Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Hvað getur verið verra en..

Það hafa dunið á okkur ýmsar slæmar fréttir á síðustu mánuðum.  Svo ég fari á hundavaði yfir þetta, þá eru þessar helstar:

  • Fall bankanna
  • Greiðsluþrot Seðlabanka Íslands
  • Að því virðist ótrúleg svikamylla í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi
  • Afskriftir til elítunnar
  • Sjálftaka eigenda bankanna á hundruðum milljörðum, ef ekki þúsundum
  • Ótrygg útlán til elítunnar upp á hundruð milljarða, ef ekki þúsundir
  • Icesave, Icesavesamningurinn og Icesavehótanir
  • AGS, AGS-samningurinn og AGS hótanir
  • Yfir 40% heimila í reynd gjaldþrota
  • Yfir 30% heimila með neikvætt eigið fé
  • Erlendar skuldir þjóðarinnar, þ.e. þessar sem við komumst ekki hjá að greiða, óbærilegar (líklegast yfir 6.000 milljarðar) og jafngilda þjóðargjaldþroti
  • Svik og prettir einstaklinga og fyrirtækja
  • Uppgjöf og/eða úrræðaleysi þriggja ríkisstjórna
  • Lygar, lygar og aftur lygar stjórnvalda, stjórnmálamanna, embættismanna, bankamanna og fjárfesta

Hvað getur verið svo vont, að það er verra en þetta?  Þó nefndi ég bara örfá áberandi atriði.  Ég hefði líka getað nefnt:

  • Atvinnuleysi
  • Landflótti
  • Aðför að velferðarkerfinu
  • Bandorminn
  • Gríðarlega hækkun lána
  • 216 milljarða halla ríkissjóðs
  • Skattahækkanir
  • Skjaldborgina sem aldrei kom
  • Hroka ráðherra í garð þjóðarinnar
  • Siðrof
  • Skort á iðrun
Ef Páll býður betur, þá hlýtur það að vera verra en vont, verra en afleitt.   En ég vil fá að vita hvað það er sem verra en allt vont.  Svartara en allar svartskýrslur hingað til.  Ég vil fá að vita hvað það er og svo vil ég að menn verði teknir í kippum og dregnir til ábyrgðar.  Líka stjórnmálamenn.  Og ráðherrar fyrrverandi og núverandi.  Páll gefur það í skyn að einhverjir ráðherrar hafi gert slík afglöp að horfa þurfi til ráðherraábyrgðar.  Mér koma strax til hugar Geir, Ingibjörg, Björgvin og Árni, en hugsanlega þarf að fara bæði fram og aftur í tímann.  En þessi fjögur stóðu í eldlínunni í 15 mánuði fyrir hrun bankanna, annað hvort fávís eða lugu að okkur.  Ég veit ekki hvort er verra.  Kannski var betra að þau vissu en gátu ekki sagt sannleikann, en að vita ekki sannleikann.  Bankastjórnendur, eigendur bankanna og sérstaklega starfsmenn greiningadeildanna geta ekki borið fyrir sig fávísi.  Kannski vanhæfi, yfirlæti, sjúklegu sjálföryggi, vanmáttarkennd, en líklegast tóku þessir aðilar bara þátt í sjónarspilinu að blekkja allt og alla.  Sjálfa sig þó mest.  Íslandi var fórnað á altari græðginnar.  Hvers vegna?  Jú, vegna þess að það var hægt.  Það var enginn sem sagði hingað og ekki lengra.  Það var enginn sem vildi hinkra við og skoða málið betur.  Það var enginn sem hafi dug og þor til að stoppa hringekju dauðans.  Það var nefnilega búið að múlbinda alla og líf þeirra valt á því að spila með.  Ef Páll kemur með eitthvað svakalegra en þetta, þá verður það vont og ég vil fá að vita um það.
mbl.is Verri fréttir en nokkur nefnd hefur þurft að færa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samið var með fyrirvara um samþykki Alþingis

Við skulum alveg hafa það á hreinu, að samið var með fyrirvara um samþykki Alþingis.  Undirritun íslenskra ráðmanna/samningamann tekur ekki gildi fyrr en samþykki Alþingis liggur fyrir.  Ekki ganga í þá gildru Breta að búið sé að semja.  Það er vissulega rétt, en var gert með fyrirvara.

Alþingi hefur samkvæmt samningnum síðasta orðið að hálfu Íslands.  Þetta vita viðsemjendur okkar.  Vissulega eru allir fyrirvarar í reynd höfnun á einstökum hlutum samningsins, en þeir þurfa ekki að vera höfnun á þeirri megin hugsun í samningnum að Tryggingasjóður innistæðueigenda sé ætlað að standa við skuldbindingar í samræmi við íslensk lög þar að lútandi og tilskipun ESB.  Það er útfærslan sem er verið að hafna.

Steingrímur J. óttaðist afleiðingar í Kastljósviðtalinu í gær og sagði að skuldbindingarnar falli á Tryggingasjóðinn núna 1. september.  Við skulum hafa í huga, að Landsbankanum hefur, vegna ofbeldis breskra stjórnvalda, ekki verið ennþá gefið færi á að greiða út innistæðurnar.  Bretar geta ekki komið í veg fyrir svo mánuðum skiptir að málið fari í eðlilegt ferli og síðan öskrað stuttu eftir að Landsbankinn öðlast svigrúm til að borga: "Þið eruð ekki búin að borga. Vanskila fólk, vanskila fólk."

Sé uppi ágreiningur í máli og annar aðilinn gerir hinum ókleift að sinna lögboðnu hlutverki sínu, þá um leið breytast allar tímasetningar.  T.d. ef banki á Íslandi er með kröfu á viðskiptavin og kröfunni er vísað til dómstóls vegna ágreinings um réttmæti kröfunnar, þá getur bankinn EKKI skráð viðkomandi á vanskilaskrá Creditinfo eða sambærilegra aðila.  Meðan réttarfarslegur ágreiningur er í meðför dómstóla eða í samningaferli milli deiluaðila, þá er ekki um eiginleg vanskil að ræða.  Það sama á við um þetta ferli.  Bretar frystu eigur Landsbankans.  Það þýddi í reynd að fyrsti kostur, þ.e. að bankinn greiði út innistæðurnar, hefur ekki verið fullreyndur.  Landsbankinn var búinn að vera að greiða út innistæður, þegar eignir hans voru frystar.  Það höfðu verið að fluttir peninga frá Íslandi til Bretlands svo hægt væri greiða út.  Það voru ofbeldisaðgerðir Breta sem komu í veg fyrir að þessu væri framhaldið.  Hvers vegna það gerir samningsstöðu okkar veikari og þeirra sterkari hef ég aldrei geta skilið.  Það ætti að vera öfugt.


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innantóm loforð staðfest - Vaxtabætur eru skuldajafnaðar

Á vef RÚV er frétt um reiðan mann eða eins og segir í fréttinni:

Reiður skuldari gekk í skrokk á starfsmanni Innheimtustofnunar sveitarfélaganna í dag. Tveir aðrir hafa verið handteknir fyrir að óspektir í útibúum Kaupþings í gær og í síðustu viku.

Maðurinn sem kom í Innheimtustofnun sveitarfélaganna í morgun var ósáttur við að vaxtabætur sem hann átti inni voru teknar upp í skuldir við hið opinbera, samkvæmt lögum um skuldaaðlögun. Hann fékk viðtal við lögmann sem útskýrði fyrir honum stöðuna en þá brást hann hinn versti við.

Ég verð að segja eins og er, að ég skil reiði mannsins.  Það vill nefnilega svo til, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar leiddi í lög að vaxtabætur skyldu ekki skuldajafnaðar gegn skuldum við hið opinbera.  Þetta var eitt af 18 atriðum sem ríkisstjórnin þessara flokka hreykti af til stuðnings.  Ég skrifaði bloggfærslu um þessi atriði hinn 18. janúar og sagði þar um þetta atriði:

Fellt úr gildi að skuldajafna megi vaxtabótum:  Skiptir máli fyrir þá sem fá vaxtabætur greiddar fyrirfram, sem ég veit ekki hvað það er stór hluti þjóðarinnar.  Fyrir hina eru þetta fyrirheit sem nýtast fólki í ágúst og það er fullkomlega óvíst hvort þessi fyrirheit verða enn við lýði þá.  Niðurstaða:  Varla merkileg ráðstöfun og skuldirnar verða ennþá til innheimtu.

Nú er sem sagt komið í ljós að úrræðið var innantómt eða að starfsmenn Innheimtustofnunar sveitarfélaga vita ekki af ákvæðinu.  Einnig er hugsanlegt að það hafi verið numið úr gildi sem væri alveg dæmigert fyrir árangurinn af "skjaldborginni um heimilin".  Ekki satt.

 


Ókleifur hamar framundan

Franek Rozwadowski talar um að byggja þurfi upp meiri gjaldeyrisforða áður en hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin.  Hann skilgreinir svo sem ekki hve stór sá forði þurfi að vera, en það væri áhugavert að vita.

Í þeim björgunarpakka sem undirbúinn hefur verið af AGS og hin Norðurlöndin, Pólland og Rússland koma að, er gert ráð fyrir lánum að fjárhæð um 5,5 milljarða USD eða í námundan við kr. 690 milljarða.  Þennan pening á fyrst og fremst að nota til að verja gengi krónunnar, en ekki nota til að greiða aðrar erlendar skuldir.  Nei, til að greiða erlendar skuldir á að nota gjaldeyrisjöfnuð þjóðarinnar, sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir, í hugsanlegu bjartsýniskasti, að verði 150 milljarðar á ári næstu 15 árin á föstu gengi þessa árs.  150 milljarðar á ári í 15 ár gerir heila 2.250 milljarða.  Þetta er all þokkalega upphæð, ef ekki væri fyrir hina hliðina, þ.e. erlendar skuldir þjóðarinnar og þær upphæðir sem breyta þarf úr íslenskri krónu, sem sífellt sekkur dýpra, í erlendan gjaldeyri.

Samkvæmt tölum Seðlabankans frá því í júlí, þá eru erlendar skuldir þjóðarbúsins, þegar skuldir bankakerfisins eru ekki taldar með, um 2.900 milljarðar.  Vissulega eru einhverjar erlendar eignir á móti, en þær eru að mestu í eiga annarra aðila en skulda.  Við getum því ekki treyst á að þær verði seldar og andvirðinu skipt yfir í íslenskar djúpkrónur.  En það eru sem sagt 2.900 milljarðar sem Seðlabankinn segir að vaxtaberandi skuldir þjóðarbúsins séu í útlöndum.  Gefum okkur að þær þurfi að greiða niður á 20 árum og beri 5% vexti.  Það þýðir að árleg greiðslubyrði er 290 milljarðar fyrsta árið, 283 milljarða annað árið og lækkar svo um 7 milljarða á ári uns lokagreiðslan er 152 milljarðar.  Samtals þarf að greiða 4.423 milljarða á 20 árum miðað við þessi lánakjör.  Gefum okkur að gjaldeyrisjöfnuðurinn haldist 150 milljarðar í 20 ár, þá gerir það 3.000 milljarða, þ.e. það vantar 1.423 milljarða eða helminginn af upphaflegu tölunni.

En þetta er ekki allt.  Fjármálakerfið skuldar stórar upphæðir í erlendum lánum.  Við fall SPRON, Sparisjóðabankans og Straums er talið að erlendar skuldir þessara aðila hafi verið í kringum 1.700 milljarðar.  Nú samkvæmt lánabók Kaupþings, sem lekið var á netið, þá eru skuldir innlendra aðila við Kaupþing eitthvað í kringum 1.300 milljarðar.  Eitthvað af þessu er vegna skulda erlendra dótturfyrirtækja og eitthvað af þessu verður afskrifað, en það af þessum skuldum sem verður eftir í gamla bankanum þarf að skipta yfir í erlendan gjaldeyri.  Sama á við um skuldir í hinum bönkunum.  Varlega áætlað eru þetta 3-4.000 milljarðar í viðbót sem þarf að greiða erlendum lánadrottnum föllnu fjármálafyrirtækjanna.  Þessi tala gæti eitthvað lækkað, ef kröfuhafar gerast eigendur í föllnu fyrirtækjunum, en þó talan færi niður í 1.500 - 2.000 milljarða, þá er talan hrikaleg.

Heildarþörf Íslands fyrir gjaldeyri næstu 20 árin vegna núverandi erlendra skulda er á bilinu 5.900 - 8.400 milljarðar.  (Lægri talan fæst með því að leggja saman 4.400 og 1.500 og hærri talan er samtala 4.400 og 4.000.)  Styrking gjaldeyrisforða þjóðarinnar upp á 690 milljarða með lánum AGS og nokkurra þjóða, er bara dropi í hafi.  Gjaldeyrisjöfnuður upp á 150 milljarða á ári vegur þyngra, en er samt engan veginn nóg.  Hamarinn lítur út fyrir að vera ókleifur og því fyrr sem við viðurkennum það því fyrr verður hægt að fara að huga að lausnum.  Að mönnum detti í hug, að hægt verði að afnema gjaldeyrishöft hér á næstu árum, finnst mér ótrúlegt.  Mér finnst mun líklegra að gjaldeyrishöft verði hér við líði, þar til við skiptum um gjaldmiðil og tökum upp alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil.  Vegna stöðu þjóðarbúsins, þá ætti það að vera forgangsmál að finna leiðir til að taka hér upp annan gjaldmiðil.  Kreppan, sem við erum að glíma við, er að stóru leiti gjaldeyriskreppa og meðan hún er óleyst, þá náum við ekki að hrista annað af okkur.


mbl.is Byggja þarf upp meiri gjaldeyrisforða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkustu rökin gegn Icesave

Í þessari litlu frétt mbl.is koma fram sterkustu rökin sem hægt er að færa fram gegn Icesave samkomulaginu.  Bankinn sjálfur er best til þess hæfur að greiða til baka innistæðurnar!  Fram kemur í fréttinni að Heritable bankinn, sem var í eigu Landsbankans, sjái sjálfur um að greiða innistæðueigendum innistæður sínar.  Það gerist ekki bara si svona heldur taki lengri tíma.  Áður hefur komið fram að Kaupþingi var gefinn kostur á að greiða út innistæður á KaupthingEdge og það gekk bara vel.  Því hlýtur að vakna sú spurning:  Af hverju fékk Landsbankinn ekki sama tækifæri?  Af hverju þurfti strax að blanda íslenskum stjórnvöldum inn í málið áður en búið var að láta reyna á greiðslugetu Landsbankans?

Ég hef haldið því fram í nokkurn tíma, að Icesave samningurinn sé óþarfur.  Á Íslandi eru lög um það hvernig á að bera sig að geti banki ekki greitt út til innistæðueigenda og svo er það tilskipun ESB.  Við fall Landsbankans fullyrtu forráðamenn bankans að eignir bankans dygðu til að greiða út allar innistæður.  Málið er að bresk stjórnvöld fylltust óðagoti og gripu til þess að frysta eigur bankans og það sem meira var, að Bretar og Hollendingar tóku upp á því hjá sjálfum sér að greiða út innistæðurnar. 

Grundvallarmálið er að enginn bað Breta og Hollendinga að greiða út innistæðurnar í Icesave eða hvað? Þjóðirnar tóku það upp hjá sjálfum sér að gera það án þess að gera Landsbankanum sjálfum fyrst kleift að greiða og síðan íslenska innistæðutryggingasjóðnum.  Með þessu fóru þjóðirnar á svig við innistæðutryggingatilskipunina, en þar er tekið fram að fyrst eftir að fullreynt er að innlánsstofnunin getur ekki greitt kemur að viðkomandi tryggingasjóði að greiða.  Þar segir ekkert um það að einhver annar tryggingasjóður geti gripið inn í. Að bresk stjórnvöld hafi fryst eigur Landsbankans réttlætir heldur ekki inngrip breskra og hollenskra stjórnvalda. 

Bretar og Hollendingar telja að inngrip þeirra hafi gert það að verkum að greiðslur þeirra umfram EUR 20.887 séu jafnréttháar sem forgangskröfur og krafa íslenska tryggingasjóðsins.  Íslensk stjórnvöld ætla að kokgleypa viðhorf Breta og Hollendinga til málsins.  "Fyrst að Bretar og Hollendingar segja að þetta sé svona, þá hlýtur það að vera rétt" má lesa í skjölum sem birt voru á netinu í gær.  Þetta getur ekki staðist.  Þessar þjóðir geta ekki troðið sér framfyrir í kröfuröðinni og rýrt þannig stöðu íslenska tryggingasjóðsins með því að borga meira en ESB tilskipunin segir til um. 

Íslensku lögin eru mjög skýr.  Innlánsstofnunin skal greiða eins mikið og hún getur áður en tryggingasjóðurinn tekur við.  Eftir að lögbundnu lágmarki (þ.e. EUR 20.887) er náð skal halda áfram að greiða upp innistæðurnar uns annað að tvennu gerist, að innistæðurnar hafa verið að fullu greiddar eða að eignir eru uppurnar.  Það þýðir að kröfur Breta og Hollendinga lenda á eftir kröfum íslenska tryggingasjóðsins, en ekki samhliða.  Eins og Breta og Hollendingar túlka lögin, þá gætu þessar þjóðir stofnað 20 tryggingasjóði sem skiptu milli sín að greiða innistæðueigendum.  Allir sjóðirnir myndu þá fá sama forgang og íslenski sjóðurinn.  Þannig fengi sá íslenski fyrstu krónuna og síðan þá 22. (tuttugustu og aðra).  Það sér það hver heilvita maður að slíkt gengur ekki upp, en lögfræðilega er það samt leyfilegt, ef túlkun Breta og Hollendinga stenst. 

Í mínum huga er ekkert vafamál, að Landsbankanum ber að greiða út innistæðurnar á Icesave eftir bestu getu.  Nái bankinn ekki að greiða allar innistæður, þá ber íslenska tryggingasjóði innistæðueigenda að greiða það sem upp á vantar upp að EUR 20.887.  Þ.e. upphæðir umfram EUR 20.887 eru ekki tryggðar af innistæðutryggingasjóðnum íslenska.  Dugi eignir Landsbankans fyrir öllum innistæðum upp að EUR 20.887, þá tekur bankinn næst við að greiða út til þeirra sem eiga umfram þá upphæð og það sem meira er íslenski innistæðutryggingasjóðurinn er laus allra mála.  Tekið skal fram að vextir falla ekki undir forgangskröfur og því er eingöngu um útgreiðslu höfuðstóls að ræða.  Falli einhver hluti Icesave krafnanna á íslenska tryggingasjóðinn, þá gæti komið til þess að íslenskar innlánsstofnanir þurfi að leggja sjóðnum til meira fjármagn, en í lögum um sjóðinn og í ESB tilskipuninni er ekkert sem segir skattgreiðendur eigi að borga brúsann nema í besta falli ákaflega óbeint eftir að fjölmargar varnir hafa fallið.

Icesave-samningurinn, sem ég kenni við Svavar Gestsson, er í raun og veru algjörlega óþarft plagg og til þess eins gerður að tryggja Bretum og Hollendingum meira en íslensk lög og tilskipun ESB segja til um.  Ég skil vel að þessar þjóðir vilji veita þegnum sínum aukna tryggingu, en slíkar auknar tryggingar skuldbinda okkur Íslendinga ekki neitt.  Ef ég kaupi hús í Hollandi sem hrynur í óvæntum jarðskjálfta, þá get ég ekki borið fyrir mig íslenskri byggingareglugerð og krafist bóta frá byggingaaðilanum.  Þetta er nákvæmlega það sem Bretar og Hollendingar eru að gera.  Þeir sem lögðu inn á þessa reikninga vissu (eða máttu vita) að innistæður umfram EUR 20.887 voru ekki tryggðar og að vextir af innistæðunum voru ekki tryggðir.  Af hverju eiga þá kröfur umfram EUR 20.887 að vera jafnréttháar í kröfuröð og þær sem eru undir EUR 20.887?  Svavarsnefndin samþykkti þetta, einhverra hluta vegna, algjörlega að óþörfu.

Landsbankinn stendur frammi fyrir því viðfangefni að greiða út Icesave innistæður eftir bestu getu.  Einhverra hluta vegna hafa menn viljað gera þetta að vandamáli íslenskra stjórnvalda og þar með íslensku þjóðarinnar.  Fyrir því eru ekki nein lagaleg rök og engin stoð fyrir því í tilskipun ESB um innistæðutryggingar.  Með því að samþykkja Icesave-samning Svavarsnefndarinnar, þá erum við að taka ábyrgðina af Landsbankanum og við erum að bjarga Bretum og Hollendingum frá eigin klúðri.  Þess vegna og aðeins þess vegna verður Alþingi að hafna samningnum eða fara fram á nokkrar veigamiklar breytingar á honum í formi fyrirvara.  Stærstu atriðin eru að Landsbankanum verði gefinn eðlilegur tími til að greiða úr málinu, að hinn íslenski tryggingasjóður hafi forgang að eignum Landsbankans áður en kemur að því að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum, að hafnað verði kröfu Breta og Hollendinga um greiðslu vaxta og að sett verði þak á þær árlegu greiðslur sem hugsanlega gætu lent á ríkissjóði ef til þess kæmi að eignir Landsbankans dygðu ekki fyrir innistæðum upp að EUR 20.887.  Best væri í mínum huga að hafna samningnum og Alþingi samþykki einhliða yfirlýsingum um það hvernig staðið verði að málum af Íslands hálfu í samræmi við það sem að ofan er ritað.


mbl.is Kantaraborg fær endurgreitt frá Heritable bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi ætlar að banna það sem hefur verið bannað í 8 ár

Ég hjó eftir því í orðum Gylfa Magnússonar á blaðamannafundi í dag, að hann ætlar að standa fyrir lagabreytingum sem bannar bönkum að bjóða almenningi og fyrirtækjum lán með tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Þetta er stórmerkileg staðhæfing, en hann er bara 8 árum of seinn.  Í frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekið skýrt fram að með lögunum var ætlunin að taka af allan vafa um að það væri óheimilt að binda íslenskar fjárskuldbindingar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Hvað er hægt að hafa þetta skýrar?

Ég er búinn að fjalla um þetta atriði nokkrum sinnan frá því að ég fjallaði fyrst um þetta í febrúar.  Það er staðreynd að gengisbundin lán, sem hér flæddum um þjóðfélagið frá árinu 2003, voru ólögleg, þó svo að FME og viðskiptaráðuneytið hafi sofið á verðinum.  Í athugasemd við greinar 13 og 14 í frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekinn af allur vafi um þetta.  Það er síðan bara hreinn og beinn aumingjaskapur hjá eftirlitsaðilum og hugsanlega ákæruvaldi að hafa ekki tekið á þessu fyrir löngu.

Menn fela sig á bak við það, að þetta séu erlend lán, þ.e. tekin í erlendri mynt, ekki í krónum.  Það getur verið að í einhverjum undantekningartilfellum hafi svo verið, en oftast var sótt um lánsfjárhæð í íslenskum krónum, útborgunin var í íslenskum krónum og afborganir eru í íslenskum krónum.  Það eina sem er í erlendum gjaldmiðlum, er að búið var til viðmið í erlendum gjaldmiðli svo breyta mætti upphæðinni daglega.  Ég hef t.d. aldrei vitað til þess að einhver taki 1.024.784,5 jen að láni eða 11.362,84 dali svo dæmi séu tekin af algjörlegu handahófi.  Nei, fólk tók kr. 1,3 milljónir að láni sem á tíma lántökunnar reyndust vera 1.024.784,5 JPY + 11.362,84 USD.  Og fólk fékk svo tólfhundruð og eitthvað þúsund útborguð, en ekki rétt um eina milljón jena og rúmlega 11 þúsund dali.  Það var ekkert erlent við þessi lán nema viðmiðið og því voru þessi lán ólögleg samkvæmt greinum 13 og 14 í lögum nr. 38 frá 2001 um vexti og verðbætur.

Það væri nær fyrir viðskiptaráðherra að tryggja gjafsókn svo einhver aðili geti rekið prófmál fyrir dómstólum svo hægt sé að fá úrskurð dómara í málinu. Það er raunar brýnt fyrir fjölmarga aðila að úr þessu fáist skorist, jafnt fyrir skuldara og bankana.


Finnur segir mörg fyrirtæki ekkert til sakar unnið, en hvað með hin?

Stundum geta menn óvart sagt eitthvað sem líklegast var ekki ætlunin að segja.  Visir.is vitnar í Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra Nýja Kaupþings, þar sem hann talar um lánabók Kaupþings sem lekið var á netið.  Í fréttinni segir:

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Kaupþings segir bankanum skylt samkvæmt lögum að verja trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini bankans. Mörg félög séu á þessum lánalista sem hafi ekkert til saka unnið.

Ég veit ekki hvort þetta eru nákvæmlega hans orð eða hvort þetta eru orð blaðamannsins, en ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort bankastjórinn er að viðurkenna að margt í lánabókinni gera meira en að orka tvímælis.  Þ.e. að þar séu fyrirtæki sem hafi unnið sér eitt og annað til sakar.

Ég hef ekki nennt að lesa í gegnum skjalið sem lekið var á netið, en ef eitthvað er að marka fréttaflutning, þá hefur sjálftaka stærstu eigenda Kaupþings, þá meina ég bæði þeirra sem áttu beint í Kaupþingi og þá sem áttu í Exista eða öðrum félögum sem áttu stóran hlut í Kaupþingi, var grófari og umfangsmeiri en sjálftaka eigenda annarra banka.  Var hún þó gróf og umfangsmikil.

Það er því miður að koma betur og betur í ljós, að útlán bankanna til aðila í eigendahópi þeirra var mjög mikil og verulega gróf.  Menn gerðu allt til að hylja slóð sína og reyndu margt til að sneiða fram lögum og reglum.  Brotaviljinn var mikill.  Fyrir þetta er íslensku þjóðinni að blæða í dag.

Hvernig stendur á því að menn gerður þetta og hvernig stendur á því að menn komust upp með þetta?  Þetta er vonandi það sem sérstakur saksóknari er að rannsaka, en hluta af skýringunni hlýtur að vera að finna í því að menn reyndu hvað þeir gátu til að hylja slóð sína.  Líklegast var regluvarsla bankanna í molum og innra eftirlit ekki nógu sterkt.  Síðan má ekki gleyma því, að Fjármálaeftirlit var einfaldlega of máttlítið til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.  Ef lítil lífeyrissjóður gat blekkt FME, eins virðist hafa gerst í Kópavogi, þá getum við bara ímyndað okkur hvað stórir bankar með fjölmennt starfslið gætu gert, ef vilji hefði verið fyrir hendi.  En hluti af vandanum var líka sú aðferðafræði sem FME beitti.  Eins og ég þekki til, þá byggði eftirlit FME mjög mikið á skýrsluskilum í stað skyndiheimsókna.  Skýrsla er eins og ljósmynd, hún sýnir ástandið á þeim tíma sem skýrslan er samin.  Skilvirkt eftirlit verður að byggjast á sögu, þ.e. kvikmynd, þar sem þróun yfir ákveðinn tíma er skoðuð.  T.d. dagleg staða í heila viku, einn mánuð eða lengri tíma.  Vissulega er slíkt eftirlit tímafrekara, en það hefði komið í veg fyrir margt af því sem fór úrskeiðis.

En aftur að Finni og frétt visir.is.  Ég held að það sé alveg rétt, að mörg þeirra fyrirtækja, sem eru í lánabókinni unnu sér ekkert til sakar, en önnur gerðu það augljóslega.  Í mínum huga eiga þau engan rétt á leynd.  Þetta eru aðilarnir sem settu þjóðfélagið á hliðina og það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að vita hverjir það voru.  Það sem meira er.  Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að vita hvaða starfsmenn Kaupþings (líka Landsbankans og Glitnis) samþykktu þessar lánveitingar og hverjir aðrir komu að undirbúningi þeirrar vinnu.  Þetta er nefnilega fólkið sem ber mesta ábyrgð á falli íslenska hagkerfisins og það þarf að svara fyrir gjörðir sínar.


« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678165

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband