28.8.2014 | 19:29
Hver er hin raunverulega niðurstaða EFTA-dómstólsins?
Stóridómur var kveðinn upp í morgunn um verðtryggingu neytendasamninga. Það er skoðun margra að dómurinn sé fullnaðarsigur fyrir fjármálafyrirtækin, en ég er alls ekki sammála því. Ég held raunar að álit EFTA-dómstólsins sé kjafthögg á framkvæmd verðtryggðra neytendasamninga á Íslandi.
Megin niðurstaðan er að málinu er vísað til héraðsdóms og Hæstaréttar að koma með sína úrskurði, en þeir úrskurðir skuli fylgja í öllum megindráttum leiðbeiningum EFTA-dómstólsins. Og þær leiðbeiningar segja ansi margt. Vil ég raunar ganga svo langt að þær felli verðtryggða neytendasamninga eins og framkvæmd þeirra hefur verið frá upphafi.
Hér fyrir neðan eru þau atriði sem mér finnst skipta mestu máli í áliti EFTA-dómstólsins. Ég sleppi með öllu innleggi annarra og vangaveltum um þau innlegg.
Almennt
Niðurstaða EFTA-dómstólsins, að vísa úrskurði í því máli sem var til umfjöllunar til landsdómatóla (héraðsdóms og Hæstaréttar), er í samræmi við það sem ég sagði í innleggi á facebook í gær. Þar sagði ég m.a.:
Ég hef trú á því, að EFTA-dómstóllinn muni vísa þessu máli heim með leiðbeiningum um túlkun tilskipunarinnar. EFTA-dómstóllinn mun ekki taka ákvörðun eða koma með niðurstöðu, sem hefur mikil áhrif á efnahagslegar forsendur fjármálamarkaðarins. Miðað við orð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um möguleg efnahagsleg áhrif niðurstöðunnar, þá reikna ég með að EFTA-dómstóllinn fari millileið, þ.e. viðurkenni að rangt sé haft við, en gangi ekki svo langt að segja þetta sé ólöglegt og bæta þurfi neytendum upp skaðann.
Rétt er að það fellur undir landsdómstóla að vega og meta ýmsa hluti og taka ákvarðanir um álitaefni, en honum ber að fara eftir leiðbeiningum EFTA-dómstólsins, eins og EFTA-dómstóllinn segir í öllum sínum svörum. En leiðbeiningarnar, sem dómstóllinn gefur, eru ansi ítarlegar og benda flestar í þá átt að mjög margir meingallar eru á framkvæmd verðtryggðra lánasamninga neytenda.
Fyrsta spurning
Úr umfjöllun um 1. spurningu segir m.a.:
Við aðstæður þegar slíkt ójafnvægi myndast, þrátt fyrir skilyrðið um ,,góða trú, verður landsdómstóllinn að meta hvort seljandi eða veitandi sem kemur fram við neytanda af sanngirni og réttlæti geti réttilega talið að neytandinn hefði fallist á slíkan samningsskilmála ef um hann hefð i verið samið sérstaklega."
Hér er hreinlega verið að ýja að því, að einstaklingur með verðtryggðan lánasamning geti verið beittur órétti á tímum mikillar verðbólgu.
Af ofangreindum athugasemdum má sjá að tilskipunin leggur ekki skilyrðislaust bann við verðtryggingarákvæðum í samningum um veðlán eins og þeim sem hér um ræðir, þar sem 3. og 4. gr. tilskipunarinnar mæla einungis fyrir um meginreglur við mat á því hvort tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur og í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, með hliðsjón af d-lið 2. mgr. viðauka hennar, segir berum orðum að verðtryggingarákvæði teljist ekki óréttmætir skilmálar, í sjálfu sér, ef vísitölubindingin er lögleg og aðferðin við útreikning verðbreytinga er útskýrð rækilega í samningi.
Til þess að verðtryggingin sé löglegt samningsákvæði, þarf hún að vera rækilega útskýrð. (Dómstóllinn segir síðar, að henni þarf að vera rækilega lýst.) Þar sem við vitum öll að aðferðinni er hvorki lýst né hún útskýrð, þá má af þessu ráða að verðtryggingin sé ósanngjarn samningsskilmáli miðað við núverandi framkvæmd verðtryggðra neytendasamninga. (Það á líka við um leigusamninga!)
Og áfram úr áliti um fyrstu spurningu:
Það leiðir að sama skapi af viðeigandi ákvæðum viðaukans auk 3. mgr. 3. gr. og 5. gr. tilskipunarinnar að skýrleiki og gæði upplýsinganna um verðtrygginguna sem seljandi eða veitandi veitti neytandanum á undirritunartíma samningsins hefur sérstaka þýðingu við matið (sjá til samanburðar um það atriði, álit Wahls aðallögsögumanns frá 8. maí 2014 í sameinuðum málum C-359/11 og C-400/11 Schulz and Egbringhoff, birt rafrænt, 53. liður). Það er landsdómstólsins að meta hvort skilyrðin um skýrleika og gæði upplýsinga séu uppfyllt.
Allt er þetta tekið saman í eftirfarandi:
Fyrstu spurningunni verður því að svara þannig að tilskipun 93/13/EBE leggur ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það er landsdómstólsins að leggja mat á það hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Matið verður að taka mið af leiðbeiningum dómstólsins um skýringu hugtaksins ,,óréttmætur skilmáli.
Nú er spurning hverjar eru nákvæmlegar þessar leiðbeiningar EFTA-dómstólsins. Jú, þær eru m.a. að til þess að ekki sé um óréttmætan skilmála sé að ræða að þarf "aðferðin við útreikning verðbreytinga [að vera] útskýrð rækilega í samningi".
Önnur spurning
Ég geri ekki neinar athugasemdir við efni og innihald spurningar númer tvö, þar sem það hefur alltaf verið minn skilningur á íslenskum lögum að verðtrygging sé heimil. Mér finnst þetta mál sem rekið var fyrir EFTA-dómstólnum, aldrei hafa snúist um að fá á hreint hvort verðtrygging væri heimil að lögum. Bara hvort framkvæmd hennar væri rétt og hvort sú framkvæmd sem viðgengist hefur á Íslandi gæti falið í sér ósanngjarna samningsskilmála.
Þriðja spurning
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar skal mat á óréttmæti skilmálanna þó hvorki tengjast skilgreiningu á aðalefni samningsins né samanburði á verði og endurgjaldi, annars vegar, og þeirri þjónustu eða vöru sem kemur í staðinn, hins vegar, ef skilmálarnir eru á skýru og skiljanlegu máli.
Þetta atriði kemur ekki til álita gagnvart verðtryggðum lánum, nema til þess komi að Hæstiréttur telji verðtrygginguna eða framkvæmd hennar brjóta gegn ákvæðum neytendaverndar í 36. gr. laga nr. 7/1936. En þetta atriði hrekur niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010, en þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, að vaxtakjör gengistryggðra lána hefðu aldrei staðið til boða nema vegna gengistryggingarinnar og miðað við hvaða önnur vaxtakjör voru í boði. Hér segir EFTA-dómstóllinn hreint út að ekki megi tengja slíkt saman.
Og meira um spurningu þrjú:
Nánar tiltekið er efni greiðsluáætlunarinnar ekki umsemjanlegt þar sem hún byggir á spá um væntanlegar afborganir samkvæmt skuldabréfinu sem ræðst af mánaðarlegum útreikningi vísitölu neysluverðs.
Fæ ekki betur séð en að dómstóllinn svari hér að hluta 6. spurningunni, sem spurð er í hinum málinu sem er fyrir dómnum, þ.e. að greiðsluáætlun byggir á spá um væntanlegar afborganir og skal því innihalda bestu upplýsingar um væntanlegar greiðslur. Mér sýnist dómstóllinn segja, að slík spá verði að vera hluti af greiðsluáætluninni. Hér er framkvæmd verðtryggðra lánasamninga veitt MJÖG þungt högg.
Fjórða spurning
Í áliti EFTA-dómsins um 4. spurningu kemur þetta fram:
Það er ljóst að skyldunni til að vekja athygli neytandans á þeirri aðferð sem notuð er við útreikning á verðbreytingum afborgana er ekki fullnægt með því einu að vísa í samningnum til laga eða stjórnsýslufyrirmæla sem kveða á um réttindi og skyldur aðila. Það er lykilatriði að seljandi eða veitandi upplýsi neytanda um efni viðeigandi ákvæða (sjá til samanburðar um það atriði, áður tilvitnað mál Invitel, 29. mgr.).
Sem sagt ekki er nóg að vísa í texta í öðrum skjölum, heldur verður lýsing að vera í samningnum.
Og meira um 4. spurningu:
Þegar afborganir láns eru verðtryggðar má, eðli málsins samkvæmt, finna spá um væntanlegar afborganir í greiðsluáætlun. Slík spá getur aðeins í undantekningartilvikum og fyrir tilviljun samsvarað hinum raunverulegu afborgunum sem krafist er. Þar af leiðandi verður samningurinn að innihalda skýra og afdráttarlausa yfirlýsingu um að afborganirnar kunni að breytast í samræmi við tilgreinda vísitölu ásamt sérstakri lýsingu á og tilvísun til þeirrar verðtryggingaraðferðar sem notast er við.
Aftur segir EFTA-dómstóllinn nánast hreint út, að ekki er fullnægjandi að greiðsluáætlun innihaldi ekki spá um verðbólguþróun, en viðurkennir að ekki er líklegt að afborgun verði nákvæmlega sú sem spáð er. Sem sagt 0% verðbólga í greiðsluáætlun er ekki fullnægjandi heldur verður að byggja á spá um verðbólgu, eins og sú spá er þegar samningur er gerður.
Fimmta spurning
Rúsínan í pylsuendanum er örugglega eftirfarandi texti úr álit dómsins varðandi 5. spurningu:
Af 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar leiðir að dómstólum aðildarríkjanna er einungis gert að koma í veg fyrir beitingu óréttmæts samningsskilmála þannig að hann verði ekki bindandi fyrir neytandann án þess að þeir hafi einnig heimild til að endurskoða efni skilmálans. Samningurinn verður, að meginstefnu, að halda gildi sínu (sjá til samanburðar um það atriði, mál C-26/13 Kásler and Káslerné Rábai, dómur frá 30. apríl 2014, birtur með rafrænum hætti, 80. til 84. mgr.) án annarra breytinga en þeirra að hinir óréttmætu skilmálar eru felldir út að því marki sem reglur landsréttar leyfa.
Hér er aftur verið að hrekja niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Hæstiréttur mátti ekki endurskoða efni skilmálans um gengistryggingu á þann veg að aðrir vextir en samningsvextir giltu!!! Þetta er það sem ég hef haldið fram allan tímann og nánast allir nema verndarar fjármálafyrirtækjanna.
Niðurstaða
Vissulega mun Hæstiréttur þurfa að kveða upp sinn dóm, en mér sýnist sem leiðbeiningar EFTA-dómstólsins sníða honum mjög þröngan stakk. Sá stakkur verður enn þá þrengri, þegar grafið er ofan í þau dómafordæmi, sem EFTA-dómstólinn nefnir i áliti sínu. Það virðist vera skoðun EFTA-dómstólsins, að framkvæmd verðtryggingar í neytendasamningum á Íslandi sé á skjön við tilskipun 93/13/EBE. Þó ríki hafi "sjálfræði upp að vissu marki um útfærslu á þeim lagareglum" (eins og EFTA-dómstóllinn orðar þetta), þá eru takmarkanir á því sjálfræði. Mér finnst því nokkuð ljóst, að hinar ítarlegu leiðbeiningar EFTA-dómstólsins eiga að tryggja að ekki sé farið út í of frjálslegar túlkanir á lögum og tilskipuninni. Dómstólinn bendir líka á skyldu landsdómstóla að horfa til Evrópuréttar.
Mín niðurstaða er að erfitt verði fyrir Hæstarétt að samþykkja að núverandi framkvæmd verðtryggðra neytendasamninga sé í samræmi við tilskipun 93/13/EBE og innleiðingu hennar í íslensk lög nr. 7/36. Hæstiréttur mun ekki geta skorið lánastofnanir niður úr snörunni á sama hátt og síðast með því að tilgreina að aðrir vextir eigi að koma í stað verðtryggðra. EFTA-dómstóllinn bendir á að það sé bannað. Það sem meira er, EFTA-dómstóllinn hraunar yfir rökstuðning Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 um að Seðlabankavextir eigi að koma í stað samningsvaxta á áður gengistryggðum lánum.
Ég lít á niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem algjöran ósigur verðtryggingarsinna. Ekki vegna þess að verðtryggingin sé ólögleg, heldur vegna þess að menn stóðu ekki rétt að framkvæmd verðtryggðra neytendasamninga.
Að lokum vil ég nefna að álit EFTA-dómstólsins er upp á 33 blaðsíður. Mér hefur hugsanlega yfirsést eitthvað sem hefur mildandi áhrif á það sem ég dreg fram í þessari færslu. Biðst ég fyrirfram afsökunar, ef svo er. Ég hef allan þann tíma, sem ég hef tekið þátt í þessari umræðu, gætt þess að draga fram eins mörg sjónarmið og hægt er í umræðunni. Þrátt fyrir það hef ég allan tímann verið sannfærður um þá megin niðurstöðu, sem mér sýnist EFTA-dómstóllinn komast að í sínu áliti:
Verðtrygging neytendasamninga er lögleg og leyfileg, ef rétt er að framkvæmd hennar staðið!
Vandinn er að framkvæmd hennar er ekki í samræmi við lög!
Ég er hins vegar jafn sannfærður um að verðtrygging neytendasamninga sé slæm fyrir fjármálastöðugleika í landinu og hún ýti undir verðbólgu og ábyrgðarleysi í starfsemi lánastofnana, sem ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að skapa þenslu. Þau fá hana alltaf bætta með verðbótum á útlánum. Af þessu leiti tel ég verðtryggingu vera ósanngjarna samningsskilmála, vegna þess að áhætta af verðtryggðum samningum situr nánast alfarið hjá lántökum. Er ekki að ástæðulausu að sérfræðingar Askar Capital töldu ástæðu til að setja það inn í verðtryggingarskýrslu til Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, að verðtrygging yrði að vera áfram, því án verðtryggðra skuldabréfa hyrfi eini áhættulausi fjárfestingakosturinn. Þessi orð sérfræðinga Askar Capital segja allt sem segja þarf.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 84
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Frábært.
Þá er það staðfest að neytendur munu fá endurgjald sem nemur aðeins meira en kjarasamningar til langs tíma hafa gefið. EFTA dómstóllin sker á þrælaólar fjármálakerfisins svo að þær smella á hendi þrælahaldarana.
Það ar gott hjá þér að minnast á Gylfa Magnússon.
Eggert Guðmundsson, 28.8.2014 kl. 22:43
Takk fyrir Marinó. Frábær samantekt. Það er dapurleg staðreynd að við þurfum að sækja sjálfsögð réttindi utnafrá vegna mikillar spillingar í nánasta umhverfi okkar.
Bjarni Hákonarson (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 23:26
Takk fyrir góða greiningu Marinó. Ég var, eins og þú, nokkuð viss um að endanlegum svörum yrði vísað heim. Mér finnst hins vegar notalegt að sjá að leiðbeiningar þeirra um niðurstöður dóma hér heima eru mjög skýrt talandi um hver niðurstaðan verði, ætli dómstólar hér ekki að eiga á hættu að niðurstöðum þeirra verði vísað til EFTA dómstólsins.
Guðbjörn Jónsson, 29.8.2014 kl. 09:31
Frábært....og hvenær er svo von á endurgreiðslu..??
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 13:34
Sæll Marinó og þakka pistilinn sem endranær.
Ég held menn geti nú alveg beðið rólegir eftir einhverjum endurgreiðslum. Ef einhverjar verða eftir málarekstur árum saman þá verða þær örugglega teygðar og togaðar, reiknaðar og endurreiknaðar og reiknaðar svo aftur og aftur þar til ekkert verður eftir.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 30.8.2014 kl. 01:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.