsþáttum.

Upplýsingaöryggisstaðallinn ISO 27001 og systurstaðall hans ISO 27002 eru þeir sem ég þori að fullyrða að eru mest notaðir, þegar kemur að innleiðingu stjórnkerfis upplýsingaöryggis.  Fjölmörg fyrirtæki hafa hlotið vottun gagnvart ISO 27001.  Krafa er gerð af FME gagnvart fjármálafyrirtækjum og PFS gagnvart fjarskiptafyrirtækjum, að þau innleiði öryggiskerfi sem byggir á ISO 27001.  Að ég best veit er ekki krafist vottunar, þó mörg fyrirtæki hafi farið þá leið.  Nú þarf að herða reglurnar.  Vottunin ein mun ekki lengur duga, heldur þarf að fara fram ítarlegt innra og ytra eftirlit sérhæfra aðila á framkvæmd öryggiskerfisins.  Tryggja þarf að þeir aðilar sem ætlast er til að vinni samkvæmt stöðlum sýni fram á að þeir uppfylli staðlana.  Slíkar úttektir eru ekki hlutverk eftirlitsstofnana, heldur óháðra aðila.  Oft er litið til tölvuendurskoðunarteyma endurskoðunarfyrirtækja.  Nú veit ég ekki hvort þær deildir séu nógu öflugar eða starfsmenn búi yfir réttri verkkunnáttu, en ef svo er ekki, þá verða framfarir í því eins og öðru.

Þetta kostar pening, segir örugglega einhver.  Já, alveg helling.  Hugsanlega nokkrar milljónir á ári fyrir þá stærstu, en á móti ætti kostnaðarsömum atvikum að fækka. Fyrir fjarskiptafyrirtæki sem veltir milljörðum á ári, þá skipta 10 m.kr. í svona úttektir ekki miklu máli (fyrir utan að ég efast um að kostnaðurinn sé svo mikill).  Næsta mótbára er að þetta taki svo mikinn tíma.  Já, þetta tekur kannski 15 daga á ári, þ.e. tíminn sem fer í mismunandi úttektir, en þessir 15 dagar dreifast á marga og sé vinnan skipulögð rétt, þá þarf ekki að trufla nema fáa starfsmenn og hvern í 30-60 mínútur fyrir hverja úttekt.  Hvað ætli það séu farnir margir klukkutímar í atvikið hjá Vodafone?

Það erfiða við öryggismál, er að menn líta oft á þau sem óþarfa kostnað.  Ástæðan er sú að það gerist aldrei neitt og því ekki þörf á eyða peningunum í þetta allt.  En af hverju ætli það sé að ekkert gerist?  Jú, vegna þess að peningunum í öryggismálin var vel varið!  Ég held ég geti alveg fullyrt, að hver króna sem varið er til öryggismál skilar sér margfalt til baka í minni kostnaði vegna atvika.  Auðvitað á samt að skipuleggja öryggismál af skynsemi og nauðsynlegt er að finna jafnvægið milli þess sem sett er í öryggismálin og áhættunnar sem tekin er.

Meira síðar..

Af almennum aðgerðum um lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda

Vinnuhópur ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um skuldamál heimilanna hefur skilað skýrslu sinni.  Hún lofar í flestum atriðum góðu, þó svara þurfi fjölmörgum spurningum, sem nefndarmenn hafa ekki haft hugmyndaflug til að spyrja eða vildu ekki flækja niðurstöðuna og skýringar sínar of mikið.

Mín niðurstaða er að hugmyndin sé góð og niðurstaðan einnig.  Ég ætla ekki að vera eins og vanþakklátur krakki og væla yfir því að hafa ekki fengið allan ísinn.  Bæði held ég að tillögurnar eigi eftir að taka breytingum og eins skil ég vel að ýtrustu kröfum verður aldrei náð.  Ekki að ég hafi átt neina kröfu í þessu máli, þó niðurstaðan sé mögulega sprottin upp af fræi sem ég sáði haustið 2008.

Rós í hnappagat HH

Ég held að Hagsmunasamtök heimilanna megi vera ánægð með að þessi niðurstaða hafi fengist.  Samtökin voru stofnuð til að berjast fyrir leiðréttingu stökkbreyttra húsnæðislána og á þeim tæpu 5 árum sem liðin eru fá stofnun samtakanna, þá hefur gengistrygging verði dæmd ólögleg, afturvirkni vaxta hefur verið hafnað af Hæstarétti (a.m.k. hvað varðar greidda vexti), farið var í alls konar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila, tímabundið bann var sett á nauðungarsölur (þó það hafi mátt vara lengur), ný neytendalánalöggjöf hefur verið sett og núna er komin úrræði til lækkunar á verðtryggðum lánum.  Ég efast ekki um að einhverjir hefðu viljað sjá lengra gengið í framangreindum úrræðu/málum og enn er þörf frekari úrræða fyrir tiltekna hópa, en veltum fyrir okkur hver staðan væri, ef Hagsmunasamtök heimilanna hefðu ekki staðið í þessu endalausa andófi.

Þó nú sé tími fagnaðar og þessi orrusta hafi loksins unnist, þá er stríðið ekki búið.

Almennar aðgerðir

Hafa skal fyrst í huga að um almenna aðgerð er að ræða.  Henni er ekki ætlað að bjarga þeim sem eru í alvarlegasta vandanum.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þóttist hafa komið með úrræði fyrir þann hóp, en annað hefur komið á daginn.

Sem almenn aðgerð, þá tel ég hana vel heppnaða í flesta staði.  Hún er með skýr markmið og þessi blöndun milli aðferða dregur úr áhættu ríkisins af henni.  13% leiðrétting er ekki fjarri upprunalegum kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna, sem voru á bilinu 15-16% í janúar 2009.

Þar sem aðgerðin er tvíþætt og með alls konar flækjur, þá er ekki ljóst hvað hún þýðir fyrir hvert og eitt heimili.  En skoðum þetta fyrst fyrir heimili sem ekki hefur notið annarra úrræða.  Fyrir heimili hátekjumannsins með 4 m.kr. á mánuði og 40 m.kr. húsnæðisskuld, þá gætu húsnæðisskuldir viðkomandi lækkað um 5,5 m.kr. eða 13,75%.  Væri þessi sami aðili með 20 m.kr. skuld, þá gætu skuldirnar lækkað um 20,5%.  Fyrir meðalheimili, þar sem fjölskyldutekjur eru 700.000 kr. á mánuði og skuldirnar eru þær sömu og að ofan, þá er lækkunin líka sú sama.  Þannig að ekki skiptir máli hvort heimilið er meðaltekjuheimili eða hátekjuheimili, hlutfall leiðréttingarinnar fer eftir skuldastöðunni, ekki eignunum. Frá báðum þessum tölum dragast síðan sérstakar vaxtabætur, en líklegra er að meðaltekju heimilið hafi fengið þær óskertar en hátekjuheimilið ekki, er það þá ályktað út frá því að líklegra sé að hátekjuheimilið eigi óskerta eign yfir viðmiðunarmörkum skerðingar. 

Heimili undir meðaltekjum munu ekki geta nýtt sér skattaafslátt af séreignarsparnaði upp að 500.000 kr. hámarkinu á hverju ári.  Miðað við 20 m.kr. skuld næði uppsöfnuð áhrif aðgerðanna hæst um 20,5% (án annarra atriða) og niður í að vera bara þessi flötu 13% fyrir þá sem ekki vilja/geta lagt í séreignarsparnað eða vilja ekki nota hann í lækkun lánanna.

Flækjurnar í aðgerðinni

Satt best að segja, þá skil ég ekki allar þessar flækjur sem lagðar eru til:

1. Sérstakar vaxtabætur:  Hvenær voru verðbætur taldar vextir í bókum ríkisins?  Sérstakar vaxtabætur voru án tekjuviðmiðunar, en skertust ef skuldlaus eign fór yfir 10 m.kr. hjá einstaklingi og 15 m.kr. hjá hjón/sambúðarfólki og féll niður við tvöfalda þá upphæð.  Hafa skal í huga að ástæður vaxtabótanna voru ekki síður tekjutap heimilanna, en hækkun vaxta.  Við erum að tala alls um 12,3 ma.kr. sem innheimtar voru með sérstökum skatti á fjármálafyrirtækin.  Líta verður svo á að hér sé verið að leggja til endurgreiðslu á þessum skatti til fjármálafyrirtækjanna á sama tíma og fjármálaráðherra talar um að eðlilegt sé að þau leggi meira til að ofurhagnaði sínum.  Þar sem stór hluti heimila fékk þessar 2-300.000 kr. árlega í tvö ár (á bara við álagningu 2011 og 2012), þá gerir þetta sjálfkrafa 4-600.000 kr. lægri lækkun samkvæmt 13% leiðinni.  13% leiðin er þá ekki lengur 13% leið heldur eitthvað allt annað og lægra.

2. Sértæk skuldaaðlögun og 110% leiðin:  Alls fóru 7,3 milljarðar í sértæka skuldaaðlögun og 46 ma.kr. í 110% leiðina samkvæmt upplýsingum í skýrslu vinnuhópsins.  Hvorutveggja var gert á kostnað fjármálafyrirtækja sem flest tóku yfir skuldir heimilanna með háum afslætti ("deep discount", eins og lesa má í ársskýrslum fjármálafyrirtækjanna).  Nú veltur það alfarið á því í hvaða röð lán röðuðust hvort þessar aðgerðir lækkuðu verðtryggt lán eða eitthvað annað lán.  Það verður því algjörlega happa og glappa hvort lánið sem á í hlut er verðtryggt húsnæðislán eða gengistryggt lán eða lán sem ekki gaf rétt til vaxtabóta.  Mér finnst út í hött að ríkissjóður ætli í reynd að endurgreiða fjármálafyrirtækjum leiðréttingar til lánþega, þegar þessi sömu fjármálafyrirtæki hafa ekki skilað til lánþega þeim afslætti sem fengust frá hrunbönkunum.

Ætli fjármálafyrirtækin að malda í móinn og segjast hafa skilað öllum afslættinum, þá benda þær tölur sem birtar eru í skýrslunni til annars. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur fram að bankarnir þrír hafi fengið verðtryggð húsnæðislán með 70,9 ma.kr. afslætti.  Hér eru taldir til innan við 54 ma.kr. vegna allra lána allra fjármálastofnana.  Hlutur ÍLS í þessari tölur er líklegast í kringum 8 ma.kr., þannig að hlutur allra lána allra annarra útlánastofnana er 46 ma.kr.  Skýtur nánast skökku við, að úrræði sem borgað var af hrunbönkunum, eigi að lækka leiðréttingu á lánunum lántaka, þegar bankarnir sitja á ekki undir 24 ma.kr. af þeim afslætti sem þeir fengu vegna verðtryggðra lána.  (Fyrir utan að ég tek þessa tölu upp á 70,9 ma.kr. ekki trúanlega, en það er annað mál.)  Vissulega var afslátturinn sem bankarnir fengu misjafn.  Arion banki fékk minnst en Íslandsbanki mest (samkvæmt upplýsingum frá bönkunum).

Hvernig sem litið er á þennan frádráttarlið, þá er ljóst að það væri í besta falli hroki af fjármálafyrirtækjunum að neita að greiða þann skatt sem á að borga fyrir niðurfærsluna.  Að hluta til er verið að bæta þeim upp leiðréttingar sem þegar hafa átt sér stað og verði búið til frumlán og leiðréttingarlán úr þeim lánum sem farið hafa í gegn um 100% leiðina og sértæka skuldaaðlögun, þá verður endurgreiðslan staðreynd.  Vona ég að menn hafi ekki hugsað framkvæmdina þannig.  Hins vegar er enn langur vegur að bankarnir hafi skilað til lántaka verðtryggðra húsnæðislána þeim afslætti sem þeir fengu frá hrunbönkunum.  Menn geta reynt að mótmæla þessari fullyrðingu og sagt að restin hafi farið í gengistryggð lán.  En málið er að þetta voru tveir aðskildir flokkar lána og ekki fæ ég séð að bankarnir hafi skaðast nokkurn skapaðan hlut á því að gengistryggðu lánin hafi ekki gefið eins mikinn hagnað og stjórnendur bankanna höfðu vonast til.  Nógur er hagnaðurinn fyrir það.

3. Greiðsluaðlögun: Ég veit ekki af hverju menn voru að hafa fyrir því að nefna þetta atriði.  Við greiðsluaðlögun lagðist ógreiddi hluti (sá greiðsluaðlagaði) mánaðarlegrar afborgunar ofan á höfuðstólinn nánast eins og verðbætur.  Engu máli skiptir fyrir lántakann eða lánveitandann hvort þessi hluti er gerður upp sérstaklega eða verður hluti af frumláninu.  Eftirstöðvar lánsins og þar með upphæð frumlánsins verður sú sama.

Spurningar um útfærslu

Þegar hafa komið fram nokkrar spurningar um útfærsluna.  Flestum er svarað nokkuð vel í Spurt og svarað skjali vinnuhópsins.  Nokkrar eru þó eftir:

1. Hver er staða þeirra sem ekki fá séreignarsparnað eða hafa ekki efni á því að spara 2-4% aukalega af tekjum sínum? Sumir eru jafnvel í þeim sporum að borga enga skatta, þó þessi upphæð bættist við tekjur þeirra.

2. Hver er staða þeirra sem eru fluttir út landi og skulda ekkert á Íslandi, en lentu í forsendubrestinum?  - Væri möguleiki að þeir fengju leiðréttinguna greidda út.  (Á ekki von á því að þetta sé stór hópur.  Tek fram að ég fell ekki undir þetta, þó ég búi ekki á Íslandi sem stendur.)

3.  Hvað með þá sem tóku óverðtryggð húsnæðislán eða breyttu lánum sínum í óverðtryggð á árunum 2007-2010 úr einhverju öðru lánsformi?  Nú er lítið mál að láta þessa leiðréttingu koma á lán óháð lánsformi, en undanþiggja þó þau lán sem falla undir dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán.

4.  Ekki er ljóst hvort  sérstöku vaxtabæturnar dragast frá 13% leiðréttingunni í öllum tilfellum þegar hún er undir 4 m.kr. eða hvort 13% leiðréttingin plús sérstöku vaxtabæturnar mega ekki samanlagt fara yfir 4 m.kr. - Legg ég til að síðari leiðin verði farin.

Vafalaust eru brenna fleiri spurningar á lesendum og geta þeir bætt þeim við í athugasemdir hér fyrir neðan eða á facebook.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband