Leita í fréttum mbl.is

Veðmál á veðmál ofan

Mér sýnist sem ákveðinn hluti íslenska fjármálageirans sé haldinn slæmri spilafíkn.  Það hefði kannski verið betra að leyfa fjárhættuspil hér á landi og skapa þeim sæmilega lokað umhverfi til að leggja sitt eigið líf í rúst, en láta okkur hin í friði.  Það kemur svo sem ekki fram í frétt mbl.is hvort að bankarnir voru með í því að taka "stórfelldar stöðutökur gegn íslensku krónunni"  bara haft eftir heimildarmanni að

..það haf[i] komið á óvart hversu háum fjárhæðum fjárfestingafélög, innlend og erlend, hafi verið tilbúin að veðja á að íslenska krónan myndi veikjast.

Ég feitletraði það sem mér fannst skipta máli.  Nú er spurningin hver þessi innlendu félög voru og hvort eitthvað af þessum samningum enduðu hjá bönkunum, þ.e. hvort bankarnir voru virkir þátttakendur í þessu eða bara eðlilegur milligönguaðili.

Annars var ég að horfa á mjög forvitnilega fréttaskýringu í 60 minutes í gærkveldi, þar sem fjármálamarkaðnum var bara lýst sem jafn ómerkilegri veðmálastarfsemi og íþróttaveðmálum.  Þeir sem ekki komust að kjötkötlunum til að versla með pappírana sjálfa, stóðu í veðmálum um þróun þeirra.  Þetta er svo sem ekkert annað en ég hef oft verið að tala hér um í tengslum við skuldatryggingarálag og starfsemi vogunarsjóða en þessi eftirlitslausi markaður er búinn að leggja hátt í 600.000 milljarða USD undir (516.000 milljarða USD í CDO og 56.000 milljarða í CDS).

Ég hef margoft bent á að regluverk fjármálakerfisins þarfnist verulegrar yfirhalningar.  Í upplýsingaöryggismálum erum við með í grunninn tvær reglur:

  1. Allt er leyft sem er ekki sérstaklega bannað
  2. Allt er bannað sem er ekki sérstaklega leyft

Fjármálageirinn virðist hafa verið stilltur á reglu 1 undanfarin ár og ekki bara það, hann hefur verið undir eigin eftirliti.  Hvað á ég við með því?  Jú, það þarf ekki annað en að fara inn á vefsvæði Fjármálaeftirlitsins til að sjá, að eftirlitsskyldir aðilar eiga að skila fleiri tugum skýrslna á hverju ári í gegnum rafrænt skilakerfi.  Hjá FME starfa 53 starfsmenn (samkvæmt upplýsingum á vefsvæði).  Ég leyfi mér að efast stórlega um að FME hafi haft burði til að sinna eftirlitsskyldu sinni.  Raunar var ég svo efins um það í vor, þegar stofnunin sendi frá sér enn eitt sjálfsmatsformið, að ég sendi þeim póst, þar sem ég bauð fram þjónustu mína við að aðstoða stofnunina við að sannreyna upplýsingarnar.


mbl.is Veðjuðu á veikingu krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eignastýring bankanna hvatti viðskiptavini sína til að selja erlendan gjaldeyri sl. sumar, á sama tíma og þeir sjálfir tóku stöðu á móti krónunni.  Núna á (orðrómur) að bjarga bankafólki frá lánum sem það tók til hlutafjárkaupa, öðrum á ekki að bjarga, aðrir þurfa hinsvegar að borga fyrir björgunina til viðbótar við þess að leysa sín eigin vanddamál.  Þetta á að gera til að koma í veg fyrir að nýju bankarnir þurfi að láta þetta fólk fara vegna þess að það má ekki vera með gjaldþrota einstaklinga í vinnu í bönkum.  Ég vissi ekki að það væri neinn sérstakur skortur á ógjaldþrota bankamönnum/konum.

Bjorn (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 09:47

2 identicon

Rétt hjá þér Marinó. 

Taktu núna eftir hvað Baugsmiðilinn DV fer mildum höndum um þetta stórmál.  Eins og hvað þeim er nú annars uppsigað við hann Davíð Oddsson, greyið.  Vitna í frétt þeirra.

".....Flestir samninganna eru milli tveggja aðila á markaði sem bankarnir hafa milligöngu um. Um er að ræða útgáfu afleiðutengdra skuldabréfa, í flestum tilfellum, þar sem ávöxtunin vex eftir því sem krónan veikist. Viðskipti sem þessi eru í fullu samræmi við lög og reglur...."  Hér voru stóryðin spöruð. 
http://www.dv.is/frettir/2008/11/3/vedjudu-veikingu-kronunnar/

Sjáðu einnig fréttina um að Jón Ásgeir komi Íslandi til hjálpar, já og þetta er ekki grín eins og ég hélt fyrst.  Þarna brosir hann út að eyrum sjálfur Jón Ásgeir á hinum Baugsmiðlinum, Fréttablaðinu og á vefsíðum Vísis.
http://www.visir.is/article/20081101/VIDSKIPTI06/905353957&SearchID=73334934492289
Var það annars ekki Baugur sem fékk stóran hluta af Icesave peningunum að láni ?  Minnir að hafa séð hann draga með fjármálamanninn Green til Viðskiptaráðherra þar sem hann af stórhug hugðist greiða tæp 5% af þessu meðan restin félli á almenning hér eða á enska sparifjáreigendur.
Núna er hann búinn að kaupa nánast alla fjölmiðla á Íslandi nema Viðskiptablaðið sem ég held sé í eigu Existu hversu lengi sem það fyrirtæki tórir. Hann á þá Árvak og Morgunblaðið.  "Rauðsól" .... hmmm líkist það ekki flokkstákni Samfylkingarinnar? 
Það er væntanlega ekki gróðavon sem rekur hann til að kaupa upp fjölmiðlanna, eða hvað?  Það var eins gott að forsetinn og Samfylkingin stoppaði fjölmiðlafrumvarpið.  Nú fáum við væntanlega sannleikann á borðið frá Baugsmiðlunum,  hehe...

Það er kannski ekkert skrítið að almenningur lætur margoft pissa yfir sig eða hvað?

Gunn (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 09:52

3 Smámynd: Kári Harðarson

"Áhættufjárfestir" og "Fjárhættuspil" eru hugtök sem eiga mikið sameiginlegt.  Menn hafa alla tíð látið glepjast af slíkum spilum.

Það er ekkert skrýtið að stjórnvöld hafi reynt að takmarka útbreiðslu  fjárhættuspila því þau eru karakter skemmandi.  Þegar menn spila með annara manna peninga er málið þeim mun alvarlegra.

Það verður að borga sig að vinna heiðarlega vinnu, annað er ávísun á upplausn samfélagsins.

Verst hvað "græðgi er góð" er orðin viðtekin mantra í þjóðfélaginu.  Ef okkur tekst ekki að vinda ofan af þessu gæti það boðað endalok vestrænnar menningar.

Kári Harðarson, 3.11.2008 kl. 10:11

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held, Kári, að við verðum að fara að sækja aftur í gömlu góðu gildin.  Í gamalli bók sem Gretar Fells þýddi og var fyrst gefin út hér á landi 1937 segir:

  1. Útrým metnaðargirni.
  2. Útrým lifsþorsta.
  3. Útrým makindalöngun.
  4. Starfa eins og þeir, sem metnaðargjarnir eru. Ber virðingu fyrir lífinu eins og þeir, sem þrá það.  Ver hamingjusamur eins og þeir, sem lifa fyrir hamingjuna

Síðan segir í skýringu:

Metnaðargirnd er frumbölið - hinn mikli freistari þess manns sem tekinn er að skara fram út meðbræðrum sínum.  Hún er endurgjaldslöngun í sinni einföldustu mynd.  Greindur maður getur villzt hvað eftir annað frá hinum æðri möguleikum sínum, af hennar völdum. En þó er hún nauðsynlegur fræðari...hún færir mönnum að lokum heim sanninn um það,.., að allt starf fyrir hið aðgreinda sjálf hlýtur að leiða til vonbrigða.

Þetta hafa lengi verið hluti af lífsgildum mínum, þó það hafi ekki alltaf tekist vel að fylgja þessu.  En ég held að stærsta vandamál og samfélags sé sjálfsmikilvægi (e. self importance).  Ég hef oft sagt, að störf mín hjá fyrirtækinu, sem ég og konan þín unnum hjá, hafi verði mín besta lexía í að losa mig við self importancið í mér, þar sem þar var alltaf til yfirmaður sem var tilbúinn að eigna sér heiðurinn af því sem ég gerði vel og kenna mér um eigin misgjörðir. 

Vandamál fjármálakerfisins er held ég að hluta af sama meiði, þ.e. menn voru alltaf að sanna sig með nýjum afrekum og skipti þá engu á hvers kostnað þessi afrek voru.  Nú efast ég ekkert um að menn meintu vel og töldu sig bara vera að taka þátt í "leiknum" samkvæmt leikreglum hans, en yfirsást að "leikreglurnar" voru rangar.

Marinó G. Njálsson, 3.11.2008 kl. 10:50

5 identicon

Held að það séu tvöfalt fleiri að vinna hjá Fiskistofu við eftirlit o.fl. en hjá FME.  Það gæti skýrt bankarhrunið.........bankarnir voru nefninlega aðeins stærri og flóknari en sjávarútvegurinn.

Darkhorse (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 277
  • Frá upphafi: 1680565

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband