Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Treysta lífeyrissjóðir á verðtryggingu?

Það var stutt viðtal við Vilhjálm Bjarnason í fréttum Stöðvar 2 í kvöld í tilefni niðurstöðu skoðunarkönnunar um afstöðu landsmanna til verðtryggingar.  Þar kastaði Vilhjálmur fram gamalli klisju um að nauðsynlegt væri að halda í verðtrygginguna vegna lífeyrissjóðanna.  Mér finnst þetta svo furðuleg staðhæfing hjá Vilhjálmi, að ég get ekki orðabundist.

Það er tóm steypa að lífeyrissjóðirnir treysti á verðtryggingu.  Það þarf ekki annað en að skoða eignasafn sjóðanna til að sjá, að verðtryggð skuldabréf eru almennt undir 50% af eignum sjóðanna og oft mun minna.  Þrír stærstu sjóðirnir eru (samkvæmt vef Landssamtaka lífeyrissjóða):

1.  Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærstur með eignir upp á 317 milljarða um síðustu áramót eða 18,8% af eignum lífeyrissjóðanna.  Eignasafn LSR skiptist þannig:

  • Ríkistryggð bréf 15,6%
  • Skuldabréf lánastofnana 8.6%
  • Skuldabréf sveitarfélaga 4,9%
  • Skuldabréf fyrirtækja 9,8%
  • Sjóðfélagalán 13,9%
  • Erlend skuldabréf 2,6%
  • Innlend hlutabréf 15,9%
  • Erlend hlutabréf 27,0%
  • Ýmsir sjóðir 1,7%31

Af þessum eignum eru 47,2% alveg örugglega ekki verðtryggð.  Óljóst er hve stór hluti hinna 52,8% eru verðtryggð, en reikna má með að það sé jafnvel innan við 40%.

2.  Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live) er næst stærstur með eignir upp á 269 milljarða 31.12.2007 eða 15,9% eigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Live skiptist sem hér segir:

  • Sjóðfélagalán  9,2%
  • Íbúðabréf 27,0%
  • Bankar og sparisjóðir 3,7%
  • Fyrirtæki 2,6%
  • Innlend hlutabréf 37,0%
  • Erlend verðbréf 20,3%
  • Annað 0,2%

Hér er a.m.k. 57,3% óverðtryggt, en 36,2% alveg örugglega verðtryggð.

3. Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti sjóðurinn með eignir upp á rúmar 238 milljarða í árslok 2007 eða 14,1% heildareigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Gildis skiptist sem hér segir: 

  • Erlend hlutabréf 21,1%
  • Framtaks- og fasteignasjóðir 4,2%
  • Vogunarsjóðir 2,9%
  • Innlend hlutabréf 22,3%
  • Ríkistryggð bréf 25,6%
  • Skuldabréf fyrirtækja 8,3%
  • Skuldabréf banka og sparisjóða 4,7%
  • Veðskuldabréf 4,7%
  • Skuldabréf sveitarfélaga 2,9%
  • Önnur skuldabréf 3,3%

Aftur getum við sagt til hve stór hluti er örugglega óverðtryggður, þ.e. 51,2%, en ekki er vitað hve stór hluti af restinni er verðtryggður.

Hér höfum við 3 stærstu sjóðina, en heildareign þeirra jafngildir 48,76% af heildareignum allra lífeyrissjóða landsins um síðustu áramót. Samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu þessara sjóða voru a.m.k. 51,65% af heildareignum þeirra óverðtryggðar.  Miðað við þetta, hvernig getur Vilhjálmur Bjarnason komið í fjölmiðla og fullyrt að lífeyrissjóðirnir treysti á verðtryggingu?  Vissulega er lífeyririnn verðtryggður, en það hefur hvorki hindrað lífeyrissjóði í að hækka eða lækka áunnin réttindi sjóðfélaga.  Þessi breyting til hækkunar eða lækkunar hefur yfirleitt verið vegna þess að óverðtryggði hluti eigna sjóðanna hefur hækkað/lækkað umfram verðbólgu. Það mun halda áfram að gerast.

Að lífeyrir sé verðtryggður breytist ekkert, þó hætt verði að bjóða verðtryggð lán.  Það er ekki ætlunin að hætta að mæla breytingar á vísitölu neysluverðs.  Það sem breytist er að lántakendur þurfa að greiða verðbólguna strax í áföllnum vöxtum (þegar um breytilega vexti er að ræða) í staðinn fyrir að verðbætur bætist ofan á höfuðstól.  Verðtrygging er ekkert annað en breytilegir vextir sem bætast á höfuðstól lána í staðinn fyrir að lántakandinn greiði þá jafnóðum.  Það er ekkert því til fyrirstöðu að halda því fyrirkomulagi áfram, ef menn vilja (sem ég efast um), þ.e. að láta hluta breytilegra vaxta breyta höfuðstól lána. 

Þó svo að bannað verði að verðtryggja lán til einstaklinga (sem ég býst við að sé það fólk er að tala um), þá er ekki þar með sagt að öll verðtryggð lán fari út af markaðnum. Það má heldur ekki gleyma því að mjög mikið magn af verðtryggðum lánum er á markaðnum.  Meðan að þeim er ekki skuldbreytt eða þau greidd upp, þá verða þau til staðar.  Um síðustu áramót vógu slík lán eitthvað á milli 30 og 40% af heildareignum lífeyrissjóðanna.  Að þetta hlutfall lækki þarf ekki að vera slæmt, þar sem óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hafa undanfarin ár verið að gefa mjög góða ávöxtun.  Margir bankar eru í dag að bjóða lán með yfir 20% breytilegum vöxtum.  Það eru 5,5% raunvextir, sem varla telst slæm ávöxtun.

Ég held að þessar áhyggjur Vilhjálms Bjarnasonar af afkomu lífeyrissjóðanna séu óþarfar.  Ég hef rætt við það marga hjá sjóðunum sem sjá um fjárfestingar fyrir sjóðina, til að vita, að þeir spjara sig alveg án verðtryggingarinnar.  Raunar, ef litið er til síðustu ára, þá er stór hluti raunávöxtunar sjóðanna til kominn vegna fjárfestinga í óverðtryggðum pappírum.

Annars held ég að fréttastofa Stöðvar 2 ætti bara að snúa sér til Árna Guðmundssonar hjá Gildi, Þorgeirs Eyjólfssonar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Hauks Hafsteinssonar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og spyrja þá út í þessa fullyrðingu Vilhjálms.  Það kæmi mér verulega á óvart, ef þeir tækju undir hana.


Af "afsláttarfargjöldum/kortum" Strætó

Ég var í dag að kaupa strætómiða fyrir strákana mína, sem er svo sem ekki frásögu færandi.  Annar er 9 ára og hinn verður 12 ára eftir nokkra daga.  Sá eldri fellur því undir þann hóp sem Strætó kallar ungmenni.  Gjaldskrá Strætós er í sjálfu sér mjög einföld.  Almennum fargjöldum er skipt í annars vegar fyrir 19 ára og eldri, en það fargjald er 280 kr., og hins vegar fyrir 6 - 18 ára sem greiða 100 kr.  Þetta er hrein skipting og ekkert flókið við hana.

Hlutirnir verða aftur flóknir, þegar kemur að afsláttarfargjöldum.  Þau skiptast í:

  1. Farmiðaspjöld með stökum miðum
  2. Afsláttarkort (tímabilskort)
  3. Nemakort

Skoðum fyrst farmiðaspjöldin:

Ef keypt er farmiðaspjald fullorðinna, þá fær maður 11 miða á kr. 2.500 sem veitir tæplega 19% afslátt.  Kaup maður farmiðaspjald fyrir börn, þá fær maður 20 miða á kr. 750, sem veitir hvorki meira né minna en 62,5% afslátt.  Og kaup maður farmiðaspjald fyrir öryrkja og aldraða, þá fær maður 20 miða á 1.600 kr., sem þýðir ríflega 71% afslátt.  Ef maður er aftur svo óheppinn að eiga 12 - 18 ára ungmenni og vill kaupa farmiðaspjald fyrir það, þá fær maður 16 miða á 1.600 kr., þ.e. enginn afsláttur er veittur!  Það verður að segjast, að það er alveg stórfurðulegt að einn hópur viðskiptavina Strætó fær ekki afslátt kaupi hann afsláttarfargjöld!!!!  Hvað þýðir orðið "afsláttarfargjald"?  Nú er ég ekki íslenskufræðingur, en "afsláttur" merkir (samkvæmt mínum skilningi) að greiða þarf lægra gjald en uppsett verð. "Afsláttarfargjald" á því að þýða, að ekki er greitt fullt fargjald.  Hvernig stendur þá á því að farmiðaspjald, sem veitir engan afslátt, er auglýst undir liðnum "Afsláttarfargjöld"? Af hverju eru ekki talsmaður neytenda, Neytendastofa og Samkeppnisstofnun búin að banna Strætó að blekkja viðskiptavini sína á aldrinum 12 - 18 ára með þessari framsetningu?  Síðan má náttúrulega spryja sig:  Af hverju er þetta eini viðskiptavinahópur Strætó sem fær ekki sambærileg kjör og aðrir hópar?

Afsláttarkort:

Afsláttarkortin eru í nokkrum litum og gilda í mislangan tíma.  Gula kortið gildir 14 daga og kostar 3.500 kr.  Græna kortið gildir í 1 mánuð (þ.e. 28 - 31 dag eftir því hvenær það er keypt) og kostar 5.600 kr.  Rauða kortið gildir í 3 mánuði (þ.e. 89 - 92 daga eftir því hvenær það er keypt) og kostar 12.700 kr.  Bláa kortið gildir í 9 mánuði (þ.e. 273 - 276 daga eftir því hvenær það er keypt) og kostar 30.500 kr.  Síðan er hægt að fá eins eða þriggja daga passa.  Og loks er til Sumarkort, en það virðist ekki hafa neinn sérstakan upphafstíma, bara lokatíma.   Enginn munur er á því hve gamall notandi kortanna er.  Fyrir þann sem greiðir fullorðins fargjald (kr. 280), þá borgar Gula kortið sig upp á 16. ferð (miðað við afsláttarfargjald), Græna kortið borgar sig upp á 25. ferð, Rauða kortið á 56. ferð og Bláa kortið á 134. ferð. Það dettur náttúrulega engum að kaupa svona kort fyrir börn, öryrkja eða aldraða.  En það gæti borgað sig að kaupa kortin fyrir ungmenni.  Þá kveður svo rammt við að ungmennið þarf að taka strætó 36 sinnum á 14 dögum til að það borgi sig að kaupa Gula kortið, 57 sinnum á 28 - 31 degi til að kaupa Græna kortið, 128 sinnum á 89 - 92 dögum til að kaupa Rauða kortið og 306 sinnum á 273 - 276 dögum til að kaupa Bláa kortið.  Blessaði unglingarnir eru greinilega ekki í miklum metum hjá Strætó.

Nemakort:

Til að geta fengið Nemakort, þá þarf viðkomandi að búa í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ eða á Álftanesi.  Auk þess þarf viðkomandi að vera skráður í framhalds- eða háskóla sem staðsettur er á höfuðborgarsvæðinu.  (Af hverju viðkomandi skóli þarf að vera á höfuðborgarsvæðinu er mér hulin ráðgáta.)  Samkvæmt þessu getur einhver hluti ungmenna fengið ókeypis í strætó.  Það er fínt fyrir þá og ekki ætla ég að setja út á þessa rausn sveitarfélaganna.

Jæja, þá er formálinn búinn.  Eins og ég nefndi þá er ég með strák sem verður bráðum 12 ára.  Hann er í 7. bekk og það eru því líklegast 4 ár, þar til að hann innritast í framhaldsskóla.  Næstu 4 ár verður hann því í þeim hópi viðskiptavina Strætó sem fyrirtækið vill minnst gera fyrir.  Ekki bara það.  Strætó beitir blekkingum og rangfærslum til að telja honum og jafnöldrum hans trú um að þeim sé veittur afsláttur, ef þeir festa kaup á "afsláttarfargjöldum" og "afsláttarkortum".  Í öðru tilfelli er þeim ekki veittur neinn afsláttur og í hinu næst ekki afsláttur fyrr en eftir svo mikla notkun að blessaðir unglingarnir þurfa að ferðast í strætó liggur við dag og nótt, til að fá afslátt.  Þetta eru skemmtileg skilaboð sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu senda þessum aldurshópi.  "Við vitum að þið neyðist til að nota strætó og þess vegna ætlum við ekki að veita ykkur nein sérkjör."  Ég get ekki betur séð en að þetta séu skilaboðin.

Ég spyr bara:  Er einhver sérstök ástæða fyrir því að sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu ákveða að taka þennan hóp unglinga á aldrinum 12 - 16 ára sérstaklega útúr og koma svona illa fram við hann?  Af hverju er foreldrum og forráðamönnum þessara unglinga sérstaklega refsað af sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu fyrir það að eiga börn á aldrinum 12 - 16 ára?  Þetta er þess furðulegra, að um leið og blessaðir unglingarnir eru orðnir nógu gamlir til að geta byrjað að vinna fyrir einhverjum tekjum, þá eiga þeir kost á að fá ókeypis í strætó (!!!!), en á meðan þeir fá allan sinn eyðslueyri frá foreldrum/forráðamönnum, þá fá þeir ekki 1 krónu í afslátt nema fara margar ferðir á dag.

Ég skora á Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, að taka þetta mál upp.

---

Ég vil taka það fram, að ég hef fylgst með umræðu um þetta efni fyrr, en áttaði mig ekki á fáránleika málsins fyrr en ég reyndi það á eigin skinni.   Þetta mál er sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu til háborinnar skammar og ættu þeir að vera menn með meiru að leiðrétta þessa vitleysu.  Menn kvarta yfir því að almenningssamgöngur séu ekki nýttar nægilega vel, en er það nema furða þegar komið er svona fram við upprennandi viðskiptavini.


Glitnir breytir stýrivaxtaspá

Ég get ekki annað en haft gaman af þessari breyttu spá Glitnis.  Það er nefnilega ekki nema mánuður síðan að greiningardeild bankans gerði ráð fyrir að Seðlabankinn myndi lækka stýrivexti 6. nóv.  Það er líka mánuður síðan að ég birti mína spá um þróun stýrivaxta (sjá Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?), þar sem ég spáði því að bara út frá verðbólguspá væri ólíklegt að Seðlabankinn hæfi lækkunarferlið fyrr en í desember.  Seðlabankinn hefur sjálfur gefið út að lækkunarferlið hefjist ekki fyrr en á næsta ári.

Þetta veltur í mínum huga allt á spurningunni sem ég spurði færslu minni, sem ég vísa í hér að ofan.  Þ.e. hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?  Meðan Seðlabankinn svarar ekki þeirri spurningu á skýran hátt, þá er ekkert hægt að segja til um hvenær þær aðstæður hafa skapast í þjóðfélaginu að Seðlabankanum finnist tímabært að lækka stýrivextina. 

Vissulega veltur þetta mikið á verðbólgutölum næstu tveggja mánaða.  Eins og ég sagði í færslu minni í gær, þá er talsverð óvissa um hvort áhrif af útsölulokum séu að fullu komin fram í vísitölu neysluverðs.  Greiningardeildir bankann eru ekki sammála um þetta.  Glitnir telur svo ekki vera, meðan Landsbankinn er fullur bjartsýni.  Sjálfur tel ég að þessi áhrif séu að stærstum hluta komin fram, en set vikmörk í mínar tölur.

Mig langar að skoða aðeins verðbólguspá Glitnis fyrir næsta mánuð, þ.e. breytingu vísitölu neysluverðs milli ágúst og september.  Greining Glitnis spáir því (samkvæmt frétt mbl.is í gær) "að vísitala neysluverðs hækki hraustlega á milli mánaða", en einnig var haft eftir starfsmanni Greiningar Glitnis í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að verðbólgutoppnum yrði náð í september. Þetta er ákaflega forvitnileg staðhæfing og mér finnst hún raunar óraunhæf.  Ástæðan fyrir því er einföld.  Verðbólga í september í fyrra var 1,3% (þ.e. breyting milli mælinga í ágústbyrjun og septemberbyrjun). Til þess að ársverðbólga í september í ár verði meiri en í september í fyrra, þá þarf breytingin á vísitölu neysluverðs milli ágúst og september í ár að vera meiri en 1,3%.  Það verður að teljast mjög ólíklegt (þó það sé vissulega ekki útilokað).

Loks langar mig að varpa fram þeirri spurningu hvort rétt sé mælt og þá með tilvísun til ársverðbólgu.  Ástæðan fyrir því að ég spyr er að um áramót var gerð breyting á vísitölumælingu sem gerir það að verkum að tölur yfir ársverðbólgu ná í raun yfir 54 vikur, en ekki 52 vikur.  Það skiptir kannski ekki megin máli, þar sem þetta leiðréttist í janúar, en samt.  Ársverðbólgan sem núna mælist er sem sagt 54 vikna verðbólga.  Sé hún leiðrétt miðað við 52 vikur, þá kemur í ljós að vísitöluhækkunin myndi mælast tæp 14%, ef notuð er einföld stærðfræði, þ.e. 14,5/54*52.  Sé aftur aðeins talin með helmingurinn af vístöluhækkuninni milli júlí og ágúst, þá rétt slefar ársverðbólgan yfir 14%.  En af hverju skiptir þetta máli?  Jú, með þessari mælingu, þá eru raunstýrivextir 1,5% í stað 1%.  Með þessari mælingu minnkar þrýstingur á Seðlabankann að hækka stýrivexti, sem annars væri mjög freistandi. Niðurstaðan er samt sú að ársverðbólgan er "bara" 14%, ekki 14,5%.


mbl.is Spá óbreyttum stýrivöxtum út árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnir við hvers konar ofurefli var við að etja

Ég fékk það strax á tilfinninguna, þegar BATE frá Hvíta-Rússlandi drógst á móti Val, að þarna hefðu orðið einhver mistök.  Liðið væri alltof sterkt til að vera í 1. umferð keppninnar.  Mig minnti nefnilega að liðið hefði naumlega fallið úr leik árið á undan eftir að hafa unnið FH í 2. umferð undankeppninnar í fyrra.  Ég fletti þessu því upp og það stóð á endum.  Liðið tapaði 4-2 fyrir Steua Búkarest.

Ég ræddi þessi mál við Willum Þór, þegar ég hitti hann í sumar og hann var alveg sammála þessu.  BATE hefði einfaldlega verið í öðrum klassa og alls ekki átt heima í 1. umferð.  Núna er sem sagt komið í ljós að þetta var á rökum reist.  Fyrst lagði BATE Anderlecht án teljandi vandræða í 2. umferð og núna Levski Sofia í 3. umferð.  Að andstæðingar Vals úr 1. umferð séu núna komnir í riðlakeppni meistaradeildarinnar sýnir að UEFA gaf vitlaust, þegar dregið var í 1. umferð og hafði þannig hugsanlega af Val tækifæri til að komast í 2. umferð.

Annars er það frábært að tvö lið sem tóku þátt í 1. umferð eru komin í riðlakeppnina, þ.e. BATE og Famagusta frá Kýpur.  Er þetta líklegast í fyrsta skipti í mörg ár, ef ekki bara í fyrsta skipti frá upphafi sem slíkt gerist.


mbl.is Valsbanarnir komnir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir bjóði upp á frystingu lána

Í síðustu viku hóf Íbúðalánasjóður að bjóða þeim, sem hafa keypt húsnæði eða eru að byggja og eiga í vandræðum með að selja, upp á að frysta afborganir lána.  Samkvæmt fréttum, þá hafa hrúgast inn umsóknir hjá sjóðnum.  Nú er spurningin hvort bankarnir eigi ekki að bjóða upp á þetta líka.

Eins og staðan er á fasteignamarkaðnum, þá gengur mjög illa að selja.  Ég veit ekki hvort það er vegna þess að kaupendur átta sig ekki á þeim lánamöguleikum sem eru á markaðnum, sé að bíða af sér verðbólgustorminn eða eftir því að verð lækki.  Ég á ekki von á því að nafnverð lækki mikið, í mesta lagi um fáeinar prósentur, þannig að lækkunin verður líklegast í gegnum raunlækkun vegna verðbólgu.  Það er ákveðin skynsemi í því að bíða þar til verðbólgukúfurinn er genginn hjá, en hafa verður í huga að lán eru uppreiknuð miðað við afhendingardag, þannig að verðbólga næstu mánaða mun að öllum líkindum lenda á seljendum.  Þá er það með lánamöguleikana.

Í hverjum mánuði renna 12% af andvirði launa landsmanna til lífeyrissjóðanna í formi iðgjalda.  Þetta eru gríðarlega háar tölur. Lífeyrissjóðunum er í mun að koma þessum peningum í vinnu fyrir sjóðfélaga sína.  Það er eins og fólk hafi yfirsést það undanfarna mánuði, að lífeyrissjóðirnir eiga ekki bara fullt af peningum heldur eru vaxtakjör þeirra mjög vel viðunandi.  Vissulega er þeir með lægri mörk en bankarnir, en 65% veðhlutfall er nú nokkuð þokkalegt.

En aftur að bönkunum.  Vanskil eru farin að aukast.  Það sést m.a. á því að fjármálafyrirtæki eru farin að leggja fyrir á afskriftarreikninga.  Samkvæmt uppgjöri VBS, þá er hægt að rekja allt tap fyrirtækisins og rúmlega það til fyrirbyggjandi aðgerða m.a. vegna hugsanlegra afskrifta (varúðarfærsla vegna hugsanlegrar virðisrýrnunar útlána).  Það er sem sagt ekki byrjað að afskrifa neitt að ráði, heldur er verið að færa á reikning það sem hugsanlega þarf að afskrifa eða fer í vanskil á næstu mánuðum.  Eins og staðan er í þjóðfélaginu, þá mun þetta bara aukast. 

Fjölmargir einstaklingar eru með gengisbundin bílalán sem hafa hækkað langt umfram verðmæti bílanna.  Sum þessara lána eru orðin það þung í greiðslu, að fólk á í erfiðleikum með að standa í skilum.  Aðrir eru með húsnæðislán þar sem greiðslubyrðin hefur einnig aukist mjög mikið.  Í báðum tilfellum er ég nokkuð viss um að fólk vill standa í skilum, en það er við ramman reip að draga.  Það stefnir allt í að með krónuna jafn lágt skráða og raun ber vitni, að þessi lán fari í vanskil.  Ein leið út úr þess er að taka ný lán, en sú leið virðist heldur torsótt.  Önnur er að reyna að selja, en hvort heldur að það eru bílar eða fasteignir, þá er nærri því frost á markaðnum.  Þá er það þriðji kosturinn, en hann er að bankarnir bjóði sama kost og Íbúðalánasjóður, þ.e. bjóði fólki að frysta afborganir í 6 - 12 mánuði.  Þetta er hugsanlega ekki hægt, en hver er hinn kosturinn.  Að innkalla lánin og ganga að veðunum.  Eru bankarnir eitthvað betur settir með að eiga 50, 100, 200 eða þess vegna 500 eðalvagna og einbýlishús úti um hvippinn og hvappinn sem þeir koma ekki í verð.  Er ekki betra að koma til móts við lántakendur og gefa þeim svigrúm með því að fresta afborgunum á svipaðan hátt og Íbúðalánasjóður gerir.  Ég geri mér grein fyrir að bankarnir reikna með þessum peningum inn í veltuna, en komi til mikilla vanskila, þá gæti það litið illa út í efnahagsreikningi þeirra.


mbl.is Hremmingar ekki yfirstaðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgutoppnum náð

Það er nákvæmlega ekkert sem kemur á óvart í þessum verðbólgutölum.  Hvort verðbólgan varð 0,9% milli mánaða eða 1,1% eins og sumar greiningardeildir spáðu skiptir ekki öllu.  Það sem aftur skiptir miklu er að toppinum er náð.  Búast má við að verðbólga í næsta mánuði lækki nokkuð og verði á bilinu 13,4 til 13,8% allt eftir því hvernig gengið hagar sér og hvaða breytingar verða á olíuverði og vaxtastigi.  Hugsanlega eru einhver áhrifa af útsölum inni í núverandi mælingu.  Í þessum tölum mínum er gert ráð fyrir að breyting vísitölu neysluverð verði á bilinu 0,3  - 0,7% á milli ágúst og september.  Ef tekin er reynsla undanfarinna ára, þá er líklegt að verðbólga milli ágúst og september verði á bilinu 0.3 - 0,4%, sem gefur 12 mánaða verðbólgu upp á 13,4 - 13,5%.  (Ég sé að greiningardeildir bankanna eru mjög ósammála um þróun næstu mánaða.)

Það má spyrja hvort þessar verðbólgutölur munu hafa áhrif á stýrivexti.  Miðað við 14,5% verðbólgu, þá eru raunstýrivextir komnir niður í 1%, sem er með því lægsta sem gerst hefur.  Raunar hafa raunstýrivextir aðeins einu sinni verið lægri, en það var í janúar 2002 þegar þeir mældust 0,7%.  Það var í lok verðbólgukúfs sem kom í kjölfar mikillar lækkunar krónunnar í nóvember 2001.  Það vill svo til að verðbólga milli desember 2001 og janúar 2002 var 0,9%.  Alveg eins og núna.  Þá sat Seðlabankinn á sér og féll ekki í þá freistni að hækka stýrivexti (hafði raunar lækkað þá 2 mánuðum áður) og það sem meira var, að bankinn lækkaði þá verulega fljótlega eftir það.

Það er haft eftir Grétari Þorsteinssyni, forseta ASÍ, að verðbólgan sé skelfileg núna, en það er eiginlega ekki rétt.  Þá er ég að líta til verðbólgu milli júlí og ágúst.  Verðbólgan var skelfileg í frá janúar fram í júní/júlí, en á því tímabili mælist hún 9,8%.  Ársverðbólgan er meira og minna að endurspegla þær tölur.  Ef litið er nokkur ár aftur í tímann, þá sést að sambærilegar tölur fyrir 2007 voru 1,3% og 2005 1,5%.  (Ég segi sambærilegar tölur, þar sem mælingunni var breytt um áramót. Nú er mælt frá miðjum síðasta mánuði að miðjum núverandi mánuði, en áður var mælt frá byrjun síðasta mánaðar til byrjunar núverandi mánaðar.  Þetta hefur almennt ekki áhrif, en það gerir það í ágúst.  Samkvæmt fyrri mælingaraðferð höfðu sumarútsölur áhrif til lækkunar í verðbólgutölum fyrir ágúst, en núna hafa þær áhrif til hækkunar.  Það er því nauðsynlegt að bera verðbólgutölur fyrir ágúst í ár við verðbólgutölur í september hér áður fyrr.)  Verðbólgutölur í september 2006 og 2004 voru aftur 0,6% og 0,4%.  Meðaltal þessara fjögurra talna er því 0,95% eða svipað og núna.  Þetta eru því tölur sem búast mátti við.  Hagkerfið er búið að taka inn á sig lækkun gengisins, hækkun olíuverðs og hækkun vaxta og héðan í frá má búast við snörpum viðsnúningi.

Ég hef áður spáð að verðbólga verði milli 11 og 12,5% í árslok og sé enga ástæðu til að breyta því við þessar tölur, sem að mínu mati voru fyrirséðar (með einhverjum skekkjumörkum).  Ársverðbólga upp á 12% er mjög líkleg og ekkert nema snörp verðhjöðnun getur breytt því.

Það var eitt í þessum tölum sem mér fannst úr takt, en það var hækkun á efni til viðhalds húsnæðis.  Þessi tala kom mér samt ekki á óvart (þó hún sé úr takti við annað), þar sem ég er húsbyggjandi hef orðið var við óhugnanlegar hækkanir á byggingavöru.  Mælast slíkar hækkanir stundum allt að 40 - 50%!

 


mbl.is Verðbólgan 14,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atburðir sem Vesturlönd buðu upp á!

Rússar vöruðu við því að þetta myndi gerast, ef Vesturlönd styddu sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo.  Rússar voru á móti því að Kosovo yrði klofið frá Serbíu og töldu að það setti af stað ferli sem erfitt yrði að stoppa.  Það var ekki bara út af Suður-Ossetíu og Abkhasíu, heldur einnig út af fjölmörgum lýðveldum innan Rússlands sem hugsanlega vildu fara sömu leið.  Það eru líka héruð út um allan heim sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Baskahéruð og Katilóníu á Spáni, héruð Tamíla á Sri Lanka og Quebec í Kanada.

Það má svo sem spyrja sig hvort ekki sé betra að Suður-Ossetía fái að lýsa svona yfir sjálfstæði án verulegra átaka en að þar þurfi fyrst að geisa margra ára stríð með tilheyrandi mannfalli.  Mannfallið í átökunum hingað til er óverulegt (þó allt mannfall sé af hinu illa).  Ég get ekki séð að Suður-Ossetar muni sætta sig við það að tilheyra Georgíu (eða Grúsíu eins og það er víst á íslensku eða var það Laxnes sem notaði þetta heiti) og því sé þetta besta lausnin.  Sama sýnist mér gilda um Abkhasíu.  Hvort þessi héruð kjósa svo að sameinast Rússlandi, verður bara að fá að koma í ljós.

Það sem ég legg þó áherslu á að í mínum huga er nákvæmlega enginn munur á þessu máli og málefnum Kosovo.  Her Georgíu réðst inn í Suður-Ossetíu til að brjóta á bak aftur tilraunir heimamanna að öðlast sjálfstæði.  Í tilfelli Kosovo voru það Serbar sem fóru inn í Kosovo til að brjóta Albanana á bak aftur.  Í tilfelli Kosovo skarst NATO í leikinn eftir mikið mannfall og fjöldamorð á heimamönnum, en nú skarst her Rússa í leikinn áður en mannfall varð of mikið.  Í tilfelli Kosovo lögðu Rússar Serbum til vopn.  Í tilfelli Suður-Ossetíu voru það Bandaríkjamenn sem lögðu Georgíumönnum til vopn.

Nú er ég alls ekki vinstri maður og enn síður einhver aðdáandi rússneskra valdhafa.  En mér finnst fáránlegt að horfa upp á Vesturlönd setja einar reglur fyrir sig og aðrar fyrir þau ríki sem eru þeim ekki þóknanleg.  Það kemst aldrei á friður í heiminum meðan svo er.  Mér finnst einnig furðulegt að sjá fréttir um það að vopnaflutningur með íslenskum vélum frá Bandaríkjunum til Georgíu hafi átt sér stað örfáum dögum áður en her Georgíu hóf aðgerðir sínar í Suður-Ossetíu og Abkhasíu. Ákveðið var að nota íslenskar vélar vegna þess að það hefði ekki þótt líta nógu vel út, ef bandarískar Herkúles vélar hefðu verið notaðar!  Það þarf ekki miklar vangaveltur um samsæriskenningar til að komast að þeirri niðurstöðu að árás Georgíuhers hafi verið pöntuð af stjórnvöldum í Washington til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í nóvember.  Það er nefnilega þekkt, að Bandaríkjamenn kjósa frekar fíla (repúblikana) en asna (demókrata) á slíkri stundu.

Menn hafa gagnrýnt Rússa fyrir útþenslustefnu en gleyma því að það er líka að gerast á hinni hliðinni.  Bandaríkjamönnum er mikið kappsmál að fjölga ríkjum NATÓ eins mikið og mögulegt er.  Ég get alveg skilið að Rússum finnist sér ógnað, þó ég hafi enga samúð með þeim.  Sama á við um eldflaugavarnir Bandaríkjamanna, sem á að koma upp í nokkrum Austur-Evrópulöndum.  Sagt er að þær eigi að verja Bandaríkin fyrir árásum frá Íran, en íranskar flaugar drífa ekki einu sinni til Ísrael, þannig að það er borin von að þær nái til Bandaríkjanna.  Auk þess vissi ég ekki til að Íran ætti í stríði við Bandaríkin eða að Bandríkjunum stæði ógn af slíkum eldflaugum. 

Ég er nú ekki viss um að Bandaríkjamenn yrðu hrifnir ef Rússar settu upp slíkar flaugar á Kúbu eða í Mexikó. Þeir gætu þóst vera að verjast flaugum frá Argentínu eða Brasilíu!  Hvað veit maður?  Bandaríkin sjá ógnir í hverju horni, þannig að það hlýtur að vera satt!

Ég óttast að sú hernaðaruppbygging sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum undanfarin ár geti ekki endað á nema einn veg.  Það þarf að nota þennan herafla.  Þannig hefur það reynst í gegnum tíðina og það er engin ástæða til að breyting verði á núna.  NATÓ hefur látið teyma sig inn í átök í Afganistan án þess að þau átök geti fallið undir hlutverk NATÓ.  Það var gert svo Bandaríkin gætu gert innrás í Írak.  Innrás sem var ekki bara tilefnislaus heldur hefur stofnað friði í heiminum í voða.  Innrás sem hefur náð að sameina fjölda öfgahópa í baráttunni við Vesturlönd.  Innrás sem hefur sýnt heiminum fram á að bandarísk stjórnvöld fara sínu fram hvað sem hver segir eða sönnunargögn sýna fram á.  Innrás sem sýnir að Bandaríkin hunsa ályktanir Öryggisráðsins þegar þeim hentar.  Meðan Bandaríkin haga sér svona, er nema von að aðrir hermi eftir þeim.


mbl.is Rússar viðurkenna sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkhaziu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði, en samt frábært

Eftir frábært mót er ævintýrið úti.  Það endaði ekki eins og við vildum, en engu að síður frábær árangur.  Hver hefði trúað því fyrir mótið að Ísland myndi koma heim með silfurverðlaun?  A.m.k. ekki ég.  Við lögðum heimsmeistara, silfurlið síðustu heimsmeistarakeppni, Ólympíumeistarana, gerðum jafntefli við Evrópumeistarana og Afríkumeistarana, og unnum mjög örugga sigra á Rússum og Spánverjum.  Við vorum eina landið í okkar riðli, sem komst í undanúrslit og liðið átti stórbrotinn leik í undanúrslitum.  Auðvitað hefði verið frábært að vinna þennan síðasta leik, en það gekk ekki.  Því miður!

Til hamingju Ísland.


mbl.is Fundum ekki lausnir í sókninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra liðið vann - Frábær frammistaða Íslendinga á mótinu

Jæja, úti er ævintýri.  Ég vil þakka íslenska landsliðinu fyrir frábæra skemmtun síðasta hálfan mánuð.  Liðið mætti ofjörlum sínum í dag og þannig er það bara.  Frakkar voru okkur fremri á öllum sviðum og áttu sigurinn skilinn. 

Munurinn á þessum leik og öðrum var fyrst og fremst sóknarleikurinn. Við skutum Omeyer í stuð og eftir það var ekki aftur snúið.  Kannski var vandamálið líka einbeitingarleysi í vörninni, en að Ísland hafi ekki fengið eina einustu brottvísun í fyrri hálfleik segir margt um að barninginn vantaði. Sem afleiðing af því þá hræddust Frakkarnir ekki okkar menn eins og önnur lið hafa gert og markvarsln leið fyrir það.  Geðveikina vantaði.

Það vantaði einhvern veginn trúna á að þetta tækist.

Ég segi samt að það var betra að fá þennan skell núna, en t.d. á móti Pólverjum í 8 liða úrslitum.  Liðið komst í úrslitaleikinn og koma heim með silfurverðlaun af Ólympíuleikum, sem er einstakur árangur.

Til hamingju Ísland.  Takk fyrir þetta.

Síðan legg ég til að Guðmundur Þórður Guðmundsson verði kosinn íþróttamaður ársins.  Hann á það virkilega skilið.

Fyrri grein: (Það er ekki hægt nema einu sinni við hverja frétt.)

Taugarnar, líkamlegur styrkur og markvarslan

Það er greinilegt að taugarnar eru að fara illa með okkar menn.  Ótrúlegri sendingafeilar trekk í trekk.  Nokkuð sem ekki hefur sést hingað til.  Síðan eru Frakkarnir einfaldlega líkamlega sterkari (þó ótrúlegt sé) en við.  Jafnvel Róbert er eins og peð í höndum þeirra.  Loks er það markvarslan, eða eigum við að segja hvernig við skjótum í Omeyer.  Hér er á ferðinni enn einn markmaðurinn sem þarf að skjóta upp á.

Ég hef fulla trú á að við vinnum þetta upp, en þá verðum við að fækka tæknifeilunum og stoppa í gatið í vörninni.

 

Áfram Ísland.


mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur árangurinn hjá norsku stelpunum - Til hamingju Þórir

Ég vona að norsku stelpurnar hafi sett það fordæmi sem við fylgjum.  Frábært hjá þeim norsku og óska ég Selfyssingnum Þóri Hergeirssyni sérstaklega til hamningju.
mbl.is Norðmenn ólympíumeistarar í handbolta kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband