Leita í fréttum mbl.is

Getur starfsemin staðið af sér áfall?

Þetta er spurning sem stjórnendur fyrirtækja ættu að spyrja sig að eftir áföll dagsins í dag.  Fyrst stórbruninn á horni Austurstrætis og Lækjargötu og síðan bilun í heitavatnsleiðslu á Vitastígi.  Hvað ætli það séu mörg fyrirtæki sem urðu fyrir áhrifum af þessum tveimur atvikum?  Ég giska á um 40 til 50 á hvorum stað, jafnvel fleiri.  Það gera a.m.k. 80 til 100 fyrirtæki.  Hvað ætli mörg þeirra séu með áætlun til að bregðast við svona atvikum? Mín ágiskun er að vel innan við 10 þeirra hafi nothæfa, skjalfesta áætlun (viðbragðsáætlun).  Það getur vel verið að tryggingarnar greiði það tjón sem fyrirtæki verða fyrir, þegar svona lagað kemur upp.  En það er ekki allt.  Töpuð viðskipti, amstur og snúningar, hreinsunarstörf, þjónustuskerðing og margt fleira fylgir svona uppákomum.  Mörg fyrirtæki urðu fyrir óbeinum áhrifum, sem fólst í því að rýma þurfti húsnæði, götum var lokað, rjúfa þurfti rafmagn, reykur barst inn, vatn barst inn, starfsmenn komust ekki til vinnu, starfsmenn fengu áfall, o.s.frv.

Það er fátt mikilvægara í rekstri en að tryggja að hann sé órofinn/samfeldur.  Það er gert til þess að halda í viðskiptavinina, það er gert til að vernda hagsmuni eigenda, það er gert til að tryggja öryggi starfsmanna og það er gert til að uppfylla alls konar skyldur, lagalegar, félagslegar eða samningsbundnar svo eitthvað sé nefnt.  Ein leið til að tryggja samfelldan rekstur, er að undirbúa sig fyrir það óvænta með því að skilgreina, skjalfesta og innleiða stjórnkerfi rekstrarsamfellu (e. business continuity management system).  Kerfið sem slíkt kemur ekki í veg fyrir áföllin, en það hjálpar okkur t.d. að skilgreina viðbrögð, mótvægisaðgerðir og endurreisnaraðgerðir.  Ég sá á myndum sem teknar voru í Lækjargötu í dag að það var verið að bera tækjabúnað út úr brennandi húsinu.  Líklegast voru þetta ósjálfráð viðbrögð, en það er ekki víst að þetta hafi verið það sem nauðsynlega þurfti að bjarga.  Ég veit það ekki en reynsla mín af því að aðstoða fyrirtæki við að útbúa viðbragðsáætlanir segir mér að pappírar og upplýsingatæknibúnaður er það sem mikilvægast er að bjarga.  Nema fullkomin afrit séu til staðar.  En við vitum það ekki nema slíkt hafi verið skoðað meðvitað og skipulega.

Rekstraraðilar geta ekki leyft sér að vita ekki hverju á að bjarga.  Þeir geta ekki leyft sér að treysta á innsæi eða heppni, þegar kemur að því að bregðast við áfalli.  Mannslíf geta oltið á því að fólk hafi fengið þjálfun í réttum viðbrögðum.  Líf rekstrarins getur oltið á því að viðbragðsáætlun hafi verið undirbúin, innleidd og prófuð.  Reynslan af náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta og fellibyli hefur sýnt að þau fyrirtæki sem verða fyrir alvarlegu tjóni og hafa ekki skilgreinda viðbragsáætlun eru margfalt líklegri til að leggja upp laupana en þau sem hafa undirbúið sig.  Raunar segja tölur að allt að 90 af hundraði óundirbúinna fyrirtækja, sem lenda í alvarlegu tjóni, ná sér ekki aftur á strik.  Flest deyja drottni sínum innan 6 mánaða.  Mörg hefja aldrei aftur starfsemi.

Hver er staðan hjá þínu fyrirtæki?  Ert þú viss um að starfsemi þess haldi áfram, ef það lendir í tjóni?  Hversu alvarlegt má tjónið verða án þess að það hafi áhrif á starfsemina?  Gætir þú misst vinnuna eftir tjón eða einhver samstarfsmaður þinn?  Veist þú hvaða leið þú átt að fara út úr brennandi húsi?  Er einhver sem heldur utan um það, að allir hafi komist út?  Er víst að launagreiðslur fari fram um næstu mánaðarmót eftir umfangsmikið tjón eða tjón sem einskorðað er við afmarkaðan starfsþátt?  Málið er, að þetta er ekki einkamál stjórnenda.  Það er hagsmunamál allra hlutaðeigandi, að reksturinn geti staðið af sér storminn.

Þó svo að aldrei hafi neitt komið fyrir fram að þessu, þá er með þetta eins og ávöxtun verðbréfa:  Ávöxtun (tjónleysi) í fortíð tryggir ekki sambærilega ávöxtun (tjónleysi) í framtíð.

Lesa má nánar um áhættu- og neyðarstjórnun á vefsvæði mínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 1679976

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband