Leita í fréttum mbl.is

Hugsum til framtíðar - nýsköpun og vöruþróun

Áhugaverða umfjöllun um risagróðurhús er að finna á vefnum visir.is.  Hluti hennar var birtur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.  Tvennt í þessari frétt vakti áhuga minn.  Annars vegar hvað nýsköpun skiptir miklu máli og hins vegar hve mikla möguleika þjóðin á til að vinna sig út úr þeirri stöðu sem hún er í.

Fyrir rúmum fimm árum skrifaði ég færsluna Á hverju munu Íslendingar lifa?, þar sem ég einmitt velti því upp hvernig getum við unnið okkur út úr þeim ógöngum sem við vorum komin í sem þjóð.  Í færslunni skoða ég alls konar möguleika og tel upp mikinn fjölda fyrirtækja og starfsemi sem gæti hjálpað Íslandi að rísa úr öskustónni.  Núna 5 árum síðar, þá eru einhver þessara fyrirtækja horfin undir græna torfu meðan önnur hafa náð að vaxa og dafna. 

Á vef visir.is er önnur umfjöllun um einmitt eitt af þeim fyrirtækjum, sem finna má á listanum fyrir 5 árum.  Þá ég við fyrirtækið Marorku.  Þetta er fyrirtæki sem er nánast einstakt í sinni röð í heiminum.

Nýsköpun er grundvöllur til atvinnusköpunar.  Þó ekkert verði úr sumum nýsköpunarverkefnum, þá þarf ekki annað en að telja upp nöfn eins og Össur og Marel til að sjá hvað íslensk nýsköpun hefur náð langt.  Fram til þessa hefur vantað öfluga nýsköpunarsjóði.  Fjárfesta eiga nánast það mikið fé að þeim er annars vegar sama, þó þeir fái ekki arð af fjárfestingu sinni í 5, 10 eða 15 ár og hins vegar þola að ekkert komi út úr fjárfestingaverkefnum sínum.

Framundan eru mikilvægir tímar.  Efla þarf, eins og hægt er, verðmætasköpun í landinu.  Til þess höfum við hinar hefðbundnu leiðir, þ.e. fiskveiðar, landbúnað, stóriðju, ferðaþjónustu, orkuframleiðslu og almennan iðnað.  Spurningin er hvar vöxturinn mun eiga sér stað.  Fyrir 5 árum nefndi ég sérstaklega ferðaþjónustuna og er óhætt að segja að þar hafi ég haft rétt fyrir mér.  Hve mikill sá vöxtur getur orðið er annað mál og ekki síður hve mikinn við viljum hafa hann.  Núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á matvælaframleiðslu og er ég henni algjörlega sammála.  Orkuframleiðsla getur orðið nánast óþrjótandi á Íslandi, ef okkur tekst að virkja sjávarföllin.  Fjölmargir virkjunarkostir á landi fengu grænt ljós í rammaáætlun.

Gróðurhúsið, sem nefnt var í upphafi, er ein af mörgum hugmyndum um meiri matvælaframleiðslu á Íslandi.  Fyrst við getum ræktað banana í Hveragerði, þá getum við gert það alls staðar þar sem nægur jarðhiti er til staðar.  Ef hægt er að rækta banana, hvað þá með aðra ávexti.  Í Danmörku vaxa epli nánast út um allt, hvers vegna ekki að huga að því?  Kosturinn við Ísland er landrýmið.  Rétt landnotkun skiptir lykilhlutverki við matvælaframleiðslu.  Búið er að planta trjám á stórum svæðum út um allt land.  Þegar þessi tré verða að skógum og skógarnir þéttast, þá myndast nýtt tækifæri.  Það felst í því að búa til ræktarreiti inni í skógunum.  Þessir reitir geta ýmist verið undir berum himni eða svona gróðurhús, eins og fréttin var um.

Lykillinn er að efla innanlandsframleiðslu til að annað hvort koma í staðinn fyrir innflutning eða nota til gjaldeyrisöflunar með útflutningi.  (Höfum í huga að vara framleidd á Íslandi, sem kemur í staðinn fyrir innflutta vöru, er jafn mikilvæg og sú sem flutt er út gagnvart gjaldeyrisjöfnuði.)  Ferðaþjónusta er svo einn angi af þessu, en fjölbreytni hennar er eiginlega svo mikil, að hvorki er hægt að finna upphaf né endi.  

Framundan eru áhugaverðir tímar, þó þeir séu tímar óvissu.  Hér eru nokkur dæmi sem þegar eru í umræðunni (alveg óháð skoðun minni á ágæti þeirra): 

  • Olía: Mun olía finnast á Drekasvæðinu?  Verður hún í vinnanlegu magni?  Verður hún vinnanleg?  Viljum við vinna hana?
  • Eldsneytisframleiðsla:  Þegar er farið að setja íslenskt metan á bíla. Menn vilja vinna eldsneyti úr gufu jarðvarmavirkjana.  Repjuolía hefur verið framleidd og notuð á tæki.
  • Hugbúnaðariðnaðurinn:  Óteljandi hugbúnaðarfyrirtæki eru að selja afurðir sínar út um allan heim og svo er það náttúrulega CCP sem selur heilan sýndarveruleika út um allan heim.
  • Heilbrigðisgeirinn:  Þó staða Landspítalans sé ekki upp á það besta, þá verður það ekki sama sagt um nýsköpun í heilbrigðisgeiranum.  Þar er gríðarlegur vöxtur og það sem meira er, að orðspor Íslands er bara nokkuð gott, þökk sé Össuri.
  • Sjávarútvegur og fiskvinnsla:  Ef það er eitthvað sem við kunnum á, þá er það þessi geiri.  Allt leitartækjum og veiðarfærum til fullkomnustu vinnslulína og kælikerfa,sem komin eru í skip og fiskvinnslufyrirtæki um allan heim.
  • Orkuútflutningur:  Mikill kippur er kominn í umræðuna um útflutning á raforku um sæstreng.  Líkt og með olíuna eru spurningarnar margar, svo sem hvort þetta sé framkvæmanlegt, hagkvæmt, áhættunnar virði og vilji sé fyrir hendi.

Stóra málið er þó, að eigi þetta allt að verða að veruleika eða halda áfram að þróast, þá verður að vera aðgangur að ódýru fjármagni til tilrauna og þróunar.  Þetta fjármagn þarf að vera þolinmótt og leyfa hugvitsmönnunum að vinna sína vinnu.  Og það sem mestu skiptir, að menn verða að geta þolað það, að bera ekkert úr bítum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband