Leita í fréttum mbl.is

Rovaniemi og jólasveinninn - glatað tækifæri fyrir Íslendinga?

Á eyjan.is er frétt undir fyrirsögninni Sveinki fluttur frá Finnlandi - hefur 34 míkrósekúndur á hvert barn. Þetta er skemmtileg frétt um ákvörðun einhvers fyrirtækis um að reikna út hvar best væri að sveinki ætti heima, en Finnar halda því fram að hann búi í bænum Rovaniemi.  Ég ætla ekki að fjalla um fréttina, heldur um Rovaniemi sem bæ jólasveinsins.

Ég var staddur í Rovaniemi fyrir réttu ári á ráðstefnu.  Bærinn er höfuðstaður finnska hluta Lapplands. Hann liggur á heimskautsbaug og hafa heimamenn gert nokkuð úr því.  Þaðan eru líka þekktustu Finnar síðasta árs, hljómsveitin Lordi.  Þekktasti íbúi Rovaniemi er þó vafalaust jólasveinninn eða Joulupukin eins og hann heitir víst upp á finnsku (leiðréttið mig ef þetta er rangt stafsett).  Svo langt hafa íbúar bæjarins gengið í að útbúa jólasveininum heimili í bænum að Alvar Alto, arkitektinn heimsfrægi, skipulagði hluta af gatnakerfi bæjarins þannig að ef ákveðnar götur eru lýstar upp, þá mynda þær hreindýrshaus með hornum og öllu.

Ráðstefnugestum var að sjálfsögðu boðið í heimsókn til jólasveinsins, en hann tekur á móti gestum í gestaskála rétt sunnan við heimskautsbaug.  Í nokkurra metra fjarlægð er svo jólaþorpið, þar sem aðstoðarmenn hans hafa komið upp verslunum með alls konar jólavarningi, verkstæði og ýmsu öðru.  Heimskautsbaugur liggur svo um mitt jólaþorpið og hefur verið strengd lína til að sýna gestum og gangandi hvar heimskautsbaugur liggur.  Í gestaboði jólasveinsins mætti maðurinn sjálfur og útdeildi gjöfum með því fororði að við ættum öll að vera stillt og prúð.  Þetta var fín skemmtun og sýnir hvað hægt er að gera með góða hugmynd.

Fyrir hver jól koma þúsundir breskra barna til Rovaniemi.  Umferðin á flugvellinum þar er á við stóran alþjóðaflugvöll á þessum árstíma.  Börnin hafa stutt stopp, en allt er gert til að tryggja að þau viti, að jólasveinninn búi í bænum.  Auk heimsóknar til hans er farið á hreindýrabúgarð og ýmislegt skoðað sem tengist norðlægum slóðum.

Kannski búa Finnar að því að oftar er snjór hjá þeim út við heimskautsbaug, en segjum á Akureyri eða Egilsstöðum að ég tali nú ekki um á Reykjavíkursvæðinu.  Flugvöllurinn þeirra er líka þannig í sveit settur að stutt er að þorpi jólasveinsins.  En markaðurinn er stór og mjög margir telja að jólasveinninn eigi heima á Íslandi (þó Finnar gefi nú ekki mikið fyrir það).  Eigum við að leyfa þeim að eiga jólasveininn eða viljum við keppa við þá?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Marinó.

Skemmtileg pæling og í framhaldi af þvi viðeigandi að benda þér og lesendum á www.snowmagic.is

Það verkefni hefur verið í gangi í Mývatnssveit í nokkur ár, meðal annars í samvinnu við Rovaniemi í Finnlandi. Þar er áherslan reyndar lögð á íslensku jólasveinana og spurning hvort það virkar eða hvort hafa þurfi einn rauðklæddan á svæðinu líka. Margt hefur verið í gangi hjá þeim m.a. ýmis konar útgáfa og minjagripastarfsemi.

Ef bresk skólabörn eru að fljúga til Rovaniemi í stórum stíl væri kanski góður möguleiki að fljúga hluta þeirra á Akureyrarflugvöll eða hreinlega Aðaldalsflugvöll til heimsókna í Mývatnssveitina:)

Víðir Pétursson (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 15:15

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk, Víðir.  Þetta hefur alveg farið framhjá mér.  Ég held að lykill að þessu sé nálægð við flugvöll og góðar samgöngur.

Marinó G. Njálsson, 3.12.2007 kl. 15:23

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fjallaði um jólasveininn og Rovaniemi í sjónvarpspistli fyrir þremur árum, - hafði þá farið sérstaka ferð þangað og um allt Lappland, allt frá suðurmörkum þess í Svíþjóð norður til Alta.

Fyrstu áratugina eftir stríðið streymdu bréf frá Evrópu, einkum Bretlandi, til Íslands, af því að þá hafði því verið slegið föstu meðal evrópskra barna að jólasveinninn ætti heima á Íslandi.

Hér var litið á þetta sem plágu og þótt reynt væri að svara þessum bréfum eitthvað urðu menn dauðfegnir þegar þessu slotaði eftir að Finnarnir hreinlega "stálu" jólasveininum frá okkur.

Til Lapplands koma nú fleiri ferðamenn yfir vetrarmánuðina en allt árið til Íslands. Til sölu eru fjögur atriði: Kuldi, myrkur, þögn og ósnortin náttúra. Allt eru þetta fyrirbæri sem við Íslendingar höfum haldið að væri til trafala fyrir okkur eins og jólasveinninn.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 23:06

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, ég man eftir þessari umfjöllun þinni og því fannst mér það áhugavert þegar mér gafst kostur á að fara þangað.  Mér finnst það oft galli í "nýsköpun" hér á landi, að menn gera aldrei ráð fyrir því að það taki tíma að skila hagnaði.  Annað hvort kemur gróðinn strax eða þetta er vonlaust.  Mér finnst oft vanta þann skilning að fyrirtækjarekstur er langhlaup ekki spretthlaup.

Marinó G. Njálsson, 3.12.2007 kl. 23:31

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka fyrir bloggfærsluna, Marínó. Hún kveikir svo í mér að ég er búinn að setja niður pistil um málið á bloggsíðu minni.

Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 09:32

6 identicon

Sæll Marinó,

Já skemmtilegar pælingar hjá þér og ég get tekið undir það að það er skemmtileg upplifun að heimsækja Rovaniemi og jólaþorpið þeirra. Tala nú ekki um ef þú ferð út úr minjagripaversluninni og heimsækir Santamus og/eða Santa Park sem er reyndar aðeins opin nóv-jan. Í jólaþorpinu er einnig alþjóðleg jólasýning, Christmas Exhibition þar sem Mývatn kynnir íslensku jólasveinana með fallegu handverki, gert af Kristínu Sigurðardóttur, sem og ljósmyndum og videosýningu.
Ég vek athygli á að jólaþorpið sjálft er staðsett 8 km fyrir utan borgina þannig að gestir þurfa að "leggja á sig" að heimsækja jólasveininn og þorpið sjálft. Gestafjöldi þeirra yfir árið er um 500þús, en tæplega 300þús gestir eru að koma frá nóv til janúarloka. Þeir hafa byggt þetta uppá löngum tíma og lagt mikinn metnað og alúð í starfið enda er það svo að góðir hlutir taka tíma!

Ég starfa að Snow Magic verkefninu sem Víðir minnist á, en SM er þriggja landa samstarfsverkefni m.a. með Rovaniemi í Finnlandi.  Í Dimmuborgum í Mývatnssveit er hægt að heimsækja jólasveinana en þeir eru ekki rauðklæddir heldur klæðast glæsilegum íslenskum ullarfatnaði. Stundum má hitta þá alla þrettán, en frá 1. desember og til jóla er alltaf hægt að hitta á jólasvein í Dimmuborgum milli kl. 13 og 15.

Varðandi bréf til jólasveinsins/jólasveinanna sem Ómar minnist á, get ég upplýst að allur póstur sem berst til Íslands og stílaður á jólasveinana fer í Sel Hótel Mývatn og þaðan er öllum bréfum svarað. Á síðasta ári bárust hátt i þúsund bréf.

Á vefsíðunni www.snowmagic.is má sjá allt um jólasveinana í Dimmuborgum sem og verkefnið í heild sinni.

Jóna Matt (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 11:45

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóna, Santamus var því miður lokað þegar við komum (klukkan var orðin svo margt) og því komst ég ekki að skoða það.

Það væri nú gaman að heimsækja ykkur einhver jólin, til að hitta bræðurna, en það er einhvern veginn þannig að það virðist vera minna mál að stökkva á milli landa en milli landsfjórðunga.

Gangi ykkur vel með Snow Magic verkefnið.  Hver veit nema innan nokkurra ára þyki jafn sjálfsagt að heimsækja ykkur í desember og að fara á jólahlaðborð.

Marinó G. Njálsson, 4.12.2007 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 1678162

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband