Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Styrking krónunnar er það besta sem gæti gerst

Hver sér sínum augum gullið.  Hvernig dettur einhverjum manni í hug að það sé slæmt að krónan styrkist?  Vissulega kom veiking hennar lífeyrissjóðunum til góða í haust, þegar bankarnir hrundu.  Að styrking hennar núna komi lífeyrissjóðunum illa, sýnir bara að þeir hefðu betur að nota tækifærið þá til að losa eins mikið af erlendum eignum sínu og þeir mögulega gátu og flutt peningana heim, þegar krónan sök sem dýpst.  Þeir lífeyrissjóðir sem gerðu það ekki misstu af gullnu tækifæri til að innleysa góðan hagnað.  Ekki að tækifærið hafi runnið þeim algjörlega úr greipum, þar sem eftir er að fleyta blessaðri krónunni, þannig að niðurstaðan úr útrás lífeyrissjóðanna fæst ekki fyrr en þá.  Mér finnst samt ólíklegt að við eigum aftur eftir að sjá gengisvísitölu upp á 250, a.m.k. ekki í bráð.

En það er gott að einhverjir geta grætt á óförum annarra.  Miðað við töfluna sem fylgir fréttinni, þá eru hagsmunir lífeyrissjóðanna vegna erlendra verðbréfaeign eitthvað umfram skuldir heimilanna í gengistryggðum lánum.  Á móti kemur að skuldir fyrirtækja í gengistryggðum lánum nema um tvöföldum erlendum eignum lífeyrissjóðanna.  Þannig að út frá þjóðhagslegum forsendum, þá er betra að lífeyrissjóðirnir missi spón úr aski sínum, en að greiðendum gengistryggðra lána þurfi að blæða meira en orðið er.  Síðan má ekki gleyma því, að um leið og hagkerfi heimsins fer að jafna sig, þá er mjög líklegt að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hækki samfara styrkingu markaða.

Nú ég veit að Tryggvi Tryggvason hjá Gildi kann sitt fag vel og hann finnur örugglega leið til að verja eigur sjóðsins.  Ég stakk svo sem upp á því í október, að lífeyrissjóðirnir losuðu sig út úr sem flestum af erlendu eignasöfnum sínum og flyttu peninginn hingað til lands, þar sem hans er þörf.  Mér fannst það þá verulega skynsamlegt og held enn að það sé hagnaðarvon í slíku.  Spurning er bara hvort vilji er fyrir því.  Svo má ekki líta framhjá því, að það mun styrkja gjaldeyrisforða þjóðarbúsins, ef þessi aur er fluttur heim.

Út frá hagsmunum heimilanna, þá fer ekkert á milli mála, að það er nauðsynlegt að krónan styrkist um 15 - 20% í viðbót.  Samkvæmt stundargengi Glitnis stendur gengisvísitalan sem bankinn reiknar í 193,5 stigum (miðgengi).  15% styrking til viðbótar gæfi gengisvísitölu upp á 164,5 stig og 20% styrking gæfi 154,8 stig.  Það gerir kr. 116 - 124 fyrir evruna, kr. 90 - 96 fyrir USD, kr. 77 - 82 fyrir CHF og kr. 0,99 - 1,05 fyrir JPY.  Komi þetta sér illa fyrir lífeyrissjóðina, þá voru það bara þeirra mistök að losa sig ekki út úr erlendum eignasöfnum um það leiti sem íslenska krónan náði sínu lægsta gildi um mánaðarmót nóvember og desember.


mbl.is Styrking krónunnar getur komið sér illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðsluaðlögunarfrumvörp missa marks

Þingheimur vaknaði með sprengingu í dag, þegar þrjú frumvörp til greiðsluaðlögunar voru lögð fram.  Eftir að hafa kynnt mér efni þeirra lauslega, þá fæ ég ekki betur séð en þau lepji sömu vitleysuna hvert eftir öðru.  Tvær eru veigamestar:

  1. Einstaklingur sem er í atvinnurekstri getur ekki fengið greiðsluaðlögun, þó svo að engar ábyrgðir vegna rekstursins hvíli á viðkomandi eða greiðsluörðugleikarnir eigi ekkert skylt við afkomu rekstrarins.  (Framsóknarfrumvarpið er með leið framhjá þessu að hluta.)
  2. Veðlán sem rúmast á eigninni miðað við verðmæti hennar geta ekki fallið undir greiðsluaðlögun. (Frumvarp Framsóknar eingöngu)

Með þessu er í reynd verið að útiloka að stór hluti heimila geti nýtt sér greiðsluaðlögun og það er verið að tryggja að ekki verði gefinn nokkur afsláttur af veðskuldum.

Gríðarlegur fjöldi einstaklinga eru með sjálfstæðan rekstur á einu formi eða öðru.  Sumir hafa stofnað um reksturinn einkahlutafélag, meðan aðrir eru með reksturinn á eigin kennitölu.  Langflestir eru ekki með neinar eða ákaflega takmarkaðar fjárhagslegar skuldbindingar vegna rekstrarins, kannski yfirdráttarheimild í banka sem hugsanlega er tryggð með tryggingarbréfi á húseign viðkomandi eða tekið hefur verið lágt lán til koma rekstrinum af stað.  Öll frumvörpin þrjú gera ráð fyrir að þessir einstaklingar geti ekki óskað eftir greiðsluaðlögun.  Óskiljanlegt með öllu.  Og það sem meira er, það þurfa að líða 3 ár frá því að viðkomandi slítur sig frá rekstrinum, þar til hann/hún hefur rétt á að sækja um greiðsluaðlögun.  Mér finnst þetta fáránlega þröngt skilgreint og taka allt bit úr hugmyndinni.

Eingöngu má beita greiðsluaðlögun vegna veðlána, ef höfuðstóll þeirra er orðinn hærri en verðmæti eignarinnar sem lánin hvíla á.  Hér er önnur steypa á ferðinni.  Það á að vera grundvallaratriði í greiðsluaðlögun að miða við ráðstöfunartekjur heimilisins en ekki upphæð eða gerð lánanna.  Áhrif gengisfalls krónunnar á gengistryggð lán og verðbólgunnar á verðtryggð lán síðustu 18 mánuði hefur gert það að verkum, að fólk ræður ekki lengur við greiðslubyrði lánanna, þrátt fyrir að höfuðstóll lánanna sé vel undir verðmæti eignarinnar.  Fólk í þannig stöðu, þarf alveg jafnmikið á greiðsluaðlögun að halda og hinir sem skulda meira en veðrými eignarinnar segir til um.  Raunar hefur greiðsluaðlögun ekkert með upphæð lána að gera eða veðrými á eign.  Hún hefur fyrst og fremst með tímabundna greiðslugetu að ræða.  Ég segi tímabundna, þar sem fyrir flesta er ómögulegt að segja til um hvaða tekjur viðkomandi hefur eftir nokkra mánuði, hvað þá nokkur ár í því árferði sem nú ríkir.

Ég skora á þingheim að sníða þessa agnúa af frumvörpunum.  Ef þessum atriðum verður ekki breytt munu þau missa marks og nýtast fáum.


Heimilin eiga að fjármagna bankana með fasteignum sínum

Ríkisstjórnin er rétt orðin 48 tíma gömul, þegar í ljós kemur að hún hefur ekkert upp á að bjóða.  Bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Magnússon hafa sagt að ekkert verði gert til að létta af heimilunum þeim mikla skuldaklafa sem efnahagsóstjórn síðustu ára hefur skellt á þau.  Finnst mér fljótt falla á heilagaleika Jóhönnu við stólaskiptin.

Ég skil vel að endurfjármagna þurfi bankakerfið, en að rétta einum hópi háar upphæðir á kostnað annarra er út í hött.  Ég skil ekki af hverju innistæðueigendur eigi að fá tjón sitt bætt meðan íbúðaeigendur eiga bera sitt að fullu.  Ef einhver getur skýrt þetta út fyrir mér, þá er ég ekkert nema eyrun.  Hver eru rökin fyrir því að ríkissjóður leggi innistæðueigendum til tugi, ef ekki hundruð milljarða hér á landi og erlendis, en þeir sem lögðu sparifé sitt í steinsteypu eiga að tapa sínu bótalaust?  Ég er ekki að fara fram á neitt annað en að jafnræðis sé gætt á milli sparnaðarforma.

Sparnaðarformin eru fleiri en þessi tvö.  Þar má nefna hlutabréfaeign, lífeyrissparnaður, skuldabréf og peningamarkaðssjóðir.  Vissulega eru fleiri leiðir, en ég læt þessar duga.  Ríkisstjórn Íslands ákvað í fljótræði við setningu neyðarlaganna, að ein sparnaðarleið ætti að njóta ríkisverndar.  Allar aðrar sparnaðarleiðir eiga á hinn bóginn að blæða fyrir efnahagsóstjórn undanfarinna ára.  Eigið fé okkar í húseignum okkar á að brenna upp, vegna getuleysis Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar að halda jafnvægi í hagkerfinu.  Hlutafjáreign almennings (ég geri greinarmun á fagfjárfestum og almenningi) fær að hverfa óbætt, vegna þess að stjórnvöld létu það gerast að bankakerfi landsins hrundi.  Það er í lagi að hluti af lífeyrissparnaði landsmanna glataðist vegna þess að hlutabréfa- og skuldabréfaeign þeirra í bönkunum urðu verðlaus á einni nóttu.  Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar gerði í buxurnar, þegar kemur að efnahagsstjórn undanfarinna 20 mánaða.

Það á eftir að koma í ljós hve mikið rangar ákvarðanir bankanna spila í þessum hildarleik.  Ætla ég ekkert að draga úr ábyrgð þeirra.  Það á líka eftir að koma í ljós hve stóran hlut röng peningamálastjórn Seðlabankans skipti, þó ég hafi það á tilfinningunni að áhersla rannsóknaraðila verði ekki mikil á þeim þætti.  Að ég tali nú ekki um jábræðrakór stjórnmálamanna með útþenslu bankanna.

Ætli núverandi ríkisstjórn aðeins að bjarga einu sparnaðarformi og láta öll hin sigla sinn sjó, þá var verr af stað farið en heima setið. 

Mjög margir sem eru í erfiðleikum með húsnæðislánin sín áttu ekkert val.  Þetta fólk var í leit að húsnæði.  Verð fasteigna hafði hækkað mikið og tók þau lán sem buðust.  Sum hjá Íbúðalánasjóði, önnur hjá bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum.  Nú hafa þessi lán hækkað um hátt í 25% á 18 mánuðum.  Hvers á þetta fólk að gjalda?  Var það ekki á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka að halda verðbólgunni í skefjum?  Var það ekki hlutverk Seðlabankans að halda genginu stöðugu?

Það er ákaflega seigur misskilningur, að vandi heimilanna hafi byrjað við fall bankanna.  Svo er alls ekki.  Vandi heimilanna er búinn að vera stigvaxandi undanfarin 8 ár.  Frá því að Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið sín hefur vísitala neysluverðs hækkað úr 204 stigum í 334,8 stig eða tæp 65%.  Á þessu tímabili hefur Seðlabankinn örsjaldan náð að halda verðbólgunni innan markmiða sinna.  Ef Seðlabankanum hefði tekist til eins og hann ætlaði sér hefði hækkun verðbólgan á þessu tíma (frá 1. apríl 2001 til dagsins í dag) verið innan við 22%.  Það er þessi 43% munur sem er vandamálið og síðan má bæta við það, að samkvæmt rannsóknum Seðlabankans, þá hafa verðbætur á lán verið ofmetnar um 0,5-2% á ári, sem gerir á bilinu 4 - 17% á þessum tæpum 8 árum.  Þetta er vandi heimilanna vegna verðtryggðra lána, ekki fall bankanna.  Verðbólgan frá því að bankarnir féllu mælist bara 6,1%, en næstu 12 mánuði þar á undan mældist hún 15,5%.  Það er nærri því tvöföld sú verðbólga sem búast má við frá október 2008 til október 2009 og þre- til fimm föld sú verðbólga sem búast má við næstu 12 mánuði.

Síðan heldur þetta áfram með því að Seðlabanka og fjármálafyrirtækjum er bjargað með því að kaupa af þeim skuldabréf útgefin af gömlu bönkunum.  Eða er það þannig, að þar sem Seðlabankinn fékk ekki lán fjármálafyrirtækjanna að fullu greidd, þá skulda þau Seðlabankanum ennþá þessa 70 - 75 milljarða sem nemur afslættinum sem ríkissjóður fékk.  Þannig er því farið með húseigendur sem missa húsnæði sitt á nauðungarútsölu.  Það er svo merkilegt, að hægt hefði verið að bjarga heimilunum með þessari aðgerð ríkissjóðs til stuðnings Seðlabankanum, eins og ég hef útskýrt áður (sjá Tillaga um aðgerðir fyrir heimilin).

Ef það er niðurstaðan að ekki á að bjarga heimilunum með niðurfærslu skulda, þá hvet ég Hörð Torfason til að halda áfram með fundina sína á laugardögum.  Ég hvet jafnframt fólk til að láta í sér heyra og taki upp þráðinn sem frá var horfið við að berja á búsáhöldum.  Ef það er ætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að keyra heimilin í gjaldþrot, þá þarf að kæfa þær hugmyndir ekki seinna en strax.

Ég hvet fólk að skrá sig í Hagsmunasamtök heimilanna, því við ætlum að berjast með kjafti og klóm gegn þessu óréttlæti.  Við ætlum ekki að láta það líðast að heimilin verði látin fjármagna endurreisn bankakerfisins með fasteignum sínum.


Er þetta langlífisgen eða sjúkdómavarnargen?

Á árunum 1997 - 2000 vann ég hjá Íslenskri erfðagreiningu.  Ég hafði m.a. undir höndum þann starfa að undirbúa umsóknir vegna rannsókna til Tölvunefndar (nú Persónuvernd).  Ein allra áhugaverðasta rannsóknin sem þá fór í gang var rannsókn á langlífi.  Inn á mitt borð komu því alls konar gögn um þetta mál og fékk ég því færi á að kynna mér hinar ýmsu hliðar þess.  Sú sem mér fannst skipta mestu máli, var ekki spurningin um hvað veldur langlífi, heldur hvað kemur í veg fyrir að fólk fái sjúkdóma sem dregur það til dauða.  Ég leit því á þessa rannsókn, sem kjörið tækifæri til að finna sjúkdómavarnargen.

Mér finnst nefnilega ekki skipta máli hvort einstaklingar verði sextugt, sjötugt, áttrætt, nírætt eða tírætt, heldur að fólk njóti  góðra lífsgæða meðan það lifir.  Að það þurfi ekki að berjast við erfiða sjúkdóma, sem skerða hæfi þess til að lifa góðu lífi, binda það í langan tíma á sjúkrasæng eða í tímafrekum læknismeðferðum.  Verði hægt að "bólusetja" fólk fyrir sjúkdómum, mun það hafa gríðarleg áhrif á hið sístækkandi og óseðjandi heilbrigðiskerfi.  Á móti kemur að útgjöld til lífeyrisþega munu aukast og spurningin er því hvort vegur þyngra, sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu eða aukinn kostnaður í tryggingakerfinu.

Mikilvægast er þó að auka lífsgæði fólks helst með því að koma í veg fyrir að það veikist, annars með því að draga úr þjáningum þess.


mbl.is Langlífisgenið fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir fyrir heimilin

Ég vil byrja á því að fagna þeim ásetningi hinnar nýju ríkisstjórnar að stoppa nauðungarsölur á íbúðarhúsnæði næstu 6 mánuði.  Þetta er mikilvægt skref til að koma í veg fyrir að fjölskyldur verði sendar út á Guð og gaddinn.

Í mínum huga eru nokkur verkefni ákaflega brýn:

  1. Að ráðast strax að hinu vaxandi atvinnuleysi.  Ég hef sagt að það sé betra að borga fyrirtækjum fyrir að hafa fólk í vinnu, en að borga fólki bætur fyrir að hafa ekki vinnu.  Fjölmörg fyrirtæki eru að líða fyrir það núna, að heimilin og fyrirtæki eru að skera niður útgjöld.  Þjónusta þessara fyrirtækja er mikilvæg fyrir samfélagið, þó svo að einhverjir geti verið án hennar.  Má þar nefna alls konar tómstundastarfsemi og útgáfufélög.
  2. Afnema þarf verðtrygginguna.  Í mínum huga eru tvær ástæður fyrir því.  Fyrst er að verðbætur hafa samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum verði ofmetnar um áraraðir og því erum við að greiða hærri verðbætur á verðtryggð lán en við ættum í raun og veru að hafa gert.  Síðari ástæða er sú sem Gunnar Tómasson lýsti í Silfri-Egils í gær.  Verðtrygging er skuldaaukning án verðmætaaukningar.  Í nærri 20% verðbólgu hefur sú upphæð sem heimilin þurfa að greiða af lánum sínum aukist um ríflega 200 milljarða, en á sama tíma er mikil samdráttur á þjóðarframleiðslu og tekjum.  Það getur einfaldlega ekki staðist að lánakerfið getið tekið þessa 200 milljarða til sín.  Ég hef sett fram svipaða hugmynd og Gunnar nefndi í gær, þ.e. setja hluta af höfuðstól lánanna í afskriftarsjóð, sem annað hvort yrði greitt af eftir sérstökum reglum eða afskrifað á löngum tíma (sjá Tillögur talsmanns neytenda frá 9. október!).  Málið er að núna er tækifæri til að afnema verðtrygginga.  Verðbólgan er á hraðri niðurleið og verður (vonandi) komin niður fyrir 5% við árslok.  Ég hef áður lagt til að byrjað verði á því að setja þak á verðbætur (og vexti líka).  Aðrir hafa gengið lengra og hreinlega lagt til að verðtryggingin verði aftengd strax og þær verðbætur sem ættu að leggjast á lán annað hvort falli niður eða leggist í afskriftarsjóð.  Hvor leiðin sem farin er, þá væri hægt að afnema verðtrygginguna alveg á 2-3 árum.
  3. Bregðast við hækkun höfuðstóls og greiðslubyrði.  Búin hefur verið til greiðslujöfnunarvísitala vegna verðtryggðra lána.  Hún dregur tímabundið úr greiðslubyrði, en frestar bara vandanum.  Sama á við, ef útbúið verður einhvers konar greiðslujöfnunargengi.  Eins og ég bendi á að ofan, þá stendur engin verðmætaaukning að baki hækkunar höfuðstóls lánanna.  Það er því vonlaust að fólk geti nokkru sinni unnið upp hækkunina, án þess að meiri verðbólga verði sem hækkar þá höfuðstólinn enn frekar.  Mér finnst mikilvægt að skoða hvaða skuldbindingar liggja að baki lánunum hjá lánastofnunum.  Við skulum hafa í huga að búið er að leggja háar upphæðir af almannafé í að bjarga ríkisbönkunum.  Mér finnst bara allt í lagi að almenningur njóti þess með niðurfærslu höfuðstóls lánanna.  Ég legg til að höfuðstóll lánanna verði miðaður við gengi og vísitölu 1. mars 2008.
  4. Gæta þarf að því, að hluti íbúðalána fólks er hjá öðrum en ríkisbönkunum þremur eða Íbúðalánasjóði.  Mér finnst það oft gleymast.  Það hefur ekkert verið gert út af þeim lánum.  Allt er miðað við þríburana eins og ekkert annað sé til.
  5. Jafnræði þarf að vera á milli aðgerða.  Búið er að leggja tugi, ef ekki hundruð, milljarða í að bjarga sparifé hluta landsmanna.  Af hverju eitt sparnaðarform er varið með sértækum aðgerðum á kostnað allra landsmanna, en það er talið í lagi að aðrir beri tap sitt.  Hér þarf að hugsa málið betur.  Það gengur ekki að almennir hlutafjáreigendur eigi að bera allt sitt tjón óbætt, meðan sá sem lagði peninginn inn á sparireikning fær sitt bætt.  Á þeim tíma sem fólk keypti þessi hlutabréf, þá voru þau jafn örugg sparnaðarleið og innistæðureikningar.  Það er því út í hött að öðrum eigi að bjarga en ekki hinum.  Sama gildir um þá sem lögðu sparnað sinn í steinsteypu.  Ég geri mér grein fyrir að verðmæti húsnæðis sveiflast, en hér erum við að tala um hrun á eigin fé, sem sambærilegt tap sem hefði orðið á innlánsreikningum, ef ríkið hefði ekki komið til bjargar.  Ég fæ ekki betur séð, en að hér sé verið að fara á skjön við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki af hverju sumir eiga að tapa milljónum, ef ekki milljóna tugum, að sparnaði sínum af því að þeir völdu að hafa hann ekki á innlánsreikningum.
Mér líst mjög vel á það að slá eigi skjaldborg um heimilin, en það verður ekki gert nema gripið verði til alvöru aðgerða.  Ég býð spenntur.
mbl.is Slá skjaldborg um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 1678185

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband