Leita í fréttum mbl.is

Ég fæ mun hærri greiðslubyrði eða 8,3%, ekki um 4%

Í grein í Morgunblaðinu í dag skrifar Gylfi Magnússon um greiðslubyrðina vegna Icesave.  Þar segir hann m.a.:

Vitaskuld er þó talsverð óvissa um vöxt útflutningstekna landsmanna á næstu árum. Óvarlegt er að gera ráð fyrir að vöxturinn verði sá sami og undanfarin 15 ár (8,4%) en óhætt ætti að vera að gera ráð fyrir að hann verði a.m.k. helmingur þess (4,2%). Gangi það eftir þá verða árlegar tekjur landsmanna af útflutningi um 7,5 milljarðar evra þegar fyrst kemur að því að greiða af Icesave-lánunum. Gangi jafnframt eftir að eignir Landsbankans dugi til að greiða 75% af höfuðstól þá myndi þurfa að meðaltali rétt rúm 4% af útflutningstekjum til að greiða lánið niður á átta árum. Vaxi landsframleiðslan helmingi hægar, mælt í evrum, en hún hefur gert undanfarin 15 ár, þá myndu greiðslurnar jafnframt samsvara tæpum 2% af landsframleiðslu á ári, að meðaltali, þau átta ár sem íslenski tryggingarsjóðurinn greiðir af lánunum.

Að ofan var miðað við mjög svartsýna spá um annars vegar endurheimtu eigna Landsbankans og hins vegar um vöxt útflutnings og landsframleiðslu. Sé miðað við enn svartsýnni spá, um engan vöxt útflutnings, verður greiðslubyrðin af Icesave-láninu um 6,8% af útflutningstekjum á ári að jafnaði. Sé hins vegar miðað við nokkuð bjartsýna spá, t.d. um að eignir Landsbankans dugi fyrir 95% af höfuðstól og að vöxtur útflutnings, mældur í evrum, verði svipaður á næstu 15 árum og á síðustu 15 árum, þá duga um 1,6% af útflutningstekjum landsins til að greiða Icesave-lánið.

Síðan segir hann:

Það er sama hvernig reiknað er. Ekkert bendir til annars en að landsmenn geti staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave. Það verður að sönnu ekkert gleðiefni. Full ástæða er til að draga þá til ábyrgðar sem komu Íslandi í þessa stöðu, bæði fyrrverandi forsvarsmenn Landsbankans og aðra. Það væri hins vegar hreint glapræði að stefna endurreisn Íslands og öllum okkar samskiptum við umheiminn í stórhættu með því að neita að gangast við skuldbindingum okkar vegna Icesave og byggja það á þeirri augljóslega röngu forsendu að við ráðum ekki við þær.

Þetta er það sama og Gylfi sagði á blaðamannafundinum í gær.  Mér fannst staðhæfingin furðuleg í ljósi upplýsinga um útflutning fyrstu 5 mánuði þessa árs.   Ég lagðist því aðeins yfir tölurnar og orð ráðherrans.

Skoðum fyrst það sem hann fullyrðir: 

Greiðslur af Icesave muni aðeins nema rétt um 4% af útflutningstekjum Íslendinga síðustu 8 árin miðað við 4,2% vöxt útflutnings á ári í 15 ár.  Gerir hann þá ráð fyrir að 75% greiðist með peningum frá Landsbankanum. 

Fyrir þá sem ekki nenna að rýna í útreikninga mína fyrir neðan, þá eru niðurstöður mínar öllu alvarlegri en þær sem Gylfi fær.  Ég geri ráð fyrir að útflutningstekjur 2016-2023 verði alls 5.075 milljarðar miðað við 4,2% árlegan vöxt.  Ég geri einnig ráð fyrir að íslenska ríkið þurfi að greiða um 421 milljarð, en það er 8,3% af útflutnignstekjum þessara ára ekki 4%. Þó svo að ég hækki vöxt útflutnings í 8,4%, þá verða hlutföllin bara 5,4% miðað við útflutning 2016-2023.  Þetta eru allt aðrar stærðartölur en Gylfi nefnir.

Eina leiðin til að fá sömu niðurstöður og Gylfi var að hækka endurheimtuhlutfallið frá Landsbankanaum í 95%, en þá fæ ég að greiðslubyrði ríkisins sé að jafnaði 4,3% af útflutningstekjum og hækkar um 1% við hver 5% sem endurheimtuhlutfallið lækkar.  Þó svo að um 100% endurheimtur verði að ræða, þá munu greiðslur ríkisins samt nema 166 milljörðum eða 3,3% af heildarútflutningstekjum áranna 2016-2023 að báðum árum meðtöldum.

Nú væri fróðlegt að bera útreikninga Gylfa saman við mína og sjá í hverju munurinn liggur.

Skýringar á tölum

Hér fyrir neðan sýni ég útreikninga mína.  Séu einhverjir annmarkar á þessum útreikningum, þá þætti mér vænt um að ábendingar um slíkt.

Staðreyndir málsins eru:
1.  Höfuðstóll lánsins er áætlaður um 700 milljarðar króna
2.  Útflutningstekjur námu 170 milljörðum fyrstu 5 mánuði þessa árs
3.  Vextir af láninu eru 5,55%
4.  Vextir eru greiddir af eftirstöðvum hverju sinni og dreifast á síðustu 8 árin.

Útreikningur:

  1. Ekki er gert ráð fyrir að gengisbreytingar hafi áhrif á niðurstöðurnar, þó sú muni vissuelga verða raunin frá 2016.  Styrking krónunnar mun hafa áhrif á útflutningstekjur til lækkunnar, en það sama gerist líka varðandi skulda- og greiðsluhliðina.
  2. Frá Landsbankanum koma á 7 árum 3/4 af 700 milljörðum eða 525 milljarðar. 
  3. Ég gef mér að innborganir dreifist jafnt á lánstímann.  Upphæðin lækkar því línulega árlega og meðalársvextir því reiknaðir af helmingnum af 525 milljörðum. Vextir af 525 milljörðum eru því 525/2*5,55%*7= 102 milljarður
  4. Eftirstöðvar fyrir utan vexti eru 175 milljarðar og greiðist á 8 árum.
  5. Greiða þarf vextir af 175 milljörðunum öll fyrstu 7 árin.  Vextir í 7 ár af 175 milljörðum eru því 175*5,55%*7=68 milljarðar
  6. Ekki er gert ráð fyrr að greiddir séu vextir af ógreiddum vöxtum fyrstu 7 árin, en sé það gert gæti sú upphæð numið 20-25 milljörðum.
  7. Skuld eftir 7 ár = 175 + 102 + 68 = 345 milljarðar sem greiðast á 8 árum.  
  8. Við útreikning vaxta af þessum 345 milljörðum, gef mér að greiðslur dreifist jafnt á árin átta. Vextir af eftirstöðvum = 345/2*5,55%*8= 76,6 milljarðar og eru greiddir út árlega
  9. Heildargreiðsla ríkisins = 345 + 76,6 = 421,6 milljarðar.
  10. Árleg greiðsla = 345/8 = 43,1 milljarður + vextir sem eru 18 milljarðar fyrsta árið og lækka niður í 1,2 millljarða síðasta árið.
  11. Árlegar útflutningstekjur eru fundnar út með því að gera ráð fyrir að útflutningur fyrstu 5 mánuðina endurspegli útflutning ársins => 170/5*12= 410 milljarðar á þessu ári og miðað við 4,2% vöxt á ári verður talan komin í um 546 milljarða árið 2016 og 729 milljarða árið 2023.  Útflutningstekjur 2016 til 2023 = 5.074 milljarðar og 8.333 milljarðar fyrir 2009 - 2023
  12. Greiðslur ríkisins sem hlutfall af útflutningstekjum síðustu 8 árin eru því 421/5.074 = 8,3% ekki rétt um 4%.
  13. Greiðslur ríkisins sem hlutfall af útflutnignstekjum öll 15 árin eru 421/8.333 = 5,1%


Sé miðað við 8,4% vöxt útflutningastekna, þá er hlutfallið í 12. lið 5,4% og í 13. lið 3,7%.


mbl.is Glapræði að hafna Icesave-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

"Gangi það eftir verða árlegar tekjur landsmanna af útflutningi 7,5 milljarðar evra ..." segir Gylfi.

Ég rýndi í tölur hjá hagstofunni um inn- og útflutning. Það þarf nánast allt að ganga eins og í lygasögu til þess að forsendur Gylfa standi. Það sem fram kemur í forsendu nr. 11 er miklu raunhæfara.

Það er óhætt að umorða eina setningu frá Gylfa:

Það er sama hvernig reiknað er. Ekkert bendir til annars en að landsmenn kikni undan skuldbindingum sínum vegna IceSave.

Haraldur Hansson, 1.7.2009 kl. 16:27

2 identicon

Takk fyrir færslu og útreikning.  Okkur veitir ekki að því að sérfróðir sem finna villur í samningunum láti í sér heyra, áður en meiri skaði skeður.

Stjórnvöld með sína spunatrúða eru komin á fullt að reyna að vinna almenningsálitið á samningum sem máttu aldrei verða pólitískir og leystir sem slíkir.  Þetta er lögfræðideila og á að leysa sem slíka og þá fyrir dómstólum ef annað gengur ekki.

Ef að við verðum aðeins fyrir hlutfallslegum flótta Íslendinga og frændur okkar í Færeyjum urðu fyrir í þeirra kreppu (sem verður að teljast smá sýnishorn miðað við okkar), þá munu 70.000 manns á besta aldri flýja land.

Færeyjar eru enn langt því frá búnar að jafna sig af því að missa allt þetta fólk og sárindunum sem hún olli.

Varla er óvarlegt að ætla að fólksflóttinn héðan komi til með að hafa veruleg áhrif á afkomu þjóðarbúsins og endurreisn þjóðfélagsins, og með því skekki alla útreikninga stjórnvalda sem örugglega hafa ekki haft þessa staðreynd inni í reiknisdæminu þeirra.

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 16:42

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Miðað við þær forsendur, sem þú gefur þér þá ert þú frekar að vanreikna dæmið en hitt. Svo er annað mál með forsendurnar.

Við skoðun á vöruútflutningi á vef Hagstofunnar fyrir árin 2004 til 2008 kemur í ljós að útflutningurinn er hærri að meðaltali á mánuði júní til desemver heldur en janúar til maí. Að meðaltali er vöruútflutningur mánuðina janúar til maí um 39% af vöruútflutningi ársins. Miðað við það stefnir í að vöruútflutningur í ár verði 435 til 440 milljarðar.

Hin skekkjan í dæminu hjá þér snýst hins vegar um að skoða síðu hjá Hagstofunni, sem einungis sýnir vöruútflutning. Gjaldeyristekjur okkar eru talsvert hærri en því nemur. Þar vantar til dæmis allar okkar tekjur af ferðamönnum og annan þjónustuútflutning.

Seinnipart níunda áratugarins veit ég að vöruútflutningur var um 70% af heildarútflutningi okkar og ég reikna með að það hlutfall sé lægra núna.

Sigurður M Grétarsson, 2.7.2009 kl. 11:55

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir ábendinguna, Sigurður.  Gylfi notar hugtakið útflutningstekjur, ekki gjaldeyristekjur.  Á þessu tvennu er sá munur að útflutningstekjur eru verðmæti útfluttra vara, meðan gjaldeyristekjur eru tekjur í erlendum gjaldmiðlum sem berast til landsins, þ.e. útflutningur vöru og þjónustu.  Hann er því annað hvort að rugla saman hugtökum (sem ég vona að hann sé ekki að gera) eða með rangar tölur.  Annars hækkaði ég útflutningstekjurnar upp í 450 milljarða í líkaninu mínu og fæ að 8,3 prósentin lækka í 7,6%.  Það er nú allt og sumt.  Ef ég aftur tek gjaldeyristekjur og geri ráð fyrir að þær verði 612 milljarðar á árinu, þá fer hlutfallið niður í 5,6%.

Það getur vel verið að Gylfi hafi ætlað að nota hugtakið gjaldeyristekjur, en hann gerði það ekki.  Af þeim sökum get ég ekki notað aðrar tölur en af vöruútflutningi. 

Hitt er annað, að þegar ég skoða verðmæti útflutnings frá 1997 til 2007, þá fæ ég að árleg hækkun hafi numið um 18,2% í íslenskum krónum og 201% alls.  Hvað það er í evrum veit ég ekki, en miðað við að evran hækkaði úr rúmum 80 kr. í janúar 1999 í rúmlega 90 kr. í desember 2007, þá eru áhrifin ekki mikil.  Á sama tíma fór gengisvísitalan úr 113,1 í 119,8.  Lagfærum verðmæti útflutnings með tilliti til þess og þá fáum við samt út 17,7% árlega hækkun.  Setjum þá tölu inní líkanið um greiðslubyrðina og þá fáum við að meðalgreiðslubyrðin sé 2,0%.  Mér sýnist því sem allt velti á því hvaða grunntölur eru réttar, þ.e. er átt við útflutningstekjur eða gjaldeyristekjur og hver hefur aukningin í þessum tekjum orðið á viðmiðunartímabilinu.

Marinó G. Njálsson, 2.7.2009 kl. 14:50

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ofan á þessar upplýsingar má bæta að samkvæmt tölum Seðlabankans um greiðslujöfnuð við útlögn síðast liðin 10 ár:

  • Viðskiptajöfnuður neikvæður um 1.669 milljarða
  • Vöruskiptajöfnuður neikvæður um 441 milljarð
  • Þáttatekjur neikvæðar um 1.022 milljarða
  • Þjónustujöfnuður neikvæður um 206 milljarða
  • Vaxtagreiðslur umfram vaxtatekjur námu 817 milljörðum
  • Ávöxtun hlutafjár neikvæð upp á 218 milljarða

Hafa skal í huga að 2008 leggur mikið í þetta, því sambærilegar tölur fyrir árin 1998-2007 eru:

  • Viðskiptajöfnuður neikvæður um 1.042 milljarða
  • Vöruskiptajöfnuður neikvæður um 475 milljarða
  • Þáttatekjur hafa verið neikvæðar um 391 milljarð
  • Þjónustujöfnuður verið neikvæður um 176 milljarða
  • Vaxtagreiðslur umfram vaxtatekjur námu 450 milljörðum
  • Ávöxtun hlutafjár var jákvæð upp á 43 milljarða

Marinó G. Njálsson, 2.7.2009 kl. 15:57

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Gylfi er hagfræðingur ef ég man rétt úr fréttum og ef ég man rétt úr mínu námi í viðskiptafræði þá er orðið "útflutnigur" notað bæði yfir útflutning vöru og þjónustu í hagfræði. Síðan er því skipt í "vöruútflutining" og "þjónustuútflutning". Tekjur af ferðamönnum hér á landi teljast til "þjónustuútflutnings".

Hins vegar væri gaman að fá að sjá útreikningana á bakvið þessar tölur, sem hann kom fram með á þingi og skoða hvort þar er villu að finna. Þeir, sem framkvæmdu þann útreikning eru jú bara menn og þeir geta gert mistök. Einnig er ekki víst að allir vilji skrifa upp á forsendurnar, sem þeir gefa sér. Við skulum hafa í huga að þeir eru að vinna fyrir menn, sem vilja láta fegra ástandið.

Hitt má líka hafa í huga hvað allar þessar tölur varðar að hvert prósent í vöxtum skiptir miklu máli. Ef lánshæfismat íslenska ríkisins batnar þannig að það eigi möguleika á að fá lán með betri vöxtum en þetta þá lækka útgjöldin. Hins vegar er líka sá möguleiki að lánshæfismatið versni og að ríkið geti lent í vanskilum og þruft að taka lán með hærri vöxtum en þetta en við það hækka vextirnir á Icesave láninu. Við gætu því þurft að greiða meira en þetta í vexti.

Sigurður M Grétarsson, 2.7.2009 kl. 16:40

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, við skulum ekki fara að hártoga um hugtök.  Gylfa verður ekki bjargað þannig.  Það er staðreynd, sama hvaða grein um ræðir, að útflutningstekjur eru fengnar af vöruútflutningi og gjaldeyristekjur eru bæði af útflutningi vöru og þjónustu.  Þannig heldur Seðlabankinn utan um þetta og þannig heldur Hagstofan um þetta.  Hafi Gylfi meint gjaldeyristekjur, þá er besta mál að hann leiðrétti sig, en hann sagði útflutnignstekjur.  (Hann sagði líka að vöxtur útflutningstekna hefði verið 8,4% að jafnaði síðustu 15 ár í evrum talið, en evran var jú ekki til fyrir 15 árum!)

Það er satt að vextirnir skipta miklu máli.  Raunar svo miklu, að ég velti því fyrir mér hvort ekki væri rétt að ræða við seðlabanka Japans, fá lán hjá þeim og greiða Icesave skuldbindinguna upp.  Miðað við 3% vexti, þá er vaxtagreiðslan að meðaltali 10,5 milljarðar.  Varla getur verið bannað fyrir Tryggingarsjóðinn að taka slíkt lán.  Vissulega væri tekin gengisáhætta, en mér sýnist hún vera innan ásættanlegra marka. En líklegast eru einhver ákvæði í samningnum, sem banna okkur þetta, eða í samningnum við AGS.

Marinó G. Njálsson, 2.7.2009 kl. 16:56

8 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ég tel afar ólíklegt að Japanir séu tilbúnir til að lána okkur á betri vöxtum en þetta, þó vissulega megi alltaf láta á það reyna. Hins vegar er það spurning hvort gengistáhættan sé innan ásættanlegra marka ef slík lán stæðu til boða. Reyndr er ég að borga lægri vexti af svissneskum frönkum en japönskum jenum í mínu myntkörfuláni þannig að spurningin er því hvort ekki væri ástæða til að skoða það frekar því gengisáhættan er minni þar því gengi Evru og svissneska framkans hefur allavega hingað til haldist nokkuð stöðugt.

Svo er annað, sem við þurfum að hafa í huga þegar við berum greiðslubyrði Icesave samninganna saman við gjaldeyristekjur okkar. Það er sú staðreynd að stór hluti okkar gjaldeyristekna er í formi útflutts áls, sem er að mestu leyti í formi veltu í gegnum íslenska hagkerfið en ekki nema að litlu leyti tekjur íslenska hagkerfisins. Það stafar af því að meginhluti þeirra tekna fer í að greiða fyrir hráefni til álversins og til greiðslu vaxta af erlendum lánum teknum til að byggja virkjanir fyrir álverin. Það verður því ansi lítið eftir af áltekjunum til nota í að greiða skuldir ríkisins. Ég tel því eðlilegt að þessar áltekjur séu teknar út fyrir sviga nama sá hluti, sem eftir verður í landinu. Þá fáum við mun hærra hlutfall og jafnvel hærra en þú nefndir í upphafsgreininni þinni.

Einhvern vegin segir mér svo hugur að við munum þurfa að skuldbreyta þessum lánum þegar til greiðslu kemur og dreifa þeim á lengri tíma en átta ár. Það breytir þó ekki því að við munum þurfa að axla þessar ábyrgðir okkar. Það er bara spurningin um það hvernig við gerum það.

Sigurður M Grétarsson, 3.7.2009 kl. 09:48

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég tek undir það, Sigurður, að erfitt er að sjá hvaðan gjaldeyririnn á að koma sem fer í þessar greiðslur.  Ein leið er að selja erlendar eigur íslenskra aðila, en ólíklegt er að það gerist í gegnum jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð þjóðarbúsins.

Marinó G. Njálsson, 3.7.2009 kl. 12:46

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Við getum alveg haft jákvæðan viðskiptajöfnuð árum saman. Þær upphæðir, sem munu fara til greiðslu Icesave skuldanna munu þrýsta gengi krónunnar niður á við og það mun þá leiða til minni innflutnings og meiri útflutnings eins og er að gerast núna. Reyndar er kreppa meðal kaupenda okkar útflutningsvara að hafa slæm áhrif á útflutningstekjur okkar eins og sendur en samt erum við að flytja mun meira út en við flytjum inn.

Ef við hins vegar verðum búin að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru meðan við erum enn að greiða þessar skuldur þá verður það einfaldlega fjármagnað með háum sköttum, sem landsmenn greiða þá í Evrum.

Sigurður M Grétarsson, 6.7.2009 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1680019

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband