Leita í fréttum mbl.is

Gylfi ætlar að banna það sem hefur verið bannað í 8 ár

Ég hjó eftir því í orðum Gylfa Magnússonar á blaðamannafundi í dag, að hann ætlar að standa fyrir lagabreytingum sem bannar bönkum að bjóða almenningi og fyrirtækjum lán með tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Þetta er stórmerkileg staðhæfing, en hann er bara 8 árum of seinn.  Í frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekið skýrt fram að með lögunum var ætlunin að taka af allan vafa um að það væri óheimilt að binda íslenskar fjárskuldbindingar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Hvað er hægt að hafa þetta skýrar?

Ég er búinn að fjalla um þetta atriði nokkrum sinnan frá því að ég fjallaði fyrst um þetta í febrúar.  Það er staðreynd að gengisbundin lán, sem hér flæddum um þjóðfélagið frá árinu 2003, voru ólögleg, þó svo að FME og viðskiptaráðuneytið hafi sofið á verðinum.  Í athugasemd við greinar 13 og 14 í frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekinn af allur vafi um þetta.  Það er síðan bara hreinn og beinn aumingjaskapur hjá eftirlitsaðilum og hugsanlega ákæruvaldi að hafa ekki tekið á þessu fyrir löngu.

Menn fela sig á bak við það, að þetta séu erlend lán, þ.e. tekin í erlendri mynt, ekki í krónum.  Það getur verið að í einhverjum undantekningartilfellum hafi svo verið, en oftast var sótt um lánsfjárhæð í íslenskum krónum, útborgunin var í íslenskum krónum og afborganir eru í íslenskum krónum.  Það eina sem er í erlendum gjaldmiðlum, er að búið var til viðmið í erlendum gjaldmiðli svo breyta mætti upphæðinni daglega.  Ég hef t.d. aldrei vitað til þess að einhver taki 1.024.784,5 jen að láni eða 11.362,84 dali svo dæmi séu tekin af algjörlegu handahófi.  Nei, fólk tók kr. 1,3 milljónir að láni sem á tíma lántökunnar reyndust vera 1.024.784,5 JPY + 11.362,84 USD.  Og fólk fékk svo tólfhundruð og eitthvað þúsund útborguð, en ekki rétt um eina milljón jena og rúmlega 11 þúsund dali.  Það var ekkert erlent við þessi lán nema viðmiðið og því voru þessi lán ólögleg samkvæmt greinum 13 og 14 í lögum nr. 38 frá 2001 um vexti og verðbætur.

Það væri nær fyrir viðskiptaráðherra að tryggja gjafsókn svo einhver aðili geti rekið prófmál fyrir dómstólum svo hægt sé að fá úrskurð dómara í málinu. Það er raunar brýnt fyrir fjölmarga aðila að úr þessu fáist skorist, jafnt fyrir skuldara og bankana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Einarsson

Augnablik ! ertu að segja mér að myntkörfulánið sem ég tók 2007 og er að gera mig gjaldþrota sé og hafi alltaf verið ólöglegt ?

Sævar Einarsson, 4.8.2009 kl. 19:26

2 identicon

Sæll  - Fylgist reglulega með skrifum þínum enda fynnst mér þau bæði málefnanleg og fróðleg, mestmegnis. Ein spurnig getur verið að þessi lög frá 2001 nái yfir fyrirtæki á borð við Lýsingu þ.e þau fyrirtæki sem eru að bjóða upp á lán til bílaviðskipta.

Kveðja

Bjössi

Þorbjorn Olafssson (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 19:28

3 identicon

Gylfi ætlar líka að koma í veg fyrir að hægt verði að lán tengdum aðilum, líkt og Kaupþing gerði. Gylfi Magnússon er, með öðrum orðum, að láta líta svo út sem lögleysa hafi verið lögleg. Viðskiptaráðherra er að bera blak af lögbrotum og lögbrjótum.

Þvílíkt fals! Þvílíkur óheiðarleiki! Þvílík ósvífni! 

Rómverji (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 20:47

4 identicon

Það er nauðsynlegt að einhver fari í mál sem fyrst varðandi þessi lán. Það er ljóst af orðum félagsmálaráðherra í dag að hann ætlar ekki að afskrifa nein lán hjá almenningi heldur eingöngu lán fjárglæframanna. Kúlulán, bankakaupalán auk annara sjálftökulána án veðs má afskrifa í boði ráðherrans en það er ekki hægt að LEIÐRÉTTA okkar lán frá 1.jan í fyrra.

Samkv. fréttum í kvöld munu skuldir Björgúlfs eldir auka skuldir hvers heimilis um allt að einni milljón. Það er vel af sér vikið.

Eyþór (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 21:46

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Til hamingju með afstöðu Árna Pál Árnason. Hann ætlar að byggja skjaldborg um heimili landsins.

Sigurður Þorsteinsson, 4.8.2009 kl. 22:11

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sævarinn, vissur þú það ekki?  Já, þetta er víst allt lögbrot, en það þarf að fara með þetta fyrir dómstól áður en endanleg niðurstaða fæst.

Marinó G. Njálsson, 4.8.2009 kl. 22:36

7 Smámynd: Sævar Einarsson

Það er einmitt það, hvar getur maður farið fram á gjafsókn til að sækja svona mál ? öll hjálp vel þegin, seinasti greiðsluseðill af þessu láni má sjá hér og ég tek það fram að þetta er í þriðju frystingu en sú þriðja var þannig að ég varð að borga 33% af heildarskuld og vexti í 5 mánuði ef ég man rétt sjá nánar hér 

56.405(sem hækkar svo í tæp 100.000 eftir frystingu fyrir mann sem er atvinnulaus og að borga 110.000 af íbúðarláni, fyrir utan að flða og klæða mig og son minn, það gengur ekki upp, það er engu líkara en það sé vilji stjórnvalda að setja okkur á hausinn. En sorakjafturinn Þór Jóhannesson, kallar mig ásamt öðrum sem eiga um sárt að binda auðvaldsattaníossar og fleira sem er varla prenthæft sjá hér

Ég neyddist til að læsa blogginu eftir svona hótanir sem ég fékk frá honum og smá viðbót hér

Sævar Einarsson, 5.8.2009 kl. 06:26

8 identicon

Kaupþing hefur útbúið pakka fyrir lántakendur ´í erlendri mynt´og vonast að sem flestir breyti lánum sínum áður en ljóst er að lögleysan er alger. Því geta lántakendur hreinlega hætt að greiða af erlendum lánum sínum. Frysting afborgana af þessum lánum ætti að framkvæma strax og það á að keyra prófmál fyrir Hæstarétti. Einfalt.

Náttúrlega greiða landmenn fyrir þetta á endanum, en það er einnig hægt að velta þessu yfir á bankana, sem þurfi svo að taka á sig lægri arðgreiðslur til eigenda sinna í framtíðinni. 

Auðvitað ber bankinn ábyrgð á eigin mistökum, ekki almenningur.

nicejerk (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 06:31

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Bjössi, þetta nær að sjálfsögðu til allra innlendra lánveitenda.  Svo ég vitni bara orðrétt í athugasemd með frumvarpinu og hef ég feitletrað þann texta sem skiptir máli:

Um 13. og 14. gr.


    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið tak markaðrar hylli.
    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi. Talið er að samningar með viðmiðun við gengisvístölu á grundvelli ákvæðisins í vaxtalögum séu mjög fáir. Í bráðabirgðaákvæði IV er kveðið á um hvernig farið skuli með innstæður og samninga af þessu tagi sem þegar eru í gildi.
Í 2. mgr. er nýmæli. Frá því að verðtrygging var almennt heimiluð með setningu „Ólafs laga“ 1979 hafa orðið miklar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði og í gjaldeyrismálum. Ný sparnaðar- og lánsform hafa komið til sögunnar og gjaldeyrisviðskipti hafa verið gefin frjáls. Þá hefur litið dagsins ljós ný tegund fjármálasamninga, afleiður (e. derivatives), sem notaðir eru til að draga úr þeirri áhættu sem felst t.d. í tiltekinni verðbréfaeign, kröfueign eða útistandandi skuldum eða keyptir í þeirri von að hagnast á markaðssveiflum. Hér má nefna samninga um vaxtaskipti, gjaldmiðlaskipti og valrétt og ýmiss konar framvirka samninga, svo sem um gjaldmiðla. Allar þessar breytingar vekja upp spurningar um gildissvið og gagnsemi opinberra reglna um verðtryggingu fjárskuldbindinga.
    Nefndin sem samdi frumvarpið var þeirrar skoðunar að opinberar reglur um verðtryggingu fjárskuldbindinga þjónuðu fyrst og fremst þeim tilgangi að verja almennt sparifé og lánsfé landsmanna fyrir rýrnun af völdum innlendrar verðbólgu eins og hún er venjulega mæld, þ.e. sem meðaltalsbreyting á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu. Reglunum hefði ekki verið ætl að að hindra eðlilega þróun á fjármagnsmarkaði. Vegna eðlis afleiðusamninga og annarra fjármálasamninga af því tagi má ljóst vera að þeir falla ekki undir ákvæði laganna. Hið sama gildir um viðmiðun skuldaskjala við hlutabréfavísitölu eða aðra slíka vísitölu sem ekki verð ur talin verðvísitala í sama skilningi og vísitala neysluverðs. Af þessum sökum er tiltekið í 2. mgr. að afleiðusamningar falli ekki undir ákvæði laganna. Afleiðusamningar eru skil greindir í lögum um verðbréfaviðskipti.

Eins og sjá má á þessari athugasemd, þá eru settar mjög þröngar skorður við það á hvern hátt tengja má íslenskar fjárskuldbindingar við vísitölur.  Tenging við dagsgengi erlendra gjaldmiðla er EKKI eitt af því sem er heimilt.

Ef við búum í raunverulegu réttarríki, sem ég efast æ oftar um, þá er það borðleggjandi að vinna dómsmál til ógildingar gengisbundnum lánum.  Það er það sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna viljum að gerist.  Það mun vissulega hafa alvarlegar afleiðingar fyrir mörg lánafyrirtækjanna, en ef þau hefðu byrjað, segjum, framleiðslu á eiturlyfjum eða stofnað spilavíti í skjóli réttaróvissu eða, eins og líklegast var raunin, lélegs eftirlits, þá hefðu þau þurft að taka högginu.  Það sama á við um þetta.

Marinó G. Njálsson, 5.8.2009 kl. 10:41

10 Smámynd: Sævar Einarsson

Takk kærlega fyrir þessa viðbót Marinó G. Njálsson, ég er búinn að senda lögfræðingi gögnin mín og biðja hann um álit og það kæmi til með að kosta að höfða mál.

Sævar Einarsson, 5.8.2009 kl. 12:36

11 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mekilegt hve lög eru oft beygð og brotin af stjórnvöldum og aðilum í fjármálaheiminum.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 5.8.2009 kl. 12:38

12 identicon

Jónas er með fróðlegan punkt um ummæli ráðherra vegna meints ómöguleika á leiðréttinu til heimilana. Sjá http://www.jonas.is/leidarar/greininp.lasso?id=12066

Hvernig gengur annars að fá prófmál á þessi gjaldeyrislán? Höfum í huga að hér eru það ekki bara heimilin sem eiga mikið í húfi, stjórnsýslan er sjálf á kafi í þessu, td. fjöldinn allur af opinberum fyrirtækjum og stofnunum, sveitarfélög og auðvitað einkareknu fyrirtækin, stór og smá, svo eitthvað sé nefnt. Held að heimilin séu bara brot af þessu en það minnist enginn á þá staðreynd, eins og það sé svo þægilegt að kalla þau heimskingjana fyrir að hafa haft trú á að hér væri haldið úti gjaldmiðli.

sr (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 22:28

13 identicon

Mjög áhugaverð grein Marinó, og það verður fróðlegt að sjá hvað lögfræðingur Sævarsins telur að hægt sé að gera.

Annað; Sævarinn, ég myndi lítið taka mark á Þór Jóhannessyni. Maðurinn er með þroska á við 14 ára ungling á gelgjuskeiðinu. Einhver sagði mér að hann væri að kenna líka, ég rétt vona ekki, maðurinn er ekki góð fyrirmynd fyrir ung börn.

Gulli (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 222
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 200
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband