22.6.2007 | 21:53
Trúarbragðafordómar í fréttaflutningi
Í tæp sex ár hefur mátt heyra á nær hverju degi að hinir og þessir hópar múslima hafi framið hin og þessi voðaverk út um allan heim, en þó aðallega í Miðausturlöndum. Þessi tilvísun í trúarbrögð, ef gerendur eru múslimir (eða hindúar), hefur verið mjög áberandi í innlendum fjölmiðlum, þó svo að nákvæmlega sama frétt á BBC eða Sky er ekki með neina tilvísun í trúarbrögð viðkomandi. Nú, ef viðkomandi er ekki múslimi, þá er ekki minnst á að hann sé gyðingur eða kristinn. Ég t.d. tók ekki eftir því þegar Ísraelar réðust af mikilli heift á Líbanon fyrir 2 árum, að þar færu gyðingar. Eða þegar hersveitir NATO felldu í misgripum 25 almenna borgara í Afganistan, að þar færu kristnar sveitir. Eða í mótmælum græningja og umhverfisverndarsinna víða um heim að þeir séu kristnir, gyðingar eða múslimir.
Vil ég skora á blaða- og fréttamenn að hætta þessum tilvísunum í trú herskárra manna. Það getur verið að í sumum tilfellum geri trúin menn öfgafulla, en ég held að það séu fyrst og fremst aðstæður þeirra sem gera það. Svo kallaðir Íslamistar í Líbanon hafa mátt dúsa í flóttamannabúðum í þrjá og upp í fimm áratugi. Mér þykir það bara gott, að þeir hafi ekki gripið til vopna fyrr. En þeir gera það ekki trúar sinnar vegna, heldur vegna þess að þeim er gert ómögulegt að lifa eðlilegu lífi og fá ekki að snúa aftur til heimalands síns.
Vissulega vandast málin þegar gera á upp á milli trúarhópa í Írak, en má ekki bara sleppa því að segja að viðkomandi sé síhji eða súníti. Og ef það er ekki hægt, er ekki a.m.k. hægt að sleppa því að tala um öfga og trú í sömu setningunni. Af hverju eru menn öfgamenn af því að þeir eru að berjast gegn því sem þeir líta á að séu innrásaraðilar. (Ég er ekki að taka afstöðu, heldur sýna skilning á afstöðu þeirra.) Voru krossfararnir þá öfgafullir kristnir menn, af því að þeir fóru í herför til að ,,frelsa" ,,landið helga". Eða eru það bara þeir sem eru af hinum trúarbrögðunum sem eru öfgamenn. Ég man t.d. ekki eftir því að í deilunni á Norður-Írlandi hafi mikið verið að tala um öfgafulla kaþólikka eða mótmælendur. Nei, þeir voru nefndir herskáir kaþólikkar eða mótmælendur.
Mennirnir, sem flest bendir til að hafi staðið að baki hryðjuverkunum 11. september 2001, voru vissulega allir (að því ég best veit) Íslamstrúar, en þeir voru fyrst og fremst frá tilteknum löndum eða heimshluta. Nokkrir þeirra höfðu meira að segja búið í Þýskalandi í nokkur ár. Ég hef hvergi séð í heimildum/heimildarmyndum að þeir hafi framið glæpi sína vegna trúar sinnar. Þeir gerðu það, miðað við flestar heimildir, vegna þess að þeir töldu Bandaríkin bera ábyrgð á gerðum Serba í Bosníustríðinu og sinnuleysi Bandaríkjanna í málefnum Palestínu eða eigum við að segja einhliða stuðningi Bandaríkjamanna við Ísraela. Þeir gerðu það af því að hugsjónir þeirra buðu þeim að gera það, vegna þess að þeir voru haldnir siðblindu og mannfyrirlitningu. Vissulega sóttu þeir styrk í trú sína, en það gera líka Bandarískir hermann í Írak. Við megum heldur ekki gleyma því að meðal látinna 11/9 var fólk af öllum trúarbrögðum, enda var árásinni ekki beint að andlegum trúarbrögðum heldur veraldlegu tákni kapitalismans. Afleiðing siðblindu og mannfyrirlitningu þessara einstaklinga leiddi af sér ennþá verri siðblindu og mannfyrirlitningu tveggja þjóða/þjóðarleiðtoga sem létu sært stoltið leiða sig út í tvö ákaflega heimskuleg stríð. Og takið nú vel eftir, það hefur hvergi verið minnst á, í þessu samhengi, að þessir menn eru kristnir.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2007 kl. 14:08 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 8
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 1680023
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
þeir réttlæta sín verk með trúarbrögðunum og gera þetta allt í nafni Allah, það er sko stór munur á þeim og grimmum og kolrugluðum gyðingum. Það eru örugglega margir múslimar sem fremja glæpi en tengja þá ekki við trú sína og eru þ.a.l ekki kynntir í fréttunum sem sérstakir trúmenn eða múslimar. Og ef hópur öfgamúslima í Tælandi hálsheggur fólk í nafni Allah hjálpar það þá einhverjum að láta einsog það hafi ekki verið múslimar á ferð að hálshöggva í nafni Allah? Ég styð það að við reynum að sína umburðarlyndi og ég sjálf get átt það til að hneykslast kannski of mikið á múslimum fremur en kristnum, ég veit það ekki - sennilega af því að þeir eru alltaf að slátra og hálshöggva útum allan heim - en það má samt ekki verða til þess að við missum af raunveruleikanum og förum í felur gagnvart því sem er að gerast.
halkatla, 22.6.2007 kl. 23:42
Arngrímur, ég er nokkuð sömu skoðunar og þú. Mér finnst oft sem múhamedstrú standi í svipuðum sporum í dag og kristintrú stóð í fyrir 6-800 árum. Þ.e. allt var gert í nafni trúar og menn fóru í heilög stríð með trúna sem afsökun. Ég segi afsökun, því stríð snýst jú alltaf um völd og ekkert annað. Nú er bara spurningin hvort ,,unglingsárin" verði eins lengi að liða og hjá okkur kristnum mönnum.
Anna, þú mátt ekki gleyma því að gyðingar höguðu sér nákvæmlega eins áður en Ísrael var stofnað, þannig að kannski hefur frelsisástin áhrif á menn að þeir sprengja allt og alla í loft upp og taka þá af lífi sem lifa af.
Marinó G. Njálsson, 23.6.2007 kl. 00:21
Arngrímur, ég held að því sé einmitt öfugt farið
Marínó, nei nei þú veist greinilega ekki mikið um sögu ísraelsríkis fyrst þú heldur þessu fram. Hvernig geturðu sagt þetta?
Mér finnst hart að sjá tvo menn í svona gersamlegri afneitun staðreynda!!!
halkatla, 23.6.2007 kl. 09:04
athugið að ég er ekki að reyna að rífast við ykkur en vil bara segja að þið verðið að kynna ykkur aðeins heimsmálin og söguna, það gengur ekki bara að ákveða hvað þið viljið helst halda og skálda upp hluti útfrá því. Ég er samt enginn stuðningsmaður heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Þið þurfið aðeins að kynna ykkur þessi mál áður en þið segið svona hluti. Og að líkja gyðingum við herskáa múslima nútímans finnst mér mjög lágkúrulegt en skrifa það á vanþekkinguna.
halkatla, 23.6.2007 kl. 09:08
Anna Karen, hvaða staðreyndum afneita ég? Áður en Ísraelsríki var stofnað voru þar ,,frelsisveitir" gyðinga sem gerðu árásir á ,,hersetuliðið". Það var það eina sem ég átti við. Sumir af skæruliðum gyðinga voru ekki síður eftirlýstir en menn Hamas í dag. Ég er ekki að gagnrýna aðferðir gyðinga á þessum árum, einfaldlega benda á að sagan hefur þessa tilhneigingu að endurtaka sig.
Marinó G. Njálsson, 23.6.2007 kl. 11:16
Arngrímur, út af þessu sem þú segir um Pakistan. Það er ekki langt síðan að gerð var skoðunarkönnun meðal íbúa Evrópusambandsins, þar sem þeir voru m.a. beðnir um að tilgreina hvaða landi heiminum stæði mest ógn af. Niðurstaðan var afgerandi: Bandaríkin og Bush yngri. Ekki nærri því eins margir völdu N-Kóreu, Íran, Írak og Líbíu samanlagt og völdu Onkle Sam og hans menn. Við megum ekki ætla, að þó svo að klerkastjórn komist til valda í Pakistan, að hún verði vitfirrt. Af hverju drögum við ekki sömu ályktun gagnvart lýðræðiskjörnum stjórnum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Ísrael og Rússlandi. Það þarf ekki nema tvo klikkhausa í einhverju kjarnaorkuflaugabirgi í einhverju af þessum löndum til að hleypa öllu í bál og brand. Nei, ég held að Sting hafi hitt hausinn á naglann á sínum tíma, þegar hann söng ,,What might save us me and you is that the Russians love their children too"
Marinó G. Njálsson, 23.6.2007 kl. 11:28
Anna Karen, ég er þeirrar skoðunar að sjaldan valdi einn þegar tveir deila og það á alveg örugglega við í málefni Ísrael og Palestínu. En hinu verður ekki neitað, að getuleysi alþjóðasamfélagsins til að leysa þessa deilu hefur alið af sér mikla öfgahyggju í Miðausturlöndum. Það vill svo til að þetta svæði er byggt múslimum og múslimir annars staðar úr heiminum sækja þangað menntun. Alveg eins og við komum með til Íslands hugarástand, menningu og pólitík þeirra landa sem við menntum okkur í, þá gera múslimir það sama. Það er því eðlilegt, að ef það er ríkjandi skoðun með múslíma í Miðausturlöndum að ástandið sé óbærilegt þá dreifist þessi skoðun um samfélag múslima annars staðar í heiminum. Raunar hefur fólk af öllum trúarbrögðum, sem dvalið hefur á þessu svæði, orðið fyrir miklum áhrifum og þarf ég ekki annað en að Jóhönnu Kristjónsdóttur og Jón Orm Halldórsson af þekktum Íslendingum. Sumir af þessum einstaklingum hafa farið þá leið að beita herskáum og öfgafullum aðferðum. Það hafa líka andstæðingar fóstureyðinga í Bandaríkjunum gert eða dýraverndarsinnar, bara ekki í sama mæli.
Jæja, það sem ég var að fara að segja, er að það er ástandið í Palestínu og staða flóttamanna í löndunum í kring sem er fyrst og fremst ástæðan fyrir ögfahyggjunni. 30 - 50 ára dvöl í flóttamannabúðum án ríkisfangs og borgaralegra réttinda í heimalandi sínu er meira en að segja það. Meðan Ísraelar fá að ákveða hvaða samþykktum Sameinuðu þjóðanna þeir fara eftir, er engin linkind gagnvart löndunum í kring. Það er þetta sem elur af sér öfgahyggju, vegna þess að það skilur enginn heilvita maður af hverju það gilda einar reglur um Ísrael en aðrar um hina. Af hverju mega Ísraelar varpa sprengju á íbúðahverfi í Beirút, en Palestínumaður má ekki yrkja landið sitt. Þetta er það sem elur af sér öfgahyggju. Af hverju afhentu hollenskir friðagæslusveitir í Bosníu herum Bosníu-Serba 8.500 menn, konur og börn sem síðan voru leidd til slátrunar vegna þess að þau voru múslimir? Þetta elur af sér öfgahyggju. Og eins og flest önnur öfgahyggja, þá sækir hún sér því miður stuðning og styrk í trúna. Vissulega er mikill meirihluti sem fer ekki út í öfgahyggjuna, en alveg eins og með náttúruverndarsinna, andstæðinga fóstureyðinga og dýraverndunarsinna, þá leynast flestum hópum einstaklingar sem eru tilbúnir að ganga lengra en við hin teljum skynsamlegt. Eftir því sem hópurinn stækkar verða öfgarnir meiri. Eina leiðin til að leysa málin er að uppræta orsök öfgahyggjunnar. Alveg fram á síðari hluta síðustu aldar var ku-klux-klan í Bandaríkjunum ennþá að hengja menn fyrir það eitt að vera svartir. Þetta er dæmi um öfgahyggju, sem reynt hefur verið að uppræta með menntun. Ég er ekki með lausn á málum Miðausturlanda, en ég er alveg viss um að við myndum ekki sætta okkur það ástand sem margir þar þurfa að búa við.
Marinó G. Njálsson, 23.6.2007 kl. 12:06
Áhugaverðar pælingar.
Spurning hvort að rétt væri að taka fram hvaða trúflokki hver einasti einstaklingur sem gerir eitthvað fréttnæmt tilheyrir. Þá væru fréttamenn þó sannfærir sjálfum sér.
Ekki veit ég hvort að þú tilheyrir þjóðkirkjunni, Marínó, en væri ekki svolítið einkennilegt að lesa frétt um upplýsingaöryggi sem byrjaði þannig:
Það væri áhugavert að sjá útkomuna, ef þannig væri rætt um hvern einasta Íslending og útlending. Þá fengjum við kannski líka frétt eins og:
Hrannar Baldursson, 23.6.2007 kl. 13:57
Innrásin í Írak var ekki "trúarbragðastríð", svo einfalt er það. Ýmislegt annað á þessari síðu gerir kröfu til ýtarlegra andsvara.
Jón Valur Jensson, 23.6.2007 kl. 14:04
Gyðingar réttlæta innrás sína í Palestínu með trúnni. Þeir segja að þau séu hin útvalda þjóð Guðs og þau eigi því rétt á því að taka þetta land aftur. Það voru hinsvegar Sameinuðu þjóðirnar sem komu þessu í gegn og eru því ábyrgir fyrir þessari vitleysu.
Með þessum rökum að þau hafi verið þarna fyrir 2000 árum gætu innfæddir indjánar í Bandaríkjunum krafist þess að fá gömlu löndin sín aftur. En við erum ekki að fara sjá það í bráð.
Ómar Örn Hauksson, 23.6.2007 kl. 18:31
Jón Valur, ég segi hvergi að innrásin í Írak væri trúarbragðastríð, heldur eingöngu að þegar andstæðingar innrásarinnar beita sjálfsmorðsárásum eða öðrum aðferðum til að ráðast á innrásar herina, þá er þess yfirleitt vandlega gætt að taka fram að þeir séu öfgafullir múslimir eða eitthvað þess háttar. Þó innrásin í Írak sé kannski ekki af trúarlegum ástæðum, þá er ég nokkuð viss um að hefði Írak verið 90% kristið, þá hefði ekki komið til innrásarinnar.
Jón Valur, ég hlakka til að sjá andsvör þín, ef þú gefur þér tíma fyrir þau.
Hrannar, ekki að það skipti máli, þá tilheyri ég ekki þjóðkirkjunni heldur er ég óvirkur meðlimur í Fríkirkjusöfnuðinum í Reykjavík. Mín skoðun til trúmála, er að alfarasælast sé að hver maður ræki trú sína í einsemd (eins og raunar Kristur segir í Nýjar testamentinu (ekki það að ég hafi tekið þá skoðun mína þaðan)).
Ómar, það má ekki gleyma því að gyðingar seldu flestir lönd sín, þegar þeir fluttust til Evrópu, þannig að krafa þeirra er farin að minna á þjóðlendumálin hér á landi. Fyrst að selja og svo að taka með valdi.
Marinó G. Njálsson, 23.6.2007 kl. 19:28
Marinó, ok ég skil, en munurinn er náttúrulega sá helst að þeir voru ekki að reyna að drepa sem flest börn og aðra viðkvæma einstaklinga með köldu blóði einsog herskáu múslimarnir gera í dag, heldur miðuðu þeir sín hryðjuverk við stofnanir bretanna á svæðinu, og ég tel þetta nánast ósambærilegt. En báðir voru þó að reyna að stofna ríki, múslimar útum heiminn eru með það á döfinni, ekki þó allsstaðar, en t.d í Tælandi og svona, þarsem draumurinn er að fá sharia yfir allt og alla. Vandamálin vegna þessa í Evrópu eru líka óteljandi. En það er hræðilegt að dæma alla múslima þó að þessi öfgastefna sé útbreidd í dag, það verður að segjast. En ég persónulega hef mjög lítið álit á Islam trúarbrögðunum, og scientology líka ef því er að skipta.
halkatla, 23.6.2007 kl. 20:51
Anna Karen, það má segja að heimur versnandi fari. En miðað við nýlegar fréttir frá Afganistan, þá eru það ekki bara herskárir múslimir sem drepa konur og börn að ástæðulausu. 90 óbreyttir borgarar hafa verið drepnir í því sem forseti Afganistan segir ómarkvissar árásir herja NATO sem hafa kosið að hunsa algjörlega leiðsögn heimamanna. Ég held því miður að virðing fyrir mannslífum fari þverrandi hjá öllum aðilum og skiptir ekki máli hvort við erum að tala um heri Bandaríkjanna, NATO, Ísrael eða andspyrnuhreyfinga í Írak og Afganistan.
Marinó G. Njálsson, 24.6.2007 kl. 00:30
Nú hef ég ekki kynnt mér heimssöguna nægilega vel til að geta tekið þátt í þessum röksemdarfærslum á vitrænan hátt, en samt sem áður langar mig að benda á að Islam og Islam er ekki það sama. Islam er útbreidd trú, nær til margra landa og þjóða. Fólk í hverju landi iðkar trú sína í takt við menningu lands síns og ég held að menningin hafi stærri áhrif á það hvernig öfgarnir brjótast fram (eða brjótast ekki fram) í trúarlegum viðhorfum og gjörðum. Sjáið múslima hér á landi, ekki erum við að sjá neina herskáa múslima sprengja sig í loft upp fyrir framan Kringluna, eða hvað?
Eins og ég sagði, þá er Islam og Islam ekki það sama eftir löndum. Ef borin eru saman ákveðin lönd innan Afríku og t.d. Íran kemur tvennt ólíkt í ljós. Það er munur á því hvort menn eru fylgjendur Hanafi, Hanbali, Maliki, Shafii eða Jaafari (fylgjendur fyrstu fjögurra teljast til Sunni múslima, en fylgjendur Jaafari teljast til Shia múslima).
Eitt að lokum fyrir forvitnis sakir, þekkir einhver ykkar múslima persónulega?
Hugrún Jónsdóttir, 24.6.2007 kl. 10:55
Já, ég þekki múslima persónulega (eða á ég að segja þekkti). Auk þess hef ég búið í fjölþjóðlegu háskólasamfélagi, þar sem voru einstaklingar af öllum trúarbrögðum. Nú í heilan vetur deildi ég skrifstofu með Pakistana. En, Hugrún, alveg eins og þú segir, þá er túlkun á Kóraninum jafn mismunandi og t.d. túlkun á Biblíunni.
Marinó G. Njálsson, 24.6.2007 kl. 12:43
Mér hefur sýnst að það sé ekki algengt að fólk verji Islam, nema að þekkja eitthvað til þess persónulega. Nú er ég ekki að halda því fram að aðrir sem hafa kommentað hérna hafi aldrei hitt múslima áður, en fordómar stafa yfirleitt af vanþekkingu.
Takk fyrir að skrifa þetta blogg, alltaf gaman að fræðast um þessi mál
Hugrún Jónsdóttir, 24.6.2007 kl. 13:03
Hugrún, í mínum huga snýst þetta ekki um að verja einhverja trúarstefnu eða ráðast gegn annarri. Þetta snýst um að geta litið á málin út frá fleiri sjónarhornum en þeim viðteknu. Hér á landi erum við allt of upptekin af bandarískri og breskri heimsýn, eins og hún sé sú eina viðurkennda. Við þorum ekki að horfa út fyrir ,,kassann" af ótta við að verða ekki meðtekin í samtryggingarsamfélaginu. Þeir sem gera það eru álitnir furðufuglar eða öfgamenn sem ekki er mark á takandi.
Í góðri bók, sem ég las fyrir löngu, þá var lögð til sú leið til að greiða úr ágreiningi, að hvor fylking um sig kæmi með 10 jákvæða punkta um mótherjan, því eftir slíka æfingu væri yfirleitt mun auðveldara að tala saman. Þessi aðferð er t.d. mjög oft notuð til að leysa úr fjölskylduvandamálum.
Þegar ég var í MR tók ég þátt í ræðukeppninni orator scholae. Þar fékk ég m.a. það verkefni (ef svo má segja) að tala óundirbúið í 5 mínútur með og 5 mínútur á móti sama málefninu. Mitt umræðuefni var Guðni rektor. Ég taldi útilokað að ég gæti haldið 5 mínútna ræðu á jákvæðum nótum um manninn, en lítið mál að flytja 5 mínútna neikvæða tölu um hann. Þegar á hólminn var komið snerist þetta við. Það var mun auðveldara að finna jákvæða punkta um hann en neikvæða. Þegar ég var uppurinn með neikvæðu atriðin átti ég 3 mínútur eftir af mínútunum 5, en ég hefði getað talað í 15 mínútur, ef ekki lengur, um það sem kom jákvætt upp í huga mér. Þetta, ásamt mörgu öðru, hefur kennt mér að líta ávallt gagnrýnum augum á viðteknar skoðanir og hugsa ,,hvað ef þær eru rangar?", ,,hvernig myndi ég hugsa væri ég í stöðu hinna?", ,,eru til fleiri lausnir á þessu viðfangsefni, en sú sem er lögð til?" o.s.frv.
Marinó G. Njálsson, 24.6.2007 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.