Leita í fréttum mbl.is

Verðbólga sem hefði geta orðið

Það var í einmánuði 2001 að Seðlabanki Íslands ákvað að setja gengið á flot og taka upp verðbólgumarkmið til að stjórna peningamálum.  Af einhverri ástæðu ákvað Seðlabankinn að nota hina séríslensku vísitölumælingu með húsnæðiskostnaði sem viðmið í staðinn fyrir að nota alþjóðlega viðurkenndar og samanburðarhæfar aðferðir við að mæla verðbólguna.  Vissulega er rík hefð hér á landi að nota þessa vísitölumælingu og vísitala með og án húsnæðis stóðu í svipuðu gildi á þeim tíma, þ.e. í 206,5 með húsnæðisliðnum og 205,0 án hans.  Vandamálið er og var að hún var og er hvergi notuð í nágrannalöndum okkar og ekki innan Evrópusambandsins.  Það var því rangt af Seðlabankanum að nota vísitölu með húsnæðisliðnum sem viðmið sitt.  Þessi ranga ákvörðun hefur haft ansi margt neikvætt í för með sér. Það sem gerðist á næstu mánuðum og árum eftir að þetta verðbólguviðmið var tekið upp, var svo sem ekki með öllu fyrirséð, en margt hefði farið á annan veg ef verðbólga hefði verið mæld án húsnæðisliðar.

Þróun vísitalna

Mismunurinn á breytingum á þessum tveimur vísitölu er ótrúlegur á síðustu 7 árum.  Vísitala með húsnæðislið hefur hækkað úr 206,5 í 300,3 eða um 45,4% meðan vísitalan án húsnæðisliðar hefur farið úr 205 stigum í 269,6 eða um 31,5%.  Reikna má með því að hluti þessarar hækkunar sé afleidd hækkun vegna fyrri vísitöluhækkunar.

Á tímabilinu frá apríl 2001 til apríl 2008 hefur verðbólga samkvæmt viðmiði Seðlabankans verið 68 sinnum (af 85 mánuðum) yfir verðbólgumarkmiði bankans og því kallað á aðgerðir bankans við stjórn peningamála (sjá nánar athugasemd nr. 6 við blogg mitt 11.4.).  Eina tímabilið sem verðbólga með húsnæði hefur verið innan markmiða Seðlabankans er frá nóvember 2002 til apríl 2004.  Ef notast hefði verið við vísitölu án húsnæðis, þá hefði verðbólga aðeins mælst 39 sinnum yfir verðbólgumarkmiðum, þar af 17 fyrstu mánuðina meðan markaðurinn var að venjast þeirri breytingu að krónan væri á floti.  Næst fór verðbólga án húsnæðis óverulega upp fyrir verðbólgumarkmið á tímabilinu frá júní til desember 2004, þá í ,,bankakreppunni fyrri" frá maí 2006 til apríl 2007 og loks síðustu 3 mánuði.

Hvað hefði farið á annan veg?

En hverju hefði það breytt fyrir íslenskt efnahagslíf, ef verðbólgumarkmið Seðlabankans hefðu stuðst við vísitölu án húsnæðisliðar.  Í fljótu bragði virðist mér það vera eftirfarandi:

  1. Stöðugleiki væri í íslensku efnahagslífi. 
  2. Stýrivextir væru á bilinu 3 - 5%.
  3. Hækkun á markaðsverði húsnæðis hefði ekki farið jafnmikið út í verðlag í formi afleiddra hækkana og verðbólgumæling án húsnæðisliðar hefði verið ennþá lægri.  Verðbólgan núna stæði í kringum 1,2% í staðinn fyrir 10,6% (11,8%).
  4. Íslenska krónan stæði traust og gengisvísitalan væri í kringum 120, ef ekki lægri.  Það teldist góð staða, þar sem verðbólga á Íslandi hefði verið með lægsta móti á Evrópska efnahagssvæðinu samhliða góðum hagvexti.
  5. Hinn mikli hagvöxtur hefði skilað sér betur til samfélagsins, en ekki brunnið upp í verðbólgu.
  6. Kaupmáttur launa hefði haldist góður sem hefði leitt af sér meira jafnvægi á vinnumarkaði.
  7. Verðtryggð lán hefðu hækkað óverulega (1,5 - 2% á ári) fyrir utan tímabilið frá apríl 2001 til ágúst 2002 og síðan frá maí 2006 til apríl 2007, þar sem hækkunin hefði numið 6 - 10% í hvort skipti.  Raunar er ekki víst að ,,bankakreppan fyrri" hefði orðið jafn skörp og raun bar vitni.
  8. Skuldir heimilanna hefðu aukist minna, m.a. vegna minni áhrifa af verðbótaþætti lána.  Þessi áhrif gætu numið 20 - 30%, m.a. vegna afleiddra áhrifa.
  9. Þjóðfélagið hefði ekki verið jafn berskjaldað fyrir lausafjárkreppunni og raun ber vitni, þar sem gengi krónunnar hefði verið sterkt af eigin rammleika, en ekki vegna vaxtastefnu Seðlabankans.  Spákaupmennska með vaxtamunasamninga hefði því ekki haft þær afleiðingar sem við höfum mátt horfa upp á síðustu mánuði.  Jöklabréfin hefðu ekki komið til.
  10. Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja væri þeim mun hagstæðara og talsverðar líkur væru á því að þetta hagstæða umhverfi hefði laðað hingað erlenda aðila til frekari fjárfestinga.
  11. Staða ríkissjóðs væri ennþá sterkari en raun ber vitni.

Búið og gert

Það er náttúrulega um seinan að horfa á þetta þessum augum.  Þetta er búið og gert og verður ekki aftur tekið.  Þessi íslenska sérviska að mæla verðbólgu á annan hátt en gert er í kringum okkur hefur reynst þjóðarbúskapnum dýr.  Það getur vel verið að aðrir hafi sýnt þessari mælingu áhuga og hún sé ekki svo vitlaus, en hún hefur skekkt allan samanburð.  Í samfélagi þjóða er samanburðarhæfni mjög mikilvæg.  Hún hefur líka skekkt samkeppni, þar sem ósamanburðarhæf mælingin hefur gert það að verkum að stýrivextir hafa verið hækkaðir upp úr öllu valdi sem dregið hefur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.  Í 33 mánuði á tímabilinu frá ágúst 2002 til apríl 2008 hefur Seðlabankinn talið sig hafa ástæði til að halda stýrivöxtum uppi, þegar í reynd hann hefði ekki þurft þess.  (Teknir allir mánuðir á þessum tímabili þar sem vísitala neysluverðs án húsnæðis var undir 3%, en vísitala með húsnæði yfir 3%.)  Þarna fór Seðlabankinn á mis við tækifæri til að styrkja hagkerfið og auka stöðugleika þess, en í staðinn ýttu aðgerðir hans undir óstöðugleika.  Fyrst varð vaxtamunurinn til þess að gengið styrktist meira en góðu hófi gegndi og undanfarna mánuði hefur hann stuðlað að veikingu krónunnar (að hluta vegna spákaupmennsku).  Hvorugt af þessu hefði gerst á jafn öfgakenndan hátt og raun bar vitni ef stýrivextir Seðlabankans hefðu verið nær stýrivöxtum seðlabanka í nágrannalöndum okkar.

Hvað er framundan?

Stóra spurningin núna er hvort þetta verðbólguskot sé liðið hjá.  Það er ýmislegt sem bendir til annars.  Í fyrsta lagi, þá er húsnæðisliðurinn ennþá að halda uppi 12 mánaða vísitölumælingunni.  Það mun líklegast halda áfram fram á mitt ár og þá mun verðbólgan fara hægt og sígandi niður á við.  Þetta ræðst þó mikið af þróun gengis.  Haldist krónan veik áfram (yfir 140 stigum), þá munu áhrifin vara lengur.  Hækki gengi krónunnar tiltölulega hratt, þannig að gengisvísitala fari í um 130 á næstu 4 vikum, þá munum við sjá verðbólgutölur í kringum 6% með haustinu.  Síðast þegar gengisvísitalan fór í 150 (þ.e. í nóv. 2001), þá hélst verðbólga (án húsnæðisliðar) yfir 6% fram í maí 2002.  Eftir gengislækkunina á vormánuðum 2006, hélst verðbólgan án húsnæðisliðar yfir 5,5% fram í febrúar 2007.  Það er því ljóst að svona verðbólguskot það mælist lengi, þó svo að verðbólga milli mánaða lækki hratt.

Þegar jafnvægi verður náð á húsnæðismarkaði, þá verður líklegast tímabært að breyta verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, þannig að miðað verði við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar.  Slík mæling endurspeglar mun betur raunverulega breytingu á útgjöldum heimilanna en vísitala með húsnæðisliðnum.  Ekki gera ráð fyrir að það gerist fyrr en eftir 3 - 5 ár.  Um sama leiti er skynsamlegt að leggja af verðtryggingu lána.  Hún er barn síns tíma og þó hún hafi átt rétt á sér í kringum 1980, þá eru aðstæður allt aðrar í dag.  Þó verðtryggð lán hverfi, þá er ekki þar með sagt að ekki megi nota vísitölur til viðmiðunar við alls konar útreikninga.  Ýmsir hafa haldið því fram að verðtrygging sé nauðsynleg fyrir lífeyrissjóðina, en ég held að það sé ekki rétt.  Sjóðirnir þurfa áfram að ávaxta fé sitt eins vel og hægt er og reikna síðan áunnin réttindi sjóðfélaga út frá því.  Verðtrygging hefur ekki komið í veg fyrir skerðingu réttinda né stuðlað að hækkun þeirra.  Það hefur alfarið ráðist af því hve góðir stjórnendur sjóðanna hafa verið í að ávaxta eigur sjóðanna/sjóðfélaganna. Þeir sem ég þekki til (og þekki nokkuð marga) hafa verið einstaklega góðir í gegnum tíðina, þó síðasta ár hafi kannski ekki gefið sömu ávöxtun og árin þar á undan.  En við skulum muna að þetta er langhlaup, ekki spretthlaup.


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Segðu mér Marinó:

Er það verkefni Seðlabankans að stýra vísitölum eða reyna að sjá til þess að verðlag á þeim hlutum sem við erum að versla daglega hækki ekki óþarflega?

Ef það er að stýra vísitölum þá getur þú leikið þér að því að taka hina og þessa hlutina úr vísitölunni - þú getur svo sem tekið húsnæðið út þegar það hækkar (þó að langstærsti hluti allavega minna tekna fari í að borga húsnæðið) og svo gætirðu tekið út bensínið með þeim rökum að Seðlabankinn geti ekki stýrt heimsmarkaðsverði á olíu - en það breytir því ekki að við þurfum að kaupa okkur þak yfir höfuðið og við þurfum bensín á bílana.

Með því að segja að það hefði átt að taka húsnæði út úr vísutölu neysluverðs ertu að segja það eigi bara að takast á við hluta af þeim verðhækkunum sem eru að hrjá þjóðfélagið.

Vandamálið er alls ekki hvernig við mælum verðbólgu - vandamálið að þessu eina stýritæki sem hefur verið beitt á hana hefur alls ekki virkað á meðan aðgengi að fjármagni var jafn auðvelt og raunin var.  Davíð hefði getað hækkað stýrivexti upp í 150% og bankarnir hefðu haldið áfram að fjármagna sig í Evrum.  Á meðan var  öðrum stýritækjum ekki beitt (eins og t.d. bindiskylda bankana) eða beitt í öfuga átt (eins og t.d. skattalækkanir/hækkanir)

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 13:09

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Steingrímur, það sem ég er að segja, er að á meðan Seðlabanki Íslands hefur bara sömu stýritæki og aðrir seðlabankar, þá er mikilvægt að hann sé að stýra sambærilegum hlutum.  Meðan seðlabankar í nágrannalöndum okkar eru að stýra verðbólgu sem mæld er með vísitölu án húsnæðisliðar, þá er eðlilegt að Seðlabanki Íslands geri það líka.

Þú mátt heldur ekki gleyma því að stýritæki Seðlabankans eru fleiri en stýrivextir.  Þar eru tvö sem hefði líka verið hægt að nota til að slá á útlánaþenslu bankanna (ef það var markmiðið). Þá á ég við bindiskylduna og áhættustuðul vegna eiginfjárkröfu.  Þessum tveimur stýritækjum beitti Seðlabankinn þannig að það gróf undan áhrifum stýrivaxtanna.  Þetta var eins og að draga úr hættu af óðum hundi með því að herða ólina, en lengja í snúrunni.

Annars er ég bara að skoða hvernig hlutirnir hefðu getað litið út, ef vísitala án húsnæðisliðar hefði verið valin.  Eins og ég segi sjálfur, þá sá enginn þá þróun fyrir sem varð, þó vissulega sé hægt að vera vitur eftir á og segja að breyting til lækkunar á áhættustuðlinum vegna veðlána myndi líklega hafa þessi áhrif.  Það er svo líka alveg öruggt, að seinni lækkunin í mars 2007 var óðs manns æði og verður að flokkast undir hagstjórnarmistök Seðlabankans.

Marinó G. Njálsson, 29.4.2008 kl. 14:29

3 identicon

Í fyrsta lagi erum við klárlega alveg sammála um það að stýritækjum seðlabanka og ríkisstjórnar var fáránlega beitt, hverju á móti öðru.  Það er vandamálið sem við eigum við að etja og því miður er lítið við því að gera núna...

En hvað varðar mælingu á verðbólgu:  Átti Seðlabankinn þá ekki að taka á hækkun húsnæðisverðs?  Átti það bara að fara upp án þess að það kæmi Seðlabankanum við? 

Eða átti Seðlabankinn að nota sín stýritæki - eða öllu heldur þetta eina sem hann notaði - til þess að reyna að stöðva hækkun húsnæðsverðs - þ.e. stýrivextir hefðu hækkað alveg jafn mikið og alveg jafn mikið af jöklabréfum gefin út...  Reyndar tel ég að hin tannlausa stýrivaxtahækkun hafi verið sérstaklega beint að húsnæðismarkaðnum.

Vissulega hefðu verðtryggð lán ekki hækkað jafn mikið ef aðeins hefði verið miðað við vísitölu mjólkur, tóbaks o.þ.h - en hefði það ekki bara þýtt að fólk hefði tekið meiri neyslulán út á íbúðir sínar?  Ekki hefði það bætt ástandið.  Hefði kannski ekki verið mun gáfulegra að tengja húsnæðislán eingöngu við húsnæðisverð þannig að þau hækki - og nú lækki - með breytingum á fasteignamarkaði.  Ef þú kaupir hús fyrir 10 milljónir og íbúðin hækkar um 40% þá hækki lánið með um 40% - og lækki þá um 30% þegar húsnæðisverð lækkar um 30%

Þar fyrir utan held ég að þú sért aðeins að misskilja stýringu annarra seðlabanka, án þess þó ég þori að hengja mig upp á það.  Mig minnir t.d. að danski Seðlabankinn reikni vissulega ekki með húsnæðisverði, en hafi húsaleigu inn í sínum stýringum - en það getur nú ekki talist góður mælikvarði á húsnæðiskostnað á Íslandi að miða við þennan vanþróaða leigumarkað.  En, aftur, þetta gæti verið eitthvað sem ég er að misskilja - það væri samt gott að vita hvort þú sért viss á þessu.

Fyrir mér er allavega stóra málið að það reyni einhver að hafa stjórn á því að verðlag hækki ekki óhóflega.  Húsnæðiskostnaður er c.a. 1/3 af mínum útborguðu launum - og held ég að ég sleppi nokkuð vel.  Þó að beini kostnaðurinn hjá mér komi í slumpum á 5-10 ára fresti (en ég borgi af lánum þess á milli) þá þarf stýriaðilinn að hafa þetta með inni í meðaltali.

Steingrímur (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 16:22

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Steingrímur, það er gott og blessað að Seðlabankinn reyni að halda aftur af hækkun húsnæðisverðs.  Málið er bara að hann gerði það ekki.  Hækkun stýrivaxta hefur ekki áhrif á húsnæðisverð.  Í slíkum viðskiptum eru öll lán verðtryggð eða gengistryggð og stýrivextirnir virka ekkert á þau.  Raunar var það Seðlabankinn sem hleypti húsnæðisverðinu af stað, eins og ég hef oft bent á.  Það gerði hann með því að lækka áhættustuðul eiginfjárkröfu vegna veðlána fyrst niður í 50% (úr 100%) og síðan í 35%.  Auk þess lækkaði hann bindiskyldu bankana úr 4% í 2%.  Með þessu sagði hann við útlánastofnanir:  ,,Nú getið þið lánað 100% meira út á sama eigið fé, ef þið skaffið bara peninga til að lána." 

Málið er að þetta gerðist alls staðar í hinum vestræna heimi, en Ísland var eini staðurinn þar sem þessi hækkun húsnæðisverðs mældist í vísitölu neysluverðs og verðbólgu.  Annars staðar, þar sem húsnæðisverð hækkaði um 50 - 100%, var verðbólgan áfram 1 - 2%, þar sem hækkun húsnæðisverðs kom ekki fram í verðbólgutölum.  Erlendir seðlabankar sáu ekki ástæðu til að bregðast við hækkun húsnæðisverðs af neinum þunga og hugsanlega er það að koma í bakið á okkur í dag með fyrirsjáanlegu hruni og lausafjárkreppu.

Húsaleiga er líka inni í vísitölu án húsnæðisliðar hér á landi, þannig að ég er ekki að misskilja neitt í þeim efnum.  Ég kannaði það á vef Hagstofunnar á sínum tíma svo ég væri ekki að bera saman epli og appelsínur.  Síðan er líka til nokkuð sem heitir samræmd vísitala neysluverðs, en hún er eins í öllum þeim löndum mæla hana, þ. á m. hér.  Hún sýnir svipaða þróun og vísitala án húsnæðisliðar þó hún sé ekki nákvæmlega eins sett saman.

Marinó G. Njálsson, 29.4.2008 kl. 16:50

5 identicon

"það er gott og blessað að Seðlabankinn reyni að halda aftur af hækkun húsnæðisverðs.  Málið er bara að hann gerði það ekki."

En hann var að reyna það!  Og með þessu stýritæki sem skv. fræðunum átti að minnka lánsfé í fasteignakaup en í reynd hafði nákvæmlega engin áhrif á fasteignamarkaðinní raun - en þeim mun meiri á "Jöklabréfin".

Kannski áður en ég held áfram - við virðumst vera svona 90% sammála, en það sem ég er að gagnrýna er að það sé einhverju leiti því um að kenna hvernig komið er fyrir þjóðfélaginu að við notum aðra vísitölu en aðrar þjóðir, eins og ég les út úr innganginum hjá þér.   

Mér sýnist reyndar að þú hafir staðfest meintan misskilning þinn á húsaleiguþættinum.  Hér vegur húsaleiga væntanlega 0,5% af neysluvísitölunni þar sem c.a. 1% íslendinga leigja (eða hvaða prósentur eigi að teljast eðlilegar) - en erlendis vegur hún álíka mikið og fasteignaverðið á Íslandi þar sem a:  Mun fleiri leigja heimili sín og b:  Leiguverð á þessum þróuðu leigumörkuðum erlendis segir mun meira til um hver kostnaður fólks við húsnæði "sitt" er.

Það er ekki hægt að nota sambærilega vísitölur ef fólkið sem stendur á bak við þær hegðar sér ekki á sambærilegan hátt.  Hækkun á húsnæðisverði á Íslandi hefur meiri áhrif á hegðun almennra Íslendinga (þó það geri það í fáum stórum slumpum) á meðan húsaleiga hefur lítil áhrif, en hækkun á húsaleigu í Danmörku hefur áhrif á Danann á meðan hækkun á fasteignaverði hefur minni áhrif (og mælist óbeint inni í hækkun húsaleigu)

Steingrímur (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 17:11

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er hugsanlega rétt þetta með húsaleiguna að hún vegi ekki nægilega þungt í vísitöluneyslu án húsnæðisliðar, en hún ætti að gera það í samræmdri vísitölu neysluverðs.

Af því að þú nefnir Danmörku, þá er leigumarkaðurinn þar allt öðru vísi en hér.  Þar leigir fólk jafnvel fyrir lífstíð eða öðlast leigurétt sem getur gengið í erfðir.  Leigusamningar eru þannig að réttur leigutakans eru gríðarlega miklir og ekki er hægt að hækka leigu bara si svona.  Ekki eins og hér þar sem hægt er með einu pennastriki að hækka leigu um tugi þúsunda og ef leigutakinn maldar í móinn, þá er hann borinn út.  Það verða því engar stórar breytingar á upphæð leigu í Danmörku, þó fasteignaverð breytist um tugi prósenta.  Þar með breytist þessi þáttur vísitölunnar lítið.  Jú, það er rétt að vægi húsaleigu í vísitölu er hærri í Danmörku en hér, en öfgarnir eru meiri hérna, þannig að litla vægið hérna getur samt endað með að hafa meiri áhrif. 

Marinó G. Njálsson, 30.4.2008 kl. 22:17

7 identicon

Sem aftur segir okkur að sú vísitala sem Danir nota til að mæla sína verðbólgu myndi ekki segja til um breytingu á verðlagi á Íslandi.  Danska vísitalan mynd líka ofreikna verðbreytingar á reiðhjólum fyrir venjulegan Íslending og vanreikna verðbreytingar á bílum...

Þess vegna notum við vísitölu sem inniheldur stærra vægi fasteignaverðs - það lýsir betur verðbreytingum sem venjulegur Íslendingur þarf að þola.  Ástæðan fyrir því að húsnæðisverðið hefur svo mikil áhrif inn í vísitöluna sem við notum er sú að húsnæðisverð hefur mikil áhrif á útgjöld okkar - mun meira en hjá þeim sem nota þessa stöðluðu vísitölu.

Þú getur gagnrýnt Seðlabankann og/eða ríkisstjórna fyrir að hafa verið að reyna að stýra húsnæðisverði (og þá sér í lagi að nota svona bitlaust verkfæri til þessi) en að segja að ástæða klúðursins sé að húsnæðisverð er inni í neysluvísitölu er svipað og segja að það sé svo heitt í Florida af því að þeir nota Fahrenheit skala en ekki Celcius - Fahrenheit hentar Floridabúum einhverra hluta betur...

Ég ætla síðan að biðja þig afsökunar á því hversu mikið ég hef herjað á þig og hversu einstrengislega ég hef hljómað.

Steingrímur (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 12:46

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þú þarft ekkert að afsaka.  Öll umræða er af hinu góða meðan menn eru að skiptast á skoðunum. 

Upphaflega innlegg mitt var að skoða hvað hefði geta orðið. Ég tek það fram að menn vissu ekki í mars 2001 að húsnæðisverð myndi þrefaldast í verði á stuttum tíma.  Basel II reglurnar um eiginfjárkröfu höfðu ekki verið gefin út hér á landi, ákvörðun um Kárahnjúkastíflu var ekki endanleg, bygging álvers á Reyðarfirði var ennþá bara á teikniborðinu og útrás íslenskra fyrirtækja var bara rétt hafin.  En eftir á að hyggja, þá hefði Seðlabankinn átt að gera ýmislegt öðruvísi.  Hann þarf því að kryfja aðgerðir sínar undanfarin ár inn að beini til að læra af reynslunni.  Það er mín skoðun að hann hafi ekki alltaf tekið réttar ákvarðanir.  Undir þetta taka mjög margir í málsmetandi aðilar í þjóðfélaginu.

Marinó G. Njálsson, 1.5.2008 kl. 13:23

9 identicon

Já, það er oft auðvelt að vera vitur eftirá og almennt gagnrýnir maður ekki fólk sem lendir í aðstæðum sem það átti ekki von á.  En það er hluti af starfi Seðlabankans og efnahagsmálaráðherra (forsætis?) að skoða aðstæður í þjóðfélaginu (þar með talið ytri aðstæður) og afleiðingar aðgerða sinna.

Var erfitt að sjá fyrir að með 90% lánum íbúðalánasjóðs, innkomu bankanna með auknu aðgengi að lánsfé og samkeppni sveitarfélagana um lóðaúthlutanir myndu hækka íbúðarverð verulega?  Tja - ég segi fyrir sjálfan mig sem vissi um atriði 1 og 3 að þrátt fyrir ótrúlega hækkun árana á undan þá vissi ég haustið 2004 að íbúðaverð myndi hækka enn meira og fjárfesti í íbúð eftir að hafa búið á hinum furðulega íslenska leigumarkaði frá því að ég kom heim frá námi.

Seðlabankinn átti líka að sjá mjög fljótt að stýrivaxtahækkun hafði nákvæmlega engin áhrif á sjúklingin á meðan aukaverkanir byrjuðu hægt að rólega að drepa hann!

Ríkisstjórnin var vöruð við því að skattalækkanir (á þá hæst launuðu) í hámarki þennslu væri mjög óráðlegar þannig að það voru greinilega margir sem vissu hvað var í aðsigi.

Þannig má halda lengi áfram - og þó er ég maður sem hefur atvinnu sína af því að dreifa rafmagni en ekki að stýra efnahaglífi þjóðarinnar...

Ég get því ekki verið sammála að Seðlabankinn hefði átt að gera ýmislegt öðruvísi eftir á að hyggja... hann - og ríkisstjórnin - áttu að gera ýmislegt öðruvísi vegna þess að þar eiga að vera menn sem láta sínar pólítísku skoðanir á því hvernig hlutirnir EIGA að vera ekki trufla sig í því hvernig þeir í raun og veru ERU!

Þetta er ástæðan fyrir því að gengið var komið í fáránlegar hæðir (eða lægðir, eftir því hvorum megin maður mælir) og hlaut að falla og ekkert gekk að stýra verðbólgu - hvernig svo sem hún var mæld ;)

Það hljóta því allir vitrænir menn að sjá að vandinn sem við eigum við að etja er að mestu leiti heimatilbúinn - það var hægt að koma í veg fyrir hann að mestu ef menn hefðu brugðist við því sem auðvelt var að sjá fyrir - ekki bara auðvelt að sjá eftir á..

Steingrímur (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 19:43

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vinn m.a. við að útbúa áætlanir um rekstrarsamfellu (e. business continuity management) og í slíkri áætlun þarf maður að sjá fyrir það ófyrirséða.  Ég tek undir með þér, Steingrímur, að menn hefðu átt að sjá fyrir ýmislegt um það leiti sem ákvarðanir um það voru teknar, en það var allt ákveðið löngu eftir að krónan var sett á flot.  Og ég er að miða við þá tímasetningu.

En varðandi 90% lán íbúðalánasjóðs, þá er þrennt um þau að segja:  1.  Þau voru í boði áður til stórs hóps landsmanna.  2.  Þau voru miðuð við brunabótamat, ekki markaðsvirði.  3. Hámark þeirra var vel innan við 20 milljónir og hefur litið hækkað.  Hallur Magnússon hefur verið óþreytandi að benda á að þessi lán höfðu sáralítil áhrif.  Það voru viðbrögð bankanna við þessum lánum sem höfðu áhrifin.  Við megum ekki gleyma því, að fasteignalán bankanna höfðu verið til staðar í áratugi, en bara á talsvert hærri vöxtum en Íbúðalánasjóður bauð.  Við megum heldur ekki gleyma því, að bankarnir voru byrjaðir að bjóða gengistryggðlán á lágum vöxtum til endurfjármögnunar á eldri skuldum eða til fasteignakaupa.  Þetta voru bara ekki lán sem var flaggað eða viðskiptavinum almennt bent á.  Það er því bara þægileg söguskýring að 90% lán Íbúðalánasjóðs sé sökudólgurinn.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2008 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband