Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
19.5.2010 | 23:42
Það á bara að innheimta 10% af hlutabréfalánunum
Um daginn henti slitastjórn Kaupþings þeirra bombu að innheimta ætti lán til starfsmanna vegna hlutabréfakaupa. Þessi lán voru vægt til orða tekið umdeild eftir að stjórn Kaupþings ákvað á síðustu metrunum fyrir hrun að fella niður persónulegar ábyrgðir tengdar þessum lánum. Slegið var upp með stóru letri að innheimta ætti lán að verðmæti 32 milljarðar, en núna kemur annað á daginn. Samkvæmt frétt í DV, þá náðu persónulegar ábyrgðir starfsmanna bara til 10% af lánunum! Skoðum brot úr frétt DV:
Líkt og greint var frá í fjölmiðlum á mánudaginn ákvað slitastjórn Kaupþings að rifta niðurfellingu á persónulegri ábyrgð 80 fyrrverandi starfsmanna gamla Kaupþings á lánum sem þeir fengu til hlutabréfakaupa hjá bankanum. Stjórn Kaupþings ákvað að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmannanna á fundi rétt fyrir hrun. Starfsmennirnir fengu alls um 32 milljarða króna að láni og voru persónulegar ábyrgðir þeirra 10 prósent af þeim lánum þeir fengu. Starfsmaður sem fékk 500 milljónir króna að láni á því að greiða 50 milljónir til baka til skilanefndarinnar samkvæmt niðurstöðu mánudagsins. Skilanefndin hyggst því reyna að innheimta um 3,2 milljarða króna með þessum aðgerðum.
Líklegast hef ég bara ekki verið nógu vakandi fyrir staðreyndum málsins á sínum tíma eða bara tekið vitlaust eftir. Þetta breytir þó ansi miklu. Viðkomandi starfsmenn munu sem sagt fá 28,8 milljarða fellda niður, þó svo að tíu prósentin verði innheimt. Já, 28.8 milljarðar kr. af hlutabréfalánum starfsmanna Kaupþings verða afskrifaðir, ef mark er á frétt DV takandi. Sigurður Einarsson þarf því að endurgreiða 780 milljónir kr., ekki 7,8 milljarða kr. Þarna munar 7 milljörðum og 20 milljónum. Nú af 1,2 milljarða láni þarf eingöngu að greiða til baka 120 milljónir.
Ég held að þessar upplýsingar í DV breyti ansi miklu, ef sannar eru. Það er mikill munur að eiga að greiða 100% af láni eða 10%. Ég hef þó ekki breytt þeirri skoðun minni, að gera eigi greinarmun á þeim sem líklegast nauðbeygðir samþykktu að taka þátt í þessum leik og þeim sem skipulögðu hann. Áður en við eyðum kröftum okkar í að elta uppi litlu fiskana, eigum við að tryggja að þeir stóru rífi ekki netin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.5.2010 | 21:44
Handtökuskipun ekki harkalegri en aðgerðir fjármálafyrirtækja
Ég veit ekki við hverju Sigurður Einarsson bjóst. Hann er með aðgerðum sínum búinn að valda íslensku þjóðinni geigvænlegum skaða. Upphæðirnar velta á þúsundum milljörðum króna. Í slóð hans og hans kóna er sviðin jörð, brotin heimili, gjaldþrota fyrirtæki, uppflosnaðar fjölskyldur og fólk sem tekið hefur líf sitt vegna þess að nokkrir gráðugir einstaklingar sáu sér færi á að græða örlítið meira.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis nefnir fjölmörg dæmi um ótrúlega ósvífni þessara einstaklinga við að sölsa undir sig völdin og skara eldi að sinni köku. Höfum í huga að Sigurður Einarsson var stjórnarformaður í almenningshlutafélagi ekki einhverju ehf-i. Samt vílaði hann ekki fyrir sér að veita sjálfum sér lán upp á á annan tug milljarða. Hann stóð fyrir því að falsa stöðu bankans með gerviviðskiptum með hlutabréf. Hann var stjórnarformaður banka sem ryksugaði íslenskan gjaldeyrismarkað og var þannig höfuðpaurinn í að fella íslensku krónuna, íslenska hagkerfið, íslenska bankakerfið og þar með sinn eigin banka.
Nei, handtökuskipunin var ekki of harkaleg. Hún var virkilega verðskulduð vegna þess, að Sigurður sýndi þann gunguskap að vilja ekki gangast undir það sama og samstarfsmenn hans. Hann þorði ekki. Það er málið og þess vegna fékk hann að kenna til tevatnsins.
Handtökuskipun alltof harkaleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.5.2010 | 17:29
Búskap vart haldið áfram í bráð undir Eyjafjöllum
Eyjafjallajökull heldur áfram að spúa eldi og eimyrju og ausa ösku yfir nágranna sína. Einhverjir bændur hafa ákveðið að nú er nóg komið. Ekki verði hægt að vera með fé á svæðinu í sumar og hugsanlega ekki næstu árin. Ég held að það sé rökrétt ályktun og raunar undrast ég hvað það hefur tekið menn langan tíma að komast að þessari niðurstöðu. Líklegast er von þeirra um betri tíð og kvíði við að yfirgefa sveitina sem ræður mestu, en mér fannst það koma fram í orðum Páls Ólafssonar á Þorvaldseyri, eftir fyrsta öskufallið í sveitinni, að lífið ætti eftir að verða erfitt í mörg ár í þessu frjósama héraði.
Vestmanneyingar hafa barist við öskuna í áratugi eftir gosið 1973. En askan þar var viðráðanlegri, þar sem mikið af henni féll í sjóinn eða blés út á haf. Aðstæður kringum Eyjafjallajökul er frábrugðnar, þar sem askan er um allt á heiðunum fyrir ofan byggðina. Þar hefur hún vafalaust fyllt lautir og lægðir, gil og árfarvegi, fyrir utan að liggja bara yfir öllu. Þessi aska á eftir að gera beitarlönd ónothæf í nokkur ár og hún á eftir fjúka yfir sveitina, þar til annað tveggja gerist, að gróður nær að halda henni niðri eða hún er fokinn af fjallinu.
Ég hef áður skrifað um það, að huga þurfi af brottflutningi fólks og búfénaðar af svæðinu. Annað er bara sjálfpíningarhvöt. Á suðurlandi er víða lítið eða illa nýtt jarðnæði með ágætis húsakosti. Af hverju er ekki samið við eigendur þessara jarða um tímabundin afnot? Hugsanlega þarf að farga einhverju fé, en það þarf ekki að valda miklu fjárhagslegu tjóni, ef hægt er að halda fénu á beit fram á haust. Vilji jarðeigendur ekki taka þátt í þessu, þá verða stjórnvöld að beita fyrir sér neyðarrétti. Við núverandi ástand er ekki búandi. Komið er yfir þau mörk að úr sumrinu rætist. Því lengur sem menn draga lappirnar í þessu máli, því erfiðara verður ástandið.
Það er ekki verandi úti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.5.2010 | 17:10
Ísland er meira en eldgos
Mig langar að koma með ábendingu til bæði Mílu og Vodafone. Bæði fyrirtækin sýna í beinni útsendingu frá Þórólfsfelli og eru það magnaðar myndir. En hvernig væri að bæta við nokkrum vefmyndavélum eða tengja við myndavélar annarra aðila, þar sem sýnt er frá öðrum stöðum á landinu þar sem engin merki goss eru sjáanleg. Dettur mér í hug að sýna frá Höfn í átt að Öræfajökli, fuglalíf í fjörunni á Snæfellsnesi, af toppi einhvers fjalls í nágrenni Reykjavíkur með útsýni yfir höfuðborgarsvæðið, Geysissvæðið, Þingvelli, Mývatn og fleiri slíka staði. Gosútsendingarnar eru að draga að sér milljónir heimsókna erlendis frá. Því ekki að gera þetta að stærri og meiri landkynningu.
Kannski ættu ferðamálaráð og stjórnvöld að taka höndum saman með fjarskiptafyrirtækjunum. Hvað sem öllu líður, er ekki gott að sýna bara þessa hlið á Íslandi. Við höfum aldrei haft betra tækifæri til að kynna landið. Grípum það áður en það verður um seinan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2010 | 14:19
Hver er með leiksýningu? - Má nota lög um peningaþvætti?
Sigurður Einarsson og ýmsir sjálfskipaðir verjendur gerenda í hruni íslenska hagkerfisins hafa haldið því fram að aðgerðir Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, séu leikþættir. Ég get ekki annað sagt á móti:
Sé þetta leikþáttur, þá er hann viðeigandi framhald af þeim leikþáttum sem komu á undan. Það eru dæmigerð viðbrögð þeirra sem hafa slæman málstað að verja, að gera litið úr málflutningi og aðgerðum hinna. Þetta er dæmigerð smjörklípa a la Davíð Oddsson.
Við skulum búa okkur undir, að reynt verði að grafa undan öllum aðgerðum sérstaks saksóknara. Menn munu beita málþófi, útúrsnúningum, bera fyrir sig vitrænum réttlætingum og þekkingarleysi og allt sem hönd festir á í aumri tilraun til að krafsa sig upp úr kviksyndinu sem þeir óðu sjálfir út í.
Ég hvet fólk til að hafa í huga, að þessir aðilar og samverkafólk þeirra úthlutuðu sér 7.100 milljarða úr sjóðum bankanna, ef marka má skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Það gerði það ekki óvart, af gáleysi, þekkingarleysi eða vegna þess að það væri lögleg og eðlileg viðskipti. Nei, þetta var gert á skipulegan hátt með mjög markvissum aðgerðum, sem ekki standast neinar reglur og lög um fjármálafyrirtæki. Aðgerðirnar fengu meira að segja nafn, "skýstróksáætlunin"! Siðblinda þessara einstaklinga er slík að ekki einu sinni illa haldnir drykkjumenn eru í jafnmikilli afneitun.
Staðreyndir málsins eru að búið er að fletta ofan af svikamyllunni. Hún var svakalegri en nokkrum manni datt í hug, sem var utan klíkunnar. Það besta sem þessir aðilar gera í stöðunni er að leysa frá skjóðunni, viðurkenna afbrot sín og sætta sig við þá refsingu sem mun fylgja. Í mínum huga mun sú refsing alltaf verða of væg. Höfum í huga að afleiðingar aðgerða þeirra eru t.d. sundrung heimila, atvinnumissi á annan tug þúsunda einstaklinga, fjöldi heimila býr við mjög kröpp kjör og líða skort, fólk hefur svipt sig lífi vegna þessa og ég gæti haldið áfram. Allt vegna þess að nokkrir stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja sáu ekki fótum sínum forráð í græðgikasti. Þeir urðu að ná í eina krónu í viðbót handa sér og sínum eða var það einn milljarður í viðbót.
Bullið í stöðunni er þó, að ekki er hægt að leiðrétta stöðu heimilanna. Nei, þrátt fyrir að komið hefur í ljós að áfallið, sem heimilinu urðu fyrir, var vegna skipulagðrar glæpastarfsemi (samkvæmt stefnu slitastjórnar Glitnis), þá eiga heimilin að bera tjón sitt óbætt. Mig langar að benda á, að 2% einstaklinga og 7% fyrirtækja áttu góðan helming allra peningalegra eigna á Íslandi við hrun bankanna (skv. skýrslu RNA). Hvernig væri að Alþingi setti lög, þar sem settur er himinn hár fjármagnstekjuskattur á þennan hóp og skatturinn notaður til að bæta heimilum landsins tjón sitt? Einnig skora ég á sérstakan saksóknara að nota lög um peningaþvætti til að leggja hald á allar eignir þeirra sem tóku þátt í Hrunadansinum, því samkvæmt lögunum þarf viðkomandi að færa sönnur á að peninganna hafi verið aflað með löglegum hætti. Heimilin í landinu þurfa ekki nema ca. 300 milljarða til að fá hlut sinn réttan. Er ég nokkuð viss um að þeir leynast sem illa fengið fé inni á íslenskum bankareikningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
12.5.2010 | 09:13
Nú eru hlutirnir farnir að gerast
Það er stutt stórra högga á milli. Handtaka Hreiðars Más, Magnúsar Guðmundssonar, Ingólfs Helgasonar og Steingríms Kárasonar á síðustu dögum, alþjóðleg handtökuskipun gefin út á Sigurður Einarsson sem "þorir ekki heim", krafa um frystingu eigna Jóns Ásgeirs og Hannesar Smára hér á landi og núna þetta.
Slitastjórn Glitnis er óvenju harðorð í stefnu sinni og óhikað notað "klíka fésýslumanna", "sviksamlegt og ólöglegt athæfi", "dylja sviksamleg viðskipti", "grófleg rangfærsla áhættu", "sviksamleg fjáröflun", "fé sem...hafði af Glitni", "fé sem...kræktu sér í", "eytt lausafjárforða", "samsærismenn" og fleira í þessum dúr. Það fer ekkert á milli mála að slitastjórn Glitnis telur athæfi Jóns Ásgeirs og "samsærismanna" hans vera mjög gróft brot og ber að fagna þeirri afstöðu. Kemur fram í tilkynningu slitastjórnar að:
Við þær athafnir hafi þeir brotið gegn starfsreglum bankans um áhættu, einnig gegn landslögum og fjármálareglum um stóráhættu gagnvart tengdum aðilum.
Kannski fer almenningur í landinu að sjá örla í eitthvað réttlæti og vonandi taka gerendurnir út viðeigandi refsingu fyrir siðblindu sína. En til þess að svo verði, þá verða dómstólar landsins taka hart á þessum málum og láta ekki orðgjálfur verjenda þessara aðila blekkja sér sýn. Við búum vissulega við það fyrirkomulag, að sakborningar eiga rétt á réttlátum réttarhöldum, en mér finnst einhvern veginn sem þessir aðilar séu búnir að fyrirgera þeim rétti sínum.
Óska kyrrsetningar eigna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
11.5.2010 | 09:18
Landsbankinn vaknar með stæl, en héraðsdómur býður betur fyrir suma
Landsbankinn auglýsir á heilsíðum í blöðunum í dag 25% lækkun höfuðstóls lána bæði heimila og fyrirtækja í erlendri mynt. Miðað er við gengi 30. apríl, en þá var gengisvísitala um 226,5. Tilboð bankans þýðir því lækkun í gengisvísitölu 170. Tekið er fram í frétt Landsbankans um tilboðið að það gildi afturvirkt "fyrir þá sem hafa greitt upp lán að hluta eða heild frá 8. október 2008 eða hafa fengið leiðréttingu á höfuðstól en með minni lækkun".
Verður þetta að teljast verulega höfðinglegt boð hjá Landsbankanum, en vandinn er að Héraðsdómur Reykjavíkur býður betur hvað varðar gengistryggð lán. 30. apríl úrskurðaði dómurinn nefnilega að gengistrygging væri ólögleg og engin verðtrygging kæmi í staðinn. Það þýðir að lánin færast niður í upphaflegan höfuðstól að frádregnum afborgunum. Það merkilega við þetta, er að Landsbankinn var stefnandi í málinu sem héraðsdómur úrskurðaði í og úrskurðurinn féll gegn bankanum.
Líklegast er markaðsdeild bankans búinn að liggja yfir þessum tilboðum í einhverjar vikur eða mánuði og því ekki verið tekið tillit til úrskurðar héraðsdóms. Svo á Hæstiréttur eftir að gefa sína niðurstöðu og nú er ekki sjálfgefin. Fari allt á versta veg og Hæstiréttur snúi úrskurði héraðsdóms, þá er þó komið tilboð frá Landsbankanum sem hægt er að ræða. Sem stendur er betra tilboð á borðinu hvað varðar gengistryggð lán.
Hvað varðar lán fyrirtækja í erlendri mynt (sem var sótt um í erlendri mynt, greidd út í erlendri mynt og endurgreidd í erlendri mynt), þá er ég viss um að mörg fyrirtæki munu grípa tækifærið. Þó svo að gengisvísitalan hafi þegar styrkst um 5 punkta eða nálægt 2,5% frá 30. apríl, þá á hún eftir að sveiflast verulega á næstu mánuðum. Flest bendir þó til þess að gengið sé í styrkingarfasa og ólgan í Evrópu mun örugglega verða til þess að hún styrkist enn frekar. Mér finnst því að Landsbankinn eigi að bjóða lántökum að helmingur af styrkingu krónunnar á næstu árum virki sem innborgun á höfuðstól lánanna. Það gengur ekki að lántakar eigi síendurtekið að taka meiri áhættu af gengisbreytingum en lánveitandi. Skora ég raunar á alla bankana að byggja slíka gengisvörn inn í lánasamninga, þegar verið er að breyta lánum í erlendri mynt yfir í lán í krónum. Ég er viss um að fleiri tækju boði bankanna, ef það væri gert.
Bjóða 25% lækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.5.2010 | 22:38
Vogunarsjóðirnir vinna - Evrópa lögð að veði
Risastór björgunarsjóður hefur verið stofnaður. Í hann eiga að renna 750 milljarðar evra. Þetta er engin smá upphæð, en samt ætlar enginn að leggja fram eitt cent, ef marka má fréttaflutning á BBC World.
Mér sýnist sem stofnun þessa sjóðs sýni og sanni að vogunarsjóðir og spákaupmenn hafa unnið. Fyrir þremur árum hófst mikil atlaga að fjármálakerfi heimsins. Áður var búið að skapa þær aðstæður, að alls konar eignarbólur höfðu myndast hér og þar. Búið var að fá alla til að spenna bogann til fulls. Fjölbreyttum, vafasömum fjármálavafningum hafði verið smyglað inn á markað með aðstoð matsfyrirtækja, en framhjá eftirlitsaðilum. Með þessu var hluti fjármálafyrirtækja og fjárfesta um allan heim í raun þurrmjólkaðir og skuldsettir upp í topp. Þetta var fyrsti hluti í þríleik, en hann felst í því að undirbúa jarðveginn. Í þætti tvö er skrúfað fyrir flæði hagstæðs fjármagns inn á markaðinn. Þetta er sama trix og notað hefur verið varðandi ýmsa hrávöru. Framboð á hrávöru var heft af aðilum sem yfirbuðu gömlu markaðsaðila, þannig að framleiðendur gátu ekki lengur fengið hrávöruna nema gegn uppsprengdu verði. Þetta veldur annars vegar skorti og hins vegar miklum verðhækkunum. Þar sem þetta samráð nær yfir landamæri, er engin stofnun sem fylgist með þessu.
Nú var komið að því að nota þessa aðferð á fjármálakerfið. Menn vildu sjá hve langt væri hægt að ganga, hvort stjórnvöld og seðlabankar kæmu bönkunum til bjargar og hve miklu fé þessir aðilar væru til í að veita til fjármálafyrirtækjanna. Fyrsta skrefið var að veita ótakmörkuðu fé inn á markaði sem þurfti að endurfjármagna eftir nokkur ár. Skref tvö var að skrúfa upp vexti. Fjármálafyrirtækjum stóð allt í einu ekki lengur til boða ódýrt fjármagn. Það varð til þess, að vextir viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna urðu að hækka. Tímasetningin var valin af kostgæfni. Komið var að endurskoðun vaxta íbúðalána hjá stórum hópum bandarískra húsnæðiskaupenda. Þessir aðilar höfðu reiknað með því að geta endurfjármagnað lán sín á lágum vöxtum, enda hafði þeim verið talin trú um það við lántöku. Nei, nú buðust ekki lengur lágir vextir og því margfölduðust vextir lánannaí samræmi við ákvæði lánasamningsins. Afleiðing var greiðslufall gríðarlegs fjölda lántaka. Í gang fór keðjuverkun og fjármálafyrirtæki um allan heim börðust fyrir lífi sínu. Fjármálafyrirtæki um allan heim þurftu nauðsynlega innspýtingu fjármagns. Þeir sem mergsogið höfðu fyrirtækin lögðu ekkert fram sjálfir. Hlutafé fyrirtækjanna var ekki aukið með útboði. Nei, fé var sótt til stjórnvalda. Þáttur þrjú í þríleiknum hófst og hann felst í að ná í sem mest opinbert fé.
Bretum og Bandaríkjamönnum dældu ómældum upphæðum í sínar fjármálastofnanir, meðan stjórnvöld í nokkrum öðrum löndum sögðu strax að þau ætluðu ekki að gera neitt, heldur ættu bankarnir að taka til í eiginn ranni. Menn tóku við peningunum fyrrnefndu löndunum og vildu meira, en í Þýskalandi, Sviss og Frakklandi, þá gerðist ekkert. Vissulega stóðu bankar tæpt, en ekkert meira en það. Einn og einn fór á hliðina, en það gerist af og til alls staðar. Sama átti við um Spán, Ítalíu, Írland, Portúgal og mörg önnur Evrópulönd. Ríkisstjórnir lofuðu svo sem alls konar stuðningi, en ekki innspýtingu fjármagns eða þá að slíkri innspýtingu fylgdu skilyrði sem tryggðu að peningana var bara hægt að nota á tiltekinn hátt.
Mér fannst þetta allt lykta af kúgun þá og ennþá finn ég lykt af kúgun. Vogunarsjóðir og spákaupmenn eru að skoða hvað þeir geta gengið langt. Hvað þeir geta náð í háar upphæðir úr ríkissjóðum hinna ýmsu landa. Þegar ekkert gekk með voldugu þjóðirnar innan evrusvæðisins, þá var fundin önnur leið. Leitað var að veikasta hlekknum. Gerð var atlaga að Grikklandi. Knýja átti evruríkin til að leggja fram pening. Og það tókst. Vissulega er staða Grikkja slæm, en undir eðlilegum kringumstæðum á fjármálamörkuðum, þá hefðu þeir líklegast unnið sig út úr vandanum. En þá komu matsfyrirtækin og spiluðu út sínum trompum. "Lækkum lánshæfiseinkunn Grikklands. Landið ræður ekki við það." Seðlabanki Evrópu er svo ósáttur við þessa ákvörðun, að hann ákvað að hunsa hana! Svo var sótt að Portúgal með sama hætti, þó svo að ríkisfjármál þar séu í nokkuð góðum málum. Mun betri en t.d. í Bretlandi. Sama á raunar við um Grikkland. Halli á breskum fjárlögum er meiri en í flestum löndum Evrópu að Íslandi undanskyldu. En það furðulega við stöðu Portúgals var, að ekkert hafði breyst í fjármálum ríkisins í nokkra mánuði áður en matsfyrirtækin ákváðu að lækka lánshæfismat ríkisins. Lækkunin var tilhæfulaus með öllu og raunar hafði ríkisstjórn landsins reiknað með að einkunnin myndi hækka við næsta endurmat.
Nú Grikkir leituðu á náði AGS í síðustu viku. Þá hefði maður nú haldið, að menn yrðu rólegir. Nei, heldur betur ekki. Gerð var árás á evruna með það í huga að splundra evrusamstarfinu. Það hrikti í ýmsum stoðum síðustu 5 daga og á neyðarfundi um helgina gáfu fjármálaráðherrar ESB eftir. 750 milljarða evru sjóður var stofnaður til að verja evrusvæðið, en ekki bara það. Samkvæmt frétt á BBC World í dag, þá eiga lönd utan evrusvæðisins og jafnvel utan ESB að geta fengið stuðning frá þessum sjóði. Sjóðurinn og Seðlabanki Evrópu eiga að geta keypt bæði ríkisskuldabréf og skuldir ríkisstjórna og einkaaðila (BBC World: "The European Central Bank (ECB) also announced that it would buy eurozone government and private debt".) Þetta er 180 gráðu stefnubreyting hjá ECB. Við stofnun hans var tekið skýrt fram að bankinn myndi aldrei kaupa ríkisskuldabréf. (Var þetta kannski umræðan í stjórnarráðinu um helgina, að ECB hafi boðið íslenskum stjórnvöldum slíkan pakka? Fundurinn minnti eitthvað svo á nokkra daga haustið 2008.)
Niðurstaðan er sem sagt, að vogunarsjóðum og spákaupmönnum tókst að fá ESB ríkin til að veðsetja Evrópu til að bjarga Grikklandi og evrunni. 750 milljarðar evra er meira en 1.000 evrur á hvert mannsbarn í ESB. Það er vissulega ekki eins mikið og lagt hefur verið á okkur vesalings Íslendinga, en 1.000 evrur eru fyrir suma Evrópubúa eins og 10.000 evrur eru fyrir okkur. Og það á eftir að koma í ljós hvort þetta sé nóg.
Ætli þessu sé lokið núna? Það er búið að fella Suður-Ameríku, Japan, Suð-austur Asíu, Rússland, Bandaríkin, Bretland og núna ESB. Ætli Kína sé næst. Ástralía og Nýja-Sjáland eru líklegast ekki nógu merkileg svæði. Indland og Afríka urðu fyrir ótrúlega ósvífinni árás í formi matvælaskorts. Síðan hafa allir þurft að líða fyrir bensínkreppu eða eigum við kalla það bólu.
Ég held að það sé kominn tími til að stöðva þessa aðila sem telja sig geta ráðskast með allt og alla. En það er hægara sagt en gert. Ástæðan fyrir öllu þessu er afleiðuviðskipti sem eru jú ekkert annað en hrein og bein veðmál. Þetta er eins og með íþróttakappleiki. Þegar of margir eru búnir að veðja á sömu úrslit í sama leik, þá er maðkur í mysunni. Sama á við um þessa óreglu í fjármálalífi heimsins og viðskiptum. En höfum í huga, að afleiður í gangi í heimunum er sagðar vera að verðmæti 700.000 milljarðar USD (e. 700 trillion dollars). Það er 750 föld talan sem ESB og AGS ætla að leggja í evrópska björgunarsjóðinn. Árleg heimsframleiðsla er um 60.000 milljarðar USD. Menn munu gera allt til að verja þessa 700.000 milljarða USD. Fall Lehman Brothers sannaði það. Í fleiri daga sátu menn á sérstökum fundum við að vinda ofan af afleiðunum sem Lehman átti og ekki hefur verið gefið upp hver niðurstaðan var. Líklegast töpuðu fáir, þar sem eðli afleiða er að menn taka stöðu í einu og síðan mótstöðu í einhverju öðru. En afleiðurnar munu halda áfram að sveima um hagkerfi heimsins og veðmál verða lögð einhverju nýju svæði til höfuðs fljótlega. Líklegast verður reynt að ná í eins mikið af 750 milljarðar sjóðnum og hægt er og síðan færa menn sig um set. Þríleikurinn góði verður endurtekinn aftur og aftur: 1) undirbúa jarðveginn, 2) stoppa blóðflæðið, 3) ná í sem mest af innspýtingunni hvort sem hún er í formi ríkisframlaga eða endurfjármögnunar.
Ef einhver heldur að ég sé haldinn einhverri paranoju, þá er það alveg vel hugsanlegt. Ég er bara búinn að fylgjast með þessu gerast of oft of víða til að trúa því að þetta sé allt tilviljun. Ég þarf svo sem ekki að líta út fyrir landsteinana, því þetta er nákvæmlega það sem gert var hér á landi varðandi gengistryggðu lánin, er galdurinn á bak við verðtryggðu lánin, var markmiðið með húsnæðisbólunni og hlutabréfabólunni. Markmiðið er alltaf það sama: Eins mikil eignatilfærsla og hægt er að koma í kring frá fórnarlambinu til gerandans. Gerandinn finnur til máttar síns og telur sig hafa völdin, en um leið og sigurvíman líður úr honum, þá þarf hann nýtt plott og nýtt fórnarlamb.
Gríðarlegar hækkanir á mörkuðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
10.5.2010 | 15:31
Fundur viðskiptanefndar um verðtryggingu
Ég sat í morgun, sem annar fulltrúi Hagmunasamtaka heimilanna, opinn fund viðskiptanefndar Alþingis um verðtrygginguna. Auk mín var Friðrik Ó. Friðriksson frá HH. Þá sat einnig með Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda. Hlutverk okkar þriggja var að svara spurningum nefndarmanna um verðtrygginguna og skyld efni.
Efni fundarins var líka skýrsla Askar Capital um kosti og galla verðtryggingarinnar. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um skýrsluna, en vil þó segja: Hún er langt frá því að vera nógu vel unnin. Höfundar hennar draga taum verðtryggingarinnar í málflutningi sínum. Meira að segja í kafla um galla verðtryggingarinnar, þá tekst þeim að nefna atriði sem lúta að kostum hennar! Skýrslan er morandi í staðhæfingum sem engin rök eru færð fyrir eða eru hreinlega rangar. Af þeirri ástæðu hvatti ég til þess á fundinum að Hagfræðistofnun HÍ eða annar óháður aðili verði fenginn til að semja nýja skýrslu og þar verði einnig svarað hvernig er hægt að afnema verðtrygginguna.
Spurningar þingmanna til okkar Friðriks voru margar mjög áhugaverðar, en full langar til hægt væri að ætlast til þess að þeim væri svarað í stuttu máli. Aðrar voru þess eðlis, að ekki var hægt að ætlast til þess að við, stjórnarmenn í áhugamannasamtökum, hefðum sérfræðiþekkingu til að vita svarið. En við gerðum okkar besta og í einhverjum tilfellum lumuðum við á óvæntri þekkingu.
Mergur málsins varðandi verðtrygginguna er að við værum ekki að hafa áhyggjur af henni, ef hér ríkti stöðugleiki með lágri verðbólgu. Ríkti slíkt ástand hér þá þyrftum við heldur ekki á henni að halda. Ef verðbólga er lág, þ.e. undir 2%, þá þurfa vextir ekki að vera háir til þess að raunávöxtun sé jákvæð. Stöðugleiki er því lykillinn, en vegna þess að við vitum að hér er yfirleitt ekki stöðugleiki, þá þurfum við eitthvert kerfi sem ýtir undir stöðugleika. Við hjá HH höfum lagt til þak á verðbætur. Við viljum raunar afturvirkt 4% þak á árlegar verðbætur sem síðan lækkaði í 3%, 2%, 1% og loks væri verðtrygging neytendalána afnumin. Samhliða því yrði að setja þak á vexti óverðtryggðra íbúðalána. Kannski er bara nóg að stilla þakið á verðbætur við 2% og láta þar við sitja.
Sumir segja, að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna. Það er náttúrulega tóm vitleysa. Við setjum bara lög sem banna hana. Síðan þurfa fjármálafyrirtæki bara að laga sig að breyttum aðstæðum. Skýrsla Askar Capital skýrir að nokkru út hvers vegna það er ekki hægt. Þá nefnilega hverfa út af markaðnum áhættulausir fjárfestingakostir. Ég hef aldrei vitað til þess að fjárfestingar eigi að vera án áhættu. En þetta er dálítið mergur málsins. Fjármagnseigendur (og þá er ég ekki að tala um eigendur sparifjár) vilja ekki missa verðtrygginguna, þar sem þá missa þeir fyrirhafnarlausa leið til að hagnast.
Það segir líka í skýrslu Askar Capital verðtrygging sé "aðferð til að minnka tjón af óstöðugleika"! Þessi setning ein og sér sýnir að höfundarnir voru ekki réttu aðilarnir til að skrifa þessa skýrslu. Hlutdrægni þeirra er slík, að ekki mark takandi á orðum þeirra. Mín reynsla af verðtryggingu er, að hún hefur aukið verulega tjón mitt af óstöðugleikanum. Ég skal taka dæmi. Árið 2004 keypti ég bíl á óverðtryggðu, vaxtalausu láni. Afborgun af láninu var 31.750 kr. á mánuði og hún hélst þannig allan tímann. Á sama tíma fór afborgun af jafn háu verðtryggðu íbúðaláni úr um 12.500kr. í 16.600 kr. á mánuði á meðan ég greiddi upp bílalánið. Það fer ekkert á milli mála að verðtryggingin olli mér skaða sem kominn var uppí á kr. 4.100 á mánuði um það leiti sem ég borgaði síðustu afborgunin af bílnum.
Höfum eitt á hreinu. Verðtrygging er fyrst og fremst til að tryggja hag fjármagnseigenda. Ísland er eitt fárra landa í heiminum, þar sem neytendalán eru verðtryggð. Hvers vegna ætli neytendalán séu ekki verðtryggð? Ætli það sé vegna þess, að með verðtryggingu er áhættu af verðbólgunni varpað á lántakann? Í siðmenntuðum þjóðfélögum, þá þykir fráleitt að láta almenning taka áhættuna frá fjármagnseigendum. Hér á landi þykir fjármálafyrirtækjum það aftur sjálfsagt. Jón og Gunna af götunni eiga að virka sem gengisvörn og verðbólguvörn fyrir fjármálafyrirtækin. Og þetta láta stjórnvöld óátalið. Það er allt hægt, ef viljinn er fyrir hendi. Nú þurfa stjórnvöld að sýna úr hverju þau eru gerð. Er landinu stjórnað af músum eða mönnum?
Ég nefndi það nokkrum sinnum á fundinum áðan, að ég óttast ekkert hag lífeyrissjóðanna. Ég benti á, að á árunum 2004 - 2007, þá hafi ávöxtun sjóðanna að stórum hluta verið borinn uppi af óverðtryggðum eignum þeirra. Þetta má lesa út úr ársreikningum sjóðanna. Raun kvað svo rammt við á þessum árum, að óverðtryggðar eignir þeirra gáfu svo vel af sér, að sjóðirnir urðu að selja hluta þeirra. Ástæðan var að samkvæmt lögum er sett þak á hve stór hluti eigna lífeyrissjóða má vera í hinum ýmsu eignaflokkum. Þegar hlutabréf í bönkunum hækkuðu hvað hraðast, þá fór hlutabréfaeign upp fyrir það hámark sem þau máttu vera. Sjóðirnir neyddust því til að selja bréfin. Þetta átti bara við þá sjóði, sem voru með markaðsvirðisbókhald, en hjá þeim sem færðu á kaupverði þá skipti þetta engu máli. Frá aldamótum og fram á haustdaga 2008 gáfu óverðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna yfirleitt betur af sér en verðtryggðar. Það er engin ástæða til að ætla, að muni ekki gerast í framtíðinni. Treysti ég stjórnendum lífeyrissjóðanna og fjárfestingastjórum alveg fyrir því verkefni.
Ósammála skýrslu um verðtryggingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.5.2010 | 11:38
Ragnar Reykás í öllum hornum - Bráðgreindur eða ekki, Hreiðari varð verulega á í messunni
Hún er sérkennileg myndin sem birtist mér á síðum vefmiðla og fjölmiðla eftir að tveimur hvítflibbum var stungið í steininn. Í marga mánuði hefur gagnrýnin dunið á Ólafi Þór Haukssyni (sem ég vil taka fram að er góður vinur minn) fyrir að hafa ekki handtekið neinn og sýni ítrekað getuleysi sitt, reynsluleysi, þekkingarleysi og ég veit ekki hvað. (Tekið fram að þetta eru ekki mínar skoðanir.) Í rólegheitum hefur hann og embættið hans verið að byggja upp mál gegn hinum og þessum meintum gerendum í því að setja íslenska hagkerfið á hliðina. Auk þess hefur komið út rannsóknaskýrsla í 9 bindum auk fjölmargra viðauka, þar sem gefið er í skyn eða beint haldið fram að þessir sömu aðilar hafi framið alvarleg brot. Í þrjár vikur hefur þjóðin getað lesið um hin ótrúlegustu mál í blessaðri skýrslunni og heimtað handtökur.
Síðast liðinn fimmtudag var gengið rösklega til verka. Tveir hvítflibbar voru handteknir og þeim stungið í steininn. Þá stiga fram í hrönnum, og fá góða athygli á tilteknum fjölmiðlum, einstaklingar sem ásaka Ólaf Þór, sem varla hefur verið hægt að draga í fjölmiðlaviðtal, um "fjölmiðlasirkus" "fljótræði", "örvæntingu" og ég veit ekki hvað. Eða þá að menn birta lofgreinar um annan sakborninginn, þar sem teiknuð er upp englamynd af viðkomandi. Mér datt frekar í hug "the killer with the baby face", sem haft er um svona yfirmáta sakleysislega útlítandi menn er hafa sýnt að þeir eru til alls líklegir.
Ég þekki hvorugan sakborning og veit því ekkert hvort þeir eru englar eða djöflar í mannsmynd. Ég veit bara að fyrirtækið, sem þeir unnu hjá, hefur (samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis) á ósvífinn hátt grafið undan hagkerfinu, krónunni, stöðugleika verðlags, greiðsluhæfi viðskiptavina sinna og raunar alls almennings og fyrirtækja í landinu. Það getur vel verið að þetta séu hinir ljúfustu menn og bráðgreindir, en þeir tóku þátt í þessu og annar þeirra var æðsti yfirmaður Kaupþings. Hafi hann verið jafn "bráðgreindur" og menn segja, þá gerði hann sér fullkomlega grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Ef hann gerði það ekki, þá var hann einfaldlega ekki jafn "bráðgreindur" og menn láta vera.
Kannski gerði Hreiðar Már ekkert af þessu viljandi. Líiklegast var ætlunin að hlutirnir færu á hinn veginn, en sé hann jafn "bráðgreindur" og af er látið, þá hefur hann hugleitt þann möguleika að hlutirnir gætu farið úrskeiðis og afleiðingarnar gætu hneppt íslenskt þjóðfélag í skuldafangelsi. Því hafi hann ekki hugsað út í aðra möguleika, en að allt færi á besta veg, þá var hann einfaldlega gjörsamlega vanhæfur í sínu starfi.
Ég hef áður lýst minni sýn á framferði eigenda og stjórnenda bankanna. Hún er sú, að menn hegðuðu sér eins og þeir veðjuðu bara á stöðugt á rautt í rúllettu. Þeir lögðu allt undir í hvert skipti. Fyrir algjöra tilviljun, þá unnu þeir nokkur skipti í röð. Svo kom upp svart (!) og þá kom í ljós, að þeir höfðu ekki bara lagt sína peninga undir, heldur líka allar eignir okkar, lífeyrissjóðanna, erlendra lánadrottna og ég veit ekki hvað. Þeir höfðu lánað eigendum sínum allt laust fjármagn í bönkunum og síðan, að því virðist, tælt lífeyrissjóðina og almenning til að lána helling í viðbót.
Nú verða sjálfskipaðir verjendur Hreiðars Más að ákveð hvort hann hafi verið "bráðgreindur" og þá vitað upp á hár hvaða afleiðingar gjörðir hans kynnu að hafa, eða ekki svo "bráðgreindur" og í raun langt frá því að vera það og því fór sem fór. Ég er sannfærður um að hluti stjórnenda og eigenda Kaupþings, Glitnis og Landsbankans tóku meðvitað gríðarlega áhættu. Þessir aðilar vissu upp á hár hvað þeir voru að gera. Síðan misstu þeir tökin á aðstæðunum og þá varð til þessi Ponzi-svikamylla, sem byggir á því að fá peningalánaða til að borga fyrri lán og vexti af þeim og síðan þarf að fá lán til að greiða þau lán. Það sem þessir aðilar gerðu var í litlu frábrugðið því sem Bernie Madoff gerði eða bara gjaldkeri sem stundar fjárdrátt. Loks kom að því að ekki fékkst meiri peningur til að halda svikamyllunni gangandi eða upphæðirnar voru orðnar svo háar að fólk tók eftir því og þá hrundi allt.
Ef eigendur og stjórnendur föllnu bankanna hefðu viðurkennt árið 2006, að viðfangsefnið var vaxið þeim upp fyrir höfuð, þá hefði margt farið á annan veg. Nei, þeir voru eins og alkólista í afneitun. Þeir áttu ekki í neinum vanda og þurftu því ekki hjálp og hvernig voguðu erlendir greinendur sér að halda því fram að þeir væru búnir að missa tökin á fyrirtækjum sínum. Og hin meðvirka íslenska þjóð (og þar á meðal ég) varði þá út í eitt.
Þannig að, ef Hreiðar Már er jafn "bráðgreindur" og haldið er fram í ansi mörgum pistlum og fréttaskýringum, þá er núna hans tækifæri til að færa sönnur á það. Hann getur greint rétt og satt frá hvernig hann og félagar hans misstu tökin á rekstri Kaupþings sem varð til þess að allt féll hér í október 2008. Hann þarf að hætta að koma með gáfumannlegar skýringar, réttlætingar og afsakanir. Við vitum öll að Kaupþing missti tökin. Við finnum það á eigin skinni. Nú hefur hann tækifæri til að viðurkenna og lýsa þætti sínum og Kaupþings í þessu öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 1680564
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði