Leita í fréttum mbl.is

Góð "við hefðum átt að hlusta"-umfjöllun

Það er gott að sjá svona samantekt á fréttum fyrri ára.  Sérstaklega fannst mér áhugavert að sjá tilvísunina í "of stór til að láta riða til falls eða of stór til að verða bjargað?" í umsögn Royal Bank of Scotland.  Málið er að þetta segir allt sem segja þurfti.  En hverjir áttu að bregðast við?  Átti Kaupþing að bregðast við og draga úr vexti sínum eða var það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks sem áttu að bregðast við?

Ég er ekki í vafa um svarið:  Það voru stjórnvöld sem áttu að bregðast við.  Þau áttu að setja fram kröfur um að innlán sem hlutfall af útlánum þyrftu að ná alþjóðlega viðurkenndum mörkum.  Þau áttu að auka bindiskyldu til að minnka útlánamargfaldarann.  Þau áttu að efla hlutverk Fjármálaeftirlitsins og gefa því auknar valdheimildir.  Þau áttu að setja skorður við því hve mikið bankarnir gætu aukið innlán erlendra ríkisborgara, sem ekki eru búsettir á Íslandi, á reikninga sem eru á ábyrgð Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.  Þetta voru allt aðgerðir sem Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks áttu að grípa til.

Icesave er vafalaust stærsti skandallinn í þessu öllu.  Ekki það að hugmyndin var stórgóð og átti að bæta það atriði sem kemur fram í umsögn Dresdner Kleinworth Wasserstein að hefðbundin innlán væru of lágt hlutfall af útlánum.  Það var bara framkvæmdin sem var röng.  Í Bretlandi geta eingöngu þeir, sem eru með fasta búsetu í landinu, lagt inn á breska innlánsreikninga. (Þetta hefur komið fram í umfjöllun breskra fjölmiðla.)  Þetta er gert til þess að aðilar búsettir erlendis geti ekki fengið greiddar út ábyrgðir breskra stjórnvalda vegna þessara reikninga.

Ef maður skoðar lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, þá kemur dálítið forvitnilegt í ljós. Lögunum var breytt með lögum nr. 108/2006 dagsett 14. júní 2006 (sjá greinar 92 - 94) og inn í þau bætt heimild fyrir aðild erlendra útibúa innlendra fjármálafyrirtækja.  Það kemur sem sagt ekki bara í ljós að ríkisstjórnin átti að vita af ábyrgð sjóðsins gagnvart icesave, hún heimilaði það og hreinlega hvatti til þess.  Það þýðir ekkert fyrir menn að segja "þetta bara gerðist", þar sem þetta gerðist með vilja og vitund síðustu ríkisstjórnar!  Ríkisstjórnin opnaði hliðið fyrir Landsbankann að setja á fót icesave með lögum nr. 108/2006.  Það var greinilegt að menn hugsuðu ekkert út í hvað þeir voru að leyfa.


mbl.is Baksvið: Viðvörunarljósin leiftruðu í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Bragason

 Evrópska efnahagssvæði var inn í lögunum frá 1999 en ekki EFTA og Færeyjar.  Setningin sem sett var inn 2006 var þessi:[Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum.] En var svona í lögunum frá 1999:[Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu.] 3. gr. Aðilar að sjóðnum.     Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum. Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi fyrirtæki, hér eftir nefnd aðildarfyrirtæki, bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans umfram lögbundin framlög til sjóðsins, sbr. ákvæði 6. og 7. gr. Fjármálaeftirlitið skal halda sérstaka skrá um aðildarfyrirtæki. Ótrúlegt að það virðist aldrei hafa orðið nein umræða um þetta atriði á Alþingi þ.e. skuldbindingar á ESS svæðinu öllu og hvert sú skuldbinding gæti leitt okkur ef allt færi á versta veg, þingmenn einfaldlega sváfu á verðinum eða hugsuðu ekki málið til enda.

Brynjólfur Bragason, 25.10.2008 kl. 17:35

2 identicon

Takk fyrir góða umfjöllun Marinó og viðbót Brynjólfs er til frekari áréttingar.

Maður veltir stundum fyrir sér lobbyisma, er hann sterkur á Íslandi? Lögum breytt í júní 2006 og fyrsta útibúið opnað í október sama ár. Hvaða varð til þess að lögunum var breytt, kom pöntun? Frá hverjum? Skildu þeir sem afgreiddu málið eins vel og þeir sem pöntuðu?

Tæknilega er þessi breryting "með vilja og vitund síðustu ríkisstjórnar", þó ég efist um að allir sem réttu upp hönd hafi áttað sig á hvað í því fólst. En það er léleg afsökun. Enn erfiðara er að afsaka þær stofnanir sem fara með eftirlitshlutverk eftir að lögin hafa tekið gildi, þar á fagþekking að vera til staðar.

Gestur H (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 19:53

3 Smámynd: Sævar Finnbogason

Ég held að kjarninn sé sá að Icesave hefði geta orðið til strax 2000 lagalega séð og þá háð samþykki tryggingasjóðsins. Vandinn hér liggur í hvernig eftirlit með sjóðnum var háttað (FME sem svaf hér á verðinum sem annarsstaðar) og skipun í stjórn hans er háttað:

" 4. gr. Stjórn og framkvæmdastjóri.

Stjórn sjóðsins skal skipuð sex mönnum til tveggja ára í senn. Viðskiptabankar tilnefna tvo menn í stjórn sjóðsins, sparisjóðir einn mann, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf sameiginlega einn mann og viðskiptaráðherra tvo menn. "

Einnig er óskiljanlegt hvernig mönnum datt í hug þetta:

"II. kafli. Greiðslur í sjóðinn.

6. gr. Innstæðudeild.

Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Nái heildareign ekki lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins sem nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári, sbr. þó viðmiðunarmörk skv. 1. málsl."

En þetta þýðir bara það að ef þessir ágætu bankar okkar, lentu í vandræðum, segjum bara KB væri í innistæðusjóði handbært svona um 1,5% AF INNUSTÆÐUM þeim sem þyrfti að greiða. og hver myndi þá borga restina?

Sævar Finnbogason, 25.10.2008 kl. 22:22

4 Smámynd: Sævar Finnbogason

Þá á ég við að ef sjóðurinn á ekki handbært nema 1% af öllum innistæðum í bönkum er næsta fyrirsjáanlegt að það dugi ekki til að bæta allar innistæður og án efa ekki einu sinni allt sem er undir 1,7 milljónum eins og lögin kveða á um.

Þessum lögum verður að breyta þannig að í framtíðinni verði sjóðnum skylt að eiga fyrir skuldbindingum sínum. Bönkum verði skylt að meta hver tryggingaþörfin er, eftirlit verði haft með því og þeim gert skylt að halda greiða það fé í sjóðinn. Sjóðurinn gæti svo ávaxtað þetta fé með einhverri lágmarks áhættu og bankarnir þá haft tekjur af því í hlutfalli við inneign sína í sjóðnum.

Sævar Finnbogason, 25.10.2008 kl. 22:44

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sævar, vandamál frá upphafi var (og er) að hann er ekki hugsaður fyrir íslenskar aðstæður, þar sem stóru bankarnir þrír vega sem nemur hátt í 90% af öllum innlánum landsmanna.  Sjóðurinn gat því aldrei haft handbært fé til að bregðast við vanda eins af bönkunum, hvað þá allra þriggja.

Marinó G. Njálsson, 25.10.2008 kl. 23:05

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars er áhugavert að lesa umræðuna sem varð á Alþingi þegar frumvarp að lögum nr. 98/1999 var lagt fram.  Þar kemur Guðmundur Árni Stefánsson í ræðustól og spyr viðskiptaráðherra, Finn Ingólfsson:

Herra forseti. Í ljósi þessarar gjörbreyttu stöðu og ljósra áforma ríkisstjórnarinnar um sölu Búnaðarbanka og Landsbanka og raunar þar með einkavæðingu alls fjármálakerfisins hér á landi, þá væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherrans til þess hvað hann telur að mundi gerast ef svo færi að stórar innlánsstofnanir á borð við Búnaðarbankann eða Landsbankann lentu í greiðsluerfiðleikum, nálguðust gjaldþrot, og að þeir sjóðir sem eru lagðir til stæðu ekki nægilega sterkir til þess að rétta hlut þeirra sem eiga fjármagn í þessum bönkum.

Svar ráðherra er síðan:

Ég vil ekki vera að velta því nákvæmlega fyrir okkur hvað gerist ef tiltekin bankastofnun fer á hausinn. Hins vegar er það svo að ef sjóðurinn getur ekki staðið fullkomlega undir öllum skuldbindingum, þá er gert ráð fyrir því að allir þeir sem eiga 1,7 millj. kr. inni í viðkomandi fyrirtæki, viðkomandi bankastofnun, fái það að fullu greitt. En síðan greiddist það sem umfram það er og eftir stæði hjá sjóðnum hlutfallslega ofan á þá upphæð. Þetta er reglan sem sett er. Síðan er gert er ráð fyrir því hvað sjóðurinn þurfi að vera með af peningum hverju sinni og hvað hann eigi að vera með hverju sinni til ráðstöfunar miðað við stærð kerfisins. Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.

Sem sagt, menn vildu ekki gera ráð fyrir því að illa færi.

Svo er líka gott hér að vitna í orð Péturs H. Blöndal í 2. umræðu um málið:

Til þess að hindra það höfum við mjög sterkt bankaeftirlit með þessum fyrirtækjum eins og ég gat um áðan, að mörgu leyti strangara en með innlánsfyrirtækjunum. Síðan er eiginfjárkrafa til verðbréfafyrirtækja sem er mjög há, tugir milljóna, og svo er að auki starfsábyrgðartrygging fyrirtækjanna og lykilstarfsmanna þeirra. Það er því nærri útilokað, herra forseti, að það verði tjón á þessu sviði. Það þurfa þá að koma til nokkuð stórfelld mistök eða misferli sem fer saman við gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis. Þá hafi sem sagt allt bilað, starfsábyrgðartryggingin, eiginfjárkrafan, bankaeftirlitið o.s.frv. Þetta er nærri því útilokað. 

Enn og aftur er öryggi manna slíkt gagnvart bankakerfinu, að það geti ekki klikkað.  Menn vilja ekki gera ráð fyrir hinu óvænta.

Marinó G. Njálsson, 25.10.2008 kl. 23:41

7 Smámynd: Sævar Finnbogason

Það er því nærri útilokað, herra forseti, að það verði tjón á þessu sviði. Það þurfa þá að koma til nokkuð stórfelld mistök eða misferli sem fer saman við gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis. Þá hafi sem sagt allt bilað, starfsábyrgðartryggingin, eiginfjárkrafan, bankaeftirlitið o.s.frv. Þetta er nærri því útilokað

Þetta er nú samt það sem gerðist. Einsog þú segir vandiamálið er að þeir VILDU ekki hugsa um þetta. 

Vonanandi lærum við eitthvað af þessu.

Sævar Finnbogason, 26.10.2008 kl. 01:39

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, ætli Pétur H. Blöndal standi við þessi orð sín í dag?

Annars er það merkilegt, að ég hef í nokkur ár boðið fyrirtækjum og stofnunum þjónustu á svið stjórnunar rekstrarsamfellu.  Því miður er oftast lítill sem enginn áhugi.  Staðreyndin er sú, að allt er fyrirsjáanlegt, þó kannski sé ekki allt fyrirbyggjanlegt.  En ef við leggjum í þá vinnu að sjá fyrir hið óvænta, þá eigum við auðveldara með að kljást við það, þegar það gerist.

Ég vil því enn og einu sinni skora á stjórnir nýrra banka sem annarra að fara strax að huga að stjórnun rekstrarsamfellu.  Í mínum huga er raunar þrennt sem skiptir öllu máli í rekstri fyrirtækis:  Breytingastjórnun, áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu.  Allt annað í rekstrinum fellur á einn eða annan hátt undir þetta þrennt.  Og hvert um sig af þessu þrennu fellur á einn eða annan hátt undir hvort af hinu tvennu. 

Marinó G. Njálsson, 26.10.2008 kl. 02:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband