Leita í fréttum mbl.is

Af almennum aðgerðum um lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda

Vinnuhópur ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um skuldamál heimilanna hefur skilað skýrslu sinni.  Hún lofar í flestum atriðum góðu, þó svara þurfi fjölmörgum spurningum, sem nefndarmenn hafa ekki haft hugmyndaflug til að spyrja eða vildu ekki flækja niðurstöðuna og skýringar sínar of mikið.

Mín niðurstaða er að hugmyndin sé góð og niðurstaðan einnig.  Ég ætla ekki að vera eins og vanþakklátur krakki og væla yfir því að hafa ekki fengið allan ísinn.  Bæði held ég að tillögurnar eigi eftir að taka breytingum og eins skil ég vel að ýtrustu kröfum verður aldrei náð.  Ekki að ég hafi átt neina kröfu í þessu máli, þó niðurstaðan sé mögulega sprottin upp af fræi sem ég sáði haustið 2008.

Rós í hnappagat HH

Ég held að Hagsmunasamtök heimilanna megi vera ánægð með að þessi niðurstaða hafi fengist.  Samtökin voru stofnuð til að berjast fyrir leiðréttingu stökkbreyttra húsnæðislána og á þeim tæpu 5 árum sem liðin eru fá stofnun samtakanna, þá hefur gengistrygging verði dæmd ólögleg, afturvirkni vaxta hefur verið hafnað af Hæstarétti (a.m.k. hvað varðar greidda vexti), farið var í alls konar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila, tímabundið bann var sett á nauðungarsölur (þó það hafi mátt vara lengur), ný neytendalánalöggjöf hefur verið sett og núna er komin úrræði til lækkunar á verðtryggðum lánum.  Ég efast ekki um að einhverjir hefðu viljað sjá lengra gengið í framangreindum úrræðu/málum og enn er þörf frekari úrræða fyrir tiltekna hópa, en veltum fyrir okkur hver staðan væri, ef Hagsmunasamtök heimilanna hefðu ekki staðið í þessu endalausa andófi.

Þó nú sé tími fagnaðar og þessi orrusta hafi loksins unnist, þá er stríðið ekki búið.

Almennar aðgerðir

Hafa skal fyrst í huga að um almenna aðgerð er að ræða.  Henni er ekki ætlað að bjarga þeim sem eru í alvarlegasta vandanum.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þóttist hafa komið með úrræði fyrir þann hóp, en annað hefur komið á daginn.

Sem almenn aðgerð, þá tel ég hana vel heppnaða í flesta staði.  Hún er með skýr markmið og þessi blöndun milli aðferða dregur úr áhættu ríkisins af henni.  13% leiðrétting er ekki fjarri upprunalegum kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna, sem voru á bilinu 15-16% í janúar 2009.

Þar sem aðgerðin er tvíþætt og með alls konar flækjur, þá er ekki ljóst hvað hún þýðir fyrir hvert og eitt heimili.  En skoðum þetta fyrst fyrir heimili sem ekki hefur notið annarra úrræða.  Fyrir heimili hátekjumannsins með 4 m.kr. á mánuði og 40 m.kr. húsnæðisskuld, þá gætu húsnæðisskuldir viðkomandi lækkað um 5,5 m.kr. eða 13,75%.  Væri þessi sami aðili með 20 m.kr. skuld, þá gætu skuldirnar lækkað um 20,5%.  Fyrir meðalheimili, þar sem fjölskyldutekjur eru 700.000 kr. á mánuði og skuldirnar eru þær sömu og að ofan, þá er lækkunin líka sú sama.  Þannig að ekki skiptir máli hvort heimilið er meðaltekjuheimili eða hátekjuheimili, hlutfall leiðréttingarinnar fer eftir skuldastöðunni, ekki eignunum. Frá báðum þessum tölum dragast síðan sérstakar vaxtabætur, en líklegra er að meðaltekju heimilið hafi fengið þær óskertar en hátekjuheimilið ekki, er það þá ályktað út frá því að líklegra sé að hátekjuheimilið eigi óskerta eign yfir viðmiðunarmörkum skerðingar. 

Heimili undir meðaltekjum munu ekki geta nýtt sér skattaafslátt af séreignarsparnaði upp að 500.000 kr. hámarkinu á hverju ári.  Miðað við 20 m.kr. skuld næði uppsöfnuð áhrif aðgerðanna hæst um 20,5% (án annarra atriða) og niður í að vera bara þessi flötu 13% fyrir þá sem ekki vilja/geta lagt í séreignarsparnað eða vilja ekki nota hann í lækkun lánanna.

Flækjurnar í aðgerðinni

Satt best að segja, þá skil ég ekki allar þessar flækjur sem lagðar eru til:

1. Sérstakar vaxtabætur:  Hvenær voru verðbætur taldar vextir í bókum ríkisins?  Sérstakar vaxtabætur voru án tekjuviðmiðunar, en skertust ef skuldlaus eign fór yfir 10 m.kr. hjá einstaklingi og 15 m.kr. hjá hjón/sambúðarfólki og féll niður við tvöfalda þá upphæð.  Hafa skal í huga að ástæður vaxtabótanna voru ekki síður tekjutap heimilanna, en hækkun vaxta.  Við erum að tala alls um 12,3 ma.kr. sem innheimtar voru með sérstökum skatti á fjármálafyrirtækin.  Líta verður svo á að hér sé verið að leggja til endurgreiðslu á þessum skatti til fjármálafyrirtækjanna á sama tíma og fjármálaráðherra talar um að eðlilegt sé að þau leggi meira til að ofurhagnaði sínum.  Þar sem stór hluti heimila fékk þessar 2-300.000 kr. árlega í tvö ár (á bara við álagningu 2011 og 2012), þá gerir þetta sjálfkrafa 4-600.000 kr. lægri lækkun samkvæmt 13% leiðinni.  13% leiðin er þá ekki lengur 13% leið heldur eitthvað allt annað og lægra.

2. Sértæk skuldaaðlögun og 110% leiðin:  Alls fóru 7,3 milljarðar í sértæka skuldaaðlögun og 46 ma.kr. í 110% leiðina samkvæmt upplýsingum í skýrslu vinnuhópsins.  Hvorutveggja var gert á kostnað fjármálafyrirtækja sem flest tóku yfir skuldir heimilanna með háum afslætti ("deep discount", eins og lesa má í ársskýrslum fjármálafyrirtækjanna).  Nú veltur það alfarið á því í hvaða röð lán röðuðust hvort þessar aðgerðir lækkuðu verðtryggt lán eða eitthvað annað lán.  Það verður því algjörlega happa og glappa hvort lánið sem á í hlut er verðtryggt húsnæðislán eða gengistryggt lán eða lán sem ekki gaf rétt til vaxtabóta.  Mér finnst út í hött að ríkissjóður ætli í reynd að endurgreiða fjármálafyrirtækjum leiðréttingar til lánþega, þegar þessi sömu fjármálafyrirtæki hafa ekki skilað til lánþega þeim afslætti sem fengust frá hrunbönkunum.

Ætli fjármálafyrirtækin að malda í móinn og segjast hafa skilað öllum afslættinum, þá benda þær tölur sem birtar eru í skýrslunni til annars. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur fram að bankarnir þrír hafi fengið verðtryggð húsnæðislán með 70,9 ma.kr. afslætti.  Hér eru taldir til innan við 54 ma.kr. vegna allra lána allra fjármálastofnana.  Hlutur ÍLS í þessari tölur er líklegast í kringum 8 ma.kr., þannig að hlutur allra lána allra annarra útlánastofnana er 46 ma.kr.  Skýtur nánast skökku við, að úrræði sem borgað var af hrunbönkunum, eigi að lækka leiðréttingu á lánunum lántaka, þegar bankarnir sitja á ekki undir 24 ma.kr. af þeim afslætti sem þeir fengu vegna verðtryggðra lána.  (Fyrir utan að ég tek þessa tölu upp á 70,9 ma.kr. ekki trúanlega, en það er annað mál.)  Vissulega var afslátturinn sem bankarnir fengu misjafn.  Arion banki fékk minnst en Íslandsbanki mest (samkvæmt upplýsingum frá bönkunum).

Hvernig sem litið er á þennan frádráttarlið, þá er ljóst að það væri í besta falli hroki af fjármálafyrirtækjunum að neita að greiða þann skatt sem á að borga fyrir niðurfærsluna.  Að hluta til er verið að bæta þeim upp leiðréttingar sem þegar hafa átt sér stað og verði búið til frumlán og leiðréttingarlán úr þeim lánum sem farið hafa í gegn um 100% leiðina og sértæka skuldaaðlögun, þá verður endurgreiðslan staðreynd.  Vona ég að menn hafi ekki hugsað framkvæmdina þannig.  Hins vegar er enn langur vegur að bankarnir hafi skilað til lántaka verðtryggðra húsnæðislána þeim afslætti sem þeir fengu frá hrunbönkunum.  Menn geta reynt að mótmæla þessari fullyrðingu og sagt að restin hafi farið í gengistryggð lán.  En málið er að þetta voru tveir aðskildir flokkar lána og ekki fæ ég séð að bankarnir hafi skaðast nokkurn skapaðan hlut á því að gengistryggðu lánin hafi ekki gefið eins mikinn hagnað og stjórnendur bankanna höfðu vonast til.  Nógur er hagnaðurinn fyrir það.

3. Greiðsluaðlögun: Ég veit ekki af hverju menn voru að hafa fyrir því að nefna þetta atriði.  Við greiðsluaðlögun lagðist ógreiddi hluti (sá greiðsluaðlagaði) mánaðarlegrar afborgunar ofan á höfuðstólinn nánast eins og verðbætur.  Engu máli skiptir fyrir lántakann eða lánveitandann hvort þessi hluti er gerður upp sérstaklega eða verður hluti af frumláninu.  Eftirstöðvar lánsins og þar með upphæð frumlánsins verður sú sama.

Spurningar um útfærslu

Þegar hafa komið fram nokkrar spurningar um útfærsluna.  Flestum er svarað nokkuð vel í Spurt og svarað skjali vinnuhópsins.  Nokkrar eru þó eftir:

1. Hver er staða þeirra sem ekki fá séreignarsparnað eða hafa ekki efni á því að spara 2-4% aukalega af tekjum sínum? Sumir eru jafnvel í þeim sporum að borga enga skatta, þó þessi upphæð bættist við tekjur þeirra.

2. Hver er staða þeirra sem eru fluttir út landi og skulda ekkert á Íslandi, en lentu í forsendubrestinum?  - Væri möguleiki að þeir fengju leiðréttinguna greidda út.  (Á ekki von á því að þetta sé stór hópur.  Tek fram að ég fell ekki undir þetta, þó ég búi ekki á Íslandi sem stendur.)

3.  Hvað með þá sem tóku óverðtryggð húsnæðislán eða breyttu lánum sínum í óverðtryggð á árunum 2007-2010 úr einhverju öðru lánsformi?  Nú er lítið mál að láta þessa leiðréttingu koma á lán óháð lánsformi, en undanþiggja þó þau lán sem falla undir dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán.

4.  Ekki er ljóst hvort  sérstöku vaxtabæturnar dragast frá 13% leiðréttingunni í öllum tilfellum þegar hún er undir 4 m.kr. eða hvort 13% leiðréttingin plús sérstöku vaxtabæturnar mega ekki samanlagt fara yfir 4 m.kr. - Legg ég til að síðari leiðin verði farin.

Vafalaust eru brenna fleiri spurningar á lesendum og geta þeir bætt þeim við í athugasemdir hér fyrir neðan eða á facebook.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Tímarnir breytast og mennirnir með"

Kristinn J (IP-tala skráð) 4.12.2013 kl. 07:29

2 Smámynd: Jón Óskarsson

Það algjört rangnefni og rangfærsla í skýrslunni og jafnfram hjá þér Marino að verið sé að tala um sérstakar vaxtabætur.    Fyrirbærið heitir "sérstök vaxtaniðurgreiðsla" og var háð allt öðrum lögmálum en vaxtabætur (bæði almennar og sérstök hækkun þeirra).

Sjá http://www.rsk.is/einstaklingar/vaxtabaetur-og-barnabaetur/vaxtabaetur/#tab2 

Mér er það spurn hvort það sé ekki brot á skattlögum og rétti skattgreiðenda skv. skattalögum og öðrum lögum að verið sé að krefja skattgreiðendur um "endurgreiðslu" á útborguðum skattalegum greiðslum sem fengnar hafa verið skv. réttum skattframtölum og réttri álagningu skatta.

Með því að ætla að draga allt að 600.000 frá 4. milljón króna leiðréttingu lána er ekkert annað en krafa um endurupptöku álagningar og krafa um endurgreiðslu á þegar fengnum skattaafsláttum.

Verði svona látið viðgangast þá er ekkert lengur heilagt í þessu og fólk gæti lent í að endurgreiða barnabætur, persónuafslátt og annað sem hluta af einhverjum aðgerðum fyrir heimilin.

Fólki er líka gróflega mismunað því þeir sem voru með meira en 10-15 milljónir í hreina eign og fengu ekki sérstaka vaxtaniðurgreiðslu við álagningu 2011 og 2012 geta mögulega í dag átt rétt á að allt að 4. milljón króna leiðréttingu sinna lána og verða ekki skertir af þessum ástæðum.

Jón Óskarsson, 4.12.2013 kl. 10:12

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sammála þér, Jón, að ég held að menn hafi ekki hugsað málið til enda.

Marinó G. Njálsson, 4.12.2013 kl. 10:17

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sælir þið vitið það vel eins og ég að ef ekki verður tekið á ofvöxnu bankakerfi og það minnkað ásamt þvi að afnema verðtrygginuna þá verður þessi aðgerð eins og að míga í skó sinn! Verst er að allir tapa á því á endanum með þennslu og hærra fasteignaverði.

Sigurður Haraldsson, 5.12.2013 kl. 20:31

5 identicon

Þú spyrð: Hvenær voru verðbætur taldar vextir í bókum ríkisins?
Skattalega hafa verðbætur alltaf verið meðhöndlaðar sem vextir. Fjármálastofnanir meðhöndla einnig verðbætur sem vaxtatekjur í bókhaldi og þær rata inn í rekstrarreikning í því formi samkvæmt ritgerð Jacky Mallett um það málefni (ógreiddar verðbætur enda því í efnahagsreikning og þar með í sjóðum til útlána með öllum þeim margföldunaráhrifum sem því fylgir). Eins og þú Marinó mun ég ekki hljóta neinar bætur úr þessum aðgerðum og ég er hálf feginn að þurfa ekki að velta því fyrir mér. Ég er þó hræddur um að þetta sé of lítið of seint. Mikið af heimilum verði enn í vanda eftir þessa aðgerð og sértæku leiðirnar verða áfram jafn óskilvirkar og áður. Þetta er þó skref í rétta átt og með þróun og aðlögun verði þetta skapalón fyrir frekari aðgerðir.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 9.12.2013 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband