11.4.2008 | 13:26
Er þetta trúverðugt bókhaldsfiff?
Það er áhugavert að sjá hvernig hægt er að breyta okkur Íslendingum úr stórskuldugum áhættufíklum í skynsama fjárfesta með einu pennastriki. Ég er alls ekki að vefengja útreikninga hagfræðings Seðlabankans, en spyr af hverju var ekki búið að gera þetta fyrir löngu og er það trúverðugt í þeirri umræðu sem á sér stað að koma með þessar tölur núna? Er ekki hætta á að erlendir aðilar líti á upplýsingarnar sem tilraun til að fegra ástandið á ósanngjarnan máta og jafnvel með brellum. Eina stundina eru skuldirnar 109% af vergri þjóðarframleiðslu en hina 27%. Það getur meira en vel verið að útreikningarnir réttir, en maður birtir ekki svona pælingu í miðri fjármálakreppu nema búið sé að búa markaðinn undir að breyting standi fyrir dyrum og þá er það gert án þess að birta hver áhrifin af breyttri mælingu eru. Auk þess get ég ekki séð að þetta sé gott PR trix hjá Seðlabankanum, þar sem að nú hljóta menn að vefengja fleiri útreikninga frá bankanum í gegnum tíðina. Vil ég þar fyrst nefna útreikning á viðskiptahallanum, en greiningardeildir bankanna hafa oft bent á tiltekið misræmi í þeim útreikningum. Næst má taka verðbólgutölur sem eru ekki samanburðarhæfar við verðbólgutölur í nágrannalöndum okkar.
Það er eiginlega hræðilegt til þess að hugsa, að allar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans undanfarin ár, hafa verið til þess að ráðast gegn verðbólgunni. Stór hluti verðbólgunnar hefur verið vegna hækkunar á verði fasteigna og vegna hækkunar á vöxtum lána til fastaeignakaupa. Ef markaðsverð íbúðarhúsnæðis hefði ekki verið inni í vísitölumælingunni, þá hefði verðbólgan mælst vel innan við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Raunar kveður svo rammt við að dæmi eru um verðhjöðnun á milli mánaða í stað 4 - 5% verðbólgu. Afleiðingin hefur verið hærri stýrivextir sem síðan hefur leitt af sér hærri verðbólgu. Því miður er ekki hægt að breyta þessu með einu pennastriki og vinda ofan af öllu sem á undan er gengið. En ég vona samt að mönnum detti ekki í hug að taka húsnæðisþáttinn út nú, því þá fáum við ekki að njóta stöðnunar/lækkunar á húsnæðisverði í verðbólgumælingum næstu mánuði.
En það var fleira sem gerðist í gær niðri í Seðlabanka. Það kom yfirlýsing frá bankanum að bankinn þyrfti ekki að taka lán til að bjarga íslensku viðskiptabönkunum. Þeir stæðu vel og væru sjálfbjarga. Kveður þarna í annan tón en undanfarin ár, þar sem Seðlabankinn hefur verið óspar á gagnrýni á útþenslu bankanna og áhættusamar fjárfestingar þeirra. Aftur hlýtur maður að spyrja um trúverðugleika bankans. Er það trúverðugt að harðasti gagnrýnandi útlána-, fjárfestinga- og útþenslustefnu bankanna komi nú og segi þá vera í góðum málum? Mér þætti það ekki trúverðugur kennari sem gagnrýndi nemanda sinn fyrir slæleg vinnubrögð við verkefnavinnu, en gæfi honum síðan 10 fyrir verkefnið, þó svo að nemandi hafi hunsað gagnrýni kennarans. Ég verð að viðurkenna að viðsnúningur Seðlabankans lítur ekki vel út í mínum augum. En ég er, jú, bara vitlaus öryggisráðgjafi í Kópavogi.
Ekki lengur skuldugasta þjóð í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 23.4.2008 kl. 15:24 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 1679976
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Það stingur alltaf svolítið í stúf að sjá fólk tjá sig með þessum hætti. Ég hugsaði allan tímann meðan ég var að lesa bloggið ,,þessi hefur nú ekki mikið vit á hagfræði", svo skýrir þú það sjálfur neðst. Þú veist ekkert hvað er verið að tala um.
Það er alls ekki rétt hjá þér að verðbólga hefði mælst vel innan markmiðs Seðlabanka ef húsn. hefði verið tekið út. Dettur þér í alvöru í hug að menn viti það ekki? Hjá Hagstofu, greiningardeildum, Seðlabanka, á Alþingi og á mörgum fleiri stöðum í þjóðfélaginu? Og ef það væri satt þá hefðu menn brugðist við með það í huga. Vísitala neysluverðs hefur lengi verið mæld bæði með og án húsnæðisverðs. Þær upplýsingar hafa alltaf legið fyrir. Fyrir utan það er ekki einfalt mál að taka bara þann lið út því þá er búið að skekkja viðmiðið. Værir þú t.d. sáttur við það að þú hefðir selt húsið þitt, lagt andvirðið inn á verðtryggðan bankareikning meðan þú værir við störf erlendis eða eitthvað slíkt í t.d. 3-5 ár. Á meðan hefði V.N. verið nánast óbreytt án húsnæðisliðar en húsnæði hefði hækkað 100-150% á meðan. Þá ættir þú nánast sömu upphæð á reikningnum en þegar þú ætlaðir að kaupa hús aftur þá þyrftir þú að bæta annarri eins upphæð við, eða meira, bara til að geta keypt þér alveg eins hús aftur. Þú ert búinn að tapa í raun sömu upphæð og þú seldir húsið fyrir á sínum tíma.
Finnst þér það vera verðtryggður reikningur? Það gleymist alltaf í umræðunni um verðtryggingu að hún er fyrst og fremst hugsuð sem trygging fyrir því að sparifé fólks og annarra brenni ekki upp.
Varðandi útreikn. Seðlabankans þá eru þetta fullkomlega eðlilegir útreikningar en er að vísu sett þannig fram að gert er ráð fyrir því að þeir sem lesa það viti sitthvað um bókhald. Sem dæmi um þetta þá seldi FL-Group Icelandair út úr félaginu á sínum tíma. Bókfært virði Icelandair var um 8 milljarðar. Raunvirðið hins vegar var um 40-45 milljarðar. Þetta eru bókhaldsreglur. Ef aðeins er farið eftir bókhaldsreglunum þá var virði eignar FL-Group 8 milljarðar. En ef skoðað var raunvirðið (sem fékkst síðan fyrir það þegar það var selt á markað) var yfir 40 milljarðar.
Hvor útreikningurinn finnst þér eðlilegri þegar menn eru að reyna að komast að raunréttri stöðu FL-Group í þessu dæmi?
Það er bara þetta sem Seðlabankinn gerir, nákvæmlega þetta og það er skýrt tekið fram. Það miðast hins vegar við að þeir sem lesi viti eitthvað um bókhald. Þú ættir að vera skynsamari en það, að halda í fáfræði þinni, að Seðlabanki Íslands viti ekki hvað hann er að gera þegar hann sendir svona frá sér.
Þó þú skiljir þetta ekki, þá ættir þú að geta sagt þér það sjálfur að þeir skilja þetta og vita alveg nákvæmlega hvað þeir eru að setja frá sér. Þeim er fullkomlega ljóst hvað þetta er og þeir sem lesa þetta og vita eitthvað um bókhald, er líka fullkomlega ljóst hvað þetta er.
Bókhald (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 14:25
Ágæti "Bókhald"
1. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur undanfarin ár verið langtímum saman undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans. Það eru staðreyndir.
2. Ég var ekki að setja út á endurútreikninginn. Mér finnst hann raunar mun skynsamari aðferð en fyrri aðferð, þar sem þá er tekið tillit til verðmætabreytinga á samahátt og tekið er tillit til breytinga á höfuðstól lána. Það sem ég var að segja er þetta: Þegar stofnun eins og Seðlabankinn hyggur á breytingar á grundvallarforsendum sínum, þá tilkynnir hann fyrirfram að slíkar breytingar standi fyrir dyrum og skýrir út af hverju slík breyting á sér stað með tilvísun í fordæmi, gagnrýni á fyrri aðferðir eða reikningsskilareglur. Þetta gerir hann án þess að birta niðurstöður útreikninga. Jafnframt er tilkynnt að breytingin taki gildi frá og með, segjum, næstu útgáfu Peningamála. (Hafi það verið gert, þá á gagnrýni mín ekki rétt á sér.) Svo líða 4 mánuðir og nýtt tölublað Peningamála er gefið út og endurreiknuð skuldastaða er birt. Með þessu gefst öllum aðilum á markaði færi á að kynna sér nýju aðferðina og það er vitað fyrirfram að breytingin standi fyrir dyrum.
3. Verðtrygging er barn síns tíma og hefði átt að vera búið að leggja hana af fyrir langa löngu. Hún er ein af megin ástæðum óstöðugleikans sem ríkt hefur hér á landi undanfarna áratugi, þar sem hún ýkir allar sveiflur. Vissulega er mjög gott að geta lagt peningana sína inn á verðtryggðan reikning og vita fyrirfram að maður fái sömu verðmæti út og maður lagði inn. En innlánastofnanir eru alveg færar um að reikna nafnvexti þannig út að með þeim myndist raunvextir yfir langan tíma. Og á sama hátt geta útlánastofnanir gert hið sama. En að hægt sé að tryggja sig svo gjörsamlega, að innlán og útlán gefi alltaf raunvexti er séríslenskt fyrirbæri (eða a.m.k. mjög fátítt úti í hinum stóra heimi). Það er út í hött að þessi þáttur einn haldi alltaf verðgildi sínu meðan allt annað í þjóðfélaginu er frátengt slíkri mælingu.
4. Hækkun húsnæðisverðs undanfarin ár er að mestu leiti af tveimur ástæðum. Önnur er að húsnæðismarkaðurinn var gjörsamlega sveltur af lánsfé áður en Íbúðarlánasjóður hækkaði lánin sín í 90% og í kjölfarið komu bankarnir inn með sín lán. Söluverð eigna var undir byggingarkostnaði. Hin er að mikil umframeftirspurn hafi myndast í kerfinu. Bæði var að þjóðinni fjölgaði hratt (m.a. vegna erlendra verkamanna sem hingað fluttu) og skortur var á nýju húsnæði. Um leið og losnaði um lánsfé hjá bönkunum, þá fór stór hópur fólks af stað sem búið hafði í of litlu húsnæði og leitaði sér af stærra húsnæði. Meiri eftirspurn veldur yfirleitt hærra verði. Húsnæðismarkaðurinn átti inni mikla hækkun haustið 2004. Þessi hækkun kom kannski óþarflega skart inn á markaðinn, en það er bara íslenska aðferðin. Við þurfum að gera allt með trukki. Hluti af ástæðunni er að bankarnir höfðu mjög mikið ónýtt rými til útlána gegn fasteignaveði. Það helgast af því að í júní 2003 breytti Seðlabankinn reglum um eiginfjárhlutfall. Þessum reglum var breytt aftur í mars/apríl 2006 og aftur jókst rými bankanna. Þú kannski manst eftir því að þá gekk hækkunarbylgja yfir húsnæðismarkaðinn. Hækkanirnar á húsnæðismarkaðinum sýna verðteygni markaðarins. Yfirleitt á verðteygni sér stað í kringum tiltekinn jafnvægispunkt, en þegar eingöngu reynir á teygnina í eina verður það oftast til þess að nýr jafnvægispunktur finnst. Það gerðist á íslenska fasteignamarkaðinum. Nú verður spennandi að sjá hvort þessi kreppa sem við erum að ganga í gegnum um þessar mundir muni leiða til þess að nægilegt tog myndist niður á við til að lækkun á húsnæðisverði verði varanleg (þar til næsta bylgja fer af stað). Mér finnst óeðlilegt að svona leiðrétting á fasteignaverði (sem hafði komið fram í húsaleigu fyrir lengri tíma) mælist jafn skarpt í vísitölu neysluverð. En mér finnst ekki tímabært að taka þá tengingu út núna.
5. Ég skil þetta alveg og hef m.a. tekið ýmsa áfanga í viðskiptafræði, auk þess sem lokaverkefni mitt við Stanford háskóla var með hagfræðilegu ívafi. Ég er að vísu ekki með innsýn hagfræðinga eða þekkingu Seðlabankamann.
6. Ég sé að það hefur dottið út eitt smáorð hjá mér. Það átti auðvitað að standa (og ég hef leiðrétt það núna) að viðsnúningurinn lítur EKKI vel út...
Marinó G. Njálsson, 11.4.2008 kl. 15:13
1. Vísitala neysluverðs án húsn. hefur ekki sýnt að verðbólga hafi í raun verið undir 2,5% langtímum saman. Þetta eru afar undarlegar fullyrðingar og gott að þú vísaðir þá í gögn henni til stuðnings. Ég vísa svo aftur í það sem ég sagði í dæminu með húsið. Svo ekki sé talað um fé lífeyrissjóðanna.
3. Svo er annað, ef menn vilja afnema verðtryggingu til þess eins að fá út sömu vexti, eins og nú er gert með óverðtryggða vexti til skemmri tíma en 5 ára, hver er þá ávinningurinn af því að fella hana út? Hafa vexti á húsnæði breytilega eins og skammtímavexti, jafn háa og skammtímavexti (eina ástæðan fyrir því að langtímavextir eru miklu lægri er vegna þess að þeir eru verðtryggðir) og þeir miðist svo við sama útreikning og notaður er við útr. á vöxtum á almennum skuldabréfum? Þá hækkar afborgun húsnæðis hreint gríðarlega. Núna væru t.d. um 15-17% vextir á venjulegu húsn.láni.
En hækkun tilkomin vegna verðtryggingar dreifist á allar afborganir sem eftir eru, jafnvel 35 ár ef því er að skipta, en með beinum vaxtaútreikningi fellur það til á hverja greiðslu, sem er brjálæði. Verðtryggingin dregur því mjög úr sveiflum á afborgunum sem eru fyrir vikið miklu lægri per. mánuð.
Þú hefðir átt að lesa aðeins meira í Stanford.
2. Þessi útreikningur er ekki opinber útreikningur Seðlabankans. Þetta er sett fram sem auka upplýsingar af einum hagfræðingi hans. Þar með fellur það um sjálft sig sem þú segir í 2. lið.
4. Ég sé ekki með nokkru móti hvernig þessi lýsing þín á þróun húsn.verðs kemur nokkuð því við sem ég sagði, mér er það full ljóst og flestum öðrum líka, hvernig verð á húsnæði er tilkomið.
5. Það getur bara alls ekki verið að þú skiljir neitt hvað verið er að segja. Þetta er tekið úr morgunfréttum greiningardeildar Glitnis í morgun:
,,Í nýútkomnum Peningamálum Seðlabankans er athyglisverð grein eftir Daníel Svavarsson, hagfræðing hjá bankanum, þar sem leitast er við að endurmeta erlenda stöðu þjóðarbúsins...Telur höfundur greinarinnar að þótt óvissa sé talsverð í þessu mati komist það líklega nær því að endurspegla raunverulega erlenda stöðu en opinberu tölurnar gera. " Það er gífurlegur munur á ,,athyglisverðri grein" og opinberum útreikningi Seðlabanka Íslands. Að auki er það sérstaklega og mjög skýrt tekið fram að um slíkt er EKKI að ræða.
Það s.s. ekki um neina breytingu á útreikningum S.Í. að ræða. Þú hefur misst af einhverjum tímum í Stanford. T.d. rannsóknum á heimildum.
Bókhald (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 15:57
Ágæti "Bókhald"
Með fullri virðingu, þá eru Peningamál ekki bloggsíða eða að hver sem er geti sent inn grein. Það verður að líta á það sem birtist í þessu riti sem eitthvað sem bankastjórn Seðlabankans hefur lagt blessun sína yfir. Þarna er því verið að ýja að stefnubreytingu Seðlabankans varðandi mat á skuldum þjóðarbúsins. Hafi þetta bara átt að vera pæling hagfræðingsins, þá hefði annar vettvangur verið skynsamlegri. Seðlabanki Íslands getur ekki leyft sér að vera með tilraunir eða pælingar í riti eins og Peningamálum. Ég er aftur þeirrar skoðunar að endurskoðun á opinberum útreikningi geti átt rétt á sér, en það þarf að vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilavenjur.
Samræmd vísitala neysluverðs er nokkuð sem er til og þú hefur líklegast heyrt minnst á. Hún er án kostnaðar við öflun eigin húsnæðis, en tekur í staðinn leigukostnað. Hér fyrir neðan má sjá breytingar á henni á tímabilinu frá 1996 til janúar 2005 (tölur fengnar af vef Hagstofu Íslands).
Við þetta má svo bæta að hún var stillt á 100 árið 2005. Gildi hennar fyrir janúar 2006, 2007 og 2008 voru 101, 107,4 og 110,7 sem þýðir hækkun upp á 6,3% milli janúar 2006 og janúar 2007 og 3,1 milli janúar 2007 og janúar 2008. Það þýðir að undanfarin 7 ár hefur þessi vísitala verið 3 ár undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og á síðasta ári innan efri vikmarka. Ég held ég þurfi ekki að segja neitt meira. Gögn Hagstofunnar segja allt.
Þetta með að verðtryggingin dreifist á langan tíma er ein af megin ástæðum fyrir því að stýrivextir Seðlabankans bíta ekki. Stór hluti lána er óháður stýrivöxtunum. Seðlabankinn hefði mun meiri áhrif og tæki hans við stjórnun peningamála mun öflugri.
Það má segja að það hafi verið mjög óheppilegt að lækkun á kröfu um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja hafi átt sér stað svona stuttu eftir að Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið. Þetta olli tveimur slæmum verðbólguskotum, þ.e. fyrst í kjölfar þess að bankarnir ákváðu að taka slaginn við Íbúðarlánasjóð og síðan aftur 2006 í kjölfar þess að áhættustuðull veðlána var lækkaður í annað sinn. (Ég reikna með að þú vitir hvað ég er að tala um.) Eftir á að hyggja hefði verið gott, ef Seðlabankinn hefði aukið bindiskyldu bankanna samfara þessum breytingum á áhættustuðlinum og að hann hefði hækkað stýrivextina. Það gerði hann ekki og það er auðvelt að vera vitur eftir á.
Ég viðurkenni alveg fúslega að ég las bara fréttina en ekki greinina bak við fréttina. En það breytir ekki inntaki innleggs míns, að það er ekki trúverðugt að birta svona grein í miðri kreppunni því hún virkar eins og tilraun til að hvítþvo skuldasöfnunina.
Marinó G. Njálsson, 11.4.2008 kl. 20:39
Það hefur dottið út endir á setningu. Hér átti að standa:
Seðlabankinn hefði mun meiri áhrif og tæki hans við stjórnun peningamála mun öflugri ef ekki væri fyrir verðtrygginguna.
Marinó G. Njálsson, 11.4.2008 kl. 21:04
Svona til viðbótar af vef Hagstofunnar:
Breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1988
Ef þessi tafla er skoðuð kemur í ljós að á tímabilinu júní 2001 til maí 2002 var verðbólga án húsnæðisliðar hærri en ef húsnæðisliðurinn var með, tvisvar (maí 2001 og júní 2002) voru þessar vísitölur þær sömu, en alla aðra mánuði (alls 70 sinnum) frá því að Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið hefur húsnæðisþátturinn aukið verðbólguna. Af þessum 84 mánuðum sem tölurnar ná yfir þá er 12 mánaða verðbólga 17 sinnum jöfn eða undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, en 46 sinnum ef tekin vísitala án húsnæðisliðar. (Þetta kalla ég langtímum saman.) Það mikilvægasta við þessar tölur er að verðbólga án húsnæðisliðar var mjög lítil milli áranna 2006 og 2007 fyrir maí til nóvember.
Annað sem er áhugavert að skoða að það leið rúmlega mánuður frá því að gengisvísitala náði hæsta gildi í nóvember 2001, þar til verðbólgutoppinum var náð. Ef svipað verður uppi á teningnum núna, þá getum við gert ráð fyrir að verðbólgan nái hæstu hæðum í sumar og lækki í fyrsta lagi síðsumars.
Marinó G. Njálsson, 11.4.2008 kl. 21:55
Ég er með nokkurn veginn sömu laun núna og áður en tvö núll voru skorin af krónunni fyrir 27 árum. Skeinipappír nútímans þarf alveg nauðsynlega að afskrifa að mestu eins og hver maður sér. Allar heimsins hártoganarir fá því ei breytt. Það er ekki hægt til lengdar að fela raunverulega verðbólgu (offramleiðslu peninga [skulda]) hún kemur alltaf fram í rýrnandi gjaldmiðli hvað sem opinberri verðbólguhönnun líður.
Baldur Fjölnisson, 11.4.2008 kl. 23:43
Hvað færðu fyrir 0,08 evrur?
Einn skeiniskammt hugsanlega, ef það eru 120 skammtar á rúllunni. Ergo; krónan er nokkurn veginn á pari við skeinipappír.
Baldur Fjölnisson, 11.4.2008 kl. 23:48
Það væri mikið hagræði í að gefa út 50,000 króna seðil og myndi strax leysa öll skeinipappírsvandamál þar sem beinn sparnaður og hagræði væri án efa fólginn í því að eiga alltaf 500 kalla í vasanum. Þetta myndi síðan líka spara gróðurhúsalofttegundir vegna fjölnotkunar pappírs.
Baldur Fjölnisson, 11.4.2008 kl. 23:52
Mér dettur ekki í hug að fela verðbólgu, ef þú ert að túlka orð mín þannig, en hækkun húsnæðisverðs sem varð í nágrannalöndum okkar kom ekki fram í verðbólgu þar á sama hátt og hún gerði hér. Þannig að hefði sömu peningamálastefnu verið beitt þar, þá hefði hún ekki leitt til sambærilegrar hækkunar stýrivaxta svo dæmi sé tekið. Hún hefði frekar leitt til lækkunar stýrivaxta. Síðan má velta fyrir sér hvort lægri verðbólgutölur hefðu haft í för með sér minni hækkun húsnæðisverðs.
Það er áhugavert að sjá að vísitala neysluverð með og án húsnæðis var nokkurn veginn hin sama í apríl 2001 eða 206,5 með húsnæði og 205 án húsnæðis. Núna standa þessar vísitölur í 290,4 og 258,7, þannig að vísitalan með húsnæði hefur hækkað um 83,9 punkta, en vísitalan án húsnæðis um 53,7 punkta. Þetta þýðir að vísitalan með húsnæði hefur hækkað um 56% meira en vísitalan án húsnæðis (eða vísitala án húsnæðis hefur hækkað 36% minna en vísitalan með húsnæði).
Marinó G. Njálsson, 12.4.2008 kl. 10:58
Góð grein og gagnrýnin hjá þér Marínó, eins og við er að búast.
Hrannar Baldursson, 12.4.2008 kl. 11:17
Ég þarf víst að leiðrétta mig aðeins. Ég rita í athugasemd frá 11.4. kl. 20:39 að áhættustuðull hafi verið lækkaður í mars/apríl 2006, en það var gert 3. mars 2007. Það hafði síðan þau áhrif að verðbólga sem hafði farið lækkandi og húsnæðisverð en dregið hafði úr hækkunum þess, að þetta tvennt fór aftur af stað. Við almenningi blasir 9,6% hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu undanfarna 12 mánuði, um 10% verðbólga og 15,5% stýrivextir.
Marinó G. Njálsson, 14.4.2008 kl. 11:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.