Leita í fréttum mbl.is

Á að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlit?

Davíð Oddsson segir í viðtali við Daily Telegraph, að rangt hafi verið að skilja á milli Seðlabankans og bankaeftirlitsins á sínum tíma og færa bankaeftirlitið yfir í hið nýstofnaða Fjármálaeftirlit.  Þó ég teljist ekki sérfræðingur, þegar kemur að skipulagi stjórnsýslu, þá þekki ég vel inn á hæfiskröfur í tengslum við úttektir á vottunarhæfum kerfum.  Út frá þeirri sérfræðiþekkingu minni, þá vil ég andmæla þessari fullyrðingu fyrrverandi forsætisráðherra og Seðlabankastjóra.

Við stofnun FME runnu saman í eina eftirlitsstofnun nokkrum stofnanir/deildir sem sáu um eftirlit með fjármálaumsýslu og tryggingastarfsemi.  Margt var líkt með þessum aðilum og því voru samlegðar áhrifin af sameiningu þessara aðila mikil.  Það sem meira var, að eftirlit var samræmt og eflt (eða það var a.m.k. meiningin).

Í mínu starfi hef ég aðstoðað fjölmörg fyrirtæki við að uppfylla hluta af kröfum FME.  Hefur það auðveldað mitt starf og um leið gert ráðgjöf mína verðmætari fyrir viðskiptavini mína, að ég er hjá öllum þessum aðilum að fást við sömu grunnkröfur FME.  Það sem mér hefur hins vegar þótt neikvætt við þetta fyrirkomulag, er að það hefur vantað einhvern aðila til að hafa aðhald með FME.  Vandamálið er að FME setur reglurnar sem fyrirtækin eiga að uppfylla og hefur eftirlit með að þau uppfylli þær.  Hvað gerist ef reglurnar eru rangar eða virka ekki rétt?  Nú, FME setur auk þess kröfur til sjálfs sín um hvernig skuli staðið að eftirlitinu.  Hvað gerist ef þessar kröfur eru ekki nógu góðar eða þeim ekki fylgt eftir?  Vissulega á Ríkisendurskoðun að sinna eftirliti með FME, en það er ekki nógu reglulegt eftirlit.

Mér finnst mikilvægt að greint sé á milli þess aðila sem setur reglurnar og þess sem sér um eftirlitið.  Raunar þætti mér best, ef sem mest af reglusmíðinni lendi á einum aðila.  Vandamálið er að hluti eftirlitsskyldra aðila sem falla undir FME, falla ekki undir Seðlabankann.  Þannig hefur Seðlabankinn engan áhuga á regluverki í kringum tryggingastarfsemi eða lífeyrisstarfsemi.  Eigum við þá að henda því í einhverja aðra stofnun?  Tryggingastarfsemi er fyrst og fremst neytendamál, en innan fyrirtækjanna er líka umfangsmikil eignaumsýsla. Starfsemi lífeyrissjóða byrjaði sem hagsmunamál launafólks sem síðan varð lögbundin, en þar er líka umfangsmikil eignaumsýsla.  Eins og ég segi, þá er það alls ekki í verkahring seðlabanka að hafa áhyggjur af regluverki þessara aðila.  Það má svo sem gera það, en mér þætti það óeðlilegt.

Önnur leið sem hægt væri að fara, er að óháðir aðilar fengju faggildingu frá Seðlabankanum/FME til að sjá um þetta eftirlit.  Það væri síðan SÍ/FME að hafa eftirlit með eftirlitsaðilanum og jafnframt tækju SÍ/FME stikkprufur.  Hér fengju eftirlitsskyldir aðilar "vottun" upp á að hafa uppfyllt skilyrði laga og reglna.  Gæta yrði þess að hinir faggiltu eftirlitsaðilar hefðu engin tengsl við aðilann sem haft er eftirlit með.  Ókosturinn við þessa aðferð, er að hún er dýrari, í okkar fámenni væri erfitt að viðhalda þekkingu og hæfi og vald eftirlitsaðilans væri hægt að rengja.  Helsta "vopn" eftirlitsaðilans væri að svipta viðkomandi fyrirtæki vottun eða að setja það á athugunarlista. Gera mætti sömu kröfur um störf svona aðila og gert er varðandi ytri endurskoðanda. Við megum svo ekki gleyma því, að það á að vera hlutverk innri eftirlits allra fyrirtækja (og regluvarða fjármálafyrirtækja) að fylgjast með því starfsemi þeirra sé í samræmi við lög og reglur.  Vandamál íslensku bankanna var að þessar deildir, þ.e. innri endurskoðun/eftirlit, voru hvorki nógu vel mannaðar (fjölmennar eða starfsfólk með næga þekkingu) né höfðu þær það vald, sem þær hefðu þurft að hafa til að þvinga fram breytta starfsþætti.  Vilji menn efla eftirlit með fjármálastarfsemi, þá er sterkasta leiðin, að mínu mati, í gegn um úttektir á innra eftirlit og regluvörslu fyrirtækjanna.  Ef mönnum er haldið á tánum þar, þá smitar það út um allt fyrirtækið.

Ég skil alveg þá hugsun að færa allt eftirlitið undir SÍ.  Mér finnst bara meiri hagsmunum vera fórnað fyrir minni.  Það er þekkt að "kínverskir veggir" halda ekki og því er hætta á því að eftirlitsaðilinn lendi í því að hafa eftirlit með eigin reglum.  Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, þegar svona mikið liggur undir.  Í mínum huga er hlutverk Seðlabankans að ákvarða regluverk fjármálamarkaðarins ásamt viðeigandi ráðuneyti.  Hann á m.a. að gera kröfu um að fjármálafyrirtæki leggi fram sannanir fyrir því, að þær uppfylli kröfurnar og hann á jafnvel að gera skyndikannanir, þar sem framlagðar sannanir eru sannreyndar.  Með þessu er mönnum haldið við efnið, þar sem þeir geta átt von á skyndiheimsókn hvenær sem er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkir fyrir þessar upplýsingar.

Alltaf að koma betur í ljós hvað það var vitlaust af sjálfstæðisflokknum að setja þennan aula í seðlabankan !

JR (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 23:02

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það þjónar engum tilgangi að benda á sökudólga. Það brugðust allir eftirlitsskildunni. En sök FME er þó sýnu verst.  Ég reikna með að Davíð sé að vísa til þess að FME heyrir undir Viðskiptaráðuneytið en ekki Forsætisráðuneytið. Það er svo margt skrítið í kýrhausnum.  Við höfðum dýralækni sem stýrði fjármálum okkar í mörg ár og ekki gleyma Viðskiptaráðherranum sem enginn vildi hafa með í ráðum og enginn tók mark á, ekki einu sinni hann sjálfur. Blackout getur verið þægileg afsökun

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.4.2009 kl. 07:51

3 identicon

Hvaða Davíð Oddsson...? Er ekki heppilegra að vitna í dálítið áreiðanlegri heimildir Marinó minn?

Bendi þér á að lesa "Sofandi að feigðarósi" eftir Ólaf Arnarson. Holl og góð lesning fyrir þá sem enn eru að sítera í þetta fyrirbæri.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 09:07

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hilmar, það er bara þessi hugmynd sem ég er að ræða um.  Málið er að fleiri eru með þessa hugmynd í kollinum og þess vegna valdi ég að ræða hana hér og koma með rök um betri leið.

Marinó G. Njálsson, 29.4.2009 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 247
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 1680811

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband