17.8.2014 | 14:15
Nærri 6 ár að baki
Það styttist óðfluga í að 6 ár séu frá falli bankanna í byrjun október 2008. Hef ég oft velt fyrir mér hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir marga fylgikvilla falls þeirra. Á þessum tíma, þ.e. í október 2008, skrifaði ég margar færslur um úrræði fyrir skuldara og atburði líðandi stundar. Í einum þeirra lagði ég til að gengistryggðum lánum yrði skipt upp á tvö lán, annað sem stæði í því gengi sem lántakar höfðu búist við að yrði og hitt með þeirri upphæð sem umfram var og það fryst þar til betur viðraði í þjóðfélaginu (datt ekki í hug þá að gengistryggingin væri ólögleg). Tekið skal fram, að þetta var áður en verðbólgan fór í hæstu hæðir og því komu hugmyndir um svipuð úrræði vegna verðtryggðra lána ekki fram fyrr en seinna.
Ekki þarf að taka það fram, að þetta hlaut ekki hljómgrunn hjá fjármálastofnunum. Nei, þær ætluðu að blóðmjólka lántaka sem frekast hægt væri. Afleiðingarnar hafa verið ógurlegar og haft margföld samfélagsleg áhrif á við mestu náttúruhamfarir. Afleiðingar sem ég tel að hægt hefði verið að koma í veg fyrir og hafi verið með öllu óþarfar.
Nánast allir töpuðu miklu
Lítið fer á milli mála, að nánast allir töpuðu háum upphæðum á hruninu. Vissulega hefur hópur fólks stigið fram og sagt að þeirra tjón hafi verið lítið eða ekkert, en ég held að þeir einstaklingar séu ekki að taka inn í reikninginn alla þá mörgu liði sem nauðsynlegt er að skoða.
Ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það, að fjárhagslegt tjón efnafólks var mjög mikið. Það fólst ekki alltaf í því að einstaklingar töpuðu beint háum upphæðum af eigin fé, frekar að það tapaði tækifærunum til að verða óhugnanlega ríkt í gegn um bæði glæfralegar og skynsamlegar fjárfestingar. Enginn fór verr út úr hlutunum í krónum og aurum en Björgólfur Guðmundsson sem fór frá því að vera kóngurinn í það að vera gjaldþrota á stuttum tíma. Ég reikna þó ekki með að hann þurfi að lifa við sult og seyru það sem eftir er ævi hans. Magnús Kristinsson er annar sem missti hásæti sitt (og þyrlu). Fólk getur haft ólíkar skoðanir á þessum mönnum, en tjón þeirra var meira en allar aðgerðir ríkisstjórna Íslands fyrir heimilin í landinu, til að setja hlutina í samhengi.
Gríðarlega stór hópur fólks tapaði ævisparnaði sínum. Mest eldri borgarar sem lagt höfðu allan sinn sparnað í hlutabréf og skuldabréf bankanna, Eimskipa og Icelandair. Veit ég um of marga sem áttu milljónir, tugi milljóna og jafn hundruð milljóna í slíkum bréfum og töpuðu öllu. Vissulega var talsverð froða í þessum eignum, en jafnvel þriðjungur upphæðarinnar hefði veitt mörgum eldri borgaranum áhyggjulaust ævikvöld. Þetta voru ekki fjárfestar í þeim skilningi. Bara venjulegt fólk sem hafði lagt hart af sér og sýnt ráðsemd um ævina og stundum verið heppið með ákvarðanir sínar. Tjón þessa hóps er engu minna en tjón Björgólfs, ef ekki meira, vegna þess að það átti ekki þennan fína björgunarhring sem Björgólfur á í syni sínum og eiginkonu. Hef ég átt í nokkrum samskiptum við einstaklinga úr þessum hópi og verð að segja eins og er, að sjaldan hef ég upplifað eins mikla uppgjöf og hjá þessu fólki. Að missa ekki bara nánast allan sinn ævisparnað, heldur sjá lánin sín hækka upp úr öllu og húseignir hrynja í verði hefur reynst mörgum erfitt. Á það bætist síðan innheimtuharka fjármálafyrirtækja, sem eru afsprengi tjónvaldanna.
Þeir hópar, sem að mínu mati, hafa tapað mestu eru þó ekki þeir sem nefndir eru að ofan. Þeir eru þrír og vissulega getur fólk úr hópunum að ofan líka verið í þeim. Sami einstaklingurinn getur fundið sig í fleiri en einum og jafnvel verið í þeim öllum.
Hópur 1. Fólk sem orðið hefur fyrir miklum tekjumissi eða orðið eftir í tekjuþróun. Atvinnuleysi á Íslandi var innan við 2% fyrri hluta árs 2008. Núna er langtímaatvinnuleysi um 3,5% og en er atvinnuleysi um og yfir 6,5%. Að á bilinu 1/12 til 1/16 Íslendinga á vinnumarkaði hafi verið án atvinnu í 6 ár er líklegast mun verra, en að tapa krónum og aurum í uppsprengdum eignum. Að þurfa að lifa á atvinnuleysisbótum mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, fer ekki vel með nokkurn mann. Bætum svo við lífeyrisþegum sem eru á strípuðum lífeyri og við erum með 1/5 sem þurfa að horfa í hverja einustu krónu áður en ákveðið er hvort henni er eytt í eitt frekar en annað. Slíkt er hægt að þola í mánuð og mánuð, en ekki sem viðvarandi ástand.
Hópur 2. Fólk sem misst hefur heimili sitt fyrir slikk á nauðungarsölum eða farið í gjaldþrot. Vissulega átti fyrning vegna gjaldþrots að ganga yfir á tveimur árum, en síðan hefur komið í ljós að fjármálafyrirtæki gleyma engu og þó meira en tvö ár séu liðin, þá koma einstaklingar að lokuðum dyrum hjá fjármálafyrirtækjunum. Ýmislegt bendir til, að þeir "óverðugu" innan hóps gjaldþrota einstaklinga muni eiga mjög erfitt uppdráttar um langa tíð. Áhrif nauðungarsala virðist ekki vera ósvipuð. Fólk virðist komast á einhvern bannlista hjá fjármálafyrirtækjum og fær ekki fyrirgreiðslu til að kaupa nýtt húsnæði. Höfum í huga, að fjármálafyrirtækin eru sjaldnast að tapa á nauðungarsölum. Tjón fjármálafyrirtækjanna felst oftast í tapaðri ávöxtun eða að ekki fæst greitt upp í uppsprengdan innheimtu- og lögfræðikostnað, en ekki það að fjárhæðin sem tekin var að láni hafi tapast. Fyrirtækin kaupa oftast eignirnar á skít á priki og halda áfram að innheimta það sem ekki fékkst greitt með yfirtöku eignarinnar. Þau virða ekki lög um uppgjör við nauðungarsölu og síðan eru ótal dæmi um, að nauðungarsölur hafi verið ólöglegar, þó sýslumenn hafi ekki séð ástæðu til að stíga á bremsuna.
Hópur 3. Persónulegur missir. Margar fjölskyldur hafa sundrast sem afleiðing af ástandinu sem skapaðist eftir hrun fjármálakerfisins. Þær hafa ekki bara sundrast, fólk hefur lagst í veikindi, þunglyndi hefur sótt að mörgum og síðan eru örugglega mörg dæmi um að einstaklingar hafi tekið líf sitt. Peninga má vinna til baka, en brotin hjónabönd, heilsubrestur og að maður tali nú ekki um tekin mannslíf verða ekki bætt.
Tjónvaldar fá innheimtuleyfi á tjónið
Líklegast er það ótrúlegasta við hrunið 2008, að tjónvaldarnir skuli hafa fengið að innheimta átölulaust af hálfu yfirvalda, það tjón sem þeir ollu fólki og fyrirtækjum. Þetta er eiginlega svo magnað fyrirbæri, að fyrirmynd er hvergi að finna.
Höfum í huga að hrunbankarnir töpuðu stríðinu sem lögðu upp í. Þeir voru teknir yfir af ríkinu, þó svo að tveir þeirra hafi endaði í höndum kröfuhafa. En í þessu stríði, þá voru það bankarnir sem töpuðu því, sem hafa fengið sjálfdæmi um innheimtu á tjóninu sem þeir sjálfir ollu með "stríðsrekstri" sínum. Og nýju bankarnir sem stofnaðir voru á rústum þeirra gömlu, voru fengnir til að innheimta herkostnaðinn! Verð að viðurkenna, að þetta er gjörsamlega út í hött.
Stjórnvöld áttu að grípa inn í og setja reglur. Í þessu tilfelli áttu almennar reglur um breytingar á höfuðstól vegna tengingar við gengi eða vísitölu neysluverðs ekki standa, þar sem hrunbankarnir orsökuðu hrun krónunnar og þar með verðbólguna sem fylgdi. Stjórnvöld með bein í nefinu hefðu stigið fram og sagt að staða lána í ársbyrjun 2008 væri innheimtanlega krafa nýju bankanna. Allt annað var afleiðing af óviðunandi háttsemi hrunbankanna.
En við bjuggum ekki þá og höfum ekki síðan búið við stjórnvöld með bein í nefinu. Nei, hver meðvirka ríkisstjórnin á fætur annarri hefur verið við völd með óhuggandi áhyggjur af kröfuhöfum. Kröfuhöfum sem hafa á hinn bóginn haft mjög góðan og mikinn skilning á stöðu Íslands. Hafa samþykkt mikla niðurfærslu krafna sinna og veittu nýju bönkunum nægan afslátt af yfirteknum lánasöfnum til þess að hægt væri að lækka kröfur á fólk og lögaðila niður í stöðu þeirra í árslok 2007. Ég held að það sé langt frá því, að þeir kröfuhafar sem áttu kröfur í hrunbankana fyrstu 1-2 árin hafi verið hópur gráðugra hrægamma. Þvert á móti, þá held ég að þar hafi verið upp til hópa vinveittur hópur aðila, sem áttuðu sig á því að hag þeirra væri best borgið með því að endurreisa íslenskt þjóðfélag hratt og vel. Það voru stjórnvöld sem ákváðu aðra stefnu og halda því kröfuhöfum jafnt sem viðskiptavinum bankanna í heljargreipum óvissunnar.
Afleiðingin af þessari háttsemi er það ástand sem varað hefur á Íslandi síðustu 6 ár: hátt atvinnuleysi, fjöldagjaldþrot fólks og fyrirtækja, íbúðir seldar nauðungarsölum ofan af fjölskyldum, stöðnun, kreppa og svona mætti lengi telja. Verst er þó óvissuástandið. Nærri 6 árum eftir hrun vita fjölmargir einstaklingar/fjölskyldur og fyrirtæki ekki enn skuldastöðu sína. Óteljandi dómar hafa gengið á tveimur dómstigum og fjármálafyrirtækin virðast hafa sjálfdæmi um túlkun þeirra, hvort farið skal eftir þeim, hverju er farið eftir og þá hvenær. Kostnaður nýju fjármálafyrirtækjanna af öllu þessu hleypur á milljarða tugum. Sama á við um kostnað ríkisins. Þá er eftir að reikna "kostnað" fjárfyrirtækjanna af hinum ýmsu aðgerðum sem gripið hefur verið til. Sá "kostnaður" hefur ekki verið meiri en svo, að hann sést vart í bókum þeirra. Nei, hinar aumu ríkisstjórnir sem hér hafa setið, hafa skapað nýju fjármálafyrirtækjunum að minnsta kosti 400 milljarða hagnað síðustu fimm fjárhagsár! Fjármálafyrirtækin taka að sjálfsögðu það sem að þeim er rétt. Myndu ekki flestir gera það í þeirra sporum.
Stjórnvöld, þ.m.t. Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, segjast hafa haft stöðugleika fjármálakerfisins að leiðarljósi við ákvarðanir sínar. En meðan óstöðugleiki ríkir í öðrum geirum þjóðfélagsins, hvernig er hægt að segja að fjármálakerfið búi við stöðugleika? Meðan viðskiptavinir bankanna búa við óvissu, upplifa sig í þvinguðu viðskiptasambandi, vinna nánast dag og nótt til að eiga fyrir næstu afborgun lána, hvernig geta menn komist að þeirri niðurstöðu, að fjármálafyrirtækin búi við stöðugleika? Fjármálalegur stöðugleiki verður ekki fyrr en nánast allir geta sagt, að þeim líði vel í viðskiptasambandi sínu við fjármálakerfið og fjármálastofnanir eru ánægðar með viðskiptasamband sitt við viðskiptavini sína. Slíkt verður ekki nema viðskiptasambandið leiði til gagnkvæms ávinnings.
Lágir vextir, hóflegur vöxtur og sjálfbærni eru lykill að stöðugleika
En getum við lært eitthvað af undanfara og afleiðingum falls fjármálafyrirtækjanna í október 2008? Já, við getum það, en ég kannast ekki við að menn hafi verið neitt of uppteknir af þeim lærdómi. Froðumyndun er byrjuð aftur á hlutabréfamarkaði og húsnæðismarkaði. Launamismunur er aftur farinn að koma fram. Spillingin um að sumir fá og aðrir ekki er enn þá til staðar. Frændsemi, vinskapur, flokksskírteini og vera viðhlæjandi skiptir meira máli en heiðarleiki, hreinskilni, ráðsemd, sannleikur og traust. Eyjamenningin er alls ráðandi: Annað hvort ertu í liði með okkur eða ferjan fer í fyrramálið, eins mun vera viðkvæðið á Ermasundseyjunum.
Mín eigin athugun og ígrundun á ástandinu fyrir og eftir hrun segir mér, að nánast sé hægt að taka lærdóminn af hruninu saman í eina setningu: Sígandi lukka er best!
Til að brjóta þetta frekar niður, þá er hér listi, langt frá því tæmandi, yfir atriði sem hafa má í huga:
- Að fara sér hægt í öllum aðgerðum,
- að undirbúa allt vel og vandlega,
- að sofa á stórum ákvörðunum og leita álits óháðra aðila,
- að storka skoðunum jábræðrabandalagsins,
- að spyrja "hvað ef" spurninga, að skoða verstu útkomu ekki síður en þá bestu,
- að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig,
- að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum en ekki skýla sig á bakvið að ekkert bannaði þetta,
- að skilja áhættuna sem fylgir, ekki síst fyrir aðra,
- að hófleg ávöxtun er best,
- að lán eru almennt í skilum þegar vextir eru lágir,
- að langtímahagnaður mun skilabetri árangri en skammtímagróði,
- að besti sparnaðurinn fellst í því að greiða upp lán,
- að stöðugleikinn einn tryggir efnahagslegt jafnvægi,
- að sjálfbærni er lykillinn að framtíðinni, hvort heldur heimilisins, fyrirtækisins, ríkisins eða þjóðarinnar.
Þessi listi er ekki um lög og reglur sem stjórnvöld þurfa að setja. Hann er um okkar eigin hegðun, heilræði og siðareglur. Við listann má bæta endalaust fleiri góðum atriðum.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 12
- Sl. sólarhring: 46
- Sl. viku: 209
- Frá upphafi: 1679904
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 188
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó og takk fyrir góð skrif eins og ævinlega.
Ég var að lesa síðustu færslu á undan þessari frá 6.6.2014 (Hæstiréttur að missa sig?) en það hefur lokast fyrir athugasemdir við hana svo ég vona að þér sé sama þó ég komi þessu á framfæri hér.
Athugaðu endilega líka þennan dóm frá því í fyrra:
http://www.haestirettur.is/domar?nr=9076
Þarna lá fyrir í málinu að fjárnámsþoli hafði ekki verið löglega boðaður til fyrirtöku á fjárnámasbeiðni bankans. Boðunin var birt öðrum aðila og í öðru sveitarfélagi en fjárnámsþoli átti þá lögheimili.
Fjárnámsgerðin fór fram engu að síður, að fjárnámsþola fjarstöddum þar sem hann hafði ekki fengið boðunina, og varð því árangurlaust. Með það upp á vasann krafðist bankinn gjaldþrotaskipta á búi fjárnámsþolans, sem tók til varna og byggði m.a. á því að fjárnámið væri ógilt þar sem boðun í fyrirtöku þess hefði aldrei borist sér og hann ekki orðið þess áskynja fyrr en gerðin var yfirstaðin.
Í reifun á niðurstöðu dómsins segir m.a.:
Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að hvað sem liði fullyrðingum B þætti ljóst að skuldabréfið hafi verið í vanskilum. Yrði að líta á hið árangurslausa fjárnám sem gert hafði verið hjá B sem sönnunargagn um ógjaldfærni hans og skipti í því sambandi engu þótt einhverjir annmarkar kynnu að hafa verið á framkvæmd þess enda hefði B ekki nýtt sér þau úrræði sem hann hefði haft samkvæmt lögum nr. 90/1989 hvað gerðina varðaði. ...
Fjárnámsþolinn gat auðvitað ekki gripið till neinna slíkra úrræða þar sem bankinn var þá nýbúinn að setja heimili hans OG vinnustað á uppboð og reka hann út á götuna atvinnulausan. Samt var boðunin í fjárnámið birt á því heimilisfangi, þó bankinn hafi vel mátt vita að þar bjó enginn lengur enda var bankinn þá sjálfur orðinn eigandi fasteignarinnar! Fyrir vikið varð fjárnámsþoli ekki áskynja um gerðina fyrr en eftir að kærufrestur var liðinn, og gat því ekki höfðað ógildingarmál.
- Í stuttu máli : gjaldþrot á grundvelli ólögmæts fjárnáms.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.8.2014 kl. 17:12
Þér er fyrirgefið, Mummi. Þessi dómur sýnir bara að réttlæti virðist vera vandsótt á Íslandi.
Marinó G. Njálsson, 17.8.2014 kl. 20:36
Góður pistill, takk.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.8.2014 kl. 00:22
Frábær pistill, Marínó, eins og vanalega.
Hvernig metur þú ástandið í hagkerfinu í dag ?
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 18.8.2014 kl. 09:57
Langt síðan ég hef séð svo vandaðan rökstuðning fyrir nauðsyn fyrir Endurreistu Þjóðveldi.
Takk fyrir frábæran pistil og djarfa áminningu. Mér þótti vænst um hjartað á milli línanna.
Guðjón E. Hreinberg, 18.8.2014 kl. 11:59
áhugaverður pistill. Heilræðin í lokin eru mjög í þeim anda sem ég velti fyrir mér á morgungöngunni í morgun, næsti skellur er ekki langt undan og mikilvægt að efla viðspyrnu hjá hverjum og einum.
Stefán Jón Hafstein (IP-tala skráð) 18.8.2014 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.