Leita í fréttum mbl.is

Ákvörðunin kemur ekki á óvart

Ákvörðun Seðlabankans um að breyta ekki stýrivöxtum kemur ekki á óvart.  Ég spáði þessu í færslu minni í sumar (sjá Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?) og fyrir hálfum mánuði (sjá Glitnir breytir stýrivaxtaspá).  Í síðari færslunni færði ég rök fyrir því að raunstýrivextir væru í raun hálfu prósentu hærri en mismunurinn á verðbólgu og stýrivöxtum gæfi til kynna, þar sem 12 mánaða verðbólgutölur næðu í raun og veru yfir 54 vikur en ekki 52 eins og þær ættu að mæla.  Ársverðbólgan væri því í raun og veru 14%, ekki 14,5% eins og Hagstofan segir.

En aftur að ákvörðun Seðlabanka.  Miðað við upplýsingar sem ég hef safnað um stýrivexti og verðbólgu frá 1994 til dagsins í dag, þá hafa raunstýrivextir (þ.e. munurinn á stýrivöxtum og verðbólgu) aðeins á einu tímabili farið niður fyrir 2%.  Þetta gerðist frá nóvember 2001 fram að vaxtaákvörðun í apríl 2002.  Ýmislegt er líkt með þessu tímabili og núverandi aðstæðum, þ.e. þá eins og nú varð veruleg, skyndileg lækkun krónunnar.  Í báðum tilfellum hækkaði gengisvísitalan snöggt um 30 punkta og sveig síðan um 10-15 í viðbót.  Í báðum tilfellum hefur gengisvísitalan náð tímabundnu jafnvægi langt fyrir ofan gamla jafnvægið.  Í báðum tilfellum hefur fylgt mikil verðbólga. Og í báðum tilfellum hafði Seðlabankinn lækkað stýrivexti talsvert nokkrum mánuðum áður en krónan féll.  Lýkur þar samanburðinum.  En ef við getum notað fortíðina til að spá fyrir um framtíðina, þá gæti þrennt gerst á næstu mánuðum:

  1. Verðbólgan lækkar hratt frá janúar 2009 fram í júlí
  2. Stýrivextir lækka hratt allt næsta ár
  3. Krónan styrkist verulega frá nóvember 2008 fram í aprí/maí 2009
Greinendur eru nokkuð sammála um að atriði 1 og 2 eiga eftir að ganga eftir, en þetta með styrkingu krónunnar er í meiri óvissu.  Ekki það, að krónan mun örugglega styrkjast.  Spurningin er bara hvenær það styrkingarferli hefst og hve mikið hún muni styrkjast.  Ef aftur er leitað til sögunnar, þá tók það krónuna síðast sjö mánuði að ná lægstu stöðu.  Það tók krónuna síðan 6 mánuði að vinna til baka helminginn af veikingunni.  Gerist þetta líka núna, þá þurfum við í fyrsta lagi að bíða fram í október eftir að sjá toppinn á gengisvísitölunni, sem gæti þá verið í 175 eða svo, og styrkingin verður varla meiri en svo að gengisvísitalan í apríl/maí 2009 verður eitthvað á bilinu 145 til 150.  Hafi toppinum aftur verið náð í gær, þegar gengisvísitalan skreið tímabundið upp fyrir 170, þá gætum við verið að horfa á gengisvísitölu upp á 140 - 145 í apríl/maí á næsta ári.  En eins og sagt er um ávöxtun:  Ávöxtun í fortíð tryggir ekki sambærilega ávöxtun í framtíð.  Hún getur bara gefið vísbendingar um þróunina.  Það sama á við um gengið og verðbólguna.  Málið er bara, að ótrúlega margt er líkt í hegðun gengis og verðbólgu síðustu mánuði og var á sama tíma árs 2001.
mbl.is Stýrivextir áfram 15,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Johnny Bravo

Atriði 1 og 2 er sama hluturinn af því að ef verðbólgan lækkar þá eru stýrivextir lækkaðir.

Veit ekki hvenær fyrra skiptið sem krónan lækkaði um 30 punkta, ertu að tala um mars 2006 eða mars-maí 2001?

Ég er sammála með að gengið muni styrkjast, verðbólga lækka og svo verða stýrivextir lækkaðir á næstu 24-48 mánuðum, spurning hvenær botninum sé náð. Meðalgildi gengisvísitölu er 125 síðan janúar 2000 og krónan fer að nálgast það hægt og bítandi.

Verðbólgan hefur verið 0,9% á mánuði síðustu 3 mánuði, það eru ekki stórir mánuðir í verðbólgu þannig séð.

Ég held bara að það þýði ekkert að vera alltaf að hækka vexti, ég held að seðlabankinn verði að fara að gefa út skuldabréf uppá 15,5%vexti og þá væri meiri eftirspurn eftir íslenskum krónum og þá myndi krónan styrkjast.

Johnny Bravo, 11.9.2008 kl. 10:51

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það hefur ekki alltaf farið saman að verðbólga lækki og stýrivextir lækki HRATT.  Raunar hefur mörgum sinnum komið fyrir á síðustu árum að lækkun stýrivaxta hefur EKKI fylgt breytingu á vísitölu neysluverðs.  Það er því ekki sjálfsagt að þetta tvennt haldist í hendur.

Gengisvísitalan var um 10 punktum sterkari mánuðina áður en gengið féll 2001 en það var áður en það féll í ár.  Það er kannski örlítil stílfærsla að segja að það hafi fallið um 30 punkta.

Varðandi breytinguna á stýrivöxtum, þá finnst mér vanta upplýsingar frá Seðlabankanum hvað honum finnst vera eðlilegt raunvaxtastig stýrivaxta á svipaðan hátt og hann hefur sett sér verðbólgumarkmið.  Ég hef bent á að þetta raunvaxtastig geti verið á bilinu 2,8 - 3,8% í eðlilegu árferði (svo má deila um hvað er eðlilegt árferði).

Marinó G. Njálsson, 11.9.2008 kl. 11:25

3 identicon

Af því að ég skil þetta ekki og margir hafa sagt að nú sé botninum náð og náð aftur, hvaða forsendur eru fyrir þessum 3 atriðum, nema að þetta sé bara "gut feeling".   Og er ekki vaninn að ef stýrivextir lækka þá fellur krónan með tilheyrandi verðbólgu, er eithvað í kortunum sem segir að núna verði það eithvað öðruvísi?

Ragnar (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 22:18

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ragnar, eins og ég segir:  "Ef við notum fortíðina til að spá fyrir um framtíðina."  Þetta er það sem gerðist frá mars 2001 fram í maí/júní 2002.  Fyrst féll krónan, þá fór verðbólgan af stað og raunstýrivextir féllu.  Það sama er að gerast núna.  Sveiflurnar eru ýktari núna, en þróunin er sambærileg. En við getum aldrei sagt fyrir víst um framtíðina og því eru þetta bara vangaveltur.  "Gut feeling" er oft ekkert lakari spámaður en vönduðustu módel, en þá eru menn yfirleitt búnir að þjálfa eðlishvötina/innsæið.

Ég veit svo sem ekki hvort nokkuð vit sé í þessu hjá mér, en svona sé ég þetta. Skoðum þetta í aðeins breyttri röð:

Krónan:  Eftir að gengið lækkaði fyrst í apríl 2001, þá tók það krónuna 8 mánuði að ná botninum, tæp tvö ár að ná sama gildi og áður en gengisfallið hófst og 14 - 15 mánuði að komast í jafnvægi.  Ef þetta er líka að gerast núna, þá er krónan ekki búin að ná botninum, hún mun ekki endurheimta fyrri styrk (þ.e. komast í GVT 128) fyrr en í fyrsta lagi á fyrri hluta árs 2010 og kemst ekki í sæmilegt jafnvægi fyrr en um mitt næsta ár og það jafnvægi yrði þá í kringum GVT 137.

Verðbólgan:  2001 fór verðbólgan ekki eins hratt út í verðlagið eftir fall krónunnar og núna.  Skýringuna má líklegast finna í því að krónan hafði verið að lækka umtalsvert frá áramótum og því voru kaupmenn líklegast búnir með þanþol sitt.  Við erum að vonast til þess að toppnum sé náð núna, en haldist verðbólga á milli mánaða svipuð út árið og hefur verið síðustu tvo mánuði (0,9%), þá gætum við séð nýjan topp í janúar.  Núna líkt og 2001, þá fór verðbólgan stighækkandi og virðist fyrst og fremst mega rekja það til þess að krónan hélst veik í nokkra mánuði.  En eftir að toppnum var náð í janúar 2002, þá lækkaði hún hratt og var komin niður fyrir þolmörk Seðlabankans (þ.e. 2,5%) í nóvember 2002. Heimfærum þetta á núverandi ástand og við þurfum að bíða fram í október 2009 eftir því að sjá slíka tölu.

Stýrivextirnir.  Eins og ég hef bent á áður, þá snýst þetta annars vegar um nafnstýrivexti og hins vegar raunstýrivexti.  2001 voru stýrivextir mjög háir áður en krónan fór að lækka og eftir að hún byrjaði að lækka lækkaði Seðlabankinn stýrivexti.  Og eftir í framhaldi af því að aðeins hægði á verðbólgunni í október 2001, þá greip Seðlabankinn tækifærið og lækkaði stýrivextina aftur.  Helsta skýringin á því, er að menn hafi ekki búist við seinni gengisdýfunni sem kom í byrjun nóvember 2001.  En þetta varð til þess að raunstýrivextir voru mjög lágir (undir 2%) fimm mánuði í röð.  Það virtist hafa virkað, þar sem verðbólgan hjaðnaði hratt, nafnstýrivextir lækkuð snarpt, en raunstýrivextir hækkuðu aftur.  Færum þetta yfir á núverandi ástand hægt verður að hefja lækkun stýrivaxta strax í nóvember um 0,5%, um 1% í febrúar, 2% í mars og 2-3% í apríl. Munurinn á 2002 og núna er að við erum með annan seðlabankastjóra sem gæti talið farsælla að gera þetta öðruvísi.

Varðandi spurningu þína um það hvort gengið lækki ekki, ef stýrivextir lækki.  Nei, við eigum ekki að þurfa að óttast það af þeirri einföldu ástæðu gengið er að leita að nýju jafnvægi á sama tíma (er í nokkurs konar afréttingu eftir slæmt fyllerí) og því munu aðrir þættir vega þyngra varðandi stöðu krónunnar, en vaxtaskiptasamningarnir sem hafa dálítið stjórnað genginu.  Annað sem mun skipta máli, er að menn munu að öllum líkindum sætta sig við lakari ávöxtun á næstu mánuðum/árum þar sem ávöxtunarmöguleikar verða almennt ekki eins góðir í fármálaheiminum og áður.  Menn verða að sleikja sárin og munu því leita meira inn í peningabréf, ríkistryggð bréf þó þau séu með tiltölulega lága vexti og trygg skuldabréf banka og opinberra aðila.  Krónubréfin hafa hingað til verið mjög traust bréf, þ.e. þau eru hátt metin af matsfyrirtækjum og útgefendur hafa staðið við sínar greiðslur.

Svo gæti náttúrulega öllu þessu verið hleypt í uppnám með einu gjaldþroti eða svo.

Marinó G. Njálsson, 12.9.2008 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband