Leita í fréttum mbl.is

Lánakerfið verður ekki byggt upp í óbreyttri mynd

Einhvers staðar rakst ég á frétt, þar sem sagði að bankana vantaði trausta lántakendur.  Mig langar að snúa þessu við.  Lántakendur vantar trausta lánveitendur.  Það er nefnilega staðreynd, að það voru lánveitendurnir sem brugðust lántakendum í undanfara hruns krónunnar og síðan falls bankanna.

Mér finnst það með ólíkindum, að nokkrum detti í hug að kenna lántakendum um að bankarnir geti ekki lánað út peninga.  Ég verð að viðurkenna að ég treysti ekki bönkunum.  Af hverju ætti ég að gera það?  Þeir unnu skipulega gegn okkur lántakendum í mörg ár.  Það endaði í hruni krónunnar, mikilli verðbólgu, stökkbreytingu á höfuðstólum lána og falli þeirra sjálfra og hagkerfisins.  Það sem meira er, bankarnir hafa ekki sýnt neina auðmýkt gagnvart viðskiptavinum sínum.  Nei, það er gengið fram af þvermóðsku og hörku í staðinn fyrir að liðka fyrir og aðstoða fólk.  Skýrasta dæmi um þetta, er að setja fólk á vanskilaskrá sem er að sækja um greiðsluaðlögun.

Afleiðing af þessu er að greiðsluvilji almennings hefur dvínað.  Margir hafa hætt að greiða af lánum sínum, aðrir fryst þau.  Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður, segir þetta til marks um að lánasöfn lánastofnana séu ónýt.  Það er nokkuð djúpt í árinni tekið á mínu áliti.  Fólk frysti lánin sín í þeirri von að ástandið myndi batna, en ekki versna. Fólk treysti því að stjórnvöld myndu gera eitthvað fyrir heimilin í landinu, en ekki bara kafa dýpra ofan í vasa þeirra.

Staðreyndir málsins eru að heimilin eiga ekki að borga af lánunum eins og þau standa í dag. Stórhluti lánveitenda vann skipulag (hvort sem það var viljandi eða óviljandi) gegn hagsmunum lántakenda og lántakendur eiga EKKI að líða fyrir það. Best væri að færa stöðu allra lána til þess sem þau voru um áramótin 2007/2008. Sú staða er þekkt. Hún kemur fram í skattframtölum lántakenda. Lánstofnanir verða að viðurkenna að þetta er staðan og semja við sína lánadrottna um að þeir taki þátt í þessu.  ÍLS líka. Síðan á að afnema gengistengingu gengistryggðra lána (enda ólögleg) og setja þak á verðtryggingu.

Við búum í nýju Íslandi og það verður ekki byggt upp með því að nota kerfið sem felldi gamla Ísland. Það er ekki nóg að skipta út fólki, ef kerfið er það sama. Það þarf líka að skipta um kerfi.  Stærsti þátturinn í þeirri kerfisbreytingu er að fella niður verðtryggingu lána eða setja þak á verðbætur.  Verði farin sú leið að setja þak, þá á að miða við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Einnig þarf að setja þak á nafnvexti húsnæðislána líkt og gert er í Danmörku.  Sé áhugi fyrir því að Ísland gangi í ESB, þarf að hefja undirbúning að aðlögun hagkerfisins að þeirri inngöngu.  Stór liður í því, er að laga lánakerfið að nýju umhverfi.  Gleymum því ekki, að þó svo að einstaklingar hafi brugðist í aðdraganda efnahagshrunsins, þá var það ekki síður kerfið sem brást.  Það var jú kerfið sem gaf mönnum fært að gera það sem þeir gerðu.

Eitt í viðbót.  Við verðum að draga úr þeim miklu áhrifum sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa haft á setningu laga og reglugerða hér á landi.  Neytendur eiga að hafa jafn sterka rödd, þegar kemur að mótun lagaumhverfisins.  Löggjafinn á að hlusta á neytendasjónarmið og verja þau.  Alþingismenn eru í sinni stöðu í umboði neytenda (kjósendur eru neytendur), ekki fyrirtækja enda hafa þau ekki kosningarétt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Marinó

Ég held að gagnger endurskipulagning bankakerfisins sé óumflýjanleg ef ekki á að fara ílla. Þessi endurlífgun eða björgun hefur frá upphafi verið hið mesta feigðarflan. Ekki hefur verið farið í fræðilega og gagnrýna umræðu um hvernig bankarnir geta þjónað hagkerfinu, en eins og staðan er í dag er það hagkerfið sem þjónar bönkunum.

Ég held að farsælast væri að almenn bankaþjónusta við einstaklinga þurfi að vera sér á báti og að öllu leiti aðskilin frá bankaþjónustu við fyrirtæki. Þarna á milli ættu engin tengsl að vera, hvorki rekstrar eða eignatengsl. Gamla sparisjóðamódelið gæti að einhverju leiti verið fyrirmynd að banka utan um einstaklingsþjónustu. Slíkir bankar gætu jafnframt séð um þjónustu fyrir íbúðalánasjóð.

Mjög lítil fyrirtæki með 1-3 starfsmenn s.s einyrkjar eða lítil fjölskyldufyrirtæki gætu verið í viðskiptum við slíkan banka.

Eigendurnir væru þeir sem leggja til stofnfé og allir hefðu sama rétt til að koma með stofnfé hvenær sem er, og þak sett á stofnfjárhlut hvers og eins.

Samtök atvinnulífsins koma á sínum banka á eigin ábyrgð til að þjónusta meðalstór og stærri fyrirtæki. 

Þetta er nú bara eitthvað sem manni dettur í hug þegar maður hlustar á viðskiptaráðherra sem kallar eftir öruggum viðskiptavinum fyrir gömlu/nýju bankanna.

Hvernig er það annars er ekki stór hluti innistæða í bönkunum í eigu erlendra aðila, aðila sem hafa fengið jökla/krónubréfin gerð upp en komast ekki úr landi með peninginn?

Og ef svo er, er þá ekki hætta á áhlaupi á bæði bankanna og krónuna þegar færi gefst á að flytja féð úr landi?

Toni (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 20:13

2 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Góð grein hjá þér Marinó Það er alveg ótrúlegt hvað stjórnvöld og fjámálastofnanir komast upp með að tala niður til lántakenda og með górði hjálp frá landsmönnum en við keppumst við að kalla hvora aðra óráðsíu menn sem að eigi ekkert gott skilið. Þetta er alveg ótrúleg þjóð.
En þurfa bankar ekki bara að læra það að bankar eru lánastofnanir en ekki ræningjahópur. Það hvarflar alla vega stundum að mér

Jón Aðalsteinn Jónsson, 30.8.2009 kl. 23:41

3 identicon

Alltaf jafn málefnanlegir og fræðandi pistlar hjá þér.

 Takk fyrir mig.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:06

4 identicon

Góður pistill, Marinó.  Undarlega þó virðist löggjafinn oftar en ekki halda að þeir vinni fyrir banka og fyrirtæki, ekki fólkið/neytendur.  Endalaust skulu fyrirtæki og svika-fyrirtæki og glæpamenn fá milljarða fellda niður á kostnað skattborgara.  Og venjulegt fólk skattpínt og skuldpínt.  Held það vanti stórkostlega mannlega og rökfasta hugsun í fjölda þeirra sem setja lögin og stýra landinu og hafa stýrt.   Og líka held ég að fólk hafi þagað of lengi of mikið af því það þorði ekki að fá "óorð" á sig og standa upp gegn þöggunar-röddunum sem kallaði fólk sem stóð upp og mótmælti galið og ofsafengið og öfgafullt.  Sorgarsaga og mál að losa okkur við óstjórnar-pakkið og ræningja-liðið.

ElleE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband