Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Vangaveltur um skráningu Facebook á NASDAQ

Nýskráning Facebook á NASDAQ hefur vægast sagt farið vandræðalega af stað.  Mér finnst þó engin ástæða fyrir fjárfesta að örvænta.  Þetta eru bara fyrstu dagarnir.

Frá mínum bæjardyrum séð, þá er græðgin að drepa menn.  Fyrst það græðgin hjá stjórnendum Facebook að verðleggja bréfin upp úr öllu sem skynsamlegt er, þá er það græðgi hjá kaupendum sem vildu taka þátt í einhverju ævintýri, þ.e. enginn vildi missa af stóra vinningnum ef hann skyldi falla á þeirra tölu, og loks græðgi í þessum sömu kaupendum að hafa ekki á fjórum dögum (raunar innan við það þegar þetta er skrifað) fengið megagróða, þó búið hafi verið að vara þá við að þetta gæti farið í öfuga átt.

Ég spyr í fyrirsögn hvort dot com (.com) bólan sé að endurtaka sig.  Á vissan hátt er hún að gera það, en sá er munurinn, að þá fóru fyrirtæki almennt á markað á lágu gengi, ruku upp án innistæðu og lognuðust út af.  Núna er genginu stillt mun ofar en innistæða er fyrir og síðan lekur heilmikið loft úr blöðrunni, kannski frekar hægt að segja að menn hafi pumpað meira í dekkið en ventillinn þoldi og hann því byrjað að leka.  Annar munur er að Facebook er búið að vera til í fjölda mörg ár og verðmæti fyrirtækisins hefur því stöðugt verið að aukast.  Ég skil að vísu ekki alltaf hvers vegna verðmætið er að aukast, en ég er ekki með innsýn í viðskiptaáætlanir stjórnenda.  Hef þó alltaf álitið að fjármagn frá rekstri sýndi heilbrigði rekstrarins og síðan hlutfall vaxtagreiðslna og afborgana af þessari tölu, en ekki hagnaður eftir afskriftir og alls konar bókhaldslegar krúsidúllur.  Þessar tölur hefur mér sýnst ekki gefa tilefni til að halda að Facebook sé yfir 1.000 milljarða kr. virði a.m.k. um þessar mundir.  Þriðji munurinn, er að .com bólan byggði oft á hugmyndum fyrirtækja sem ekki voru komnar í framkvæmd.  Voru á teikniborðinu.  Facebook er þarna og ef fyrirtækið myndi krefjast 5 USD í árskriftagjald á ári, þá myndu líklegast flestir borga án umhugsunar.  Hver þolmörkin eru á þessu gjaldi eru, veit ég ekki, en ég held að jafnvel 5 USD á mánuði myndu ekki fækka mikið í hópnum.  Síðan gæti fyrirtækið verið með ókeypis þjónustu með lágmarksþjónustustigi og síðan áskriftarþjónustu með auknu þjónustustigi.

En hvað telja menn að hafi farið úrskeiðis?

Hroki er eiginlega það orð sem maður sér og heyrir oftast.  Hroki hjá stjórnendum Facebook, hroki hjá stjórnendum Morgan Stanley, hroki hjá stórum fjárfestum sem töldu sig eiga áskrift að IPO hagnaði.  En það var margt fleira.  Raunar segja menn að flest hafi farið úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis.

Fyrst má nefna að hækka útboðsverðið bara degi fyrir útboð, en það var gert til að freista fleiri eigenda til selja.  Ekki eru verðbréfamiðlarar á einu máli hvort það hafi verið nóg til að anna eftirspurn, en flestir eru á þeirri skoðun að um yfirskot hafi verið að ræða á báðum þáttum.

Næst er að tölvukerfi NASDAQ hökkti á fyrstu mínútunum eftir að sala á hlutabréfum Facebook hófst og vissu menn ekki hvort sölur höfðu gengið í gegn eða ekki.  Ástæðan mun hafa verið mikill fjöldi fjárfesta dró kauptilboð sín til baka í upphafi útboðsins.  Svo mikill að tölvukerfið réð hreinlega ekki við álagið.  Tók þvi talsverðan tíma að greiða úr þessu.  Er þetta enn ein vísbendingin um að menn hafi ætlað sér um of.

Þegar salan komst á skrið, þá rauk verðið fyrst upp um ýmist 4 eða 5 USD, en féll svo fljótlega aftur nánast niður í útboðsgengið.  Það varð til þess, samkvæmt erlendum fjölmiðlum, að Morgan Stanley greip inn í með kauptilboð á hærra gengi.  Það ýtti gengi tímabundið aftur upp, en jafnvel Morgan Stanley er ekki nógu öflugt til að halda uppi genginu, svo það endaði á "unch" eða á útboðsgenginu.

Fjórða klúðrið er að gefa mönnum of langan tíma til að hugsa sinn gang.  Útboðið var á föstudegi og því höfðu menn helgina til að hugsa málin.  Niðurstaðan var fall bæði mánudag og þriðjudag, þó eitthvað hafi bréfin rétt úr kútnum í dag.

Ekki má líta framhjá misvísandi upplýsingum um afkomu og framtíðartekjur.  Að slíkar upplýsingar séu á sveimi á útboðsdegi getur ekki annað en valdið óróa og ótta.  Hverju á að trúa?

Margir verðbréfaráðgjafar höfðu mælt gegn því að fjárfestar keyptu bréf á því útboðsgengi sem búist var við, þannig að hærra útboðsgengi var þessum aðilum enn síður þóknanlegt.  Það gæti hafa ýtt af stað skriðu kauptilboða sem dregin voru til baka á fyrstu mínútum útboðsins.

Loks verður að nefna að GM tilkynnti í síðustu viku að fyrirtækið ætlaði að hætta að auglýsa á Facebook.  Þessi tilkynning gat ekki komið á verri tíma.  Þarna var einn af stærstu auglýsendum í heimi að segja að Facebook væri lélegur auglýsingamiðill, en Facebook ætlar einmitt að ná í drjúgan hluta tekna sinna í gegn um persónumiðaðar auglýsingar.  Talandi um anticlimax, þá var þetta major.

Merkilegt er í þessari umræðu, að menn vilja draga stjórnendur Facebook og Morgan Stanley til ábyrgðar vegna lækkunar gengis hlutabréfanna.  Þetta er nú svo ótrúlegur barnaskapur, að ég átta mig ekki á svona kjánagangi.  Flestir sem keyptu í Facebook vissu af því að verðið var talið í hærri kantinn.  Menn áttu líka að vita að Facebook hefur ekki verið að sýna hagnað sem stendur undir þessu verði.  Margir kaupendur voru að versla til að bæta skrautfjöður í hattinn sinn, þ.e. geta sgat að þeir hafi keypt á útboðsdegi.  Einnig voru menn að kaupa í þeirri von að ná í skjótfenginn gróða.  Ætluðu að kaupa snemma áður en gengið ryki upp, þó ekki væri nema í stuttan tíma, og þá ætluðu menn að raka inn hagnaði.  Örlögin léku á þá og nú verða menn að sýna þolinmæði sé á annað borð rými fyrir slíkt.

Gleymum ekki hinni hliðinni á málinu.  Hvað ef gengið hefði rokið upp um 50% á útboðsdegi?  Þá hefðu þeir sömu og núna kvarta barið sér á brjósti og hrósað Morgan Stanley og Facebook fyrir velheppnað útboð.  Þeir hefðu náð því markmiði sínu að kaupa ódýrt og selja dýrt.  Eftir hefðu setið gríðarlegur fjöldi, sem hefði keypti í seinni bylgjunum (þegar þeir hefðu fengið glýju í augun yfir hækkun verðsins), með 10, 20 eða 30 USD tap.  Þá hefðu sem sagt fagmennirnir grætt og leikmennirnir tapað og allt verið í lagi.  En þegar fagmennirnir tapa, þá er maðkur í mysunni, þó í raun hafi bara hrokinn og græðgin haft menn undir.

Er eitthvað að óttast?

Ég er sannfærður um að verð hlutabréfa í Facebook á eftir að fara upp fyrir útboðsgengi.  Raunar langt upp fyrir.  Spurningin er ekki hvort heldur hvenær.  Þegar þetta er skrifað kl. 18.15 23.5.2012, þá er gengið 31,7493 USD og hefur hækkað um 2.47% frá opnum í dag.  NASDAQ segir að lægsta gengi dagsins hafi verið 30 USD og það hæsta 32,5 USD.  Svona á þetta eftir að sveiflast og kæmi mér ekki á óvart, að á einhverri stundu fari gengið niður í 20 - 25 USD, jafnvel neðar, en síðan endurheimti það smátt og smátt fyrri styrk.

Hvert er virði Facebook?  Ef miðað er við markaðsverð annarra tæknifyrirtækja, þá gæti gengið alveg farið niður í 6 - 7 USD.  Er þá miðað við tífaldan ætlaðan hagnað á hlut fyrir árið 2013.  Sé miðað við hærra hlutfall, þá hækkar verðið í samræmi við það.

Hlutabréfaviðskipti snúast mikið um að geta beðið.  Þurfa ekki að selja þegar gengið er lágt.  Þreyja Þorrann, eins og við myndum segja.  Og náttúrulega vona að fyrirtækið geri það líka.  Það var nefnilega ekki það sem gerðist í .com bólunni, þ.e. fyrirtæki hurfu af markaði.  Svo merkilegt sem það er, þá eru mörg þeirra enn á lífi.  Sum sem sjálfstæð fyrirtæki, en flest sem deildir/einingar innan öflugri fyrirtækja.

En aftur af hlutabréfaviðskiptum.  Ég var staddur í Bandaríkjunum mánudaginn 19. október 1987.  Sá dagur er oft kallaður "the Black Monday".  Þann dag gerðist það sem öllum þótti óhugsandi.  Tölvurnar tóku völdin og felldu Dow Jones hlutabréfavísitöluna um 500 stig.  Já, Dow Jones fór úr rúmum 2.700 stigum niður í rúmlega 2.200 stig á einum degi.  Enn þann dag í dag er þetta mesta hlutfallslega lækkun á einum degi.  (Kerfinu var breytt til að koma í veg fyrir að það endurtæki sig.)  Fjöldinn allur af hlutabréfaeigendum töpuðu háum fjárhæðum og sérstaklega man ég eftir umræðunni um eftirlaunasjóðina og síðan þá sem frömdu sjálfsmorð.

Hvar er Dow Jones núna?  Hvert er gengi fyrirtækjanna sem féll eins og steinn 19. október 1987?  Ég ætla svo sem ekki að skoða einstök fyrirtæki, en Dow Jones (DJIA) stendur í 12.400 stigum, þ.e. 460% hækkun frá lokagenginu 19. október 1987.  Ekki hafa öll fyrirtækin hækkað jafn mikið og ný fyrirtæki hafa komið inn í vísitöluna sem eiga þátt í risi hennar.

Málið er að í hlutabréfaviðskiptum er þolinmæði dyggð.  Raunar svo mikil að orðið hefur til nokkuð sem heitir "forever stock" eða eilífðarbréf.  Þetta eru hlutabréf fólk, sjóðir og fyrirtæki kaupa til að eiga og hafa tekjur af í gegn um arð.  Þá skiptir ekki máli hvers virði lutabréfin eru heldur hve mikinn arð þau gefa.  Upphafleg fjárfesting upp á 100 USD geta gefið í arðgreiðslur á löngum tíma margfalda þá upphæð og svo til viðbótar hækka bréfin yfirleitt í virði.  Ég hef trú á því að Facebook-bréfin gætu orðið að svona "eilífðarbréfum".  Þó svo að arðgreiðslur verði líklega ekki miklar til að byrja með, þá muni þær sækja í sig veðrið miðað við útboðsgengi.


Bannað að skerða, en samt hefur verið skert! - Hver á að borga það sem upp á vantar?

Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, segir samkvæmt frétt mbl.is að "engan vafa leika á að lífeyrisréttindi njóti eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar".  Vísar hún til dóma Hæstaréttar, úrskurði umboðsmanns Alþingis og hjá mannréttindadómstóli Evrópu.

Ástæða ummæla Þóreyjar er beiðni stjórnvalda um að lífeyrissjóðirnir komi meira til móts við skuldsettar fjölskyldur í landinu.  Þórey fullyrðir líkt og aðrir framámenn í lífeyrissjóðunum, að sjóðunum sé óheimilt að gefa eftir innheimtanlegar kröfur.  Vil ég leyfa mér að setja spurningamerki við þessa fullyrðingu, þar sem ég er þess nokkuð viss, að lífeyrissjóðirnir hafi einmitt verið á fullu í slíku gagnvart hinum og þessum lögaðilum.  Er ég nokkuð viss um, að sjóðirnir hafi tapað að óþörfum milljörðum, ef ekki milljarða tugum, á því einu að hafa gengið of snemma til samninga, hafa gefið eftir í samningaviðræðum og hafa ekki skilyrt samninga við að fá eignarhlut í þeim fyrirtækjum sem samið hefur verið við.

Hvenær er skerðing brot á stjórnarskrá og hvenær ekki?

Nú ætla ég ekki að deila við dómara Hæstaréttar, en vil samt velta því upp, hvernig standi á því að lífeyrissjóðir hafi gegn um tíðina ýmist aukið eða skert réttindi í samræmi við tryggingafræðilega stöðu sjóðanna.  Er þetta í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Einnig er tekið á þessu í 8. tl. 2. mgr. 27. gr. sömu laga.  Eina skilyrðið sem sett er varðandi slíkar skerðingar er að upplýsingar um þær "komi fram í samþykktum lífeyrissjóða og hljóti sem slíkar staðfestingu fjármálaráðuneytis í samræmi við 28. gr. laganna", eins og kemur fram í túlkun Fjármálaeftirlitsins frá 20.2.2007.  Í túlkun FME segir í 1. mgr.:

Nokkuð er um að áunnin réttindi sjóðfélaga lífeyrissjóða séu aukin eða skert um tiltekið hlutfall í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og að slíkar breytingar á réttindum komi ekki fram í samþykktum sjóðanna.

Hér er FME að setja ofan í við sjóðina að hafa ekki gert breytingar á samþykktum um leið og réttindi eru aukin eða skert, en ekki ekki að setja ofan í við þá að hafa brotið stjórnarskrána með því að skerða réttindi.  Ekki er minnst einu orði á stjórnarskrárvarin eignarréttindi.  Nei, það þykir sjálfsagt og eðlilegt að skerða réttindi, þegar lífeyrissjóðirnir hafa ekki náð að ávaxta eignir sínar, þannig að þær standi undir skuldbindingum.

Hvort er það, Þórey, mega lífeyrissjóðirnir skerða réttindi sjóðfélaga eða ekki?  Ef þeir mega ekki skerða réttindin, hvar í lögum nr. 129/1997 er það nákvæmlega tiltekið að það megi ekki og hvernig fer það saman við 39. gr. laganna?  Megi ekki skerða réttindin, hvernig stendur þá á því, Þórey, að lífeyrissjóðirnir hafa verið að skerða réttindi hægri vinstri nánast frá stofnun þeirra?  Hér eru nokkur dæmi frá síðustu árum:

Hægt væri að fara nokkur ár aftur í tímann og taka t.d. skerðinguna sem ýmsir lífeyrisþegar og sjóðfélagar þurftu að þola við sameiningu sjóðanna á síðasta áratug.

Spurningin sem vaknar við þetta er:  Hvers vegna eru þær skerðingar sem minnst er á í ofangreindum fréttum sjóðanna löglegar, en þær sem fælu í sér að koma til móts við skuldug heimili eru það ekki?  Ef réttindi eru varin af stjórnarskránni, af hverju má stundum skerða þau og stundum ekki?

Hver borgar brúsann?

Næsta atriði í ummælum Þóreyjar sem ég vil fjalla um, er sú fullyrðing (sem ég efast ekki um að sé rétt) að um 652 milljarða vanti inn í lífeyrissjóðakerfið til að sjóðirnir geti staðið við skuldbindingar sínar.  Eignir sjóðanna eru eitthvað í kringum 2.200 ma.kr., þannig að 652 ma.kr. nema því rétt um 30% af þeirri tölu.  Eins og staðan er um þessar mundir vantar lífeyrissjóðin 3 krónur af hverjum 13 sem þeim er ætlað að greiða út eða tæp 23%.  Þetta er ekkert smáræði.

Í færslunni Kynslóðatilfærsla lífeyriskerfisins er frá þeim YNGRI til þeirra ELDRI! fjalla ég um það sem ég tel vera mesta vanda lífeyrissjóðakerfisins og jafnframt hvernig er verið að svína á framtíðarlífeyrisþegum.  Þórey Þórðardóttir tók fram í dag, að almenna lífeyrissjóðakerfið vantar 159 ma.kr. til að standa við skuldbindingar sínar.  Hvaðan eiga þessir 159 ma.kr. að koma?

Forkólfar lífeyrissjóðakerfisins eru búnir að teikna upp björgunaráætlun.  Launþegar og launagreiðendur framtíðarinnar eiga að borga.  Til þess að Ásmundur Stefánsson geti fengið lífeyrinn sinn (hann varð 67 ára í mars 2012), ef hann kýs að byrja töku 67 ára, þá þarf að taka pening sem greitt var inn fyrir einhvern annan.  Í tilfelli Ásmundar er erfitt að átta sig á því hver borgar brúsann, en af lífeyrinum sem hann fær frá árum sínum á almennum vinnumarkaði (m.a. starfsmaður og forseti ASÍ), þá þurfa aðrir sjóðfélagar að standa undir 10% af lífeyrinum hans, hann kom í stutta stund við á Alþingi (varaþingmaður) og fyrir það borga skattgreiðendur, þá vann hann talsvert í bankakerfinu, en lífeyrissjóður bankamanna er í góðum málum, þannig að hann stendur undir útgjöldum vegna Ásmundar.

Sé viðkomandi lífeyrisþegi ríkisstarfsmaður og hefur greitt í LSR alla sína starfsævi, þá vantar aftur mun meira.  Eignir opinberu sjóðanna (þ.e. sjóðanna sem eru með ríki eða sveitarfélög sem bakhjarla) eru  um 1/4 hluti af öllum eignum lífeyrissjóðanna, þ.e. um 550 ma.kr.  Samkvæmt tölum Þóreyjar vantar opinberu sjóðina um 490 ma.kr. til að standa við skuldbindingar eða um 47%.  Það þýðir að þegar fyrrverandi opinber starfsmaður er að fá greiddan út lífeyrinn sinn kemur nærri því önnur hver króna frá einhverjum öðrum.  Vissulega skuldar ríkið LSR háar upphæðir, en kerfið er þannig að ekki er á hverju ári greidd endanleg upphæð fyrir alla inn í sjóðinn, heldur breytist talan ár frá ári vegna launaþróunar eftirmanna.

Eitt er samt alveg á hreinu:

Fæstir sem eru að taka út lífeyri í dag eiga fulla innistæðu fyrir honum í sjóðnum sínum!

Þetta vita forkólfar lífeyriskerfisins mæta vel, en hafa ekki viljað tala of mikið um það opinberlega.  Menn hnýta í að tekjutengingarnar séu miklar, en fólk um þrítugt í dag mun ekki fá neitt af viti út úr lífeyrissjóðnum sínum, þegar þar að kemur, verði ekki mikil breyting á.

Lausn forkólfa lífeyriskerfisins er ekki að viðurkenna, að eldri kynslóðirnar eigi ekki fyrir þeim lífeyri sem þeim er ætlaður.  Nei, í staðinn eiga þeir sem eru á vinnumarkaði að greiða aukalega í sjóðina svo hinir sem eru að fá meira en sjóðirnir hafa efni á, geti fengið það sem þeim var lofað.  Málið er bara að menn gleymdu nokkrum mikilvægum hlutum þegar þessi loforð voru gefin.  Eitt var að hér gæti komið eitt stykki efnahagshrun, annað að fjárfestingastjórar lífeyrissjóðanna eru misgóðir í að ávaxta fé þeirra, þriðja að launaþróun hafi verið á þann hátt, að launþegar ávinni sér meiri rétt samkvæmt kerfinu, en samkvæmt inngreiðslum.

Já, lausn "gamlingjanna" í forystusveit lífeyriskerfisins undanfarin ár (Þórey er svo ný í starfi að hún telst ekki til þessa liðs) var að búa til gríðarlega kynslóðatilfærslu frá yngri sjóðfélögum til hinna eldri.  Þessi tilfærsla byrjaði fyrir rúmum 7 árum, en fram að þeim tíma greiddi launþegi á almennum markaði og launagreiðandi hans jafnvirði 10% launanna í iðgjald.  Á tveimur árum var þetta hlutfall hækkað um 20% án þess að réttindaávinningur breyttist nokkuð. Nei, þessu 20% viðbótarframlagi var fyrst og fremst ætlað að leiðrétta skekkjuna sem komin var í kerfið.  Lesa má nánar um þetta í  skýrslu sem Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2006 og fjallar um lífeyriskerfið frá ýmsum hliðum.

Of langt mál er að fara í gegn um allt sem gert hefur verið eða ætlunin er að gera til að "laga" lífeyriskerfið.  Sanngjarnast og eðlilegast er að gera leiðréttingu sem virkar þannig að allir taki á sig högg, en þó mismikið.  Þannig lögðu Hagsmunasamtök heimilanna til, þegar verið var að ræða um þátttöku lífeyrissjóðanna í björgun skuldsettra heimila, að þeim sem væru byrjaðir töku lífeyris væri hlíft við skerðingu.  Vandi sjóðanna sem við stöndum frammi fyrir vegna framtíðarskuldbindinga er miklu stærra verkefni og aldrei verður hjá því komist að láta þá sem byrjaðir eru töku lífeyris taka þátt í því.  Það má aftur gera þannig, að skerðingin verði enginn við ákveðinn aldur, en aukist síðan stig af stigi eftir því sem sjóðfélaginn á lengra eftir í lífeyrisaldurinn.  Í staðinn væri hægt að láta launþegana njóta þess, sem átti að fara í hærri iðgjöld, eða skipta því á milli launþega og launagreiðenda.

Spurningin var:  Hver borgar brúsann?  Svarið við því er kannski annað en lesa má úr umfjölluninni að ofan.  Verði kerfið leiðrétt framvirkt með hærri iðgjaldagreiðslum, þá borga launagreiðendur framtíðarinnar brúsann.  Slíkt mun gera íslenskt atvinnulíf verr búið til samkeppni við erlend fyrirtæki.  Slíkt mun líka draga úr hæfi atvinnulífsins til að greiða hærra kaup.  Ætlunin er nefnilega að fara með iðgjöldin upp í 15,5% frá og með 1. janúar 2020 og ekki er víst að það verði endastöðin.  Þetta þýðir nánast að hækki laun um 6.000 kr. þá renna 1.000 kr. (sem launþeginn og launagreiðandinn skipta á milli sín) til lífeyrissjóðsins í formi iðgjalds.  Þessi ákvörðun um hækkun iðgjaldsins í 15,5% var tekin fyrir hrun, þannig að nú þarf að bæta fyrir það líka, líklegast með ennþá hærra iðgjaldi.  Og hvað ef það verður annað hrun?

Verði kerfiðhins vegar leiðrétt "afturvirkt", þá mun sjóðfélaginn/lífeyrisþeginn borga brúsann og síðan að einhverju/talsverðu leiti skattgreiðendur.  Sem sjóðfélagi í nokkrum sjóðum, m.a. LSR, þá tel ég það vera sanngjarnari lausn.  Vissulega þarf að finna einhverja lausn á stöðu fólks í opinberu sjóðunum, þannig að hreinlega yrði reiknað afturvirkt hver réttindi sjóðfélaga hefðu verið, ef um eðlilegan réttindaávinning hefði verið að ræða og síðan vega á einhvern hátt upp launamun.  Ekki er víst að þetta kosti neitt að ráði, svo merkilegt sem það er, a.m.k. ekki við þessar ótrúlega ósvífnu tekjutengingar sem eru í almannatryggingakerfinu í dag.

Hvernig sem á allt er litið, þá borga annað hvort launagreiðendur framtíðarinnar eða skattgreiðendur framtíðarinnar brúsann að mestu leiti.  Kannski er lausnin að skipta reikningum í þrennt, þ.e. hækka iðgjöld eitthvað, skerða áunnin réttindi að hluta og síðan láta skattgreiðendur (sem eru í báðum hópum) taka á sig restina með ýmist hækkun skatta eða sparnaði í ríkisrekstri.


mbl.is Lífeyrisréttindi varin í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboðin eru skýr: Ekki greiða í lífeyrissjóð nema þú ætlir að búa heima hjá þér á efri árunum - Endurbirt færsla

Í tilefni orða Ásmundar Stefánssonar, þá þykir mér við hæfi að endurbirta færslu mína, Skilaboðin eru skýr: Ekki greiða í lífeyrissjóð nema þú ætlir að búa heima hjá þér á efri árunum, sem ég birti 28. mars sl.

Hér er færslan:

Eftir að hafa lesið skýringu Tryggingastofnunar ríkisins á kostnaðarþátttöku lífeyrisþega vegna dvalar á sjúkrastofnunum eða dvalar- og hjúkrunarheimilum, þá eru skilaboðin alveg skýr:

Ef þú sérð fram á að þurfa að nýta þér þjónustu sjúkrastofnunar, dvalar- eða hjúkrunarheimilis á efri árum, borgar sig ekki að greiða í lífeyrissjóð, eyddu peningunum strax eða gefðu hann afkomendum þínum

Lífeyriskerfið miðar við að sjóðfélagi fái greiddan lífeyri sem nemur 56% af mánaðarlaunum.  Í fréttatilkynningu frá TR kemur fram að hver íbúi á dvalar- eða hjúkrunarheimili greiði með tekjum sínum allt að 311.741 kr. á mánuði til viðkomandi heimilis umfram fyrstu 65.005 kr. eftir skatta.  Það sem upp á vantar 689.417 kr. kemur frá ríkinu.  Þessar 311.741 kr. er örugglega eftir skatta, þannig að til að fá eitthvað umfram 65.005 kr. á mánuði í sinn hlut, þá þarf viðkomandi að vera með 376.746 kr. á mánuði í lífeyri eftir skatta eða 541.420 kr. áður en skattar eru teknir af miðað við núverandi skattkerfi.  Nú til að fá 541.420 kr. í lífeyrisgreiðslur, þá þarf viðkomandi að hafa yfir 966.000 kr. á mánuði í laun meðan viðkomandi er á vinnumarkaði, þ.e. 541.420/0,56 = 966.821.

Sá sem er með launatekjur milli 116.000 - 966.000 kr. og dvelur á sjúkrastofnun, dvalar- eða hjúkrunarheimili sér ekki eina krónu af þeim iðgjöldum sem viðkomandi greiðir í lífeyrissjóð af þessum allt að 850.000 kr.  Bara til að skilja um hvaða upphæð er að ræða, þá er 12% af 844.000 = 102.000 kr. á mánuði eða  1.224.000 kr. á ári og 42.840.000 kr. á starfsævinni miðað við 35 ára starfsævi.  Sé starfsævin 40 ár fer upphæðin upp í tæplega 49 m.kr. og 55 m.kr. fari starfsævin upp í 45 ár.  Skilaboðin eru skýr:  Eingöngu þeir allra tekjulægstu eiga að leggja fyrir í lífeyrissjóð.  Allir aðrir koma verr út úr því en að eiga peninga undir kodda.  (Allar tölur eru núvirtar.  56% talan er fengin úr lögum og út frá henni er 3,5% árleg raunávöxtunarkrafan reiknuð.)


mbl.is Segist vera með samviskubit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagt til að 26 atriði fari fyrir dóm, en ekki það mikilvægasta

Ég hef loksins komist í gegn um álitsgerð lögmannanna fjögurra um þau álitamál sem bera þarf undir dómstóla um áður gengistryggð lán.  Búið er að bíða lengi eftir þessu áliti og það segir okkur í stuttu máli að við þurfum að bíða lengur.

Í álitsgerðinni eru talin upp 26 atriði sem lögfræðingarnir fjórir telja að fá þurfi á hreint áður en hægt er að fara í endurútreikning áður gengistryggðra lána.  Ég hef tvennt við þetta að athuga:

1.  Fjármálafyrirtækin eru þegar búin að afskrifa í bókum sínum háar upphæðir vegna dómsins frá 15. febrúar 2012.  Þetta var fært til afskriftar á árinu 2011!  Hvernig, í fyrsta lagi, geta bankarnir yfirhöfuð vitað hver þessi tala er, þegar reka þarf allt að 26 sjálfstæð mál til að finna út hvernig á að endurreikna lánin, og í öðru lagi, hvernig geta þeir fært eitthvað sem afskriftir árið 2011, sem ekki er ljóst fyrr en í fyrsta lagi síðla árs 2012 og jafnvel mun síðar, hvernig endar?

2.  Hvers vegna er ekki spurt um gildi þess að Seðlabankavextir eigi yfir höfuð að gilda?  Ég hef nokkrum sinnum fært rök fyrir því að Hæstiréttur hafi í máli nr. 471/2010 verið leiddur að rangri niðurstöðu.  Að niðurstaðan um Seðlabankavexti hafi verið í andstöðu við lögin sem rétturinn dæmdi eftir.  Þá er ég að vísa til þess að 3. og 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 gilda þá aðeins að ekki sé kveðið á um annað í samningum, venjum eða lögum.  Staðreyndin er sú að samningarnir kveða á um vextina, venjan er að greiða vexti sem eru með álag ofan á fjármögnunarvexti og lagaákvæðin eru  nokkur sem fjalla um rétt neytenda.

Mér finnst atriði 2 vera mikilvægasta ágreiningsefnið sem skera þarf úr um.  Þ.e. var niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 röng.  Meðan úr því hefur ekki fengist skorið, þá skiptir niðurstaðan varðandi fjölmörg af þessum 26 atriðum engu máli.

Atriðin sem skoða þarf að mati lögfræðinganna

Mörg af þeim atriðum sem lagt er til að séu skoðuð er sparðatíningur.  Greinilegt er að fjármálafyrirtækin ætla ekki að nota heilbrigða skynsemi á nokkurn skapaðan hlut heldur skal allt fara fyrir dóm.  Gott og blessað, látið reyna á þetta allt.

En hér eru atriði eins og ég skil þau:

  1. Hvenær hætti skuldari að vera í góðri trú um að samningsvextir giltu.
  2. Hvort á að greiða samningsvexti af íslenskum höfuðstóli eða gengistryggðum höfuðstóli.
  3. Hefur neytendavernd verið borin til grafar eða virkar hún enn í íslenskum lögum.
  4. Hvenær telst skuldari í skilum, þegar hann hefur nýtt sér úrræði fjármálafyrirtækis.
  5. Telst það fullnaðarkvittun ef vöxtum hefur verið bætt á höfuðstólinn.  (Bara lögfræðingum fjármálafyrirtækja dettur í hug að svo sé ekki.)
  6. Eiga kúlulánþegar annan og minni rétt en aðrir.
  7. Breytist réttarstaða skuldara hafi hann lent tímabundið í vanskilum en síðan gert allt upp.
  8. Gilda ákvæði laga nr. 151/2010 um vanskil og ýmislget fleira.
  9. Þarf að eltast við upphæð hverrar einustu höfuðstólsgreiðslu og gera samanburð milli gengistryggðrar raungreiðslu og reiknaðrar greiðslu ógengistryggðs láns.
  10. Hvernig skal fara með lán sem voru í vanskilum áður en þau voru endurútreiknuð skv. lögum nr. 151/2010.
  11. Fordæmisáhrif fyrir lögaðila.
  12. Voru einhverjir skuldarar sem ekki misskildu að samningsvextir ættu ekki að gilda.  (Mönnum datt sem sagt í hug að einhverjir lántakar vissu fyrirfram að vextir lánanna sem þeir tóku væru lögleysa.)
  13. Gæti einhver kröfuhafi átt meiri rétt en aðrir vegna mismunandi lánstíma.
  14. Skiptir máli hver trygging lánsins var.
  15. Virka viðbótarhöfuðstólsgreiðslur eins og skuldarar reiknuðu með.
  16. Eru neytendur alltaf minnimáttar í kröfusambandinu.
  17. Eiga allir sem greitt hafa lánin upp endurheimturétt.
  18. Hvað með þegar greiddir samningsvextir eru hærri en reiknaðir vextir SÍ.  (Ég tel þetta atriði vera kýrskýrt miðað við að niðurstaða dóms nr. 471/2010 standist.  Reikna skal tvær vaxtalínur (önnur er raunveruleg) og á hverju gjalddaga gilda lægri vextirnir.)
  19. Möguleiki á skuldajöfnun inn á nýjan samning um upprunalega lánið/endurfjármögnun þess.
  20. Hvað á að gera við ofgreiddar höfuðstólsgreiðslur.
  21. Endurheimturréttur þegar Drómi á í hlut.
  22. Gilda ákvæði 12.gr. vaxtalaga um að eingöngu megi vaxtavaxtareikna ef meira en 12 mánuðir eru milli gjalddaga.
  23. Hvaða fyrningarsjónarmið gilda
  24. Hvað með réttmætar væntingar.  (Ég tel Hæstarétt svara þessu mjög greinilega í dómi 600/2011.  Fjármálafyrirtækið skal bera hallann á þessu.)
  25. Áhrif dóms 600/2011 á lög nr. 151/2010 um meðhöndlun dráttarvaxta og rétt til skuldajöfnunar.  (Hluta til sama spurning og áður.)
  26. Gildi endurútreiknings á innheimtu, ef hann leiðir til hærri eftirstöðva en upphafleg lánsfjárhæð.  (Um hvað snýst þetta eiginlega?  Endurútreikningur samkvæmt niðurstöðu dómsmála getur auðveldlega endað í hærri tölu en upphafleg lánsfjárhæð af mjög mörgum gjörsamlega skiljanlegum ástæðum.)

Í kafla IV er síðan fjallað nánar um málsástæður.

Hér eru 26 atriði og samt vantar.  Ég veit um minnst tvö, þ.e. þetta sem ég nefndi í upphafi og síðan um gildi gömlu 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 fyrir setningu laga nr. 151/2010.  Hún hljómaði nefnilega á annan hátt og gerði hreinlega ráð fyrir að ekki mætti vaxtareikna vangreiðslur, þ.e. skuldari átti aldrei að greiða lánveitanda vexti vegna rangrar greiðslu sem þó var í samræmi við það sem var rukkað.  Sú krafa var eingöngu á lánveitanda vegna ofgreiðslu.

Nokkrar áhugaverðar hártoganir

Greinilegt er á næsta atriði sem ég ætla að fjalla um, að fjármálafyrirtækin sendu inn til athugunar alls konar hártoganir.  

  1. Í hvaða röð á að ráðstafa greiðslu, þ.e. fyrst inn á vextina eða til lækkunar höfuðstóli.  (Ég hélt að greiðslutilkynning greindi mjög skýrt frá því hvort er hvað og því út í hött að breyta því .)
  2. Verða eftirstöðvar einungis leiðréttar til framtíðar. - Hæstiréttur er mjög skýr um þetta:    "Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar."
  3. Er gengistryggði hluti greiðslu ígildi verðbóta.  - Er ekki í lagi með ykkur?
  4. Er fullnaðarkvittun vaxta fullnaðarkvittun.  - Mikið geta menn teygt sig langt í að snúa út úr.  Meðan greiddir vextir eru lægri en reiknaðir SÍ vextir fyrir gjalddaganna, þá verður neytandinn ekki krafinn um hærri upphæð.  Sé hún hærri, þá á hann endurkröfurétt.

Framkvæmd endurútreiknings miðað við dóm 600/2011

Ég tel einfaldast og réttast að framkvæma endurútreikning þannig að á hverjum gjalddaga eru aðrar greiðslur en vextir dregnir frá eftirstöðvum höfuðstóls (sbr. ákvæði laga 151/2010).  Nýjar eftirstöðvar eru því eldri eftirstöðvar mínus mismunurinn á heildargreiðslu og vöxtum samkvæmt greiðslutilkynningu (og hugsanlega tilkynningargjaldi).  Á hverjum gjalddaga eru reiknaðir vextir samkvæmt vaxtatöflu SÍ fyrir viðkomandi gjalddaga miðað við eftirstöðvar fyrir greiðslu á ógengistryggðu láni.  Jafnframt er tilgreind vaxtaupphæð sem kom fram á greiðslutilkynningu.  Lægri vaxtatalan gildir alltaf fyrir hvern gjalddaga.  Þetta gildir þar til kemur að þeim gjalddaga, þegar SÍ vextir gilda sannanlega.  Eftir það gilda SÍ vextir.

Í nokkrum tilfellum mun það gerast að SÍ vextir á ógengistryggðan höfuðstól eru lægri en samningsvextir á gengistryggðan höfuðstól.  Í þeim tilfellum skal mismunurinn dagvaxtareiknaður til uppgjörsdags og uppsöfnuð upphæð allra slíkra tilfella dregin frá eftirstöðvum.

Vissulega eru einhverjir sem vilja reikna samningsvexti af ógengistryggðri upphæð. Dómur 600/2011 gefur ekki tilefni til slíks, þar sem hann segir að SÍ vextir eigi að gilda frá útgáfudegi, en þó megi ekki rukka lántaka um hærri vexti aftur í tímann en hann greiddi í samræmi við útgefnar greiðslutilkynningar.


mbl.is Bíða þarf niðurstöðu fleiri dóma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vefurinn Iceland Guide

Fyrir nokkrum dögum tók ég við vefnum Iceland Guide (www.icelandguide.is) af stofnanda hans, Láru Hönnu Einarsdóttur, leiðsögumanni, þýðanda  og ofurbloggara.  Lára Hanna hefur haldið honum úti í 6 ár og fannst hún ekki lengur hafa tíma til að sinna honum, eins og hún vildi.  Varð það úr að ég ákvað að taka við honum (af því að ég hef svo lítið að gera Smile) og gerðist það formlega í þessari viku.

Vefurinn Iceland Guide hefur hingað til haft tvíþættan tilgang, þ.e. að gefa leiðsögumönnum kost á að koma sér á framfæri og gefa erlendum (og innlendum) ferðamönnum möguleika á að finna leiðsögumenn í sérstök verkefni.  Slík verkefni hafa verið mjög fjölbreytt og verða vonandi mun fjölbreyttari í framtíðinni.

Með nýjum eiganda verða gerða breytingar sem vonandi munu falla í góðan jarðveg.  Vefurinn mun áfram sinna þessu frumhlutverki sínu, en á næstu vikum, mánuðum og árum verður þjónustan á vefnum víkkuð út sem hér segir:

  1. Byrjað verður á því að fjölga eins og hægt er þeim leiðsögumönnum sem kynna þjónustu sína á vefnum.
  2. Leitast verður við að vera með fyllri upplýsingar um leiðsögumennina og auðvelda ferðamönnum að finna þann sem nákvæmlega hentar þeim.  Þannig verður með fyllri lýsingu veittar nákvæmari upplýsingar um sérsvið leiðsögumannsins, hverjar eru kjörlendur hans ef svo má segja, að fuglaskoðarinn eigi auðveldara með að finna sérfræðinginn á því sviði, veiðimaðurinn sinn sérhæfða leiðsögumann, göngugarpurinn komist í samband við annan göngugarp, Rússinn finni leiðsögumann sem talar rússnesku, Japaninn þann sem talar japönsku, o.s.frv. 
  3. Fljótlega verður byrjað að auka upplýsingagjöf um Ísland og samhliða því verður leiðsögumönnum gefinn kostur á að tengja sitt nafn við tiltekna efnisþætti.  Þannig eru einhverjir leiðsögumenn sem eru sérfræðingar í Lónsöræfum, þá geta þeir óskað eftir það nafninu þeirra verði bætt inn sem einmitt sérfræðingi um svæðið.  Með þessu mun ferðamaðurinn geta pantað stutta leiðsögn eða langa um Lónsöræfin einmitt hjá þeim aðila sem veit allt um svæðið.  Í öðrum tilfellum er kannski ferðaþjónustuaðili sem sérhæfir sig í tiltekinni þjónustu, eins og ísgöngu, ísklifri eða snjóbílaferð upp á jökul, þá geta viðkomandi fengið að tengja sig við umfjöllun um svæði, þar sem slík þjónusta er í boði.
  4. Sem afleiðing af atriðum 2 og 3, þá verður opnað fyrir auglýsingar á vefnum frá aðilum sem eru að veita þjónustu við ferðamenn.  Hvort það eru ferðir, leiðsögn, útleiga á bílum, gisting, verslun, flug eða hvað það nú er sem ferðamaðurinn gæti haft áhuga á.
  5. Þegar fram líða stundir er hugmyndin að koma á fót vefverslun, bókunarþjónustu og fleira í þeim dúr.
  6. Leiðsögumenn sem það vilja munu geta fengið afnot af netfangi með endingunni @icelandguide.is.  Skilyrði fyrir slíku er að viðkomandi sé skráður hjá Iceland Guide greiði árlegt gjald vegna netfangsins.

Svo það sé á hreinu, þá er verið að gera allt sem hægt er til að selja ferðamönnum þjónustu, en mikilvægt er að sú þjónusta sé virðisaukandi fyrir þá.  Fjölskylda sem ákvað fyrir mörgum árum eða stuttum fyrirvara að koma til Íslands á að fá eins mikið út úr ferðinni og hægt er, en jafnframt þarf að kveikja svo hjá þeim áhugann að Ísland verði efst á lista yfir áhugaverða staði um ókomna framtíð.

Hver einasti ferðaþjónustuaðili hefur sínu hlutverki að gegna svo hægt sé að gera Ísland að draumalandi ferðamannsins.  Allt frá flugfélaginu eða ferjunni til þess sem hleypir ferðamanni í spreng á salernið eru hlekkir í keðjunni sem ferðamaðurinn les sig eftir.  Markmiðið er að gera Iceland Guide að einum af sterkustu hlekkjum keðjunnar og nota einmitt hina margþættu merkingu orðsins Guide, m.a. leiðsögumaður, leiðbeiningar, leiðbeinandi, upplýsingaveita og handbók svo fátt eitt sé nefnt.  Vanti ferðamanninn upplýsingar, er markmiðið að þær verði að finna á Iceland Guide.  Vanti ferðamanninn að kaupa þjónustu, er markmiðið að hann finni hæfan þjónustuaðila á Iceland Guide, þó ekki sé það markmið Iceland Guide að vera þjónustuveitandinn heldur bara mjög gott millistykki.

Því vil ég bjóða leiðsögumönnum og ferðaþjónustuaðilum að skrá sig og þjónustu sína hjá okkur með því að senda tölvupóst á icelandguide@icelandguide.is.  Gjald er tekið fyrir skráninguna.

--

Svona að lokum fyrir viðskiptavini mína á sviði upplýsingaöryggismál, þá verður engin breyting á þeirri þjónustu.


visir.is tilkynnt sem árásarsíða

Ég ætlaði áðan, eins og ég geri oft á dag, inn á visir.is.  Þá fékk ég meðfylgjandi tilkynningu á skjáinn hjá mér.

visir-aras.jpg

Vissulega bregður manni, þegar svona tilkynningar birtast um íslenskar síður og þá sérstaklega fréttasíður.  Er tilkynningin fals eða er þetta sannleikur?  Sé þetta sannleikur, hvort var ráðist inn á vef visir.is eða er það hluti af starfsháttum að safna persónulegum gögnum?

Tekið skal fram, að ég tel visir.is hvorki vera sekan um alvarlegustu möguleikana sem koma fram í tilkynningunni, þ.e. að planta forritum til að gera árásir á aðra né fyllilega saklaukan af því að safna persónulegum gögnum.  Raunar er þetta síðara orðin svo almenn venja, að mér er til efs um að nokkur vefur sem hefur náð verulegri útbreiðslu safni ekki einhverjum upplýsingum um notendur sína.  Ákaflega leiðigjörn venja.  Verstir eru vefir á borð við Facebook og Google, en þessi fyrirtæki ryksuga upp allar upplýsingar sem þau geta mögulega nálgast um notendur sína í gegn um notkun þeirra.

Ef visir.is er sekt um að safna verulegum persónulegum upplýsingum um notendur, þá er það óleyfilegt og ólöglegt nema viðkomandi notandi hafi samþykkt slíka skilmála.  Vissulega má segja að upplýsingarnar séu ekki persónugreinanlegar í öllum tilfellum, en ekki þarf mikið til að gera þær persónugreinanlegar.  T.d. er nóg að notandi sæki póst um vefviðmót, fylli inn upplýsingar í form eða skrái sig inn á samskiptasíðu á borð við Facebook til að sniffari finni upplýsingar sem geta tengt einstakling við IP tölu og þar með þau samskipti sem eiga sér stað.

En til hvers ætti visir.is eða einhver annar hér á landi að nota svona upplýsingar?  Markaðssetning er málið.  Google er líklegast komið lengst í þessari vitleysu.  Fyrirtækið geymir allar upplýsingar um leit frá gefinni IP tölu.  Þannig er aðili sem leitar af samsærispælingum um Illuminati eða Rothschild, þá má búast við því að næst þegar viðkomandi leitar að samsæriskenningum almennt komi frekar upp síður um einmitt þessa aðila. 

En ekki bara það.  Google ads eru út um allt á vefnum.  Þær eru persónumiðaðar.  Ég fer oft inn á síðu með Google Ads auglýsingum.  Þó síðan sé ensk, þá fæ ég oftast íslenskar auglýsingar.  Nema um daginn, þá fékk ég danskar auglýsingar.  Ástæðan:  Jú, ég hafði verið að fletta mjög mikið nokkrum dönskum vefsíðum og skoða þar hluti.

Ég vona að visir.is nái að hrista af sér árásarstimpilinn og hreinsa sig af þeim áburði sem í honum fellst.  En myndi líka gjarnan vilja að fyrirtæki hætti að njósna um mig, þó ég heimsæki vefsvæðin þeirra eða noti þjónustu sem þau segjast bjóða ókeypis.  Mér finnst það ekki vera ókeypis þjónusta, þegar ég borga fyrir hana með því að safnað er um mig upplýsingum sem mér gjörsamlega ómögulegt að vita hverjar eru.


1. maí haldinn hátíðlega í 90. sinn á Íslandi

Í dag er 1. maí, frídagur verkalýðsins.  Á þessum degi hafa fyrst verkalýður og síðan launþegar safnast saman um allan heim í yfir 120 ár, misjafnlega lengi í hverju landi.  Hér á landi var dagurinn fyrst haldi hátíðlegur 1923.  Að því gefnu að ekki hafi samkomur fallið niður í millitíðinni, þá er dagurinn haldinn hátíðlegur hér á landi í 90. skipti frá upphafi.  Já, þetta er í 90. skipti sem launafólk kemur saman á þessum degi til að krefjast úrbóta.  Oft hefur það gengið eftir, en síðustu árin hafa orð verkalýðsleiðtoganna verið innantómt hjóm, enda eru þeir flestir orðnir tannlausir og hugsa, að því virðist, meira um eigin velferð en velferð umbjóðenda sinna.

Hátíðarhöldin í ár fara fram í skugga þeirrar kreppu sem hér skall á fyrir fjórum árum.   Kreppunni hefur fylgt meira atvinnuleysi en við Íslendingar erum vanir frá því að flestir núlifandi landsmenn komust á vinnumarkað.  Fleiri einstaklingar og fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að ná endum saman.  Fólk á í vandræðum með að skaffa mat á borðið fyrir sig og börnin sín.  Fjölskyldur út um allt land, en þó sérstaklega á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, eru að missa húsnæðið sitt og er bara vísað á götuna, þar sem félagsleg úrræði skortir.  Kaupmáttarskerðing, hækkun greiðslubyrði lána og lækkun eignaverðs er veruleiki nánast allra. Greiðsluaðlögun og gjaldþrot er veruleiki allt of margra.  Og hvar er verkalýðshreyfingin þegar öllu þessu fer fram?

Er von að sé spurt.  Allt of margir upplifa verkalýðshreyfinguna þannig, að hún hafi hlaupið í felur eða tekið afstöðu gegn almenningi.  Það voru forvígismenn Alþýðusambandsins sem lögðust á haustmánuðum 2008 gegn því að verðbætur á lán væru teknar úr sambandi.  Aftur og aftur hafa forvígismenn launþega talað gegn umbótum og úrræðum vegna þess að þeir þjóna of mörgum herrum.

Höfum í huga á þessum degi, þeim fjórða sem haldinn er hátíðlegur í skugga núverandi kreppu, að þau úrræði, sem fólki hefur staðið til boða, hafa nær öll verið á forsendum þeirra sem settu þjóðina á hliðina, þ.e. fjármálafyrirtækjanna og fjármagnseigendanna.  Innan við 20 ma.kr. af þeim úrræðum sem gripið hefur verið til, hafa ekki komið vegna dóma Hæstaréttar eða eru afskriftir á töpuðu fé.  Á sama tíma hafa fjármálafyrirtækin og fjármagnseigendurnir hagnast um hátt í 400 ma.kr. vegna verðbóta af lánum almennings, lána sem bera óheyrilega háa vextir miðað við að vextirnir eru án áhættu.  Ekkert hefur verið í reynd gert til að gera líf launþega bærilegt.  Ekkert hefur verið gert til að sporna gegn aukinni verðbólgu.  Ekkert hefur verið gert til að vinna upp kaupmáttarrýrnun síðustu ára.  Lítið hefur verið gert til að fjölga störfum í landinu.  Tæp fjögur ár af engum framförum hafa liðið hjá.  Tæp fjögur ár af lélegri varnarvinnu verkalýðshreyfingarinnar hafa liðið hjá.  Tæp fjögur ár af ofríki fjármálafyrirtækja og fjármagnseigenda hafa liðið hjá.  Fjögur töpuð ár hafa liðið hjá.

Hvers vegna hefur verkalýðshreyfingin ekki tekið einarða afstöðu með launþegum landsins?  Ég verð að viðurkenna, að ég skil það ekki.
mbl.is Verkalýðshreyfingin enn í vörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband