Leita í fréttum mbl.is

Sviðin jörð

Hann er yfir að líta eins og sviðin jörð listinn yfir fyrirtæki sem ég hef unnið hjá í gegnum tíðina.  Fyrsta "alvöru" starfið mitt var hjá Skipadeild Sambandsins.  Eitt sumar á Litlafelli og annað á Stapafelli.  Það er langt síðan að þessi skip fór úr landi og raunar er tími olíuskipaútgerðar á Íslandi liðinn undir lok.  Skipadeildin er ekki lengur til, heitir núna Samskip.  Ég vann áður og síðar í fjölskyldufyrirtækinu, Prjónastofunni Iðunni hf., en hún hætti rekstri árið 1988 og varð að Versluninni Iðunni ehf.  Þá réð ég mig til tölvudeildar Hans Petersen hf., síðar Tölvutækni Hans Petersen hf.  Tölvutækni var selt inn í Örtölvutækni haustið 1991, en ég fylgdi ekki með.  Örtölvutækni er löngu horfið af yfirborðinu og nú er Hans Petersen hf. orðið gjaldþrota.  Næst fór ég til Iðnskólans í Reykjavík og vann þar í 6 góð ár.  Nú er Iðnskólinn horfinn, sameinaður öðrum skóla og heitir Tækniskólinn.  Gamla starfið mitt er þó enn á sínum stað.  Þá lá leiðin til Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem ég starfaði á mesta uppgangstíma fyrirtækisins.  Það er ennþá á sínum stað, en markaðsvirði þess hefur að mestu gufað upp frá því að ég var þar.  Allir fyrri yfirmenn mínir og margir samstarfsmenn eru fyrir löngu hættir, ýmist af sjálfsdáðum eða sem hluti af uppsögnum.  Frá ÍE fór ég til VKS hf. og kom þangað stuttu eftir að Kögun hafði keypt fyrirtækið.  Þá var það rekið sem sjálfstætt fyrirtæki, en um það leiti sem ég hætti þar var það byrjað að týna sérkennum sínum.  Nú er VKS nafnið horfið af starfseminni, enda gleypti Kögun hana að lokum með húð og hári.

Það er heldur óskemmtilegur listi, en ég get þó sagt eitt.  Þegar ég var hjá þessum fyrirtækjum, þá stóð allt í blóma (með einni undantekningu - Tölvutækni stóð á brauðfótum), þannig að þau hefðu betur gert meira í að halda í mig Grin  A.m.k. er ekki um auðugan garð að gresja, þegar ég leita eftir meðmælum frá fyrri vinnuveitendum.  "Ja, fyrirtækin sem ég vann hjá eru bara öll hætt rekstri."  Hljómar ekki trúverðug skýring, en samt að mestu sönn.

Síðustu ár hef ég svo unnið sjálfstætt með eigin starfsemi, þannig að það er ljóst að skipti ég um vettvang, þá bætist enn eitt fyrirtækið á listann.

Á meðan gamlir vinnustaðir mínir hverfa (sumir hafa meira að segja verið rifnir) eða breyta ásýnd, þá hefur hagur viðskiptavina minna aftur dafnað og blómstrað.  Enda snýst ráðgjöf mín m.a. um að aðstoða fyrirtæki við að vera búin undir áföll og meta áhættuþætti í rekstrinum.


mbl.is HP Farsímalagerinn gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svona nett kómísk en samt eitthvað dapurleg lesning. En svona er þetta stundum. Ég er tiltölulega nýfarin til Danmerkur til að hefja nám í Horsens. Ég er úr Keflavík og áður en ég fór út að þá fór ég og tók mynd af nánast flestum fyrirtækjum í Reykjanesbæ ásamt því að taka mynd af óskipulögðum svæðum. Þetta verður gaman að sjá eftir nokkur ár.

Sem dæmi að þungavigtarverslun í Keflavík sem hét Stapafell lagði niður starfsemi í júní eftir áratuga starfsemi. Sorglegt og mikill skellur fyrir Hafnargötuna.

Sigurbjörn Arnar Jónsson (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 22:15

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Sigurbjörn, ég er svo sem búinn að vera horfa upp á þetta í nokkurn tíma og var svo farið að gruna að Hans Petersen myndi fylgja í kjölfar hinna.  Það er stað reynd að ljósmyndavörufyrirtæki eru að ganga í gegnum tilvistarkreppu um leið og heimurinn er að væðast stafrænum myndavélum.  Ég er að vísu sannfærður um að fólk mun frekar vilja skoða myndir á pappír en af tölvuskjá, en framköllunin er bara búin að færast frá framköllunarstofunum yfir á heimilisprentarana.  Ég sat fund hjá HP árið 1989 eða 1990, þar sem fullyrt var að dagar filmunnar væru liðnir og innan (þá) 5 ára væru allir farnir að nota stafrænar vélar.  Sú bylting dróst talsvert, en nú er filman fokin, þökk sé hágæða stafrænum myndavélum.  Framtíðin er að myndavélar verða seldar í verslunum með alls konar raftæki auk jaðartækja fyrir tölvur.  Þannig verða myndvélar við hliðina á hárþurrkum, rakvélum, geislaspilurum, beinum, útvörpum og hvað það nú er sem fæst í svona verslunum.

Mér finnst sorglegt að sjá minn gamla vinnustað fara þessa leið og votta bara öllum sem komið hafa að rekstri þessa fyrirtækis í gegnum tíðina samúð mína.

Marinó G. Njálsson, 1.8.2008 kl. 23:52

3 identicon

Sælir, langar að leggja smá orð í belg, ég vann nú hjá Hans Petesen í mörg ár,þetta sem er að gerast núna er einfaldlega afleiðingar gríðalegrar græðgi hjá hinum nýju eigendum HP, sem keyptu af Skeljungi á sínum tíma, og það að sumir menn eiga ekki og kunna hreinlega ekki að reka fyrirtæki.

punktur..

Ásgeir Helgi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 02:01

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Þetta er fróðlegur listi hjá þér.  Núverandi gjaldþrot hjá þessum stóru fyrirtækjum virðast vera bein afleiðing af þessu alþjóðlega umróti.  Fyrir stuttu síðan keypti Penninn fyrirtæki sem ég hef verslað mikið við.  Til að borga kaupin var varan hækkuð um 60%.  Nýi sölustjórinn hló bara að mér þegar ég tilkynnti honum að þessa hækkun tæki ég ekki á mig.  Í "trúnaði" sagði þessi nýi sölustjóri að hann vissi ekkert um vöruna eða samkepnnisaðila og nákvæmlega ekki neitt um flesta viðskiptavini sína.  Hann lét fylgja með að hann væri að reyna að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti.  Þess vegna væri 60% hækkun nauðsynleg.  En 60% sinnum núll er ekki 600% eins og kennt er víst í dag.   Hér er skólakerfið að bregðast.

Í dag er ég með 5 tilboð frá öðrum aðilum í sama bransa sem allir vilja allt fyrir mig gera.  Sölustjórar frá stærri fyrirækjum koma í heimsókn og gefa mér tilboð.  En nýi sölustjórinn með gömlu vöruna nennir ekki að eltast við mig.  Ótrúlegt.   

Björn Heiðdal, 2.8.2008 kl. 11:09

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ásgeir, ég þekki náttúrulega ekkert til reksturs Hans Petersen um þessar mundir og er því ekki dómbær á þessi orð þín.  En það er alveg rétt að ekki kunna allir að reka fyrirtæki.  Það sem mér finnst samt  helsti ljóður á aðilium sem stunda fyrirtækjarekstur, er að menn kunna sér ekki hóf.  Þeim gengur vel með lítinn rekstur í bílskúrnum heima hjá sér og halda að þeim séu allir vegir færir.  Næsta skref er að yfirtaka mun stærri starfsemi eða flytja í 100 sinnum stærra húsnæði.  Það er eins og að það sé enginn millivegur.  Það sé ekkert til sem heitir að stækka hægt og rólega. 

Fyrirtækjarekstur felst í grófum dráttum í útsjónarsemi (við getum kallað það að hafa viðskiptavit), breytingastjórnun og áhættustjórnun.  Þetta fyrsta felst í því að sjá tækifærin og grípa þau, atriði tvo felst í því að hafa fullkomna stjórn á öllum breytingum í rekstri og bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi fyrirtækisins og það síðasta felst í því að lesa í og bregðast við ógnum og áhættuþáttum í umhverfi og rekstri fyrirtækisins og tryggja eins og hægt er samfelldan rekstur.  Ef þetta þrennt er í lagi, þá eru menn í eins góðum málum og hægt er.  Auðvitað geta þessir aðilar farið á hausinn eins og aðrir, þar sem breytingarnar í rekstrarumhverfinu eru þeim óviðráðanlegar eða að þeir mátu aðstæður rangt.  En séu þessir hlutir í lagi eru miklar líkur á því að fyrirtækið haldist í rekstri.

Ég er að fást við tvö síðarnefndu atriðin í mínu starfi, þ.e. að aðstoða fyrirtæki við að koma upp breytingarstjórnun og áhættustjórnun.  Þó svo að sjónarhornið sé frá stjórnun upplýsingaöryggis, þá má ekki gleyma því að fyrirtæki eru ekkert án upplýsinga og því er stjórnun þess einn af lykilþáttum í rekstraröryggi fyrirtækja ásamt fjárhagslegri stöðu og viðskiptalíkaninu.

Marinó G. Njálsson, 2.8.2008 kl. 11:27

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, þetta er fróðleg lesning.  Ég hef alltaf litið svo á í mínu starfi, að mikilvægasta atriðið sé að geta komið aftur þar sem ég hef verið.  Ég lærði þetta í sölumennskunni fyrir Iðunni í gamla daga. Ef ég get ekki komið aftur þar sem ég hef verið, þá er ég búinn að glata viðskiptivini og þar með markaðshlutdeild.  Þetta gat þýtt, að ég varð að halda aftur af áköfum innkaupastjóra eða jafnvel bara afgreiða til hans hluta af pöntuninni, vegna þess að ég græddi ekkert á því að láta víxilinn falla eða að megnið af vörunni færi á útsölu.  Magnið sem pantað var í hverri heimsókn skipti ekki megin máli heldur að eiga í samfelldum viðskiptum við viðkomandi aðila.

Marinó G. Njálsson, 2.8.2008 kl. 11:33

7 identicon

það er eins gott að ráð þig ekki í vinnu, því fyrirtækið yrði lagt niður

Tryggvi Bjarnason (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 14:50

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nei, nú misskilur þú hlutina, Tryggvi.  Með einni undantekningu, þá byrjaðu hnignunarskeiðin ekki fyrr en löngu eftir að ég hætti, þannig að það er um að gera að ráða mig, en passa sig bara að halda mér ánægðum í starfi .  (Ég þarf ekki 62 milljónir á mánuði til að vera ánægður, 1,5 - 2 er alveg nóg .)

Svona þegar öllu gríni er sleppt, þá er Iðnskólinn stærri og öflugri í dag sem Tækniskólinn, VKS stendur sig vel innan Kögunar og Samskip er stærra skipafélag en Skipadeild Sambandsins var.  Síðan heldur ÍE sínu striki, þó svo að markaðurinn skilji ekki alveg út á hvað hlutirnir ganga þar innan dyra.  Enginn af þessum aðilum hefur gert neitt af sér eða orðið gjaldþrota.  Hans Petersen hf. var bara þetta trausta fyrirtæki sem maður hefði haldið að myndi spjara sig hvað sem á gengi.  Það er því visst sjokk en svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Meðal annarra orða.  Ég óska Hildi Petersen, fyrrverandi forstjóra og einum aðaleiganda Hans Petersen, til hamingju með afmælið í dag.  (Samkvæmt upplýsingum í Fréttablaðinu.)

Marinó G. Njálsson, 2.8.2008 kl. 15:10

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Mjög fróðlegt hjá þér Marinó og ágæt úttekt á íslenskum (fyrirtækja-) raunveruleika. Það er oft betra að fara sér hægt. Stofnendur og eigendur HP voru snillingar í fyrirtækjarekstri.

Júlíus Valsson, 2.8.2008 kl. 18:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1678250

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband