Leita í fréttum mbl.is

Björgun í gegnum fjármálageirann full reynd

Mér sýnist sem fjármálageirinn Vestanhafs vilji blóðmjólka ríkissjóðs Bandaríkjanna eins og frekast er kostur.  Það er þegar búið að dæla yfir 1.000 milljörðum dala inn í kerfið og nú á að bæta 787 milljörðum við, en samt er það ekki nóg.  Er það ekki bara vegna þess, að hinir gírugu bankamenn ætla að sjá hve mikið þeir geta sogið upp úr ríkiskassanum?

Þetta er alveg dæmigert fyrir menn sem hafa allt niður um sig.  Þeir eru búnir að rýja fyrirtæki sín inn að skinni með röngum ákvörðunum, pýramídasvindli og ofurlaunum.  Og í staðinn fyrir að vinda sjálfir ofan af dellunni, þá á ríkissjóður að borga.  Þeir bera sjálfir enga ábyrgð.  Við skulum hafa í huga, að þetta eru sömu menn og keyptu hagstætt mat á skuldabréfavafningum frá matsfyrirtækjunum, bjuggu til svikamyllu með húsnæðislán, fundu upp skuldatryggingar og afleiður til að losna undan eftirliti bandaríska fjármálaeftirlitsins, stofnuðu 12.000 gervifyrirtæki í einni og sömu byggingunni á Bresku jómfrúreyjum og svona mætti lengi telja.  Og hafa þeir flutt peningana til baka?  Nei.  Þeir eru búnir að koma þeim í öruggt skjól, þar sem bandaríski skatturinn nær ekki til þeirra.

Vandi Bandaríkjanna er að því leiti til meiri en hér á landi, að dalurinn er gjaldgengur hvar sem er í heiminum.  Hér getum við gengið út á að flest allar krónur sem gefnar hafa verið út séu því í umferð hér á landi.  Það ætti því að vera auðvelt að finna peningana.  Þetta á ekki við um Bandaríkjadal.  Peningar sem settir hafa verið í umferð í Bandaríkjunum geta verið hvar sem er.  Og það sem meira er, að stór hluti þeirra er í Kína.  Það er jú þangað sem stærsti hluti framleiðslunnar er kominn.  Á leiðinni til Bandaríkjanna kemur reikningurinn við í einhverju skúffufyrirtæki á eyju í Kyrrahafi eða Karabískahafinu og síðan er annar gefinn út sem er 100% hærri.  Mismuninum er stungið undan skatti.  Þetta er það sem við þekktum í gamla daga sem "hækkun í hafi".

En aftur að fjármálageiranum.  Menn fengu létt lost í haust, þegar Lehman Brothers var látinn falla.  Nú treysta menn á að það gerist ekki aftur.  Nýjasta innspýtingin hefur fallið í grýttan jarðveg, eins og sú fyrsta.  Ástæðan er fyrst og fremst sú, að fjármálageirinn vill fá að ákveða sjálfur hvert peningarnir fara.  (Sem er sama vandamál og hér.)  Ég skil alveg tregðu stjórnvalda til þess, þar sem ekki gæfi ég manni, sem er búinn að sólunda peningum af glannaskap í bölvaða vitleysu og krefst ofurauna fyrir að hafa gert, meiri pening til að halda vitleysunni áfram.  En markaðurinn hefur sínar leiðir og nú eins og áður fellur verð hlutabréfa.  Ég tæki þessu ekki alvarlega, þar sem menn jafna sig á vonbrigðunum.

Líkt og hér, þá verður málum ekki bjargað með því að dæla peningum inn í fjármálafyrirtækin.  Lausnin felst í því að bjarga heimilunum og framleiðslufyrirtækjunum.  Bankarnir jafna sig á einhverjum mánuðum eða árum.  Síðan eiga að gilda sömu lögmál um banka og aðra atvinnustarfsemi.  Standi hún ekki á eigin fótum, þá á bara að loka.  Það verður að vingsa út þá sem geta staðið sig og láta hina flakka.  Þeir sem tapa á þroti fjármálafyrirtækjanna eru fyrst og fremst þeir sem hafa verið iðnastir að beita öllum tiltækum ráðum til að skara eld að sinni könnu.  Þetta er aðilarnir sem hafa eignast allt í krafti áhrifa sinna innan fjármálageirans og alþjóðlegu auðhringanna.  Þetta eru þeir sem sogið hafa til sín allt fjármagn í stærstu svikamylla allra tíma.  Segir ekki: "Sek bítur sekan" eða á ensku "That goes around, comes around".  Mér sýnist sem komið sé að skuldaskilum og fjármálageiranum í Bandaríkjunum verði ekki bjargað nema menn þar samþykki að fara í stærstu afskriftir og skuldajafnanir sem sögur fara af.  Það voru ekki  múhameðstrúarmenn frá Mið-austurlöndum sem felldu bandaríska hagkerfið.  Nei, það voru hvítir, miðaldra, bandarískir fjármálakarlar sem séu um það og gerðu það með stæl.


mbl.is Obama staðfestir aðgerðaráætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Staðreyndin er sú að bankar geta ekki þrifist ef allir aðrir eru blankir.

Offari, 18.2.2009 kl. 00:35

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Starri, það er náttúrulega stóri punkturinn hjá mér.  Og það sem meira er að samneysla hrynur líka og þar með allar stoðir samfélagsins.

Marinó G. Njálsson, 18.2.2009 kl. 00:42

3 Smámynd: Gerður Pálma

Ofneysla hefur verid ´hraðfara´sjálfsmorð hins vestræna efnahagskerfis til fjölda ára.  Heimsyfirráð byggt á ´sustainability´´hefur verið byggst á ´eat or be eaten´  Offramleiðsla frá Asíu þar sem heiðarleg vinnulaun þekkjast ekki, verði þrýst neðar og neðar, barnaþrælkun fordæmd en við tímum ekki að greiða  foreldrum mannsæmandi laun.  Hinn vestræni heimur hefur verið að éta upp allt sem fyrir er nú er okkur illt í maganum, hættum þessu endalausa voli, minnkum neysluna, sveltum út ´ríku´aumingjana.  Obama er að reyna sitt besta, hann hefur augljós markmið og vonandi tekst honum að stjórna hvert þetta fjármagn fer sem verið er að veita út í ameríska kerfið. Ameríka telur yfir 200.000 milljónir manns, Ísland telur ca.300.000 og ekki bólar á neinni aðgerð til atvinnusköpunar sem framtíð landsins byggir á, sama hver flokkurinn er, ENGINN ÞEIRRA er með áætlun til uppbyggingar, og ekki hef ég lesið eitt eða neitt í þá áttina alla þessa mánuði sem vonleysið er að buga þjóðina.  Það þarf að skipta um ´stoðir´ þjóðfélagsins, neyslan nagar þær til falls.  Uppbygging áhugaverðra verkefna eflir samkennd og framfarir.  Fólk sýnist vera að týna sér í að endurtaka endavitleysuna og kjósa sama klíkukerfið enn og aftur í stað þess nýta tækifærið og byggja nýtt heiðarlegt kerfi þar sem framfarir eiga sér von.

Gerður Pálma, 18.2.2009 kl. 01:07

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gerður, ég er ekki að gagnrýna Obama, bara benda á að þessi peningar fara ekki til fjármálageirans eingöngu, eins og fyrri pakkar.

Ég tek undir með þér að það vantar allt hugmyndaflug og bara yfir höfuð tillögur frá stjórnvöldum og stjórnmálamönnum.   Ég setti inn nokkrar færslur í október og nóvember um þessa hluti og hefði gjarnan viljað að unnið hefði verið út frá slíkri hugmyndafræði. Hér eru tvær, en í dálkinum hægra megin eru fleiri:

25.10.2008:  Á hverju munu Íslendingar lifa?

6.11.2008:  Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum

Marinó G. Njálsson, 18.2.2009 kl. 09:07

5 Smámynd: Hjalti Tómasson

Sæll Marinó

Ég er ekki hagfræðimenntaður og enginn fjármálamaður nema í þeim skilningi að við félagarnir, bankinn minn og ég, rekum í sameiningu litla eign sem bankinn í sjálfu sér á en ég borga.

Segðu mér, er ekki rétti tíminn núna til að stofna banka ?

Ég sé fyrir mér nokkra öfluga aðila sem með samskotum og hjálp frá alþingi og ríkinu gætu sett á fót peningastofnun byrjaði með hreint borð og nyti, í ljósi aðstæðna og afreksferils annarra bankastofnanna, trausts almennings. Þessi stofnun hefði afmarkað starfssvið þ.e. lánafyrirgreiðslu innanlands til einstaklinga og fyrirtækja í skapandi rekstri, þ.e. rekstri sem býr til verðmæti og þá helst útflutningsverðmæti en það er kannski útfærsluatriði.

Þeir aðilar sem að þessu gætu komið væru til dæmis lífeyrissjóðir, verkalýðshreyfingin, samtök atvinnulífsins, ríkið og ef til vill einstaklingar. Einnig mætti hugsa sér að aðkoma að þessum banka yrði í formi erlendrar aðstoðar ( í ljósi stöðunnar, sjáðu )

Þessum banka væri gert að starfa á grundvelli sjálfbærni en ekki með einhver geggjuð hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Þessi banki væri laus við ýmislegt sem þjakar viðskiptabankana eins og marmaragólf, 120 fermetra skrifstofur á besta stað í bænum og Bens og Lexus.

Útibú þyftu ekki að vera mörg, sirka eitt í hverjum landsfjórðungi en meginreksturinn yrði í gegnum netið. Honum yrði stýrt af bankamönnum ( já ég sagði bankamönnum en ekki sjálfskipuðum fjármálasnillingum án nokkurrar reynsu eða almennrar skynsemi ) sem hefðu þokkaleg laun en hefðu skýrt markaða ábyrgð.Ég þarf ekki að taka fram að allar starfsreglur bankans yrðu gegnsæjar og hverjum sem væri aðgengilegar. Bankinn lánaði að sjálfsögðu eftir viðskiptalegum forsendum en ekki pólitískum eða vinsamböndum.

Bankanum yrði síðan, af eigendum sínum, skipuð stjórn. Ég sé fyrir mér að hún væri að hluta skipuð úr hópi eigenda en að hluta af utanaðkomandi aðilum, helst erlendis frá. Þannig ætti að vera nokkuð tryggt að enginn einn aðili næði þar meirihluta til að fara að ráðskast og eyðileggja þessa fallegu mynd.

Fleiru gæti ég bætt við þessa hugmynd en læt hér staðar numið og þykir víst sumum nóg.

Vonandi fyrirgefur þú mér hvað ég spyr barnalega, en væri þetta raunhæft ?

Hjalti Tómasson, 18.2.2009 kl. 23:34

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hjalti, ég hef heyrt alls konar vangaveltur upp á síðkastið.  Ein er sú leið að stofna banka, önnur að stofna lífeyrissjóð, þriðja að stofna stéttarfélag og loks þessi hugmynd að stofan stjórnmálaflokk.  Allar eru þessar hugmyndir góðra gjalda verðar.  Kosturinn við að byrja á hreinu borði er að það er jú hreint.  Ókosturinn er að þurfa að byggja allt upp frá grunni mjög líklega með takmarkaðri þekkingu og takmörkuðu fjármagni.  Ég hef bent á að betra væri að beina viðskiptunum til einhverrar stofnunar sem er fyrir.  Finna einhvern sparisjóð á landsbyggðinni sem hefur staðið utan við sukkið og er nokkuð sterkur á sínum stað.  Nú þori ég ekkert að segja til um hvaða sparisjóðir eru í góðri stöðu, en hef í rælni bent á Sparisjóð Svarfdæla.  Þá er það lífeyrissjóðurinn.  Það er líka flókið að stofna lífeyrissjóð, þannig að þá er að finna lítinn sætan lífeyrissjóð sem hefði gott af innspýtingu og er óháður kerfinu hér á SV-horninu.  Þar má nefna Lífeyrissjóð Rangæinga.  Stéttarfélagið er aftur verra mál, þar sem menn vilja tengja það við atvinnusvæði o.s.frv.  Hér þyrfti líklegast að stofna nýtt.  Loks er það stjórnmálaflokkurinn.  Flokkarnir inni á þingi eru búnir að skammta sér eyðslufé og því er betra að leita til eins af þeim.  Frjálslyndir standa veikast og líklegast þarf minnst til að gera hallarbyltingu þar.  Það er líklegast um seinan fyrir kosningarnar í vor, en ef menn lauma sér skipulega inn í flokkinn, þá þarf ekkert voðalega fjölda á nokkrum mánuðum til að tak'ann yfir.

Þetta er náttúrulega allt í gríni sagt, en öllu gríni fylgir nokkur alvara.

Ég hef svo sem séð í fjölmiðlum, að atvinnulífið og jafnvel lífeyrissjóðirnir séu að velta fyrir sér stofnun banka.  Það tekur langan tíma að fá tilskilin leyfi og bankinn hoppar ekki fullskapaður fram.  Þó menn fari af stað núna, þá tekur það örugglega 12 - 18 mánuði að koma viðskiptabanka með fulla virkni af stað.  Þess vegna getur verið betra að taka yfir starfandi stofnun.  Vissulega væri hægt að kaupa nokkur útibú út úr gömlu/nýju bönkunum, en það þarf samt að byggja upp innviðina.  Ef ég væri orðinn örvingla, þá held að Sparisjóður Svarfdæla væri bara góður kostur.  Það er jú hægt að nota alla sparisjóði á landinu til að leggja inn og taka út.

Marinó G. Njálsson, 19.2.2009 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband