Leita í fréttum mbl.is

Erum við menn eða mýs? Einveldi AGS á Íslandi

Maður getur ekki annað en spurt sig þeirrar spurningar hvort ráðamenn þessarar þjóðar, embættismenn og forsvarsmenn fjármálafyrirtækja séu menn eða mýs.  Það er sama hvað þetta fólk reynir að gera til að blása einhverjum glæðum í efnahagslífið alltaf kemur landstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lemur menn niður.  Og alltaf lúffa menn eins og undirlægir rakkar.  Ég verð því miður að segja að mér finnst meira bera á mýslum hér í þjóðfélaginu um þessar mundir en mönnum.

Hvað þarf að gerast til þess að stjórnvöld fá nóg af þeim sirkus sem er í gangi í kringum lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?  Ég fæ ekki séð að tilgangur AGS sé að aðstoða Ísland og Íslendinga út úr þeim vanda sem alþjóða fjármálakreppa og fífldirfska eða heimska íslenskra bankamanna kom okkur í.  Nei, tilgangur AGS er að tryggja að erlendir kröfuhafa nái að kreista eins miklu og hægt er út úr landi og þjóð.  AGS hefur sýnt það og sannað á undanförnum mánuðum, að markmið félagsskaparins hefur ekkert breyst frá þeim tíma, þegar fátæk Afríkuríki voru neydd til að gefa burt auðlindir sínar svo hægt væri að tryggja þrældóm þegnanna um aldur og ævi.

Ég er einn af þeim sem hef snúist heilan hring í afstöðu minni til AGS.  Fyrst eftir hrun bankanna vildi ég ekki sjá AGS vitandi um sviðinn akur sem sjóðurinn hefur skilið eftir sig alls staðar sem hann hefur farið.  Síðan þegar getuleysi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde var orðið of neyðarlegt til að geta horft upp á það og búið við lengur, þá hélt í ég einfeldni minni að vont gæti ekki versnað við það að snúa sér til AGS.  Mikið hafði ég rangt fyrir mér.  Það er ekki bara að vont hafi versnað.  Þetta er eins og við hefðum hangið á annarri hendi á brún hengiflugsins og AGS sé sífellt að losa einn fingur í einu í staðinn fyrir að rétt okkur hjálparhönd.  Það voru t.d. fyrirmæli frá AGS sem leiddu til þess að SPRON, Straumur og Sparisjóðabankinn voru sett í þrot í lok mars.  Fyrir því hef ég eins traustar heimildir og hægt er að hugsa sér.  Það er AGS sem kemur í veg fyrir endurskipulagningu íslensks atvinnulífs með niðurfellingu/umbreytingu lána.  Það er AGS sem kemur í veg fyrir að hægt sé að takast á við skuldastöðu heimilanna hvort heldur með almennum aðgerðum að hálfu stjórnvalda eða að hálfu fjármálafyrirtækja.  Viðkvæðið er alltaf það sama:  AGS hefur sett sig á móti.  AGS telur það ekki skynsamlegt.  AGS heimilar það ekki.

Landstjóri AGS á Íslandi er einvaldur Íslands og AGS ræður öllu sem hér er gert.  Stjórnvöld eru eins og lúbarinn rakki sem þorir ekki annað en að hlíða húsbónda sínum, AGS.  Íslenska þjóðin hefur ekki frelsi til að leysa úr sínum málum á þann sem er þjóðinni fyrir bestu.  Nei, erlendir áhættufjárfestar og erlendar stórþjóðir skulu fyrst fá sitt.  Hagsmunir þjóðarinnar koma síðast.

Verstar finnast mér mýslurnar sem skríða um gólf hjá Samfylkingunni.  Átti ekki ESB umsókn að breyta öllu?  Átti ekki krónan að byrja að styrkjast um leið og umsóknin væri komin inn?  Ég spyr bara:  Hvað höfum við til ESB að sækja annað en kannski evru?  Ef við viljum byggja þetta þjóðfélag upp, þá gerum við það sjálf innan frá.  Upphefðin kemur ekki að utan.  Manndómur kemur innan frá. 

Við þurfum að rísa upp gegn kúgurum okkar, sem í þessu tilfelli snýst um Icesave skuldbindingarnar.  Þetta snýst nefnilega allt um það að AGS er hér sem hinn harðasti innheimtulögfræðingur að tryggja að ekkert verði gefið eftir.  Og það er alveg sama hversu fáránlegar kröfur eru settar fram af hálfu hinna svo kölluðu viðsemjenda okkar, við eigum bara að lúffa.  Ætlar Alþingi Íslendinga í raun og veru að láta undan hótunum landstjóra AGS á Íslandi eða ætlar það að sýna sannan manndóm og hafna Icesave samningnum.  Eða verða það 63 mýslur sem munu trítla um gólf Alþingishússins?

Fyrir nokkrum vikum fóru fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna á fund bankastjóra Nýja Kaupþings (NK).  Þar var kynnt fyrir okkur hugmynd NK um úrræði fyrir skuldsett heimili.  Færa átti höfuðstól lána niður í 80% af markaðsvirði íbúðar, næstu að hámarki 30% áttu að fara á biðlán á vaxta og verðbóta og það þá væri umfram átti að afskrifast, enda hafi félagsmálaráðherra nýlega gefið út reglugerð sem afnam skattskyldu slíkrar niðurfellingar.  Síðan eftir 2-3 ár yrðu biðlánin endurskoðuð og hugsanlega felld niður.  Mér fannst vera manndómur í þeim hjá NK, en síðan er komið í ljós að vöndur landstjóra AGS lenti á þeim og nú trítla mýs um ganga höfuðstöðva NK.  Ég velti fyrir mér hver er tilgangurinn með þessu hjá landstjóranum.  Hvort er betra að stefna öllu í gjaldþrot og raungera tapið í gjaldþrotinu eða að viðurkenna strax tapið og reyna að koma hér á skilvirku þjóðfélagi?  Það skal tekið fram að Finnur Sveinbjörnsson var alveg sammála þeirri sýn HH að betra væri að koma sem fyrst á eðlilegri starfsemi.  En landstjórinn er ekki sammála.  Það er þess furðulegra, að NK gerir ráð fyrir að afskrifa 954 milljarða af 1.410 milljarða útlánum bankans á Íslandi.  Mun landstjórinn kannski banna það?

Eitt er það sem ég hef aldrei geta skilið í öllu þessu hafaríi.  Það er margbúið að benda á þá gríðarlegu forsendubresti sem urðu í tengslum við nær öll útlán bankanna.  Skiptir ekki máli hvort það var til heimilanna, atvinnulífsins eða opinberra aðila.  Verðbólgan fór langt upp fyrir það sem lánastofnanir gerðu ráð fyrir og veiking krónunnar er slík að líkast er sem hún sé með banvænt krabbamein.  En hvernig stendur á því að talsmaður neytenda er eini opinberi aðilinn sem hefur eitthvað kannað þessi mál?  Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum sent bréf út um allar trissur til að spyrja um lögmæti gengisbundinna lána og enginn þorir að segja neitt.  "Þetta hlýtur að vera löglegt fyrst að við erum að bjóða upp á þetta."  "Það er hlutverk dómstóla að skera úr um álitamál."  Og síðan er það náttúrulega þessi þrúgandi þögn sem kemur frá Fjármálaeftirlitinu. 

Ég fékk tækifæri um daginn til að spyrja lögmann að þessu og vitnaði af fagmennsku í greinar 13 og 14 í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur og þá sérstaklega greinargerðina með frumvarpinu.  Hann sagði, til að verja FME, að það yrði að skoða nýlegri lög og þá sérstaklega lög um fjármálafyrirtæki.  Þegar ég kom heim, þá fletti ég þeim lögum upp og las spjaldanna á milli.  Hvergi sá ég neitt sem heimilaði það sem lög nr. 38/2001 banna.  Ég sendi honum tölvupóst og bar mig aumlega.  Sagðist ekki finna þetta ákvæði sem hann var að vísa í.  Svarið kom um hæl.  Þetta var misminni.  Það var víst einhver dómur í Austurríki sem var málið!  Mér finnst þetta allt lykta af skít.  Ég get ekki að því gert.  Menn fara undan í flæmingi vegna þess að þeir vita að gengisbundin lán voru ólögleg.  En af hverju, þrátt fyrir alla þessa umræðu, hefur t.d. Umboðsmaður Alþingis ekki tekið þetta mál upp?  Talsmaður neytenda komst að sömu niðurstöðu og HH, að mjög sterk rök væru fyrir því að í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur væri tekin af öll tvímæli um að óheimilt væri að tengja íslenskar fjárskuldbindingar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  En í þessu eins og mörgu öðru, þá trítlar mýslurnar um og gera ekki neitt.

Ég kalla eftir því að stjórnvöld, embættismenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja fari að sýna alvöru manndóm.  Hætti þessu fáti og fumi.  Efnahagslíf þjóðarinnar verður ekki byggt upp með erlendri aðstoð.  Gleymið því.  Það verður eingöngu gert innan frá.  Við þurfum að virkja alla sem geta lagt hönd á plóginn og losa okkur við þennan plógstjóra sem augljóslega er með kort af einhverju allt öðru svæði.  Ef við viljum gera upp Icesave, þá skulum við gera það eftir okkar leiðum, ekki samkvæmt kolvitlausri forskrift Breta og Hollendinga.   Það er t.d. þjóðhagslegra hagkvæmara að fá peningana fyrir Icesave að láni hjá lífeyrissjóðunum, en hjá Bretum og Hollendingum.

Loks óska ég lesendum góðrar helgar og gangið gætilega um gleðinnar dyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Það er langt síðan ég hef kinkað jafn oft kolli við lestur bloggfærslu. Hjartanlega sammála Marínó. Aðkoma IMF hingað er bara slys. Þessi sjóður hefur hvorki áhuga eða hefð/aðferðir til að gera hér neitt af viti. Og liggur svo eins og mara yfir öllu frumkvæði.

Það mundi efla þjóðarstoltið og baráttuandann um mörg stig að senda þetta fyrirbæri heim með þeim orðum að þeir sem eiga slíka vini þarfnast ekki óvina.

Góða helgi!

Ólafur Eiríksson, 31.7.2009 kl. 17:28

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

frábær færsla en á sama tíma mjög sorgleg, sérstaklega þar sem hún er sönn. Hvernig vekjum við landa vora af værum blundi? Það er þörf á móteitri.

Gunnar Skúli Ármannsson, 31.7.2009 kl. 17:44

3 identicon

Ég er farinn að hallast meir og meir að því að við séum mýs Marínó, þarf frekar vitnanna við.

Það voru íslensk stjórnvöld sem leituða ásjár IMF/AGS vegna þess að þeim voru allar bjargir bannaðar. Þau fá hvergi lán og það var leitað hátt og lágt til Kína, Rússlands, USA, Kanada, EB, Norðurlandanna og en það kom boð úr óvæntri átt frá Póllandi en það er ennþá ekki komið i boks frekar en rússalánið sem er búið að skreppa saman og er bara brotabrot. Fjallkonan er orðin "vændiskona" og bíður hverjum sem vildi sænga hjá henni fyrir lánsfé. Haft var eftir "útrásar"forsetanum okkar að talað var um að láta Rússa fá aðstöðu hér í boði sendiherra vinveittra þjóða. Núna er IMF vondi aðilinn og það er búið að búa einhvern æsing um að við Íslendingar séum einhvers konar fórnarlamb sem er verið að kúga og pína. Frændþjóðirnar eru vondir við okkur en þau fara með okkur eins og lítinn óknyttastrák og láta okkur gera upp fyrir okkur til að halda í heiðri orðstýr fjölskyldunar. Við erum látin borga fyrir þann skaða sem við ollum með þessu Icesave dæmi með vasapeningonum okkar. Dæmið frá Hollandi er alveg hræðilegt. Það voru opnaðir Icesave reikningar á vormánuðum 2008 þegar ljóst var orðið að hverju stefndi og hrun bankanna blasti við og bankarnir voru í gríðarlegri lánsfjárþörf og komnir að fótum fram. Sparifjáreigendur í Hollandi voru vísvitandi rændir. Stjórnvöld þar reyndu ítrekað að fá FME, Seðlabanka og ríkisstjórn Íslands til að stöðva þetta enda var þetta í lögsögu þeirra að gera það en ekkert var gert. Þessu má líkja saman við rán um hábjartan dag undir íslenskri lögregluvernd í hollenskar og breskar bankainnistæður. Íslensk stjórnvöld lofðuðu að standa við skuldbindingar sínar en núna vilja menn að hlaupist er frá þeim þrátt fyrir að þessi og fyrri ríkistjórnir. Þetta er alíslenskt klúður. Þetta er ekki hægt að smeygja sér frá þessu með einhverjum lagatilfæringum. Við erum búin að fá það kristaltært nei við Icesave þýðir engin erlend lán og væntanlega útskúfun og það er tekið á okkur eins og hverjum öðru vanskilafólki og þjófsnautum ef ekki þjófum.

Ástandið er grafalvarlegt. Ríkisútgjöldin stefna í 688 miljarðar og tekjurnar 472 miljarðar. http://www.mbl.is/media/21/1621.pdf

Það er hagstæður vöruskiptajöfnuður en bakhliðin er ekki eins björt þegar rýnt er í þær tölur vegna þess að þetta byggir nær eingöngu á hruni á innflutningi. “Fyrstu sex mánuði ársins 2009 var verðmæti vöruútflutnings 93,8 milljörðum eða 30,7% minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Fyrstu sex mánuði ársins 2009 var verðmæti vöruinnflutnings 164,6 milljörðum eða 47,9% minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Samdráttur varð í innflutningi nær allra liða innflutnings, mest í flutningatækjum, hrá- og rekstrarvöru og fjárfestingavöru.”

http://www.visir.is/article/20090731/VIDSKIPTI06/184386828/-1

Það bíður þjóðinni ískaldur vetur og mörg geysilega erfið mál og Icesave málið er bara lítill hluti af þeim hremmingum.

Gunnr (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 18:00

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Flottur pistill Marinó. Þeir sem voru blekktir í gengislánin ættu að huga betur að lögmæti þeirra.

Haukur Nikulásson, 31.7.2009 kl. 18:04

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnr, ef Hollendingar hefðu vilja stöðva Icesave, þá hefði þeim verið í lófa lagið að gera það.  Gistiríkið hefur úrræði innan tilskipana ESB til að grípa inn í, þó svo að eftirlitið sé hjá heimaríkinu.  En ég er alveg sammála því að opnum Icesave í Hollandi er eitt stærsta klúðrið á síðasta ári.  Málið er bara að þau voru svo mörg og hræðileg, að okkar entist ekki árið til að rekja það allt.  Og þrátt fyrir þetta allt, þá ganga forkólfarnir lausir!  Svo koma einhverjir guttar og svíka 40 milljónir og fjórir lenda í gæsluvarðhaldi einn, tveir og þrír.  Ef maður stelur hundruðum eða þúsundum milljörðum af þjóðinni, þá fær maður klapp á fingurna, en sá sem stelur einhverjum milljónum, honum er stungið í steininn eins og skot.  Furðuleg forgangsröðun það.

Marinó G. Njálsson, 31.7.2009 kl. 19:29

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Marinó! Kærar þakkir fyrir þennan frábæra, sálarlæknandi psitil! Á tímum sem þessum finnst mér ómetnanlegt að geta leitað sálarmeðala hjá fólki eins og þér! Fólki með skýra sýn. Fólki sem stjórnast af mannúð og réttlæti. Fólki sem kann að setja hugsun sína þannig niður á blað að saman komið virkar textinn eins og smyrsl fyrir sálina!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.7.2009 kl. 20:12

7 identicon

Marinó,ég þakka þennan frábæra pistil,það væri gaman ef fleiri væru með jafn flotta sýn á málin og þú,aftur takk.

magnús steinar (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 20:30

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Rakel, stundum bara fær maður nóg af þessu rugli hér á landi og þá verður maður bara að skrifa sig frá því.  Þetta léttir á minni sál líka.  Takk samt fyrir hrósið.

Marinó G. Njálsson, 31.7.2009 kl. 21:03

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Skil þig svo vel! Ég er farin að þekkja skrifin þín svo vel að ég áttaði mig á að hér var þér nóg boðið. Ég dáist þó alltaf jafnmikið af því hvað þú ert yfirvegaður, skipulagður og rökvís í skrifum þínum. Það er þó ekki síst jafnvægið og skynsemin í skrifum þínum sem orka á mig sem sálarmeðal mitt í þessum svartálfadansi...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.7.2009 kl. 21:13

10 identicon

Þessi færsla Marinós er snilld. Hann kemur að kjarna málsins. Hvað er þjóð án sjálfsvirðingar? Íslendingar munu glata þjóðarsál sinni ef þeir gangast undir kúgun ofbeldisríkjanna í gegn um AGS. Við áttum að slíta stjórnmálasambandinu við Breta, segja okkur úr Nató og virkilega láta á því bera sem þeir gerðu okkur. Við áttum að gera allt brjálað. Það er ekki of seint. Við getum ennþá leyft þeirri ólykt sem er af þessum málum finnast um allan heim. Þeir meiga eiga þá skitnu aura sem frá AGS áttu að koma. Við eigum bara að lifa af því sem við öflum. Þessi lán voru alltaf bara fyrir elítuna.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 22:28

11 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Frábær skrif Marínó. Bylting er það hugtak sem kemur æ oftar upp í hugann. Hvers vegna veit ég núna.

Kveðja að norðan, hef engu við þetta að bæta.

Arinbjörn Kúld, 31.7.2009 kl. 22:56

12 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyir mig, ég er sammála Rakel pistillinn er sálarbætandi

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.7.2009 kl. 22:56

13 Smámynd: Sævar Einarsson

Þakka þér fyrir góðan pistil.

Sævar Einarsson, 31.7.2009 kl. 23:12

14 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Takk Marinó fyrir þessa frábæru færslu. Svipaðar hugsanir hafa eimitt verið að bærast með mér undanfarið. Góða helgi.

Helga Þórðardóttir, 31.7.2009 kl. 23:29

15 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Marinó, ég er ekki að fatta þína reiði? Er sjálf fjúkandi út í xB og xD 2006! ..þegar "icesave" var leyft að vera til?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.8.2009 kl. 04:04

16 identicon

Góður pistill. Enn hvað viltu gera? Hver er lausnin? Það liggur fyrir að öll ríki heims standa saman gegn okkur og hvað gerum við þá annað enn að beigja okkur og láta þá klára okkur í rassgatið og vona svo bara að þeir fari? VIÐ GETUM EKKERT ANNAÐ GERT! Og við eigum þetta allt svo sannarlega skilið!

óli (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 05:32

17 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Góður pistill hjá þér eins og venjulega.  Í ljósi þessara nýjustu uppljóstrana um lánasafn Kaupþings þá er ekki laust við að manni sé farið að klígja við þessu öllu saman! 

Hvernig er það, eru ekki ákvæði í stjórnarskránni um hvað er hægt að gera þegar ríkisstjórn og löggjafarvald eru orðin gersamlega gagnslaus, ónýt og algjörlega úr takt við raunveruleikan? 

Ég get ekki séð að þessi ríkisstjórn frekar en þær tvær á undan, eða síðustu x ríkisstjórnir, hafi nokkurt þrek til þess að stjórna neinu.  Veit raunar ekki hvort hún er í neinni stöðu til þess því eins og þú segir virðist valdið nú komið til AGS ásamt ESB og breskra og hollenskra stjórnvalda.  Ef fram fer sem horfir sé ég ekki fram á annað en öngþveiti og stjórnleysi - hmm...  áttaði mig á að það er e.t.v. ekkert öðruvísi en ástandið er orðið nú þegar!!!  Það er óskaplega dapurlegt að verða vitni að þessu ástandi úr fjarlægð. 

Því miður sé ég engan meðal stjórnmálamanna á Íslandi sem gæti tekið að sér verkefni leiðtoga með bein í nefinu sem þorir að standa upp og bretta upp ermarnar.  Einhvern sem gæti komið skikki á þetta alltsaman og gert gott úr þessu ástandi. 

Góða helgi:)

Arnór Baldvinsson, 1.8.2009 kl. 06:52

18 Smámynd: Sigrún Óskars

takk fyrir þennan frábæra pistil

Sigrún Óskars, 1.8.2009 kl. 08:31

19 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka þér fyrir þennan þarfa og frábæra pistil... mikið er ég sammála þér í öllu sem þú segir, nema að ég hef aldrei látið það eftir mér að líta svo á að AGS hafi neitt breyst... þeir eru hluti af þeim vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir. Við verðum að losa okkur við þessar blóðsugur eigi síðar en strax.

En mikið rosalega er vont að hafa svona fáa menn uppistandandi. Ég skil ekki hvernig það fólk sem maður þó bar virðingu fyrir hafi látið hræða sig svona til hlýðni ... 

Takk og takk aftur fyrir að standa vaktina með heilbrigðri skynsemi:)

Birgitta Jónsdóttir, 1.8.2009 kl. 09:23

20 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæl

Já það var nefnilega það

Það var nú aldeilis gott að seðlabankastjórinn sem hikaði við meðtaka músafóðrið þurrt og óþvegið skyldi vera látinn fara út ásamt tveim heiðursmönnum Íslands:

ÚT:

Davíð Oddsson

Ingimundur Friðriksson

Eiríkur Guðnason

INN:

Inn í gegnum músastigann stigu svo mýsnar mörgu og tísta enn og ákaft engum til gangs en öllum til ógagns.

Er þetta ekki dásamlegt?

Vesalingar og hyski þar eru að verkum

Kærar þakkir fyrir góðan pistil Marinó

Gunnar Rögnvaldsson, 1.8.2009 kl. 09:46

21 identicon

Oft hafa þér ratast rétt orð í munn frændi og svo er einnig nú. Ég er þér hjartanlega sammála í öllum atriðum. Gætu lífeyrissjóðirnir virkilega lánað okkur yfir Icesafe? Hvað erum við þá að pæla!! Já ég verð að viðurkenna að maður er orðinn hálf lamaður. Styngur hausnum bara í sandinn og fer í útileigur með fjölskylduna. Ástandið er bara svo hrykalegt að maður veit ekki sitt rjúkandi ráð. Þjóðin er brotin og aum. Það þarf að blása í hana krafti. Ég finn það á mörgum sem að ég hef verið að tala við að þeim finnst til einskiss að berjast lengur.

Anna Margrét Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 09:56

22 Smámynd: Hörður Hilmarsson

Mæltu manna heilastur, Marinó. Frábær pistill. Það er ekki einleikið hve ríkisstjórnin er veik í þeim viðkvæmu og erfiðu málum sem við er að glíma. En þess þá heldur þarf alvöru fólk til að koma okkur út úr því hyldýpi sem við blasir. Þar dugar ekkert minna en landsins bestu syni og dætur og þau eru ekki í vinnu fyrir okkur í svarta húsinu við Austurvöll og hvíta húsinu við Lækjargötu/Bankastæti.

Góða verslunarmannahelgi !

Hörður Hilmarsson, 1.8.2009 kl. 10:28

23 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Alltaf gaman að lesa greinar þínar enda er maður 95% sammála öllu sem þú skrifar..!  IMF = International Mother Fuckers munu sjá til þess að vextir verða háir, krónan nær ekki að rétta sig við á meðan þeir eru hér og þeir munu svo sannarlega sjá til þess að á okkur sem þjóð verða lagðar ÞUNGAR peningalegar byrgðar sem við ráðum ekki við, þá stinga þeir upp á sölu LANDVIRKJUNAR til að minnka skuldir sem ÞEIR lögðu á okkur með KVÖÐUM & FREKJU...!  IMF eru stórhættulegir alstaðar þar sem þeir koma inn - skilja alstaðar eftir sig SVIÐNA JÖRÐ - gera lítið gagn & en valda svo sannarlega miklum skaða - óbætanlegum skaða = við verðum að losana við IMF sem fyrst EF við ætlum að rétta okkur við...!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 1.8.2009 kl. 11:47

24 Smámynd: Elle_

Já, að er grátlegt hvað þeir sem ættu að verja okkar hag láta AGS stýra öllum okkar fjár- og skattamálum.   Og hlýða kúgunarvaldi AGS, Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.  Hvað sem það nú hjálpar, skrifaði ég AGS harðort bréf fyrir 2 dögum.   Og ekki úr vegi að skrifa eins víða og við getum, innanlands og utan.   Og lesið hvað Eva Joly finnst um Icesave:

Joly fer hörðum orðum um viðsemjendur Íslendinga í Icesave-deilunni og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að málinu, sem varði hagsmuni langt utan íslensku strandlengjunnar.

„Ef Evrópa og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snúa ekki við blaðinu kann að vera að þau vinni sannkallað afrek: dragi land þar sem þjóðartekjur á hvern íbúa hafa verið með þeim hæstu í heimi niður á stig þeirra allra fátækustu.“

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/08/01/stondum_ekki_undir_skuldabyrdi/

Elle_, 1.8.2009 kl. 11:57

25 Smámynd: Elle_

Já, það er grátlegt...

Elle_, 1.8.2009 kl. 11:58

26 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

After watching the IMF at work during the 1997 East Asian economic crisis, Joseph E. Stiglitz, 2001 winner of Nobel Prize in economics, wrote in April 2000:

“I was chief economist at the World Bank from 1996 until last November, during the gravest global economic crisis in a half-century. I saw how the IMF, in tandem with the U.S. Treasury Department, responded. And I was appalled.”

“The IMF may not have become the bill collector of the G-7, but it clearly worked hard (though not always successfully) to make sure that the G-7 lenders got repaid.”

http://www.proutworld.org/depression/cas.htm 

Þórður Björn Sigurðsson, 1.8.2009 kl. 14:17

27 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Mjög innilega samála öllu hér marinó, en ég hef ekki snúist í hring. Við átum aldrei að hleypa IMF hér inn.  Það er margt verra í henni veröld en höft Krónur.

Guðmundur Jónsson, 1.8.2009 kl. 15:53

28 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvernig væri að stofna bara nýtt lýðveldi? Að við sem teljum okkur tilheyra æðri dýrategundum en músum tækjum okkur saman um það?

Skildum bankaræningjana og handbendi þeirra í stjórnmálaflokkunum eftir í gamla lýðveldinu?

Theódór Norðkvist, 1.8.2009 kl. 16:45

29 Smámynd: Elle_

Ekki vitlaust Theódór.  Nýtt og músa-laust lÝðveldi.

Elle_, 1.8.2009 kl. 18:57

30 identicon

takk f goda grein ad vanda. Adeins um logmaeti gengisbundinna lana: Verdur ekki ad lata reyna a thetta fyrir domstolum sem fyrst? Er buid ad leggja inn formlega fyrirspurn til Umbodsmanns Althingis og mundi thessi spurning ekki verdskulda flytimedferd thar a bae?? Spyr sa sem ekki veit? kvedja sunnan ur alfu. Kristjan Sverrisson

Kristjan Sverrisson (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 18:59

31 identicon

Frábær grein í alla staði og sammála hverjum bókstaf sem þar stendur!!!

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 21:15

32 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Theodór, ég er margbúinn að stinga upp á þessu.  Eitt sveitafélag ríður á vaðið og önnur "sameinast" því svo.

Marinó G. Njálsson, 1.8.2009 kl. 23:48

33 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Góð samantekt hjá þér, en einu er ég ekki sammála þér og það er að við getum endurreist efnahagslífið hér án erlendrar hjálpar.

Hvort sem fólki líkar betur eða verr eru lán það blóð sem flæðir um æðar nútíma efnahagskerfa.  Ef þú stoppar blóðrásina visnar kerfið.  Það verður ekki endurlífgað með því að dæla öllu blóði út.  Það kann að virka mótsagnakennt en okkar eina leið er að fá nýtt blóð til að peppa kerfið upp.  Þetta er engin töfralækning.  Kerfið verður hálflamað og laskað lengi en ekki dautt og þar er munurinn.  Án lána eru við að kalla yfir okkur kerfishrun með atvinnuleysi sem ekki hefur þekkst hér, fátækt og stórkostlegum landflótta.  

Ég er enginn aðdáandi AGS sem er harður húsbóndi og handrukkari en við eigum engra annarra kosta í þessari stöðu.  Við einfaldlega verðum að vera praktísk og auðmjúk.  Hroki, stórlæti og þrjóska gerir illt verra. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.8.2009 kl. 19:22

34 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Andri:  Ég er sammála þér að það er þörf fyrir fjármagn,  EN:  Það eru takmörk fyrir því hvað aukið lánsfé og aukning skulda getur gert til þess að rétta af efnahag landsins.  Spurningin er sú hvort íslenska ríkið, fyrirtæki og einstaklingar séu nú þegar orðin svo skuldsett að þessir aðilar geti ekki ráðið við að komast út úr þessu.  Meiri skuldsetning gæti sett fleiri fyrirtæki, einstaklinga og jafnvel ríkið sjálft í greiðsluþrot.  Damned if you do, damned if you don't!  Ekki gott mál hvernig sem á það er litið:(

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 2.8.2009 kl. 21:03

35 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Arnór,

Þetta er alveg rétt, staða er mjög tæp sama hvernig litið er á hana en þá verður maður að spila rétt úr pólitíkinni og vera raunsær.  Alþjóðasamfélagið býður okkur leið, hún er dýr, grýtt og þyrnum stráð en engu að síður leið.  Ég held að það sé betra fyrir okkur að vera í samfloti með löndunum í kringum okkur.  Ef við þiggjum þeirra boð þá erum við í leiðinni að fá ákveðna "ferðatryggingu".  Það verður í þeirra hag og okkar að sjá að við komumst á leiðarenda.  

Það er ef til vill mótsagnarkennt en þetta snýst ekki um "hvort við getum borgað eða ekki" heldur  pólitík.

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.8.2009 kl. 22:06

36 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir þennan pistil.

Billi bilaði, 3.8.2009 kl. 03:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678161

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband