Leita í fréttum mbl.is

Fundur um skuldastöðu þjóðarbúsins hjá FVH

Ég var að koma af fundi um stöðu þjóðarbúsins, sem Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hélt.  Frummælendur voru Haraldur Líndal Haraldsson, framkvæmdastjóri Nýsis og talnagrúskari, og Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður.  Auk þess tóku þátt í umræðum Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, alþingismaður, og Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.  Fundurinn var vel sóttur.

Haraldur flutti fyrst framsögu sem hann nefndi Erlendar skuldir þjóðarbúsins.  Var hann ákaflega vel undirbúinn og með allar tölur á hreinu.  Setti hann hinar ýmsu skuldatölur í margvíslegt samhengi og verður að segjast eins og er að það var sama hvernig hann horfði á málið, það var matsmál hvort er svartara, kolsvart eða sótsvart.  Áhugaverður var sá punktur hjá honum að einstakir aðilar og fyrirtæki tengd þeim skulda allt af sex sinnum það sem heimilin skulda í gengisbundnum lánum.  (Án þess að hann hafi neitt fjallað um það, þá má gera ráð fyrir að almenningur verið krafinn um allt upp í topp en hinir fyrrum auðmenn þurfi ekki að borga neitt.  Vissulega tapa þeir eignum sínum, en það gerir almenningur líka.)  Það var annars álit Haraldar að almenningur hafi varlega í lántökur í gengisbundnum lánum.

Haraldur skoðaði útlánasöfn á Íslandi 30/9/08 eins og þau koma fram í gögnum Seðlabankans.  Það er áhugavert að skoða að gengisbundin lán voru þá 2.963 milljarðar króna og höfðu hækkað um ríflega 80% frá áramótum.  Áður hafði hann bent á að gengisbundin lán heimilanna hefðu verið um 156 milljarðar.  Það eru því fyrst og fremst fyrirtæki sem sitja í súpunni eftir hrun krónunnar.  Leggur hann til að farin verið sú leið sem Hagmunasamtök heimilanna hafa lagt til varðandi leiðréttingu þessara lána, þ.e. að höfuðstól verði breytt í verðtryggt lán frá útgáfudegi.  Taldi hann að 20% lækkun dygði engan vegin til að rétta af fyrirtæki og heimili.

Tryggvi Þór var aftur ekki eins vel undirbúinn og Haraldur.  Mér fannst erindi hans ruglingslegt, þar sem hann mismælti sig ítrekað og var maður ekki alveg með á hreinu stundum hvað hann var að fara.  Hann sagði þó, að gert væri ráð fyrir að færa 4.000 milljarða af innlendum útlánum gömlu bankanna til þeirra nýju með 50% afslætti.  Hann bjóst einnig við að stofnefnahagsreikningur nýju bankanna yrði umtalsvert minni en upphaflega var gert ráð fyrir, en tók ekki tillit til þess í tölum sínum. Líkt og Haraldur sagði hann brýnt að koma fram með raunhæfar aðgerðir í efnahagsmálum og sérstaklega að taka á sívaxandi vanda fyrirtækja og heimila.

Þá kom að pallborðsumræðum.  Sigríður Ingibjörg byrjað á því að lýsa því yfir að hún væri alveg rugluð á öllu talnaflóðinu.  Það var nú ekki það eina sem hún átti erfitt með, því ég held að fátt hafi komið rétt út hjá henni nema mantran sem hún var beðin um að fara ekki með, þ.e. "ESB-aðild bætir allt".  Hún sagði þó eitt sem var mjög áhugavert og skýrir þá miklu áherslu sem ESB-flokkurinn, fyrirgefið Samfylkingin, leggur á inngöngu. Hún sagði: "Það hafa komið skilaboð frá Brussel, að ef við hefjum aðildarviðræður, þámun ESB hjálpa okkur við að styðja við krónuna."  Einnig tók hún fram að almenningur ber ekki ábyrgð á hruninu, en mun samt ekki komast hjá því að borga!

Jón Þór Sturluson er snillingur í að leika af sér.  Hann blammeraði fundarmenn með því að segja alla vitlausa sem hefðu tekið gengisbundin lán og þegar hann reyndi að taka það til baka, þá kom ennþá verri blammering.  Ég verð að segja, að ég hef það fram yfir hann að vera bara vitlaus, samkvæmt þessari skilgreiningu hans.  Hann er bæði vitlaus og glæpsamlega vanhæfur.  Við skulum hafa í huga að þetta er maðurinn sem var aðstoðarmaður viðskiptaráðherra í aðdraganda bankahrunsins.  Miðað við árangur hans í starfi, þá er vanhæfi hans til að gegna svo ábyrgðarfullu starfi æpandi.  Að því slepptu, þá taldi hann skynsamlegt að færa útlán yfir í nýju bankana miðað við greiðslugetu, en sagði það ekki sitt að útfæra það nánar.  Hann væri jú hættur sem aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.

Tryggvi ítrekaði, það sem hann hefur sagt áður, að jafnvægisgengi íslensku krónunnar væri í kringum 150, þ.e. gengisvísitalan.  Hann benti líka á, að trúverðugleikinn verði ekki úthýstur og skaut þar föstuskoti á Sigríði "ESB-aðild bjargar okkur" Ingadóttur.  Tók hann sem dæmi að lánshæfismat Slóvakíu hefði lækkað við upptöku evrunnar.  Hafa yrði í huga að krónan væri einkunnarbókin okkar.  Við bætum ekkert einkunnirnar okkar með því að skipta um bók.  Tryggvi mótmælti svo misheppnuðum brandara Jóns um að þeir sem tók gengisbundin lán hafi verið vitlausir og sagði að fólk hafi stuðst við forsendur sem stjórnvöld og bankarnir höfðu gefið.  Það sé hreint og beint óréttlátt að væna fólk um heimsku, þegar þannig sé í pottin búið.

Vilhjálmur Þorsteinsson tók til máls og hélt því fram að skuldir bankanna lendi ekki á okkur heldur kröfuhöfum.  Í mínum huga er það ekki alveg rétt.  Vegna þess hve  kröfuhafar þurfa að afskrifa mikið vegna bankanna, þá verða þeir tregari til að afskrifa hluta af skuldum almennings og fyrirtækja.  Þess vegna lenda skuldir bankanna á okkur í hærri greiðslubyrði okkar lána en annars hefði orðið.

Mín skoðun á þessum fundi er að þingmennirnnir okkar nýju lofa ekki góðu.  Sigríður kom varla einni setningu frá sér óbrenglaðri, nema hún innihéldi "ESB-aðild bjargar öllu".  Hún var á einum tímapunkti beðin um að skýra út hvað ætti að gera, eins og fyrirspyrjandinn væri 6 ára.  Það var henni gjörsamlega fyrirmunað.  Nú eftir að hafa hlustað á Jón Þór, þá skil ég bara mjög vel að bankarnir hafi getað gert hvað sem er.  Tryggvi var eitthvað taugaóstyrkur og náði sér ekki á strik.  Sá eini sem var með allt á hreinu, var Haraldur.  Munurinn á honum og hinum þremur, er að hann rekur fyrirtæki og er því á hverjum degi að kljást við afleiðingar vanhæfni hinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa samantekt, Marínó. Ég hjó eftir þessu sama hjá Björgvini G í lokaumræðum í Suðurkjördæmi, þ.e. að ef við myndum sækja um aðild að ESB þá muni ESB styrkja krónuna. Ég hefði gjarnan viljað heyra meira um þetta en Björgvin var ekkert beðinn um að skýra mál sitt.

Kolbrún Heiða (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 16:33

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér þetta Marinó

ESB getur ekki lofað NEINU í sambandi við ECB swap deals og gagnkvæmni. Það er alveg á hreinu. ENGU. ESB hefur ekkert samband eða umboð við eða frá ECB.

Þetta er mjög sennilega tandurhrein lygi. Algert bull og rugl. Þvílíkur og annar eins þvættingur. Samfylkingin svífst eingsiks. Hún lýgur sig jafnvel áfram. Þetta er einum of langt gengið. Enginn fær gagnvræman stuðing nema eftir langa og stragna göngu. Ef hin ERM myntráðslöndin fréttu þetta yrði uppreisn í ESB. Lettland er að drepast! og Litháen og Eistland á efir því. Þau yrðu bjráluð.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.4.2009 kl. 16:41

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Vegna þess hve  kröfuhafar þurfa að afskrifa mikið vegna bankanna, þá verða þeir tregari til að afskrifa hluta af skuldum almennings og fyrirtækja.

Þetta eru einar og sömu afskriftirnar, Marinó.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.4.2009 kl. 17:00

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það sem ég er að meina, Vilhjálmur, að kröfuhafarnir verða harðari á því að innheimta lán heimila og fyrirtækja sem eru á mörkunum að vera innheimtanleg.  T.d. þennan pakka sem reikna má með að falli undir greiðsluaðlögun eða þann hluta sem vafi leikur á að séu hreinlega lögleg, sbr. gengisbundnu lánin.  Mér finnst alfarasælast að samið sé strax um þann pakka.  Ég er bara að túlka það sem þú sagðir, en tek fram að sessunautar mínir höfðu sama skilning á þínum orðum. 

Nú sért þú að meina að þessi lán séu líka í því sem verið er að afskrifa strax, þá er misskilningurinn minn og biðst ég forláts á því.

Marinó G. Njálsson, 28.4.2009 kl. 17:22

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Öll lán gömlu bankanna til innlendra aðila eru tekin saman í einn pakka, metin af endurskoðendum, færð niður með afskrift, og flutt (keypt) á því niðurfærða verði yfir í nýju bankana.  Þar eiga kröfuhafarnir ekki lengur hlut að máli, heldur verður það verkefni nýju bankanna undir sínum rikistilnefndu bankastjórnum að innheimta viðkomandi lán þannig að það fáist a.m.k. kaupverðið fyrir þau.  Kröfuhöfum í gömlu bankana verður alveg sama hvernig það gengur, þeir eru búnir að selja lánin frá sér á tilteknu föstu verði.  En vitaskuld byggir þetta á því að þeir séu sáttir við það verð og aðferðafræðina.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.4.2009 kl. 19:51

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.S. Haraldur er allt of svartsýnn á tölurnar, og raunveruleikinn er miklu nær mati Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra og reyndar Tryggva Þórs (þótt hann sé í bjartsýnni kantinum á köflum).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.4.2009 kl. 19:53

7 identicon

Sæll og takk fyrir þessa samantekt. 

Þessi fundur var áhugaverður en sökum anna, komst ég ekki á hann.   Það kemur mér ekki á óvart að Samfylkingin notist áfram við frasapólitík og töfrasprota, enda hefur það verið þeirra siður, síðan R lista samstarfið var fundið upp.   Það þarf ekki annað en stutta yfirlegu og skilning á málefnum Lettlands, Írlands, Grikklands, Spánar, Ítalíu og fleiri ríkja, að ábyrg efnahagsstjórn þarf að vera heimatilbúin.  Hún verður aldrei innflutt. 

Þó vil ég taka það fram, að ég veit til þess, að ef við Íslendingar ætlum okkur aftur að komast að borði siðaðra þjóða, þurfum við að ganga í ESB.  Það er enginn töfralausn ein og sér, en erlendir einkaaðilar munu ekki treysta okkur fyrir sínum peningum.  Við fórum ránshendi um sparifé eldra fólks og millibankamarkað.  Við spörum nánast ekkert samanborið við aðrar þjóðir.   

Árni (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 22:35

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, ég er ekki viss um að Haraldur sé endilega svo svartsýnn.  Ég er búinn að fara í gegnum þessar tölur allar og fæ alveg svipaða niðurstöðu.  Málið er að hann tekur ekki með þær afskriftir sem verða á sama "gengi" og Tryggvi.  Svo megum við ekki gleyma því að þetta er reiknað út á misjöfnu gengi og við vitum ekkert á hvaða gengi við munum greiða skuldirnar.

Annars hef ég velt því fyrir mér hvort ekki væri best núna að nota AGS lánið og erlendar lánalínur til að hleypa óþolinmóðu fjármagni úr landi.  Það er örugglega hægt að fá góðan díl.  Síðan mun krónan styrkjast og þá getur Seðlabankinn smátt og smátt safnað aftur inn í gjaldeyrisvarasjóðinn.  Ef krónum er hleypt úr landi á genginu 1 EUR = 180 - 220 kr. og evrur síðan keyptar eftir 2 - 3 ár á 1 EUR = 100 -120, þá myndast verulegur gengishagnaður sem gerir meira en að greiða alla vexti af þeim peningum sem verða notaðir.  Er eitthvað sem hindrar þetta eða var bara verið að bíða fram yfir kosningar?

Ég hef nokkrum sinnum velt fyrir mér hvað er hægt að gera varðandi þetta "óþolinmóða" erlenda fjármagn sem hér er (sjá Gjaldeyrislögin - skynsemi eða afleikur?, Bull rök fyrir háum stýrivöxtum og Misheppnuð handstýring?).  Nú mætti halda að eftir allan þennan tíma væri komin lausn á þessu, en svo virðist ekki vera. Sérð þú einhverja skynsamlega lausn á þessu?  Leyndin yfir því hverjir eru raunverulegir eigendur þessara bréfa og innistæðna finnst mér líka merkileg.

Marinó G. Njálsson, 28.4.2009 kl. 22:43

9 Smámynd: Guðmundur Karlsson

Þegar Gunnar Rögnvaldsson er farinn að þakka þér fyrir pistlana þína, þá ert þú kominn á villigötur Marinó.

Ég er sammála Árna hér að ofan.

Guðmundur Karlsson, 28.4.2009 kl. 22:44

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, ég held ekki að Gunnar hafi verið að þakka mér fyrir einhverjar skoðanir sem koma fram í pistlinum, heldur fyrir að birta upplýsingar af fundinum.

Annars fara skoðanir okkar Gunnars oft saman, þó það sé ekki alltaf.  Og ekki hef ég neitt yfir honum að kvarta.  Ég er með fulla varúð gagnvart ESB, enda er ég lítið fyrir að kaupa hluti óséða.

Marinó G. Njálsson, 28.4.2009 kl. 22:50

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars er áhugaverð frétt hjá ft.com um að lánadrottnar Chrysler sem eiga USD 6,9 milljarða hjá fyrirtækinu hafa samþykkt greiðslu upp á USD 2 milljarða.  Það er ljóst að fjármagnseigendur vilja frekar veita góðan afslátt en að sitja uppi með fyrirtækið.

Marinó G. Njálsson, 28.4.2009 kl. 23:12

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir góða samantekt Marinó, sammála þér um að þingmennirnir nýju lofa ekki góðu.  Þó hagfræðingum hafi fjölgað á þingi þá eru fræðin því miður svolítið 2007.

Magnús Sigurðsson, 28.4.2009 kl. 23:20

13 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Góð samantekt - það er rétt hjá þér að öll þessi umræða um ESB er á villigötum hvað forgang varðar.  Það þarf að taka á vandamálum dagsins í dag, ESB er pæling morgundagsins. 

Að tala um að jafnvægisgengi krónunnar sé 150 er aftur á móti undarleg staðhæfing.  Landsbankinn sagði fyrir 2 árum síðan að það væri í kringum 135.  Þorvaldur Gylfason sagði aftur á móti nýlega að núverandi gengi væri nærri því.  Við höfum verið með gífurlegan vaxtaskiptamun gagnvart útlöndum í fjöldamörg ár, slíkt hefur að lokum áhrif á gengið og gerist oftast með skörpum hætti.  Við þurfum að aðlagast nýju umhverfi hvað erlends kostnað varðar eftir mörg góð ár í þeim efnum.

Már Wolfgang Mixa, 28.4.2009 kl. 23:50

14 identicon

Altt í áttina MGN. Með Chrysler-punkinum ertu að komast niður á jörðina að mati hrútsins. HLH söngurinn er einfalt bókhald, ekki hagfræði!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 00:13

15 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hversvegna þarf íslenska ríkið að ábyrgjast lántökur einkafyrirtækja?  Ég skil að innistæðutryggingin er bundin í lög en mér er fyrirmunað að skilja hversvegna við þurfum líka að borga þau lán sem "óreiðumenn" tóku á eigin ábyrgð.

Axel Þór Kolbeinsson, 29.4.2009 kl. 08:42

16 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Við erum ekki að borga þau lán sem óreiðumenn tóku - og bankarnir lánuðu - á eigin ábyrgð, Axel.  Það er ótrúlega lífsseigur misskilningur.  Haraldur L. Haraldsson hjálpar ekki þegar hann gefur í skyn að almenningur sé að borga yfirdrátt Roberts Tchenguiz.  Almenningur borgar ekki krónu af þeim yfirdrætti.  Það eina sem lendir á okkur er innistæðutrygging vegna Icesave Landsbankans, en Tschenguiz var viðskiptavinur Kaupþings.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 18:02

17 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það er ekki það sem ég átti við Vilhjálmur, heldur þau lán sem bankarnir tóku hjá öðrum bönkum.  S.s. það sem kröfuhafar í þrotabúin krefjast.

Það gæti verið að það sé misskilningur hjá mér en fréttaflutningur hefur verið í þá átt.  Ríkið hefur hingað til ekki ábyrgst kröfur kröfuhafa í önnur þrotabú.

Axel Þór Kolbeinsson, 29.4.2009 kl. 18:14

18 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Nei, ríkið ábyrgist ekki kröfur kröfuhafa í þessi þrotabú fremur en önnur þrotabú hlutafélaga.  Fyrir því hefur aldrei verið neinn lagalegur grunnur; kröfuhafar eiga enga kröfu á slíku, og gera enga kröfu um slíkt.  Það eina sem þeir fá upp í sínar kröfur eru eignir þrotabúanna, og ekki króna umfram það (og að sjálfsögðu alls ekki úr ríkissjóði).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 18:30

19 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Gott!

Axel Þór Kolbeinsson, 29.4.2009 kl. 18:41

20 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Takk fyrir að taka tíma í að skrifa þessa ítarlegu fundargerða og setja á netið.

Vilhjálmur, þetta er ekki alveg svona einfalt. Nýju ríkisbankarnir eru búnir að taka miklar eignir út úr þrotabúum gömlu bankana. Nýju bankarnir tóku þessar eignir yfir með ákveðnum afföllum, talað er um 50%. Rætt er um að nýju bankarnir hafi yfirtekið eignir fyrir 4.000 milljarða.

Þú tekur ekki eignir út úr þrotabúi nema greiða fyrir þær. Sætta erlendu kröfuhafarnir þar að auki sig við að ríkið yfirtak þessar eignir með 50% afslætti?

Ef nýju bankarnir tóku eignir fyrir 4.000 milljarða út úr þrotabúum gömlu bankana með 50% afföllum þá þurfa þeir í öllu falli að greiða þessum erlendu lánadrottnum 2.000 milljarða fyrir þessar eignir. Þetta er skuld sem skrifast á ríkið þar sem þetta eru ríkisbankar.

Þessar tölur sem Tryggvi Þór er að kynna okkur og hefur verið að kynna okkur frá því í haust, þó mig langi til að trúa þeim þá fæ ég ekki dæmið hans til að ganga upp, því miður.

Þá hitti hann Árni hér fyrir ofan naglann höfuðið. Ég er sammála honum varðandi ESB.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 30.4.2009 kl. 01:30

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að þetta sé ekki alveg svona kliippt og skorið, Friðrik.  Í fyrsta lagi, þá eru innistæðueigendur kröfuhafa í nýju bönkunum.  Þeir hafa jú lagt bönkunum til fjármagn að upphæð a.m.k. 1.100 milljarðar, sem auk þess eru tryggðir af ríkinu.  Forgangsmál er því að færa jafnháa upphæð af innheimtanlegum lánum úr gömlu bönkunum í þá nýju.  Ef færa á 4.000 milljarða virði af lánum með 50% afslætti, þá má segja að erlendir kröfuhafar séu að gefa 67% afslátt af sínum hluta, þ.e. tekin eru lán með bókfærða stöðu 3.000 milljarðar í gömlu bönkunum og þau bókfærð á 1.000 milljarða í nýju bönkunum.  Viðfangsefni skilanefndanna er þá að finna "góð" lán að verðmæti 1.100 milljarðar.  Tapist eitthvað af þessum "góðu" lánum þá getur bankinn ekki unnið það upp nema innheimtur af hinum lánunum verði betri en búast má við eða vaxtamunur mjög jákvæður fyrir bankana.

Marinó G. Njálsson, 30.4.2009 kl. 02:05

22 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Friðrik, Marinó lýsir þessu nokkurn veginn rétt.  Nýju bankarnir taka bæði eignir (lánasöfn) og skuldir (innlán) úr þeim gömlu.  Ef yfirteknar eru meiri eignir en skuldir, gefa þeir út skuldabréf á gömlu bankana fyrir mismuninum.  Segjum að yfirtekið sé lánasafn upp á 200m, sem er niðurskrifað í 100m fyrir yfirtökuna.  Á móti eru yfirtekin innlán upp á 80m.  Nýi bankinn þarf þá að gefa að auki út skuldabréf upp á 20m og láta til gamla bankans þannig að þessi færsla komi út á sléttu fyrir hag kröfuhafa.  Nýi bankinn tekur svo áhættuna af því að 100m innheimtist út úr 200m lánasafninu.  Þess vegna er mikilvægt að niðurskriftin sé sem mest, þannig að nýju bankarnir hafi svigrúm til að semja við heimilin og fyrirtækin.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.4.2009 kl. 13:32

23 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Góð samantekt hjá þér Marinó.  Gott innlegg um gæði þingmanna sem eru alltaf konstant.  Prófkjör sjá til þess. 

Var ekki eitt af vandamálunum við þessa nýju banka að allar íslenskar eignir og skuldir voru yfirfærðar en svo kom í ljós að íslenska lánasafnið var bara rusl og íslendingar verri skuldarar en útlendingar?  Þá þurfti að fara að færa ruslið aftur til baka.  Ef þetta er satt þá er ekki svo galið hjá Icesave innistæðueigendum í Hollandi að fara í mál.  Því ef hægt er að færa eignir fram og til baka af hverju ekki skuldir þ.e. innistæður Hollendinga.  Þeir vilja auðvita færa þær til Íslands svo þær séu að fullu tryggðar. 

Þvílíkur uppgangur fyrir lögmenn næstu árin. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 30.4.2009 kl. 16:57

24 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Við getum líka látið kröfuhafana eignast nýju bankana (og sleppt því að láta ríkið leggja fram eigið fé í þá), og málið er dautt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.4.2009 kl. 18:10

25 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Vilhjálmur,

Einmitt en er þetta ekki pólitískt mál?  Ef útlendingar eignast nýju bankanna þá eignast þeir stóran hluta af íslensku atvinnulífi og ráða hvaða fyrirtæki lifa og hver ekki.  Pólitískar stöður bankastjóra og bankaráðs eru þá allar í uppnámi. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 1.5.2009 kl. 07:54

26 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jújú, en þetta eru valkostirnir í stöðunni, svo vega menn kosti og galla.  Auðvitað eiga "útlendingar", þ.e. erlendir kröfuhafar, í reynd stóra hluta af íslensku atvinnulífi, en það er þeim í hag að koma fyrirtækjum aftur í rekstur og reyna að hámarka virði þeirra.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.5.2009 kl. 12:32

27 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Vilhjálmur,

Auðvita væri það best fyrir launþega að erlendir aðilar settu fyrirtækin í góðan rekstur en er það í þágu stjórnmálamanna sem hugsa fyrst og fremst um eigin völd? Ekkert norrænt félagshyggjuríki myndi koma atvinnulífinu hjá sér í hendurnar á flokkspólitísk skipuðum bankaráðum.  Það væri uppskrift á stöðnun, atvinnuleysi og fátækt. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.5.2009 kl. 21:26

28 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sænska ríkið er ekki ennþá komið út úr þeim bankarekstri sem það gékkst inn í árið 1992 til að bjarga bankakerfi Svíþjóðar frá gjaldþroti.

Bra.

Árið 1993 voru umsvif sænska ríkisins (gov. outlay) um 73% af GDP. Big shits happens in various places

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 2.5.2009 kl. 21:33

29 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gunnar,

Góður punktur.  En hvernig stóð sænska ríkið að þeim rekstri sem það "eignaðist".  Hverjir voru látnir reka þessi fyrirtæki?  Hvernig voru þeir valdir og ráðnir og hvernig var stjórn þessara fyrirtæja og banka skipuð?  

Svíar hafa mjög strangar reglur um stjórnarhætti sem eru allt aðrar en gilda hér. 

Ég mundi því bæta við síðustu málsgreinina hjá þér, ...but mostly in Iceland.

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.5.2009 kl. 21:52

30 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Andri.

Þú munt þurfa að spyrja innfæddan Svía að þessu, þeir eru mjög þolinmóðir menn. Ég hef hvorki vitneskju eða þolinmæði í það.

En ég giska á að hluthafafundir hafi verðið mjög fjörugir, til að byrja með. En þetta er náttúrlega örðuvísi í þjóðfélögum þar sem ríkið á hvort sem er næstum allt fyrir - þ.e. í sósíó-kommúnistaríkjum. Þögnin gæti því hugsanlega hafa verið ekki svo verulega lítil á meðan apabúrið hafði völdin.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 2.5.2009 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband