Leita í fréttum mbl.is

Þetta hef ég vitað frá 1988

Hér er í meira lagi áhugaverð frétt með gamlar upplýsingar.  A.m.k. fyrir mig.  Ekki það að minnst tveir höfundar skýrslunnar hafa lengi haft efasemdir um arðsemi virkjana, þ.e. Þorsteinn Sigurlaugsson og Sigurður Jóhannesson, niðurstaðan sem hér er sýnd er það sama og ég komst að í vinnu við lokaverkefni mitt við Stanford háskóla skólaárið 1987-8.  Verkið fjallaði um samvirkni framboðs og eftirspurnar í íslenska raforkukerfinu (e. The Icelandic electricity system: Supply and Demand Interdependence).  Þó svo að ég hafi ekki mikið verið að velta fyrir mér arðsemi virkjana innan íslenska raforkuöflunarkerfisins, þá kom það fram sem hliðarniðurstaða.  Og hún var einföld: 

Fjölmargar virkjanir sem fyrst og fremst voru byggðar eða ætlunin að byggja til að afla raforku til stóriðju ýmist voru á mörkum þess að vera hagkvæmar eða að eini arður þjóðfélagsins af þeim voru skattar starfsmanna og þjónustuaðila!

Ég vil að það komi skýrt fram, að ég var á þessum tíma hlynntur nýtingu fallvatna við raforkuframleiðslu.  Það viðhorf hefur lítið breyst, nema að því leiti að ég vil ekki nota hvaða fallvötn sem er og vil að náttúran njóti vafans þegar kemur að nýtingu jarðvarma.   Að mínu áliti eru fjölmargir staðir á landinu, þar sem ekkert mál er að byggja virkjanir, en um leið eru mjög margir sem ekki á að hrófla við.

En aftur að hagkvæmni virkjana.  Erlendar skuldir orkufyrirtækja munu vera eitthvað um 800 milljarðar, jafnvel allt að 1.000 milljörðum.  Þetta eru gríðarlegar skuldir.  Hæst trónir reikningurinn vegna Kárahnjúkavirkjunar, en hann mun standa í um 210 milljörðum.  (Miðað er við að kostnaður Landsvirkjunar hafi verið 100 milljarðar sem teknir voru að láni í japönskum jenum, þegar jenið var í kringum 0,65 aurar, en nú er gengið 1,35.  100 milljarðarnir hafa því hækkað í 207 milljarða.)  Eldri virkjanir hafa einnig verið fjármagnaðar í Japan og því hefur fjármagnskostnaður hækkað langt umfram hækkun á tekjum fyrirtækisins.  Það er líka kaldhæðni, að líklegast er Kárahnjúkavirkjun einn af stóru áhrifavöldunum í því ferli sem endaði með efnahagshruninu síðast liðið haust.  Ég efast um að framkvæmdirnar fyrir austan hafi verið ráðandi þáttur í efnahagshruninu, en munurinn á þeim og skuldum bankanna er að þessar framkvæmdir þarf að greiða upp með góðu eða illu.

Að arðsemi orkuvinnslu sé ekki meiri en raunber vitni (ef þetta er endanleg niðurstaða), þá hlýtur það að vera áfellisdómur á orkustefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á árunum 1995-2007.  Þessi arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar gæti reynst okkur dýrkeypt í nánustu framtíð, þar sem margt bendir til þess, að gjaldeyrisöflun þjóðarinnar dugi ekki til greiðslu afborgana og vaxta á áhvílandi lánum til orkuvinnslu.  Vissulega væri þetta í fínu lagi, ef engin önnur erlend væru til greiðslu, en svo heppin erum við ekki.  Gjaldeyrisskuldir þjóðarinnar eru svo miklar að vandséð er hvernig hægt er að vinna sig út úr þeim vanda.  (Og það þrátt fyrir að ekki væri greidd króna vegna skulda Glitnis, Kaupþings, Landsbanka, Straums, Sparisjóðabankans og SPRON.)  Ein lausn er að hækka verulega verð á raforku til stórnotenda, þannig að verð til þeirra standi undir vöxtum og afborgun lána vegna orkuvinnslunnar og gott betur.  Ýmsar aðrar lausnir eru líka fyrir hendi, en hver sem verður valin, þá verður hún að tryggja hærri heildararðsemi orkuframkvæmda.


mbl.is Lítil arðsemi af orkuvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þessi stóri sannleikur hefur lengi kraumað undir yfirborðinu en ávallt verið kveðin í kútinn og efasemdarmenn jafnvel úthrópaðir sem fjandmenn framfara.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 28.7.2009 kl. 18:08

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Reynið að sjá stóru myndina.

Arðsemi virkjana er fyrst og fermst fólgin í því að orka til atvinulífs og almennings verður ódýr.

Þegar Hoover virkjunin var reist í BNA upp úr kreppunni miklu var það gert með það að markmiði að framleiða orku en ekki til að græða á því enda var eingin til að kaupa alla þá orku sem Hoover verið gaf og orkan var því að stórum hluta gefin til fyrirtækja og einstaklinga sem vildu setjast að á áhrifasvæði virkjunarinnar. Þetta er í dag af mörgum talin ástæða þess að BNA er tæknileg þróaðasta ríki heims og einhverjir sagnfræðinga hafa haldið þvi fram Bandamenn hefðu aldrei getað unnið WWII án Hoover stíflunar sem var rekin með tapi í 50 ár.

Guðmundur Jónsson, 28.7.2009 kl. 19:58

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já endilega loka demtantsnámum sem flestra landa bara af því að "allir" vinna ekki við að moka upp úr þeim í einu. Gefur ekkert í arða hönd. Loka starx.

.

Og allir þeir Íslendingar sem eiga hlut (common shares á NYSE) í þessum almenningshlutafélögum sem búa til alúminium á Íslandi ættu að henda þeim öllum í ruslið strax: bara drasl og einskis virði

.

Svo er bara eftir að lagfæra viðskiptajöfnuð mjög mikið til hins verra næstu 300 árin, drepast niður og horfa svo ofaní himinn himinn bláu holuna eftir bankabrjálæði Íslands sem mun koma og gleypa þessa skýrslu með húð og hárum

.

Humpf!

.

Til hvers er verið að mennta fólk? Eru þetta kannski ný ESB-vísindi?

.

Infrastruktur, hvað er það?

.

Naturalis, hvað er það?

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.7.2009 kl. 20:39

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, þetta er rangt hjá þér.  Það eru engar sannanir fyrir því að raforka til almennings og fyrirtækja sé ódýrari.  Raunar hníga öll rök í hina áttina.  Til þess að geta boðið stóriðju hagstætt verð er sífellt verið að ganga á hagkvæmustu virkjanakostina og þeir óhagstæðari verða eftir.  Á þessu er ein undantekning, en hún er sú að Búrfell 2 var tekin frá, ef svo má segja, og geymd fyrir almenningsveitur.

Gunnar, ég bara skil ekkert í þessu hjá þér.

Marinó G. Njálsson, 28.7.2009 kl. 23:27

5 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Sammála.  Það var svo oft búið að byggja stóriðjuver á Reyðarfirði hérna í dentid að maður var svolítið með nefið niðri í þessu.  Mágur frænku minnar vann hjá Orkustofnun og frændi minn vann líka hjá þeim, m.a. sem smiður í Kröflu.  Þá var alltaf talað um sölu á ódýrri umframorku til stóriðju, sem stóðst svosem þegar verið var að ræða um tiltölulega lítinn hluta framleiddrar orku.  Nú held ég að sé svo komið að lang stærsti hluti raforkuframleiðslu á Íslandi er "umframorka" sem er seld a slikk til stóriðju.

Nú veit ég líka alveg hvernig komið væri fyrir sveitarfélögunum fyrir austan ef ekki hefði komið til virkjunar við Kárahnjúka og álverið við Reyðarfjörð - þessi sveitarfélög börðust í bökkum þegar ég flutti utan 1996 og væru flest dottin yfirum ef ekki hefði komið til þessara stórframkvæmda.  Af þeim fyrirtækjum sem voru á Reyðarfirði þegar ég flutti þá held ég að tvö séu ennþá starfandi.  Allt var gersamlega staðnað og lítil von um viðreisn. 

Hinsvegar hef ég aldrei skilið þetta dæmi með umframorkuna og allar virkjanirnar sem voru byggðar til að framleiða umframorku.  Hef aldrei botnað í hvernig það er hagkvæmt fyrir orkufyrirtækin þegar það er dýrarara að framleiða hverja Kwh heldur en hún er seld fyrir.  Þá er ég ekki að tala um þjóðfélagslegar tekjur af því sem er skapað eða framleitt með raforkunni ásamt tekjum í kring um það, heldur hreinar tekjur og útgjöld orkufyrirtækjanna.  Mér hefur alltaf fundist það hæpinn bisness að kaupa eitthvað á þúsund kall og komast að því að maður þarf svo ekki helminginn af því og selja helminginn fyrir hundrað kall.  Fyrir mér er það 400 kall í tap en einhvernvegin finna orkufyrirtækin leið til að koma þessu í hagnað. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 29.7.2009 kl. 00:19

6 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Raforka til almennings er 6 sinnum dýrari í Gautaborg en í Reykjavík. ? kanntu skýringu á því Marinó.

Raforka á íslandi er einn markaður og því meir og því fyrr sem við virkjum vatnsföll eða jarðvarma sem annars væri ónýttur því betur búum við í haginn fyrir framtíðina, burt séð frá því hvort sjálf framkvæmdin sé fjárhagslega hagkvæm til næstu 30 ára.

Annars erum við Gunnar að segja nokkuð það sama. hann er bara með þessa skemmtilegu kaldhæðni í bland.

" Já endilega loka demtantsnámum sem flestra landa bara af því að "allir" vinna ekki við að moka upp úr þeim í einu. Gefur ekkert í arða hönd. Loka starx."

Guðmundur Jónsson, 29.7.2009 kl. 00:23

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, þú sannar ekkert þitt mál með því að skoða raforkuverð í Gautaborg.  Húshitunarkostnaður á Íslandi er innan við 1/10 af húshitunarkostnaði í Svíþjóð.  Er það kannski líka vegna þess að stóriðja greiðir niður húshitunarkostnað?  Nei, það er vegna þess að framleiðsla orkunnar er ódýrari á Íslandi en í Svíþjóð.  Það er þess vegna sem stóriðjuverin eru ekki út um allt í Svíþjóð og þau sem voru þar eru flest búin að loka.

Ég hef aldrei sagt að loka eigi stóriðjuverum hér á landi eða hætta að selja raforku til þeirra.  Ég hef bara bent á að raforkuverð til stóriðju sé í mörgum tilfellum það lágt að ég efast um hagkvæmni þess að reisa dýrar virkjanir til að selja ódýrt rafmagn.

Arnór, já, því miður sátu Austfirðingar í mörg ár eins og beiningafólk á götuhorni og biðu eftir stóriðjunni sinni.  Ef peningurinn sem fór í að finna samningsaðila hefði farið í aðra atvinnuuppbyggingu á staðnum, þá er ég viss um að menn hefðu náð að búa til öll þau störf sem þurfti til að útvega heimafólki vinnu.  Ég neita því samt ekki, að álver Alcoa er mikil lyftistöng fyrir Austfirði, en mér virðist með menn hafi búist við meiru.  Út um allt á svæðinu eru autt íbúðarhúsnæði.  Er það vegna þess að allir ætluðu að græða eða voru áætlanir sveitastjórnarmanna einfaldlega rangar?  Ég óska Austfirðingum alls góðs, en vona innilega að Húsvíkingar feti ekki sömu slóð.  Þá á ég við að bíða í 25 ár eftir stóriðju og sinna ekki svæðinu á meðan.  Alveg eins og þroskinn, þá kemur heilbrigður vöxtur innan frá.  Svona monster project eins og álver Alcoa og Fljótdalsvirkjun/Kárahnjúkastífla geta snúist upp í andhverfu sína, ef það verður á kostnað annarrar atvinnuuppbyggingar.  Eins og þú bendir á, Arnór, þá er ekki margt eftir sem minnir á þann tíma, þegar þú varst með tölvufyrirtækið þitt á Reyðarfirði, þegar hringt var í þig eða Stefán uppi á Egilsstöðum ef tölva bilaði í fjórðungnum.  Spurningin sem hver og einn verður að spyrja sjálfan sig:  Eru menn einhverju bættari?

Annars sé ég á myndum frá Port Angeles að þú ert ennþá með fjöllin í bakgrunninum, þó eitthvað sé lengra til þeirra en inni í Reyðarfirði og líklegast eru þau hærri.  Ég keyrði um Reyðarfjörð í vor.  Það var fátt eins og það var hér í gamla daga, en þegar maður leitt inn í dal, þá virtist ekkert hafa breyst.

Kveðja vestur

Marinó

Marinó G. Njálsson, 29.7.2009 kl. 00:59

8 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Þessi skýrsla sýnir að raforka til stóriðju er niðurgreidd af íslenskum skattgreiðendum.  Tölurnar tala sínum máli.  ROIC er 1.7% sem er langt undir "average cost of capital". 

Andri Geir Arinbjarnarson, 29.7.2009 kl. 07:14

9 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Orka hefur verið virkjuð á Íslandi á mjög hagkvæman hátt og við  landsmenn höfumnotið þess. Sérstaklega er þetta augljóst í hitaveitum, sem sjá Íslendingum fyrir mjög ódýrri húshitun í þessu kalda landi.

Hugmyndafræðin á bak við fyrstu virkjanirnar var ekki að reka þær í aðrbærum fyrirtækjum, enda voru þær fyrstu, og flestar enn, í opnberri eigu, heldur að skaffa hagkvæma orku fyrir neytendur.

Nú er öldin önnur og verið að virkja fyrir erlenda stóriðju, sem kemur almannaheill ekkert við. Þá er eðlilegt að gera kröfu um beinan arð af orkusölunni, eða a.m.k. að þessi orkusala valdi ekki hærra verði hjá okkur neytendum. Hærra orkuverð til okkar getur m.a. komið fram í því að ódýrustu virkjanakostirnir sé teknir frá fyrir stóriðjuna á meðan við þurfum að notast við dýrari virkjanakosti. Líka þegar dulinn kostnaður við orkurannsóknir og undirbúning skilar sé inn í almennu gjaldskrána og svo loks með því að beinum halla af einstaka framkvæmdum sé velt út í verðlagið.

Alla vega eru það tölulegar staðreyndir að raforkuverð til almennings á Íslandi hefur hækkað umfram annað verðlag á undanförnum árum.

Soffía Sigurðardóttir, 29.7.2009 kl. 10:56

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta eru allt góðir punktar, Soffía.  Það fer ekkert á milli mála að virkjun heits vatns til húshitunar er þjóðhagslega hagkvæm vegna þess sparnaðar sem verður á innkaup eldsneytis til húshitunar.  Auðvitað þarf að reikna út hvað búnaður til virkjananna kostar, því það er ekki útilokað að hann sé dýrari en olían sem vatnið/rafmagnið kemur í staðinn fyrir.

Við þurfum að greina á milli orkuframleiðslu til almenningsveitna og til stóriðju.  Vissulega er ekki alltaf hægt að greina þar á milli, þar sem oft fer rafmagnið bæði til stóriðju og almennings frá sömu virkjuninni.  En almennt er svo litið á að vissar virkjanir séu að framleiða orku fyrir almenningsveiturnar og því er mikilvægt fyrir almenna orkunotendur að kostnaðinum sé haldið niðri.

Það er á hreinu að virkjun til raforkuöflunar fyrir stóriðju mun á endanum leiða til hærra raforkuverðs til almennings, eins og þú bendir á. Þess vegna er svo mikilvægt að arðsemi þjóðarbúsins og ríkissjóðs af raforkusölu til stóriðju sé ásættanleg.  Það er alveg út í hött, ef rétt er, að við séum að greiða háar upphæðir með hverri seldri kílówattstund.

Marinó G. Njálsson, 29.7.2009 kl. 11:48

11 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það vantar inn í hugmyndafræði hjá ykkur, Soffía og Marinó að framleiðsla orku er tímaháð (kw/h) ekki bara í nútíð heldur lík í fortíð. það er að segja, það fæst ekkert, eða hefði ekki fengist fyrir það vatn sem rennur óbeislað til sjávar. Og ríkidæmi (ef það er það sem við sækjumst eftir) er að eiga meira í samburði við hina í þessu tilfelli eigum við meira af raforku sem annars væri ekki til. Ég er hinsvegar sammála því að við erum farin að nálgast einhver mörk varðandi vatnsföllin með hvað er raunverulega ódýr orka. Og því ber að fara með gát. Ég er líka sammála því að Kárahnjúkar var of stór biti í einu og gagnrýndi það á sínum tíma.

En ég er ekki viss um að staða okkar væri betri nú hefði kárahnjúkum alveg verið alveg sleppt. Þó kann það að vera en það er þá ekki vegna þess Kárahjúkar voru slæm framkvæmd heldu vegna þess að óprúttnir menn nýtu tækifærið til stöðutöku í gjaldmiðlinum okkar.

Guðmundur Jónsson, 29.7.2009 kl. 12:41

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, ég veit ekki til þess að þetta tímahæði vanti inn í mínar pælingar.  Spurningin sem við erum að fást við er hvort raforkuframleiðendur fá nægilegt endurgjald fyrir raforkuna sem er seld til að fá upp í breytilegan rekstrarkostnað og hvort þeir fá nægilegt endurgjald fyrir aflið sem er selt til að fá upp í fastan kostnað.  Um það snýst þetta og ekkert annað.  Vatnið sem rennur í gegnum virkjunina á að afla tekna fyrir rekstrarkostnaði á hverjum tíma, meðan að framleiðslugetan (þ.e. aflið) á að afla tekna til að greiða fjárfestingakostnað virkjunarinnar.

Marinó G. Njálsson, 29.7.2009 kl. 13:11

13 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Við fljótlegan yfirlestur er mín tilfinning gagnvart þessari skýrslu að hún sé pöntuð til að tefja frekari stóriðjuframkvæmdir hér.

Hvers vegna finnst mér það. Til dæmis vegna þess hvernig fjallað er um álverð það hefur lækkað það vitum við öll.
En það sem ég hef séð í skýrslunni um þá prósentutalan dregin af gjörsamlega óraunhæfu verði.

Ég fann ekki álverð í dag en í júni var það komið yfir 1600 var ekki viðmiðunarverð 1400 Þarf að skoða þetta betur.

En í fljótu bragði finnst mér þetta svipað og að Saudar myndi lýsa því yfir að það væri best að hætta að vinna olíu það væri ekki hagkvæmt lengur því verðið hefði fallið úr hvað var það hátt í 200 dollara tunnan niður í 69 dollara núna .

Jón Aðalsteinn Jónsson, 29.7.2009 kl. 13:30

14 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þetta er þjóðhagfræði. Ekki hagfræði og ekki viðskiptafræði. Hættu að hugsa um peninga og husaðu um hvað þú værir að gera núna ef aldrei hefði einn krónu veri eyt á íslandi án þess að allir græddu peniga á því?

Og vandinn felst ogljóslega í því að þú veist ekki til þess að það vanti breytur í líkanið þitt.

Guðmundur Jónsson, 29.7.2009 kl. 13:46

15 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Leiðrétt"

Og vandinn felst augljóslega í því að þú veist ekki til þess að það vanti breytur í líkanið þitt.

Jón! þetta er skemmtileg samlíking því Sádarnir eru einmitt nýlega búnir að finna það út að olíufatið frá þeim þarf að kosta 80$. Ekki vegna þess að það sé svo dýrt að dæla olíunni upp heldur vegna þess að hagkerfið þeirra þarf 80$ á fatið til að vera sjálfbært.

Guðmundur Jónsson, 29.7.2009 kl. 14:56

16 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Er þá ekki bara í raun verið að sá í flagið svo að upp spretti ástæða til að hækka raforku ekki á stóriðju heldur almenning og nota síðan iðnaðin sem blóraböggul. Afsakið en ég er orðin mjög vantrúaður á vilja til góðra verka hjá þeim sem að nú ríkja.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 29.7.2009 kl. 17:39

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Lárus, ég held að vandi orkufyrirtækjanna sé vegna þess að lánin þeirra eru að mestu í jenum meðan tekjurnar eru í dollurum og krónum.

Það er rétt, að þegar búið er að greiða niður lánin, þá má búast við því að arðsemi virkjananna aukist.  Hingað til höfum við verið heppin með að stóriðjuverin hafa ekki lokað, en veltum fyrir okkur áhrifunum, ef eitt eða fleiri af álverunum myndi ákveða að hætta starfseminni á Íslandi.  Starfsemi Alcoa hér á landi er t.d. ekki tryggð nema til nokkurra áratuga, ef eitthvað er að marka orð Finns Ingólfssonar í tíð hans sem iðnaðarráðherra.

Marinó G. Njálsson, 29.7.2009 kl. 22:25

18 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég tek undir það að orkusala til erlendrar stóriðju greiðir ekki niður verð til íslenskra neytenda heldur þvert á móti eru íslendingar að niðurgreiða stóriðjuna.

Hef heyrt að 80% orkurnar sé selt til stóriðju og að verð til íslendinga sé tífalt hærra (hef reyndar heyrt 8 til 16 falt hærra) en þetta eru víst leynisamningar.

Það virðist vera lenska hér hjá embættismönnum að gera arfavitlausa samninga og halda þeim svo leyndum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.7.2009 kl. 02:27

19 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ef álverum yrði lokað án fullnustu samninga við orkuver verður til afgangs orka sem hægt væri þá að líkindum að selja, samningarnir við álverinn eru jú arfavitlausir ekki satt og því líklegt að þá fengist hærra verð.

Hvað haldið þið til dæmis að garðyrjubændur væru tilbúnir í að bjóða í orkuverð. Þeir borga núna meira en 4 falt verðið til álvera og raforkukostnaður er oft helmingur heildarkostnaðar hjá þeim.

Tjónið sem af hlýst við að rifta svona samningum er því augljóslega hjá álverinu en orkuverið græðir í öllu falli til lengri tíma.

Guðmundur Jónsson, 30.7.2009 kl. 11:47

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, hvar færðu að garðyrkjubændur borgi fjórfalt orkuverð á við stóriðju?

Marinó G. Njálsson, 30.7.2009 kl. 20:29

21 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þetta er bara eftir innlegginu hennar Jakobínu og lélgu minni. kw/h er um 8 kr til gúrku-bænda með drefingiunn sem er um helmingur. Ég veit ekki hvað verðið er til álbændanna en þar er engin dreifikostnaður. Svo ég slumpaði bara á

8/2 = 4.

8 er lægra gildið frá Jakobínu og deilt með tveimur til að eyða út dreifikostnaðnum.

Þetta gæti sem sagt alveg verið tómt bull.

Guðmundur Jónsson, 30.7.2009 kl. 21:58

22 identicon

Það er ekki hægt að virkja hagkvæmustu kostina fyrir almenning. Það er ekki hagkvæmt að byggja 1/10 af Kárahnúkavirkjun sem er það sem þyrfti til vegna þess að eftispurn frá almenningi eykst í svo litlum skrefum. Því er ekki hægt að tala um að ,,hagkvæmustu" kostirnir séu geymdir fyrir stóriðju. Dæmið snerist við þegar virkjað var fyrir álverið í Straumsvík, þ.e. umframorka frá stóru virkjununum var seld til almenningsveitna.

Skuldir Landsvirkjunar eru í mörgum myntum. Aðeins tæp 6% í japönskum yenum en langmest í Evrum. Sjá http://landsvirkjunvefur.eplica.is/media/um-landsvirkjun/LV-Arsskyrsla_2008.pdf, bls. 51.  

Það er dæmalaus della að bera saman orkukostnað til grænmetisbænda annarsvegar og stóriðju annarsvegar. Þessir aðilar eru að kaupa algerlega ósambærilega vöru. Grænmetisbændur eru dreifðir, smáir kaupendur, sem kaupa orku hluta af sólarhringnum, hluta af árinu við miklu lægri spennu. Stóriðjan eru fáir kaupendur sem kaupa mikla orku hver, allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þetta er algerlega ósambærilegt.

Mér er það algerlega óskiljanlegt að mönnum skyldi detta það í hug að það sé góð hugmynd að rækta grænmeti á Íslandi í upphituðum gróðurhúsum undir sólarlömpum í staðinn fyrir það að flytja þetta einfaldlega inn frá löndum þar sem aðstæður frá náttúrunnar hendi eru betri. En það er pistill sem á heima annarsstaðar en í umræðum um raforkumál.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband