Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Rangfærsla í úrskurði Neytendastofu

Það er ein ákaflega meinleg rangfærsla í úrskurði Neytendastofu.  Þessi rangfærsla er svo meinleg að hún gerir niðurstöðuna hálf hjákátlega.  Bílasamningar SP-fjármögnunar eru þvi marki brenndir að tekið er lán í SP-einingum.  Þannig er í tilfelli þess samnings, sem hér um ræðir, helmingur lánsins í SP5-einingum og hinn í verðtryggðum íslenskum krónum.  Þessar SP5-einingar eru búnar til af SP-fjármögnun og eiga ekki skylt við íslenskar krónur eða erlenda gjaldmiðla, þó hafi þær vissulega virðistengingu við mynthlutföll og gengi undirliggjandi gjaldmiðla í íslenskum krónum.

Gengi SP5-eininganna er misjafnt eftir því hvenær lántaki tekur lán.  Það veltur á gengi undirliggjandi gjaldmiðla, sem SP5-einingin er miðuð við, á lántökudegi.  Hún er þó ekkert frekar í erlendri mynt, en að inneign í íslenskum hlutabréfasjóði með eignir í erlendum hlutafélögum er í þeirri mynt sem hlutafélögin eru skráð í.  Eigi ég eign í viðkomandi hlutabréfasjóði, þá er hún í íslenskum krónum.  Á sama hátt er SP5-einingin í íslenskum krónum og lánið því í íslenskum krónum.  Það er ekkert erlent við þetta lán annað en að SP5-einingin er með fót í myntkörfu, sem núna hefur verið dæmdur ólöglegur af Hæstarétti.  Að slík eining sé notuð gerir lánið ekki erlent frekar en notuð hefði verið ávaxtakarfa eða ostakarfa.

Mér finnst merkilegt að lesa þennan úrskurð Neytendastofu.  Það er eins og stofnunin leggi sig fram við að réttlæta framsetningu SP-fjármögnunar á upplýsingum og efni samnings.  Það er skýrt í neytendaverndartilskipun ESB og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að óskýrleika í samningum eigi að túlka samning neytenda í hag. Neytendastofa leggur sig aftur alla fram við að brjóta gegn þessum lagabókstaf og túlka allan vafa lánafyrirtækinu í hag.

Úps, ég gleymdi því að Neytendastofa má ekki fjalla um neytendavernd í íslenskum lögum.  Já, svo fáránlegt sem það er, þá fellur innleiðing neytendaverndartilskipunar ESB í 36. gr. laga nr. 7/1936 og lögfest var með lögum nr. 14/1995 ekki undir Neytendastofu!!!  Er þetta ein af þessum fáránlegu vitleysum sem er að finna í íslenskum lögum og Alþingi verður að breyta ekki síðar en á haustþingi.


mbl.is SP-Fjármögnun braut lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld skuldajöfnun gerð að flóknu ferli

Í febrúar 2009 ræddi finnskur blaðamaður við mig og fjölskylduna eftir að ég hélt ræðu á Austurvelli.  Þegar ég sagði honum að við hjónin værum sem tvær eignir, aðra í byggingu sem við gætum ekki gert klára til notkunar og hina sem við gætum ekki selt, þá sagði hann mér að fólk með tvær eignir hefði verið sá hópur sem kom verst út úr finnsku kreppunni.  Frá febrúar 2009 hef ég hitt félagsmálaráðherra nokkrum sinnum, þingmenn fjögurra þingnefnda og bankastjóra allra bankanna til að fjalla um skuldamál heimilanna.  Hef ég haldið þessu atriði á lofti við þá alla, enda er ekki hægt að búast við því að nokkur maður geti staðið undir skuldabyrði tveggja eigna. 

3. apríl 2009 samþykktu öll fjármálafyrirtæki að bjóða fólki með tvær eignir upp á að frysta öll lán á eignunum.  Því miður hefur framkvæmd þessa úrræðis verði þannig hjá sumum, að ómögulegt hefur verið að nýta sér það.  T.d. krafðist Landsbankinn þess, að fá skjöl sem í mínu tilfelli samsvaraði um 100 blaðsíðum af ljósrituðum gögnum, SPRON byrjaði vel og gerði hlutina umorðalaust, en næst var boðið upp á þriggja mánaða frystingu í senn, Frjálsi fjárfestingabankinn brauð bara frystingu á höfuðstólsafborgunum, en ekki vöxtum auk þess sem hár kostnaður fylgdi, meðan Íbúðalánasjóður spurði engra spurninga og lán voru fryst í eitt ár í senn.  Vilji maður nýta sér þetta úrræði í dag, þá þarf að sækja um það á sameiginlegan vef um greiðsluerfiðleika!!!  Já, maður er hættur að tala við hverja fjármálastofnun fyrir sig, heldur fer umsókn í gegn um sameiginleg apparat.  Ótrúlega heimskulegt fyrirkomulag, svo ekki sé meira sagt, og Landsbankanum tókst greinilega að sannfæra hina um að búa til tæknilega hindrun fyrir almenning, því skila þarf inn skjalabunka upp á yfir 100 blaðsíður í mínu tilfelli.  Augljóslega á að tryggja að lántakar fari ekki of auðveldlega í gegn um þetta.

Þegar frumvarp að lögum um úrræði fyrir fólk með tvær eignir var lagt fyrir Alþingi, þá samdi ég tvisvar umsögn um málið.  Í fyrra skiptið voru ákvæðin inni í sameiginlegu frumvarpi með öðrum málum, en í formi sérlaga í seinna skiptið (sjá þá umsögn hér).  Aftur virðist skriffinnska Landsbankans hafa orðið ofan á.  Ferli sem er í eðli sínu einföld skuldajöfnun var gerð að flóknu ferli. Já, þetta er bara skuldajöfnun.  Einstaklingur/hjón eiga tvær eignir.  Á þessum tveimur eignum hvíla skuldir sem eru umfram greiðslugetu viðkomandi.  Lausnin er að lánadrottnar leysi aðra eignina til sín gegn yfirtöku skulda.  Eigandinn heldur síðan hinni eigninni með afganginn af skuldunum áhvílandi.  Nei, það var ekki hægt að gera þetta svona einfalt.  Það voru settar upp fjölmargar girðingar, svo aðframkomnir lántakar væru nú ekki að nýta sér þetta að óþörfu.  Skoðum hvað segir um þetta á vef umboðsmanns skuldara:

Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að þú getir sótt um:

  • Ef þú áttir íbúð sem þú gast ekki selt og keyptir aðra á íbúð á tímabilinu 1.janúar 2006 til 1. nóvember 2008. Báðar eignirnar þurfa að hafa verið óslitið í þinni eigu frá þessu tímabili.
  • Undanþágu frá fyrra tímamarki er hægt að veita við sérstakar aðstæður s.s. vegna staðbundinna aðstæðna á fasteignamarkaði. Löggjafinn hefur tekið fram að þessa undanþáguheimild beri að veita í algjörum undantekningartilvikum.
  • Þú þarft að hafa skráð lögheimili í annarri íbúðinni og halda heimili þar.
  • Hin íbúðin þarf svo annaðhvort að hafa verið heimili þitt áður eða að þú hafir keypt hana í þeim tilgangi að eiga heima þar eftir sölu hinnar. Ef þú hefur verið í þessari stöðu en náð að selja og tekið aðra fasteign en íbúð upp í sem greiðslu þá fellur sú eign undir skilyrðin.
  • Skuldir sem hvíla á báðum eignunum samanlagt þurfa að lágmarki að vera 75% af áætluðu markaðsverði eignanna.

Ekki svo slæm skilyrði nema kannski þetta með 75% af áætluðu markaðsverði. Mér finnst það vera full hátt.  En næst eru það gögnin sem á að skila:

Hvaða gögn þurfa að fylgja með umsókn?

  • Veðbókarvottorð fyrir báðar íbúðirnar.
  • Verðmat tveggja löggiltra fasteignasala á báðum íbúðunum.
  • Skattframtöl síðustu þriggja ára ásamt síðasta álagningarseðli. Þessar upplýsingar getur þú nálgast á www.skattur.is með veflykli eða nálgast þær hjá skattstjóra.
  • Tekjur – síðustu þrír launaseðlar og/eða yfirlit um bótagreiðslur, meðlagsgreiðslur og lífeyrisgreiðslur. Jafnframt þurfa að fylgja upplýsingar um aðra fjármuni en vinnutekjur til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra
  • Vottorð um fjölskyldu- og hjúskaparstöðu. Þjóðskrá gefur þau út og hægt er að sækja um þau beint á vef þjóðskrárinnar http://www3.fmr.is/pages/1018
  • Síðustu greiðsluseðlar allra lána og skuldbindinga og innheimtubréf frá lögfræðiinnheimtu vegna vanskila ef það á við.
  • Greinargerð þar sem gerð er ítarleg grein fyrir skuldbindingum sem hvíla á fasteignunum. Tegund þeirra, tilurð, fjárhæð í upphafi og eftirstöðvum, greiðsluskilmálum, ákvæðum um vexti og verðtryggingu ef við á, að hvaða marki þær séu þegar í vanskilum, hvaða fjárhæð greiða þurfi af með afborgun, við hverja skuldirnar eru og hvar þær eru til innheimtu.
  • Samþykki fyrir gagnaöflun undirritað af þér og ef við á maka þínum og þeim sem teljast til heimilisins. Þú finnur samþykki fyrir gagnaöflun á www.ums.is

Athugið: Ekki er hægt að hefja vinnslu umsóknar fyrr en öll gögn hafa borist. Umboðsmaður er bundinn trúnaði um allar upplýsingar sem aflað verður.

Vá, hér er verið að gera fólki virkilega erfitt að fyrir.  Í mínu tilfelli eru þetta ekki undir 100 blaðsíðum af efni og til hvers?  Ég er ekki oft sammála Pétri Blöndal, þingmanni, en orð hans í umræðunni um þetta mál hittu í mark.  Hann sagði:

Ef menn vilja gera fólki erfitt fyrir, þá á að krefjast þess að það gangi þrisvar á Esjuna, en ekki þetta.

Til hvers þarf allar þessar upplýsingar, þegar um einfalda skuldajöfnun er að ræða.  Lánadrottnar eru að taka eign lántaka upp í skuld svo lántaki eigi auðveldara með að standa í skilum með það sem eftir er skuldanna.  Það er ekki verið að fá skuldir felldar niður.  Það er ekki verið að biðja um afslátt á afborgunum.  Það er ekki verið að biðja um frystingu afborgana.  Nei, það er verið að koma hlutunum þannig í kring, að lánadrottnar fá eina eign til sín og eftir það mun lántaki greiða af þeim lánum sem eftir standa.

Þá eru það synjunarástæðurnar:

Umboðsmaður metur gögnin þín og getur þurft að synja umsókninni ef:

  • Gögn sýna að þú uppfyllir ekki skilyrði laganna.
  • Ef gögn þín og/eða greinargerð eru ekki nægjanlega ítarleg.
  • Ef þú gefur villandi eða rangar upplýsingar af stöðu þinna mála.
  • Ef þú hafðir ekki greiðslugetu fyrir lánum þegar þú tókst lánin eða hefur hagað þér óskynsamlega í fjármálum svo sem tekið verulega áhættu miðað við greiðslugetu þína á þeim tíma sem þú stofnaðir til skuldanna.
  • Ef þú hefur komið þér í skuldir með þeim hætti að það hafi skapað þér skaðabótaskyldu og eða varða við refsingu.
  • Ef þú hefur tekið lán sem þú hafði ekki þörf fyrir eða tekið meira lán en þú þurftir, t.d. að þú hafir tekið meira lán en þú þurftir við endurfjármögnun óhagstæðra lána.
  • Ef þú hefur ekki greitt af lánum sem þú hafðir greiðslugetu til að greiða af.
  • Ofangreint er ekki tæmandi talning, sjá nánar í lögum nr. 103/2010.

Hér eru nokkur atriði, sem ég skil ekki.  Það eru punktar 4, 6 og 7.  Skoðum þá betur:

  • Ef þú hafðir ekki greiðslugetu fyrir lánum þegar þú tókst lánin eða hefur hagað þér óskynsamlega í fjármálum svo sem tekið verulega áhættu miðað við greiðslugetu þína á þeim tíma sem þú stofnaðir til skuldanna.
  • Ef þú hefur tekið lán sem þú hafði ekki þörf fyrir eða tekið meira lán en þú þurftir, t.d. að þú hafir tekið meira lán en þú þurftir við endurfjármögnun óhagstæðra lána.
  • Ef þú hefur ekki greitt af lánum sem þú hafðir greiðslugetu til að greiða af.

Hvaða máli skiptir þetta?  Er ekki lánveitandinn betur settur, ef hann skuldajafnar núna strax og tekur eignina yfir, en ef hann sendir eigandann í gjaldþrot með tilheyrandi kostnaði?  Fær ekki lánveitandinn meira upp í skuld sína með skuldajöfnuninni, en með fjárnámi, nauðungarsölu og gjaldþroti?  Mér finnst ekki þurfa neinn snilling til að sjá að svo sé.  Hver er þá tilgangurinn með þessum skilyrðum?  Hann getur ekki verið neinn annar, en að knýja fram nauðungarsölu og gjaldþrot einstaklinga.  Hafi einstaklingur hagað sér óskynsamlega, þá mun þessi aðgerð hvort eð er ekki skipta sköpum, en lánveitandinn er búinn að lækka tjón sitt.  Það er alltaf betra fyrir lánveitandann að skuldajafna eins miklu og hægt er áður en til gjaldþrots kemur.  Við erum að tala um veðkröfuhafa og í gjaldþroti og nauðungarsölu er staða þeirra hvort eð er rétthærri öðrum kröfuhöfum.

Í mínum huga gerði Alþingi mikil mistök við samningu þessara laga.  Þau voru gerð allt of flókin og inn í þau byggð fjölmargar tæknilegar hindranir.  Skuldajöfnun, sem er í eðli sínu einföld aðgerð, var gerð að einhverju skrímsli til að koma í veg fyrir, að fólk geti nýtt sér þetta úrræði eða gera því eins erfitt og kostur er að nýta sér það.  Einu sinni sem oftar varð skriffinni fjármálafyrirtækjanna ofan á.  Einu sinni sem oftar var slegin skjaldborg um fjármálafyrirtækin.


mbl.is Yfirveðsett fjárhagsaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendastofa valdalaus gagnvart neytendavernd í íslenskum lögum

Síðast liðinn föstudag, 30. júlí, gaf Neytendastofa út tvo úrskurði.  Annan gegn SP-fjármögnun og hinn gegn Lýsingu.  Bæði fyrirtæki brutu að mati Neytendastofu á lántökum við framkvæmd lánasamninga.  Í báðum tilvikum bannar Neytendastofa fyrirtækjunum að halda áfram háttsemi sinni frá birtingu úrskurðanna.  Ekkert er fjallað um fortíðina, ekkert er fjallað um að fyrirtækin eigi að bæta lántakanum tjónið sem lögbrot fyrirtækjanna olli þeim.

Það sem vekur samt mesta furðu mína, er atriði sem kemur fram í úrskurðinum varðandi SP-fjármögnun.  Það er álit Neytendastofu að stofnunin hafi ekki umboð til að taka á brotum samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (sjá 4. mgr. bls. 10).  Finnst mér þetta með slíkum ólíkindum að ég velti fyrir mér hvert hlutverk Neytendastofu sé.  36. gr. laganna er innleiðing í íslensk lög á neytendaverndartilskipun ESB 93/13/EC.  Ef Neytendastofa hefur ekki umboð til að fjalla um neytendaverndarákvæði íslenskra laga til hvers er þá stofnunin?  Hvaða stofnun hefur þá umboð til að taka á þeirri fátæklegu neytendavernd sem er að finna í íslenskum lögum?

Ýmislegt annað vekur furðu mína í þessum úrskurðum og þá sérstaklega hvað Neytendastofa er alltaf tilbúin að taka afstöðu gegn lántakanum, þegar það er mögulegt.  Greinilegt er að kvartandinn í máli SP-fjármögnunar var farinn að fara vel í taugarnar á starfsmönnum Neytendastofu, enda konan ákaflega fylgin sér.  Hef ég fylgst með því máli frá því í september á síðasta ári.  Hreinar rangfærslur eru í málflutningi Neytendastofu og síðan er náttúrulega toppurinn á öllu, þegar stofnunin heldur því fram að samningur sem er í einhverjum vegnum einingum er sagður í erlendri mynt.  Það getur vel verið að einingarnar í sjóði SP5 hafi erlendar myntir að baki sér, en SP5 einingarnar eru ekki erlend mynt og verða það aldrei.  Ekkert frekar en gengi í hlutabréfasjóði verður að gengi hlutabréfanna sem sjóðurinn á.  Annað atriði er þegar Neytendastofa vitnar í upplýsingar á vefsíðu SP-fjármögnunar, sem settar voru inn löngu eftir að Neytendastofa tók málið til umfjöllunar og voru tilraun SP-fjármögnunar til að falsa sönnunargögn í málinu. 

Að mínu áliti er úrskurður Neytendastofu í máli SP-fjármögnunar illa unnin og ber þess vott að stofnunin hafi verið þvinguð af kvartanda til að vinna eitthvað verk sem stofnunin hafði engan áhuga á að vinna.  (Enda reyndi stofnunin að koma sér undan að kveða úrskurðinn upp, að sögn kvartanda.)  Ef ég væri ekki búinn að fylgjast með þessu máli frá því í september, þá myndi ég vafalaust freistast til að halda að málið væri vel unnið.  Neytendastofa slær líka um sig með flottum hugtökum og formúlum, en missir því miður alveg marks með því.  Hvað þetta hefur með úrskurðinn að gera, átta ég mig ekki á, nema til þess eins að geta dregið taum fyrirtækis sem er nýbúið að fá á sig dóm í Hæstarétti fyrir að brjóta lög.

Eitt atriði vakti þó kátínu mína, en á bls. 13 er tafla þar sem vísað er í gengisskráningu.  Þar fer Neytendastofa í hlutverk spámiðils og fer að spá fyrir um hvert gengið verði 28. október 2010.  Þó þetta sé líklegast prentvilla, þá er þetta bara eftir öðru í úrskurðinum.


mbl.is Ákvæði um vexti brutu gegn lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 208
  • Sl. viku: 567
  • Frá upphafi: 1677584

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband