19.2.2014 | 00:05
Vangaveltur um mælingu kaupmáttarbreytingar
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort mæling á kaupmætti sem birt er á hátíðarstundum sé í raun og veru rétt. Þ.e. hin almenna regla að skoða breytingar á launavísitölu og vísitölu neysluverð og segja það sé breytingin launavísitölunni í hag, þá sé kaupmáttaraukning, en sé hún launavísitölunni í óhag, þá hafi orðið kaupmáttarskerðing. Átti í orðaskiptum við Stefán Ólafsson um þetta í dag og vil deila vangaveltum mínum með fleiri.
Rök mín eru að rangt sé að telja hækkun og lækkun kaupmáttar á sama línulega hátt á tekjur yfir neysluviðmiði einstaklings/heimilis og undir viðmiðinu. Rökin eru einfaldlega, að því meiri sem tekjurnar eru, þá aukast líkurnar að vísitala neysluverðs mæli ekki það sem þær fara í.
Fyrir þessa grein langar mig til að nota orðið neysluútgjöld yfir öll útgjöld heimilanna hér fyrir neðan sem ná yfir útgjöld til kaupa vöru og þjónustu og annars kostnaðar sem mældur er í vísitölu neysluverðs. Þetta er náttúrulega ekki hárnákvæmt, en er nógu nákvæmt fyrir mína umfjöllun.
Tvær fjölskyldur
Tökum dæmi um heimili með 260.000 kr. í tekjur eftir skatta og neysluútgjöld upp á 250.000 kr. og annað heimili með 1.000.000 kr. í tekjur eftir skatta og 500.000 kr. í neysluútgjöld. Í báðum tilfellum innifelur vísitala neysluverðs alla flokka sem þessi tvö heimili borgar fyrir með neyslu sinni. Tekjuháa fjölskyldan er hins vegar með annars konar útgjöld og sparnað, sem er ekki mælt í vísitölu neysluverðs.
Nú hækkar vísitala neysluverðs um 4%. Það þýðir að lægri neyslukarfan hækkar í 260.000 kr. en sú hærri í 520.000 kr. Spurningin er: Hvað varð hvor fjölskylda fyrir mikilli kaupmáttarskerðingu? Samkvæmt venjulegum útreikningi verða báðar fyrir sömu skerðingunni, þ.e. 4%, þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 4% án þess að laun hækkuðu. En er þetta rétt?
Önnur fjölskyldan notar öll sín útgjöld í atriði sem mæld eru í vísitölu neysluverðs. Hún verður því líklegast fyrir fullri skerðingu á ráðstöfunartekjum sínum við hækkun neysluútgjalda sinna, þ.e. 10.000/260.000 = 3,85%. Hin fjölskyldan notaði hins vegar bara helming tekna sinna í neysluútgjöldum. Hækkun vísitölunnar skerðir því kaupmáttinn um 20.000/1.000.000 = 2%. Hvað varðar hinar 500.000 kr. sem fjölskyldan hafði til ráðstöfunar, þá er enginn grunnur til að halda því fram að þar hafi orði skerðing á kaupmætti. Kannski gat hún ekki fjárfest eins mikið, greitt eins mikið inn á lánin sín eða lagt eins mikið fyrir. En ekkert af þessu hefur nokkurn skapaðan hlut með kaupmátt að gera og það er hreinlega rangt að rugla þessu tvennu saman.
Hvað ef útgjöldin voru í útlöndum?
Ég skil alveg á hverju það byggir að bera saman launabreytingar og breytingar á vísitölu neysluverðs, en ég tel að í því felist blekking. Dæmi: Heimili er með 2 m.kr. í tekjur á mánuði eftir skatta. Heimilisfólk ferðast mikið til útlanda og verslar þar og eyðir um helmingi tekna sinna. Krónan styrkist um 12% meðan verðbólgan er 4%. Hvort varð fjölskyldan fyrir skerðingu kaupmáttar vegna þess að það var verðbólga á Íslandi eða kaupmáttaraukningu vegna þess að krónan styrktist? Hefðbundni útreikningurinn segði að aumingja fjölskyldan hefði orðið fyrir 4% kaupmáttarrýrnun, samt jókst kaupgeta hennar í útlöndum um 12% vegna styrkingar krónunnar. Það var nefnilega bara sá hluti útgjalda hennar sem fór í neysluútgjöld sem varð fyrir hækkun vegna verðbólgu, hins vegar jókst kaupmáttur hennar í útlöndum vegna styrkingar krónunnar. Þessi fjölskylda varð því fyrir verulegri kaupmáttaraukningu, en ekki skerðingu.
Önnur aðferð til að reikna breytingar á kaupmætti
Ég tel það gefa ranga mynd af þróun kaupmáttar, að reikna annan hluta tekna en fer í neysluútgjöld með þegar verið er að skoða breytingu kaupmáttar. Enginn vandi er að taka tillit til mismunandi neysluútgjalda í samræmi við neysluviðmið velferðarráðuneytisins.
Með þessu er ég ekki að segja að kaupmáttur tekna umfram neysluútgjöld séu alfarið óháð þróun vísitölu neysluverðs. Ég er bara að benda á að þessi tengsl eru allt önnur, en tengsl neysluútgjalda og verðbólgu.
Ég er líka að segja að núverandi mæling á þróun kaupmáttar dregur úr kaupmáttaraukningu þeirra sem eru með tekjur umfram neysluútgjöld miðað við það sem raunverulegt er og eykur skerðinguna. Það er því hreinlega rangt að með því að hækka laun allra sem nemur verðbólgu tiltekins tímabils, þá sé bara verið að varðveita kaupmátt. Svona til að taka ýkt dæmi, þá þyrfti sá sem er með 100 m.kr. í mánaðarlaun eftir skatta að fá 4 m.kr. hækkun (eftir skatta) til að viðhalda kaupmætti í 4% verðbólgu. Það sjá allir að þetta er rugl. Ég fullyrði að enginn einstaklingur nær að eyða mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, 100 m.kr. á mánuði eingöngu í atriði sem mæld eru með vísitölu neysluverðs. Og ekki einu sinni þó tekjurnar væru "bara" 1 m.kr. á mánuði eftir skatta.
Ég tel að skilja verða á milli mælingar kaupmáttar vegna neysluútgjalda og annarra útgjalda eða sparnaðar. Þannig þurfi í raun að skilgreina meðalneysluútgjöld, t.d. út frá neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins, köllum þau X, og láta hvort heldur breytingar á vísitölu neysluverðs eða launaþróun taka mið af henni. (Of flókið er að láta X vera breytilega tölu fyrir hvert heimili.) X-ið breytist svo með vísitölu neysluverðs og kaupmáttarbreytingar mælast að fullu fyrir ráðstöfunartekju allt að 10-20% umfram X, en komi skert inn í mælinguna eftir það, þar til hún hverfur alveg við t.d. 2X. Með þessu er einfaldlega verið að segja, að útgjöld heimilis umfram 2X innihaldi ekkert atriði sem mælt er með vísitölu neysluverðs.
Áhrif breytinganna
Áhrifin koma eingöngu fram hjá þeim sem eru með ráðstöfunartekjur umfram X + 10 eða 20% hvort viðmiðið sem yrði notað. Þau myndi skýrast í því, að þessi hópur þyrfti ekki sömu prósentutöluhækkun og þeir sem eru með lægri tekjur til að viðhalda kaupmætti sínum byggðum á breytingu á vísitölu neysluverðs. Í nýlegum kjarasamningum var því haldið fram að allir umfram þá launalægstu yrðu að fá sömu prósentuhækkun til að viðhalda sama kaupmáttarstigi. Þetta er náttúrulega ekki rétt, þar sem 295 kr. hækkun á dag hjá þeim í lægstu laununum fer öll í neysluútgjöld meðan fimmföld sú tala hjá einstaklingi með 1.250 þ.kr. fer að öllum líkindum í eitthvað annað en neysluútgjöld. Tekjuhærri einstaklingurinn þurfti líklega í mesta lagi helming hækkunarinnar til að mæta hækkun neysluútgjalda.
Staðreyndin er að hækkun hæstu launa hefur sjaldnast nokkuð með hækkun neysluútgjalda eða verðbólgu. Sá sem er með 8,5 m.kr. á mánuði, hann ræður vel við að neysluútgjöld heimilisins hækki um 100.000 kr. á mánuði. Varla að hann taki eftir því. Hann þarf því ekki 2,8% hækkun launa sinna til að viðhalda kaupmætti, eins og hann er mældur af Hagstofu. Líklegast myndi innan við 0,5% hækkun duga til að mæta hækkun neysluútgjalda vegna verðbólgu. Hin "útgjöldin" koma verðbólgu ekkert við og hækkun eða lækkun þeirra segir ekkert til um kaupmátt.
Ég vona að þessi pæling mín verði einhverjum innblástur til að skoða þetta frekar. Sjái einhver meinbug á rökum mínum, þá þigg ég allar ábendingar.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 1680018
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Fróðleg og skemmtileg pæling, Marinó.
Svo mætti einnig teigja þetta í hina áttina, þ.e. hversu mikla hækkun þeir þurfa sem eru með tekjur undir Xinu. Hversu há þarf prósentan að vera svo þeir haldi sínum kaupmætti til jafns við þá sem hafa X tekjur.
Gunnar Heiðarsson, 19.2.2014 kl. 00:43
Takk Marinó, flott staðreyndar færsla.
Sigurður Haraldsson, 19.2.2014 kl. 09:51
Þetta eru góðar pælingar og alveg í þeim anda sem ég hef oft þusað um en ekki á svona skýran máta eins og þú setur þarna fram. Ég hef líka skoðað bakgrunn launavísitölunnar (fyrir nokkrum árum) og varð þá fyrir miklum vonbrigðum með virkni hennar. Í ljós kom að verulega vantaði á upplýsingar úr lægri launaþrepum svo raunhæft meðaltal væri hægt að byggja á þeim upplýsingum sem fram komu. Hins vegar var mun meiri upplýsingar að hafa úr hærri launaþrepum. T.d. var nálægt 100% upplýsingagjöf frá launagreiðendum sem greiddu 1. milljón eða meira í mánaðarlaun, meðan svarhlutfall launagreiðenda í lægstu launageirunum var á bilinu 25 - 30%. Þessu til viðbótar var fjöldi launþega í láglaunageiranum marfallt meiri en í hærri geirunum. Þessu til viðbótar var ekkert vegið inn í launavistöluna launatekjur þeirra 15.000 einstaklinga sem þá voru taldir vinna svarta vinnu. Af öllum þessum þáttum hef ég ævinlega sett stórt spurningamerki við raungildi launavisitölunnar.
Guðbjörn Jónsson, 19.2.2014 kl. 10:22
Mér finnst þetta skrítinn samsetningur. Þó svo að suma muni meir um það hvort að tekjur sveiflist um 4% til eða frá, þá þíðir það ekki að sumir eiga afgang af launum við hver áramót að þeirra skerðing sé smærri en þeirra sem þurfa að nota upp allar sínar tekjur í hverjum mánuði að jafnaði.
------------------
Það sé því eðlilegt algerlega að líta á tekjuskerðinguna sem 4% hjá hálaunahópnum sem og þeim sem er í miðjum tekjum. Þó svo annar hópurinn eigi afgang af launum við hver áramót.
------------------
Fyrir utan að staða fólks er svo misjöfn. Þ.e. vel mögulegt að skulda það mikið, að 100% af tekjum fari í eðlileg útgjöld við hver áramót - þó svo viðkomandi í háum launaflokki.
------------------
Svo einnig, að neysla fólks í hærri tekjum er gjarnan meiri - þeir eru ekki endilega að liggja með fé í afgang við hver mánaðamót. Það fer einfaldlega eftir hverjum og einum hvort viðkomandi lifir sparlega eða vill veita sér allan þann munað sem launin leifa.
**Svo ég get ekki tekið undir þá ályktun.
------------------
Varðandi gengisbreytingar, er það augljóst að einstaklingur verður fyrir tekjuaukningu ef gengið hækkar um 12% en verðbólga er 4%. Flestar vörur eru innfluttar, þannig að þó einstaklingur sé ekki að kaupa í erlendum netverslunum ætti gengishækkunin að koma fram í vöruverði verslana, fyrir utan þær er selja fyrst og fremst matvöru.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 19.2.2014 kl. 18:08
Einar Björn, ég skil ekki hvað þú ert að blanda tekjuskerðingu inn í þetta. Síðan er rangt hjá þér að hálaunahópurinn verði fyrir sömu áhrifum vegna verðbólgu og láglaunahópurinn. Eins og þú lesir ekki forsendur mínar og skýringar. Hvernig getur sá sem notar bara helming ráðstöfunartekna í atriði sem vísitala neysluverðs mælir orðið fyrir 4% kaupmáttarskerðingu í 4% verðbólgu. Á sama tíma gætu hlutbréfin sem hann hefur fjárfest hinn hluta tekna sinna í hafa hækkað um 20%, þannig að hann fær færri hluti en síðast.
Strangt til tekið, þá er öll kaupmáttarmæling í besta falli einhvers konar meðaltals, jafnaðarmennsku kjaftæði.
1. Verðbólga kemur misilla við fólk. Þannig hækkaði húsnæðisliður vísitölunnar mjög skarpt í apríl í fyrra (ef ég man rétt). Ástæðan var undarleg hækkun á húsnæðisverði á landsbyggðinni. Þessi hækkun snerti kannski 20 heimili í landinu, en varð samt til þess að hægt var að reikna út rýrnun kaupmáttar (miðað við óbreytt laun) um 1,4% (eða hver þessi áhrif voru nákvæmlega). Í einhverjum öðrum mánuði hækkaði flug um tugi prósenta og hafði líka 1,4% áhrif. Fyrir þá sem hvorki voru að kaupa sér húsnæði né flugu um þetta leiti eða í marga mánuði á eftir, þá höfðu breytingarnar á þessum liðum engin áhrif, en samt reikna Hagstofan það út að viðkomandi var fyrir rýrnun kaupmáttar.
2. Launavísitala er hinn þátturinn sem notaður er til að reikna breytingar á kaupmætti. Þekkt er að ákveðnir hópar í samfélaginu halda launavísitölunni uppi, þ.e. fjármálageirinn og samgöngur (flugmenn). Þessir tveir hópar hafa fengið mun meiri launahækkanir í gegn um tíðina og eru auk þess mun tekjuhærri en aðrir hópar. Þannig að þegar launavísitalan hækkar um, bara sem dæmi, 10% þá voru þessir tveir hópar kannski að fá 15% hækkun meðan aðrir voru að fá 5% hækkun.
3. Nú kemur að þessu skemmtilega. Gefum okkur fyrst að verðbólga hafi verið 5%. Hópur heimila sem fékk 15% hækkun launa varð á viðmiðunartímabilinu ekki fyrir neinni hækkun húsnæðiskostnaðar né ferðaðist á milli landa. Þannig að verðbólguþættir sem lögðu til 2,8% af þessum 5%-um töldu ekki hjá þeim. Samkvæmt meðaltalsruglinu, þá kaupmáttaraukningin 5%, en hjá þessum heimilum varð hún í raun 12,8% af þeim hluta teknanna sem fóru í neysluútgjöld. Síðan kemur í ljós að vegna góðra tekna, þá fór ekki nema helmingur launanna í neysluútgjöld og annað fór bara inn á bankareikning eða til að greiða niður skuldir. Þá kemur í ljós að hækkun launa umfram neysluútgjöld var hvorki 5% né 12,8% heldur 25,6%. Kaupmáttaraukningin varð því í raun 25,6%.
Ég sé að þú breytir forsendum mínum til að laga þær að þinni niðurstöðu. Auðvitað er þér frjálst að gera það, en með því ert þú ekki að hrekja mína niðurstöðu. Þú ert að búa til þína eigin niðurstöðu sem byggir á allt öðrum forsendum en ég nota.
Ályktun þín varðandi gengið og verðbólguna er röng. 1. Ef ég versla vöru á Íslandi, þá er ekkert sem segir að hún lækki í verði, þó gengið styrkist. 2. Styrking krónunnar og lækkun vöruverðs kemur tekjum ekkert við, þetta ætti hins vegar að hafa áhrif á hve stór hluti tekna minna fer í að borga fyrir innfluttan varning. 3. Verðbólga er upp á 3,1% þrátt fyrir 12% styrkingu krónunnar. Miðað við nýgerða kjarasamninga, þá gera þeir (samkvæmt meðaltalsaðferðinni) ráð fyrir kaupmáttarskerðingu.
Ef þú vilt halda áfram rökræðum um þetta við mig, þá bið ég þig um að breyta ekki forsendum. Haltu þig við forsendurnar í samanburði eða gagnrýndu forsendurnar og við getum rætt þá gagnrýni. Ekki breyta forsendum og gera svo samanburð.
Marinó G. Njálsson, 19.2.2014 kl. 18:50
Mér finnst þú taka heldur illa við vinsamlegum ábendingum:
Þegar þú ásakar mig um að breyta forsendum, er ég að benda þér á það - að hátekjuhópar eru ekki endilega með svo hátt hlutfall tekna í afgang og þú gerir ráð fyrir.
Það sé augljóslega líklegt að neysla aukist umtalsvert með hærri tekjum - - eins og þú veist sjálfur, kaupa hærri tekjuhópar vanalega dýrari hluti, húsnæði, bíla o.s.frv.
**Ábendingin er þá sú - - að þú áætlir of lág neysluútgjöld. Á þann sem er með milljón í mánaðarlaun. Til þess að dæmið sé líklega trúverðugt.
Þú nefndir það ekki sem forsendu, að "hálaunahópurinn" væri með verulegan hluta tekna af hlutabréfum.
---------------------
**Þú þarft þá eiginlega að greina hálaunahópinn nánar - eftir því hvaðan "tekjurnar" koma.
Sá sem hefur tekjur að háu hlutfalli af eignum hluta eða öðrum formum peningalegra eigna -tja, sá getur sannarlega verið að græða á verðbólgu.
Alls engin skerðing hjá honum.
En ef við erum að tala um "launamann" sem ekki hefur neinar umtalsverðar tekjur aðrar en "launatekjur" og hefur milljón í laun.
**Þá sannarlega verður sá fyrir skerðingu tekna sinna, ef verðbólga er 4%.
Það má vel vera þó, að sá hafi "meira" borð fyrir báru tekjulega, en "lágtekjumaðurinn" og því betur í stakk búinn að bregðast við kjaraskerðingunni með því að minnka neyslu.
Það fer þó algerlega eftir "skuldastöðu."
----------------------
**Verður þú var við það, að í verslunum þ.s. ekki eru seld matvæli, sé almennt hér seldur varningur sem ekki er innfluttur?
Ég tók vendilega fram "verslanir sem selja innfluttan varning."
Mér finnst það sérkennileg "hugsun" að líta svo á að það komi ekki tekjum við, ef lækkun innflutningsverðs leiðir til þess - að launin mín endast lengur.
Ég mundi kalla það "tekjuhækkun."Alveg eins og að það sé þá "tekjulækkun" ef verðlag hækkar vegna þess að gengið sígur og innflutningsverðlag hækkar.
Fyrir mér - er kaupmáttur launa "meginatriðið" ef hann eykst sé það tekjuhækkun og ef hann minnkar sé það tekjulækkun.
------------------
" Miðað við nýgerða kjarasamninga, þá gera þeir (samkvæmt meðaltalsaðferðinni) ráð fyrir kaupmáttarskerðingu."
Ég tók að sjálfsögðu undir það, að rangt væri að halda því fram að tekjulækkun verði þegar gengið hækkar um 12% meðan verðbólga er 3%.
Þetta er mikilvæg ástæða þess, að ég vil eiginlega frekar að "tekjur" séu hækkaðar með gengishækkun, en prósentuhækkunum launa.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 20.2.2014 kl. 00:33
Með fullri virðingu, Einar Björn, þá er ég ekkert að taka illa í þína ábendingar. Mér finnst þú hins vegar nota skilgreiningar á hugtökum frjálslega og draga ályktanir sem grein mín bíður ekki upp á. Þú heldur því áfram í síðara innleggi þínu.
Ég tek dæmi og dæmi eru alltaf sett fram til að draga fram eitthvað sérstakt. Segi aldrei að þetta sé alltaf svona. Vill að vísu svo til að bæði þessi dæmi eiga sér stuðning í neysluviðmiði velferðarráðuneytisins, en það er önnur saga. Dæmunum var fyrst og fremst ætlað að sýna, að vísitala neysluverðs mælir aldrei hækkanir eða lækkanir á öllum útgjöldum heimilanna. Þess vegna verði við mælingar á kaupmáttarbreytingum að taka tillit til þeirra útgjalda eða sparnaðar sem er þar fyrir utan.
Færslu minni er fyrst og fremst ætlað að benda á, að kaupmáttarbreytingar geta aðeins mælt þann hluta útgjalda sem vísitala neysluverðs mælir, það sé óeðlilegt að mæla kaupmáttarbreytingar hátekjuhópa sem eru með upptalsverð útgjöld umfram það sem ég skilgreini sem neysluútgjöld á sama hátt og þeirra sem nær eingöngu eru með neysluútgjöld og útfrá því bendi ég að sama prósentuhækkun launa leiðir ekki til sömu kaupmáttarbreytinga upp allan launastigann. Rökin, fyrir því að hátekjumaðurinn eigi að fá sömu prósentuhækkun og miðlungstekjumaðurinn til að vega upp sömu kaupmáttarrýrnunina eða tryggja sömu kaupmáttarhækkunina, eru því einfaldlega röng og eru hluti af blekkingu til að viðhalda ákveðnu ójafnvægi í tekjudreifingu.
Við þetta má bæta, að í hagspárkynningu Arion banka í gær, þá gerir bankinn ráð fyrir að launaskrið verði talsvert á þessu ári, þannig að almennt launafólk á að sætta sig við 2,8%, en elítan ætlar sér að ná í 7-10%, ef ekki meira.
Marinó G. Njálsson, 20.2.2014 kl. 10:59
Auðvitað verður ekki sama kaupmáttaraukning upp launastigann, ef t.d. samsetning tekna sumra er verulega önnur, t.d. eign á hlutabréfum, verðbréfum og öðrum fjármálagerningum sem veita eigendum arð.
Þetta er ein ástæða þess, af hverju ég hef áhuga á að hækka kaupmátt, með genginu - frekar en með launabreytingum. Það auðvitað mundi ekki hækka tekjur allra jafnt - - en ég sé ekki hvernig þ.e. mögulegt.
Launaskrið hátekjuhópa er orðið alþjóðlegt vandamál, bendi þér t.d. á mjög áhugavert plagg, eftir þýska sérfræðinga, taktu eftir hraðri aukningu launabils og að auki því hve harkalega hefur verið dregið úr réttindum launafólks í lægri tekjuhópum: http://www.cream-migration.org/publ_uploads/CDP_06_14.pdf
Einar Björn Bjarnason, 21.2.2014 kl. 00:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.