Leita í fréttum mbl.is

Hvað einkennir góða kennslu og fyrirmyndarkennara?

Á þessu ári eru 10 ár síðan ég hætti í starfi mínu sem kennari og skipulagsstjóri við Iðnskólann í Reykjavík.  Kennsluferill minn hóst í janúar 1992 og entist út árið 1997.  Þetta var mjög góður tími, en til þess að hafa mannsæmandi laun þurfti maður að vinna mun meira en góðu hófu gegndi.  Tvö ár á þessu tímabili náði ég að vinna um 3.600 tíma hvort ár sem er náttúrulega klikkun.  En það var ekki það sem ég ætlaði að fjalla um hér.

Ég tók strax þá afstöðu að kanna hug nemenda minna til kennslunnar í lok hverrar annar.  Fyrstu annirnar notaði ég spurningablöð sem skólinn útvegaði mér, en hin síðari ár ákvað ég að nota aðferðir altækrar gæðastjórnunar, þ.e. að spyrja fyrst nemendurna að því hvaða atriði þeir töldu skipta máli (sem var gert snemma á önninni) og síðan í lok annarinnar spyrja þá að því hvernig þeir töldu að það hafi gengið hjá mér að uppfylla kröfur þeirra.  Það skal tekið fram að atriðin á spurningalistann voru valin af handahófi.  Ekki að það skipti máli, þar sem ég ætla ekki að fjalla um hvert mitt skor var, heldur hvað það var sem nemendum fannst skipta máli.

Einn af þeim áföngum, sem ég kenndi, var Þjónustutækni 101.  Það lá því beint við að nota þennan áfanga til að kenna nemendum hvernig þjónustuspurningar eru útbúnar.  Í byrjun hverrar annar skipti ég nemendum í áfanganum í 3 - 4 manna hópa og átti hver hópur að velta fyrir sér tveimur spurningum:

  1. Hvað einkennir góða kennslu?
  2. Hvað einkennir fyrirmyndarkennara?

Mig langar að birta hér niðurstöður 6 áfangahópa frá skólaárinu 1996 - 97.  Alls tóku 88 nemendur þátt í þessari vinnu og skiptust þeir í 24 hópa með 3 - 4 nemendum hver.  Hver hópur átti að nefna að lágmarki 3 atriði með hvoru um sig, en oft fannst nemendum erfitt að greina á milli hvort atriði lýsti góðri kennslu eða fyrirmyndar kennara, þannig að ég geri hér fyrir neðan ekki upp á milli hvort er átt við.

Þau atriði sem oftast komu upp hjá þessum 24 hópum voru eftirfarandi raðað eftir því hve margir hópar nefndu tiltekið atriði.  Tekið skal fram að atriðin voru ekki alltaf orðuð eins.

  • 18 skipti:  hress/húmor/létt lund/jákvæður/skapgóður
  • 13 skipti:  skipulagt námsefni, skipulögð/markviss kennsla
  • 12 skipti:  kennsla áhugaverð, virðing fyrir nemendum
  • 11 skipti:  áhugi kennara á námsefninu
  • 10 skipti:  kveikir áhuga/hvetjandi, þekking á námsefninu
  • 8 skipti:  hæfilegur agi
  • 7 skipti:  sanngjarn/raunhæfar kröfur, skilningsríkur/tillitssamur, stundvísi
  • 6 skipti:  vel máli farinn/skýr
Önnur atriði sem nefnd voru þetta árið voru:
  • 5 skipti:  nýtir tímann vel, undirbúinn
  • 4 skipti:  gott andrúmsloft, kurteis, persónuleg kennsla, snyrtilegur
  • 3 skipti:  góð samskipti
  • 2 skipti:  fylgist með námsframvindu nemenda, kemur efninu frá sér, opinn, samvinna nemenda og kennara, sjálfsöryggi, þolinmæði
  • 1 skipti: andlegt jafnvægi, auðvelt að leita til, fjölbreytni, gagnrýni, getur tekið gagnrýni, góð fyrirmynd, góð rithönd, hópvinna, hraustur, hrósar, hæfilegt heimanám, jafningi, kennslumarkmiðum náð, mannlegur, mismunar ekki, mótar ekki skoðanir nemenda, námsefni ekki of fast skorðað, námsgögn aðgengileg og auðskilin, námsmarkmið skýr, nær til nemenda, opinn, rökfesta, sjálfsvirðing, sveigjanlegur, umhverfi, veitir öryggi, vilji til að kenna, virkjar nemendur, yfirvegaður

Þetta er ansi fjölbreytt flóra atriða sem þessi nemendur töldu skipta máli.  Það er athyglisvert að þeim fannst skipta miklu máli að kennarinn hefði létta lund og gott skapferli, þar sem 18 af 24 hópum nefndu það.

Ég kynnti þessar niðurstöður á fundi með kennurum fyrir 10 árum og fannst mörgum þetta mjög áhugavert, en þó voru nokkrir sem sögðust sko alls ekki láta einhverja nemendur segja sér hvað væri að vera góður kennari.  Fyrir mér skipti máli að heyra hvað nemendunum fannst og síðan að sjá í lok hverrar annar hvernig mér hefði tekist að uppfylla kröfur þeirra.  Tekið skal fram að það gekk misjafnlega. 

Loks vil ég nefna það, að það sem mér fannst vera toppurinn á mínum kennaraferli, var þegar allir nemendur í áfanga sem ég kenndi, sátu áfangann á enda og stóðust lokaprófið.  Í framhaldsskóla, þar sem brottfall er þó nokkuð og fall talsvert, þá er þetta ánægjulegt frávik frá norminu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Að skrifa fyrirmyndarkennara í einu orði, væri svar mitt við spurningu fyrirsagnarinnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.7.2007 kl. 04:48

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta Þrymur.

Og Jón Steinar, villan er leiðrétt. 

Marinó G. Njálsson, 27.7.2007 kl. 10:37

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gaman að þessu hjá þér Marínó. Ég gerði svipaðar kannanir með mínum nemendum á hverri önn og reyndi að móta minn stíl í samræmi við útkomuna. Niðurstöðurnar voru svipaðar.

Hrannar Baldursson, 27.7.2007 kl. 10:38

4 Smámynd: Sigrún Einars

Fyrir tæpum tveimur áratugum eða svo fór ég í Iðnskólann í Reykjavík til að "taka upp" 9. bekkinn, þar sem ég hafði kolfallið í íslensku og stærðfræði á samræmdu prófunum einhverjum árum fyrr.  Íslenskukennarinn minn var fullorðin kona sem gæti hafa heitið Guðrún eða Sigríður eða eitthvað svoleiðis og var vægast sagt laaaaaang besti kennari sem ég hef haft um ævina.  Hún útskýrði alla hluti á marga misjafna vegu þannig að allir gátu skilið það sem hún var að reyna að koma frá sér.  Eini sinni sagði hún mér að hún reyndi að kynnast öllum nemendum sínum þannig að hún gæti séð hvernig hver og einn skynjaði hlutina og þannig gæti hún komið efninu frá sér þannig að allir hefðu gagn að.  Þetta fannst mér brilljant og ég elskaði þessa konu fyrir það eitt að leggja það á sig að reyna að kynnast hverju og einu okkar og fyrir að nenna að leggja það á sig að KENNA hverju og einu okkar.  Skemmst er frá því að segja að ALLIR nemendurnir náðu lokaprófinu og sjálf fékk ég 9 í einkunn!

Stærðfræðikennarinn var andstæða íslenskukennarans.  Gamall "kaddl", fúll og leiðinlegur sem nennti svo ekki að vera þarna.  Hann útskýrði hlutina á einn hátt aðeins og ef maður ekki skildi það sem hann var að segja þá barasta endurtók hann sömu tugguna aftur og aftur og aftur og aftur.  Sama hver spurði og hversu oft spurt var.  Aldrei nokkurn tíman datt honum í hug að endurorða útskýringuna eða finna aðra leið til að koma okkur í skilning um efnið.  Þetta gékk svo langt að bekkurinn skrifaði allur undir yfirlýsingu til skólastjórans þar sem kvartað var yfir kennsluháttum kennarans og beðið var um nýjan kennara.  Sú yfirlýsing var að sjálfsögðu hundsuð og við sátum uppi með þennan ömurlegasta kennara sem ég hef nokkurn tíman á ævi minni haft.

Þegar líða tók að lokaprófi sá ég það að ég var nákvæmlega engu nær í þessu námsefni og var svo langt frá því að vera tilbúin undir prófin að ég hefði alveg eins getað sleppt því að sitja þessa tíma.  Fór því til einkakennara viku fyrir próf og sat hjá henni í eina kvöldstund, borgaði 1.500 kall fyrir og lærði ALLA bókina á einu bretti, þetta var ekki flóknara en það.  Fór svo í lokaprófið og fékk 8.

Sigrún Einars, 27.7.2007 kl. 12:30

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Fluga, þetta segir margt um í hverju góð kennsla felst og hvað skilningur kennarans á vandamálum nemendanna skiptir miklu máli.

Í einum áfanga, sem ég kenndi, var farið í tvíundarreikning, en þar er eingöngu unnið með 0 og 1.  Þannig er t.d. 1 + 1 = 10 og 10+10=100 o.s.frv.  Ég kenndi þennan áfanga samfellt í 9 annir og oft með marga hópa á hverri önn.  Í fyrsta sinn sem ég kenndi áfangann, þá var ég með einn hóp sem var mjög fjölskrúðugur. Í hópnum voru 22 nemendur frá 16 ára aldri, en sá elsti vel á fimmtugsaldri.  Þetta var líklegast sá hópur, sem ég hafði mest fyrir að kenna tvíundarreikninginn.  Mig minnir að ég hafi verið að kenna margföldun í tvíundarkerfinu og það gekk svona hræðilega.  Ég byrjaði á almennu aðferðinni (sem hafði virkað vel á hina 5 hópana sem ég kenndi í áfanganum á önninni) og það voru ca. 4 sem skyldu hvernig margföldunin virkaði.  Síðan tók ég hverja aðferðina á fætur annarri og það bættust 1 - 4 í hóp þeirra sem náðu þessu í hvert sinn.  Þannig gekk þetta mest allan tímann, en það var einn nemandi sem bara náði þessu alls ekki sama hvað ég reyndi.  Loks eftir að ég var örugglega búinn að reyna 14 eða 15 mismunandi aðferðir og endurtaka nokkrar oftar en einu sinni að ég náði að skýra aðferðina þannig að síðasti nemandinn skyldi hvernig þetta gekk fyrir sig.  Ástandið í bekknum var náttúrulega orðið mjög vandræðalegt og nemandinn alveg miður sín, en ég ákvað að hætta ekki fyrr en þetta gengi og það skemmtilega var að nemendurnir í bekknum tóku virkan þátt í þessu.  Það er oft sagt að þegar maður öðlist skilning á einhverju, þá kvikni ljósið.  Þegar þetta gekk, þá sá ég ljósið kvikna í raun og veru, því andlit nemandans lýstist svo upp og í kringum hann myndaðist það magnaður ljóshjúpur að viðkomandi hefði getað lýst upp skólastofuna hefði hún verið myrkvuð.  Verð ég að viðurkenna, að ég hef aldrei fengið jafn mikla umbun fyrir störf mín, en þá gleði sem skein út úr augum nemandans á þessu augnabliki og að ég skyldi fá að sjá ,,ljósið" kvikna á svona tilþrifamikinn hátt.

Marinó G. Njálsson, 27.7.2007 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband