Leita í fréttum mbl.is

Þegar fortíðin verður nútíðinni yfirsterkari - gamalt bréf til Morgunblaðsins

Ég var að skoða gamlar greinar eftir mig í Morgunblaðinu og rakst á nokkrar sem mig langar að endurbirta hér á blogginu.  Þessi fyrsta birtist undir Bréf til blaðsins þriðjudaginn 7. júlí 1992.  Eins og oftar voru þá þrengingar í þjóðarbúskapnum, enda hafði þorskurinn brugðist. Viðeyjarstjórnin (stjórn Sjálfstæðismanna og Alþýðuflokks) var ný tekin við stjórnartaumunum og menn voru að veigra sér við að taka á málunum.  Hljómar kunnuglega!  Nú erum við aftur með stjórn Sjálfstæðisflokks og jafnaðarmanna, þorskurinn hefur aftur brugðist og enginn vill taka af skarið enda öðrum en þeim að kenna.  Sumt í greininni á ekki við ástandið núna, en ansi margt samt.

Þegar fortíðin verður nútíðinni yfirsterkari

Um síðustu áramót [innsk. 1991-92] bað Morgunblaðið nokkra áberandi einstaklinga í íslensku atvinnulífi að segja hug sinn um ástandið í þjóðfélaginu.  Af öllum þeim fjölda sem rætt var við voru aðeins einn eða tveir sem horfðu á ástandið út frá lausnum, hinir kepptust við að barma sér yfir vandamálinu sem þá blasti við.  Í sumarbyrjun braut aftur á íslensku atvinnulífi þegar í ljós kom að búið var að ganga fullnærri þorskstofninum.  Og hver voru þá viðbrögðin?  Jú, menn kepptust við að barma sér.

Það hefur oft verið viðkvæðið að menn verða að barma sér til að hljóta ekki öfund annarra.  Svo rammt kveður að þessu, að það er sama hversu vel gengur, alltaf eru menn að kvarta.  Sumir hafa jafnvel fengið það orð á sig, að þeim takist örugglega að væla útaf öllu.  Svo loksins þegar illa gengur er maður alveg hættur að trúa því að illa gangi.  Það er búið að kalla úlfur, úlfur of oft.

Annar stór galli er þetta að benda alltaf á næsta mann.  Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn eru bræður sem leynst víða í þessu þjóðfélagi.  Náskyld þeim er Eiginhagmunavarslan og Fyrirgreiðslukarl, par sem þrifist hefur með ágætum víða í þjóðfélaginu.

Þjóðarskútan er búin að steyta á nokkrum skerjum nýlega og áhöfnin virðist upptekin við að varpa ábyrgðinni yfir á aðra.  Skipstjórinn bendir á gamla skipstjórann og segir að þetta sé nú allt honum að kenna (þó vandamálið sé að hluta til miklu eldra en það).  Skipsverjarnir kenna matsveininum um að það hafi minnkað svo mikið í búrinu að skammta þarf matinn.  Það kemur málinu ekkert við að þeir hafa borðað of mikið á milli mála.  Að sjálfsögðu krefjast allir að þeirra kostur sé látinn óskertur, vegna þess að þeirra starf er svo mikilvægt og þeir verði að halda fullum kröftum.  Enginn snýr sér að því að þétta götin, svo skútan sígur sífellt neðar og neðar.  Þar með kemst skútan ekkert áfram og kosturinn minnkar.

Allir horfa á manninn í brúnni og bíða eftir að hann gefi fyrirmæli.  Hann virðist helst horfa upp til himna og bíða eftir kraftaverkinu.  Einn og einn yfirmaður reynir að koma með tillögur, en helst virðist sem þeir tali fyrst og hugsi svo.  Þegar þeir átta sig á að hlutirnir eru ekki eins og þeir héldu reyna þeir að breyta raunveruleikanum svo hann falli að þeirra orðaforða í staðinn fyrir að bæta nýjum orðum í safnið sitt.  Og viti menn, vandamálið hverfur ekki.  Furðulegt nokk!

Eftir að þorskurinn ,,hvarf" hafa menn verið að keppast við að finna einhvern sökudólg.  Kvótakerfið er gjarnan nefnt og því kennt um.  Fiskifræðingar fá líka ádrepu, en samt halda sjómenn því alltaf fram að það sé miklu meiri fiskur í sjónum en fiskifræðingar hafa reiknað út.   Aumingja fiskifræðingarnir urðu að fá fína sérfræðinga utan úr hinum stóra heimi til að koma með svartsýnisspá, svo sægreifarnir og [kvóta]kóngarnir tækju nú einu sinni mark á spám þeirra. ,,Já, auðvitað er það fiskifræðingunum að kenna að þorskurinn ,,hvarf".  Ég notaði bara stóru fínu, tölvustýrðu ryksuguna mína til að ná honum og ef hann slapp í fyrsta umgang, fékk ég mér bara sterkari mótor á ryksuguna og þá slapp hann sko ekki."

Vissulega verða þingmenn og hagsmuna[aðilar] að gæta þess að umbjóðendur þeirra beri ekki skertan hlut frá borði, en það er líka heilög skylda þeirra að sjá hið stærra samhengi.  Þetta snýst um margt meira en fáein tonn af þorski eða byggðapólitík.  Þetta snýst um að skoða vandamálið út frá hagsmunum allra.  Hugsa fyrst og tala svo.  Sætta sig við að sumar lausnir eru góðar, þó þær séu í pólitískri andstöðu við manns eigin vilja.  Það vill nefnilega brenna við að bara er horft á eina hlið og viðfangsefnið afmarkað út frá því.

Það voru gerð mistök.  Viðurkennum þau og reynum að læra af þeim.  Vissulega væri gott að finna einhvern sökudólg, en hvar stæðum við hin þá?  Vandamálið er enn þá til staðar þó svo að vitsmunalegar skýringar hafi fengist á því.  Og lausnin er jafn langt í burtu.

Skyldi einhver annar hafa lent í svipaðri stöðu?  Getum við lært af eitthvað af reynslu annarra?  Eða er kannski sterkasti leikurinn að muna nú vandlega hvaða mistök við gerðum?  Það er nefnilega mannlegt að gera mistök, því miður virðist það ofurmannlegt að læra af þeim. 

Við höfum áður staðið í sporum kreppu og [fyrirsjáanlegrar] stöðnunar.  Það hafa önnur þjóðfélög lent í þessu...Kannski eru önnur svona tilfelli.  Ef einstaklingar geta lært hver af öðrum, hvað kemur þá í veg fyrir að þjóðfélög geti lært?

Einstaklingur í tilvistarkreppu leitar gjarnan á ný mið.  Hann afmarkar líf sitt upp á nýtt.  Þeir sem læra af reynslunni öðlast þroska, hinir gera sömu mistök aftur.  Þjóðfélag í tilvistarkreppu getur líka róið á ný mið, en fyrst og fremst þarf það að skilgreina stöðu sína og stefnu, annars vegar inn á við og hins vegar meðal þjóða heims.  Hvar getum við keppt og náð árangri?  Höfum við eitthvað fram að færa sem enginn annar hefur?  Getum við boðið betur en einhver annar?  Mörg fyrirtæki hafa einmitt uppgötvað mikilvægi þess að aðgreina sig til að ná markaðslegri sérstöðu þegar illa hefur árað.

 

----

Svo mörg voru þau orð um mitt ár 1992.  Það er ótrúlegt hvað sagan endurtekur sig, því margt sem átti við 1992 á við núna 16 árum seinna.  Vissulega höfum við skotið fleiri stoðum undir þjóðfélagið og við höfum reynt að læra af reynslu annarra, m.a. Nýsjálendinga.  Skipstjórinn er búinn að víkja fyrir nýjum, en fór ekki langt því nú er hann í stöðu yfirhafnsögumanns og stjórnar með harðri hendi allri umferð inn og út úr höfnum svo mörgum finnst nóg um.  Skipsverjarnir harma hlut sinn misjafnlega, en allir vildu þeir gjarnan fá meira.  Ástand þorskstofnsins hefur versnað, ef eitthvað er, og útgerðarmenn eru alltaf jafn hissa á því, þrátt fyrir að veiðiskipin séu öflugri og betur búin en nokkru sinni fyrr, svo örugglega sé hægt að ná öllum fiski í sjónum.  Þó eitthvað hafi breyst, þá er lygilega margt alveg eins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Marinó. Það væri full ástæða til þess að birta þessa grein aftur nú.

Sigurður Þorsteinsson, 18.4.2008 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband