Leita í fréttum mbl.is

Gott framtak hjá ríkistjórninni, en rangar tölur hjá Gylfa

Það ber að fagna framtaki ríkisstjórnarinnar varðandi viðræður við bílafjármögnunarfyrirtækin um gengisbundin bílalán.  Ég vil þó taka varann á að tala um "erlend bílalán", því ég kannast ekki við að slík lán hafi verið í boði hér á landi.  Lánin voru "skuldbindingar í íslenskum krónum með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Samkvæmt greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 38/2001, þá voru slíkar tengingar ekki heimilar:

Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla

Hvort sem lánin voru lögleg eða ekki, þá þarf að greiða úr vanda fyrirtækjanna (séu lánin ólögleg) eða lántakenda (séu lánin lögleg).  Reikna má með að þessi lán endi fyrir dómstólum hafi ekki komið niðurstaða, sem allir fella sig við, áður en til þess kemur.

Samkvæmt frétt mbl.is fullyrðir Gylfi að 11% heimila greiði meira en 30% af ráðstöfunartekjum í bílalán.  Þar vitnar Gylfi í upplýsingar frá málstofu Seðlabankans 11. júní sl.  Það sem Gylfi tekur ekki tillit til, er að Þorvarður Tjörvi Ólafsson, sérfræðingur Seðlabankans, hefur viðurkennt að inni í þessum tölum er stór hluti bílalána heimilanna í frystingu, þ.e. fólk greiddi ekkert af þeim á þeim tíma sem tölfræði Seðlabankans nær til.  Ef við gerum ráð fyrir að um helmingur heimila hafi nýtt sér möguleika á frystingu eða skilmálabreytingu lánanna, þá fer þetta hlutfall úr 11% í 35% eða jafnvel ennþá hærra.  Vegna þess hve stór hluti lána var í frystingu í tölfræði Seðlabankans, þá er í raun lítið á þeim að græða nema sem algjör neðri mörk á stöðu mála.

 


mbl.is 115 milljarða erlend bílalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú s.s. vilt meina að lántakandi geti í felstum tilfellum, m.v. þessa lagagrein sem þú vísar í, gert kröfu á lánveitanda að breyta þessu láni frá upphafslánstíma í ISK lán eða hreinlega fellt lánið og jafnvel skilað bílnum þar sem þetta er ólögleg aðgerð bílafjármögnunarfyrirtækjanna?

Kveðja, Gunnar 

Gunnar (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 17:22

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, ég veit eiginlega ekki hvernig er best að leysa úr þessu.  Líklegast verður lánið ekki dæmt ólöglegt, heldur tengingin við "dagsgendi erlendra gjaldmiðla".  Það hefði í för með sér, að höfuðstóllinn væri bara í íslenskum krónum miðað við lántökudag.  Þá standa vextirnir eftir.  Það er ekkert ólöglegt við að miða við LIBOR vexti erlendra gjaldmiðla, þannig í versta falli gætu lánveitendur setið uppi með krónum lán með mjög lágum LIBOR vöxtum.  Einn möguleiki er vissulega að lánið verði dæmt ólöglegt og bílunum væri skilað, en mér finnst það ólíklegasta lendingin.

Við megum ekki útiloka þann kost að einhverjir vilji bara halda gjaldmiðiltengingunni.  Út frá sögulegum gögnum, þá er krónan að standa sig betur en vísitala neysluverðs, þrátt fyrir útreið síðustu tveggja ára.

Hafa skal í huga að FME, Seðlabanki og viðskiptaráðuneyti samþykktu þessi lán, hvort sem það var gert formlega eða með þögninni.  Verði þau dæmd ólögleg, þá reikna ég með því að lánveitendur gætu átt skaðabótarétt á ríkið vegna þess að þessir aðila hafi vanrækt eftirlitshlutverk sitt.

Niðurstaðan úr viðræðum stjórnvalda og bílafjármögnunarfyrirtækjanna gæti gefið fordæmi vegna annarra lána sem erum með tengingu "við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Það verður því alveg örugglega ekki gert neitt sem ekki verður yfirfæranlegt á ríkisbankana.

Marinó G. Njálsson, 1.7.2009 kl. 17:40

3 identicon

Ég vil nú bara skila bílnum og standa þar með á núllpunkti í bílamálum. En það virðist ekki hægt.

Anna Árnadóttir (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 17:54

4 identicon

Það sem ég vill sjá gerast í þessum erlendu myndkörfulánum væri að láta handstýra gengisvísitölunni eitthvað niður til að lækka höfuðstól hjá þeim sem eru föst með þessi lán á sér og sjá ekkert nema að allt það sem þau hafa greitt síðustu ár fuðra upp og lánið hækkar upp úr öllu valdi.

Tek sem dæmi að einn vinur minn tók lán uppá 2.7 milljónir í erlendri myntkörfu hjá AVANT þar sem sjálfur bílasalinn sagði þetta vera mikið betri leið fyrir hann uppá að borga sem minnst á mánuði og að þetta væri svo 100% bulletproof að hann féllst á að taka þetta.

Viti menn, hann sem var búinn að borga rúmlega 800 þúsund kr inn á lánið og voðalega sáttur með þetta þá fóru efnahagsbreytingar að koma smátt og smátt í ljós & þetta fór allt að ganga með því að lánið hækkaði úr öllu valdi.

Lánið stendur í dag hjá honum í 5.5-6 milljónum og hann getur ekkert gert nema vona að eitthvað verði gert í þessum málum til að lækka greiðslubyrðina (þá tala ég ekki um frystingu, eina sem hún gerir er að geyma hinn raunverulega vanda)

Taka það líka fram að bíllinn er metinn á 3.2 mill. í dag þannig ef svo færi að hann myndi missa bílinn myndi sæti hann uppi með rúma 3 milljón kr skuld á sér.

Enda þetta með von um að eitthvað fari að gerast í þessum málum á næstunni :)

Arnar (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 18:19

5 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Hann Gylfi gerir sér fulla grein fyrir því að tölfræði seðlabankans er röng. Hann veit allt um þessar frystingar. Þetta er bara en eitt dæmið um hvernig ríkisstjórnin reynir að slá ryki í augu almennings.

Jón Svan Sigurðsson, 1.7.2009 kl. 18:21

6 identicon

Þú vitnar til athugasemda með lögum um vexti og verðtryggingu, nánar tiltekið athugasemda við verðtryggingarkaflann.

Erlend lán eru ekki bundin við verðvísitölu, hvorki innlenda né erlenda og eru því ekki verðtryggð. 

("Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu" segir í 13. gr.  og í 14. gr. er önnur verðtrygging en skv. vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birtir bönnuð.)

Kristinn B. Þorgrímsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 19:17

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristinn, hvað er gengisbinding annað en eitt form af verðtryggingu?  Verðtrygging er ekki bara bundin við neysluverðsvísitölu.  Í 14. gr. er t.d. gefin heimild fyrir því að verðtryggja "sparifé og lánsfé" með "hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi."  En það er ekki það sem skiptir megin máli, heldur vilji löggjafans.  Í greinargerðinni með 13. og 14. gr. segir:

Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið tak markaðrar hylli.

Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

Skýrðu nú fyrir mér, Kristinn, hvernig skilur þú það sem þarna stendur?  Ég skil það þannig, að óheimilt er að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.  Ég skil þetta þannig að eingöngu hafi verið heimilt verðbinda skuldbindingar við neysluverðsvísitölu og síðan hlutabréfavísitölur, innlendar og erlendar.

Marinó G. Njálsson, 1.7.2009 kl. 19:57

8 identicon

Ég skil ákvæði laganna, eins og þau eru skýrð í athugasemdum við frumvarpið, ekki eins og þú Marínó. Minni skilningur á því hvaða verðtrygging með bindingu við vísitölur kemur að ég held sæmilega fram í svari mínu að ofan.

Eins og það væri nú hentugt samt, algjör snilldarlausn, ef hægt væri að túlka verðtryggingarkafla vaxtalaga á þennan hátt.

Það er hins vegar ekki óheimilt að veita skuldabréfalán í annarri mynt en þeirri íslensku. Í því felst nefnilega ekki verðtrygging.

Kristinn B. Þorgrímsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 20:26

9 identicon

... hvaða verðtrygging með bindingu við vísitölur *er heimil* kemur að ég held sæmilega fram ...

Kristinn B. Þorgrímsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 20:29

10 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Marinó.

 Ég fékk upphringingu frá lögfræðingi fyrir allnokkru þar sem ég var beðinn um mat á greinargerð  vegna gengistryggðra lána. Þá lá fyrir munnlegt álit nokkurra sérfæðinga. Ég las mig til og rak í rogastans. Sá ekki betur en að skýrt væri tekið fram að stranglega væri bannað að tengja íslenskt lán við dagsgengi gjaldmiðla. Þetta mál verður að afgreiða áður en efnahagsreikningur nýju bankanna er afgreiddur, ef ekki eykur það líkurnar á nýu bankahruni.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist svo sem fjölmiðlar sýni þessu máli nánast engan áhuga, og þeir einu sem hafa tekið þetta mál upp sé Hagsmunasamtök heimilanna.

Sigurður Þorsteinsson, 1.7.2009 kl. 20:35

11 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Um þessi bílalán er fullkomlega eðlilegt að nota orðin andskotans og helvítis og enn verri orð. 

Ég sem taldi mig vera það brendann af fyrri fjárfestingum eins og íbúðakaup árið 1988 og fleira gáfulegt, hafði reynt að passa mig eins og ég gat í að taka ekki gylliboðum. En allir í kring um mig voru að græða svo mikið á þessum lánum sögðu þeir að ég lét tilleiðast. Keypti mér bíl á 100% láni á útsölu. Hafði átt að kosta 1.09 milljónir en fékk hann á 590 þúsund. Ég taldi mér trú um af því að ég ætlaði að borga hann á 4 árum að gengið gæti ekki fallið svo að ég fyndi mikið fyrir því á svo stuttum tíma og með svo lága upphæð í yenum  og Svissneskum frönkum. En svona lauslega reiknað verð ég sennilega eftir 18 mánuði eftir að láninu er lokið búinn að greiða um það bil 1100 þúsund af þessum bíl. Og þá verður bíllinn á 13 ári. Feginn að ég fór ekki eftir sumum sem voru að hvetja mig til að kaupa nýjan eða nýlegan bíl á 100% gengistryggðu láni.  En djöfulli skítt að í raun er allur afslátturinn horfinn til fjármögnunarfyrirtækisins.

Eina ljósið í þessu að ég hef gaman að gamla jepplinginum mínum og við erum stöðugt að kanna nágreni Reykjavíkur eftir torförnum leiðum.  Og viðhaldið er ekki mikið eða dýrt. Fenginn nú að hafa sleppt því að kaupa mér Landcruser eins og ég vara að velta fyrir mér. Stundum hjálpar það manni að vera brendur af of miklum skuldum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 1.7.2009 kl. 20:38

12 Smámynd: Hallur Magnússon

Kjarni málsins er að Gylfi segir sjaldnast fulkomlega satt frá!

Hallur Magnússon, 1.7.2009 kl. 21:24

13 Smámynd: Elfur Logadóttir

Er það kjarni málsins Hallur?

Heyrðirðu svar hans á Alþingi í dag? Nokkurn veginn orðrétt eftir haft sagði hann að svör við spurningum Birkis Jóns væru ekki til í Viðskiptaráðuneytinu og því hefði verið leitað til Seðlabankans eftir svörum ... og síðan las hann upp svör Seðlabankans við þessum spurningum.

... En hann hlýtur náttúrulega að hafa skilið eitthvað eftir eða breytt einhverju úr svörum Seðlabankans fyrst hann segir sjaldnast fullkomlega satt frá.

Elfur Logadóttir, 1.7.2009 kl. 21:58

14 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ég er sammála Halli. Gylfi fer með tölur eins og honum hentar best.

Eggert Guðmundsson, 1.7.2009 kl. 22:49

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, ég er búinn að vera vekja athygli á þessu frá því um miðjan febrúar.  Við fengum fjölmiðla aðeins til að fjalla um málið um tíma, en svona fréttir virðast renna út (liklegast með síðasta fréttadag).  Ég tek undir með þér að þetta er stórt mál og þarf að fá lausn í það sem fyrst.  Við hjá HH höfum sent fyrirspurnir um þetta til Seðlabanka, viðskiptaráðuneytis og FME.  Seðlabankinn sagði það ekki sitt hlutverk að svara fyrirspurnum utan úr bæ og viðskiptaráðuneytið sagði: "Það er ekki hlutverk ráðuneyta og handhafa framkvæmdarvalds að túlka einstök ákvæði laga.  Túlkun laga fellur undir verksvið dómstóla, sem lögum samkvæmt er falið það hlutverk að skera úr réttarágreiningi."  FME hefur enn ekki svarað.  Lögmaður sem ég ræddi við og hafði spurt FME út í málið orðaði það þannig:  "Þeir taka alltaf um klofið á sér, þegar minnst er á þetta mál."

Ég er sammála þér í því að þetta gæti fellt bankana, ef þetta verður ekki afgreitt áður en verðmæti lánasafna kemst á hreint.

Marinó G. Njálsson, 2.7.2009 kl. 00:01

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, hann breytti engu úr tölum Seðlabankans.  Ég ætla svo sem ekki að kenna Gylfa um, frekar þeim sem tók tölurnar til fyrir hann.

Marinó G. Njálsson, 2.7.2009 kl. 00:34

17 identicon

... hmmm.

Eitthvað er greinilega að í hugarórum Skuldabagga.

Hvaða andskotans bíla var þjóðin að kaupa þar sem að lánin standa undir nokkurnvegin 1/4 af hugsanlegum skulbindingum vegna ICESsave.

Það þarf hugarfarsbreytingu hjá þessari þjóð. Gagnvart því hvað er sjálfsagt sem lifibrauð, hvað er munaður. Bílakostur landsmanna flokkast líklega undir það síðarnefnda.

Lögfræðitúlkun á lagaskilmálum á í sjálfu sér alltaf rétt á sér. Lögfræðismugur gagnvart neyslufilleríi er ágætis leikfimi. En þá vildi ég bara vita hver borgar lögfræðikostnaðinn? Ríkið = Þjóðin?

 Einn á Subaru Legacy árgerð 1991,

nari

Einar (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 00:41

18 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Málið er ekki ósannsögli hjá Gylfa, Elfur; hann Hallur virðist eiga við athyglisbrest að stríða.....eða ósannsögli? Hann túlkar svo oft undarlega það sem sagt er.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 2.7.2009 kl. 09:24

19 Smámynd: Elle_

"Hvaða andskotans bíla var þjóðin að kaupa þar sem að lánin standa undir nokkurnvegin 1/4 af hugsanlegum skulbindingum vegna ICESsave."

Það var fólk sem eyddi eins og vitleysingar, Einar.  Aldrei skal ég neita því.  Heldur þú þó að það hafi allir eytt eins og vitleysingar sem voru með bíl og bíllán?  Málið snýst um HÆKKUN LÁNANNA,  oft hátt í 3-FALDA HÆKKUN. Hjá venjulegu fólki.  Og það var ekki fólkinu að kenna.

Elle_, 2.7.2009 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband