Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Var sleggju beitt þar sem hamar hefði dugað?

Jæja, ég hef verið að kalla eftir viðbrögðum frá ríkisstjórn og Seðlabanka vegna fjármálakreppunnar sem gengið hefur yfir undanfarna ríflega 13 mánuði.  Nú sannast hið fornkveðna, að menn eigi að gæta hvers þeir óska.

Ég get ekki gert að því að velta því fyrir mér hvort viðbrögð ríkisstjórnar og Seðlabanka vegna beiðni Glitnis um aðstoð/þrautarvaralán hafi ekki verið full ofsafengin.  A.m.k. eru þessir aðilar búnir að útiloka að Kaupþing, Landsbanki eða nokkuð annað fjármálafyrirtæki láti sér detta í hug að leita til þeirra um aðstoð.  Viðbrögð Þorsteins Más Baldvinssonar sögðu allt sem segja þarf.  Hann telur að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi sett fram ofurkosti sem séu í engu samræmi við stöðu mála.  Mér sýnist að þarna hafi sleggju verið beitt þegar hamar hefði dugað.

Annars tók ég líka eftir því að bæði Lárus Welding og Þorsteinn Már neituðu staðfastlega að gjaldþroti hafi blasað við Glitni meðan Davíð, Geir og Björgvin ásamt þingmönnum stjórnarandstöðu hömruðu á því að Glitnir hefði verið gjaldþrota.  Mér finnst nú vera himinn og haf á milli ummæla þessara tveggja fylkinga og það kalli nú á einhverjar skýringar.

Það verður síðan forvitnilegt að sjá hversu víðtækar aukaverkanir lyfsins verða.  Ef með aðgerðinni hefur verið þurrkaðir út rúmlega 50 milljarðar af eigin fé Stoða.  Aðrir stórir hluthafar munu líka fá mikinn skell og má þar nefna Þáttur International, Saxbygg, Lífeyrissjóði Bankastræti 7 og Salt Investment.  Ég get ekki séð að þessir aðilar gangi sáttir frá borði.  Lyfið mun örugglega verka á sjúkdóminn sem Glitnir er að kljást við, en hefur þegar valdið mun alvarlegri sjúkdómi annars staðar í þjóðfélaginu.

Seðlabanki og ríkisstjórn eru vissulega búin að sýna fjárhagslegan styrk sinn.  Upphæðin sem sett er í þessa björgunaraðgerð er 20% hærri en pakkinn stóri í Bandaríkjunum, ef tekið er mið að höfðatölunni góðu.  (Nei, 19,5%.  Nei, 19%. 18%.  Úps, ég gleymdi mér.  Ég var að fylgjast með gengisskráningunni.)  En, ef banki leitar til Seðlabankans um þrautavaralán, eins og Glitnir gerði, á hann þá ekki að geta fengið slíkt lán?  Er það ekki það sem felst í þrautavaraláni, að það er veitt í neyð?  Af hverju fékk Glitnir ekki slíkt lán, þegar hann leitaði til Seðlabankans?  Þessum spurningum þarf að svara á viðhlítandi hátt.  Hvað átti Þorsteinn Már við þegar hann segir að ekkert annað hafi verið í boði?  Hvers vegna segir Lárus að enginn aðkallandi vandi hafi verið, þó lausafjárskortur hafi verið fyrirsjáanlegur, en pólitíkusarnir og Davíð tala um gjaldþrot?  Það þarf svör við þessu líka.  Var versta úrræði beitt, þegar mildari aðgerðir hefðu dugað?

Án þess að hafa nokkuð fyrir mér, þá held ég að hluthafar Glitnis muni setja sig í samband við Nordea eða aðra stóra banka á Norðurlöndum og bjóða bankann til sölu.  Vandamálið er að ríkið hefur sett á hann ákveðinn verðmiða, sem mér telst vera 113 milljarðar, og engum dettur í hug að bjóða hærra en það.


mbl.is Geta treyst styrk Glitnis áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hindra framgang réttvísinnar

Þegar maður les svona frétt um þessa fjóra menn sem hafa bindusti sammælum um að segja ekki rétt frá, þá veltir maður því fyrir sér hvort ekki séu í gildi lög á Íslandi um viðurlög við því að hindra framgang réttvísinnar.  Það er nokkuð ljóst að einn þessara manna ók bílnum og hinir þrír voru farþegar.  Með svona lög í farteskinu væri einfaldlega hægt að kæra alla fjóra og beita hvern og einn sekt eða fangelsisvist í samræmi við alvarleika málsins.  Það verður bara að segjast eins og er, að menn eru farnir að læra á kerfið og vita að lögreglan á Íslandi er það illa búin tækjabúnaði og mannskap, að hún hefur sáralitla möguleika á því að leysa svona mál.  Þetta mál snýst ekki um að vera saklaus fyrr en sekt er sönnuð.  Sektin er nefnilega sönnuð, en það er bara nafnið sem vantar.
mbl.is Neita allir sök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum

Pétur Blöndal lætur hafa eftirfarandi eftir sér á visir.is:

Alveg eins og ríkið sker upp krabbameinssjúklinga sem hafa reykt tóbak alla ævi, mætti athuga með hvort félagsleg úrræði þurfi til að hjálpa þeim sem hafa af eigin vangá farið illa út úr því að taka áhættu og lent í hruni gengis og hlutabréfa, segir Pétur Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis.

„Þetta fólk lendir í miklum vanda og ég held að það mætti til dæmis veita þeim áfallahjálp, sem lenda í gjaldþroti. Það getur verið mjög alvarlegt og jafnvel leitt til sjálfsmorðs," segir hann. Að auki komi til greina að veita almenna fræðslu í fjármálum. Um hvernig samið skuli við kröfuhafa og unnið úr slæmri stöðu eða gjaldþroti.

„Við borgum auðvitað ekki skuldirnar upp fyrir fólk, þá værum við að hvetja til ábyrgðarleysis, en við getum reynt að milda afleiðingar áhættuhegðunar," segir Pétur.

Mig langar að það færist til bókar hjá Pétri, að ég er einn af þeim sem samkvæmt hans skilgreiningu hef lent í þessu ástandi af "vangá".  Ég fékk úthlutað lóð árið 2005 og er að byggja einbýlishús.  En bara svo Pétur viti og hætti að bulla um verklag almennra borgara, þá gerði ég ráð fyrir að jafnvægisgengi krónunnar væri í kringum 127 (þ.e. gengisvísitala), sem var á bilinu 15 - 20% yfir þeirri vísitölu sem var þá (105 - 112).  Ég gerði líka ráð fyrir ákveðinni þróun húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar.  Raunar reiknaði ég með því, eftir mikla yfirlegu og útreikninga, að þessi aðgerð (miðað við fasteignverð 2005 og gengisvísitölu 127) myndi skila mér góðum hagnaði, þ.e. að byggja einbýlishúsið og selja núverandi húsnæði.  Það var engin "vangá" í mínum ákvörðunum.  Þetta var útpæld og yfirveguð ákvörðun (enda ég með ákvörðunarfræði sem sérsvið innan þeirra tveggja gráða í aðgerðarannsóknum frá Stanford háskóla sem ég get flaggað).  Ég held að ég sé ekkert einn um að hafa lagst í svona útreikninga og treyst á að efnahagsstjórn þessa lands væri byggð á þokkalega traustum grunni en ekki kviksandi sem gleypti allt.

Ég er með eitt ráð til Pétur fyrst hann vill fara út í félagslegar aðgerðir.  Hvernig væri að senda bankastjórn Seðlabankans á eftirlaun og ráða menn sem þora að grípa til aðgerða, hætta að tala hagkerfið niður og geta aukið trúverðugleika Seðlabankans?  Stærsta vandamál þjóðarinnar í dag er ekki áhættusækni einhverra útrásaraðila.  Stærsta vandamálið er að Seðlabankinn hefur brugðist bæði í að halda verðlagi stöðugu og gengi krónunnar í jafnvægi.  Það vill svo til að þetta eru tvö megin hlutverk bankans.  Þar á bæ eru menn í grimmri afneitun og viðurkenna ekki að úrræðaleysi bankans er stærsti hluti vandans.  Þeir eru eins og ofdrykkjumenn sem viðurkenna ekki að þeir ráði ekki við drykkjuna sína. (Það getur verið að Seðlabankanum hafi ekki verið sköpuð skilyrði til að takast á við vandann, en nánar um það síðar.)

Sama á við ríkisstjórn Íslands. Geir hélt fund í gær með seðlabankastjórum, en þrátt fyrir krísuástand, þá var þetta ekki krísufundur.  Hvernig væri þá að boða krísufund og fjalla um krísuástandið og hvernig Seðlabanki og ríkisstjórn ætla að bregðast við?  Þessi tveir aðilar fljóta sem stendur sofandi að feigðarósi og taka okkar öll hin með sér.

Nú svo ég snúi mér aftur að Pétri.  Hann vill ekki að ríkisstjórnin borgi skuldir fólks, en finnst honum allt í lagi, að fólk þurfi að taka á sig hækkun húsnæðislánaskulda sem nemur 4 - 6 földum árslaunum sínum vegna þess að gengið hrynur og verðbólga hækkar.  Jú, ríkið verður að koma að því að greiða niður slíkar skuldir.  Það getur gert það með breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo.  Það getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.  Svo gæti ríkið í samvinnu við sveitarfélögin afnumið fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði eða a.m.k. lækkað verulega.  Loks getur ríkisstjórn og Seðlabanki lagt út í viðmiklar aðgerðir til að styrkja íslensku krónuna. 

Þetta eru allt aðgerðir sem hægt er að fara út í til að létta á fólki vegna klúðurs þeirra sem áttu að standa vörð um hagsmuni almennings gagnvart verðlagi og gengisþróun.  Hvar í siðmenntuðu landi er það látið viðgangast að gjaldmiðill landsins rýrni um hátt í 40% á 14 mánuðum (40% rýrnun samsvarar 67% hækkun gengisvísitölu)?  Ég hef skoðað gengisskráningu Glitnis, sem skráir gengi fjölmargra gjaldmiðla, og hef ekki fundið neinn! Til að bæta gráu ofan á svart, þá hefur Seðlabanka Íslands ekki tekist að halda verðbólgu innan verðbólgumarkmiða sinna nema í örfáa mánuði síðan verðbólgumarkmiðið var tekið upp í mars 2001.  (Það er svo sem skoðun mín, að Seðlabankinn hafi ákveðið að miða við ranga vísitölu, þ.e. átt að nota vísitölu án húsnæðis en ekki með, og þar sem gert mælingar sínar ósamanburðarhæfar á alþjóðavettvangi.)  Það er því alveg kristalklárt í mínum huga að Seðlabankinn er vita gagnslaus, þegar kemur að stjórnun efnahags- og peningamála, vegna þess að hann skortir styrk.  Ég þykist vita að bankinn stendur sig vel á fjölmörgum sviðum, en að þessu leiti kann hann ekki til verka eða skortir stuðning frá ríkisstjórninni og fjárhagslegan styrk.  Þegar svoleiðis stendur á, þá eiga menn að viðurkenna takmarkanir sínar.  Stundum er gott að segja sig frá verkefninu og fá aðra til að leysa það.  Það sama gildir um efnahagsstjórn ríkisstjórna undanfarinna ára.  Það er alveg ljóst að þar voru menn of oft að hugsa um atkvæðin en ekki efnahag landsins.

 


Ó, vakna þú mín Þyrnirós

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Seðlabanka Íslands eru hlutverk hans sem hér segir:

Seðlabankinn fer með stjórn peningamála á Íslandi og hefur með höndum margþætta starfsemi í þeim tilgangi. Meginmarkmiðið með stjórn peningamála er stöðugleiki í verðlagsmálum. Seðlabankanum ber þó einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika. Seðlabankinn á ennfremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira, samanber það sem tilgreint er í lögum um bankann.

Mér sýnist sem Seðlabankinn ekki hafa staðið sig í neinu af ofangreindu.  Getuleysi Seðlabankans til að halda hér stöðugu verðlagi og að ég tali nú ekki um að mynda hér eðlilegan markað með gjaldmiðil þjóðarinnar hefur kostað mjög marga háar upphæðir.  50% fall krónunnar og 14% verðbólga ber ekki neinu öðru vott en að Seðlabankinn hefur brugðist hlutverki sínu. 

Ég get ekki annað en velt fyrir mér, er hvort ég geti leitað réttar mín, vegna hinna himinháu upphæða sem ég hef tapað (í formi hækkunar höfuðstóls lána) vegna aðgerðaleysi/getuleysi Seðlabankans.  Hvernig stendur á því að Seðlabanki Íslands láti það líðast að krónan lækki um 50% án þess að reyna að spyrna við fæti. Heldur Seðlabankinn virkilega að hann geti beðið af sér storminn? Við sjáum hvaða árangur er af því.  Allt bendir til að verðbólga í nóvember og desember verði um og yfir 18%.  Þetta þýðir að verðtryggð lán munu hækka um þessi sömu 18% á þessu tímabili.  Það sem verra er, að verðbólga á tímabilinu frá ágúst 2007 fram í janúar 2009 getur orðið allt að 22,5%.  Sé maður svo óheppinn að vera með skuldirnar í erlendri mynt, þá erum við að tala um að gengisvísitalan hafi hækkað um 64% frá því júlí á síðasta ári. Svissneskir frankar hafa hækkað um 78% og japönsk jen um 82%.  Hvað hefur Seðlabanki Íslands gert til að sporna við þessu?  Satt best að segja get ég ekki séð að hann hafi gert neitt að viti.  Raunar sýnist mér að Seðlabankinn hafi ýtt undir þessa þróun með óábyrgum yfirlýsingum, ótrúlegri framsetningu upplýsinga, ónákvæmum vinnubrögðum og viðskotsillum viðbrögðum við umræðu í þjóðfélaginu.  Menn hafa lokað sig inni og í besta falli veitt drottningarviðtöl.  Beiðni greiningadeilda bankanna um að fá að taka þátt í fundum um stefnu bankans hefur verið hafnað.  Menn hafa fallið í þá gryfju að kenna öðrum um og neita að líta á eigin misgjörðir.

Ef Seðlabanki Íslands (og raunar ríkisstjórnin líka) vakna ekki seinna en strax af sínum Þyrnirósarsvefni.  Forsætisráðherra kallaði seðlabankastjóra á fund sinn í dag, en neitar að um krísufund hafi verið að ræða.  Þeir hittist oft.  Mér er alveg sama hvort þeir hittist oft.  Í dag er krísa í gjaldeyrismálum þjóðarinnar.  Af þeirri ástæðu þarf KRÍSUFUND.  Það þarf víðtækar aðgerðir til að bjarga því sem bjarga verður og það þarf að grípa til þeirra aðgerða STRAX.  Það þolir ekki frekari bið.  Við erum búin að bíða frá því í mars og ástandið gerir ekkert annað en að versna.  Ástandið er orðið svo grafalvarlegt að sýna þarf lífsmark sem eykur traust "markaðarins" á íslenska hagkerfinu og íslensku krónunni.

Fjölmargar fjölskyldur í landinu eru komnar í alvarlega greiðslukreppu.  Afborganir og höfuðstólar lána hafa hækkað um tugi prósenta.  Viðbrögð seðlabankastjóra hafa hingað til verið að fólk geti sjálfu sér kennt um.  Það hafi farið út í óábyrgar fjárfestingar, það hafi mátt vita að gengi krónunnar myndi lækka.  Málið er að þessi rök halda ekki vatni.  Í fyrsta lagi fór fólk út í fjárfestingar sínar í þeirri trú að Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn hefði stjórn á stöðunni.  Í öðru lagi gat það á engan hátt reiknað með því að Seðlabanki Íslands væri vanhæfur til að kljást við lausafjárkreppuna, fyrir utan að ekki var hægt að ætlast til að almennir borgarar gætu gert sér grein fyrir afleiðingum þeirrar kreppu.  Í þriðja lagi datt engum í hug að Seðlabanki Íslands væri gjörsamlega ófær um að verja gengi íslensku krónunnar.  Ég átti sjálfur von á að gengisvísitalan myndi líklegast hækka í 125-130, enda var það í samræmi við spá greiningadeilda og Seðlabankans, en að gengisvísitala hækkað fyrst í 150 á örfáum dögum í mars og síðan í 183 á örfáum dögum í september er verra en nokkrum lántakanda gat dottið í hug.  Það er því ekki hægt að kenna lántakendum um óábyrgar lántökur.  Þeir sem áttu að tryggja stöðugt gengi brugðust og það er tími til kominn að þessir aðilar, þ.e. Seðlabanki og ríkisstjórn, sýni að þeir séu starfi sínu vaxnir eða segi af sér ella.


mbl.is Sameiginleg ákvörðun landanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt sem kemur á óvart

Það var alveg fyrirséð að ársverðbólgan myndi lækka milli ágúst og september.  Að lækkunin hafi ekki orðið meiri er viss vonbrigði, en því veldur fyrst og fremst veiking krónunnar.  Greinilegt er að menn eru að taka lækkun krónunnar í meira mæli inn í nýjar vörur að loknum útsölum en gert hafði verið áður en útsölur hófust.  Síðan er spurning að hve miklu leiti lækkun krónunnar fyrstu dagana í september eru að spila inn í þetta.

Núna er það að gerast í fyrsta skipti í mörg ár að húsnæðisliður vísitölunnar er að hafa veruleg áhrif til lækkunar.  Ræður þar mest markaðsverðið, en vert er að rifja upp á veruleg hækkun varð á byggingavísitölu í síðustu mælingu.

Þessi lækkun á ársverðbólgu milli talna í ágúst og september kemur, eins og áður segir, ekki á óvart,  Ástæðan er, líkt og ég hef bent á í fyrri færslum, að vísitala neysluverðs hækkaði frekar mikið milli ágúst og september 2007 eða um 1,32% borið saman við 0,86% núna.  Mælingarnar eru ekki alveg samanburðarhæfar, þar sem mælingin í fyrra var gerð hálfum mánuði fyrr.  Nú ef við leiðréttum síðan mælinguna með tilliti til þess að ársverðbólga upp á 14% er raunar 54 vikna verðbólga en ekki 52 vikna, þá kemur í ljós að ársverðbólga frá 15. september 2007 til 15. september 2008 er nokkuð nálægt því að vera 13,7%. (Fundið með því að nota bara helming af vísitölu hækkun milli september og október 2007.)

En þetta eru góðu fréttirnar.  Nú koma þær slæmu.  Þar sem krónan hefur verið að taka dýfu það sem af er september, þá má búast við áhrifum af því í næstu verðbólgumælingu.  Hækkun gengisvísitölunnar er orðin 14% frá 1. september.  Bara svo fólk átti sig á því, þá olli 18% gengislækkun frá 1. mars fram að páskum því að verðbólga milli mars og apríl mældist 3,4%.  Ef við gerum ráð fyrir að 14% gengislækkun á sama tíma í september valdi hlutfallslega jafnmikilli verðbólgu milli september og október, þá verður hún um 2,6%.  Það þýðir að ársverðbólga í október mun mælast yfir 16%.  Ef við höldum áfram og notum verðbólgutölur frá maí og júní fyrir nóvember og desember, þá verður ársverðbólga í nóvember rúm 17% og sambærilegar tölur fyrir desember og janúar verða um 17,5% og 18,3%.  Nú segir örugglega einhver að gengið lækki ekki mikið úr þessu, en höfum það í huga að frá 23.3. til 6.7. þá var vissulega mikið flökt á krónunni, en upphafsgengið og lokagengið var nánast það sama.  Raunar lækkaði gengið ekki nema um 1,24% frá 23.3. til 1.9., eins og áður var bent á.  Þannig að þó svo að krónan veikist ekkert frekar, þá er útlit fyrir yfir 18% verðbólgu.  Taki gengið upp á því að styrkjast verulega á næstu dögum, þá getur verið að gengisbreytingin rati ekki inn í vöruverð og við sleppum með skrekkinn.


mbl.is Verðbólgan 14%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun gengisvísitölu er 50% það sem af er ári

Þau stórmerku tímamót urðu í dag, að gengisvísitalan lokaði í yfir 180 stigum.  Það sem meira er að hækkun vísitölunnar það sem af er árinu er komin yfir fimmtíu af hundraði.  Þetta þýðir að það sem kostaði okkur 2 krónur í ársbyrjun kostar núna 3 krónur.  Til að setja þetta í samhengi þá er hér fyrir neðan gengi nokkurra gjaldmiðla samkvæmt miðgengi hjá Glitni 1. janúar sl. og síðan við lok útsölumarkaðar Seðlabankans í dag.

Gengi

1.1.2008

23.9.2008

Mismunur

EUR

91,65

139,31

52,00%

USD

62,32

94,69

51,94%

CHF

56,46

87,46

54,91%

CAD

62,68

91,434

45,87%

NOK

11,55

16,9539

46,79%

JPY

0,5687

0,8947

57,32%

GVT

120,5

181,4

50,54%

Svona með fullri virðingu fyrir því að ástandið á alþjóðafjármálamörkuðum sé skelfilegt, en sýnir þetta ekki augljóslega hvað peningamálastjórn Seðlabanka Íslands og hagstjórn ríkisstjórnar Íslands hafa gjörsamlega brugðist.  Þetta er svo fáránlegt, að menn eru komnir yfir það að bölsótast út í fall krónunnar og eru komnir yfir í hysterískan hlátur.

Afleiðing af þessu, er að þeir sem skulduðu í upphafi árs kr. 10 milljónir í myntkröfu með blöndu af  ofangreindum myntum, skulda núna kr. 15.054.000.  Greiðslubyrði lánsins sem var segjum kr. 100.000 á mánuði í byrjun janúar er komin í kr. 150.000 að viðbættu því að vextir sem voru 6% í janúar eru komnir í 9 og upp í 12% núna.

Á meðan þessu fer fram tjáir forsætisráðherra sig bara í drottningarviðtölum á Íslandi eða við erlenda blaðamenn sem vita ekki hvers á að spyrja.  Seðlabankastjóri stingur úfnum hausnum fram við og við og kennir öllum um nema sjálfum sér.  Efnahagsráðgjafi er ráðinn, en hann er bara að skoða málin.  Er einhver til í að gefa sig fram sem getur gert eitthvað?

Það eru nærri því 7 mánuðir síðan að krónudallurinn fór að taka á sig sjó.  Á þessum tíma hafa ríkisstjórn og Seðlabanki örfáum sinnum reynt að dæla upp úr dallinum, en síðan tekið sér góða pásu enda vafalaust dauðuppgefnir á puðinu og gjörsamlega úrræðalausir.  Nú er svo komið að allar lestar eru fullar af vatni og flestar vistarverur líka.  Farið er að flæða langt upp á aðalvélina og styttist í að hún fari í kaf.  Ef ekki verður byrjað fljótlega að dæla með öflugum dælum, þá sekkur bévítans dallurinn.  Hvaða skipstjóri léti svona lagað ganga yfir dallinn sinn?  Enginn, en meðan á þessu stendur er forsætisráðherra í felum og seðlabankastjóri í hnútakasti.  Er það nema von að trúverðugleiki þeirra sé enginn.

Ég spáði því í vor að verðbólga gæti í versta falli farið í 18-20% á haustmánuðum, en aldrei lægra en 14% síðsumars.  Um daginn hélt ég að verðbólgutoppnum væri náð, en nú er ég ekki viss.  Mér sýnist að þetta síðast hrap krónunnar gæti orðið til þess að verðbólga í október gæti numið tæplega 15% og síðan fari hún yfir 15% í nóvember.  Hressist krónan ekki verulega á næstu vikum, þá kemur fátt í veg fyrir þessa þróun.


mbl.is Lokagildi gengisvísitölu í fyrsta skipti hærra en 180 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúverðug skýring

Ég verð nú að viðurkenna að þetta er ákaflega ótrúverðug skýring.  Velta á gjaldeyrismarkaði er búin að vera hundruð milljarða króna í þessum mánuði.  Vissulega var gjalddagi á krónubréfum upp á 5 milljarða í gær, en hvað geta útlendingar átt mikið af krónum til að stjórna gengi hennar?  Við verðum að gæta að því, að framan af degi þá hækkaði krónan talsvert.  Síðan gerðist það eftir að markaðir opnuðu vestanhafs að snöggur viðsnúningur varð og ekki í fyrsta skipti.

Ég hef enga trú á því að menn séu að losa sig við krónur á þessum tímapunkti.  Það er eins og að losa sig við miklar olíubirgðir, þegar heimsmarkaðsverð er lágt.  Hér er eitthvað annað í gangi eins og, t.d., skortsala á krónum.  Við megum ekki líta framhjá því, að ekki er lengur hægt að leika sér með gengi fjármálafyrirtækja í Bandaríkjunum og þá vantar menn nýtt leikfang.  Að viðsnúningurinn hafi orðið við opnum markaða í Bandaríkjunum bendir sterklega til þess að upprunans sé að leita þar.


mbl.is Sala útlendinga á krónum heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir í vefalbúmum

Ég tek eftir því, að fólk hefur oft fjölskyldumyndir í vefalbúmum hér á blogginu.  Það hefur svo sem verið varða við því áður, en ég vil af gefnu tilefni gera það aftur. Ekki setja myndir af börnunum ykkar fáklæddum í slík albúm.  Þetta getur verið krúttlegt fyrir hina fullorðnu, en barnaníðingar eiga það til að nota slíkar myndir.  Þess fyrir utan veit fólk alls ekkert hvernig öðrum dettur í hug að nota slíkar myndir, þar sem sjaldnast er spurt um leyfi, þegar myndir af netinu eru notaðar.

Mynd af litlu barni í sturtu, baði eða úti í sólinni að leika sér eiga það til að rata inn á síður barnaníðinga.  Barnaníðingar geta líka verið að leita að ýmsu öðru, svo sem fallega máluðum smástelpum, glennulega klæddum krökkum, börnum í annarlegum stellingum o.s.frv.  Ef þið viljið setja myndir af börnunum ykkar á vefinn, hafið þau vel tilhöf eða a.m.k. þannig að ekki sé hægt að lesa eitthvað annað í myndina, en þið viljið. Þess fyrir utan að efni sem ratar inn á vefinn á það til að festast þar um aldur og ævi.  Það er ekki víst að barnið, sem er fáklætt á myndinni, hafi mikinn áhuga á að rekast eftir nokkur ár á slíka mynd af sér á netinu.  Fyrir utan að slíkar myndir geta verið notaðir við einelti.  Pælið í því, að vera kominn í efri bekki grunnskóla eða framhaldsskóla og allt í einu poppar upp í skólablaðinu eða á Facebook mynd af manni 2 ára gömlum í baði.

Ég bið fólk um að bera virðingu fyrir börnunum sínum og setja ekki myndir af þeim fáklæddum eða í neyðarlegri stöðu/uppákomu á netið.  Það er hægt að hafa slíkt efni á tölvunni heima hjá sér, sé hún vel varin, en þetta efni á ekkert erindi á vefinn.

Í starfi mínu, sem ráðgjafi um upplýsingaöryggi, þá þarf ég að kynna mér ýmsa hluti og sækja ráðstefnur um upplýsingaöryggismál.  Ég hef tvisvar setið slíkar ráðstefnur, þar sem fjölmargir lögreglumenn voru einnig, þ.m.t. frá Interpol.  Svona mál voru m.a. rædd.  Kom það yfirleitt fram hjá þessum mönnum, að þeim blöskraði kæruleysi fólks varðandi myndbirtingar af fáklæddum börnum sínum.  Nefndu menn dæmi um að slíkar myndbirtingar hafi orðið til þess að börnin hafi verið áreitt á almannafæri eða jafnvel reynt að ræna þeim. Ísland er kannski lítið samfélag, en eins og dæmin sanna undanfarin ár, þá er misjafn sauður í mörgu fé.  Verndið börnin ykkar, þau eiga það skilið.


Eru Bandaríkjamenn farnir að verðtryggja líka?

Ég held að blaðamanni hljóti að hafa orðið á einhver skyssa hér:

Úr frétt mbl.is: Aðgerðir kosta hundruð milljarða dala, segir Paulson

Fjármálaráðherrann sagði að fasteignalánafélögin Fannie Mae og Freddie Mac muni í auknu mæli kaupa verðtryggð skuldabréf til þess að reyna að hleypa nýju lífi í fasteignamarkaðinn. Bandaríska ríkið yfirtók nýverið sjóðina þar sem þeir römbuðu á barmi gjaldþrots.

Þarna segir að fasteignalánafélögin muni kaupa VERÐTRYGGÐ skuldabréf. Mér finnst líklegra að þau séu VEÐTRYGGÐ.


mbl.is Aðgerðir kosta hundruð milljarða dala, segir Paulson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgunaraðgerðir virðast bera árangur

Heimsins umfangsmestu björgunaraðgerðir virðast vera að bera árangur.  Opnunin í Bandaríkjunum hefur ekki verið betri í 6 ár.  Hamagangurinn í kauphöllunum er svo mikill að menn hafa ekki undan.  Hækkanirnar á fjármálafyrirtækjum mælast allt að 90% og flest hækka um tugi, já tugi, prósenta.

Vissulega er ekki búið að tilkynna nákvæmlega hvað muni felast í björgunaraðgerðunum, en bara að þær hafi verið tilkynntar og að skortsölur hafa tímabundið verið bannaðar, hafa haft þessi áhrif. Nú mun tíminn einn leiða í ljós hvort þetta er upphafið á viðsnúningi eða bara smá uppsveifla áður en niðursveiflan helst áfram.  Hafa heyrt svo oft undanfarna mánuði, að botninum hafi verið náð bara til að uppgötva daginn eftir að svo var ekki, þá er maður heldur á varðbergi gagnvart slíkum yfirlýsingum.

Ekki má líta framhjá því, að þó svo að mörg félög munu hækka gríðarlega í dag, þá mun það ekki duga til að vega upp lækkun þessara félaga á markaði síðustu vikur og mánuði.  Til að vega upp 80% fall hlutabréfa þarf 400% hækkun, þannig að 30-50% hækkun í dag er bara dropi í hafi.  Það sem mun aftur líklegast gerast í dag, er að skortsalar þurfa að kaupa til baka hlutabréf í félögum sem þeir hafa skortselt, a.m.k. þeir sem þurfa að skila bréfunum fyrir 2. október.


mbl.is Verðhækkun vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband