Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Enn og aftur óheppileg tímasetning

Það er alveg með ólíkindum hvað sumir geta verið óheppnir með tímasetningar.  N1 er rétt búið að tilkynna hækkun, þegar olíuverð hrapar um 2 USD bara si svona.  Breytingin frá upphafi dags er hátt í 3 USD, en þetta á náttúrulega eftir að sveiflast í dag eins og aðra daga þannig að í lok dags gæti hafa orðið hækkun upp á 3 USD.
mbl.is Eldsneyti hækkar í verði hjá N1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta af þráðlausum netum

Hún var nú ekki merkileg aðferðin sem Albert Gonzalez og félagar notuðu til að komast yfir þessa 41 milljón greiðslukortanúmera.  Þeir skönnuðu þráðlaus net fyrirtækjanna og komu fyrir njósnahugbúnaði (spy-ware) sem skannaði eftir kortanúmerum í þeirri umferð sem fór um þráðlausa netið.  Þegar númer fannst var það sent á tilgreindar tölvur utan fyrirtækjanna um leið og upplýsingarnar voru sendar rétta boðleið.

Því miður þá eru þráðlaus net mjög víða illa eða ekkert varin.  Flestir beinar (routerar) eru með þráðlausa eiginleika innbyggðan og það er hreinlega ekki hægt að taka hann úr sambandi.  Eina leiðin til að loka fyrir þráðlausan aðgang er að setja inn kóðunarlykil.  Vandinn er að fjölmargir notendur hafa ekki tæknilega þekkingu til að gera slíkt. 

Nær allir notendur ADSL-tenginga nota beina til að tengja tölvuna sína við internetið.  Beinirinn er þá bæði mótald og nettengibox (hub).  Fyrir flesta er nógu flókið að setja græjurnar í samband, þó að ekki þurfi nú að hafa áhyggjur af því að setja inn kóðunarlykil og koma síðan á kóðuðu sambandi milli tölvunnar og beinans.  Af þeim sökum er hægt að komast í internetsamband í gegnum tengingar nágranna mjög víða á landinu.  Þegar menn eru búnir að ná sambandi við óvarða beina, þá er hægt að hlaða niður spy-ware eða öðrum ófögnuði. 

Ástæðan fyrir því að þetta er ekki gert í meira mæli en raun ber vitni, er að það er almennt eftir litlu að slægjast. Flest heimilisumferð um internetið er bara flettingar á vefsíðum og mjög sjaldan fara einhverjar bitastæðar upplýsingar um netið.  Í tilfelli T.J. Maxx (TJX) og Barnes & Noble, þá komust menn í gullkistu.  Ég hef fjallað um mál TJX áður (sjá Kr. 2,4 milljarðar í skaðabætur vegna persónuverndarbrota) , en fyrirtækið hefur gert sátt við VISA og MasterCard vegna þessa máls og auk þess greitt himin háar sektir.  Þær hæstu sem um getur í nokkru svona máli.  Það er kannski kaldhæðni í þessu máli að peningarnir sem Gonzalez og félagar náðu að svíkja út voru bara brotabrot af þeirri upphæð sem TJX þurfti að punga út.

Nú eiga ALLIR sem taka við greiðslukortanúmer að uppfylla öryggisstaðalinn PCI DSS (sjá nánar PCI gagnaöryggisstaðallinn - kröfur um uppfyllingu og ISO 27002).  Sumir þurfa að fara í úttekt, aðrir að fá vottun, en flestir þurfa bara að standast eigin skoðun.  En ég ítreka ALLIR sem taka á móti, senda frá sér, vista eða vinna með greiðslukortanúmer þurfa að standast kröfur staðalsins. Þeir sem eru bara með posa hjá sér, þurfa að gæta þess að tengingin við færsluhirðinn sé þannig að hana sé ekki hægt að hlera og að þeirra hluti kvittana sé varinn fyrir óviðkomandi aðgangi og misnotkun.  Aðrir þurfa að fara í flóknari aðgerðir.  Nánari upplýsingar er hægt að fá með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.


mbl.is Stálu milljónum greiðslukortanúmera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur Geir

Á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, er alveg ótrúlegt viðtal við forsætisráðherra, Geir H. Haarde.  Þar sem m.a.:

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það sé mikilvægt, við núverandi aðstæður í efnahagsmálum, að fólk gangi ekki með þær grillur í höfðinu um að hægt sé að leysa vandann með einhverjum örþrifaráðum. Hann vísar á bug fullyrðingum stjórnarandstöðunnar og bloggara um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

„Þetta svokallaða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu tala um er nú meðal annars að bera þann ávöxt að vöruskiptajöfnuðurinn í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna,“ sagði Geir í samtali við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Hagkerfið okkar hefur mikla aðlögunarhæfni og það er fljótt að snúa sér við þegar aðstæður breytast,“ sagði Geir enn fremur.

Ég segi bara:  Ekki vildi ég þurfa skyndihjálp frá þessum manni.  Það tæki hann marga daga að ákveða hvað ætti að gera!

Í þessari viku eru 5 mánuðir síðan að krónan snarféll.  FIMM MÁNUÐIR.  Það teljast vart örþrifaráð að hafa gert eitthvað af viti til að styrkja krónuna og hagkerfið á FIMM MÁNUÐUM.  Og ekki bara þessir fimm mánuðir, heldur má segja að lækkunarferli hennar hafi byrjað í ágúst á síðasta ári.  Á þessu tímabili hefur núverandi ríkisstjórn nánast ekkert gert annað en beðið.  Og svo ber forsætisráðherra sér á brjósti og eignar núverandi ríkisstjórn heiðurinn af því að ,,viðskiptajöfnuður í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna." 

Ég held að við séum í verri málum, en nokkurn hefur grunað.  Forsætisráðherra þjóðarinnar, hagfræðingur að mennt, sér ekki að ástæðan fyrir jákvæðum viðskiptajöfnuði er vegna a) hruns krónunnar, en verðmæti útflutnings hefur hækkað af þeim sökum, b) mikillar aukningar á útflutningi áls, sem kemur aðgerðum eða aðgerðarleysi núverandi ríkisstjórnar ekkert við, c) minnkandi innflutnings (í magni), þar sem algjör stöðnun hefur orðið í fjölmörgum þáttum efnahagskerfisins og eingöngu eru fluttar inn brýnustu nauðsynjar.  Um leið og gengi krónunnar styrkist, þá má búast við að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður á ný.  Staða bankanna hefur heldur ekkert með aðgerðir ríkisstjórnarinnar að gera.  Þar er fyrst og fremst um að ræða vaxtatekjur vegna annars vegar verðtrygginga lán og hins vegar vegna þess að lágmarksvextir óverðtryggðra lána eru komnir vel yfir 15,5% stýrivextir Seðlabankans, og hins vegar má rekja hagnað bankanna til gengishagnaðar vegna sílækkandi krónu. Ég spyr bara:  Hvað er sandurinn djúpur þar sem strúturinn hefur stungið hausnum í þetta sinn?

Vandi bankanna undanfarna mánuði hefur ekki tengst raunverulegri stöðu þeirra, heldur hefur verið um ímyndarvanda að ræða.  Annars vegar bjuggu þeir sér sjálfir til ákveðið orðspor skjótra ákvarðana, áhættusækni og skuldsettra yfirtaka, þar sem það hentaði þeirra viðskiptamódeli.  Síðan breyttu þeir um viðskiptamódel en náðu ekki að breyta þeirri ímynd sem aðrir höfðu af þeim. Erlendar fjármálastofnanir eru ennþá (eða þar til fyrir skömmu) með gamla viðskiptamódelið í huga þegar þær meta stöðu bankanna. Hins vegar snýr ímyndarvandinn að Seðlabankanum og ríkisstjórn.  Það hefur ekki nokkur maður trú á að þessir aðilar hafi fjárhagslega getu til að styðja við íslenska bankakerfi, ef allt fer á versta veg.  Seðlabankinn, sem meðal annarra orða á að styðja við gengi krónunnar og halda verðbólgu innan tiltekinna marka, hefur hvorki trúverðugleika né fjárhagslegan styrk í þessi tvö megin verkefni sín. Það eru ekki örþrifaráð að breyta þessari ásýnd Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar.  Það er lífsnauðsynlegt. 

Kannski er forsætisráðherra þjóðarinnar alveg sama um það að fjölmörg fyrirtæki séu að fara í gjaldþrot og þúsundir, ef ekki tugþúsundir, eru að missa vinnuna og þar með lífsviðurværið. Kannski líður honum vel með stöðuna, enda vafalaust umkringdur já-bræðrakór.  Hann áttar sig kannski ekki á að fjölmargir rekstraraðilar og einstaklingar þurfa að velja á milli að "lengja eða hengja", eins og Orðið á götunni komst að orði um daginn.  Mánaðarlegar greiðslur af lánum hafa hækkað um tugi prósenta meðan tekjur standa í stað eða lækka. Ef ekkert verður gert fljótlega, þá þarf að grípa til örþrifaráða, en á FIMM MÁNUÐUM hefði mátt gera eitthvað meira en nærri ekki neitt.


Glæsileg ballettdansmey

scan0002.jpgDóttir okkar hjóna, Sæunn Ýr Marinósdóttir, er búin að vera í ballettnámi frá 3 ára aldri.  Hún var fyrst hjá Guðbjörgu Björgvins í 2 ár, þá í Ballettskóla Sigríðar Ármann og fór svo í Listdansskóla Íslands þegar hún var 9 ára gömul.  Í Listdansskólanum lauk hún grunnskóladeildinni og tók eitt ár í framhaldsdeildinni.  Þaðan fór hún í Konunglega sænska ballettskólann í Stokkhólm og var þar í þrjú ár.  Sæunn Ýr lauk námi þar með stúdentsprófi vorið 2007.  Í framhaldi af því sótt hún um í Hungarian Dance Academy í Búdapest, Ungverjalandi, og er þar í BA-námi.scan0007_625583.jpg

 Ballettnám er mjög krefjandi nám og ekki dugar að slá slöku við á sumrin.  Því hefur Sæunn sótt sumarnámskeið á hverju sumri frá 14 ára aldri, þrisvar hjá Konunglega danska ballettinum, tvisvar í Búdapest, einu sinni til New York og núna í sumar æfði hún hjá San Francisco Ballet School með þeim hópi nemenda skólans sem Helgi Tómasson hefur valið til að "berjast" um pláss hjá SF Ballet á komandi vetri.  Í byrjun september hefst síðan nýtt skólaár í Búdapest.

scan0008.jpgMyndirnar sem fylgja hér með, eru teknar af Sæunni þegar hún tók þátt í keppni, sem haldin var í Búdapest sl. vetur.  Hún komst, ein úr sínum árgangi, í 5 manna úrslit keppninnar en það er frábær árangur.  Aðrir dansarar sem komust í úrslit voru ýmist úr efri árgöngum skólans eða komnir lengra á veg annars staðar.

Myndirnar sýna svo ekki verður um villst, að þarna er á ferðinni glæsileg ballettdansmey eða ballerína, eins og krakkarnir myndu segja.  Sæunn Ýr hefur náð mjög langt í ballettinum, en er samt ekki nema rétt lögð af stað.  Einn af kennurum hennar í scan0010_625590.jpgSvíþjóð hefur alveg tröllatrú á henni og hefur spáð því að hún eigi eftir að enda feril sinn sem primaballerina hjá góðum dansflokki. 

Það er meira en að segja það, að ná jafn langt og Sæunn hefur gert í klassískum ballett.  Þegar hún sótti um inngöngu í Konunglega sænska ballettskólann, var hún ein af um 250 stúlkum sem teknar voru í inntökupróf.  Prófin hófust á mánudegi og í lok hvers dags var hópurinn skorinn niður.  Á fimmtudagsmorgni stóðu 23 stúlkur eftir og af þeim voru 15 valdar inn.  Af þessum 15 voru 14 sem komu úr hinum fjórum grunnskóladeildum Konunglega sænska ballettskólans og svo Sæunn.  En þar með er ekki sagan búin.  Af þessum 15 luku aðeins 6 námi og útskrifuðust með stúdentspróf vorið 2007 og af þeim leggja tvær ennþá stund á ballett.  Þannig af 250 stúlknahópi sem fór í inntökupróf í febrúar 2004 eru tvær eftir, þ.e. íslenska stelpan, sem ákvað 3 ára að hún ætlaði að verða fræg ballerína, og sænsk bekkjarsystir hennar. Þetta hefur kostað blóð, svita og tár, háar fjárhæðir og miklar fjarvistir frá fjölskyldunni.


Sviðin jörð

Hann er yfir að líta eins og sviðin jörð listinn yfir fyrirtæki sem ég hef unnið hjá í gegnum tíðina.  Fyrsta "alvöru" starfið mitt var hjá Skipadeild Sambandsins.  Eitt sumar á Litlafelli og annað á Stapafelli.  Það er langt síðan að þessi skip fór úr landi og raunar er tími olíuskipaútgerðar á Íslandi liðinn undir lok.  Skipadeildin er ekki lengur til, heitir núna Samskip.  Ég vann áður og síðar í fjölskyldufyrirtækinu, Prjónastofunni Iðunni hf., en hún hætti rekstri árið 1988 og varð að Versluninni Iðunni ehf.  Þá réð ég mig til tölvudeildar Hans Petersen hf., síðar Tölvutækni Hans Petersen hf.  Tölvutækni var selt inn í Örtölvutækni haustið 1991, en ég fylgdi ekki með.  Örtölvutækni er löngu horfið af yfirborðinu og nú er Hans Petersen hf. orðið gjaldþrota.  Næst fór ég til Iðnskólans í Reykjavík og vann þar í 6 góð ár.  Nú er Iðnskólinn horfinn, sameinaður öðrum skóla og heitir Tækniskólinn.  Gamla starfið mitt er þó enn á sínum stað.  Þá lá leiðin til Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem ég starfaði á mesta uppgangstíma fyrirtækisins.  Það er ennþá á sínum stað, en markaðsvirði þess hefur að mestu gufað upp frá því að ég var þar.  Allir fyrri yfirmenn mínir og margir samstarfsmenn eru fyrir löngu hættir, ýmist af sjálfsdáðum eða sem hluti af uppsögnum.  Frá ÍE fór ég til VKS hf. og kom þangað stuttu eftir að Kögun hafði keypt fyrirtækið.  Þá var það rekið sem sjálfstætt fyrirtæki, en um það leiti sem ég hætti þar var það byrjað að týna sérkennum sínum.  Nú er VKS nafnið horfið af starfseminni, enda gleypti Kögun hana að lokum með húð og hári.

Það er heldur óskemmtilegur listi, en ég get þó sagt eitt.  Þegar ég var hjá þessum fyrirtækjum, þá stóð allt í blóma (með einni undantekningu - Tölvutækni stóð á brauðfótum), þannig að þau hefðu betur gert meira í að halda í mig Grin  A.m.k. er ekki um auðugan garð að gresja, þegar ég leita eftir meðmælum frá fyrri vinnuveitendum.  "Ja, fyrirtækin sem ég vann hjá eru bara öll hætt rekstri."  Hljómar ekki trúverðug skýring, en samt að mestu sönn.

Síðustu ár hef ég svo unnið sjálfstætt með eigin starfsemi, þannig að það er ljóst að skipti ég um vettvang, þá bætist enn eitt fyrirtækið á listann.

Á meðan gamlir vinnustaðir mínir hverfa (sumir hafa meira að segja verið rifnir) eða breyta ásýnd, þá hefur hagur viðskiptavina minna aftur dafnað og blómstrað.  Enda snýst ráðgjöf mín m.a. um að aðstoða fyrirtæki við að vera búin undir áföll og meta áhættuþætti í rekstrinum.


mbl.is HP Farsímalagerinn gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir að sækja skattinn

Nú eru allir að sækja endurgreiðsluna sína frá skattinum samhliða því að fá launin greidd.  Við skulum vona að bilunin finnist og leyst verði fljótt úr henni svo fólk geti nálgast peningana sína.  Eftir því sem ég best veit, þá er RB með áætlanir til að bregðast við þessu, þannig að ég á ekki von á því að þetta vari lengi.
mbl.is Tafir í Netbönkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða stóru lið voru heppin?

Ég veit ekki hvernig lið eru skilgreind sem stór í þessari frétt, en venjan hefur verið að tala um það séu lið frá Englandi, Spáni og Ítalíu, sem eiga 4 lið í Meistaradeildinni og síðan Þýskalandi og Frakklandi, en þessi lönd eiga 3 lið í keppninni.  Af liðum frá þessum löndum mæti Liverpool nokkuð sterkum andstæðingi, Arsenal mæti mjög sterkum andstæðingi, Schalke og Atletico Madrid mætast, Fiorentina leikur gegn Slavia Prag sem spilaði í riðlakeppni Meisaradeildarinnar sl. vetur.  Þá eru eftir Barcelona sem virðist sleppa vel og Marseille.  Hugsanlega er hægt að segja að Standard Liege sé léttur andstæðingur fyrir Liverpool, en að halda því fram að FC Twente sé léttur andstæðingur er út í hött.  FC Twente varð í 2. sæti í Hollensku deildinni í vor og vann auk þess Ajax í úrslitum umspil um Meistaradeildarsæti.

Ég veit ekki í hverju heppnin fólst, nema að ekkert þessara liða þarf að fara til Tyrklands og aðeins eitt þeirra mætir FC Twente og annað mætir Atletico Madrid.


mbl.is Stórliðin höfðu heppnina með sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 1678220

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband