Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Eru til lög sem..

Eru til lög sem "banna umfjöllun um málsatvik hjá fólki sem hefur gert upp að fullu við dómskerfið og hlotið uppreist æru".  Vá!  Þýðir það að ekki má fjalla um gamalt morðmál, þar sem morðinginn er búinn að taka út dóminn?  Eða eins og í þessu tilfelli "málið sem ekki má fjalla um" varðandi "manninn sem ekki má nefna" (erum við að tala um Voldemort?).  Ef slík lög eru í gildi, þá er líka löngu orðið tímabært að herða reglurnar um það í hvaða tilfellum menn geta fengið uppreist æru.
mbl.is Árni fellur frá málssókn á hendur Agnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá Þórunni

Ég veit ekki hvort að staðsetningin er nákvæm, en myndin efst á síðunni minni, sýnir svæðið þar sem lón Bjallavirkjunar er hugsað.  Svæðið er kannski ekki það fjölfarnasta, en það er ákaflega fallegt og tengist við mikilfenglegt umhverfi Langasjávar í norð-austur og Landmannalauga í suður.

Þær eru stórbrotnar hugmyndir Landsvirkjunar um framkvæmdir á svæðinu austan núverandi virkjana á Þjórsár/Tungnaársvæðinu.  Sem betur fer er fyrirtækið búið að afskrifa þann möguleika að nota Langasjó í hluta þessara framkvæmda.  Ég kom að nyrðri enda hans haustið 2003 og finnst frábært að þarna lengst inni í óbyggðum sé ósnortið svæði sem ekki allir hafa aðgang að.  Ekki það að Langisjór hefur örugglega einhvern tímann tengst vatnakerfi því sem nú rennur í Skaftá.  Rétt norðan við norður enda vatnsins eru jökulruðningar sem sýna hversu langt jökullinn hefur náð áður en hann byrjaði að hopa. Undanfarna áratugi hefur Langisjór verið laus við rennsli jökulsáa og hefur því breyst úr jökullóni (sem hann hefur örugglega verið fyrr á öldum) í bergvatnsvatn.

En í staðinn fyrir hugmyndirnar um að nota Langasjó, þá hefur mönnum nú dottið í hug að beina vatni úr Skaftá beint yfir í Tungnaá án viðkomu í Langasjó.  Er þá líklegt að það eigi að gerast rétt sunnan við Jökulheima.  Þetta má vafalaust gera með því að leiða vatnið neðanjarðar í gegnum holtin sem skilja Tungnaá frá Skaftá. 

Breytingar á Vatnajökli, þ.e. Tungnaárjökli annars vegar og Skaftárjökli hins vegar, undanfarna áratugi hafa gjörbreytt ásýnd svæðisins.  Þetta má sjá með því að bera saman Íslandskort frá 1945 við nýleg kort.  Þar sést að jökullinn hefur hopað fleiri kílómetra og hafa upptök annarrar meginkvíslar Skaftár nú færst mun norðar en áður var og þar með nær Tungnaá og Jökulheimum.

Það er margt sem vinnst við færslu á nyrstu kvíslum Skaftár yfir í Tungnaá.  Í fyrsta lagi eykst orkuvinnslugeta virkjana á Þjórsársvæðinu verulega.  Bæði gerist það, að virkjanirnar nýtast betur í núverandi mynd og eins væri hægt að bæta við aflvélum, þar sem nú verður nægt vatn til að knýja þær.  Í öðru lagi væri hægt að fjölga virkjunum, þar sem aukið rennsli gerir virkjunarkosti, sem áður voru óhagstæðir eða á mörkum þess að vera hagstæðir, fýsilegri.  Í þriðja lagi væri hugsanlega hægt að takmarka áhrif Skaftárhlaupa á svæði Skaftár.  Vissulega væri bara verið að tala um annan ketilinn sem hleypur úr, og síðan gæti þurft að veita einhverju af hlaupvatninu niður Skaftársíðu til að hlífa mannvirkjum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Í fjórða lagi væri hægt að draga eitthvað úr sandburði niður í Eldhraun.

En er þetta þess virði?  Bjallavirkjun mun ekki verða stór, ef af henni verður.  Um 70 MW og með orkuframleiðslugetu upp á 430 GWstundir á ári.  Auk þess mun hún auka afkastagetu annarra virkjana um 280 GWstundir/ári.  Gott og vel, það er hægt að knýja einhverja atvinnustarfsemi með því.  En hvað tapast við þetta?  Tungnaársvæðið ofan Sigöldu er nokkuð ósnortið.  Fyrir utan nokkra vegaslóða, veiðihús við Veiðivötn og skálann í Jökulheimum, þá er fátt annað á svæðinu.  (Jú, það eru einhver hús við suð-vestur enda Langasjávar.) Þetta svæði er afskekkt og sannkölluð náttúruparadís.  Til að komast frá Jökulheimum suður að Langasjó, er farið yfir Tungnaá á vaði sem ekki er fyrir nema vel útbúna jeppa.  Þetta er því svæði með takmarkaðan aðgang. Vilji menn fara hinum megin frá að Langasjó, þá þurfa menn að fara torkennilega slóð, sem m.a. neyðir menn til að aka um kljúfur nokkurt eftir árfarveginum (þ.e. menn aka í ánni talsverðan spotta). 

Það eru ekki mörg svæði á landinu sem krefjast jafn mikils vilja (ef svo má segja) til að koma sér á staðinn og þetta svæði í kringum Langasjó. Það væri mikil synd, ef þessu svæði væri fórnað fyrir ekki stærri hagsmuni en 710 GWstundir/ári.  Vissulega er það gott fyrir þjóðarbúskapinn, að efla atvinnustarfsemi í landinu, en það gengur ekki að ganga sífellt á ósnortna náttúru landsins.  Ég er talsmaður hóflegrar nýtingar, en við verðum samt að leyfa náttúru landsins að njóta vafans.  Það þýðir samt ekki að segja, líkt og gert var um Þjórsárver, að þar sem þeim var hlíft, þá megi virkja á öðrum umdeildum stað í staðinn.  Að virkjun við Bjalla verði hafnað á ekki sjálfkrafa að hafa í för með sér að virkjað verið í neðri hluta Þjórsár eða í Brennisteinsfjöllum.  Þetta er ekki býttaleikur, þar sem Landsvirkjun eða OR benda á þrjá kosti og segja, að ef þau hlífi stað A (sem jafnframt er viðkvæmastur gagnvart almenningsálitinu), þá megi fyrirtækin sjálfkrafa virkja á stöðum B og C.  Þannig gengur þetta ekki.

Stóra málið í þessu, er að verkefnisstjórn Rammaáætlunar um virkjanakosti verður að fá að vinna sína vinnu.  Hún verður að fá tækifæri til að setja tillögur sínar fram og þær verða að fá umræðu í þjóðfélaginu.  Það skiptir engu máli hversu langt hönnunarvinna vegna Bitruvirkjunar eða Bjallavirkjunar er komin, þetta er forgangsröðin.  Þegar rammaáætlunin hefur verið sett fram og síðan samþykkt, þá vita orkuframleiðslufyrirtækin hvaða svæði eru aðgengileg og hver eru utan seilingar. Samkvæmt vefnum Náttúrukortið er verið að vinna að rannsóknum á 11 stöðum á landinu og 13 til viðbótar eru í sigtinu, eins og þar er komist að orði.  Þetta eru nokkuð margir staðir/kostir og hef ég á tilfinningunni að sumir séu þarna inni sem "býttakostir".  En ég bíð eftir niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar og mér finnst rétt að Landsvirkjun geri slíkt hið sama.


mbl.is Segir Bjallavirkjun ekki koma til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju má ekki halda sig við skipulag?

Ég er nú íbúi í Lindahverfi og óttast ekki þessar framkvæmdir í hverfinu.  Ef við tökum, t.d., umferðina, er eitthvað betra að hún renni öll til Reykjavíkur í staðinn fyrir að hluti hennar stoppi í Kópavogi.  Einnig gæti fengist betra umferðaflæði, þar sem umferðin er ekki öll að fara í sömu áttina.  Þá gætu skapast mikil atvinnutækifæri fyrir íbúa á svæðinu, sem kæmi þá í veg fyrir þessa þjóðflutninga sem eru tvisvar á dag milli Reykjavíkur og bæjarfélaganna fyrir sunnan borgina.  Glaðheimasvæðið verður á krossgötum tveggja stórra umferðaræða, þ.e. Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar.  Það er því mun betra að staðsetja þessa uppbyggingu á Glaðheimasvæðinu en í Kvosinni, þar sem allt kemur úr einni átt.

Menn verða að fara að hugsa fyrir því að færi atvinnusvæðin nær íbúasvæðunum.  Það gengur ekki er að 50-70% af atvinnuhúsnæði í Reykjavík sé vestan Kringlumýrarbrautar.  Menn misstu af tveimur gullnum tækifærum á undanförnum árum til að breyta þessu.  Þá á ég við Landspítalann og Háskólann í Reykjavík.  Það er algjör fásinna að færa Háskólann í Reykjavík inn í botnlaga við Skerjafjörð nema menn ætli að koma með nýjar umferðaræðar að svæðinu á næstu árum.  Að beina aukalega fleiri þúsund mann um yfirfullar götur, er svo mikil skammsýni og á eftir að koma í bakið á fólki.  Mun skynsamlegra hefði verið að flytja hann upp í efri byggðir Reykjavíkur, t.d. í Úlfarsárdal.  Sama er með Landspítalann.  Út frá gatnatengingum þá er staðsetning hans í Reykjavík 101 hreint heimskuleg.  Það er sagt að þetta sé gert vegna nálægðarinnar við Háskóla Íslands.  Mér hefur alltaf fundist þau rök heldur klén.  Hvort er betra að nokkrir tugir einstaklinga aki 10 km lengra á dag, en að nokkur hundruð manns aki 10 km lengra á dag?  Í mínum huga voru Vífilsstaðir mun betri staður eða Keldnasvæðið.  Þá hefðu menn getað notað Landspítalasvæðið undir íbúabyggð.

En aftur að Lindahverfi.  Það virðist vera sem Gunnar og félagar séu búnir að fullkomna það sem ég kalla býttiaðferðina.  Hún byggir á því að þegar ná á einhverju fram, sem er utan hefðbundins ramma, að bjóða fólki afleita kosti, t.d. 12 hæða hús, og fá það til að samþykja 6-7 hæðir, þó svo að áður hafi verið kveðið á um 4 hæðir.  Þannig veit ég, að KS verktakar voru ekki að biðja um jafnháa byggingu á Nónhæð og Kópavogsbær setti í kynningu.  Ekki bara það, að byggingin sem síðan var sett fram sem málamiðlun var líka stærri en sú sem KS verktakar ætluðu að byggja í upphafi.  Þessu er líklega eins farið með Lindir IV, að þar hafa byggingaraðilar ekki óskað eftir jafnháu húsi og Kópavogsbær kynnti, heldur er markmiðið að gefa fólki dúsu með því að lækka húsin en ná samt fram hækkun þeirra.  Þetta er að sjálfsögðu sú aðferð sem menn hafa notað í gegnum árin til að fá rétta lánsfjárhæð hjá bankanum eða hækka skatta!

Ég hef ekkert á móti háhýsabyggð meðan að henni er dreift þokkalega, en það sem mér finnst skipta megin máli er að fólk geti treyst því að skipulag haldist.  Hringlandahátturinn sem hefur verið með  skipulag í Lindum IV (þ.e. svæðið þar sem Elko, Krónan og Intersport eru), er með slíkum ólíkindum að góður rithöfundur hefði ekki getað búið til slíkan söguþráð.  Fyrir 10 árum var gert ráð fyrir að þarna kæmi framhaldsskóli.  Staðsetning skólans þarna hafði talsvert að segja í ákvörðun okkar að flytja í hverfið.  Síðan liðu nokkur ár og horfið var frá hugmyndum um skólann án þess að gefin væri ástæða fyrir því.  Næst átti að koma eitt hús með verslunum á neðstu hæð, skrifstofum, hóteli og jafnvel íbúðahúsnæði á efri hæðum.  Þetta átti að vera allt að 12 hæða turn.  Honum var hafnað af íbúum, jafnvel þó hann hafi verið lækkaður í 8 hæðir.  Það plan var líka blásið af.  Síðan kom þessi tillaga um lágreist verslunarhúsnæði og til hliðar fjögurra hæða skrifstofuhúsnæði.  Verslunarhúsnæðið er komið og byrjað er á undirstöðu hins hússins, þegar Gunnar og félagar vilja allt í einu byggja hærra.  Ég skil ekki svona hringlandahátt.  Hvað er að því að halda sig við skipulag?


mbl.is Íbúar hræðast aukna umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neikvæður viðskiptajöfnuður, Jöklabréf eða lok ársfjórðungs?

Krónan hefur lækkað verulega undanfarna daga og í dag eru hún í frjálsu falli.  Þetta lækkunarferli hófst þegar Seðlabankinn kynnti tölur um viðskiptajöfnuð.  Það er furðulegt ef 2 mánaða gamlar upplýsingar séu að hafa áhrif á krónuna sérstaklega þegar skekkjuliður upp á 185 milljarðar er þarna inni af 117 milljarða neikvæðum viðskiptajöfnuði.  Þetta gengur ekki upp.  Það er eins og Seðlabankinn sé að missa tiltrú markaðsaðila og þeir veiti bankanum því ekki nauðsynlegar upplýsingar eða að menn skammist sín svo fyrir tölur sínar að þeir vilji að þær fari inn í hagtölur.

Á móti kemur að stórir gjalddagar Jöklabréfa er á næstu vikum, 18 milljarðar í næstu viku einni, og það gæti einnig haft áhrif.  18 milljarðar er svo sem ekki há upphæð og ætti ekki að skipta neinu sem nemur.

Síðasta atriðið, sem maður getur ekki annað en velt fyrir sér, er að nú fer að styttast í að 3. ársfjórðungur sé á enda. Við sáum bæði í mars og júní verulega lækkun á gengi krónunnar og því ekki ólíklegt að það endurtaki sig.  Í framhaldi af því komu síðan ótrúleg uppgjör bankanna.  Ef þetta er að endurtaka sig, þá getum við gert ráð fyrir að gengisvísitalan fari vel upp fyrir 170 á næstu 10 dögum áður en hún styrkist aftur síðustu viku mánaðarins.


mbl.is Krónan veikist um 2,44%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn fitnar ríkið

Það er með ólíkindum að menn geti talað um innheimta veltuskatta hafi minnkað á milli ára fyrstu sjö mánuði ársins, þegar hún jókst um 2,8%.  Þó svo að innheimta veltuskatta hafi ekki haldið raunvirði sínu, þá megum við ekki drukkna svo í verðtryggingartalinu, að við viðurkennum ekki staðreyndir.  Við notum gjaldmiðil á Íslandi sem heitir króna.  Við notum ekki "raunkrónur" og við notum ekki evrur eða dollara.  Á meðan við notum krónur, þá eru allar mælingar til hækkunar í krónum talið, því hækkun eða aukning.

2,8% aukning er talsverð og bendir því til þess að ríkið sé að taka meira til sín í krónum talið en á síðasta ári.  Menn fela það ekkert með því að uppfæra tölurnar með vísitölu neysluverðs.  Þetta bendir til þess, að ennþá sé þensla í hagkerfinu.  Af hverju má ekki kalla hlutina sínum nöfnum?  Þenslan hættir ekki fyrr en innheimta veltuskatta dregst saman milli samanburðartímabila.

-----

Annars birtist þessi frétt með öðrum hætti í Viðskiptablaðinu.  Þar segir:

  1. Innheimtar tekjur hækkuðu um 4,4% (ekki 2,8%)
  2. Skatttekjur og tryggingagjöld hækkuðu um 5,5%
  3. Aðrar rekstrartekjur hækkuðu um 20% á milli ára.
  4. Skattar á tekjur og hagnað hækkuðu um 9,9%, þar af jókst tekjuskattur einstaklinga um 7,0%, tekjuskattur lögaðila um 5,6% og skattur af fjármagnstekjum um 19,3%
  5. Stimpilgjöld drógust saman um 23,2%
  6. Tekjur hækkuðu 7 milljarða umfram áætlun (Fjárlög) og gjöld hækkuðu um 9 milljarða minnan en Fjárlög gera ráð fyrir.
  7. Handbært fé ríkissjóðs eykst um 100 milljarða það sem af er árinu.
Allt bendir þetta til þess að ríkissjóður fitni á kostnað skattgreiðenda.  Meðan fjölmargir aðilar eru að komast í þrot, þá tekur ríkissjóður meira til sín.  Mér sýnist ríkissjóður alveg hafa efni á því að semja við ljósmæður á þeim nótum sem þær fara fram á miðað við þessar tölur.
mbl.is Innheimta veltuskatta minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678153

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband